Skattar og gjöld. Álagning úrvinnslugjalds á ökutæki. Framsal á skattlagningarvaldi.

(Mál nr. 4117/2004)

A kvartaði yfir því að á hann hefði ekki verið lagt úrvinnslugjald samkvæmt 5. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, fyrir gjaldatímabilið 1. janúar 2003 til 30. júní 2003. Leiddi það til þess að beiðni hans um að fá greitt svokallað skilagjald samkvæmt 6. gr. sömu laga var hafnað er hann afhenti bifreið sína til förgunar.

Samkvæmt orðalagi 5. gr. laga nr. 162/2002, eins og þau höfðu verið samþykkt á Alþingi og birt í Stjórnartíðindum 30. desember 2002, var öllum eigendum ökutækja gert skylt að greiða úrvinnslugjald af ökutækjum sínum óháð því hvort viðkomandi bæri að greiða bifreiðagjald samkvæmt lögum um það efni. Er lögin tóku gildi 1. janúar 2003 hafði fjármálaráðuneytið með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 17. desember 2002, ákveðið að fresta álagningu úrvinnslugjalds á þau ökutæki sem undanþegin voru bifreiðagjaldi til 1. júlí 2003 svo komast mætti hjá viðbótarkostnaði hjá ríkisskattstjóra. Lög nr. 8/2003, sem samþykkt voru á Alþingi 11. febrúar og birt í Stjórnartíðindum 12. mars 2003, veittu frestuninni lagastoð.

Umboðsmaður taldi í álitinu að úrvinnslugjald hefði fremur samstöðu með sköttum en þjónustugjöldum. Benti hann á að samkvæmt 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 væri óheimilt að framselja vald til að afnema skatta til stjórnvalda. Því yrði ekki séð að fjármálaráðherra hafi verið heimilt að fresta því að úrvinnslugjald yrði lagt á með þeim hætti sem mælt væri fyrir um í 5. gr. laga nr. 162/2002 nema að lög kvæðu beinlínis á um það. Fram að gildistöku laga nr. 8/2003 hefði enga stoð verið að finna í lögum fyrir þeirri ákvörðun ráðuneytisins að fresta því til 1. júlí 2003 að leggja úrvinnslugjald á umrædd ökutæki. Í þessu sambandi vakti umboðsmaður sérstaka athygli á því að þessi frestun leiddi ekki einvörðungu til þess að innheimta hjá þeim sem undanþegnir voru greiðslu bifreiðagjalds á gjaldi til Úrvinnslusjóðs féll niður gjaldatímabilið 1. janúar til 30. júní 2003 heldur féll með því einnig niður réttur þeirra til að fá greitt skilagjald þegar þeir afhentu bifreiðar sínar til endurnýtingar eða förgunar þar sem greiðsla á úrvinnslugjaldi var skilyrði þess að fá skilagjaldið greitt.

Þar sem lög nr. 8/2003 höfðu tekið gildi þegar ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd fjölluðu um beiðni A um að úrvinnslugjald yrði lagt á hann fyrir ofangreint gjaldatímabil taldi umboðsmaður ekki tilefni til athugasemda við úrlausnir þessara stjórnvalda á erindum hans. Þá benti umboðsmaður einnig á að lögin höfðu tekið gildi þegar A afskráði bifreið sína og afhenti til móttökustöðvar. Á þeim tíma gat hann því ekki vænst þess miðað við þágildandi löggjöf að fá greitt skilagjald gegn greiðslu úrvinnslugjalds. Því taldi umboðsmaður ólíklegt að hann gæti átt rétt á því að stjórnvöld réttu hlut hans á þeim grundvelli einum að fjármálaráðuneytið hefði ekki haft viðhlítandi lagaheimild til að fresta álagningu úrvinnslugjalds á ökutæki sem undanþegin voru bifreiðagjaldi uns lög nr. 8/2003 tóku gildi. Hann beindi hins vegar þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins að það tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

I.

