Atvinnuleysistryggingar. Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta. Birting úrskurðar. Svör stjórnvalda til umboðsmanns.

(Mál nr. 4115/2004)

A kvartaði yfir því að úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta hefði ekki tilkynnt honum um niðurstöðu fundar hjá nefndinni sem haldinn var 30. desember 2003 en honum hafði verið tilkynnt að mál hans yrði þá tekið til umfjöllunar.

Umboðsmaður rakti forsögu málsins og benti á að úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta hefði endurupptekið mál A og tilkynnt honum það með bréfi, dags. 18. desember 2003. Í bréfinu hafi jafnframt komið fram að málið yrði tekið fyrir á fundi nefndarinnar 30. desember 2003. Af gögnum málsins mætti hins vegar ráða að nefndin hefði lokið umfjöllun sinni með úrskurði sem kveðinn hefði verið upp 6. febrúar 2004.

Umboðsmaður rakti þessu næst efni 20. gr. og 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og taldi að gera yrði ráð fyrir því að birting ákvörðunar, eftir að stjórnvald hefur komist að niðurstöðu, ætti ekki að taka lengri tíma en fáeina daga. Taldi umboðsmaður ljóst að í máli A hefði verið misbrestur á þessu. Úrskurður í máli hans hefði verið kveðinn upp 6. febrúar 2004 en ekki verið birtur A fyrr en með bréfi, dags. 22. júlí 2004. Það var því niðurstaða umboðsmanns að málsmeðferð nefndarinnar hefði að þessu leyti ekki uppfyllt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, sbr. enn fremur 20. gr. laganna.

Umboðsmaður benti á að hann hefði með bréfi til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, dags. 29. júlí 2004, óskað eftir skýringum á afmörkuðum atriðum er snertu meðferð nefndarinnar á máli A og drátt á svörum hennar til sín. Svarbréf nefndarinnar við erindinu hefði ekki borist fyrr en 17. desember 2004 eða rúmum fjórum og hálfum mánuði eftir að hann sendi fyrirspurnarbréfið.

Umboðsmaður rakti efni 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ætti athugun á málum að hafa eðlilegan framgang taldi umboðsmaður nauðsynlegt að stjórnvöld létu honum umbeðnar upplýsingar í té sem fyrst eða skýrðu að öðrum kosti tafir á upplýsingagjöf. Var það niðurstaða umboðsmanns að í málinu hefði dregist úr hófi að úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta svaraði fyrirspurnum hans. Umboðsmaður áréttaði í þessu sambandi tilmæli er hann setti fram í áliti sínu frá 24. október 2002 í máli nr. 3479/2002, um að erindum umboðsmanns til úrskurðarnefndarinnar væri svarað innan hæfilegs tíma.

I.

Hinn 17. maí 2004 leitaði til mín A og kvartaði yfir því að úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta hefði ekki tilkynnt honum um niðurstöðu fundar hjá nefndinni, sem haldinn var 30. desember 2003, en honum hafði verið tilkynnt að mál hans yrði þá tekið til umfjöllunar.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 30. desember 2004.

II.

Forsaga málsins er að A kvartaði til mín 25. júlí 2003 yfir úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 29. janúar 2003 þar sem ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta á Norðurlandi vestra um að synja honum um greiðslu bóta var staðfest. Eftir að hafa aflað þeirra gagna sem lágu úrskurðinum til grundvallar ritaði ég úrskurðarnefndinni bréf, dags. 1. október 2003, þar sem ég óskaði eftir því að nefndin lýsti afstöðu sinni til þess hluta kvörtunarinnar er laut að því að hún hefði ekki tekið afstöðu til réttar hans til bóta á grundvelli 6. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997. Svarbréf úrskurðarnefndarinnar barst mér 19. desember sama ár og var það svohljóðandi:

„Vísað er til bréfs yðar varðandi kvörtun [A], vegna úrskurðar úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1/2003 dags. 29. janúar 2003, þar sem staðfest var synjun úthlutunarnefndar Norðurlands vestra á umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Með vísan til bréfs yðar svo og símtals dags. 12. desember s.l. hefur úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta ákveðið að endurupptaka mál [A] á næsta fundi sínum, sem haldinn verður þann 30. desember n.k. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar verður send yður strax að loknum fundi.“

Með bréfi nefndarinnar, dags. sama dag, var A tilkynnt um ofangreinda ákvörðun og honum tjáð að fjallað yrði um bótarétt hans með tilliti til 6. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Með bréfinu var honum gefinn kostur á að tjá sig um efni málsins áður en nefndin kvæði upp úrskurð í málinu. Kom fram í bréfinu að það yrði tekið fyrir á næsta fundi nefndarinnar sem haldinn yrði 30. desember 2003.

Í ljósi þess að úrskurðarnefndin ákvað að taka málið fyrir að nýju á ofangreindum forsendum taldi ég ekki tilefni til að halda athugun minni á kvörtun A áfram. Var henni því lokið með bréfi, dags. 18. desember 2003, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Eins og ráða má af kvörtun A hafði honum ekki borist nýr úrskurður í málinu 17. maí 2004 þegar hann lagði fram síðari kvörtun sína.

III.

Með bréfi, dags. 17. maí 2004, óskaði ég eftir því með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta léti mér í té upplýsingar um hvað liði endurupptöku málsins. Ítrekaði ég beiðnina með bréfi, dags. 28. júní 2004.

Hinn 23. júlí 2004 barst mér afrit af bréfi úrskurðarnefndarinnar til A, dags. 22. sama mánaðar, og var það svohljóðandi:

„Hjálagt fylgir úrskurður ásamt rökstuðningi fyrir niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta vegna beiðni yðar um endurupptöku á máli yðar nr. 1/2003 hjá úrskurðarnefndinni. Úrskurðarorð hljóðar svo:

„Úrskurður úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 29. janúar 2003 um synjun á umsókn [A] um atvinnuleysisbætur er felldur úr gildi og lagt fyrir úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta á Norðurlandi vestra að reikna út bótarétt hans með tilliti til 6. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.“

Beðist er velvirðingar á því hversu seint úrskurðurinn berst yður. Ástæða tafarinnar er að skjölin voru mislögð tímabundið.“

Í úrskurðinum, sem er dagsettur 6. febrúar 2004, kemur fram að A hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um málið áður en nefndin kvað upp úrskurðinn án þess að svar hafi borist frá honum.

Með bréfi, dags. 29. júlí 2004, óskaði ég eftir því með vísan til 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að úrskurðarnefndin skýrði nánar ástæður þess að úrskurður nefndarinnar í máli A, sem kveðinn var upp 6. febrúar 2004, var ekki birtur honum fyrr en 22. júlí sama ár, eða fimm og hálfum mánuði síðar. Jafnframt óskaði ég eftir því að nefndin skýrði hvers vegna það hefðu liðið rúmir tveir mánuðir frá því að ég sendi nefndinni fyrirspurnarbréf mitt þar til A var sendur úrskurðurinn. Með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, fór ég enn fremur fram á að úrskurðarnefndin léti mér í té öll gögn endurupptökumálsins.

Fyrirspurnarbréf mitt var ítrekað með bréfi, dags. 5. október 2004. Þá átti ég samtal við ritara úrskurðarnefndarinnar 4. nóvember 2004 í tilefni af kvörtun A og var mér þá tjáð að svar myndi berast innan skamms. Svarbréf úrskurðarnefndarinnar barst mér 17. desember 2004 og er það svohljóðandi:

„Með bréfi þann 18. desember 2003 var [A] tjáð að úrskurðarnefndin hafi ákveðið að verða við tilmælum yðar um endurupptöku á máli hans. Honum var jafnframt gefinn kostur á að tjá sig frekar um málið og tilkynnt að næsti fundur nefndarinnar væri áætlaður þann 30. desember 2003. Afrit bréfsins var sent umboðsmanni Alþingis. Þar sem engin svör höfðu borist frá [A] þann 30. desember 2003 og ítrekaðar tilraunir gerðar til að ná í hann án árangurs var ákveðið að taka málið fyrir á næsta fundi nefndarinnar sem haldinn var þann 6. febrúar 2004 og byggja á þeim gögnum sem fyrir lágu. Vegna mannlegra mistaka lenti úrskurðurinn með öðru máli í skjalaskáp. Mistökin uppgötvuðust því miður ekki strax og þegar farið var að leita hans fannst hann ekki þrátt fyrir ítrekaða leit. Hann fannst loksins í júlímánuði og var þegar sendur [A] með afsökunarbeiðni. Vinnulagi hefur verið breytt þannig að slík mistök eiga ekki að geta endurtekið sig og skráð er hvenær úrskurður er sendur aðilum og úthlutunarnefndum.

