Sveitarfélög. Styrkveitingar til einkarekinna leikskóla.

(Mál nr. 3169/2001)

A og B kvörtuðu yfir tilhögun styrkveitinga Reykjavíkurborgar til einkarekinna leikskóla. Töldu þau að ósamræmi væri annars vegar á milli þeirra styrkja sem leikskólar Reykjavíkur greiddu með börnum á einkareknum leikskólum og hins vegar þeirri gjaldskrá sem í gildi væri hjá leikskólum Reykjavíkur. Var því einkum haldið fram að það færi í bága við jafnræðisreglur að ekki væri greiddur hærri styrkur en sem næmi hinum almenna styrk til einkarekinna leikskóla vegna barns foreldris þar sem annað foreldri er í námi þar sem foreldrar í sömu aðstöðu hjá leikskólum borgarinnar greiddu samkvæmt gjaldskrá sérstakt námsmannagjald sem væri 6.900 kr. lægra en almennt gjald. Töldu þau að beita ætti sömu félagslegu sjónarmiðum við ákvörðun um styrkveitingar til einkarekinna leikskóla og beitt væri við ákvörðun um gjaldskrá fyrir leikskóla Reykjavíkurborgar.

Í bréfi sínu til A og B, dags. 21. desember 2001, rakti umboðsmaður að í kjölfar fyrirspurna hans til Reykjavíkurborgar hefði honum borist bréf frá skrifstofu borgarstjórnar þar sem fram kom að farið hefði verið yfir sjónarmið þeirra og væri niðurstaðan sú að „þau [gæfu] tilefni til breytinga á fyrirkomulagi styrkveitinga til einkarekinna leikskóla“. Jafnframt var tekið fram að borgarstjóri hefði skipað starfshóp til að fara ítarlega yfir útgjöld og gjaldskrá vegna barna á leikskólaaldri og gera tillögur á fyrstu mánuðum nýs árs til breytinga á gildandi kerfi. Yrði markmið slíkrar skoðunar að reglur um styrki til leikskóla yrðu gagnsæjar og sjónarmið að baki þeim skýr. Með vísan til þessarar afstöðu Reykjavíkurborgar sem umboðsmaður skildi svo að fallist hefði verið á sjónarmið þeirra A og B ákvað hann að ljúka umfjöllun sinni um kvörtunina.