Kvartað var yfir endurmati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á fasteignamati fasteignar sem yfirfasteignamatsnefnd staðfesti. Gerðar voru athugasemdir við að fasteignamat lóða sé hlutfall af fasteignamati þeirra mannvirkja sem reist hafa verið á henni.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, og eftir atvikum yfirfasteignamatsnefnd, hefur verið falið nokkurt svigrúm til mats á því hvernig matsverð fasteignar í skilningi laga er ákveðið. Að virtum lagagrundvelli málsins og gögnum þess taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að sú tilhögun sem viðhöfð hefði verið, hefði ekki samræmst lögum. Í því sambandi yrði ekki hjá því litið að stærð og gerð þess mannvirkis sem reist hefði verið á lóð gæti almennt haft nokkur áhrif á verðmæti hennar og verið órjúfanlegur þáttur eignarinnar í heild sinni. Taldi umboðsmaður því ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að hafna kröfu um ógildingu endurmats Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á þeim grundvelli.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 4. desember 2024.