Meðferð ákæruvalds. Niðurfelling máls. Stjórnvaldsákvörðun. Andmælaréttur. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda.

(Mál nr. 4065/2004)

A kvartaði yfir tveimur úrskurðum ríkissaksóknara þar sem staðfestar voru ákvarðanir lögreglustjórans í Reykjavík um að fella niður kærumál hans og eiginkonu hans á hendur B fyrir meint eignaspjöll og þjófnað. A og eiginkona hans höfðu kært B tvívegis til lögreglustjórans í Reykjavík og hafði lögreglustjórinn í báðum tilvikum ákveðið að láta málin niður falla. Kærðu A og eiginkona hans þessar ákvarðanir lögreglustjóra til ríkissaksóknara á grundvelli kæruheimildar 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Ríkissaksóknari óskaði eftir rökstuðningi lögreglustjóra vegna beggja málanna og féllst í báðum úrskurðum sínum á rök lögreglustjóra og staðfesti ákvarðanir hans með vísan til þeirra.

Athugun umboðsmanns í tilefni kvörtunarinnar beindist að því hvort stjórnsýslumál sem hefst með kæru aðila á grundvelli 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 geti fallið undir gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Taldi umboðsmaður að svarið við þessari spurningu réðist einkum af því hvort kærumál á grundvelli framangreinds ákvæðis kynni að leiða til þess að ríkissaksóknari tæki í úrskurði sínum stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Var það niðurstaða umboðsmanns að svo væri og því bæri ríkissaksóknara að fylgja ákvæðum II.—VI. og VIII. kafla stjórnsýslulaga eftir því sem við gæti átt við meðferð slíks máls, sbr. 1. mgr. 30. gr. laganna.

Umboðsmaður benti á að af gögnum málsins væri ljóst að A og eiginkonu hans hefðu ekki verið kynnt þau efnisatriði sem fram komu í umsögnum lögreglustjóra til ríkissaksóknara vegna kærumálanna og þeim ekki gefinn kostur á því að tjá sig um þau. Var það niðurstaða umboðsmanns að málsmeðferð ríkissaksóknara hefði að þessu leyti ekki uppfyllt þær kröfur sem leiða af 13. gr. stjórnsýslulaga.

Þá var það niðurstaða umboðsmanns, með vísan til 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, að þegar brotaþola er tilkynnt um ákvörðun ákæranda um niðurfellingu máls, sbr. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, án þess að rökstuðningur fylgi, sé ákæranda rétt að veita honum leiðbeiningar um heimild hans til að fá ákvörðunina rökstudda sem og um heimild til að kæra ákvörðunina til ríkissaksóknara, sbr. 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, og kærufrest í því sambandi.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ríkissaksóknara að hann tæki kærumál A og eiginkonu hans til nýrrar meðferðar kæmi fram ósk þess efnis frá þeim og tæki þá mið af þeim sjónarmiðum sem sett væru fram í álitinu. Jafnframt beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ríkissaksóknara að hann gerði viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að málsmeðferð í málum á grundvelli 114. gr. laga nr. 19/1991 yrði framvegis í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

I.

Hinn 24. mars 2004 leitaði A til mín og kvartaði yfir tveimur úrskurðum ríkissaksóknara, þeim fyrri frá 10. júlí 2003 og þeim síðari frá 19. mars 2004, þar sem staðfestar eru ákvarðanir lögreglustjórans í Reykjavík um að fella niður kærumál hans og eiginkonu hans á hendur B fyrir meint eignaspjöll og þjófnað.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 1. september 2004.

II.

Málavextir eru þeir að A og eiginkona hans kærðu nágranna sinn tvívegis til lögreglustjórans í Reykjavík fyrir meint eignaspjöll og þjófnað. Með bréfum, dags. 4. júní 2003 og 22. janúar 2004, var þeim tilkynnt að lögreglustjóri hefði ákveðið að láta málin niður falla. Í báðum tilvikum sagði m.a. svo í bréfum lögreglustjóra:

„Rannsókn málsins er nú lokið og hafa rannsóknargögn verið yfirfarin með hliðsjón af 112. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.

Hér með tilkynnist yður, með vísan til fyrrnefndrar greinar, að rannsóknargögn þykja eigi gefa tilefni til frekari aðgerða í málinu. Er málið því látið niður falla.“

Með bréfum, dags. 6. júní 2003 og 21. febrúar 2004, kærðu A og eiginkona hans þessar ákvarðanir lögreglustjóra til ríkissaksóknara. Í tilefni af fyrri kærunni óskaði ríkissaksóknari eftir því með bréfi, dags. 16. júní 2003, að lögreglustjórinn í Reykjavík afhenti honum gögn málsins auk þess sem hann óskaði eftir rökstuðningi lögreglustjóra fyrir ákvörðun sinni. Í svarbréfi fulltrúa lögreglustjóra, dags. 3. júlí 2003, segir m.a.:

„Með hliðsjón af framansögðu var það mat ákæruvaldsins að hvorki lægi fyrir staðfesting á eignarétti kærenda á ofangreindum runnagróðri né að hér væri um að ræða eignaspjöll en tilgangur kærða var að fegra garðinn og gera runnana lífvænlegri. Einnig var það mat ákæruvaldsins að ofangreind athöfn kærða gæti ekki talist til þjófnaðar.“

Í úrskurði ríkissaksóknara frá 10. [júlí] 2003 er fallist á ofangreind rök og ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík staðfest með vísan til þeirra. Í tilefni seinni kærunnar óskaði ríkissaksóknari eftir því með sama hætti, sbr. bréf dags. 23. febrúar 2004, að lögreglustjórinn í Reykjavík afhenti honum gögn málsins auk þess sem hann óskaði eftir rökstuðningi lögreglustjóra fyrir ákvörðun sinni. Í svarbréfi fulltrúa lögreglustjóra, dags. 27. febrúar 2004, segir m.a.:

„Það var mat ákæruvaldsins, eins og mál þetta er vaxið, að hér væri ekki um að ræða eignaspjöll þar sem umrætt tré hefði verið fellt í þeim tilgangi að grisja gróður í sameiginlegum garði kæranda og kærða.“

Í úrskurði ríkissaksóknara frá 19. mars 2004 er eins og í fyrra málinu fallist á rök lögreglustjóra og ákvörðun hans staðfest með vísan til þeirra.

III.

Ég ritaði ríkissaksóknara bréf, dags. 29. mars 2004, og óskaði eftir því að hann afhenti mér afrit af öllum gögnum í málunum tveimur. Gögnin bárust mér með bréfi 7. apríl 2004. Af gögnunum varð ekki séð að ríkissaksóknari hefði kynnt A og eiginkonu hans rökstuðning lögreglustjórans í Reykjavík áður en hann felldi úrskurði sína í málunum. Af þessu tilefni ritaði ég ríkissaksóknara á ný bréf, dags. 26. apríl 2004, þar sem ég óskaði eftir afstöðu hans til þess hvort skylt hefði verið að kynna A rökstuðning lögreglustjóra og gefa honum færi á því að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í tilefni af þeim atriðum sem þar koma fram, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísaði ég í því sambandi til þess að í rökstuðningi lögreglustjóra hefðu komið fram ný málsatriði sem fengið hefðu verulegt vægi í úrskurðum ríkissaksóknara.

Svarbréf ríkissaksóknara barst mér 13. maí 2004. Þar segir m.a.:

„Ég tel að hvorki ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík skv. 112. gr. laga um meðferð opinberra mála né ákvörðun ríkissaksóknara skv. 114. gr. sömu laga falli undir gildissvið stjórnsýslulaga. Því álít ég að ekki hafi verið skylt, skv. 13. gr. stjórnsýslulaga, að kynna [A] rökstuðning lögreglustjórans áður en ákvörðun, var tekin. Ljóst má vera að það eru fyrirliggjandi rannsóknargögn málsins sem liggja til grundvallar ákvörðun ríkissaksóknara.“

Með bréfi, dags. 17. maí 2004, gaf ég A kost á að koma að athugasemdum í tilefni af bréfi ríkissaksóknara. Athugasemdir A bárust mér með bréfi 24. maí 2004.

IV.

1.

Athugun mín í tilefni af kvörtun A hefur beinst að því hvort það stjórnsýslumál sem hefst með kæru aðila á grundvelli 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, geti fallið undir gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt 1. mgr. 30. gr. þeirra laga skal við meðferð kærumáls fylgja ákvæðum II.—VI. og VIII. kafla laganna eftir því sem við getur átt. Svarið við þessari spurningu ræðst einkum af því hvort kærumál á grundvelli 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 kunni að leiða til þess að ríkissaksóknari taki í úrskurði sínum ákvörðun um rétt eða skyldu manna, þ.e. svokallaða stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Áður er rakin sú afstaða ríkissaksóknara að hvorki ákvarðanir lögreglustjóra samkvæmt 112. gr. laga nr. 19/1991 né ákvarðanir hans í kærumálum samkvæmt 2. mgr. 114. gr. sömu laga séu stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga. Í ljósi þessa telur hann að honum hafi ekki verið skylt samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga að kynna A umsagnir lögreglustjóra í umræddum kærumálum. Ég tek fram að þar sem úrskurður ríkissaksóknara í málum þessum var sá að staðfesta nefndar ákvarðanir lögreglustjóra um að fella málin niður, sbr. 112. gr. laga nr. 19/1991, hef ég ákveðið að takmarka athugun mína alfarið við það hvort staðfesting ríkissaksóknara á ákvörðun um niðurfellingu máls, sbr. 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, teljist stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Álit mitt sem hér fer á eftir beinist aðeins að því atriði.

2.

Um gildissvið stjórnsýslulaga er fjallað í 1. gr. laganna sem er svohljóðandi:

„Lög þessi taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Lögin gilda þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þau gilda þó ekki um samningu reglugerða né annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla.

Ákvæði II. kafla um sérstakt hæfi gilda einnig um gerð samninga einkaréttar eðlis.“

Þegar litið er til stöðu og verkefna ríkissaksóknara og annarra handhafa ákæruvalds samkvæmt lögum, sbr. einkum lög nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, er það ekki vafa undirorpið að starfsemi þessara aðila telst til „stjórnsýslu ríkisins“ í merkingu 1. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Í lögum nr. 19/1991 eða lögskýringargögnum að baki þeim er hvergi tekið af skarið um það að ákvarðanir ríkissaksóknara eða annarra handhafa ákæruvalds á grundvelli laganna falli utan við gildissvið stjórnsýslulaga. Þar sem þessir aðilar fara með stjórnsýslu ríkisins í merkingu 1. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga verður því að ganga út frá því að þau lög gildi um þær ákvarðanir þeirra sem taldar verða falla undir 2. mgr. sömu greinar, þ.e. „ákvarðanir um rétt eða skyldu manna“. Leiðir þessi ályktun einnig af 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 48. gr. laga nr. 36/1999, sem kveður á um að ákvæði 15. gr. um upplýsingarétt taki ekki til rannsóknar eða saksóknar í opinberu máli. Þó segir í síðari málsl. að sakborningur og brotaþoli geti krafist þess að fá að kynna sér gögn málsins eftir að það hefur verið fellt niður eða því lokið með öðrum hætti. Undanþáguákvæði 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga um frávik frá upplýsingarétti aðila máls, þegar um rannsókn og saksókn í opinberu máli er að ræða, væri óþarft ef fyrir lægi að engar stjórnvaldsákvarðanir í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga yrðu teknar í slíkum málum.

Stjórnsýslulögin mæla fyrir um reglur sem einkum er ætlað að veita þeim sem aðild á að máli ákveðinn rétt til þátttöku í undirbúningi þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því og þá sér í lagi rétt til að fá vitneskju um að mál hans sé til meðferðar og til að tjá sig um efni þess áður en ákvörðun er tekin. Þegar vafi leikur á því hvort einstök ákvörðun eigi að falla undir lögin verður einkum að líta til raunverulegrar þýðingar hennar fyrir stöðu viðkomandi svo og hvort þörf er á því og hvort eðlilegt verði talið að hann njóti þeirra réttinda sem þar er mælt fyrir um, sjá hér til hliðsjónar álit mitt frá 5. mars 2004 í máli nr. 3853/2003. Í þessu sambandi minni ég á að í lögskýringargögnum að baki 1. gr. stjórnsýslulaga segir að orðalag 1. gr. sé annars svo rúmt að í algerum vafatilvikum beri fremur að álykta svo að lögin gildi, heldur en að þau gildi ekki. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3284.) Við frekari afmörkun á inntaki 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga um hugtakið stjórnvaldsákvörðun verður að gera greinarmun á því hvort ákvörðun stjórnvalds er í eðli sínu ákvörðun um beitingu málsmeðferðarúrræðis eða hvort ákvörðun felur í sér lyktir máls hjá viðkomandi stjórnvaldi. Almennt verður að ganga út frá því að ákvörðun teljist ekki stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga nema hún feli í sér hið síðarnefnda. Af þessum sökum verður að skoða í hverju tilviki fyrir sig hvort ákvarðanir lögreglu og handhafa ákæruvalds á grundvelli fyrirmæla laga nr. 19/1991 teljist sem slíkar vera ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga eða ákvarðanir sem teknar eru sem liður í rannsókn opinbers máls.

3.

Í skýringum ríkissaksóknara til mín er afstaða hans um að ákvarðanir hans á kærustigi máls samkvæmt 114. gr. laga nr. 19/1991 teljist ekki til stjórnvaldsákvarðana ekki rökstudd sérstaklega. Ákvæði 114. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 84/1996 og 26. gr. laga nr. 36/1999, er svohljóðandi:

„1. Nú er mál fellt niður skv. 112. gr. eða fallið er frá saksókn skv. 113. gr. og skal ákærandi sem þá ákvörðun tók tilkynna hana sakborningi og ef því er að skipta brotaþola, enda liggi fyrir hver hann er. Ber að rökstyðja ákvörðunina ef þess er krafist.

2. Sá sem ekki vill una við ákvörðun lögreglustjóra skv. 1. mgr. getur kært hana til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því að honum var tilkynnt um hana. Skal ríkissaksóknari taka afstöðu til kærunnar innan eins mánaðar frá því að hún berst honum, nema svo standi á sem í 3. mgr. 28. gr. segir.“

Kæruheimild 2. mgr. 114. gr. kom sem nýmæli inn í lög nr. 19/1991 með 10. gr. laga nr. 84/1996. Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 84/1996 segir svo um nefnda 10. gr. sem var 9. gr. frumvarpsins:

„Ef mál er fellt niður skv. 112. gr. laga um meðferð opinberra mála eða fallið er frá saksókn skv. 113. gr. laganna ber ákæranda skv. 114. gr. að tilkynna það sakborningi eða ef því er að skipta þeim sem misgert er við. Lagt er til að það komi í hlut þess sem þá ákvörðun tók að sjá um þá tilkynningu.

Ákvæði 2. mgr. er nýmæli. Samkvæmt því getur sá er ekki vill una við ákvörðun lögreglustjóra um að fella niður mál eða að falla frá saksókn kært þá ákvörðun til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því að honum var tilkynnt um hana. Er hér um skemmri kærufrest en almennt gildir um stjórnsýslukærur skv. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/199[3] þar sem miðað er við þriggja mánaða kærufrest. Er það eðlilegt þar sem þörf er á að málunum verði lokið sem fyrst. Ríkissaksóknari skal taka afstöðu til kærunnar innan eins mánaðar frá því að hún barst honum, nema ríkissaksóknari ákveði að höfða málið sjálfur eða leggi fyrir lögreglustjóra að gera það, sbr. 3. mgr. 28. gr. laganna.“ (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3746.)

