Kvartað var yfir álagningu Bílastæðasjóðs Reykjavíkur á stöðubrotsgjaldi og synjun á endurupptöku málsins.
Ljóst var að niðurstaða um hvort Bílastæðasjóði hefði verið heimilt að leggja á stöðubrotsgjald í þessu tilviki hverfðist að verulegu leyti um hvort bifreiðin hefði verið stöðvuð í minna en þrjár mínútur. Var því uppi ágreiningur um málsatvik þar sem nauðsynlegt kynni að vera að afla sönnunargagna, svo sem vitnaskýrslna, og meta síðan sönnunargildi slíkra gagna. Það yrði að vera hlutverk dómstóla að leysa úr slíku ágreiningsefni.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. desember 2024.
Vísað er til kvörtunar þinnar 20. nóvember sl. sem lýtur að ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds fyrir brot gegn c-lið 1. mgr. 109. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Er þar kveðið á um að leggja megi á gjald vegna brota á banni við stöðvun eða lagningu ökutækja sem gefið sé til kynna með umferðarmerki. Í ákvörðun Bílastæðasjóðs 12. apríl sl., þar sem endurupptökubeiðni þinni var hafnað, kom fram að við Hallgerðargötu, þar sem bifreið þinni hefði verið lagt, væri umferðarmerki 372 sem samkvæmt reglugerð nr. 250/2024, um umferðarmerki og notkun þeirra, gæfi til kynna að bannað væri að leggja ökutæki þeim megin vegar sem merkið stæði, frá merkinu og að næstu vegamótum nema annað væri tekið fram á undirmerki. Í kvörtuninni er einkum byggt á því að bifreiðinni hafi ekki verið lagt í skilningi umferðarlaga, sbr. 26. tölulið 1. mgr. 3. gr. þeirra, þar sem hún hafi verið stöðvuð í minna en þrjár mínútur.
Í tilefni af kvörtuninni skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Af lögum nr. 85/1997 verður ráðið að þau eru meðal annars byggð á þeirri forsendu að um ákveðna verkaskiptingu milli dómstóla og umboðsmanns sé að ræða og mál geti verið þannig vaxin að eðlilegra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum. Í a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna kemur þannig fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Þá er í c-lið 2. mgr. 10. gr. þeirra tekið fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.
Í ákvörðun Bílastæðasjóðs er vísað til þess að samkvæmt umsögn stöðuvarðar hafi bifreiðin verið stöðvuð umfram leyfilegan tíma. Eins og mál þetta liggur fyrir er ljóst að niðurstaða um hvort Bílastæðasjóði hafi verið heimilt að leggja á stöðubrotsgjald umrætt sinn hverfist að verulegu leyti um hvort bifreiðin hafi verið stöðvuð í minna en þrjár mínútur. Er þannig uppi ágreiningur um málsatvik þar sem nauðsynlegt kann að vera að afla sönnunargagna, svo sem vitnaskýrslna, og meta síðan sönnunargildi slíkra gagna. Umboðsmaður hefur talið rétt að fjalla almennt ekki um mál, sem eru slíku marki brennd, heldur verði það að vera hlutverk dómstóla, sem eru betur í stakk búnir að leysa úr álitaefnum um hvað teljist sannað, og þá að því marki sem það kann að vera nauðsynlegt til að fá leyst úr dómkröfu sem borin er fram á þeim vettvangi. Í þessu sambandi skal áréttað að ég hef þó enga afstöðu tekið til þess hvort rétt sé að leggja málið fyrir dómstóla ef þú kýst að fylgja málinu frekar eftir.
Þar sem ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum að öðru leyti hver málsatvik hafi verið og það er eins og áður segir hlutverk dómstóla að leysa úr þeim ágreiningi sem kvörtunin lýtur að,. lýk ég athugun minni á kvörtuninni, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.