Námslán og námsstyrkir. Innheimta námsláns. Sjálfskuldarábyrgð. Starfssvið umboðsmanns.

(Mál nr. 1052/1994)

Máli lokið með bréfi, dags. 18. júlí 1994.

A kvartaði yfir innheimtuháttum Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hélt því fram að honum hefði ekki verið tilkynnt um vanskil láns, er hann bar sjálfskuldarábyrgð á, fyrr en fimm árum eftir vanskil. Í bréfi til A benti umboðsmaður á að dómur hefði gengið um þessa kröfu lánasjóðsins á hendur honum, með áritun áskorunarstefnu í desember 1991. Gerði umboðsmaður A grein fyrir því að það félli utan starfssviðs hans að taka afstöðu til dómsathafna og væru því ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtun A. Umboðsmaður tók það fram, í bréfi sínu til A, að það væri eitt af þeim atriðum, sem metin væru við úrlausn dómsmáls, hvort skuld væri fallin niður fyrir fyrningu, og tækju dómstólar slík atriði til athugunar af sjálfsdáðum ef skuldari héldi ekki uppi vörnum, svo sem háttaði til í tilviki A.

I.

A kvartaði yfir óeðlilegum aðferðum Lánasjóðs íslenskra námsmanna við innheimtu láns, sem hann bar sjálfskuldarábyrgð á. Kvartaði hann yfir því, að hafa ekki verið látinn vita, að skuldin var í vanskilum, fyrr en fimm árum eftir að hún fór í vanskil, og hafi skuldareigandi þá fyrst gert kröfu á hendur honum.

Ég ritaði stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna bréf 28. mars sl. og fékk til athugunar gögn málsins og greinargerð lögmanns, dags. 14. apríl 1994.

II.

Í bréfi mínu til A, dags. 18. júlí, rakti ég eftirfarandi, um þau álitaefni, sem hann óskaði eftir áliti mínu á:

"Samkvæmt gögnum málsins er skuld yðar samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu vegna endurnýjunar námslána aðalskuldarans, [X], og er yfirlýsing um sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins undirrituð af yður, ásamt öðrum sjálfskuldarábyrgðaraðila, í Reykjavík 18. maí 1985. Hinn 10. desember 1991 var þingfest á bæjarþingi Reykjavíkur áskorunarstefna á hendur aðalskuldara og yður, og var áskorunarstefnan árituð um aðfararhæfi á hendur yður hinn 16. desember 1991. Í áskorunarstefnu er tekið fram, að krafa lánasjóðsins vegna þess hluta ábyrgðarskuldar yðar, sem var fallin í gjalddaga fyrir 1. júlí 1988, sé fyrnd, og því sé krafist gjaldfallinna afborgana eftir þann tíma.

Árituð áskorunarstefna hefur sama gildi og dómur í einkamáli, sbr. 235. gr. laga nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, með síðari breytingum, en þau lög giltu, er mál þetta var dæmt. Þau atriði, sem kvörtun yðar beinist að, hafa því komið til úrlausnar dómstóls. Réttaráhrif þess að kröfu sé ekki nægilega haldið til laga eru meðal annars þau, að krafan getur fallið niður fyrir fyrningu. Er það eitt af þeim atriðum, sem metin eru við úrlausn dómsmáls, hvort skuld er fallin niður fyrir fyrningu. Dómstólar taka atriði, er varða fyrningu, til athugunar af sjálfsdáðum, ef sá, sem stefnt er, sækir ekki dómþing til að koma að vörnum.

Það er hlutverk mitt að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 2. gr. laga nr. 13/1987, en dómsathafnir falla utan starfssviðs míns, sbr. 4. tl. 3. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Þau atriði, sem þér kvartið yfir, hafa í máli Lánasjóðs íslenskra námsmanna á hendur yður komið til úrlausnar dómstóls, en það var dæmt á bæjarþingi Reykjavíkur 16. desember 1991. Þá hafa farið fram fullnustugerðir, eftir að sá dómur gekk. Það eru því ekki skilyrði til að ég fjalli nánar um þau atriði, sem þér hafið kvartað yfir, og er afskiptum mínum af kvörtun yðar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis."