Fullnusta refsinga. Fangelsismál. Ákvörðun um vistunarstað. Svör við erindum. Lyktir stjórnsýslumáls. Ábending.

(Mál nr. 12930/2024)

Kvartað var yfir því að Fangelsismálastofnun hefði ekki svarað umsókn um flutning í opið fangelsi.  

Í pósti frá Fangelsismálastofnun kom fram að umsókn hefði ekki formlega verið synjað og að samkvæmt verklagi væri umsóknum um vistun í opnu fangelsi haldið opnum uns unnt væri að verða við þeim. Umboðsmaður taldi þetta fela í sér að umsókninni hefði í reynd verið synjað enda hefði komið fram að ekki yrði orðið við henni á næstunni þar sem það teldist ekki tímabært að svo stöddu. Benti hann á að kæra mætti ákvörðun Fangelsismálastofnunar til dómsmálaráðuneytisins. Jafnframt var Fangelsismálastofnun send ábending um að það væri í betra samræmi við reglur um upphaf og lok stjórnsýslumáls að stofnunin lyki afgreiðslu mála en léti þau ekki standa opin.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 29. nóvember 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar þinnar 22. september sl. yfir því að Fangelsismálastofnun hafi ekki svarað umsókn þinni um flutning í opið fangelsi á Sogni. Eftir að umboðsmanni barst kvörtun þín barst afrit af tölvupósti Fangelsismálastofnunar 9. október sl. til þín þar sem m.a. kom fram að umsókn þinni hafi ekki formlega verið synjað og að samkvæmt verklagi Fangelsismálstofnunar væri umsóknum um vistun í opnu fangelsi haldið opnum þar til unnt væri að verða við þeim.

Í tilefni af kvörtuninni var Fangelsismálastofnun ritað bréf 15. október sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort umsókn þín hefði borist og eftir atvikum hvað liði meðferð og afgreiðslu hennar. Þá var einnig óskað eftir upplýsingum um á hvaða lagagrundvelli sú framkvæmd væri reist að halda umsóknum fanga opnum í stað þess að ljúka afgreiðslu þeirra.

Í svari Fangelsismálastofnunar 28. október sl. kemur m.a. fram að umsókn þín um afplánun í Fangelsinu Sogni hafi borist 18. desember 2023. Umsóknin hafi sama dag verið móttekin af hálfu stofnunarinnar og athygli þín vakin á þeim atriðum sem gætu haft áhrif á afgreiðslu umsóknarinnar. Í svörum stofnunarinnar til mín er tekið fram að umsókn þinni hafi ekki formlega verið synjað en það væri ekki talið tímabært skref í afplánun þinni að flytjast í opið fangelsi. Það væri mat stofnunarinnar að þú teldist hæf til að afplána í opnu fangelsi en þar sem þú hefðir fengið langan dóm væri það ekki talið tímabært. Því væri umsókn þinni haldið opinni þar til unnt verði að verða við henni og því hafir þú ekki fengið svar við henni. 

Ég tel að svör Fangelsismálastofnunar til mín verði ekki skilin á aðra leið en stofnunin hafi í reynd synjað umsókn þinni um flutning í opið fangelsi enda kemur þar fram að ekki verði orðið við henni á næstunni þar sem það teljist ekki tímabært að svo stöddu. Af því tilefni tek ég fram að samkvæmt 95. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, eru ákvarðanir sam­kvæmt lögunum kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins nema annað sé tekið fram. Gildir það jafnframt um ákvarðanir Fangelsismálastofnunar um hvar afplánun skuli fara fram, sbr. 1. mgr. 21. gr. laganna, m.a. í tilefni af umsóknum um flutning milli fangelsa.

Ástæða þess að ég geri þér grein fyrir þessu er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fyrst fá tækifæri til þess að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Þar sem ég fæ ekki séð að þú hafir leitað til dómsmálaráðu­neytisins vegna afgreiðslu Fangelsismálastofnunar eru ekki uppfyllt skilyrði til þess að ég geti fjallað um kvörtunina að svo stöddu. Farir þú þá leið að leita til ráðuneytisins með stjórnsýslukæru, getur þú leitað til mín á nýjan leik að fengnum úrskurði þess.

Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að athugun mín á málinu hefur orðið mér tilefni til að koma tilteknum ábendingum á framfæri við Fangelsismálastofnun, sbr. hjálagt bréf. Hinn 26. september sl. var undirrituð kjörin umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 31. október sl. Hef ég því farið með mál þetta frá þeim tíma.

   


  

Bréf umboðsmanns til Fangelsismálastofnunar 29. nóvember 2024.

