Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Störf dómstóla. Málskot til æðra stjórnvalds.

(Mál nr. 3796/2003)

Öryrkjabandalag Íslands kvartaði fyrir hönd A yfir ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur um að synja A um ráðningu í auglýst starf í afgreiðslu dómsins. Taldi öryrkjabandalagið að synjunin bryti í bága við ákvæði 32. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi til Öryrkjabandalags Íslands, dags. 9. október 2003. Í bréfinu rakti umboðsmaður ákvæði 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis og lögskýringargögn. Þá benti umboðsmaður á að í svari dómstólaráðs við fyrirspurn hans vegna kvörtunarinnar kæmi fram sú afstaða dómstólaráðs að borgararnir geti beint kvörtunum yfir stjórnsýslu héraðsdómstólanna til ráðsins. Þá vakti umboðsmaður athygli öryrkjabandalagsins á því að samkvæmt 32. gr. laga nr. 59/1992 væri svæðisráði í málefnum fatlaðra ætlað hlutverk við mat á því hvort gengið væri á rétt fatlaðs manns við veitingu starfs. Með hliðsjón af þeirri meginreglu sem fram kemur í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 var það niðurstaða umboðsmanns að ekki væri að svo komnu máli tilefni til þess að hann tæki kvörtun A til frekari athugunar.

Í bréfi mínu til Öryrkjabandalags Íslands sagði svo:

Ég vísa til kvörtunar yðar fyrir hönd A. Beinist hún að ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur um að „synja skjólstæðingi [yðar] um ráðningu í auglýst starf í afgreiðslu dómsins þar sem sú synjun brjóti í bága við ákvæði 32. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992“.

Samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla. Ég hef til þessa haft til athugunar hvort þetta ákvæði leiði til þess að mér sé ekki fært að fjalla um þá ákvörðun sem þér kvartið yfir fyrir hönd A. Í þessu sambandi bendi ég yður á að sambærilegt ákvæði var ekki að finna í áðurgildandi lögum um umboðsmann Alþingis nr. 13/1987. Í athugasemdum þess frumvarps sem varð að núgildandi lögum nr. 85/1997 sagði í upphafi athugasemda við 3. gr. að starfssvið umboðsmanns tæki að meginstefnu eingöngu til starfa handhafa framkvæmdarvalds en hvorki til starfa handhafa löggjafarvalds né dómsvalds, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þá segir að til skýringarauka sé í 3. mgr. 3. gr. tekið fram til hvaða aðila starfssvið umboðsmanns taki ekki. Orðalag b-liðar 3. mgr. 3. gr. um „starfa“ dómstóla er að breyttu breytanda það sama að því er varðar „starfa“ Alþingis og stofnana þess, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Um þetta síðarnefnda ákvæði segir í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögunum að utan starfssviðs umboðsmanns falli störf Alþingis „og stjórnsýsla í þágu Alþingis sem háð er eftirliti þingforseta samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis“. Ég tek fram að í umfjöllun lögskýringargagna um þann „starfa“ dómstóla sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til er ekki vikið sérstaklega að „stjórnsýslu í þágu“ dómstólanna.

Í bréfi til yðar, dags. 5. júní sl., upplýsti ég yður um að ég hefði ákveðið að rita dómstólaráði bréf og var það gert í ljósi framangreinds álitaefnis og hlutverks ráðsins samkvæmt lögum nr. 15/1998, um dómstóla. Ég hafði þá einnig í huga að fá fram afstöðu dómstólaráðs til þess hvort einstaklingur sem borið hefur fram kvörtun við mig geti í tilefni af ákvörðun dómstjóra sem fellur undir almenna stjórnsýslu viðkomandi dómstóls skotið málinu til dómstólaráðs, sjá til hliðsjónar þá meginreglu sem fram kemur í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í bréfi dómstólaráðs, sem barst mér 25. ágúst sl., lýsti ráðið þeirri afstöðu sinni að það væri eðlilegur skilningur á orðalaginu „starfa dómstóla“ í b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 að átt væri við alla starfsemi dómstóla hvort sem um eiginleg dómstörf væri að ræða eða verkefni sem tilheyra stjórnsýslu dómstólanna. Síðan segir m.a. svo í bréfi dómstólaráðs til mín:

„Dómstólalög [nr. 15/1998] hafa að geyma ákvæði sem eiga að tryggja rétt þeirra sem telja að réttur hafi verið á sér brotinn í stjórnsýslu héraðsdómstólanna. Má þar sérstaklega nefna að samkvæmt 4. mgr. 16. gr. hefur Dómstólaráð agavald gagnvart dómstjórum en af því ákvæði leiðir að borgararnir geta beint kvörtunum um stjórnsýslu héraðsdómstólanna til ráðsins. Þá má einnig nefna að borgararnir geta skotið kvörtunum vegna starfa dómara til nefndar um dómarastörf, sbr. IV. kafla dómstólalaga, sérstaklega 27. gr. Loks stendur borgurunum sú leið opin að höfða dómsmál ef þeir telja að réttur hafi verið á þeim brotinn.“

Af framangreindu verður ráðið að það sé afstaða dómstólaráðs að borgararnir geti beint kvörtunum um stjórnsýslu héraðsdómstólanna til ráðsins. Ég vek líka athygli yðar á því að samkvæmt 32. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, er svæðisráði í málefnum fatlaðra ætlað hlutverk við mat á því hvort gengið sé á rétt fatlaðs manns við veitingu starfs. Með hliðsjón af þeirri meginreglu sem fram kemur í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það niðurstaða mín að á þessu stigi sé ekki tilefni til þess að ég taki kvörtun yðar fyrir hönd A til frekari athugunar. Ég tel því á þessu stigi ekki rétt að taka afstöðu til þess hvort það mál sem kvörtun A til mín fjallar um geti fallið undir starfssvið umboðsmanns Alþingis og þá eftir atvikum með tilliti til þess hvort málið kemur til umfjöllunar hjá dómstólaráði.

Umfjöllun minni um kvörtun yðar fyrir hönd A er lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.