Fangelsismál. Dagsleyfi. Jafnræðisregla.

(Mál nr. 3569/2002)

A kvartaði yfir úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í tilefni af stjórnsýslukæru hans á ákvörðun fangelsisyfirvalda á Litla-Hrauni að hafna beiðni hans um dagsleyfi.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi til A, dags. 2. september 2002, þar sem segir m.a. svo:

„Í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í máli yðar er ferill yðar rakinn, m.a. að yður hafi tíu sinnum verið gert að afplána óskilorðsbundna fangelsisrefsingu og að sakarferill yðar sé óslitinn frá 1978. Þá er rakið að fjórum sinnum hafið þér fengið reynslulausn en að þér hafið ávallt rofið skilyrði hennar. Er það mat ráðuneytisins að þér teljist síbrotamaður. Einnig er rakið í úrskurðinum að þér hafið þrívegis misnotað dagsleyfi í fyrri afplánunum, tvívegis árið 1992 og einu sinni árið 1999. Í þeim tilvikum hafið þér komið til baka í fangelsið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Er það niðurstaða ráðuneytisins að framangreind atvik hafi gefið fangelsisyfirvöldum réttmætt tilefni til að ætla að þér mynduð misnota nýtt dagsleyfi ef fallist yrði nú á beiðni yðar.

Samkvæmt ákvæði 21. gr. laga nr. 48/1998, um fangelsi og fangavist, er heimilt að veita fanga leyfi til skammrar dvalar utan fangelsis ef slíkt telst heppilegt sem þáttur í fullnustu refsingar eða til að búa hann undir að afplánun ljúki. Í 36. gr. sömu laga er mælt fyrir um að í reglugerð skuli m.a. setja nánari ákvæði um leyfi til dvalar utan fangelsis. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. núgildandi reglugerðar nr. 719/1995, um leyfi afplánunarfanga til dvalar utan fangelsis, skal ekki veita slíkt leyfi ef „hætta er á að fangi muni misnota það“. Þá segir í ákvæði 5. mgr. 3. gr. að sýna skuli sérstaka gát við mat á því hvort fangi muni misnota leyfi ef um er að ræða síbrotamann og gildi það jafnt þótt ekki sé af öðrum ástæðum hætta á að hann muni misnota leyfið.

Ákvæði 21. gr. laga nr. 48/1988 er heimildarákvæði sem gerir ráð fyrir mati fangelsisyfirvalda á því hvort veiting dagsleyfis telst „heppilegt sem þáttur í fullnustu refsingar eða til að búa [fanga] undir að afplánun ljúki“. Við þetta mat ber að veita stjórnvöldum nokkurt svigrúm. Með stoð í 36. gr. sömu laga hefur ráðherra sett reglugerð um veitingu þessara leyfa þar sem fram koma almennar reglur sem stjórnvöldum ber að hafa í huga við þetta mat. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur metið það svo, með tilliti til sakarferils yðar og eldri atvika þar sem yður var veitt dagsleyfi, að hætta sé á að þér munið misnota nýtt dagsleyfi, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 719/1995. Í því sambandi byggir ráðuneytið einnig á því, sbr. fyrirmæli 5. mgr. 3. gr. sömu reglugerðar, að þér teljist síbrotamaður þegar horft er til sakarferlis yðar. Eins og máli yðar er háttað tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við þetta mat dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Þá bendi ég á að ráðuneytið byggir niðurstöðu sína alfarið á þeim sérstöku atvikum sem til staðar eru í máli yðar. Því tel ég heldur ekki forsendur til þess að fullyrða að úrlausn á máli yðar hafi að einhverju leyti gengið gegn jafnræðisreglum.

Með hliðsjón af framangreindu er umfjöllun minni um mál yðar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.“