Fangelsismál. Aðgerðir í tengslum við leit í klefum. Beiting handjárna.

(Mál nr. 3399/2001)

A og sjö aðrir fangar í fangelsinu Litla-Hrauni kvörtuðu yfir úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í tilefni af kæru sinni vegna einangrunar sem þeir töldu sig hafa þurft að sæta og beitingar handjárna í tengslum við leit sem gerð var í klefum þeirra. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi til þeirra, dags. 18. mars 2002, þar sem hann tók fram að ekki væri tilefni til þess að hann gerði frekari athugasemdir við þær aðgerðir fangelsisyfirvalda á Litla-Hrauni sem kvörtunin beindist að.

Í bréfi umboðsmanns sagði m.a. svo:

„[...]

2.

Í kvörtun yðar er dregið í efa réttmæti þeirrar niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að framangreindar aðgerðir fangelsisyfirvalda 27. október 2001 hafi verið lögmætar. Í fyrsta lagi er rakið í kvörtuninni að sú niðurstaða að ekki hafi verið um að ræða einangrun í merkingu 30. gr. laga nr. 48/1988, og þá með þeim réttaráhrifum sem slíkri ákvörðun fylgir, sé röng. Engin lagaheimild sé til staðar til að beita því úrræði sem ráðuneytið kalli skammtíma biðstöðuvistun.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, er fangelsisyfirvöldum heimilt að gera upptækt áfengi, önnur vímuefni og lyf, sem fangi hefur í fórum sínum við komu í fangelsið eða kemst yfir í því. Þá eru heimildir í 28. gr. til að gera líkamsleit á fanga, m.a. vegna gruns um að fangi feli á sér innan klæða slík efni. Af þessum lagareglum verður ráðin almenn heimild fangelsisyfirvalda til að gera eðlilegar ráðstafanir að virtri meðalhófsreglu til að stemma stigu við innstreymi og tilvist vímuefna í fangelsinu, m.a. með því að gera leit í klefum fanga og líkamsleit á þeim ef ákveðinn grunur er til staðar. Ég tel að gera verði ráð fyrir því að undir þessa almennu heimild fangelsisyfirvalda í slíkum tilvikum falli ráðstafanir sem eru í málefnalegum og eðlilegum tengslum við aðgerðir til að sporna við innstreymi vímuefna og tilvist þeirra á meðal fanga, s.s. að vista fanga í skamman tíma í öðrum klefa á meðan leitað er í þeim klefa þar sem hann hefur verið vistaður. Ég tek fram að gera verður hins vegar ríkar kröfur til þess að allar slíkar ráðstafanir hafi það aðeins að markmiði að auðvelda eðlilega framkvæmd leitar og koma í veg fyrir að fangar komi vímuefnum undan af því tilefni. Tel ég því t.d. vafasamt að heimilt sé að beita slíkri ráðstöfun í því skyni að rannsaka þátttöku og hlutdeild fanga í ætluðu broti á refsilögum, sbr. álit mitt frá 15. ágúst 2001 í máli nr. 3123/2000. Samkvæmt þessu tel ég að fangelsisyfirvöldum sé heimilt að lögum að vista fanga í öðrum klefum í skamman tíma á meðan leit fer fram í tilefni af ákvörðun um að leita í tilteknum klefa, eða eftir atvikum í öllum klefum á tiltekinni deild, og þá án þess að slík ráðstöfun verði talin vera einangrun í merkingu 30. gr. laga nr. 48/1988, sjá hér álit mitt í tilefni af athugun á tilgreindum þáttum um réttarstöðu afplánunarfanga og meðferð mála hjá fangelsisyfirvöldum frá 27. nóvember 2001, mál nr. 2805/1999, kafli IV, 3.5.