Með 26. gr. laga nr. 36/1999 var gerð sú efnisbreyting á 1. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 að ákæranda var gert að rökstyðja ákvörðun sína ef þess væri krafist. Fyrir lögfestingu 26. gr. laga nr. 36/1999 gerði 1. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 aðeins ráð fyrir því að ákæranda væri skylt að tilgreina í tilkynningu þá lagaheimild sem ákvörðun hefði stuðst við. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 36/1999 var þessi breyting rökstudd með eftirfarandi hætti:

„Með þessu ákvæði er lagt til að fyrri málslið 1. mgr. 114. gr. laga um meðferð opinberra mála verði efnislega óbreyttur. Í síðari málslið er kveðið á um það, í samræmi við 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, að ákærandi skuli rökstyðja ákvörðun sína um að fella mál niður skv. 112. gr. eða falla frá saksókn skv. 113. gr. ef þess er krafist, hvort sem er af sakborningi eða brotaþola.“ (Alþt. 1998—1999, A—deild, bls. 2316.)

Í tilvitnuðum lögskýringargögnum að baki 114. gr. laga nr. 19/1991 er ekki með afdráttarlausum hætti fjallað um það hvort þær ákvarðanir ákæranda, sem samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins sæta kæru til ríkissaksóknara, teljist stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Af þeim verður hins vegar ráðið að með fyrirmælum 114. gr. laga nr. 19/1991, sbr. breytingar samkvæmt lögum nr. 84/1996 og nr. 36/1999, hafi verið leitast við að samræma þá málsmeðferð sem ákvæðið gerir ráð fyrir þeim reglum sem stjórnsýslulög kveða á um þó að teknu tilliti til eðlis þeirra mála sem hér um ræðir.

Úrskurður ríkissaksóknara á kærustigi, sbr. 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, um niðurfellingu máls hefur raunverulega þýðingu fyrir brotaþola sem ákveðið hefur að nýta sér nefnda kæruheimild, sjá hér til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 6. maí 1991 í máli nr. 223/1989. Með tilliti til hagsmuna brotaþola verður að ætla að hann kunni að hafa þörf fyrir að njóta á kærustigi máls þess réttaröryggis sem felst í málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga eftir því sem við á. Þá felur úrskurður ríkissaksóknara í sér endanlegar lyktir málsins af hálfu ákæruvaldsins en er ekki ákvörðun um beitingu málsmeðferðar- eða rannsóknarúrræðis á grundvelli laga nr. 19/1991. Þá minni ég á að í athugasemdum greinargerðar að baki 10. gr. laga nr. 84/1996, sem eins og fyrr greinir lögfesti nefnda kæruheimild, er sérstaklega rökstutt að þörf sé á því að mæla fyrir um það í ákvæðinu að frestur kæranda til að setja fram kæru sé styttri en fram kemur í 27. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. einn mánuður, auk þess sem ríkissaksóknara er gert skylt að taka afstöðu til kærunnar innan eins mánaðar frá því að hún barst honum nema hann ákveði að höfða málið sjálfur eða feli lögreglustjóra að gera það, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 19/1991. Þessi lagasetningarháttur og athugasemdir úr lögskýringargögnum benda til þess að löggjafinn hafi talið nauðsynlegt að mæla sérstaklega fyrir um styttri fresti í þessu tilviki enda myndu að öðrum kosti gilda hinar almennu reglur um kærufresti sem fram koma í 27. gr. stjórnsýslulaga. Það er ljóst að reglur 27. gr. stjórnsýslulaga um kærufresti eiga ekki við nema lagt sé til grundvallar að viðkomandi kærumál kunni að leiða til þess að stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sé tekin í formi úrskurðar æðra stjórnvalds.

