Foreldrar og börn. Afturvirk breyting á framfærslusamningi. Frestun réttaráhrifa.

(Mál nr. 3087/2000)

A kvartaði yfir úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þar sem hafnað var þeirri kröfu hans að B, fyrrum sambýliskonu hans og barnsmóður, yrði gert að greiða honum meðlag vegna tveggja barna þeirra frá 1. júlí 1999 þar til dómur gengi í Hæstarétti í forsjármáli þeirra. Staðfesti ráðuneytið niðurstöðu sýslumanns um að B bæri aðeins skylda til að greiða A meðlag frá 1. janúar 2000 þar til niðurstaða héraðsdóms í forsjármáli þeirra lægi fyrir.

Í bréfi umboðsmanns til A, dags. 13. nóvember 2001, rakti hann ákvæði 1. og 2. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 16. gr. barnalaga nr. 20/1992. Taldi hann að orðalag greinanna og lögskýringargögn að baki þeim bentu eindregið til þess að það hefði verið vilji löggjafans að almennt yrðu ekki gerðar breytingar á samningi um framfærslueyri aftur í tímann „nema alveg sérstakar ástæður“ væru til þess. Reglan miðaði einnig að því að krafa um breytingu á greiðslu framfærslueyris væri sett fram samhliða því að tilefni yrði til breytinga og þá meðal annars með hliðsjón af hagsmunum og hugsanlegri röskun á fjárhagslegum högum þess sem sæta þyrfti því að verða gert að greiða framfærslueyri eða sæta breytingum á áður ákvörðuðum greiðslum. Taldi umboðsmaður sér ekki fært að fullyrða að niðurstaða ráðuneytisins hefði verið byggð á röngum eða ómálefnalegum sjónarmiðum og gerði því ekki athugasemdir við niðurstöðu þess um að hafna kröfu A um afturvirka breytingu á framfærslusamningi hans og B.

Umboðsmaður tók fram að í dómi héraðsdóms hefði B verið dæmd forsjá barnanna. Benti umboðsmaður á að samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, væri dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila um þær kröfur sem væru dæmdar þar að efni til. Yrði þannig að ganga út frá því sem meginreglu að áfrýjun héraðsdóms til Hæstaréttar frestaði ekki sem slík efnislegum réttaráhrifum þess dóms, í þessu tilviki um það að B færi með forsjá barnanna, nema skýrlega væri mælt fyrir um slíka frestun í lögum. Taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að A hefði ekki farið með forsjá barna sinna í merkingu 2. mgr. 19. gr. barnalaga eftir að héraðsdómur var kveðinn upp.

Að lokum benti umboðsmaður á að ef umsækjandi um framfærslueyri færi ekki með forsjá barns gæti hann þó krafist þess, stæði hann straum af útgjöldum barnsins, að framfærslueyrir væri ákveðinn og innheimtur byggi það hjá honum samkvæmt „lögmætri skipan“, sbr. 2. mgr. 19. gr. barnalaga. Með vísan til lögskýringargagna taldi umboðsmaður ljóst að ekki væri um slíkar aðstæður að ræða í tilviki A enda hefði B leitað til dómstóla og sýslumanns um að fá dómi héraðsdóms fylgt eftir samkvæmt efni hans. Taldi umboðsmaður því ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að börn A hefðu ekki búið hjá honum samkvæmt „lögmætri skipan“ í skilningi 2. mgr. 19. gr. barnalaga eftir að héraðsdómur dæmdi að B hefði forsjá barnanna.