Lífeyrismál. Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins. Eftirmannsregla.

(Mál nr. 3020/2000)

A kvartaði yfir synjun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á ósk hans um eins launaflokks hækkun á lífeyrisgreiðslum til hans úr sjóðnum með vísan til þess að eftirmaður A hefði fengið slíka hækkun vegna námskeiðs sem hann hafði sótt. Var synjunin byggð á þeirri framkvæmd sjóðsins að líta á sérstakar hækkanir á launum eftirmanns vegna námskeiða sem einstaklingsbundnar hækkanir sem leiddu ekki til samsvarandi hækkana ellilífeyris.

Í bréfi sínu til A, dags. 1. nóvember 2001, rakti umboðsmaður ákvæði 12. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, um svokallaða eftirmannsreglu. Benti hann á að samkvæmt ákvæðinu hefði reglan verið sú að upphæð ellilífeyris skyldi við upphaf töku hans og eftir að taka hans hófst vera hundraðshluti af launum þeim er á hverjum tíma „fylgja starfi því, sem sjóðfélagi gegndi síðast“. Með vísan til lögskýringargagna taldi umboðsmaður að ekki yrði fullyrt að þetta orðalag ákvæðisins hefði leitt til þess að stofn til útreiknings á ellilífeyri viðkomandi sjóðfélaga skyldi ávallt vera sá sami og þau föstu laun fyrir dagvinnu sem greidd væru eftirmanni hans. Þá gat hann þess að í lögskýringargögnum hefði aðeins verið vikið að því að almennar breytingar á launum skyldu hafa samsvarandi breytingar í för með sér á ellilífeyri. Umboðsmaður benti á að með I. kafla laga nr. 141/1996, um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins, sem voru endurútgefin sem lög nr. 1/1997, hefðu verið gerðar umtalsverðar breytingar á efni og skipan laga nr. 29/1963. Taldi hann hins vegar að ekki yrði séð af lögskýringargögnum að réttarstaða sjóðfélaga sem völdu hina einstaklingsbundnu viðmiðun ellilífeyris, sbr. 35. gr. laga nr. 1/1997, hefði átt að taka breytingum þrátt fyrir að orðalag greinarinnar sé ekki að öllu leyti það sama og 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963. Með hliðsjón af þessu taldi hann ekki unnt að fullyrða að réttur þeirra næði nú til þess að ellilífeyrir þeirra breyttist til samræmis við breytingar sem yrðu á viðkomandi launum umfram það sem talið væri að þeir ættu rétt á samkvæmt lögum nr. 29/1963. Þá væri ljóst að af þessum lagabreytingum leiddi ekki að reiknistofn ellilífeyris viðkomandi sjóðfélaga skyldi ávallt vera sá sami og föst laun sem greidd eru eftirmanni hans fyrir fullt starf, enda mælir ákvæðið aðeins fyrir um að ellilífeyrir skuli „breytast til samræmis við breytingar“ á launum fyrir það starf er viðkomandi sjóðfélagi gegndi síðast. Með vísan til framangreinds taldi hann ekki unnt að fullyrða að sú framkvæmd sem mótast hefði hjá lífeyrissjóðnum og lýst væri í bréfi sjóðsins til sín væri í ósamræmi við lög.