Hinn 18. maí 2004 leitaði A til mín og kvartaði yfir því að á hann hefði ekki verið lagt úrvinnslugjald ökutækis samkvæmt 5. gr. laga nr. 162/2002 fyrir gjaldtímabilið 1. janúar 2003 til 30. júní 2003. Leiddi það til þess að beiðni hans um að fá greitt svokallað skilagjald samkvæmt 6. gr. sömu laga var hafnað er hann afhenti bifreið sína til förgunar.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 14. október sl.

II.

Málsatvik eru þau að 6. júní 2003 tók A ökutæki sitt X af skrá hjá Umferðarstofu. Hinn 26. september 2003 fór hann með bifreiðina til Hringrásar ehf., sem annast förgun bifreiða, og hugðist fá greitt 10.000 kr. skilagjald samkvæmt 6. gr. laga nr. 162/2002 gegn afhendingu bifreiðarinnar. Eins og fram hefur komið fékk hann skilagjaldið ekki greitt vegna þess að ekki hafði verið greitt úrvinnslugjald af bifreiðinni.

Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 2. október 2003, fór A fram á að honum yrði gert að greiða úrvinnslugjald af bifreiðinni vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní 2003. Ríkisskattstjóri svaraði erindi hans með bréfi, dags. 20. október 2003. Þar segir meðal annars:

„Þann 13. desember 2002 voru samþykkt á Alþingi lög um úrvinnslugjald, er hlutu laganúmerið 162/2002, og tóku gildi 1. janúar 2003. Samkvæmt 5. gr. laganna skulu eigendur gjaldskyldra ökutækja greiða úrvinnslugjald. Gjaldskylda tekur til sömu ökutækja og gjaldskylda samkvæmt 12. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988 um bifreiðagjald tekur til, en auk þess til þeirra bifreiða sem undanþegnar eru bifreiðagjaldi samkvæmt 4. gr. sömu laga. Í úrvinnslugjaldslögunum er ríkisskattstjóra falin álagning úrvinnslugjalds.

Þann 17. desember 2002, eða nokkru áður en lögin um úrvinnslugjald skyldu koma til framkvæmda, ákvað fjármálaráðuneytið að fresta til 1. júlí 2003 framkvæmd laganna að því er varðaði álagningu úrvinnslugjalds vegna bifreiða sem undanþegnar voru bifreiðagjaldi samkvæmt áðurnefndu ákvæði 4. gr. laga nr. 39/1988. Gaf ráðuneytið ríkisskattstjóra þau fyrirmæli að ekki skyldi lagt á úrvinnslugjald fyrir gjaldtímabilið 1. janúar til 30. júní 2003 vegna þeirra bifreiða er frestunin tæki til, hvorki við almenna álagningu gjaldsins 1. janúar 2003 né afturvirkt við almenna álagningu gjaldsins þann 1. júlí 2003.

Með lögum nr. 8/2003, um breytingu á lögum um úrvinnslugjald nr. 162/2002, sem birt voru í Stjórnartíðindum 12. mars 2003 og öðluðust þá þegar gildi, var bætt við úrvinnslugjaldslögin ákvæði til bráðabirgða þess efnis að ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna kæmi til framkvæmda 1. júlí 2003. Bráðabirgðaákvæðið er því efnislega samhljóða áðurnefndri ákvörðun fjármálaráðuneytisins frá 17. desember 2002. Samkvæmt lagaákvæðinu skal ekki lagt á úrvinnslugjald fyrir gjaldtímabilið 1. janúar til 30. júní 2003 vegna þeirra bifreiða sem undanþegnar voru bifreiðagjaldi á því tímabili.

Meðal þeirra bifreiða sem undanþegnar eru bifreiðagjaldi samkvæmt 4. gr. laga um bifreiðagjald eru bifreiðir í eigu þeirra sem fá greiddan frá Tryggingastofnun ríkisins; örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna. Þar sem bifreið yðar, [X], féll undir undanþágu þessa skuluð þér ekki sæta álagningu úrvinnslugjalds vegna hennar fyrir gjaldtímabilið 1. janúar til 30. júní 2003. Ríkisskattstjóri hefur hvorki samkvæmt lögum né stjórnvaldsfyrirmælum heimild til álagningar úrvinnslugjalds við þær aðstæður sem hér um ræðir.“

Með bréfi, dags. 28. nóvember 2003, kærði A ákvörðun ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Umfjöllun nefndarinnar um málið lauk með úrskurði, dags. 12. maí 2004. Þar var vísað til þeirra ákvæða laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, sem fjalla um álagningu gjaldsins og greiðslu skilagjalds af bifreiðum. Þess var enn fremur getið í úrskurðinum að með 1. gr. laga nr. 8/2003, um breytingu á lögum um úrvinnslugjald nr. 162/2002, hafi verið bætt við lögin ákvæði IV til bráðabirgða þar sem því var frestað til 1. júlí 2003 að ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna kæmi til framkvæmda. Síðan sagði eftirfarandi í úrskurði yfirskattanefndar:

„Það leiðir af framangreindu að ákvæði laga nr. 162/2002 um álagningu úrvinnslugjalds á bifreiðar sem eru undanþegnar bifreiðagjaldi samkvæmt 4. gr. laga nr. 39/1988 komu ekki til framkvæmda fyrr en á gjaldtímabilinu 1. júlí til 31. desember 2003. Af hálfu kæranda er hins vegar byggt á því að sú frestun á gildistöku laga nr. 162/2002, að því er varðar gjaldtöku úrvinnslugjalds vegna slíkra bifreiða, sem 1. gr. laga nr. 8/2003 mælir fyrir um, feli í sér „augljóst brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár“, sbr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Af því tilefni skal tekið fram að yfirskattanefnd á ekki úrskurðarvald um það hvort einstök lagaákvæði kunni að brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar og er því ekki bær til umfjöllunar um málsástæður sem á slíku eru byggðar.“

Var kröfu A um að fá að greiða úrvinnslugjald fyrir fyrra greiðslutímabil ársins 2003 vegna bifreiðarinnar X hafnað af yfirskattanefnd.

III.

Með bréfi til fjármálaráðuneytisins, dags. 7. júní 2004, lýsti ég umkvörtunarefni A og þeim lagareglum sem málið snerist um. Óskaði ég eftir því, með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið upplýsti hvort það væri rétt að ákveðið hefði verið að fresta gildistöku ákvæðis 2. mgr. 5. gr. laga nr. 162/2002 með þeim hætti sem greint var frá í niðurstöðu ríkisskattstjóra. Ef svo væri fór ég fram á það, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, að ráðuneytið gerði grein fyrir því hvaða lagasjónarmið lægju til grundvallar þeirri ákvörðun. Þá óskaði ég eftir að upplýst yrði hvernig framkvæmd á innheimtu úrvinnslugjalds hefði verið háttað frá og með 1. júlí 2003 hjá þeim aðilum sem undanþegnir voru greiðslu bifreiðagjalds samkvæmt lögum nr. 39/1988.

Svarbréf fjármálaráðuneytisins barst mér 1. júlí 2004. Þar segir eftirfarandi:

„Mál þetta snýst um frestun á gildistöku ákvæðis 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald. Ítarlega málavaxtalýsingu er að finna í úrskurði yfirskattanefndar nr. 168/2004, sem og erindi umboðsmanns Alþingis, og er ekki ástæða til að endurtaka hana hér. Umrædd frestun leiddi til þess að beiðni [A] um greiðslu skilagjalds vegna bifreiðar hans var hafnað á þeim forsendum að hann hefði ekki greitt úrvinnslugjald vegna bifreiðarinnar. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 168/2004 var hafnað þeirri kröfu [A] að úrvinnslugjald yrði lagt á bifreið hans vegna tímabilsins 1. janúar til 30. júní 2003.

I.

Í erindi umboðsmanns Alþingis óskar umboðsmaður eftir því að ráðuneytið veiti upplýsingar um hvort rétt sé að ákveðið hafi verið að fresta gildistöku ákvæðis 2. mgr. 5. gr. laga nr. 162/2002 með þeim hætti sem greint er frá í erindi umboðsmanns.

Ráðuneytið getur staðfest að lýsing umboðsmanns Alþingis á aðdraganda og framkvæmd frestunar á gildistöku ákvæðis 2. mgr. 5. gr. laga nr. 162/2002, eins og hún kemur fram í bréfi umboðsmanns dags. 7. júní, er rétt. Ráðuneytið vekur athygli á meðfylgjandi bréfi ráðuneytisins til ríkisskattstjóra, dags. 17. desember 2002, þar sem kemur m.a. fram að vegna „þess skamma tíma sem er til gildistöku laganna hefur ráðuneytið, í samráði við umhverfisráðuneytið, ákveðið að framkvæmd 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna verði frestað til 1. júlí 2003.“

Ástæður þessarar ákvörðunar koma fram í meðfylgjandi bréfi ráðuneytisins til ríkisskattstjóra þar sem segir að í bréfi ríkisskattstjóra til ráðuneytisins, dags. 10. desember 2002, komi fram „að embættið geri ráð fyrir að verulegur kostnaður verði af álagningu úrvinnslugjalds hjá embættinu. Annars vegar sé gert ráð fyrir að árlegur kostnaður verði um 7 milljónir króna, sem sé vegna prentunar og dreifingar álagningarseðla og gíróseðla auk launa- og umsýslukostnaðar, og hins vegar sé kostnaður við hugbúnaðargerð áætlaður um 6 milljónir króna í upphafi. Breyting á hugbúnaði er nauðsynleg þar sem gert sé ráð fyrir að álagning úrvinnslugjalds taki til fleiri ökutækja en bifreiðagjaldið gerir, sbr. lög um bifreiðagjald nr. 39/1988.“

Í bréfi ráðuneytisins, dags. 17. desember 2002, kemur fram að með „ákvörðun ráðuneytisins um að fresta álagningu úrvinnslugjalds á ökutæki sem undanþegin eru bifreiðagjaldi samkvæmt lögum um bifreiðagjald vinnst tími til að undirbúa og skoða nánar álagningu úrvinnslugjalds á þau ökutæki og þann viðbótarkostnað sem af henni hlýst. Ekki verður annað séð en yfirgnæfandi hluti þess aukna rekstrarkostnaðar sem embætti ríkisskattstjóra hefur áætlað sé til kominn vegna þess að álagning úrvinnslugjalds á ökutæki tekur til mun fleiri ökutækja en bifreiðagjaldið tekur til. Með því að fresta framkvæmd á 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna telur ráðuneytið að komist verði hjá viðbótarrekstrarkostnaði hjá embættinu vegna breytinganna nú þar sem miðað er við að tiltaka megi bæði bifreiðagjald og úrvinnslugjald á sama greiðsluseðli, eins og fram kemur í umsögn ríkisskattstjóra til umhverfisnefndar dags. 30. nóvember. Ekki er ætlunin með þessari frestun að leggja úrvinnslugjald á afturvirkt 1. júlí 2003, þ.e. vegna tímabilsins 1. janúar til 30. júní 2003.“

II.

Í bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 7. júní, er jafnframt óskað eftir því að ráðuneytið geri grein fyrir hvaða lagasjónarmið lágu til grundvallar þeirri ákvörðun að fresta gildistöku ákvæðis 2. mgr. 5. gr. laga nr. 162/2002.

Ráðuneytið bendir á að þau lagasjónarmið sem lágu til grundvallar þeirri ákvörðun að fresta gildistöku ákvæðis 2. mgr. 5. gr. laga nr. 162/2002 koma fram í greinargerð með lögum nr. 8/2003, um breytingu á lögum um úrvinnslugjald nr. 162/2002. Í greinargerðinni segir eftirfarandi um 1. gr. laga nr. 8/2003.

„Í 5. gr. laganna er mælt fyrir um að skráður eigandi ökutækis skuli á hverju gjaldtímabili greiða 520 kr. í úrvinnslugjald fyrir hvert gjaldskylt ökutæki í hans eigu samkvæmt lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988. Gjaldið á að innheimta með bifreiðagjaldi með sömu gjalddaga og eindaga. Með 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna er kveðið á um að eigendur bifreiða sem undanþegnir eru bifreiðagjaldi skuli greiða úrvinnslugjald. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að gjaldtöku úrvinnslugjalds á þennan hóp verði frestað til 1. júlí nk. Eru ástæðurnar fyrst og fremst framkvæmdalegs eðlis þar sem embætti ríkisskattstjóra var ekki tilbúið til að hefja gjaldtöku á þennan hóp við gildistöku laganna þar sem hann er undanþeginn greiðslu bifreiðagjalds og því ekki verið gert ráð fyrir honum við útsendingu greiðsluseðla.“

Ráðuneytið bendir á að frumvarp til laga um úrvinnslugjald var samþykkt sem lög frá Alþingi 13. desember 2002 og tóku lögin gildi 1. janúar 2003. Bréf ráðuneytisins til ríkisskattstjóra er dagsett 17. desember 2002 og var á þeim tíma ekki mögulegt að leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um úrvinnslugjald og fresta gildistöku umrædds lagaákvæðis. Varð því að bíða með slíkt frumvarp þar til þing kom saman að nýju í lok janúar 2003. Umrætt frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald var því lagt fyrir Alþingi 30. janúar 2003 og var samþykkt á Alþingi 11. febrúar 2003 og birt sem lög nr. 8/2003 í A-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2003.

III.

Í bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 7. júní, er þess óskað að ráðuneytið upplýsi hvernig framkvæmd innheimtu úrvinnslugjalds hafi verið háttað frá og með 1. júlí 2003 hjá þeim aðilum sem undanþegnir voru greiðslu bifreiðagjalds samkvæmt lögum nr. 39/1988. Ráðuneytið upplýsir umboðsmann hér með um að framkvæmd innheimtu úrvinnslugjalds á þá aðila sem undanþegnir voru greiðslu bifreiðagjalds samkvæmt lögum nr. 39/1988, hefur frá 1. júlí 2003 verið á þann veg að ríkisskattstjóri hefur lagt úrvinnslugjald á þessa aðila eins og skýrt er kveðið á um í 5. gr. laga um úrvinnslugjald. Gjaldið er innheimt með bifreiðagjaldi og fer um greiðsluskyldu, gjalddaga, eindaga, innheimtu gjaldsins og kæruheimild samkvæmt lögum um bifreiðagjald nr. 39/1988. Á sama hátt og aðrir aðilar sem greiða úrvinnslugjald af ökutækjum eiga þessir aðilar síðan rétt á skilagjaldi skv. 6. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.

Varðandi framkvæmdina fyrir 1. júlí 2003 vekur ráðuneytið að lokum athygli umboðsmanns Alþingis á meðfylgjandi bréfi frá umhverfisráðuneytinu til úrvinnslusjóðs, dags. 22. júlí 2003, þar sem vísað er til samskonar álitaefnis og um ræðir í erindi umboðsmanns Alþingis. Í bréfi umhverfisráðuneytisins kemur fram að „samkvæmt orðanna hljóðan fær ráðuneytið því ekki séð að lögin heimili álagningu úrvinnslugjalds í slíkum tilvikum á tímabilinu 1. janúar til og með 30. júní 2003 og þar með ekki heldur greiðslu skilagjalds vegna bifreiða sem skráðar voru á tímabilinu 1. janúar til og með 30. júní 1988“.“

Með bréfi, dags. 10. ágúst 2004, gaf ég A kost á því að gera þær athugasemdir við bréf fjármálaráðuneytisins sem hann teldi tilefni til. Athugasemdir hans bárust mér 19. ágúst sl.

