Opinberir starfsmenn. Stöðuveiting. Umsögn.

(Mál nr. 968/1993)

Máli lokið með áliti, dags. 24. febrúar 1994.

A kvartaði yfir veitingu stöðu stöðvarstjóra Póst- og símamálastofnunarinnar á X. Taldi A að gengið hefði verið fram hjá hæfari umsækjendum er V var ráðin í stöðuna. Umboðsmaður benti á að ekki væru ákvæði í póstlögum nr. 36/1977 um hæfisskilyrði stöðvarstjóra, en að ákvæði 3. gr. laga nr. 38/1954 ættu við. Ekki varð ráðið af gögnum málsins að ólöglega hefði verið staðið að skipun í stöðuna, eða ólögmæt sjónarmið legið að baki ákvörðun ráðherra. Taldi umboðsmaður ekki efni til afskipta af málinu.

I.

Hinn 16. desember 1993 barst mér kvörtun A, yfir veitingu stöðu stöðvarstjóra Póst- og símamálastofnunar á X.

II.

Málavextir eru þeir, að 6. ágúst 1993 var birt auglýsing samgönguráðuneytisins um að staða stöðvarstjóra Póst- og símamálastofnunar í X væri laus til umsóknar. Umsækjendur voru 14 og auk þess barst ein umsókn að loknum umsóknarfresti. Að fengnum tillögum póst- og símamálastjóra og starfsmannaráðs Póst- og símamálastofnunar, skipaði ráðherra 8. desember 1993 einn umsækjenda, V, í stöðuna.

Starfsmannaráðið mælti með A og B að jöfnu í 1.-2. sæti og V í 3. sæti.

Póst- og símamálastjóri mælti með B og tilgreindi þær ástæður, að hún væri eini umsækjandinn af þeim þremur, sem væri stöðvarstjóri. Hún hafi sýnt áhuga í starfi og visst frumkvæði. Hún hafi samtals starfað um 22 ár hjá ríkinu og óski þess að fá stöðvarstjórastarf nær fjölskyldu sinni og ættingjum, sem allir búi sunnan heiða.

Hinn 13. desember 1993 ritaði A samgönguráðherra bréf og óskaði skýringa á því, hvers vegna gengið hefði verið fram hjá tveimur hæfari umsækjendum og sá þriðji hæfasti ráðinn.

Í kvörtun sinni til umboðsmanns Alþingis kveðst A telja þessa stöðuveitingu augljóst dæmi um pólitíska stöðuveitingu, þar sem fagleg sjónarmið séu látin víkja, til að koma að og umbuna samflokksmanni ráðherra. Gjörð þessa, þó lögleg kunni að vera, telur A brot á vönduðum stjórnsýsluháttum og að engu gert starf og skoðanir þess fólks, sem kosið sé til trúnaðarstarfa og leggi á sig að sitja fundi og taka ákvarðanir um málefni stofnunarinnar.

Með bréfi, dags. 12. janúar 1994, óskaði ég eftir því að samgönguráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér gögn málsins í té, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 20. janúar 1994, kemur eftirfarandi fram:

"Skv. 2. mgr. 4. gr. laga um stjórn og starfrækslu póst- og símamála nr. 36/1977 með síðari breytingum skipar samgönguráðherra starfsfólk Póst- og símamálastofnunar, að fengnum tillögum póst- og símamálastjóra og starfsmannaráðs Póst- og símamálastofnunar. Ráðherra getur þó falið póst- og símamálastjóra að auglýsa stöður og ganga frá skipunarbréfum í stöður hjá Póst- og símamálastofnun.

Starfsmannaráð Póst- og símamálastofnunar er skipað skv. 1. gr. rg. nr. 88/1991, sbr. 1. gr. rg. nr. 178/1991. Starfsmannaráð fjallar m.a. um mál er varða skipun, setningu og ráðningu í stöður, sbr. 1. mgr. 3. gr. rg. nr. 88/1991. Starfsmannaráð er ráðgefandi um þau mál sem það tekur til meðferðar og gerir skriflegar tillögur eða umsögn um þau mál til póst- og símamálastjóra, sbr. 4. gr. rg. nr. 88/1991.

Með bréfi dags. 1. september óskaði ráðuneytið umsagnar póst- og símamálastjóra um umsóknirnar svo og tillagna starfsmannaráðs Póst- og símamálastofnunar. Umsögn póst- og símamálastjóra barst með bréfi dags. 29. nóvember sl., þar sem mælt var með [B]. Tillaga starfsmannaráðs Póst- og símamálastofnunar barst með bréfi dags. 10. nóvember sl. og mælti það með [A] og [B] að jöfnu í 1. og 2. sæti og [V] í 3. sæti.

Þau sjónarmið sem búa að baki því að ráðuneytið ákvað að skipa [V] í stöðu stöðvarstjóra á [X] voru þau að [V] hefur um mörg ár starfað hjá Pósti og síma í [X] og m.a. verið staðgengill stöðvarstjóra og hefur því öðlast víðtæka reynslu á þessu sviði. [V] hefur staðið sig með ágætum í fyrra starfi og var ein þeirra sem starfsmannaráð Póst- og símamálastofnunar mælti með. Það er mat ráðuneytisins að hún sómi sér vel sem fulltrúi Pósts og síma á staðnum."

Í áliti mínu, dags. 24. febrúar 1994, sagði svo:

"III.

Umsagnir starfsmannaráðs og póst- og símamálastjóra í máli þessu voru ekki bindandi fyrir ráðherra. Hann hafði vald til þess að skipa umsækjanda, sem ekki fékk meðmæli umsagnaraðila. Ráðherra varð þó að gæta málefnalegra sjónarmiða og grundvallarreglna stjórnsýsluréttar.

Ekki eru ákvæði í póstlögum nr. 36/1977 um sérstök hæfisskilyrði stöðvarstjóra. Gilda því reglur 3. gr. starfsmannalaga nr. 38/1954 um almennt hæfi til þess að fá skipun í starf. Verður ekki séð að umsækjandi sá, sem skipaður var, hafi ekki uppfyllt þau skilyrði eða önnur skilyrði, sem eðli máls samkvæmt þarf til rækslu starfans.

Ekki verður af gögnum málsins séð, að ólöglega hafi verið staðið að skipun í stöðu þessa né að ólögmæt sjónarmið hafi legið að baki ákvörðun ráðherra.

Á hinn bóginn er það meginregla í stjórnsýslurétti að skriflegum erindum skuli svarað skriflega. Bar því að svara fyrrgreindu bréfi A frá 13. desember 1993.

IV.

Það er samkvæmt ofansögðu niðurstaða mín, að ekki séu efni til frekari afskipta minna af máli þessu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis."