Málsmeðferð stjórnvalda. Stjórnvaldsákvörðun. Stjórnsýslukæra. Rannsóknarreglan. Framsending máls. Tannlækningar.

(Mál nr. 3340/2001)

B, hæstaréttarlögmaður, kvartaði fyrir hönd Tannlæknafélags Íslands og A, tannlæknis, yfir úrskurði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins þar sem stjórnsýslukæru hans var vísað frá ráðuneytinu á þeim grundvelli að hin kærða athöfn hefði ekki verið stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beindist kæran að þeirri ákvörðun tryggingayfirtannlæknis Tryggingastofnunar ríkisins að óska eftir rannsókn landlæknisembættisins á læknismeðferð A á tilgreindum sjúklingi.

Í bréfi umboðsmanns til B, dags. 1. nóvember 2001, rakti hann 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður taldi að sú athöfn tryggingayfirtannlæknis að beina því til landlæknisembættisins að rannsaka meintar ávirðingar, sem honum höfðu borist á hendur A, hefði ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga. Vó þar þyngst að með bréfinu var málinu ekki lokið og að í því kom ekki fram afstaða tryggingayfirtannlæknis til réttmætis þeirra ásakana sem þar voru raktar. Þá yrði ekki séð að erindið til landlæknis hefði haft áhrif á réttindi og skyldur A eða íþyngjandi áhrif á réttarstöðu hans. Væri með því lagt í hendur landlæknis að ákveða með hvaða hætti embættið rannsakaði málið á grundvelli eftirlitsskyldna sinna. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til athugasemda við afstöðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og fékk ekki séð að kæruréttur á öðrum lagagrundvelli hefði verið fyrir hendi. Með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, 1. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, og 12. gr. laga nr. 38/1985, um tannlækningar, taldi hann að landlæknir hefði haft heimild til að fjalla um ávirðingarnar og taldi því ekki ástæðu til að gera athugasemd við þá ákvörðun tryggingayfirtannlæknis að beina erindinu til landlæknis.

Að lokum tók umboðsmaður fram að ekki hvíldi skylda á stjórnvaldi, sem væri óheimilt að lögum að fjalla efnislega um mál, að rannsaka það með þeim hætti sem 10. gr. stjórnsýslulaga mælti fyrir um áður en málið væri framsent þar til bæru stjórnvaldi. Hefði það verið komið undir mati tryggingayfirtannlæknis hvort fram komnar upplýsingar hefðu verið nægjanlegar til að hann gerði landlækni viðvart. Það hefði síðan verið á valdi landlæknis að ákveða hvort tilefni væri til rannsóknar í ljósi erindisins. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til að gera athugasemd við rannsókn málsins af hálfu tryggingayfirtannlæknis eða að A hefði ekki verið gefinn kostur á því að koma að athugasemdum sínum áður en tilkynnt var um hinar meintu ávirðingar til landlæknis.