Samkvæmt gögnum málsins virðast atvik hafa verið þau 27. október 2001 að grunur hafi vaknað hjá fangelsisyfirvöldum um að fíkniefni væru til staðar á deild 3A. Hafi því verið ákveðið af yfirstjórn fangelsisins að gera leit í þeim klefum sem eru á þeirri deild. Í skýrslu öryggisfulltrúa í fangelsinu, dags. 27. október 2001, kemur fram að „sérsveit fangavarða“ hafi verið kölluð út af þessu tilefni auk þess sem tveir lögreglumenn frá lögreglunni á Selfossi hafi verið við leitina. Þá hafi verið tekin ákvörðun um að gera líkamsleit á þeim föngum sem þar voru vistaðir og vista þá á öðrum stað í fangelsinu á meðan leitin færi fram, þ.e. í lausum klefum í húsi 4 og í húsi 1. Þá er því haldið fram af hálfu stjórnvalda að til þess að tryggja að þeir fangar sem fluttir voru í hús 1 af þessu tilefni gætu ekki komið frá sér fíkniefnum hafi þeir verið handjárnaðir á meðan farið var með þá á milli húsa.

Í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 10. desember 2001, er fjallað um þá málsástæðu í stjórnsýslukæru yðar að vistun yðar í öðrum klefum í fangelsinu meðan á leit stóð hafi verið einangrun í merkingu laga nr. 48/1988. Í úrskurðinum er að þessu leyti rakið að tilgangurinn með flutningnum hafi annars vegar verið sá að gera líkamsleit á föngum og hins vegar að sjá til þess að fangi væri fjarstaddur þegar leitað væri í þeim klefa á deild 3A þar sem hann var vistaður. Þegar búið hafi verið að gera líkamsleit á föngunum hafi í sjálfu sér ekkert mælt gegn því að þeir væru hafðir saman eða geymdir í öðrum vistarverum en klefum í annarri byggingu allt eftir því hvar laust pláss var fyrir hendi í fangelsinu. Þá segir í úrskurðinum að samkvæmt þessu sé ekki rétt að líta svo á að umræddir fangar hafi verið settir í einangrun heldur hafi verið um að ræða „skammtíma biðstöðuvistun“. Hafi því aðgerð yfirstjórnar fangelsisins á Litla-Hrauni ekki leitt til þess að henni hafi verið skylt að viðhafa þá málsmeðferð sem greinir í 4. mgr. 30. gr. laga nr. 48/1988. Ég bendi hér á að í skýrslu öryggisfulltrúa á Litla-Hrauni til forstöðumanns fangelsisins, dags. 26. nóvember sl., er rakið að það sé vinnuregla fangavarða að tilkynna fanga um leit í klefa hans sem og að tilkynna honum eftir á ef hlutir eru teknir úr klefanum. Það sé hins vegar ekki venja að kynna fanga ástæðu leitarinnar.

Ég hef rakið hér að framan að fangelsisyfirvöldum kunni að vera heimilt að lögum að vista fanga í öðrum klefum í skamman tíma á meðan leit fer fram í tilefni af ákvörðun um að leita í tilteknum klefa, eða eftir atvikum í öllum klefum á tiltekinni deild, og þá án þess að slík ráðstöfun verði talin vera einangrun í merkingu 30. gr. laga nr. 48/1988. Af þeim gögnum sem fyrir mig hafa verið lögð fæ ég ekki annað séð en að umræddir fangar hafi verið færðir í aðra lausa klefa í fangelsinu í mjög skamman tíma á meðan leit var gerð í klefum á deild 3A í því skyni að ganga úr skugga um hvort grunur um tilvist fíkniefna á deildinni hafi verið á rökum reistur. Þá hafi föngunum verið heimilt að fara aftur til klefa sinna um leið og leitaraðgerðinni var lokið.