Ég tek einnig fram að sú afstaða að staðfesting ríkissaksóknara á ákvörðun um niðurfellingu máls, sbr. 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, teljist stjórnvaldsákvörðun styðst einnig að nokkru leyti við Hrd. 1995, bls. 791, sjá hér til hliðsjónar grein Eiríks Tómassonar: Ákæruvaldið í ljósi jafnræðisreglna. Rannsóknir í félagsvísindum IV, Reykjavík (2003), bls. 51. Í dóminum var það niðurstaða Hæstaréttar að ríkissaksóknari gæti stutt ákvörðun sína um að afturkalla ákvörðun um að falla frá saksókn, sbr. f—lið 2. mgr. 113. gr. laga nr. 19/1991 við „almennar reglur VI. kafla stjórnsýslulaga“. Að þessu virtu tek ég fram að ákvörðun stjórnvalds um afturköllun eldri ákvörðunar getur ekki stuðst við 25. gr. stjórnsýslulaga um afturköllun nema sú ákvörðun sem ætlunin er að afturkalla teljist stjórnvaldsákvörðun í merkingu laganna. Það verður því aðeins dregin sú rökræna ályktun af nefndum dómi Hæstaréttar að ákvörðun ríkissaksóknara um niðurfellingu saksóknar, sbr. f—lið 2. mgr. 113. gr. laga nr. 19/1991, teljist eftir atvikum stjórnvaldsákvörðun. Ef svo er, tel ég að ganga verði almennt út frá því að sama eigi við um ákvörðun ríkissaksóknara um að fella mál niður á grundvelli 112. gr., a.m.k. þegar slík ákvörðun er tekin í formi úrskurðar á grundvelli kæru, sbr. 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991. Loks bendi ég á til hliðsjónar að í dönskum rétti hefur verið gengið út frá því að niðurfelling máls af hálfu handhafa ákæruvalds teljist til stjórnvaldsákvarðana, sjá hér til hliðsjónar Hans Gammeltoft-Hansen o.fl.: Forvaltningsret. Kaupmannahöfn 2002, bls. 54.

Löggjafinn hefur með 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 mælt fyrir um sérstaka kæruleið sem veitir m.a. brotaþola lögvarinn rétt til þess að kæra ákvarðanir um niðurfellingu máls til ríkissaksóknara. Í ljósi þessa og með vísan til þeirra sjónarmiða sem ég hef rakið hér að framan er það niðurstaða mín að úrskurður ríkissaksóknara í kærumáli samkvæmt 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 varði „rétt“ þess sem kært hefur í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Um meðferð slíks kærumáls gilda því stjórnsýslulög og ber ríkissaksóknara, sbr. 1. mgr. 30. gr. laganna, þá að fylgja ákvæðum II.—VI. og VIII. kafla stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt aðila máls er að finna í IV. kafla laganna. Verður því hér að taka afstöðu til þess hvort ríkissaksóknara hafi í tilviki A og eiginkonu hans borið að kynna þeim umsagnir lögreglustjóra um kæru þeirra áður en hann lagði úrskurð á málin enda hafi þar komið fram ný atriði sem hafi haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málanna af hálfu ríkissaksóknara.

4.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal málsaðili eiga kost á því að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Eins og greinir í kafla II hér að framan var A og eiginkonu hans tilkynnt um ákvarðanir lögreglustjórans í Reykjavík um að fella niður mál vegna kæra þeirra með bréfum, dags. 4. júní 2003 og 22. janúar 2004. Enginn rökstuðningur fylgdi ákvörðununum og kærðu þau hjón þær til ríkissaksóknara í samræmi við heimild í 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991. Í tilefni af báðum kærumálunum óskaði ríkissaksóknari eftir rökstuðningi lögreglustjórans í Reykjavík fyrir ákvörðunum hans um niðurfellingu málanna. Í bréfi fulltrúa lögreglustjórans til ríkissaksóknara vegna fyrri kærunnar, dags. 3. júlí 2003, kom fram að það hefði verið „mat ákæruvaldsins að hvorki lægi fyrir staðfesting á eignarrétti kærenda á ofangreindum runnagróðri né að hér væri um að ræða eignaspjöll en tilgangur kærða [hafi verið] að fegra garðinn og gera runnana lífvænlegri“. Þá segir að einnig hafi það verið mat ákæruvaldsins að umrædd athöfn kærða gæti ekki talist til þjófnaðar. Í bréfi fulltrúa lögreglustjórans vegna seinni kærunnar, dags. 27. febrúar 2004, kom fram að það hefði verið „mat ákæruvaldsins, [...], að hér væri ekki um að ræða eignaspjöll þar sem umrætt tré hefði verið fellt í þeim tilgangi að grisja gróður í sameiginlegum garði kæranda og kærða“. Í úrskurðum ríkissaksóknara í báðum málunum er fallist á rök lögreglustjóra og ákvarðanir hans staðfestar með vísan til þeirra.

