Opinberir starfsmenn. Skipun í embætti héraðsdýralæknis. Sjónarmið sem ákvörðun byggist á. Skráningarskylda stjórnvalda. Aðgangur að gögnum.

(Mál nr. 4108/2004)

A, dýralæknir, kvartaði yfir skipun landbúnaðarráðherra í embætti héraðsdýralæknis í X-umdæmi en A var annar tveggja umsækjenda um starfið. Taldi A meðal annars að ákvörðun um skipunina hafi byggst á röngu mati á starfsreynslu umsækjenda og að hún stangaðist á við 10. og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá beindist kvörtun A einnig að því að hann hefði ekki fengið aðgang að prófskírteinum þess sem skipaður var í embættið þrátt fyrir að hafa beðið um afrit af öllum gögnum sem höfð höfðu verið til hliðsjónar við skipunina.

Umboðsmaður benti á að í íslenskum rétti hafi ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið eigi að leggja til grundvallar við skipun, setningu eða ráðningu í opinber störf. Stjórnvöld ákvæðu því hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðun ætti að byggjast. Þau yrðu þó að byggja niðurstöðu sína á málefnalegum sjónarmiðum eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim persónulegum eiginleikum sem talið væri að skiptu máli við rækslu starfans.

Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til athugasemda við að landbúnaðarráðherra hefði við val á milli umsækjenda ákveðið að leggja áherslu á formlega reynslu þeirra í starfi héraðsdýralæknis auk þess að líta til þeirrar reynslu sem umsækjendur hefðu öðlast við störf í því héraði sem viðkomandi embætti tæki til. Vísaði umboðsmaður í þessu sambandi til lagafyrirmæla sem af megi ráða að eftirlitsstörf og önnur lögbundin stjórnsýsluverkefni séu umtalsverður hluti af starfi héraðsdýralækna. Þá taldi umboðsmaður að rannsókn málsins hefði verið fullnægjandi að því er laut að starfsreynslu umsækjenda og að beiting ofangreindra sjónarmiða hefði ekki farið í bága við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður benti á að samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ætti aðili máls almennt rétt á því að fá afrit af þeim gögnum er málið vörðuðu. Á þessum rétti væru þó gerðar undantekningar sem fjallað væri um í 15.—17. gr. laganna. Umboðsmaður rakti að í málinu lægi ekki fyrir skýring af hálfu landbúnaðarráðuneytisins á því hvers vegna A hefði ekki verið afhent afrit af prófskírteini B þegar honum voru send önnur gögn málsins. Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að teldi ráðuneytið að umrætt gagn félli undir ákvæði stjórnsýslulaga um undantekningar eða takmarkanir á almennum upplýsingarétti aðila máls, hefði því verið rétt að tilkynna A það ásamt rökstuðningi, í samræmi við 1. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið hefði því ekki leyst með réttum hætti úr beiðni A um aðgang að gögnum málsins.

Umboðsmaður rakti að í rökstuðningi landbúnaðarráðuneytisins fyrir skipun B, sem sendur var A að beiðni hans, hafi komið fram að við ákvörðun um skipunina hefðu verið lögð til grundvallar atriði sem fram komu í viðtölum sem starfsmenn ráðuneytisins og yfirdýralæknir hefðu átt við umsækjendur. Engin minnisblöð eða önnur gögn varðandi viðtölin hefðu hins vegar fylgt gögnum málsins, væri frá talið ódagsett og handskrifað blað, sem undirritað hafi verið af tveimur starfsmönnum ráðuneytisins auk yfirdýralæknis þar sem segði að undirritaðir væru sammála um að mæla með B í starfið.

Umboðsmaður rakti efni 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er fjallar um skráningu upplýsinga um málsatvik. Umboðsmaður taldi stjórnvöldum skylt að fylgja fyrirmælum greinarinnar við undirbúning skipunar eða ráðningar í opinber störf ef upplýsinga, sem hefðu verulega þýðingu við úrlausn málsins, væri aflað með viðtölum við umsækjendur. Benti umboðsmaður í þessu sambandi á álit sitt frá 21. nóvember árið 2000 í máli nr. 2787/1999.

