Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Stimpilgjald. Alþingi. Kvörtun verður að beinast að tiltekinni athöfn eða ákvörðun stjórnvalds.

(Mál nr. 3689/2003)

B kvartaði fyrir hönd A yfir úrskurði fjármálaráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á X um töku stimpilgjalds vegna sölu skipsins H. Í kvörtuninni var því haldið fram að umrædd álagning stimpilgjalda bryti í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þá beindist kvörtunin að þeirri skipan mála að krafist væri stimpilgjalds bæði „þegar skip [væri] keypt til landsins (nýskráð) og einnig þegar það [væri] selt úr landi (afskráð)“.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi til B, dags. 7. febrúar 2003. Varðandi fyrra kvörtunarefnið benti hann á að starfssvið umboðsmanns, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, taki ekki til starfa Alþingis. Það væri því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði sett. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess að hann fjallaði um þetta kvörtunaratriði á grundvelli 11. gr. laga nr. 85/1997. Hvað varðaði seinni lið kvörtunarinnar tók umboðsmaður fram að ekki væri fjallað um það atriði í kæru B til fjármálaráðuneytisins eða í úrskurði ráðuneytisins í málinu og væri því ekki fullnægt því skilyrði laga nr. 85/1997 fyrir umfjöllun umboðsmanns um kvörtunaratriði að það beinist að tiltekinni athöfn eða ákvörðun stjórnvalds.

Í bréfi mínu til B sagði svo:

I.

Ég vísa til erindis yðar fyrir hönd A, dags. 7. janúar sl. Beinist kvörtun yðar í fyrsta lagi að úrskurði fjármálaráðuneytisins, dags. 30. október 2001, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á X um töku stimpilgjalds vegna sölu skipsins H, skipaskrárnúmer …. Teljið þér að umrædd álagning stimpilgjalda brjóti í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Til samanburðar bendið þér til dæmis á að samkvæmt 8. tölulið 35. gr. laga nr. 36/1978, um stimpilgjald, séu afsalsbréf og skjöl sem gefin eru út vegna afhendingar á kaupskipi til landsins eða úr landi undanþegin slíku gjaldi. Í öðru lagi beinist kvörtun yðar að þeirri skipan mála að krafist sé stimpilgjalds „þegar skip er keypt til landsins (nýskráð) og einnig þegar það er selt úr landi (afskráð)“. Bendið þér á að þetta geti haft það í för með sér að „sami aðili, eigandi skips eða útgerð, gæti orðið að greiða stimpilgjald í tvígang“.

II.

Fyrri hluti kvörtunar yðar lýtur að því að ákvæði laga nr. 36/1978, um stimpilgjald, sem ákvörðun stjórnvalda um töku stimpilgjalds vegna sölu skipsins B byggir á brjóti í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Starfssvið umboðsmanns, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni Alþingis hins vegar veitt heimild til að gera Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnum viðvart ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Gera lögin ekki ráð fyrir að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli. Ég hef þó talið rétt þegar ábendingar hafa borist um hugsanlega „meinbugi á lögum“ að kynna mér efni þeirra. Hefur það verið gert í því skyni að meta hvort það efni sem framkomin ábending hljóðar um gefi tilefni til þess að ég taki mál til umfjöllunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997.

Ég hef hins vegar litið svo á að í þeim tilvikum þegar álitaefnið beinist að ósamræmi á milli almennra laga, afgreiddum af Alþingi með stjórnskipulega réttum hætti, og stjórnarskrár og/eða þjóðréttarlegra skuldbindinga sem íslenska ríkið hefur undirgengist, geti helst komið til þess að umboðsmaður nýti þá heimild sem fram kemur í 11. gr. laga nr. 85/1997 þegar leiða má slíka niðurstöðu af dómum Hæstaréttar eða eftir atvikum alþjóðlegra úrskurðaraðila.

Í því tilviki sem hér um ræðir hefur Alþingi ákveðið, sbr. 8. tölul. 35. gr. laga nr. 36/1978, um stimpilgjald, sbr. breytingu þá sem gerð var á lögunum með 1. gr. laga nr. 157/1998, að tiltekin skjöl sem gefin eru út vegna afhendingar á tilteknum skipum (kaupskipum) til landsins eða frá því skuli undanþegin álagningu stimpilgjalds. Sams konar undanþága gildir hins vegar ekki almennt þegar fiskiskip eru keypt til landsins eða seld frá því. Í framsöguræðu fjármálaráðherra er hann mælti fyrir frumvarpi til laga nr. 157/1998, sagði hann m.a. svo um ástæður þess að kaupskip skyldu með þessum hætti undanþegin stimpilgjaldsskyldu:

„Þannig háttar til um þessi mál að kaupskip sem skráð eru hérlendis eru orðin sárafá, m.a. vegna þess að stimpilkostnaðurinn er mikill. Hann hefur virkað þannig að hann hefur fælt frá þá aðila sem hérna er um að tefla og þess vegna er ekki um það að ræða að hér sé tekjutap á ferðinni fyrir ríkissjóð heldur þvert á móti muni þetta hugsanlega geta orðið til þess að draga inn í landið skráningu skipa og hugsanlega einhverjar tekjur í því sambandi.“ (Alþt. 1998-1999, B-deild, bls. 780-781.)

Eftir athugun mína á ábendingu yðar tel ég, með vísan til framangreinds, ekki tilefni til þess að ég fjalli um málið á grundvelli 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

III.

Eins og fyrr greinir beinist síðari hluti kvörtunar yðar að þeirri skipan mála að krafist sé stimpilgjalds „þegar skip er keypt til landsins (nýskráð) og einnig þegar það er selt úr landi (afskráð)“. Í kæru yðar til fjármálaráðuneytisins, dags. 19. apríl 2002, og í úrskurði ráðuneytisins í málinu er ekki fjallað um þetta atriði eða þann möguleika að „sami aðili, eigandi skips eða útgerð, gæti orðið að greiða stimpilgjald í tvígang“ af þeim sökum. Er því ekki fullnægt því skilyrði laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, fyrir umfjöllun minni um kvörtunaratriði að það beinist að tiltekinni athöfn eða ákvörðun stjórnvalds. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að sú aðstaða sem þér vísið hér til, þ.e. að sami aðili greiði stimpilgjald í tvígang, eigi við um viðskipti A með skipið H. Í ljósi framangreinds mun ég því ekki fjalla frekar um þennan þátt kvörtunar yðar.

IV.

Samkvæmt framansögðu tel ég erindi yðar ekki gefa tilefni til frekari athugunar af minni hálfu. Er afskiptum mínum af erindinu hér með lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.