Gjafsókn. Lagaskilyrði fyrir gjafsókn. Beiðni um leyfi til endurupptöku útivistarmáls. Málshraði.

(Mál nr. 3925/2003)

A kvartaði yfir synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á umsókn hennar um gjafsókn vegna meðferðar beiðni fyrir Hæstarétti um leyfi til endurupptöku útivistarmáls og dómsmeðferðar þess í héraði veitti Hæstiréttur leyfið.

Umboðsmaður rakti gjafsóknarheimildir XX. kafla laga nr. 91/1991 og skilyrði gjafsóknar. Minnti hann á að ákvæði laga um gjafsókn væru liður í því að tryggja borgurunum þann rétt til aðgangs að dómstólunum sem leiðir af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. breytingar með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995, og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Umboðsmaður tók fram að hann skildi skýringar gjafsóknarnefndar og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins svo að vegna útivistar af hálfu A sem stefndu í héraði í framangreindu dómsmáli hefði hún ekki uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 fyrir veitingu gjafsóknar að málstaður hennar gæfi „nægilegt tilefni“ til málsvarnar. Yrði ekki annað séð af svörum gjafsóknarnefndar en að afstaða nefndarinnar og ráðuneytisins byggðist á því að útivist í héraði af hálfu þess sem óskaði eftir gjafsókn leiddi almennt til þess að viðkomandi uppfyllti ekki ofangreint skilyrði 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991. Taldi umboðsmaður að þessi afstaða væri ekki í samræmi við lög. Umboðsmaður benti á að niðurstaða stjórnvalda í máli A hefði ekki verið byggð á mati á því hvort aðstæður hennar uppfylltu þau skilyrði sem sett séu í 126. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að gjafsókn verði veitt. Með hliðsjón af því að slíkt mat hefði ekki farið fram var það niðurstaða umboðsmanns að ekki hefði verið leyst úr gjafsóknarbeiðni A í samræmi við lög.

Umboðsmaður rakti ákvæði 8. gr. reglugerðar nr. 69/2000, um starfshætti gjafsóknarnefndar, en samkvæmt því ber nefndinni að láta dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í té umsögn innan fjögurra vikna frá því að henni berst gjafsóknarumsókn til umsagnar sem studd er fullnægjandi rökum og gögnum. Tók umboðsmaður fram að hann hefði af og til veitt því athygli í málum sem komið hefðu til umfjöllunar hjá honum að það hefði tekið gjafsóknarnefnd lengri tíma að fjalla um mál en gert væri ráð fyrir í 8. gr. reglugerðar nr. 69/2000. Umboðsmaður tilkynnti að hann hefði með hliðsjón af þessu ákveðið að taka málsmeðferðartíma gjafsóknarnefndar almennt til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Beindi umboðsmaður tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og gjafsóknarnefndar um að taka mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram ósk þess efnis frá henni, og að þá yrði leyst úr því í samræmi við þau sjónarmið sem lýst væri í álitinu.

I.

Hinn 23. október 2003 leitaði B, héraðsdómslögmaður, til mín, fyrir hönd A, og kvartaði yfir synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 22. september 2003, á umsókn A um gjafsókn, skv. XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Jafnframt beindist kvörtunin að seinagangi stjórnvalda við afgreiðslu á gjafsóknarbeiðninni.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 22. nóvember 2004.

II.

Málavextir eru þeir að með stefnu útgefinni 15. júlí 2002 krafðist þrotabú C þess að kaupmála sem C og A eiginkona hans höfðu gert yrði rift á grundvelli riftunarheimilda í lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Hinn 30. september 2002 féll dómur í málinu og var A gert að þola riftun á kaupmálanum. Var málið tekið til dóms á grundvelli 96. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem útivist hafði orðið að hálfu A. Með bréfi, dags. 2. apríl 2003, sótti B, héraðsdómslögmaður, fyrir hönd A, um gjafsókn vegna málsins.

Með bréfi, dags. 8. apríl 2003, óskaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið eftir umsögn gjafsóknarnefndar, sbr. 4. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991. Í umsögn nefndarinnar, dags. 12. september 2003, sagði m.a.:

„Umsækjandi óskar gjafsóknar til endurupptöku einkamáls en útivist varð í málinu af hálfu umsækjanda í héraði. Endurupptöku hyggst umsækjandi freista á grundvelli XXVI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 126. gr. sömu laga verður gjafsókn aðeins veitt ef málsstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar. Gjafsóknarnefnd telur að umsækjandi hafi ekki nægilegt tilefni til málshöfðunar í skilningi laganna þar sem 167. gr. eml. eigi ekki við um endurupptöku einkamáls í héraði þar sem útivist hefur orðið af hálfu aðila. Ekki er því mælt með gjafsókn.“

Með bréfi, dags. 22. september 2003, tilkynnti dóms- og kirkjumálaráðuneytið, með vísan til umsagnar gjafsóknarnefndar, lögmanni A að ekki væri heimilt að verða við gjafsóknarbeiðninni.

III.

Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðherra bréf, dags. 7. nóvember 2003, þar sem ég vakti athygli á því að með 21. gr. laga nr. 38/1994 hefði númer 157. gr. laga nr. 91/1991 breyst og væri nú 167. gr. laganna. Benti ég á að samkvæmt þessu væri nú beinlínis mælt fyrir um þann möguleika í 5. mgr. 137. gr. að unnt væri að bera fram beiðni við Hæstarétt um endurupptöku á grundvelli 1. mgr. 167. gr. laganna að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þar sem ekki varð annað ráðið en að afstaða gjafsóknarnefndar hefði byggst á því að 1. mgr. 167. gr. ætti ekki við óskaði ég eftir viðhorfi ráðuneytisins til þess hvernig sú afstaða gæti samrýmst orðalagi 5. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 21. gr. laga nr. 38/1994.

Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 11. febrúar 2004, vísar ráðuneytið um svör við erindi mínu til nýrrar umsagnar gjafsóknarnefndar, dags. 27. janúar 2004. Í umsögninni segir m.a.:

„Í 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 21. gr. laga nr. 38/1994, um breytingu á lögum nr. 91/1991, er að finna heimild til endurupptöku héraðsdóms í máli sem ekki hefur verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur er liðinn. Segir þar að Hæstiréttur geti orðið við beiðni um að málið verði endurupptekið í héraði ef nánar tilteknum skilyrðum er fullnægt.

Gjafsóknarnefnd lítur svo á að gjafsóknarheimildir ofangreindra laga um meðferð einkamála verði ekki túlkaðar þannig að þær geti tekið til meðferðar beiðnar fyrir Hæstarétti um endurupptöku óáfrýjaðs héraðsdóms en að því laut gjafsóknarbeiðni einvörðungu.“

Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðherra á ný bréf, dags. 20. febrúar 2004. Taldi ég að í síðari umsögn gjafsóknarnefndar kæmu fram forsendur og rök sem væru efnislega önnur en þau sem nefndin hefði byggt upphaflega umsögn sína á. Benti ég á að gjafsóknarnefnd teldi nú að A hefði í sjálfu sér getað sett fram beiðni um endurupptöku máls síns á grundvelli 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar liti nefndin nú svo á að heimildir sömu laga til að veita gjafsókn geti ekki tekið til meðferðar slíkrar beiðni. Óskaði ég eftir því með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið upplýsti hvort það hefði tekið afstöðu til þess hvort rétt væri að afturkalla fyrri ákvörðun sína og gefa A, og eftir atvikum lögmanni hennar, kost á að setja fram athugasemdir sínar í tilefni af hinum nýju forsendum. Í bréfinu vakti ég jafnframt athygli ráðuneytisins á því að í öðru máli sem ég hefði haft til meðferðar hefði sú efnislega niðurstaða komið fram hjá gjafsóknarnefnd að „ákvæðum XX. kafla laga nr. 91/1991 um gjafsókn verði með lögjöfnun beitt vegna umsóknar um endurupptöku dóms í Hæstarétti“. Með vísan til þessa óskaði ég eftir því að ráðuneytið upplýsti hvaða forsendur hefðu legið að baki þessari afstöðu og jafnframt óskaði ég eftir viðhorfi ráðuneytisins til þess hvaða lagalegu og málefnalegu forsendur byggju að baki þeirri afstöðu að gera greinarmun að þessu leyti á möguleikum til lögjöfnunar í slíkum tilvikum annars vegar og í tilviki A hins vegar.

Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 2. apríl 2004, sagði svo m.a.:

„1. Óskað er eftir upplýsingum og skýringum á því hvort ráðuneytið hafi talið rétt að afturkalla fyrri ákvörðun ráðuneytisins í tilefni af nýjum forsendum gjafsóknarnefndar sem fram komi í umsögn hennar frá 27. janúar sl.

Gjafsóknarnefnd komst í umsögn sinni, dags. 12. september 2003, að þeirri niðurstöðu að ekki væri mælt með gjafsókn vegna umsóknar [A] á þeim grundvelli að ekki væri nægilegt tilefni til málshöfðunar í skilningi 126. gr. laga um meðferð einkamála. Voru forsendur þeirrar afstöðu skýrðar í umsögn nefndarinnar.

Umsögn gjafsóknarnefndar til yðar dags. 27. janúar 2004 gaf að mati ráðuneytisins ekki tilefni til að afturkalla fyrri ákvörðun ráðuneytisins. Af hálfu nefndarinnar hefur það komið fram, sbr. hjálagt erindi hennar frá 8. mars sl., að ráða mátti af gögnum sem fylgdu umsókn [A] um gjafsókn að ekki hafi verið mætt af hennar hálfu við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta stefnubirtingu og vörnum því ekki haldið uppi af hennar hálfu. Þegar svo hátti til sé það álit gjafsóknarnefndar að gjafsóknarheimildir XX. kafla laga nr. 91/1991 standi hvorki til þess að kosta af almannafé beiðni um endurupptöku máls né dómsmeðferð þess í héraði veiti Hæstiréttur leyfi til endurupptöku. Er þessi afstaða nefndarinnar skýrð frekar í erindi hennar og vísast til þess sem þar segir.

Ráðuneytið telur, að eins og ákvæðum 125. og 126. gr. laga um meðferð einkamála er nú háttað, hafi niðurstaða gjafsóknarnefndar byggt á lögmætum og málefnalegum forsendum.

2. Óskað er eftir skýringum ráðuneytisins á þeim forsendum er búa að baki þeirri afstöðu að heimilt sé að beita XX. kafla laga nr. 91/1991 með lögjöfnun þegar sótt er um gjafsókn vegna beiðni um endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti.

Ráðuneytið telur að umfjöllun um þetta atriði varði ekki beinlínis mál [A]. Í þessu sambandi óskar ráðuneytið þó eftir að upplýsa yður um að dómsmálaráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nánar tiltekið 125. og 126. gr. þeirra, sbr. hjálagt skjal. Verði frumvarpið að lögum munu þau kalla á endurskoðun á reglugerð um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar og mun þá þetta atriði, ásamt fleirum, vera skoðað nánar.

3. Óskað er eftir viðhorfi ráðuneytisins til þess hvaða lagalegu og málefnalegu forsendur búa að baki þeirri afstöðu að gera greinarmun að þessu leyti á möguleikum til lögjöfnunar í slíku tilviki annars vegar og í tilviki [A] hins vegar.

Um þetta vísast til svars í 2. lið hér að framan.“

Með bréfi ráðuneytisins fylgdi ný umsögn gjafsóknarnefndar, dags. 8. mars 2004, en þar segir m.a.:

„Í tilefni af ofangreindri fyrirspurn umboðsmanns tekur gjafsóknarnefnd eftirfarandi fram:

Af þeim gögnum, sem fylgdu umsókn [A] um gjafsókn, varð ráðið að ekki hafi verið mætt af hennar hálfu við þingfestingu málsins, þrátt fyrir lögmæta stefnubirtingu, og vörnum því ekki haldið uppi af hennar hálfu. Þegar svo háttar til er það álit gjafsóknarnefndar að gjafsóknarheimildir XX. kafla laga nr. 91/1991 standi hvorki til þess að kosta af almannafé beiðni um endurupptöku máls né dómsmeðferð þess í héraði veiti Hæstiréttur leyfi til endurupptöku. Í því sambandi er minnt á þá grundvallarreglu um málskostnað í endurupptökumálum, sem fram kemur í 3. mgr. 141. gr. nefndra laga, en þar segir að dómari ákveði í dómi eða úrskurði málskostnað í einu lagi vegna málsins í heild og skuli stefndi að öðru jöfnu dæmdur til að greiða stefnanda allan málskostnað án tillits til þeirrar niðurstöðu sem fæst við endurupptöku. Í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að hér sé um sérreglu að ræða um ákvörðun málskostnaðar þegar máli lýkur við endurupptöku en samkvæmt henni verði stefndi að jafnaði að greiða stefnanda allan málskostnað hans án tillits til málsúrslita. Sé þessi regla um refsikennda ákvörðun málskostnaðar vegna útivistar í samræmi við langvarandi dómvenju við úrlausn mála í Hæstarétti þegar útivist hefur orðið af hendi stefnda í héraði og hann áfrýjar máli.“

Með bréfi, dags. 7. apríl 2004, gaf ég lögmanni A kost á að senda mér athugasemdir í tilefni af svörum ráðuneytisins og gjafsóknarnefndar. Athugasemdir fyrir hönd A bárust mér með bréfi lögmanns 8. júlí 2004.

IV.

1.

Þau rök sem færð hafa verið fram af hálfu gjafsóknarnefndar fyrir synjun á beiðni A um gjafsókn annars vegar í umsögn nefndarinnar, dags. 12. september og í skýringum til mín eru ekki að öllu leyti samhljóða. Af skýringum þeim sem nefndin og dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafa látið mér í té verður ráðið að það sé afstaða þessara stjórnvalda að ákvæði XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eigi ekki við um meðferð beiðni fyrir Hæstarétti um endurupptöku útivistarmáls, sbr. 1. mgr. 167. gr. laganna, né um kostnað vegna dómsmeðferðar í héraði veiti Hæstiréttur leyfið. Er þessi afstaða byggð á því áliti gjafsóknarnefndar að hafi ekki verið mætt af hálfu gjafsóknarbeiðanda við þingfestingu máls í héraði, þrátt fyrir lögmæta stefnubirtingu og vörnum því ekki haldið uppi af hans hálfu, standi gjafsóknarheimildir XX. kafla laga nr. 91/1991 hvorki til þess að kosta af almannafé beiðni um endurupptöku máls né dómsmeðferð þess í héraði veiti Hæstiréttur leyfi til endurupptöku.

Um gjafsókn er fjallað í XX. kafla laga nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 125. gr. laganna er hugtakið gjafsókn notað bæði um gjafsókn og gjafvörn. Í 1. mgr. 126. gr. laganna eru skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar tilgreind en þar segir:

„Gjafsókn verður aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er að auki fullnægt:

a. að efnahag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, en við mat á efnahag hans má eftir því sem á við einnig taka tillit til eigna og tekna maka hans eða sambýlismanns eða eigna og tekna foreldra hans ef hann er yngri en 18 ára,

b. að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.“

Ákvæði laga um gjafsókn eru liður í því að tryggja borgurunum þann rétt til aðgangs að dómstólunum sem leiðir af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. breytingu með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995, og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ég minni í þessu sambandi á þau ummæli í nefndaráliti stjórnarskrárnefndar Alþingis, við setningu núgildandi 70. gr. stjórnarskrárinnar 1995, að í því ákvæði „felist sú grundvallarregla að ríkið veiti þeim efnaminni aðstoð til að fá úrlausn réttinda sinna“. (Alþt. 1994—1995 bls. 3884.) Við setningu lagareglna um gjafsókn hefur ítrekað komið fram að þeim væri sérstaklega ætlað að stuðla að því að fjárhagsleg geta réði því ekki hvort hinn almenni borgari gæti leitað til dómstóla með mál sín. Ég tel að líta verði til þessara atriða þegar núgildandi ákvæði laga nr. 91/1991 um gjafsókn eru skýrð.

Álitaefnið í því máli sem kvörtun A fjallar um beinist að því hvort sú afstaða gjafsóknarnefndar að útivist í héraði af hálfu þess sem síðar óskar eftir gjafsókn til meðferðar málsins fyrir dómstólum með tilheyrandi beiðni um endurupptöku leiði til þess að hann geti ekki að lögum fengið gjafsókn sé byggð á lögmætum og málefnalegum forsendum, eins og dóms- og kirkjumálaráðuneytið heldur fram í bréfi ráðuneytisins til mín, dags. 2. apríl 2004.

Samkvæmt upphafsorðum 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 verður gjafsókn aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar. Ég skil skýringar gjafsóknarnefndar og ráðuneytisins svo að vegna útivistar af hálfu A sem stefndu í héraði í umræddu dómsmáli uppfylli hún ekki tilvitnað skilyrði 1. mgr. 126. gr. um að málstaður hennar gefi „nægilegt tilefni“ til málsvarnar. Ekki verður séð af svörum gjafsóknarnefndar að sérstaklega hafi verið lagt mat á atvik eða aðstæður í máli A. Afstaða nefndarinnar og ráðuneytisins til beiðni A er byggð á því að útivist í héraði af hálfu þess sem óskar eftir gjafsókn leiði almennt til þess að viðkomandi uppfylli ekki það skilyrði um „nægilegt tilefni“ sem sett er í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991.

Ein veigamesta breytingin sem gerð var á meðferð einkamála með lögum nr. 91/1991 laut að meðferð útivistarmála og endurupptöku þeirra svo sem fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið (Alþt. 1991—1992, A-deild, bls. 1064). Lutu þessar breytingar meðal annars að möguleikum til áfrýjunar dóma í útivistarmálum til Hæstaréttar og endurupptöku mála eftir ákveðnum reglum í því sambandi. Voru t.d. ákvæði XXVI. kafla laga nr. 91/1991, um endurupptöku óáfrýjaðs máls, nýmæli. Af núgildandi reglum laga nr. 91/1991, er ljóst að heimildir til endurupptöku óáfrýjaðra mála eru, á sama hátt og aðrar reglur réttarfarslaga, meðal þeirra úrræða sem borgararnir hafa til að leita réttar síns í formi „málshöfðunar eða málsvarnar“ og þar með til að neyta réttar síns til aðgangs að dómstólunum, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvæði XX. kafla laganna um gjafsókn eru eins og áður hefur verið bent á sett til að tryggja að efnahagur einstakra borgara standi því ekki í vegi að þeir geti leitað réttar síns fyrir dómstólunum og þá eftir þeim leiðum sem lög heimila.

Í fyrri umsögn gjafsóknarnefndar, dags. 27. janúar 2004, í tilefni af fyrirspurnarbréfi mínu var tekið svo til orða að gjafsóknarbeiðni lögmanns A hefði „einvörðungu“ lotið að meðferð beiðni fyrir Hæstarétti um endurupptöku óáfrýjaðs héraðsdóms. Er tekið fram að gjafsóknarnefnd líti svo á að gjafsóknarheimildir laga nr. 91/1991 verði ekki túlkaðar svo að þær geti tekið til slíkrar beiðni. Í beiðni lögmanns A, dags. 2. apríl 2003, sem send var dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, segir að sótt sé um gjafsókn vegna máls sem höfðað var á hendur A með stefnu útgefinni 15. júlí 2002. Síðan er því lýst að útivist hafi orðið af hálfu A við meðferð málsins í héraði og gerð grein fyrir sjónarmiðum A í málinu. Þá segir í gjafsóknarbeiðninni:

„Í ljósi framangreinds á umbjóðandi minn ekki annars kost en að fá mál sitt endurupptekið hjá dómstólum, að öllum líkindum fæst ekki samþykki stefnanda á endurupptöku og því þarf að byrja á að óska eftir endurupptöku óáfrýjaðs máls í Hæstarétti, skv. 167. gr. eml. og þá í kjölfarið að reka málið.“

Að lokum eru í beiðninni færð fram rök af hálfu A fyrir því að hún telji sig uppfylla skilyrði a- og b-liða 126. gr. laga nr. 91/1991 og fjallað um fjárhagsstöðu hennar og eiginmanns. Þar segir meðal annars að af lýsingunni sjáist að engir fjármunir séu til hjá þeim „til að standa straum af málaferlum fyrir dómi“ og áfram er haldið: „Efnahag umbjóðanda míns er því þannig varið að kostnaður af fyrirhugaðri endurupptöku á málinu yrði henni fyrirsjáanlega ofviða.“ Að síðustu er því lýst að A sé haldin ákveðnum sjúkdómi og vísað til meðfylgjandi læknisvottorðs þar um. Beiðninni lýkur með þeim orðum að þess sé „óskað að veitt verði gjafsókn í máli þessu“.

Ég fæ ekki séð að það verði ráðið af orðalagi í gjafsóknarbeiðni lögmanns A að hún hafi „einvörðungu“ lotið að meðferð beiðni fyrir Hæstarétti um endurupptöku óáfrýjaðs héraðsdóms. Þvert á móti er þar sérstaklega óskað eftir gjafsókn vegna umrædds dómsmáls og beinlínis tekið fram að „að öllum líkindum“ fáist ekki samþykki stefnanda á endurupptöku. Þegar beiðnin var sett fram var þannig ekki endanlega ljóst hvort óska þyrfti eftir leyfi Hæstaréttar til endurupptöku málsins.

Í samræmi við framangreint er það niðurstaða mín að gjafsóknarbeiðni A sem lögmaður hennar bar fram í bréfi, dags. 2. apríl 2003, hafi lotið að fyrirhugaðri málsvörn fyrir dómstólum vegna þess dóms sem fallið hafði í héraðsdómi Reykjaness 30. september 2002. Á þeim tíma sem gjafsóknarbeiðnin var sett fram var ljóst að til þess kynni að koma að liður í því að haldið yrði uppi málsvörn af hálfu A fyrir dómstólum væri að óska eftir leyfi Hæstaréttar til endurupptöku í héraði á umræddum dómi, sbr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 38/1994. Gjafsóknarbeiðnin laut því ekki einvörðungu að meðferð beiðni fyrir Hæstarétti um endurupptöku málsins.

Í síðari umsögn gjafsóknarnefndar, dags. 8. mars 2004, vegna fyrirspurnarbréfs frá mér er sérstaklega vísað til reglu 3. mgr. 141. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings þeirri afstöðu nefndarinnar að gjafsóknarheimildir XX. kafla laga nr. 91/1991 standi hvorki til þess að kosta af almannafé beiðni um endurupptöku máls né dómsmeðferðar þess í héraði veiti Hæstiréttur leyfi til endurupptöku. Í þessu ákvæði segir að stefndi skuli „að öðru jöfnu“ dæmdur til að greiða stefnanda allan málskostnað án tillits til þeirrar niðurstöðu sem fæst við endurupptöku. Ég tel nauðsynlegt vegna þessarar tilvísunar gjafsóknarnefndar að minna á að það er beinlínis kveðið á um það í 3. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991 að gjafsókn breyti engu um að gjafsóknarhafa verði sjálfum gert að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Löggjafinn hefur þarna skýrlega greint á milli þess málskostnaðar sem gjafsóknarhafi kann að þurfa að greiða gagnaðila og gjafsóknar. Ég fæ því ekki séð að þau sjónarmið sem gjafsóknarnefnd byggir á með tilvísun til 3. mgr. 141. gr. laga nr. 91/1991 séu lögmæt eða málefnaleg.

Ég get ekki fallist á þá afstöðu gjafsóknarnefndar og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það leiði af reglum XX. kafla laga nr. 91/1991 að ekki sé heimilt að veita gjafsókn til meðferðar máls fyrir héraðsdómi leyfi Hæstiréttur endurupptöku málsins. Rekstur slíks máls fyrir héraðsdómi lýtur að meginstefnu til sömu reglum og meðferð annarra dómsmála, þ.m.t. um þau atriði sem varða ákvarðanir dómara um gjafsóknarkostnað á grundvelli gjafsóknarleyfis. Hafi fallið til kostnaður hjá gjafsóknarhafa við að setja fram beiðni til Hæstaréttar um endurupptöku málsins og meðferð beiðninnar þar kæmi það í hlut dómara sem fer með hið endurupptekna mál fyrir héraðsdómi að taka afstöðu til þess hvort slíkur kostnaður telst til málskostnaðar, sbr. 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, og þar með gjafsóknarkostnaðar í merkingu 127. gr. sömu laga nema gjafsókn hafi verið takmörkuð að því er slíkan kostnað varðar.

Ég tek það fram að ég tel ekki þörf á því, meðal annars með tilliti til þess hvernig gjafsóknarbeiðni A var orðuð, að fjalla í áliti þessu sérstaklega um heimildir til að veita gjafsókn á grundvelli XX. kafla laga nr. 91/1991 eingöngu til meðferðar endurupptökubeiðni fyrir Hæstarétti. Ég vísa þá til þess að eins og ég rakti í fyrirspurnarbréfi mínu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 20. febrúar 2004, hafði í öðru máli sem ég fjallaði um komið fram sú afstaða hjá gjafsóknarnefnd að „ákvæðum XX. kafla laga nr. 91/1991 um gjafsókn verði með lögjöfnun beitt vegna umsóknar um endurupptöku dóms í Hæstarétti“.

Það hefur komið fram hér að framan að sú afstaða gjafsóknarnefndar, og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í framhaldi af því, að synja beiðni A var byggð á því að nefndin taldi að lög stæðu ekki til þess að veita henni gjafsókn vegna „beiðni um endurupptöku máls né dómsmeðferðar þess í héraði veiti Hæstiréttur leyfi til endurupptöku“. Þessi afstaða er byggð á því að almennt skorti lagaheimild til að veita gjafsókn í slíkum tilvikum. Eins og fram kemur í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín, dags. 2. apríl 2004, telur ráðuneytið þessa afstöðu gjafsóknarnefndar byggja á lögmætum og málefnalegum forsendum. Ég hef hér að framan gert grein fyrir því að ég tel að þessi afstaða sé ekki í samræmi við lög. Niðurstaða stjórnvalda í máli A var ekki byggð á mati á því hvort aðstæður í hennar máli uppfylltu þau skilyrði sem sett eru í 126. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að gjafsókn verði veitt. Slíkt mat hefur ekki farið fram og því hefur ekki verið leyst úr gjafsóknarbeiðni A í samræmi við lög.

2.

Í kvörtun lögmanns A til mín eru gerðar athugasemdir við hversu langan tíma afgreiðsla málsins hafi tekið hjá gjafsóknarnefnd. Bent er á að samkvæmt 8. gr. í reglugerð nr. 69/2000, um gjafsókn, skuli gjafsóknarnefnd að jafnaði innan fjögurra vikna frá því nefndinni berst umsókn sem studd er fullnægjandi rökum og gögnum, láta dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í té skriflega og rökstudda umsögn. Þrátt fyrir ítrekanir af hálfu fjárhaldsmanns A við ráðuneytið á tímabilinu frá maí 2003 og fram í september hafi engar tilkynningar borist í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um fyrirsjáanlegar tafir, skýringar á þeim eða fyrirhugaðan afgreiðslutíma. Þá er tekið fram í kvörtuninni að á þessum tíma hafi aldrei verið haft samband við umboðsmann A eða óskað eftir frekari gögnum eða upplýsingum. Í kvörtun A er ekki sérstaklega vísað til þess með hvaða hætti sá dráttur sem varð á afgreiðslu málsins af hálfu gjafsóknarnefndar hafi bitnað á hagsmunum hennar fjárhagslega eða réttarfarslega.

Af gögnum málsins verður ráðið að gjafsóknarbeiðni A, dags. 2. apríl 2003, barst dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 7. apríl s.á. og ráðuneytið sendi beiðnina til umsagnar hjá gjafsóknarnefnd með bréfi daginn eftir. Umsögn nefndarinnar barst ráðuneytinu 12. september 2003 og ráðuneytið sendi lögmanni A svar við gjafsóknarbeiðninni með bréfi, dags. 22. september 2003.

Gögn málsins bera með sér að í þessu máli hefur gjafsóknarnefnd ekki fylgt fyrirmælum 8. gr. reglugerðar nr. 69/2000 um afgreiðslutíma umsagnar um gjafsóknarbeiðnina eða sent tilkynningar í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga. Af þessu tilefni tel ég einnig rétt að benda á hversu langan tíma það tók dóms- og kirkjumálaráðuneytið að svara fyrra fyrirspurnarbréfi mínu vegna þessa máls þar sem ráðuneytið beið eftir umsögn gjafsóknarnefndar. Með bréfi, dags. 7. nóvember 2003, óskaði ég eftir að ráðuneytið skýrði tiltekin atriði í tilefni af kvörtun A og sendi mér svar þar um eigi síðar en 28. nóvember 2003 Ráðuneytið sendi gjafsóknarnefnd bréf, dags. 18. nóvember 2003, og óskaði eftir að nefndin léti ráðuneytinu í té umsögn vegna kvörtunar A sem fyrst og eigi síðar en 27. nóvember 2003. Þegar svar ráðuneytisins hafði ekki borist mér 8. desember 2003 ítrekaði ég erindi mitt við ráðuneytið sem í kjölfarið ítrekaði umsagnarbeiðni sína við gjafsóknarnefnd með bréfi, dags. 16. desember 2003, og tók fram að þess væri vænst að umsögnin bærist hið fyrsta. Ég ítrekaði beiðni mína á ný með bréfi, dags. 26. janúar 2004. Umsögn gjafsóknarnefndar barst ráðuneytinu 29. janúar 2004 og það sendi mér svar við bréfi mínu frá 7. nóvember 2003 hinn 11. febrúar 2004 og vísaði um svör ráðuneytisins til umsagnar gjafsóknarnefndar. Það skal jafnframt tekið fram að ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu annað fyrirspurnarbréf vegna þessa máls 20. febrúar 2004 og svar við því barst án verulegra tafa. Eftir að ráðuneytið hafði fengið umsögn frá gjafsóknarnefnd, dags. 8. mars 2004, svaraði ráðuneytið með bréfi, dags. 2. apríl 2004.

Dráttur á afgreiðslu mála af hálfu gjafsóknarnefndar hefur áður verið til umfjöllunar hjá mér. Regla 8. gr. reglugerðar nr. 69/2000 um að umsögn gjafsóknarnefndar skuli að jafnaði liggja fyrir innan fjögurra vikna var af hálfu ráðuneytisins sett til að skapa ákveðnu festu um þann tíma sem gjafsóknarnefnd hefði til að fjalla um mál. Eftir að reglugerðin var sett hef ég af og til veitt því athygli að í málum sem komið hafa til umfjöllunar hjá mér hefur sá tími sem það tók nefndina að láta uppi umsögn um gjafsóknarbeiðni verið lengri en reglugerðin áskilur. Kvörtun A hefur gefið mér tilefni til að athuga málsmeðferðartíma af hálfu gjafsóknarnefndar í þeim málum sem mér hafa borist á síðustu árum. Þótt nefndin hafi í þeim málum að meiri hluta til skilað umsögn sinni innan þess frests sem fram kveðið er á um í 8. gr. reglugerðarinnar og í öðrum kunni skýringin á lengri afgreiðslutíma að byggjast á frekari gagnaöflun eftir að beiðni um umsögn barst, eru þó dæmi um frávik frá fjögurra vikna frestinum sem ekki verða skýrð með athugun gagna málsins. Með hliðsjón af því og þeim drætti sem varð á afgreiðslu gjafsóknarnefndar í þessu máli hef ég ákveðið að taka málsmeðferðartíma gjafsóknarnefndar almennt til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og þá hvort hann samræmist fyrirmælum 8. gr. reglugerðar nr. 69/2000, um starfshætti gjafsóknarnefndar, og málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða mín að sú afstaða gjafsóknarnefndar og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að gjafsóknarheimildir XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, standi hvorki til þess að veita gjafsókn vegna beiðni til Hæstaréttar um endurupptöku á óáfrýjuðu máli né til dómsmeðferðar þess í héraði að fengnu leyfi sé ekki í samræmi við lög. Það er því niðurstaða mín að afgreiðsla gjafsóknarnefndar og þar með dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á beiðni lögmanns A hafi ekki byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum. Eru það tilmæli mín til þessara stjórnvalda að umrætt mál A verði tekið til meðferðar að nýju, komi fram ósk þess efnis frá henni, og að þá verði leyst úr því í samræmi við þau sjónarmið sem lýst er í áliti þessu.