Ég minni auk þess á það, vegna athugasemda yðar um að umræddir fangar hefðu ekki á umræddum tíma haft aðgang að síma til að ræða við aðstandendur, að samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 48/1988 eiga fangar rétt á símtölum við aðila utan fangelsis að því marki sem aðstæður leyfa í fangelsinu. Taki fangelsisyfirvöld þá ákvörðun að leita í klefa fanga eða í öllum klefum á tiltekinni deild, og vista þá fanga sem í hlut eiga í lausum klefum um skamman tíma, kann sú ráðstöfun að hafa þau áhrif að erfitt geti verið að koma því við að viðkomandi fangar hafi aðgang að síma meðan á slíkri aðgerð stendur. Svo lengi sem slík takmörkun varir aðeins á meðan á leitaraðgerð stendur tel ég ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við slíka ráðstöfun.

Samkvæmt því sem rakið er hér að framan og eins og atvikum var háttað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum tel ég ekki tilefni til þess að ég geri athugasemdir við framangreinda ráðstöfun fangelsisyfirvalda.

Ég minni á að í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er rakið að ráðuneytið telji að rétt hafi verið að færa til bókar umrædda ákvörðun um leit í klefunum á deild 3A. Sé þá ekki átt við skráningu í venjulegar skýrslur heldur með formlegum hætti í sérstaka gerðarbók með tölusettum blaðsíðum. Þá segir í úrskurðinum að bóka skuli allar leitir sem ákveðið sé að framkvæma hvort sem það sé á grundvelli upplýsinga sem berast, s.s. að munir, efni, áhöld o.fl. muni vera í fórum fanga eða sem úrtaksleit í ákveðnum klefum, deildum eða húsum. Forstöðumaður eða annar yfirmaður sem taki ákvörðun hér að lútandi skuli skrá í gerðarbók dagsetningu svo og ákvörðunina þar sem ástæður skulu tilgreindar og riti viðkomandi nafn sitt undir. Þá segir loks að hið sama gildi um aðrar ákvarðanir samkvæmt 30. gr. laga nr. 48/1988. Ég tek fram að með hliðsjón af fyrirmælum 6. mgr. 27. gr. og fyrsta málsl. 4. mgr. 30. gr. laga nr. 48/1988, að því er lýtur að notkun handjárna, tek ég undir þessi sjónarmið ráðuneytisins.

3.

Í kvörtun yðar eru einnig gerðar athugasemdir við notkun handjárna í umrætt sinn. Samkvæmt 3. mgr. 30. gr. laga nr. 48/1988 er heimilt að nota handjárn um skamman tíma ef nauðsyn krefur. Af þessu ákvæði leiðir að fangelsisyfirvöld hafa tiltekið svigrúm þegar meta þarf hvort nauðsyn sé á því að beita handjárnum. Það er hins vegar ljóst að vegna eðlis slíkrar ráðstöfunar hvílir á stjórnvöldum rík skylda til að ganga ekki lengra í þessu efni en nauðsynlegt er til að ná því markmiði sem að er stefnt, sbr. meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf, og einnig til hliðsjónar niðurlagsákvæði 40. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna. Þá verður handjárnum ekki beitt nema slíkt teljist málefnalegt í ljósi allra atvika.

Af gögnum málsins verður ráðið að ákveðið hafi verið að nota handjárn við flutning umræddra fanga á milli húsa til þess að fyrirbyggja mögulega undankomu fíkniefna. Ég fæ ekki annað séð af gögnunum en að handjárnum hafi aðeins verið beitt þann stutta tíma sem tók að færa umrædda fanga á milli húsa. Þá hafi þeim ekki verið beitt frekar síðar á meðan á aðgerðum stóð. Í ljósi þessa og orðalags 3. mgr. 30. gr. laga nr. 48/1988 tel ég ekki fært að fullyrða annað en að umrædd notkun handjárna í umrætt sinn hafi verið lögmæt með hliðsjón af ástæðum sem lágu henni til grundvallar, þeim stutta tíma sem um var að ræða og framgangi þeirrar aðgerðar að öðru leyti.

Ég minni á að með bréfi, dags. 15. febrúar sl., ákvað ég að leita frekari upplýsinga hjá ráðuneytinu um athugasemdir þær sem fram koma í kvörtun yðar til mín um að í kjölfar þess sem þér voruð fluttir af deild 3A í fangelsinu í hús 1 hafi a.m.k. þremur föngum „verið neitað um föt sín“. Hafi þeir því verið „innilokaðir án fatnaðar“ meðan á leit stóð. Óskaði ég þess í bréfi mínu til ráðuneytisins að upplýst yrði hvort þessi lýsing á atvikum væri rétt. Ef svo væri óskaði ég þess að upplýst yrði hver væri tilgangur þess að umræddum föngum hefði ekki verið veitt heimild og tækifæri til þess að klæða sig að líkamsleit lokinni og hversu lengi þeir voru án klæða.

Svarbréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins ásamt gögnum barst mér 28. febrúar sl. Í bréfinu kemur fram að leitað hafi verið upplýsinga frá yfirstjórn fangelsisins á Litla-Hrauni í tilefni af framangreindu bréfi mínu og vísað til bréfs forstöðumanns fangelsisins á Litla-Hrauni til ráðuneytisins, dags. 26. febrúar sl. Í því bréfi kemur fram að vinnureglur þær sem gildi í fangelsinu við þær aðstæður að leita þarf í fatnaði fanga miðist við það að föngum sé séð fyrir fatnaði meðan á leit stendur og geti verið um að ræða „jogging“ galla eða slopp. Hafi umræddir fangar sem hér um ræðir fengið „náttslopp“ að lokinni líkamsleit og er í því efni vísað til skýrslu öryggisfulltrúa í fangelsinu, dags. 25. febrúar sl., til forstöðumannsins. Í ljósi þessara upplýsinga tel ég ekki heldur tilefni til þess að fjalla frekar um þennan þátt málsins.

4.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem ég hef rakið hér að framan er það niðurstaða mín að ekki sé tilefni til þess að ég geri frekari athugasemdir við þær aðgerðir fangelsisyfirvalda á Litla-Hrauni 27. október 2001 sem athugasemdir eru gerðar við í kvörtun yðar til mín. Ég tek fram að athugun mín á framangreindri kvörtun hefur eingöngu miðast við það að taka afstöðu til þess hvort umræddar ákvarðanir og ráðstafanir sem viðhafðar voru af hálfu fangelsisyfirvalda 27. október 2001 hafi verið í samræmi við lög. Hef ég því hér að framan ekki tekið endanlega afstöðu til þess hvort hugsanlega þurfi að vanda betur til útfærslu og setningar nánari reglna um þær ákvarðanir og ráðstafanir sem þar er um að ræða, s.s. um beitingu handjárna samkvæmt 3. mgr. 30. gr. laga nr. 48/1988 og um framkvæmd leitar í klefum fanga. Af því tilefni hef ég hins vegar ákveðið að rita fangelsismálastofnun bréf það sem hér fylgir með í ljósriti þar sem ég fer fram á að stofnunin geri grein fyrir því hvort og þá hvaða verklagsreglur hafi verið settar um framkvæmd leitar í klefum fanga, og þá eftir atvikum um upplýsingagjöf til fanga af því tilefni, og um beitingu handjárna.

Þá tel ég rétt að árétta að athugun umboðsmanns Alþingis er fyrst og fremst bundin við að taka afstöðu til þess hvort tilteknar ákvarðanir, aðgerðir eða ráðstafanir sem framkvæmdar hafa verið af hálfu stjórnvalda, sem fara með málefni fanga, séu í samræmi við lög. Þegar kemur að því að meta hvort tiltekin atvik hafi verið með þeim hætti sem haldið er fram í kvörtun til mín frá föngum er aðstaða mín að lögum hins vegar þannig að mat mitt er takmarkað við skoðun á þeim gögnum sem fyrir mig eru lögð af hálfu stjórnvalda og eftir atvikum þeirra fanga sem leita til mín.

Umfjöllun minni um kvörtun yðar til mín, sem barst mér 20. desember 2001, er lokið.“