A kvartaði yfir því að nauðungaruppboð hefði verið auglýst á fasteign hans vegna vangoldinna fasteignagjalda þrátt fyrir að tollstjórinn í Reykjavík hefði þá þegar fallist á beiðni hans um frestun uppboðsins. Ljóst var að tollstjóri hafði 10. febrúar 2004 samþykkt að fresta byrjun uppboðs á fasteign A samkvæmt 27. gr. laga nr. 90/1991 gegn því að A greiddi 10.000 kr. inn á fasteignagjöld sín. Í gögnum málsins kom hins vegar einnig fram að birt hefði verið auglýsing í X-blaði 26. febrúar 2004 um að uppboð á eign A myndi hefjast 1. mars kl. 10.00.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi til A, dags. 20. september 2004. Þar rakti hann efni bréfaskipta sinna við tollstjórann í Reykjavík vegna málsins. Lýsti umboðsmaður því að af ummælum tollstjóra í svarbréfi til sín yrði ekki annað séð en að hann teldi ekki ástæðu til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að falla frá birtingu auglýsingar um byrjun uppboðs jafnvel þótt fyrir lægi að hann hefði samþykkt beiðni gerðarþola um frestun uppboðs. Með hliðsjón af þessu hefði umboðsmaður óskað eftir því við tollstjóra að hann lýsti viðhorfi sínu til þess hvernig slík framkvæmd samræmdist þeirri grundvallarreglu að stjórnvöld skyldu byggja athafnir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og jafnframt hvaða markmiði auglýsingu um uppboð væri ætlað að ná í slíkum tilvikum. Væri slíkt markmið á annað borð lögmætt, óskaði umboðsmaður eftir skýringum á því hvaða sjónarmið um nauðsyn byggju að baki ákvörðun um auglýsingu uppboðs þegar frestun þess lægi fyrir, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga.
Umboðsmaður rakti efni svarbréfs tollstjóra þar sem fram kæmi að þegar skuldari hefði fengið loforð um frestun á byrjun uppboðs ætti samkvæmt vinnureglum tollstjóra að senda fax til sýslumanns í viðkomandi umdæmi um að byrjun uppboðs væri frestað. Þá segði í bréfinu að hefði verið lofað fresti á byrjun uppboðs í tæka tíð en uppboð engu að síður auglýst þá væri um mistök að ræða og bæri að harma þau. Jafnframt hefði tollstjóri tekið fram að engin málefnaleg rök væru fyrir slíkri framkvæmd og það þjónaði engum hagsmunum tollstjóra að birta auglýsingu ef lofað hefði verið fresti.
Umboðsmaður leit svo á að tollstjóri hefði í bréfi sínu fallist á að ekki hefði verið rétt að birta auglýsingu um uppboð á fasteign A eftir að samþykkt hafði verið að fresta byrjun þess. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til að halda áfram umfjöllun sinni um kvörtun A. Umboðsmaður benti A þó á að ef hann teldi sig hafa orðið fyrir skaða vegna birtingar auglýsingarinnar yrði það að vera hlutverk stjórnvalda og dómstóla að leysa úr því.