Atvinnuréttindi. Löggilding skjalaþýðenda. Endurupptaka. Framsal á valdi stjórnsýslunefndar til nefndarmanna. Hæfi. Aðgangur almennings að upplýsingum.

(Mál nr. 3906/2003)

A kvartaði yfir því að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði ekki talið tilefni til að skipa hæfa prófnefndarmenn til meta í sameiningu að nýju úrlausnir hans vegna umsóknar um löggildingu sem skjalaþýðandi úr og á ensku. Vísaði hann þar til athugasemda sem hann hafði gert við málsmeðferð og niðurstöðu prófnefndarmannanna sem farið höfðu yfir úrlausnirnar. Einnig kvartaði hann yfir málsmeðferð ráðuneytisins. Þá laut kvörtunin að úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri skylt að láta honum í té afrit af úrlausnum þeirra sem staðist höfðu prófið sem A tók.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi til A, dags. 16. júní 2004. Tók hann þar fram að vegna 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, væri sér ekki unnt að taka ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að synja A um löggildingu til umfjöllunar. Beindist athugun umboðsmanns einungis að því hvort A hefði lagt fyrir ráðuneytið nýjar upplýsingar eða lagarök sem ættu að leiða til þess að ráðuneytinu hefði borið að endurskoða fyrri afstöðu sína í málinu. Auk þess beindist athugun hans að niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Umboðsmaður tók fram að hann teldi ekki ástæðu til að leggja mat á réttmæti þeirra atriða sem prófnefndin taldi aðfinnsluverð við úrlausnir A og hvort athugasemdir hans ættu við rök að styðjast. Þá taldi hann ekki tilefni til athugasemda við málsmeðferð ráðuneytisins. Hann fjallaði hins vegar um þá meginröksemd A fyrir endurupptöku málsins að prófnefndarmenn hefðu ekki metið úrlausnir hans í sameiningu. Benti umboðsmaður á að ráðuneytið hefði endurupptekið málið og óskað eftir nýrri umsögn frá prófnefndinni eftir að A hafði bent á þennan annmarka á fyrri úrlausn prófnefndar. Taldi umboðsmaður að síðari afgreiðsla prófnefndar bæri með sér að prófnefndarmenn hefðu farið sameiginlega yfir málið á ný. Yrði því að líta svo á að hún hafi skilað greinargerð um úrlausnir A sem fullnægði áskilnaði 6. gr. reglugerðar nr. 893/2001 sem gilti um málsmeðferð prófnefndar.

Þá fjallaði umboðsmaður um athugasemdir A um hæfi nefndarmanna. Ekki lá að hans mati fyrir að framganga prófnefndarmanna við fyrri yfirferð á úrlausnum A hafi endurspeglað óvild þeirra í hans garð eða að þeir hafi komið fram í málinu á svo persónulegan hátt að draga mætti í efa óhlutdrægni þeirra. Þá taldi hann að ákvæði laga nr. 148/2000 eða reglugerðar nr. 893/2001 hafi ekki girt fyrir að sami maður sæti í prófstjórn og einstakri prófnefnd eins og verið hafði í máli A. Þá yrði ekki séð að hagsmunir, sem tveir prófnefndarmenn, en þeir störfuðu við skjalaþýðingar, kynnu að hafa af niðurstöðu um hvort próftakar uppfylltu skilyrði til að öðlast löggildingu til skjalaþýðinga úr og á ensku, væru svo sérstakir og verulegir að það leiddi til vanhæfis þeirra til að meta frammistöðu próftaka.

Varðandi niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál tók umboðsmaður fram að ekki væri tilefni til athugasemda við þá afstöðu að prófúrlausnir, sem hafa að geyma upplýsingar um frammistöðu próftaka á prófi, geti talist gögn um einkamálefni hans. Þá benti hann á að próf væru jafnan tekin við sérstakar aðstæður og að hið einstaklingsbundna framlag próftaka væri notað í þeim tilgangi að leggja mat á getu hans eða þekkingu á því sviði sem prófað væri úr. Prófúrlausnir nytu því að ýmsu leyti sérstöðu meðal gagna sem yrðu til við stjórnsýsluframkvæmd. Yrði almennt að ganga út frá því að fyrir próftaka væru slíkar úrlausnir viðkvæm gögn í þeirri merkingu sem á reynir við túlkun upplýsingalaga. Þá yrði ekki séð hvaða erindi prófúrlausnir ættu fyrir almenningssjónir. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til athugasemda við þá niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál að sanngjarnt og eðlilegt væri að slík gögn skyldu fara leynt, sbr. 1. málsl. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Lauk umboðsmaður umfjöllun sinni um kvörtun A með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í bréfi umboðsmanns til A sagði meðal annars eftirfarandi:

„II.

1.

Vegna kvörtunar yðar vil ég í fyrstu taka fram að í ljósi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þar sem mælt er fyrir um að bera skuli fram kvörtun innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur, er mér ekki unnt að taka þá ákvörðun, sem yður var tilkynnt með bréfi, dags. 22. apríl 2002, til athugunar.

Með bréfi til ráðuneytisins, dags. 22. júlí 2002, fóruð þér fram á að ofangreind ákvörðun yrði afturkölluð eða að mál yðar yrði tekið fyrir að nýju. Í því sambandi vísuðuð þér til 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og var beiðnin rökstudd með því að umsögn prófnefndar væri haldin þvílíkum efnisannmörkum að hún gæti ekki verið lögmætur grundvöllur ákvörðunar ráðuneytisins um hvort yður skyldi veitt löggilding í samræmi við umsókn yðar. Var í erindinu talið að ákvörðunin hefði byggst á ófullnægjandi og röngum upplýsingum og því væri ráðuneytinu skylt að skipa aðra prófnefnd til að meta og yfirfara prófúrlausnir yðar. Eftir að ráðuneytið hafði aflað sérstakrar greinargerðar prófnefndarmanna vegna málsins var yður tilkynnt með bréfi, dags. 30. september 2002, að ekki væri tilefni til að endurskoða fyrri ákvörðun ráðuneytisins þar sem ekki hafi verið í ljós leitt að til staðar væru einhverjir þeir ágallar í meðferð málsins sem gætu valdið ógildi hennar eða að hún yrði talin ógildanleg.

Skilyrði 6. gr. laga nr. 85/1997 er uppfyllt til að mér sé unnt að fjalla um undirbúning og úrlausn ráðuneytisins á ofangreindri beiðni yðar. Beinist athugun mín þá að því hvort lagðar hafa verið fyrir ráðuneytið nýjar upplýsingar eða lagarök sem eiga að leiða til þess að því beri að endurskoða fyrri afstöðu sína í málinu. Þá eru skilyrði enn fremur uppfyllt til þess að mér sé unnt að fjalla um úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 30. desember 2002.

2.

Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, sem þér byggðuð erindi yðar til ráðuneytisins meðal annars á, segir eftirfarandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin.“

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að heppilegt þyki að í stjórnsýslulögum sé kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt endurupptekið í þessum tveimur tilvikum. Þess var þó getið að aðili máls gæti vissulega einnig átt rétt til endurupptöku máls í fleiri tilvikum en þessum tveimur, ýmist á grundvelli lögfestra reglna eða óskráðra. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3304-3305.) Má gera ráð fyrir að slíkur réttur geti t.d. skapast þegar lagaforsendur breytast vegna réttarþróunar, sem málsaðili ber fyrir sig, eða vegna þess að aðili máls bendir á verulega annmarka á meðferð stjórnvaldsins á málinu.

Í erindi yðar til ráðuneytisins vísið þér enn fremur til 25. gr. stjórnsýslulaga. Þar eru fyrirmæli um heimild stjórnvalda til þess að taka að eigin frumkvæði aftur lögmæta ákvörðun sína sem þegar hefur verið birt. Orðalag ákvæðisins gefur ekki tilefni til að ætla að þessi heimild veiti aðila máls rétt til þess að stjórnvöld afturkalli ákvörðun sína.

3.

Þær ástæður sem þér tölduð í bréfi yðar til ráðuneytisins að ættu að leiða til þess að nýir prófnefndarmenn yrðu skipaðir til að fara yfir prófúrlausnir yðar byggjast öðrum þræði á því að mat hinna reglulegu prófnefndarmanna á úrlausnum yðar hafi verið rangt. Í ljósi athugasemda þeirra við úrlausn yðar dragið þér meðal annars í efa hæfni þeirra til að sinna störfum sem prófnefndarmenn.

Eins fram kemur í bréfi mínu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 29. október 2003, ákvað ég á því stigi málsins að taka ekki til athugunar ýmis atriði sem vísað er til í kvörtun yðar og lutu að ágreiningi um efnislegt mat og afstöðu prófnefndarinnar til einstakra orða og atriða í úrlausn yðar.

Ljóst er að í prófnefndinni áttu sæti einstaklingar sem ætla verður að séu, vegna menntunar sinnar og reynslu, sérfróðir á þeim sviðum sem á reynir þegar mat er lagt á hvort þýðing á texta úr ensku yfir á íslensku og öfugt sé fullnægjandi. Tel ég ekki ástæðu til að draga í efa að við mat þeirra á úrlausn yðar hafi mælikvarði um viðeigandi túlkun frumtextans, málnotkun og stíl verið lagður til grundvallar. Mat á úrlausn próftaka með hliðsjón af ofangreindum forsendum kallar á umfangsmikla sérfræðiþekkingu. Meðal annars af þeirri ástæðu tel ég ekki rétt að umboðsmaður Alþingis leggi sérstakt mat á réttmæti þeirra atriða sem prófnefndin taldi aðfinnsluverð við úrlausnir yðar og hvort athugasemdir yðar við þau atriði eigi við rök að styðjast.

4.

Ein meginröksemd yðar fyrir því að ráðuneytinu beri að skipa nýja prófnefnd til að fara yfir prófúrlausnir yðar lýtur að því að hún hafi ekki hagað störfum sínum í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 893/2001, um próf og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur, svo og almennar reglur um starfshætti stjórnsýslunefnda.

Í 3. gr. laga nr. 148/2000 segir að til að meta úrlausnir í einstökum tungumálum skipi ráðherra þriggja manna prófnefnd fyrir hvert tungumál en skipun slíkrar prófnefndar gildir fyrir hvert próf sem haldið er. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að dómsmálaráðherra setji, að fengnum tillögum prófstjórnar, reglugerð þar sem kveðið skuli nánar á um framkvæmd prófs og mat prófúrlausna. Hefur reglugerð nr. 893/2001 verið sett með stoð í þessu ákvæði. Í 1. og 6. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar segir orðrétt:

„Prófdómendur skulu í sameiningu meta úrlausnir.

[...]

Að mati loknu skal prófnefnd senda prófstjórn greinargerð um úrlausnir hvers próftaka, undirritaða af öllum prófnefndarmönnum, þar sem fram kemur mat á því hvort hún telji próftaka hafa kunnáttu og leikni til að öðlast löggildingu sem dómtúlkur og/eða skjalaþýðandi, bæði úr íslensku á hið erlenda mál og úr hinu erlenda máli á íslensku eða aðeins af hinu erlenda máli á íslensku eða öfugt. Mat prófnefndar er endanlegt.“

Þér teljið gögn málsins bera með sér að prófnefndarmenn hafi ekki metið úrlausn yðar í sameiningu eins og áskilið er í ofangreindu ákvæði og gera verði almennt kröfu um þegar stjórnsýslunefnd á í hlut. Þá vísið þér til þess að greinargerð um úrlausn yðar hafi ekki verið undirrituð af öllum prófnefndarmönnum eins og skylt var. Í skýringum ráðuneytisins um þetta atriði segir að það geri ekki athugasemd við verklagið eins og það birtist í störfum nefndarinnar „þ.e. að einn prófnefndarmaður eða tveir fari sérstaklega yfir og frumvinni tiltekna þætti eða hluta prófverkefnanna“. Er þar vísað til þess að með ritun þeirra allra undir greinargerð gangist þeir við fullri ábyrgð, hver um sig, á mati prófnefndar á frammistöðu einstakra próftaka.

Miðað við orðalag ákvæðis 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 893/2001 verður ekki annað séð en að gert sé ráð fyrir að efnislegt mat prófdómenda á úrlausnum próftaka skuli fara fram á fundi prófnefndar enda stjórnsýslunefndir ekki starfhæfar nema á fundum. Prófnefndir samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 148/2000 eru skipaðar til að annast tiltekið verkefni sem er að meta úrlausnir próftaka í einstökum tungumálum. Með hliðsjón af almennum reglum stjórnsýsluréttar um framsal á valdi stjórnsýslunefnda (sbr. til hliðsjónar Björn Þ. Guðmundsson: Hugleiðingar um framsal ákvörðunarvalds stjórnsýslunefnda. Afmælisrit. Gaukur Jörundsson sextugur 24. september 1994. Reykjavík 1994, bls. 121-150) svo og ofangreindu reglugerðarákvæði virðist prófnefnd vera óheimilt að fela einstökum prófdómurum að annast endanlegt mat á ákveðnum hlutum prófúrlausna. Það kemur þó að mínu áliti ekki í veg fyrir að prófdómendur skipti með sér verkum þannig að einn eða fleiri prófdómarar fari sérstaklega yfir ákveðna hluta af úrlausnum próftaka til undirbúnings að umsögn prófnefndar um frammistöðu hans. Í samræmi við 6. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar ber síðan öllum prófnefndarmönnum að undirrita greinargerð þar sem fjallað er um úrlausnir hvers próftaka sem send er prófstjórn.

Gögn málsins bera með sér að prófdómendur hafi að nokkru leyti skipt með sér verkum við yfirferð á prófúrlausnum yðar. Í bréfi prófnefndar, dags. 15. apríl 2002, segir að B og C hafi annast mat á þýðingum á íslensku úr ensku og að mat á þýðingum á ensku úr íslensku hafi verið í höndum C og D. Bréfið var undirritað af öllum prófnefndarmönnum en þar var einungis vikið að niðurstöðu nefndarinnar um það hverjum hún mælti með að yrði veitt löggilding. Með bréfinu fylgdu þó óundirritaðar greinargerðir um frammistöðu hvers próftaka.

Orðalag bréfs prófnefndar og gögn málsins má skilja á þann veg að úrlausnir próftaka ásamt rökstuddri greinargerð þeirra prófnefndarmanna sem fóru sérstaklega yfir einstaka hluta úrlausnanna hafi ekki verið lagðar fyrir prófnefndina í heild. Samrýmist það ekki 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 893/2001 og almennum reglum um ákvörðunarvald sem löggjafinn hefur falið stjórnsýslunefnd sérstaklega að fara með. Þá fæ ég ekki betur séð en að það hafi farið í bága við 6. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar að greinargerð um úrlausn hvers próftaka var ekki undirrituð af öllum prófnefndarmönnum. Breytir í því sambandi ekki þó að allir prófnefndarmenn hafi undirritað bréf til prófstjórnar þar sem gerð var almenn grein fyrir því hverjum prófnefndin taldi rétt að veita löggildingu.

Þér bentuð á ofangreindan annmarka á afgreiðslu prófnefndar í bréfi til ráðuneytisins, dags. 22. júlí 2002, til stuðnings kröfu yðar að skipuð yrði ný prófnefnd sem færi að nýju yfir úrlausnir yðar. Ráðuneytið brást við með því að fara þess á leit við prófnefndina að hún sendi ráðuneytinu greinargerð, sem væri undirrituð af öllum prófnefndarmönnum, þar sem nánari skýringar væru gefnar á þeim átta athugasemdum sem gerðar höfðu verið við úrlausnir yðar. Svarbréf prófnefndar er dagsett 19. september 2002. Þar segir orðrétt:

„Þótt í bréfi yðar sé einungis farið fram á skýringar á fyrrgreindum átta athugasemdum vakti erindi [A] þá spurningu hjá nefndarmönnum hvort hugsanlega hefðu orðið einhver mistök og hvort úrlausnir próftaka gæfu e.t.v. tilefni til þess að dómnefndin mælti með löggildingu hans sem skjalaþýðanda úr eða á ensku. Afdráttarlaus niðurstaða hvers nefndarmanns um sig reyndist vera að svo væri ekki. Það er því einróma álit nefndarinnar að hvað sem líður þeim átta athugasemdum sem beðið er um skýringar á sé ekki tilefni til að endurskoða fyrri niðurstöður.“

Með bréfinu fylgdu nánari útskýringar B og C á athugasemdum við þýðingu yðar úr ensku á íslensku svo og skýringar D á athugasemdum sem gerðar voru við þýðingu yðar úr íslensku á ensku. Í niðurlagi bréfs prófnefndar, sem allir nefndarmenn undirrita, segir síðan orðrétt:

„Samkvæmt beiðni yðar er bréf þetta undirritað af öllum nefndarmönnum sem lýsa sig þar með samþykka efni þess og meðfylgjandi greinargerða eftir því sem við á.“

Þrátt fyrir niðurlag þessarar tilvitnunar tel ég að þessi síðari afgreiðsla prófnefndar beri með sér að hún hafi farið sameiginlega yfir málið á ný. Þá verður að líta svo á að hún hafi með þessu skilað greinargerð um úrlausnir yðar sem var undirrituð af öllum nefndarmönnum. Virðist því ekki stætt á öðru en að álíta að áskilnaði 6. gr. reglugerðar nr. 893/2001 hafi eftir það verið fullnægt í máli yðar. Tel ég að ekki séu forsendur til að álíta að hinn upphaflegi annmarki á málsmeðferð prófnefndar hafi einn og sér átt að leiða til þess að ráðuneytinu hafi verið skylt að taka málið til frekari efnislegrar umfjöllunar.

5.

Líta verður á bréf ráðuneytisins frá 22. apríl 2002 sem afgreiðslu ráðuneytisins á umsókn yðar um löggildingu þó að ekki hafi verið skýrt kveðið á um það í bréfinu að málinu væri lokið. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 23. ágúst sama ár, og þeirri athugun sem fram fór á vegum prófnefndar í kjölfarið, virðist málið hafa verið endurupptekið. Þó að stjórnvald endurupptaki mál, sem þegar hefur verið til lykta leitt, eða afturkalli ákvörðun, leiðir það almennt ekki út af fyrir sig til þess að sá sem tók þátt í meðferð eða úrlausn þess sé óheimilt fjalla um málið að nýju, sjá til hliðsjónar Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin, skýringarrit. Reykjavík 1994, bls. 75. Ræðst það af reglum stjórnsýsluréttar um hæfi viðkomandi til að taka þátt í meðferð málsins, eða eftir atvikum hæfi hans almennt til að gegna starfinu, hvort skylt sé að fela öðrum að annast meðferð og úrlausn þess.

Ekki liggur fyrir að framganga prófnefndarmanna við fyrri yfirferð á úrlausnum yðar endurspegli óvild þeirra í yðar garð eða að þeir hafi komið fram í málinu á svo persónulegan hátt að draga megi í efa óhlutdrægni þeirra, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hefur ekki verið talið að þótt ástæða endurupptöku sé sú að mistök hafi verið gerð við afgreiðslu málsins leiði það til vanhæfis hlutaðeigandi starfsmanns þegar málið er tekið fyrir að nýju. Af sömu ástæðu verður ekki talið að ráðherra hafi borið að víkja sæti í ljósi fyrri afstöðu ráðuneytisins til umsóknar yðar eins og þér haldið fram.

Í erindi yðar til ráðuneytisins og í kvörtuninni til mín bentuð þér á að einn prófnefndarmaður, C, eigi einnig sæti í prófstjórn sem er ætlað að hafa eftirlit með störfum prófnefnda. Teljið þér að þessi tvö störf geti ekki farið saman enda sé honum þar með ætlað að hafa eftirlit með sjálfum sér.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 148/2000 er prófstjórninni ætlað að annast framkvæmd prófs en prófnefndum er falið að meta einstakar úrlausnir próftaka. Skipar ráðherra einstaklinga til setu í prófnefndum. Ekki verður af ákvæðum laganna eða reglugerðar nr. 893/2001 séð að prófstjórnin skuli hafa eftirlits- eða umsjónarvald með prófnefndum. Virðist gert ráð fyrir að prófnefndir skuli vera sjálfstæðar í störfum sínum enda gert ráð fyrir að mat prófnefndar á prófúrlausnum skuli vera endanlegt, sbr. 6. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Með hliðsjón af þessum atriðum tel ég að ákvæði laga nr. 148/2000 eða reglugerð nr. 893/2001 girði ekki fyrir að sami maður sitji í prófstjórn og einstakri prófnefnd.

Þá bendið þér á að tveir prófnefndarmenn hafi fjárhagslega hagsmuni af því að fáir próftakar öðlist löggildingu skjalaþýðenda þar sem þeir starfi sem löggiltir skjalaþýðendur. Því hafi þeir verið vanhæfir til setu í prófnefnd.

