Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málsaðild. Stjórnvöld geta ekki skotið ágreiningi sín í milli til umboðsmanns.

(Mál nr. 3391/2001)

Raunvísindastofnun Háskólans kvartaði yfir synjun fjármálaráðuneytisins og tollstjórans í Reykjavík á beiðni hennar um að aðflutningsgjöld yrðu felld niður af tilteknu mælitæki sem keypt var fyrir styrki úr Bygginga- og tækjasjóði Rannsóknarráðs Íslands, Rannsóknasjóði og Tækjakaupasjóði Háskóla Íslands.

Í bréfi sínu, dags. 31. desember 2001, til raunvísindastofnunar benti umboðsmaður á að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, gæti hver sá sem teldi sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem félli undir ákvæði 1. eða 2. mgr. 3. gr. laganna kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Ætti þetta við alla einstaklinga og félög en hins vegar gætu stjórnvöld aftur á móti ekki kvartað til umboðsmanns yfir ákvörðunum og athöfnum annarra stjórnvalda. Með vísan til laga og reglugerða um Raunvísindastofnun Háskólans taldi umboðsmaður að stofnunin teldist stjórnvald. Uppfyllti kvörtunin því ekki almennt skilyrði laga til þess að umboðsmaður Alþingis gæti fjallað um hana.

Umboðsmaður tók fram að umboðsmaður Alþingis hefði í undantekningartilvikum tekið til athugunar kvartanir frá stjórnvöldum, einkum sveitarfélögum, yfir ákvörðunum annarra stjórnvalda. Þar sem í þessu máli væri hins vegar uppi ágreiningur milli stjórnvalda innbyrðis um ráðstöfun fjármuna Háskóla Íslands sem ríkisstofnunar og þar með úr sjóðum sem stofnað hefði verið til innan háskólans til þess meðal annars að ráðstafa fjárveitingum á fjárlögum til hans taldi hann að ekki væru fyrir hendi þær aðstæður í málinu að tilefni væri til að gera undantekningu frá því að umboðsmaður Alþingis taki ekki til meðferðar kvörtun frá einu stjórnvaldi yfir ákvörðun annars stjórnvalds.