Það var niðurstaða umboðsmanns að ráðuneytið hefði ekki gætt fyrirmæla 23. gr. upplýsingalaga. Af þeirri aðstöðu leiddi jafnframt að útilokað væri að taka afstöðu til þess hvort hægt hefði verið að draga ályktun af því sem fram kom í viðtölunum um þá eiginleika sem ætlunin hefði verið að varpa ljósi á með því að kalla umsækjendur í viðtal. Þar sem engin skrifleg gögn lægju fyrir um þau atriði sem þar komu fram ætti A heldur ekki kost á því að kynna sér þær upplýsingar sem hann hefði ella átt rétt á samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nema að undantekningar 16. og 17. gr. sömu laga ættu við.

Umboðsmaður tók fram að framangreindir annmarkar á meðferð málsins væru ekki þess eðlis að líkur væru á því að þeir gætu valdið ógildingu ákvörðunarinnar. Hann beindi hins vegar þeim tilmælum til landbúnaðarráðuneytisins að það tæki framvegis mið af fyrirmælum 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þegar það aflaði munnlega upplýsinga um umsækjendur um störf.

I.

Hinn 10. maí 2004 leitaði A, til mín og kvartaði yfir skipun landbúnaðarráðherra í embætti héraðsdýralæknis í X-umdæmi en A var meðal umsækjenda um starfið.

Í kvörtuninni kemur fram að hann telur að ákvörðun um skipunina hafi byggst á röngu mati á starfsreynslu umsækjenda og að hún stangist á við 10. og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telur A að starfsreynsla hans sem dýralæknis hafi verið meiri en þess sem skipaður var í stöðuna. Þá er gerð athugasemd við að embættið hafi ekki verið auglýst með þeim hætti sem tíðkist um embætti héraðsdýralækna. Auk þess er í kvörtuninni gerð athugasemd við þátttöku yfirdýralæknis við undirbúning skipunarinnar. Að lokum kemur fram í athugasemdum A er mér bárust með bréfi, dags. 24. september 2004, að rétt hefði verið að veita honum aðgang að prófskírteinum þess sem skipaður var í embættið í samræmi við beiðni um að fá afrit af öllum þeim gögnum sem höfð hafi verið til hliðsjónar við skipunina.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 29. nóvember 2004.

II.

Málsatvik eru þau að A sótti um stöðu héraðsdýralæknis í X-umdæmi með bréfi til landbúnaðarráðuneytisins, dags. 15. september 2003, en auglýsing um embættið birtist í Lögbirtingablaði 10. september s.á. Var A annar tveggja umsækjenda um starfið og voru þeir báðir boðaðir í viðtöl í landbúnaðarráðuneytinu. Viðtölin sátu tveir starfsmenn ráðuneytisins ásamt yfirdýralækni.

Hinn 5. nóvember 2003 ritaði landbúnaðarráðuneytið A bréf þar sem honum var tilkynnt að hinn umsækjandinn hefði verið skipaður í embættið. Í kjölfarið fór A fram á það við ráðuneytið með bréfi, dags. 10. nóvember 2003, að það rökstyddi ákvörðun sína og jafnframt að honum yrðu fengin afrit af öllum gögnum sem höfð hefðu verið til hliðsjónar við ráðninguna.

Rökstuðningur landbúnaðarráðuneytisins fyrir ákvörðuninni var sendur A með bréfi, dags. 8. desember 2003. Þar segir meðal annars:

„Við ákvörðun um ráðningu í umrætt starf voru í fyrsta lagi hafðar til hliðsjónar umsóknir umsækjendanna og gögn sem þeim fylgdu. Í öðru lagi voru lögð til grundvallar atriði sem fram komu í viðtölum umsækjenda við starfsmenn ráðuneytisins og yfirdýralækni svo og meðfylgjandi bréf yfirdýralæknis, dags. 3. nóvember, þar sem fram kemur mat embættisins á hæfni umsækjenda.

Ráðuneytið tekur undir það sjónarmið sem fram kemur í bréfi yfirdýralæknis að báðir umsækjendur eru hæfir til að gegna starfinu. Það sem hins vegar réð vali ráðuneytisins var meiri reynsla [Y] sem hann hefur aflað sér í starfi sem settur héraðsdýralæknir.“

Í tilvitnuðu bréfi yfirdýralæknis, dags. 3. nóvember 2003, segir meðal annars:

„Landbúnaðarráðuneytið hefur óskað eftir að yfirdýralæknir veiti umsögn um þessa umsækjendur.

Ljóst er að báðir umsækjendur eru hæfir til að gegna þessari stöðu.