Gengið hefur verið út frá því í stjórnsýslurétti að starfsmaður kunni, með vísan til 5. eða 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að teljast vanhæfur til að taka þátt í meðferð og úrlausn máls vegna þess að niðurstaða þess hefur áhrif á samkeppnishagsmuni hans eða fyrirtækis sem hann er í fyrirsvari fyrir eða starfar hjá. Má í því sambandi meðal annars vísa til álits umboðsmanns Alþingis frá 12. desember 1995 í máli nr. 999/1994. Verður að telja að starfsmaður verði þó einungis vanhæfur á þessum grundvelli ef fyrirsjáanlegt er að hann eða umrætt fyrirtæki hafi svo sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu í málinu, s.s. ágóða, taps eða óhagræðis, að almennt verði að telja aðstæður fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

Þeir hagsmunir sem þér vísið til ná almennt til allra sem hafa atvinnu af þýðingum úr íslensku yfir á ensku og öfugt enda kalli þær á að viðkomandi hafi löggildingu til þeirra starfa. Ekki liggja fyrir glöggar upplýsingar um fjölda þeirra sem starfa á þessum markaði. Vísbendingar eru þó um að nokkur fjöldi bæði einstaklinga og fyrirtækja veiti þjónustu á þessu sviði. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar fæ ég því ekki séð að þeir hagsmunir, sem prófnefndarmenn kunna af hafa af niðurstöðu um það hvort próftakar uppfylli skilyrði til að öðlast löggildingu til skjalaþýðinga úr og á ensku, séu svo sérstakir og verulegir að það leiði til vanhæfis prófnefndarmanna til að meta frammistöðu próftaka.

Er það afstaða mín að dómsmálaráðuneytinu hafi ekki borið að skipa nýja prófnefnd til að fara að nýju yfir prófúrlausnir yðar með vísan til þeirra athugasemda sem þér gerðuð við hæfi nefndarmanna.

[...]

7.

Í kvörtun yðar teljið þér að synjun úrskurðarnefndar um upplýsingamál á því að veita yður aðgang að prófúrlausnum í heimaverkefnum sex próftaka eigi sér ekki stoð í 5. gr. upplýsingalaga.

Í úrskurðinum segir nánar tiltekið um þetta atriði:

„Í lögum er ekki að finna almenn ákvæði sem tryggja eða takmarka aðgang að prófúrlausnum. Í 3. mgr. 45. gr. laga nr. 66/1995 segir hins vegar að nemandi og forráðamaður hans hafi rétt til að skoða metnar prófúrlausnir nemanda. Með hliðsjón af 2. mgr. þeirrar greinar, þar sem mælt er fyrir um þagnarskyldu, er eðlilegt að gagnálykta frá ákvæðinu á þann veg að aðrir en nemandi sjálfur eða forráðamaður hans eigi ekki aðgang að prófúrlausnum hans.

Við mat á því, hvort 5. gr. upplýsingalaga takmarki aðgang kæranda að hinum umbeðnu prófúrlausnum, telur úrskurðarnefnd rétt að líta til þeirrar meginreglu sem mörkuð hefur verið í lögum um grunnskóla og gerð er grein fyrir hér að framan. Þótt úrlausnirnar hafi ekki að geyma upplýsingar um persónuleg málefni próftaka verður ekki framhjá þeirri staðreynd litið að um er að ræða persónulegt framlag af hans hálfu. Með vísun til þess, sem að framan segir, er það álit úrskurðarnefndar að próftakarnir hafi mátt ganga út frá því sem meginreglu að prófúrlausnir þeirra komi ekki fyrir almennings sjónir. Öðru máli gegnir um sjálfstætt mat prófnefndar á úrlausnunum.“

Í kvörtuninni bendið þér á að samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga eru einungis gögn sem varða einka- eða fjárhagsmálefni undanþegin aðgangi. Teljið þér að réttar prófúrlausnir geti ekki fallið þar undir enda séu þar engar persónulegar og viðkvæmar upplýsingar að finna. Þá eigi vísun nefndarinnar til grunnskólalaga ekki við.

Í skýringum úrskurðarnefndar til mín kemur fram að hún leggi til grundvallar að ekki beri að skýra ákvæði 5. gr. upplýsingalaga „svo þröngt að það taki aðeins til gagna, sem hafa að geyma upplýsingar um persónuleg málefni einstaklings, heldur geti gögn, sem eru afrakstur persónulegs framlags af hans hálfu, einnig fallið undir ákvæðið“. Þetta telur nefndin m.a. eiga við um prófúrlausnir sem geymi upplýsingar um frammistöðu próftaka á prófi.

Í 1. málsl. 5. gr. upplýsingalaga segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að upplýsingalögum má ráða að með ákvæðinu hafi verið haft að leiðarljósi að meginreglan um upplýsingarétt tæki til upplýsinga sem snerta einkahagsmuni einstaklinga en með þeim takmörkunum sem gera verður til að tryggja friðhelgi einkalífs. Ekki er þar hins vegar skýrt nánar hvaða gögn geta talist gögn um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3021.)

Ég tel vafasamt að einskorða ákvæðið alveg við gögn sem að efni til fjalla um persónuleg- eða fjárhagsleg málefni tiltekinna einstaklinga. Þannig verður að ætla að ýmis gögn, sem hafa að geyma framlag eða úrlausn einstaklings, geti fallið þar undir sé slíkra gagna aflað í því skyni að meta hæfni, getu eða persónulega eiginleika viðkomandi. Má því fallast á þá afstöðu úrskurðarnefndar að prófúrlausnir, sem hafa að geyma upplýsingar um frammistöðu próftaka á prófi, geti talist gögn um einkamálefni hans.

Eins og ráða má af skýringum úrskurðarnefndar er niðurlag 1. málsl. 5. gr. upplýsingalaga vandskýrð vísiregla. Leggur hún þá skyldu á viðkomandi stjórnvald að leggja mat á hvort sanngjarnt sé og eðlilegt að gögn um einka- og fjárhagsmálefni einstaklings skuli fara leynt. Verður við það mat að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu, samkvæmt almennum sjónarmiðum, svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna, sbr. Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3021. Telur úrskurðarnefndin að ákvæði 3. mgr. 45. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 sé til marks um þá almennu meginreglu að prófúrlausnir eigi almennt ekki erindi fyrir sjónir almennings.

Þegar litið er til þess að próf eru jafnan tekin við sérstakar aðstæður og hið einstaklingsbundna framlag próftaka notað í þeim tilgangi að leggja mat á getu eða þekkingu hans á því sviði sem prófað er úr er ljóst að prófúrlausnir einstaklinga njóta að ýmsu leyti sérstöðu meðal gagna sem verða til við stjórnsýsluframkvæmd. Almennt verður að ætla að fyrir próftaka séu slíkar úrlausnir viðkvæm gögn í þeirri merkingu sem á reynir við túlkun upplýsingalaga. Þá verður ekki séð hvaða erindi prófúrlausnir eigi fyrir almenningssjónir en rétt er að hafa í huga að ef upplýsingalög yrðu skýrð svo að aðgangur almennings tæki til slíkra gagna yrði birting þeirra í heild eða hluta, t.d. í fjölmiðlum, möguleg. Ég tel því ekki ástæðu til athugasemda við þá niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 30. desember 2002 að sanngjarnt og eðlilegt sé að slík gögn skuli fara leynt.

Til samanburðar má geta þess að hliðstæð takmörkun á aðgangsrétti almennings að prófúrlausnum gildir bæði í Noregi og Danmörku. Í norsku upplýsingalögunum er kveðið sérstaklega á um það að svör á prófum séu undanþegin almennum upplýsingarétti. Byggir sú takmörkun á því meginsjónarmiði að afhending gagna af þessu tagi geti verið meiðandi fyrir próftaka. (Sjá Arvid Frihagen: Offentlighetsloven. Offentlighet, taushetsplikt og partsinnsyn: Kommentarer til offentlighetsloven og de tilknyttede bestemmelser i forvaltningsloven. 2.b., 3. útg. Bergen 1994, bls. 173.) Þá hefur í Danmörku verið gengið út frá því að utanaðkomandi geti almennt ekki fengið að kynna sér svör á prófum á grundvelli ákvæðis í dönsku upplýsingalögunum sem heimilar stjórnvöldum að takmarka upplýsingarétt almennings vegna einkahagsmuna eða opinberra hagsmuna ef sérstakar aðstæður krefjast þess. (Sjá John Vogter: Offentlighedsloven med kommentarer. 3. útg. Kaupmannahöfn 1998, bls. 251-252.)“