Skaðabætur. Örorkunefnd. Endurupptaka. Gjafsókn.

(Mál nr. 3942/2003)

A kvartaði til umboðsmanns Alþingis yfir synjun örorkunefndar á að endurupptaka mat nefndarinnar á varanlegri örorku hans og miskastigi vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir. Þá beindist kvörtun A að synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sbr. 4. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, á umsókn hans um gjafsókn, sbr. XX. kafla laganna, í tilefni af málshöfðun hans á hendur B og tryggingafélögunum C og D.

Umboðsmaður lauk máli þessu með bréfi til A, dags. 28. júní 2004. Þar rakti hann ákvæði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og lögskýringargögn að baki þeim. Af þeim taldi umboðsmaður verða ráðið að skilyrði fyrir því að örorkunefnd geti ákvarðað miska- eða örorkustig að nýju væri að uppgjör aðila, sem hefði átt sér stað í kjölfar dóms eða með samningi, hafi verið endurupptekið annað hvort með samþykki tjónvalds eða viðurkenningardómi. Það væri því ekki á valdi örorkunefndar að taka ákvörðun um það á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga hvort mál yrði endurupptekið. Þar sem ekki hefði hins vegar orðið samkomulag á milli A og B um að fyrra tjónauppgjör yrði endurupptekið eða viðurkenningardómur gengið um það, áður en beiðni um endurupptökuna var lögð fram, taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá efnislegu niðurstöðu örorkunefndar að synja erindi lögmanns A um endurupptöku eins og það var lagt fram. Umboðsmaður setti hins vegar fram þá ábendingu í bréfi til örorkunefndar að þess yrði betur gætt að afgreiðslur nefndarinnar í tilefni af erindum um endurupptöku mála væru skýrar og glöggar og í samræmi við þann lagagrundvöll sem viðkomandi afgreiðsla væri byggð á.

Athugun umboðsmanns á kvörtun A varð honum tilefni til að taka grundvöll og framkvæmd gjaldtöku vegna beiðni um endurupptöku máls hjá örorkunefnd til nánari athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður ritaði dóms- og kirkjumálaráðherra bréf af því tilefni.

Varðandi þann þátt kvörtunar A, sem beindist að synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á beiðni A um gjafsókn, rakti umboðsmaður ákvæði XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og 5. gr. reglugerðar nr. 69/2000, um starfshætti gjafsóknarnefndar. Það var niðurstaða umboðsmanns að þegar horft væri til tekna A og skuldastöðu væru ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við það mat dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og gjafsóknarnefndar að skilyrði a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um að efnahag umsækjanda verði að vera „þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli [verði] honum fyrirsjáanlega ofviða“, hafi ekki verið uppfyllt í máli A eins og lagareglum og ákvæðum reglugerða væri nú háttað.

Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til umboðsmanns í tilefni af síðari hluta kvörtunar A tók ráðuneytið fram að engin sérstök athugun hefði farið fram á vegum ráðuneytisins á því hvort viðmiðun um skattleysismörk samkvæmt reglugerð nr. 69/2000 geti talist í eðlilegu samræmi við þann mælikvarða sem ráða má af a-lið 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 125. gr. sömu laga. Í bréfinu lýsti ráðuneytið hins vegar þeirri fyrirætlan að hrinda af stað vinnu við endurskoðun á áðurnefndum ákvæðum laga nr. 91/1991 og reglugerð nr. 69/2000 og að áfram yrði unnið að slíkum breytingum í ráðuneytinu. Í bréfi sínu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, þar sem umboðsmaður upplýsti um lok umfjöllunar sinnar á kvörtun A, óskaði hann samkvæmt framangreindu eftir upplýsingum um stöðu þessarar vinnu hjá ráðuneytinu og hvenær áætlað væri að taka afstöðu til breytinga á lögum og reglum um ofangreint atriði.