IV.

1.

Lög nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, voru samþykkt á Alþingi 13. desember 2002, og undirrituð af forseta Íslands og umhverfisráðherra 20. sama mánaðar. Lögin voru síðan birt í Stjórnartíðindum 30. desember 2002. Samkvæmt 22. gr. laganna tóku þau gildi 1. janúar 2003.

Í 5. og 6. gr. laganna sagði orðrétt:

„5. gr.

Úrvinnslugjald á ökutæki.

Skráður eigandi gjaldskylds ökutækis skal á hverju gjaldtímabili greiða úrvinnslugjald að fjárhæð 520 kr. fyrir hvert gjaldskylt ökutæki sitt skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Gjalddagar úrvinnslugjalds á ökutæki eru 1. janúar ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. janúar – 30. júní og 1. júlí ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. júlí – 31. desember. Gjaldið skal innheimt með bifreiðagjaldi og fer um greiðsluskyldu, gjalddaga, eindaga, álagningu, innheimtu gjaldsins og kæruheimild samkvæmt lögum um bifreiðagjald.

Bifreiðar sem eru undanþegnar bifreiðagjaldi skv. 4. gr. laga um bifreiðagjald eru gjaldskyldar samkvæmt lögum þessum. Gjaldskylda fellur niður frá og með upphafi fyrsta gjaldtímabils eftir að full 15 ár eru liðin frá skráningu ökutækis hér á landi.

6. gr.

Skilagjald á ökutæki.

Greiða skal skilagjald, 10.000 kr., hverjum þeim sem afhendir gjaldskylt ökutæki til móttökustöðvar til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar, enda hafi ökutækið verið afskráð og úrvinnslugjald greitt a.m.k. einu sinni af viðkomandi ökutæki.

Umhverfisráðherra setur í reglugerð ákvæði um fyrirkomulag greiðslu til móttökustöðvar.“

Samkvæmt ofangreindu verður ekki annað séð en að frá og með 1. janúar 2003 hafi eigendum allra ökutækja verið skylt að greiða úrvinnslugjald samkvæmt 5. gr. laganna óháð því hvort viðkomandi bæri að greiða bifreiðagjald samkvæmt lögum um það efni. Var í lögunum kveðið á um að úrvinnslugjaldið skyldi innheimt með bifreiðagjaldi. Þá er ljóst að greiðsla úrvinnslugjalds í að minnsta kosti eitt skipti veitti þeim sem afhenti gjaldskylt ökutæki til móttökustöðvar til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar rétt til að fá greitt skilagjald samkvæmt 6. gr. laganna enda ökutækið þá verið afskráð.

Fyrir liggur að fjármálaráðuneytið ákvað með bréfi, dags. 17. desember 2002, að fresta álagningu úrvinnslugjalds á þau ökutæki sem voru undanþegin bifreiðagjaldi svo komast mætti hjá viðbótarkostnaði hjá embætti ríkisskattstjóra eins og fram kemur í skýringum ráðuneytisins. Í ársbyrjun 2003 var því ekki lagt úrvinnslugjald, vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní 2003, á eigendur ökutækja sem undanþegnir voru greiðslu bifreiðagjalds eins og lögin gerðu þó ráð fyrir að gert yrði.

Hinn 11. febrúar 2003 var á Alþingi samþykkt frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 162/2002 þar sem bætt var við ákvæði til bráðabirgða nýrri málsgrein sem kvað á um að 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna kæmi til framkvæmda 1. júlí 2003. Handhafar forsetavalds rituðu undir lögin ásamt ráðherra 19. febrúar 2003 og þau voru síðan birt í Stjórnartíðindum 12. mars 2003.

Ekki er í lögum nr. 162/2002 eða athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að þeim lögum skýrar vísbendingar um það hvort flokka skuli fégjaldið, sem skráðum eigendum gjaldskyldra ökutækja er gert að greiða samkvæmt 5. gr. laganna, til skatta eða hvort um svokallað þjónustugjald er að ræða sem ætlað er að standa undir kostnaði við tiltekna þjónustu sem veitt er gjaldanda. Í 3. gr. laganna er mælt fyrir um hvernig gjaldinu skuli varið. Er því einungis ætlað að mæta kostnaði sem hlýst af meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, flutningi hans frá söfnunarstöð til móttökustöðvar eða endurnýtingarstöðvar svo og endurnýtingu og förgun úrgangs eftir því sem við á. Gjaldinu er enn fremur ætlað að standa undir kostnaði vegna greiðslu skilagjalda og starfsemi Úrvinnslusjóðs.

Þó að þannig sé mælt fyrir um það í lögunum hvernig því fé skuli varið sem fæst með gjaldtökunni tel ég að gjaldið hafi fremur samstöðu með sköttum en þjónustugjöldum. Vísa ég í því sambandi til þess að um almenna gjaldtöku er að ræða þar sem gjald er lagt á alla eigendur bifreiða vegna starfsemi eða þjónustu sem ef til vill kann að vera fyrirsjáanleg en er ekki veitt í beinu samhengi við greiðslu gjaldsins. Þá er allstórum hluta gjaldsins ætlað að standa undir greiðslu skilagjalds sem greiðist þeim einum sem afhendir ökutæki til móttökustöðvar.

Samkvæmt 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 má engan skatt „á leggja né breyta né af taka nema með lögum“. Þá er mælt fyrir um það í 2. málsl. 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 15. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, að óheimilt sé að fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Með þessu ákvæði hefur stjórnarskrárgjafinn tekið af tvímæli um að óheimilt sé að framselja vald til að afnema skatta til stjórnvalda. Þá virðist löggjafinn hafa áréttað þessar skorður með 21. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, en samkvæmt því ákvæði er ljóst að kröfur hins opinbera verða ekki gefnar eftir nema heimild sé til slíkrar ráðstöfunar í fjárlögum eða annarri löggjöf.

Með hliðsjón af ótvíræðum fyrirmælum stjórnarskrárinnar að þessu leyti fæ ég ekki séð að fjármálaráðherra hafi verið heimilt að fresta því að úrvinnslugjald samkvæmt 5. gr. laga nr. 162/2002 yrði lagt á með þeim hætti sem lögin mæltu fyrir um nema að lög kvæðu beinlínis á um það. Fram að gildistöku laga nr. 8/2003 var enga stoð að finna í lögum fyrir þeirri ákvörðun fjármálaráðuneytisins að fresta því til 1. júlí 2003 að 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 162/2002, sem kveður sérstaklega á um skyldu til greiðslu úrvinnslugjalds af ökutækjum sem undanþegin eru bifreiðagjaldi, kæmi til framkvæmda. Ég vek athygli á því að þessi frestun leiddi ekki einvörðungu til þess að niður féll innheimta á gjaldi til Úrvinnslusjóðs heldur féll þar með einnig niður réttur þeirra bifreiðaeigenda sem afhentu bifreiðar sínar til endurnýtingar eða förgunar til að fá greitt skilagjald þar sem greiðsla á úrvinnslugjaldi var skilyrði þess að fá skilagjaldið greitt.

Í samræmi við framangreint eru það tilmæli mín til fjármálaráðuneytisins að þess verði gætt framvegis að framkvæmd laga sé í samræmi við efni þeirra meðan þeim hefur ekki verið breytt með réttum hætti. Ég minni í þessu sambandi enn fremur á mikilvægi þess að stjórnvöld hugi með ákveðnum fyrirvara að framkvæmd laga áður en þau taka gildi. Þá á aðild ráðherra að störfum Alþingis að veita ráðuneyti hans möguleika á því að koma nauðsynlegum athugasemdum, þ.m.t. um vandkvæði á því að framkvæma ákvæði laga strax við gildistöku þeirra, á framfæri við Alþingi meðan frumvarp til laga er þar til meðferðar. Borgararnir eiga á hinn bóginn að geta treyst því að lög, sem sett hafa verið með stjórnskipunarlega réttum hætti og birt í Stjórnartíðindum, séu framkvæmd af hálfu stjórnvalda í samræmi við efni þeirra og að það sé ekki háð ákvörðun stjórnvalda sjálfra hvort svo eigi að vera.

2.

Eins og fram hefur komið óskaði A eftir því með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 2. október 2003, að honum yrði gert að greiða úrvinnslugjald af bifreið sinni vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní 2003. Þá höfðu lög nr. 8/2003 tekið gildi. Verður að fallast á að rétt hafi verið að taka mið af fyrirmælum þeirra laga við úrlausn á erindi hans. Því er að mínu áliti ekki tilefni til athugasemda við þá niðurstöðu embættis ríkisskattstjóra að ekki stæði heimild til að leggja gjaldið á fyrir umrætt tímabil. Á hið sama við um úrskurð yfirskattanefndar.

Ef framkvæmd laga nr. 162/2002 hefði verið í samræmi við fyrirmæli þeirra, eins og þau voru birt í Stjórnartíðindum 30. desember 2002, og úrvinnslugjald lagt á alla eigendur skráðra ökutækja í ársbyrjun 2003 óháð því hvort greiða bæri bifreiðagjald af þeim eða ekki, hefði A átt þess kost að uppfylla skilyrði 6. gr. laganna með greiðslu úrvinnslugjalds og fá greitt skilagjald gegn afhendingu bifreiðar sinnar til móttökustöðvar. Eftir sem áður er ljóst að lög nr. 8/2003 höfðu tekið gildi þegar A afskráði bifreið sína og afhenti á móttökustöð til förgunar. Á þeim tíma gat hann því ekki vænst þess miðað við þágildandi löggjöf að fá greitt skilagjald gegn greiðslu úrvinnslugjalds. Að svo komnu máli verður því að telja ólíklegt að hann geti átt tilkall til þess að stjórnvöld rétti hlut hans á þeim grundvelli einum að fjármálaráðuneytið hafi ekki haft viðhlítandi lagaheimild til að fresta álagningu úrvinnslugjalds á ökutæki sem undanþegin voru bifreiðagjaldi uns lög nr. 8/2003 tóku gildi.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að ákvörðun fjármálaráðuneytisins um að fresta því til 1. júlí 2003 að 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, sem kveður sérstaklega á um skyldu til greiðslu úrvinnslugjalds af ökutækjum sem undanþegin eru bifreiðagjaldi, kæmi til framkvæmda hafi ekki átt sér stoð í lögum fram til þess er lög nr. 8/2003 tóku gildi. Niðurstaða ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar vegna erindis A átti sér hins vegar stoð í lögunum eins og þeim hafði verið breytt með lögum nr. 8/2003.

Með hliðsjón af atvikum málsins tel ég ólíklegt að A geti átt tilkall til þess að stjórnvöld rétti hlut hans á þeim grundvelli einum að fjármálaráðuneytið hafi ekki haft viðhlítandi lagaheimild til að fresta álagningu úrvinnslugjalds á ökutæki sem undanþegin voru bifreiðagjaldi uns lög nr. 8/2003 tóku gildi. Hins vegar beini ég þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins að það taki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í álitinu.