  

Vísað er til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar A, er laut að afgreiðslu Fangelsismálstofnunar á umsókn hennar frá 18. desember 2023 um flutning í opið fangelsi. Eins og fram kemur í bréfi mínu til A, sem fylgir hjálagt í ljósriti, hef ég ákveðið að ljúka athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á þessu máli orðið mér tilefni til að koma eftirfarandi ábendingum um verklag Fangelsismálastofnunar á framfæri og þá með það í huga að umrædd atriði verði framvegis höfð í huga við meðferð hliðstæðra mála hjá stofnuninni.

Í svörum Fangelsismálastofnunar 28. október sl. kemur m.a. fram að þrátt fyrir að fangar geti sótt um flutning í opið fangelsi þá sé slíkt háð mati stofnunarinnar hverju sinni sem sé óháð því hvort lögð hafi verið fram umsókn. Umsóknum sé almennt haldið opnum vegna þess að málin séu raunverulega opin meðan á afplánun stendur. Almennt sé umsóknum ekki svarað skriflega að öðru leyti en því að staðfesta móttöku nema þegar fyrirséð sé að þeir séu ekki hæfir til að vistast í opnu fangelsi. Þá synjun geti þeir kært til æðra stjórnvalds. Í öðrum tilvikum sé fremur um skipulagsmál að ræða, þ.e. plássleysi í opnum fangelsum, fremur en að það hafi með hæfi umsækjenda að gera eða sé vegna annarra ástæðna sem rekja megi til þeirra. Þessi framkvæmd sé því ekki byggð á sérstökum lagagrundvelli en að mati stofnunarinnar sé betra fyrir fanga sem hæfir eru til vistunar í opnu fangelsi að vita að umsókn sé til meðferðar heldur en að fá synjun um vistun.

Af framangreindu tilefni tek ég fram að almennt er út frá því gengið að þegar stjórnvaldi berst umsókn sem á annað borð fullnægir lagaskilyrðum hvíli sú skylda á því að taka hana til meðferðar og afgreiða hana svo fljótt sem unnt er á grundvelli þeirra laga og stjórn­valds­fyrirmæla sem í gildi eru og þeirra málsatvika sem liggja til grundvallar í málinu, eftir atvikum að lokinni viðhlítandi rannsókn, sbr.  1. mgr. 9. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar mál hefst með þessum hætti virkjast einnig reglur V. kafla stjórnsýslulaga um lok stjórnsýslumáls, s.s. um birtingu ákvörðunar og rökstuðning auk þess sem réttur til að kæra ákvörðun til æðra stjórnvalds verður ekki virkur fyrr en fyrir liggur endanleg ákvörðun stjórnvaldsins.

Svo sem áður er rakið hefur stofnunin greint frá því að umsóknum um flutning í opið úrræði sé haldið opnum en ekki svarað sérstaklega jafnvel þótt fyrir liggi að stofnunin telji ekki „tímabært“ að verða við umsókn svo sem háttar til um umsókn A. Ég fæ þannig ekki annað ráðið en að til grundvallar slíkri afstöðu liggi tiltekið mat, m.a. á aðstæðum og högum fangans, um að hann komi ekki að svo stöddu til greina, sem hann kann eftir atvikum að vilja leita endurskoðunar á með stjórnsýslukæru. Ég tel því að það sé í betra samræmi við framangreindar reglur um upphaf og lok stjórnsýslumáls að Fangelsismálastofnun ljúki afgreiðslu mála sem hefjast með umsókn fanga, m.a. þegar fyrir liggur að ekki geti komið til flutnings að svo stöddu, svo sem virðist hátta til um í tilviki A. Ég bendi einnig á að ég fæ ekki séð að slíkt verklag kæmi í veg fyrir að stofnunin héldi áfram þeirri framkvæmd að halda til haga umsóknum fanga sem áður hafa sótt um en fengið formlega synjun. Í því sambandi tel ég rétt að undirstrika að ég geri engar athugasemdir við þá framkvæmd stofnunarinnar að líta svo á að flutningur í opið fangelsi sé ekki háður umsókn, heldur komi allir fangar til greina. Ég tel hins vegar að það haggi ekki framangreindri skyldu stofnunarinnar til að ljúka máli sem hefst með umsókn fanga með formlegum hætti í samræmi við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins.

Ég bendi Fangelsismálastofnun á að huga framvegis betur að framangreindum atriðum við meðferð þessara mála.  Hinn 26. september sl. var undirrituð kjörin umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 31. október sl. Hef ég því farið með mál þetta frá þeim tíma.