Það er ljóst af gögnum málsins að A og eiginkonu hans voru ekki kynnt þau efnisatriði sem fram komu í ofangreindum umsögnum lögreglustjórans til ríkissaksóknara og var þeim ekki gefinn kostur á því að tjá sig um þau, t.d. um að ekki lægi fyrir staðfesting á eignarétti þeirra að umræddum runnagróðri eða um tilgang kærða með athöfnum sínum. Þá gafst þeim ekki tækifæri til að koma að athugasemdum sínum varðandi mat lögreglustjóra á refsinæmi þeirra athafna sem kæran beindist að. Ég tek fram að af úrskurðum ríkissaksóknara í málunum verður ráðið að forsendur þær sem fram komu í umsögnum lögreglustjóra hafi haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málanna hjá ríkissaksóknara enda teknar orðrétt upp í úrskurði hans. Í ljósi þessa tel ég að ríkissaksóknara hafi borið að kynna A og eiginkonu hans umsagnir lögreglustjóra og veita þeim raunhæft tækifæri til þess að koma að athugasemdum sínum við þau atriði sem þar komu fram áður en hann lauk afgreiðslu sinni á kærumálunum með úrskurði. Að þessu virtu er það niðurstaða mín að málsmeðferð ríkissaksóknara í kærumálum A og eiginkonu hans hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem leiða af 13. gr. stjórnsýslulaga.

Ég tel að lokum rétt að benda á að í tilkynningu lögreglustjórans í Reykjavík til A og eiginkonu hans um niðurfellingu fyrra kærumálsins, dags. 4. júní 2003, var þeim hvorki leiðbeint um kæruheimild eða kærufrest né um rétt sinn til að krefjast rökstuðnings. Í tilkynningu lögreglustjóra vegna seinna kærumálsins, dags. 22. janúar 2004, var þeim einungis leiðbeint um rétt sinn til að kæra ákvörðun lögreglustjóra til ríkissaksóknara.

Samkvæmt ákvæði 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga skal veita aðila leiðbeiningar um heimild hans til að fá ákvörðun rökstudda ef ákvörðun hefur verið tilkynnt honum skriflega án þess að henni hafi fylgt rökstuðningur. Þá ber að veita leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest við slíkar aðstæður, sbr. 2. tölul. sömu málsgreinar. Að þessu virtu tel ég að þegar brotaþola er tilkynnt um ákvörðun ákæranda um niðurfellingu máls, sbr. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, án þess að rökstuðningur fylgi, sé ákæranda rétt að veita brotaþola leiðbeiningar um heimild hans til að fá ákvörðunina rökstudda sem og um heimild til að kæra ákvörðunina til ríkissaksóknara, sbr. 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, og kærufrest í því sambandi.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að málsmeðferð ríkissaksóknara á kærumálum A og eiginkonu hans, sbr. 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem leiða af 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er það niðurstaða mín að þegar brotaþola er tilkynnt um ákvörðun ákæranda um niðurfellingu máls, sbr. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, án þess að rökstuðningur fylgi, sé ákæranda rétt að veita brotaþola leiðbeiningar um heimild hans til að fá ákvörðunina rökstudda sem og um heimild til að kæra ákvörðunina til ríkissaksóknara, sbr. 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, og kærufrest í því sambandi.

Ég beini þeim tilmælum til ríkissaksóknara að hann taki umrædd kærumál A og eiginkonu hans til nýrrar meðferðar komi fram ósk þess efnis frá þeim og taki þá mið af þeim sjónarmiðum sem sett eru fram í áliti þessu. Þá beini ég þeim tilmælum til ríkissaksóknara að hann geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að málsmeðferð í málum á grundvelli 114. gr. laga nr. 19/1991 verði framvegis í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í áliti þessu.