Atvinnuleysistryggingar. Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta. Sjálfstætt starfandi einstaklingur.

(Mál nr. 3702/2003)

A kvartaði yfir þeirri afstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta sem fram kom í úrskurði nefndarinnar í máli hans að litið skyldi á hann sem sjálfstætt starfandi einstakling en ekki launamann í skilningi laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Var þar vísað til þess að árinu áður hefði A stofnað einkahlutafélag um smábátaútgerð og fiskverkun.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. apríl 2003. Tók hann þar fram að hann legði þann skilning í kvörtun A að hann teldi sig eiga tilkall til réttinda í Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli laga nr. 12/1997 sem launamaður hjá félaginu X ehf. en ekki í Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga sem smábátaeigandi á grundvelli laga nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga. Umboðsmaður rakti þróun lagaákvæða um atvinnuleysistryggingar og benti á að með lögum nr. 54/1993 hefði verið gerð sú grundvallarbreyting á lögum um atvinnuleysistryggingar að krafa um stéttarfélagsaðild hefði verið felld niður á sama tíma og sjálfstætt starfandi einstaklingar hefðu öðlast tilkall til atvinnuleysisbóta ef þeir urðu atvinnulausir. Þá tók umboðsmaður fram að við úrlausn á því hvort rétt væri að meta umsókn um atvinnuleysisbætur á grundvelli þess að viðkomandi væri launamaður teldi hann að líta yrði til nokkurra hlutlægra atriða, m.a. hvort viðkomandi væri ætlað að inna störf sín af hendi undir eftirliti og stjórn annars aðila sem mætti þá skilgreina sem atvinnurekanda. Þessi stjórnunartengsl milli launamanns og atvinnurekanda væru almennt ekki til staðar þegar hann starfaði hjá félagi sem hann ætti að öllu leyti eða að hluta með öðrum. Umboðsmaður benti á að frá því að sjálfstætt starfandi einstaklingar öðluðust tilkall til atvinnuleysisbóta í Atvinnuleysistryggingasjóði hefði verið út frá því gengið að umsóknir þeirra einstaklinga sem störfuðu við eigin rekstur yrði að meta á grundvelli sérreglna um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Væri þá ekki litið á þá sem launamenn í skilningi 1. gr. laga nr. 12/1997. Samkvæmt reglugerð nr. 740/1997, um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga úr Atvinnuleysistryggingasjóði, og reglugerð 525/1998, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, sem sett væri með stoð í lögum nr. 46/1997, væri sjálfstætt starfandi einstaklingur sá sem „starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum eða félagi er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglubundnum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi“. Að mati umboðsmanns stangaðist þessi skilgreining ekki á við það hvaða skilning bæri að leggja í hugtakið launamaður samkvæmt 1. gr. laga nr. 12/1997. Umboðsmaður tók fram að miðað við þau gögn sem lögð hefðu verið fyrir hann teldi hann ekki tilefni til athugasemda við að úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta teldi ekki unnt að meta umsókn A á þeim grundvelli að hann væri launamaður í skilningi laga nr. 12/1997.

Nýjar reglugerðir hafa nú leyst af hólmi reglugerðir þær sem vísað er til í framangreindu bréfi. Þannig var reglugerð nr. 525/1998 felld úr gildi með reglugerð nr. 317/2003, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, og reglugerð nr. 740/1997 féll úr gildi við gildistöku reglugerðar nr. 316/2003, um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 317/2003 og 2. gr. reglugerðar nr. 316/2003 telst „sjálfstætt starfandi einstaklingur“ nú vera „sá sem starfar við eigin rekstur, í eigin nafni eða í sameignarfélagi sem ekki er sjálfstæður skattaðili, í því umfangi að honum eða félagi er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi“