Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Framkvæmd Alþingiskosninga.

(Mál nr. 3814/2003)

A kvartaði yfir tilteknum atriðum varðandi framkvæmd Alþingiskosninga sem fram fóru 10. maí 2003. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi til A, dags. 13. júní 2003, þar sem hann rakti ákvæði 46. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og tiltekin ákvæði laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis. Benti hann á að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það sé því almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þeirra málefna sem Alþingi er falið að fjalla um samkvæmt ákvæðum í stjórnarskrá eða í almennum lögum.

Í bréfi mínu til A sagði svo:

Ég vísa til erindis yðar, dags. 28. maí 2003, þar sem þér kvartið yfir tilteknum atriðum varðandi framkvæmd Alþingiskosninganna sem fram fóru 10. maí sl. Óskið þér í fyrsta lagi eftir því að umboðsmaður hlutist til um að kjörgögnum verði ekki eytt og að hann beiti sér fyrir endurtalningu allra atkvæða auk þess að endurmeta vafa- og utankjörfundaratkvæði. Loks óskið þér eftir því að umboðsmaður Alþingis úrskurði um lögmæti framkvæmdar Alþingiskosninganna 10. maí sl.

Samkvæmt 46. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sker Alþingi sjálft úr hvort þingmenn þess séu löglega kosnir svo og úr því hvort þingmaður hafi misst kjörgengi. Hefur þetta stjórnarskrárákvæði ætíð verið skilið svo að Alþingi eigi úrskurðarvald um kjörgengi nýkjörinna þingmanna og lögmæti Alþingiskosninga, sjá t.d. Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur. Reykjavík 1999, bls. 228. Frekari stoðum er rennt undir þennan skilning í 36. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, þar sem segir að ekki sé nauðsynlegt að kjörgengi frambjóðenda sé sannað fyrir yfirkjörstjórn eða landskjörstjórn en Alþingi úrskurði um kjörgengi þeirra sem kosnir eru jafnframt því sem það úrskurði um hvort nýkosnir þingmenn séu að öðru leyti „löglega“ framboðnir og „kosnir“. Um úrskurð Alþingis um gildi kosninga er síðan fjallað sérstaklega í XXII. kafla laga nr. 24/2000.

Í ljósi þessa og í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þeirra málefna sem Alþingi er falið að fjalla um samkvæmt ákvæðum í stjórnarskrá eða í almennum lögum.

Að því er varðar beiðni yðar um að umboðsmaður hlutist til um að kjörgögnum verði ekki eytt tek ég fram að um varðveislu kjörseðla og kjörskráa er fjallað í 2. og 3. mgr. 104. gr. laga nr. 24/2000. Um kjörseðla gildir sú meginregla að þá skal geyma þar til Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninganna en að því búnu skal kjörseðlunum eytt. Um kjörskrár gildir sú regla að yfirkjörstjórn skal búa um þær í innsigluðum umbúðum og senda þær dóms- og kirkjumálaráðuneytinu sem geymir kjörskrárnar í eitt ár en að því búnu skal þeim eytt. Samkvæmt þessu fer um varðveislu og eyðingu kjörseðla og kjörskráa eftir fyrirmælum laga nr. 24/2000 en það leiðir af a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, sem að framan er rakinn, að það er almennt heldur ekki hlutverk umboðsmanns að fjalla um það hvernig Alþingi hefur tekist með lagasetningu.

Umfjöllun minni um kvörtun yðar er lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.