Kvartað var yfir því að kærunefnd útlendingamála hefði ekki afgreitt stjórnsýslukæru frá því í júní 2023 vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar um að synja umsókn um alþjóðlega vernd.
Í svari nefndarinnar kom fram að málið væri enn til meðferðar og hefði tafist vegna fjölda kærumála og forgangsröðunar í samræmi við breytingar sem gerðar hefðu verið á reglugerð. Þar sem málið var í farvegi og tafirnar almennar en ekki bundnar við það eitt var ekki ástæða til að umboðsmaður aðhefðist frekar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 29. nóvember 2024.
Vísað er til kvörtunar þinnar 12. nóvember sl. yfir því að kærunefnd útlendingamála hafi enn ekki afgreitt stjórnsýslukæru þína frá því í júní 2023 vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar um að synja umsókn þinni um alþjóðlega vernd í maí það ár.
Í tilefni af kvörtuninni var kærunefnd útlendingamála ritað bréf 15. nóvember sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort nefndin hefði stjórnsýslukæru þína til meðferðar og þá hvað liði afgreiðslu og meðferð hennar. Í svari kærunefndarinnar 26. nóvember sl. kemur fram að mál þitt sé enn til meðferðar hjá nefndinni. Ástæður tafanna séu annars vegar mikil fjölgun kærumála hjá nefndinni á síðast liðnu ári. Hins vegar séu þær vegna breytinga sem gerðar voru á 43. gr. reglugerðar nr. 540/2017, um útlendinga, sbr. reglugerð nr. 740/2024, en þar er nú mælt fyrir um skyldu stjórnvalda til að forgangsraða meðferð mála með tilliti til lögbundinna tímafresta, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga. Þá segir jafnframt að þér hafi verið sendur tölvupóstur 26. nóvember sl. þar sem tilkynnt var um tafir á meðferð kæru þinnar. Stefnt sé að því að ljúka málinu á fyrri hluta næsta árs.
Ljóst er að mál þitt hefur dregist nokkuð hjá kærunefndinni. Af svörum kærunefndarinnar verður þó ekki annað ráðið en að það sé í farvegi hjá nefndinni. Í ljósi þess sem fram er komið um fyrirhugaða framvindu málsins og þeirra skýringa sem ég hef fengið fyrir þeirri stöðu sem uppi er hvað varðar málshraða hjá nefndinni tel ég ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna kvörtunar þinnar að svo stöddu en ekki liggur annað fyrir en að tafirnar séu almennar og ekki bundnar við mál þitt sérstaklega. Hef ég því ákveðið að ljúka meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.