Frangelsismál. Flutningur á milli fangelsa.

(Mál nr. 3943/2003)

A, fangi á Litla-Hrauni, kvartaði yfir úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þar sem staðfest var sú ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins að synja beiðni hans um flutning í fangelsið á Kvíabryggju.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi til A, dags. 17. nóvember 2003, þar sem hann tók fram að hann teldi ekki tilefni til athugasemda við úrskurð ráðuneytisins.

Í bréfi mínu til A sagði meðal annars eftirfarandi:

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, ákveður fangelsismálastofnun í hvaða fangelsi afplánun fer fram, að teknu tilliti til aldurs, kynferðis, búsetu og brotaferils fangans. Ljóst er að samkvæmt orðalagi fyrrgreinds lagaákvæðis verður að játa fangelsisyfirvöldum nokkurt svigrúm í þessum efnum.

Í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins kemur fram að þér afplánið 12 ára fangelsisrefsingu. Þar er rakið að hér á landi séu nú starfrækt fimm fangelsi, Litla-Hraun sé langstærst þeirra og þar séu yfirleitt vistaði fangar sem hlotið hafa langa dóma og framið hafa hin alvarlegustu afbrot. Á sínum tíma hafi því verið eðlilegt að þér væruð vistaður á Litla-Hrauni. Þá segir í úrskurðinum að búseta fanga sé eitt þeirra meginsjónarmiða sem skoðuð séu þegar vistunarstaður fanga er ákveðinn. Önnur meginsjónarmið séu aldur, kynferði og brotaferill. Þegar sjónarmiðin stangist á vegi þau misjafnlega þungt þótt ávallt séu þau öll skoðuð vandlega. Það er niðurstaða ráðuneytisins að þrátt fyrir að núverandi heimili yðar sé á [X] og að þér hafið sýnt góða hegðun í refsivistinni teljist sjónarmið um alvarleika brots yðar vega þyngra í ljósi þeirrar stefnu sem gilt hafi undanfarin ár hjá fangelsismálastofnun að fangar sem flokkist með sama hætti og þér skuli ekki vistaðir á Kvíabryggju. Bent er á að þar sé enginn langtímafangi lengur og að fjölmörgum beiðnum frá föngum á Litla-Hrauni um flutning þangað hafi verið synjað.

Með hliðsjón af framangreindu og þeim gögnum sem fyrir liggja tel ég ekki tilefni til athugasemda við úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í máli yðar.