Yfirdýralæknir telur að [Y] hafi aflað sér meiri reynslu sem héraðsdýralæknir í störfum sínum sem settur héraðsdýralæknir í umræddu héraði. Þar hafa komið upp mörg erfið úrlausnarefni, sem [Y] leysti vel úr hendi. Báðir umsækjendur hafa verið kallaðir í viðtöl vegna umsókna sinna. Þar ræddu starfsmenn landbúnaðarráðuneytisins auk yfirdýralæknis við umsækjendur. Það er mat yfirdýralæknis að þar hafi [Y] staðið sig vel og að samanlagt sé hægt að meta [Y] hæfari til að gegna ofangreindu embætti.“

III.

Ég ritaði landbúnaðarráðherra bréf, dags. 24. maí 2004, þar sem ég óskaði eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið lýsti viðhorfi sínu til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins.

Gögn málsins bárust mér 22. júní ásamt svarbréfi landbúnaðarráðuneytisins, dags. 21. júní 2004. Í svarbréfinu segir m.a. svo:

„I. Auglýsing um stöðuna

Með auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaðinu þann 10. september 2003, var auglýst laus til umsóknar staða embættis héraðsdýralæknis [X-umdæmis] (fylgiskjal 1). Engar sérstakar hæfiskröfur eða sjónarmið var að finna í auglýsingunni. Lágmarkskröfur til að hljóta skipun í stöðu héraðsdýralæknis er að finna í lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Umsækjendur um stöðuna voru tveir, [A] dýralæknir og [Y]dýralæknir.

II. Gögn sem lágu fyrir við töku stjórnvaldsákvörðunarinnar

Þar sem báðir umsækjendur uppfylltu lágmarkskröfur var óhjákvæmilegt að fram færi samanburður á milli viðkomandi umsækjenda á grundvelli þeirra sjónarmiða sem byggt var á. Forsenda þess að slíkur samanburður geti farið fram er að þau atriði sem þýðingu hafa séu upplýst. Skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber handhafa veitingarvalds að sjá til þess að nægar upplýsingar liggi fyrir þegar stjórnsýsluákvörðun er tekin.

Við val á milli umsækjenda var stuðst við þrennt, umsóknir umsækjenda með ferilskrá þeirra og ljósriti af prófskírteinum, umsögn yfirdýralæknis og viðtöl við umsækjendur. Einnig barst ráðuneytinu bréf frá formanni félags kúabænda í [X]. dags. 29/9 2003, þar sem óskað var eindregið eftir því að öðrum aðilanum yrði veitt staðan.

II. A. Umsóknargögn

Þegar aðilarnir sóttu um starfið lögðu þeir fram gögn um nám sitt og starfsferil auk persónulegra upplýsinga.

II. B. Viðtöl við umsækjendur

Umsækjendur voru boðaðir í viðtal í landbúnaðarráðuneytinu í tengslum við ráðningarferlið. Viðtalið sátu tveir menn frá landbúnaðarráðuneytinu og yfirdýralæknir sem þá hafði enn ekki gefið umsögn sína um ráðningu í embættið. Eftir viðtölin við umsækjendur voru þeir sem sátu þau sammála um að mæla með [Y] í starfið (sbr. fylgiskjal 2).

II. C. Umsögn yfirdýralæknis

Landbúnaðarráðuneytinu þótti rétt, þrátt fyrir að ekki væri fyrir því bein lagaskylda, að leita umsagnar yfirdýralæknis um veitingu stöðunnar enda er yfirdýralæknir æðsti faglegur yfirmaður dýralækna. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 66/1988 segir: „Yfirdýralæknir er ráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um allt er varðar heilbrigðismál dýra og hollustuhætti við framleiðslu og meðferð búfjárafurða.“, einnig er rétt að vísa í a-lið 2. mgr. 5. gr. laga nr. 66/1988 af þessu tilefni þar sem segir: „Yfirdýralæknir hefur með höndum yfirstjórn og eftirlit með störfum héraðsdýralækna [...].“

Landbúnaðarráðuneytið leit ekki svo á að það væri bundið af umsögn yfirdýralæknis.

Ráðuneytinu barst umsögn yfirdýralæknis á ráðningunni með bréfi dagsettu 03.11.2003. Yfirdýralæknir taldi báða umsækjendur vera hæfa til að gegna stöðunni. Það var mat yfirdýralæknis að [Y] hafi aflað sér meiri reynslu sem héraðsdýralæknir í störfum sínum í umræddu héraði. Þar hafi komið upp mörg erfið úrlausnarefni sem [Y] leysti vel úr hendi. Einnig vísar yfirdýralæknir til þess að báðir umsækjendur hafi verið kallaðir í viðtal vegna umsókna sinna og þar telji hann [Y] hafa staðið sig vel og að samanlagt sé hægt að meta [Y] hæfari til þess að gegna embættinu.

II. D. Innsent bréf

Með bréfi frá formanni félags kúabænda í [X]. dagsettu 29/9 2003 er óskað eindregið eftir því að [Y] sé veitt staðan. Einnig er lýst yfir mikilli ánægju með störf hans.

III. Sjónarmið við ráðninguna

Það var viðhorf landbúnaðarráðuneytisins að við val á milli umsækjenda um embætti héraðsdýralæknis yrði fyrst og fremst að gera þá kröfu að umsækjandi hefði víðtæka menntun og þekkingu þannig að hann gæti, og þá í ljósi starfsferils síns, tekist á við þau verkefni sem fylgdu starfinu.

Þau sjónarmið sem voru lögð til grundvallar við matið og réðu úrslitum voru annarsvegar að [Y] kom betur út í viðtali í ráðuneytinu en [A] og hinsvegar að [Y] hafði víðtækari reynslu í umræddu héraði en [A]. Það hafði einnig áhrif að yfirdýralæknir, sem mælti með að [Y] yrði veitt staðan, nefndi að upp hefðu komið mörg erfið úrlausnarefni í héraðinu sem [Y] hafði leyst vel úr hendi. Bréfið frá formanni félags kúabænda hafði engin áhrif við veitingu stöðunnar.

IV. Athugasemdir við auglýsingu stöðunnar

Í kvörtun sinni til umboðsmanns gagnrýnir [A] þá aðferð sem var notuð við að auglýsa starfið, það hafi hvorki verið auglýst í blöðum né heldur á tölvupóstkerfi Dýralæknafélags Íslands heldur einungis á starfatorgi ríkisins á netinu. Sem svar við þessu atriði vísar landbúnaðarráðuneytið til 3. gr. reglna nr. 464/1996 um auglýsingar á lausum störfum með síðari breytingum, þar segir eftirfarandi: „Laust starf telst nægjanlega auglýst ef auglýst er annað hvort þannig: 1. að auglýsing birtist á netinu á sérstöku vefsvæði um laus störf hjá ríkinu og til hennar sé jafnframt vísað að minnsta kosti einu sinni í yfirliti um laus störf hjá ríkinu sem birtist í dagblaði sem gefið er út á landsvísu. Í yfirlitinu skal tilgreina starfsheiti, nafn stofnunar, í hvaða sveitarfélagi starfsmaður verður staðsettur og hvert leita skuli varðandi frekari upplýsingar. Umsóknarfrestur skal miðast við fyrstu birtingu yfirlits í dagblaði eða 2. að auglýsing birtist að minnsta kosti einu sinni í dagblaði sem gefið er út á landsvísu.“

Auglýsingin birtist á vef Starfatorgsins 2. september 2003 og var hún með umsóknarfresti til 30. september.

Auglýsingin birtist tvisvar sinnum, 5. og 12. september 2003, í yfirliti Starfatorgsins í Morgunblaðinu, dagblaði á landsvísu, þ.e. vísað var í auglýsinguna og bent á ítarlegri upplýsingar um starfið á www.starfatorg.is.

Einnig birtist auglýsingin í Lögbirtingablaðinu, nr. 124/2003, dags. 10. september 2003. (sbr. fylgiskjal 1.)

Birting auglýsingarinnar uppfyllir samkvæmt ofangreindu kröfur reglna um auglýsingar á lausum störfum.“

Ég gaf Ai kost á því með bréfi, dags. 22. júní 2004, að gera athugasemdir við svarbréf ráðuneytisins. Þær athugasemdir bárust mér með bréfi, dags. 24. september 2004 eins og fram hefur komið.

IV.

1.

Vegna þeirra atriða sem kvörtun A beinist að vil ég í fyrstu taka fram að í íslenskum rétti hafa ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið eigi að leggja til grundvallar við skipun, setningu eða ráðningu í opinber störf. Hefur því almennt verið gengið út frá því að það stjórnvald sem veitir starfið skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin eigi að byggjast ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Leiði þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar ekki til sömu niðurstöðu verður enn fremur að líta svo á að það sé almennt komið undir mati viðkomandi stjórnvalds á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli lögð. Í þessu felst þó ekki að það hafi að öllu leyti frjálsar hendur um það hver skuli skipaður, settur eða ráðinn í starf hverju sinni. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verður niðurstaðan að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim persónulegum eiginleikum sem talið er að skipti máli við rækslu starfans. Þá hefur verið litið svo á að við skipun, setningu eða ráðningu í opinbert starf beri að velja þann umsækjanda sem talinn er hæfastur til að gegna viðkomandi starfi með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem byggt er á.

Um skipun héraðsdýralækna í embætti er fjallað í lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Engin fyrirmæli eru þar um á hvaða sjónarmiðum skuli byggt við skipun þeirra í embætti að því undanskildu að dýralæknar verða að hafa leyfi landbúnaðarráðherra til að stunda dýralækningar.

Af rökstuðningi landbúnaðarráðuneytisins fyrir skipun Y í embættið má ráða að við þá ákvörðun hafi einkum verið litið til starfsreynslu umsækjenda enda menntun þeirra hliðstæð. Í rökstuðningi þeim sem ráðuneytið sendi A kemur fram að það sem réði því að Y var valinn til að gegna embættinu hafi verið meiri reynsla hans af því að starfa sem settur héraðsdýralæknir. Í umsögn yfirdýralæknis um umsækjendur segir enn fremur að Y hafi leyst vel úr erfiðum úrlausnarefnum sem settur héraðsdýralæknir í X-umdæmi. Í skýringum þeim sem ráðuneytið sendi mér í tilefni af kvörtun A er enn fremur tekið svo til orða að auk frammistöðu í starfsviðtölum hafi það ráðið úrslitum að Y hafði víðtækari reynslu í umræddu héraði.

Af umsókn A má ráða að eftir að hann lauk dýralæknanámi í júlí 1998 hafi hann starfað sem dýralæknir í Noregi og hjá Z til 30. september 2001. Þá hafi hann verið sjálfstætt starfandi dýralæknir á Þ frá október 2001 til marsloka 2002 er hann var ráðinn eftirlitsdýralæknir í umdæmi héraðsdýralæknis í Æ þar sem hann starfi nú. Fram kemur í umsókn A að á meðan hann var starfandi dýralæknir á Þ hafi hann leyst héraðsdýralækninn þar af og meðal annars verið settur héraðsdýralæknir frá 1. mars til 31. mars 2002.

Hinn umsækjandinn, Y, lauk prófi í dýralækningum í júlímánuði árið 2000 og starfaði þá fyrst í stað við almennar dýralækningar og nautgripasæðingar í Þýskalandi. Hann var settur héraðsdýralæknir á Ö sumarið 2001 og starfaði síðan hjá Z frá október 2001 og út nóvember 2002. Í desember 2002 var hann settur héraðsdýralæknir X-umdæmis þar til hann var skipaður í sama embætti frá 1. desember 2003.

Af þessum upplýsingum verður ráðið að þegar ákvörðunin var tekin hafi reynsla A af því að starfa sem dýralæknir verið nokkru lengri en reynsla Y. Miðað við rökstuðning ráðuneytisins og umsögn yfirdýralæknis virðist inntak þeirrar reynslu hins vegar hafa skipt meira máli við matið en umfang hennar. Gefa þessi gögn til kynna að reynsla af því að starfa sem héraðsdýralæknir hafi haft meira vægi í þessu samhengi en önnur reynsla við dýralæknastörf og þá hafi einnig verið litið til þess tíma sem umsækjendur höfðu starfað í umræddu héraði.

Í þessu sambandi er rétt að taka fram að mælt er fyrir um ýmis viðfangsefni héraðsdýralækna í lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, í lögum nr. 15/1994, um dýravernd, lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra o.fl., í lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., auk þess sem almenn fyrirmæli um störf þeirra koma fram í lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Af þessum lagafyrirmælum má ráða að eftirlitsstörf og önnur lögbundin stjórnsýsluverkefni hljóta að teljast umtalsverður hluti af starfi þeirra, sbr. til hliðsjónar 4. mgr. 11. gr. laga nr. 66/1998. Verður því ekki talið ólögmætt að líta sérstaklega til reynslu umsækjanda af því að starfa sem héraðsdýralæknir við skipun í slíkt embætti.

Mér er ljóst að A hafði í starfi sínu sem eftirlitsdýralæknir í umdæmi héraðsdýralæknis í Æ, sbr. 5. mgr. 11. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, komið að og öðlast reynslu af þeim eftirlitsstörfum sem héraðsdýralæknum eru falin. Með tilliti til þess svigrúms sem stjórnvöld hafa þegar þau taka afstöðu til þess á hvaða sjónarmiðum þau byggja við skipun eða ráðningu í opinber störf tel ég mig hins vegar ekki geta gert athugasemd við að landbúnaðarráðuneytið hafi ákveðið að leggja áherslu á formlega reynslu í starfi héraðsdýralæknis við mat á umsækjendum. Eins og atvikum var háttað í málinu tel ég heldur ekki tilefni til athugasemda við að litið hafi verið til þeirrar reynslu sem umsækjendur höfðu öðlast við störf í því héraði sem viðkomandi embætti héraðsdýralæknis tekur til. Ég geng þá út frá því að það sé rétt sem fram kemur í skýringum landbúnaðarráðuneytisins til mín að bréf formanns Félags kúabænda í X hafi engin áhrif haft við veitingu embættisins.

2.

Í rökstuðningi landbúnaðarráðuneytisins sem sendur var A að beiðni hans kemur fram að við ákvörðun um skipun í starf héraðsdýralæknis hafi í öðru lagi verið „lögð til grundvallar atriði sem fram komu í viðtölum umsækjenda við starfsmenn ráðuneytisins og yfirdýralækni“. Ráðuneytið ítrekar í skýringum sínum til mín að það sem lagt var til grundvallar við mat á umsækjendum og réð úrslitum hafi annars vegar verið að Y kom betur út í viðtali í ráðuneytinu en A.

Eins og fyrr greinir bárust mér gögn málsins með bréfi landbúnaðarráðuneytisins, dags. 21. júní 2004. Engin minnisblöð eða önnur gögn varðandi ofangreind viðtöl fylgdu með bréfi ráðuneytisins sé frá talið ódagsett og handskrifað blað, sem var undirritað af tveimur starfsmönnum ráðuneytisins auk yfirdýralæknis, þar sem segir: „Eftir viðtöl við umsækjendur eru undirritaðir sammála um að mæla með [Y] í starfið.“

Í 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, er fjallað um skráningu upplýsinga um málsatvik. Þar segir:

„Við meðferð mála, þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, ber stjórnvaldi að skrá upplýsingar um málsatvik sem því eru veittar munnlega ef þær hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og þær er ekki að finna í öðrum gögnum þess.“

Ég tel að stjórnvöldum sé skylt að fylgja ofangreindum lagafyrirmælum við undirbúning skipunar eða ráðningar í opinber störf ef upplýsinga, sem hafa verulega þýðingu við úrlausn málsins, er aflað með viðtölum við umsækjendur, sbr. t.d. álit mitt frá 21. nóvember 2000 í máli nr. 2787/1999. Orðalag í rökstuðningi ráðuneytisins til A gæti bent til þess að við töku ákvörðunarinnar hafi að einhverju leyti verið byggt á atriðum „sem fram komu í viðtölum umsækjenda við starfsmenn ráðuneytisins“. Þá segir í skýringum ráðuneytisins til mín að ákvörðunin hafi meðal annars byggst á því að Y hefði komið betur út í viðtali í ráðuneytinu. Með hliðsjón af ofangreindu og þegar tekið er mið af því sem segir í umsögn yfirdýralæknis virðist frammistaða umsækjenda í viðtölunum hafa haft það mikla þýðingu við mat á starfshæfni þeirra að telja verður að skráningarskylda 23. gr. upplýsingalaga hafi orðið virk.

Eftir athugun mína á málinu verður því ekki annað séð en ráðuneytið hafi ekki gætt ofangreindra fyrirmæla 23. gr. upplýsingalaga. Af þessari aðstöðu leiðir jafnframt að útilokað er að taka afstöðu til þess hvort hægt hafi verið að draga ályktun af því sem fram kom í viðtölunum um þá eiginleika sem ætlunin var að varpa ljósi á með því að kalla umsækjendurna í viðtal. Þar sem engin skrifleg gögn lágu fyrir um þau atriði sem þar komu fram átti A heldur ekki kost á því að kynna sér þær upplýsingar sem hann hefði ella átt rétt á samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nema að undantekningar 16. og 17. gr. sömu laga ættu við.

3.

Kvörtun A beinist meðal annars að því hvar umrætt starf var auglýst laust til umsóknar. Af því tilefni vil ég taka fram að héraðsdýralæknar teljast til embættismanna, sbr. 12. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. sömu laga skal auglýsa laust embætti í Lögbirtingablaði. Ljóst er að auglýsing um umrætt embætti birtist í Lögbirtingablaði þann 10. september 2003. Því var áskilnaði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 fullnægt áður en skipað var í embættið. Ég tel því að sá háttur sem hafður var á auglýsingu embættisins í málinu gefi ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu. Rétt er þó að geta þess að reglurnar sem ráðuneytið vísaði til í bréfi sínu til mín, dags. 21. júní 2004, þ.e. reglur nr. 464/1996 um auglýsingar á lausum störfum með síðari breytingum, gilda ekki þegar skipað er í embætti eins og í því tilviki sem hér um ræðir.

4.

Í kvörtun A eru gerðar athugasemdir við þátttöku yfirdýralæknis við skipun í embætti héraðsdýralæknis í X-umdæmi.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, er yfirdýralæknir ráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um allt er varðar heilbrigðismál dýra og hollustuhætti við framleiðslu og meðferð búfjárafurða. Þá er honum ætlað að hafa eftirlit með störfum héraðsdýralækna. Ekki er hins vegar í lögunum kveðið á um að yfirdýralæknir segi álit sitt á umsækjendum um embætti héraðsdýralækna áður en skipað er í slík embætti.

Ekki hefur verið litið svo á að stjórnvöldum sé óheimilt að leita umsagnar annarra aðila innan stjórnsýslunnar um mál sem þau hafa til afgreiðslu þegar lög mæli ekki fyrir um slíka álitsumleitan. Verður almennt að telja að ráðherra sé heimilt að leita umsagnar um umsækjendur um opinbert starf hjá lægra settu stjórnvaldi ef því er að lögum ætlað að hafa eftirlit með störfum viðkomandi starfsmanns og vera ráðherra til ráðuneytis á viðkomandi starfssviði. Því tel ég hvorki ástæðu til athugasemda við að leitað hafi verið eftir áliti yfirdýralæknis á umsækjendum í því máli sem hér um ræðir né við að hann hafi verið viðstaddur viðtal við umsækjendur ásamt starfsmönnum ráðuneytisins.

5.

Í bréfi landbúnaðarráðuneytisins til mín, dags. 21. júní 2004, kemur fram að við val á milli umsækjenda hafi meðal annars verið stuðst við umsóknir umsækjenda með ferilskrá þeirra og ljósriti af prófskírteinum. Eins og fram hefur komið óskaði A eftir því með bréfi, dags. 10. nóvember 2003, að fá sent afrit af öllum þeim gögnum sem höfð voru til hliðsjónar þegar ákveðið var að skipa Y í embættið. Má ráða af kvörtun A, og gögnum þeim er mér hafa borist frá landbúnaðarráðuneytinu, að A hafi ekki verið sent afrit af prófskírteini Y.

Í þessu sambandi vil ég taka fram að samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls almennt rétt á því að fá afrit af þeim gögnum hjá viðkomandi stjórnvaldi sem málið varða. Á þetta ákvæði meðal annars við um umsækjendur um opinber störf og eiga þeir áfram upplýsingarétt samkvæmt ákvæðinu eftir að ákvörðun hefur verið tekin. Á þessum rétti eru þó gerðar undantekningar sem fjallað er um í 15.-17. gr. laganna. Þannig segir til dæmis í 1. mgr. 15. gr. að fari aðili fram á að fá afrit eða ljósrit af málsskjölum skuli orðið við þeirri beiðni nema skjölin séu þess eðlis eða fjöldi þeirra svo mikill að það sé verulegum vandkvæðum bundið. Þegar sérstaklega stendur á er enn fremur unnt að takmarka upplýsingarétt málsaðila samkvæmt 17. gr. laganna ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.

Í málinu liggur ekki fyrir skýring af hálfu landbúnaðarráðuneytisins á því hvers vegna A var ekki afhent afrit af prófskírteini Y þegar honum voru send önnur gögn málsins. Telji ráðuneytið að umrætt gagn falli undir eitthvert ofangreindra ákvæða stjórnsýslulaga um undantekningar eða takmarkanir á almennum upplýsingarétti aðila máls, hefði því verið rétt að tilkynna A það ásamt rökstuðningi fyrir því, í samræmi við 1. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga þar sem segir:

„Ákvörðun stjórnvalds um að synja málsaðila um aðgang að gögnum máls eða takmarka hann að nokkru leyti skal tilkynnt aðila og rökstudd í samræmi við V. kafla laga þessara.“

Samkvæmt framansögðu leysti ráðuneytið ekki með réttum hætti úr beiðni A um aðgang að gögnum málsins.

6.

Athugasemdir A við ákvörðun landbúnaðarráðherra um skipun í embætti héraðsdýralæknis í X-umdæmi hafa sérstaklega lotið að því að ekki hafi verið fylgt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og jafnræðisreglu 11. gr. sömu laga. Eftir athugun á gögnum málsins tel ég að viðhlítandi upplýsingar hafi legið fyrir um mismunandi starfsreynslu umsækjenda á umræddu sviði svo og hvar þeir höfðu starfað. Ég bendi líka á að yfirdýralæknir tók þátt í undirbúningi ákvörðunarinnar en vegna starfa sinna á hann að þekkja til mismunandi inntaks starfa og verkefna dýralækna, þ.m.t. þeirra sem starfa sem eftirlitsdýralæknar í umdæmum héraðsdýralækna. Þau viðtöl sem starfsmenn landbúnaðarráðuneytisins tóku við umsækjendur voru af hálfu ráðuneytisins liður í undirbúningi og rannsókn málsins. Því var lýst í kafla IV.2 hér að framan að engin gögn hafa verið lögð fyrir mig um efni þessara viðtala, þ.m.t. um hvað var spurt og hvað kom þar fram af hálfu hvors umsækjanda, eða hvað réð mati starfsmanna ráðuneytisins á því sem þar kom fram. Ég get því ekki lagt mat á hvort hægt var að draga ályktun af því sem þar kom fram um þau atriði sem viðtölunum var ætlað að varpa ljósi á. Fyrirliggjandi upplýsingar um starfsreynslu beggja umsækjenda benda til þess að þar hafi verið nokkur munur á milli þeirra og hefur því verið lýst hvernig landbúnaðarráðherra lagði mat á þessa starfsreynslu og hvað réð afstöðu hans til þessara atriða. Fæ ég ekki séð að ákvörðun landbúnaðarráðherra hafi að þessu leyti farið í bága við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ég ítreka hins vegar að ég get ekki í þessu sambandi lagt mat á þann þátt ákvörðunarinnar sem byggður var á viðtölum við umsækjendur.

V.

Niðurstaða.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að ekki sé tilefni til athugasemda við að landbúnaðarráðherra hafi við val á milli umsækjenda um embætti héraðsdýralæknis í X-umdæmi ákveðið að leggja áherslu á formlega reynslu umsækjenda í starfi héraðsdýralæknis auk þess að líta til þeirrar reynslu sem umsækjendur höfðu öðlast við störf í umræddu héraði. Ég tel jafnframt að rannsókn málsins hafi verið fullnægjandi að því er laut að starfsreynslu umsækjenda og að beiting þessara sjónarmiða hafi ekki farið í bága við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Það er hins vegar niðurstaða mín að landbúnaðarráðuneytinu hafi samkvæmt 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 borið að skrá niður þær upplýsingar sem aflað var með viðtölum við umsækjendur og áhrif höfðu á valið milli þeirra. Þar sem engin gögn liggja fyrir um efni þessara viðtala get ég ekki lagt mat á hvort hægt var að draga ályktun af því sem þar kom fram um þau atriði sem viðtölunum var ætlað að varpa ljósi á. Ég tel ennfremur að svar landbúnaðarráðuneytisins við beiðni A um að fá afhent afrit af öllum gögnum málsins hafi ekki verið í samræmi við 15.-17. gr. og 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ég geri hins vegar ekki athugasemdir við það hvernig staðið var að auglýsingu embættisins eða þátttöku yfirdýralæknis við undirbúning ákvörðunarinnar.

Ég tek fram að framangreindir annmarkar á meðferð málsins eru ekki þess eðlis að líkur séu á því að þeir geti valdið ógildingu ákvörðunarinnar. Hins vegar beini ég þeim tilmælum til landbúnaðarráðuneytisins að það taki beiðni A um aðgang að gögnum málsins fyrir að nýju, óski hann eftir því við ráðuneytið, og taki þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti þessu. Þá eru það jafnframt tilmæli mín til landbúnaðarráðuneytisins að það taki framvegis mið af fyrirmælum 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þegar það aflar munnlega upplýsinga um umsækjendur um störf.