Samkvæmt nýlegri könnun á málshraða hjá úrskurðarnefndinni á tímabilinu 1. nóvember 2003 til 1. maí 2004 liðu að meðaltali 12,34 dagar frá því að kæra barst þar til úrskurður var kveðinn upp. Lögð er áhersla á hraða málsmeðferð hjá nefndinni með hagsmuni kærenda að leiðarljósi svo og reglur stjórnsýslulaga. Málshraðinn má þó ekki verða til þess að málsmeðferðin verði ekki eins vönduð og ella, rannsóknarreglan er í hávegum höfð og máli frestað til næsta fundar ef einhver gögn þykir vanta sem tekið geti af allan vafa varðandi málsatvik. Kærendum er tilkynnt um frestun máls.

Varðandi drátt á svarbréfi til umboðsmanns Alþingis við tveimur síðustu beiðnum hans, þ.e. úttekt á málshraða hjá nefndinni og nánari útskýringar á drætti á svari við ástæðu seinkunar svarbréfs til [A] þá má rekja það til þess að heimild til yfirvinnu hefur verið skorin verulega niður innan stofnunarinnar samfara fjölgunar á kærum til nefndarinnar. Kærum hefur þannig fjölgað úr 87 á ári í 145 á árunum 2000 til 2003. Kærendur pressa mikið á hraða málsmeðferð, eru í öngum sínum þegar þeir þurfa að sæta niðurfellingu atvinnuleysisbóta og bíða í óvissu eftir úrslitum mála. Af þessum sökum er reynt að hraða málsmeðferð eftir því sem hægt er og láta hagsmuni kærenda sitja í forgrunni. Að auki má minnast á það að málum hjá Ábyrgðasjóði launa hefur fjölgað verulega eins og verið hefur í fréttum undanfarið og því einnig aukið vinnuálag í þeim málaflokki.“

Með bréfi, dags. 17. desember 2004, gaf ég A kost á að gera þær athugasemdir við bréf úrskurðarnefndarinnar sem hann teldi tilefni til. Hinn 21. desember 2004 lét hann vita að hann teldi ekki ástæðu til athugasemda við svarbréf nefndarinnar.

IV.

1.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta endurupptók mál A og tilkynnti honum það með bréfi, dags. 18. desember 2003. Af gögnum málsins má ráða að nefndin hafi lokið umfjöllun sinni um málið með úrskurði sem var upp kveðinn 6. febrúar 2004. Fram kemur í skýringum nefndarinnar til mín að hún hafi ætlað að ljúka málinu á fundi sem haldinn var 30. desember 2003 en þar sem A hafði þá ekki svarað bréfi nefndarinnar frá 18. desember hafi málinu verið frestað til næsta fundar sem haldinn var 6. febrúar 2004. Tel ég ekki ástæðu til athugasemda við málsmeðferð nefndarinnar að þessu leyti.

Samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber að tilkynna aðila máls um ákvörðun eftir að stjórnvald hefur tekið hana. Verður ákvörðunin ekki bindandi fyrir málsaðila og viðkomandi stjórnvald fyrr en hún er komin til aðila máls. Engin fyrirmæli eru í ákvæðinu um það hvenær ákvörðunin skuli tilkynnt málsaðila. Í athugasemdum sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir hins vegar að það skuli gert „án ástæðulausrar tafar“. (Alþt. 1992—1993, A-deild, bls. 3300.) Byggja ummælin í athugasemdunum á þeirri grundvallarreglu sem fram kemur í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, þar sem segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Felur ofangreind regla meðal annars í sér að aldrei megi vera um „ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða“. (Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin. Skýringarrit. Reykjavík 1994, bls. 97.) Verður almennt að gera ráð fyrir því að birting ákvörðunar, eftir að stjórnvald hefur komist að niðurstöðu, eigi ekki að taka lengri tíma en fáeina daga.

Ljóst er að við meðferð úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta á endurupptökumáli A varð misbrestur á þessu. Úrskurður var kveðinn upp 6. febrúar 2004 en hann var ekki birtur A fyrr en með bréfi, dags. 22. júlí 2004. Málsmeðferð nefndarinnar að þessu leyti uppfyllti því ekki kröfur 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, sbr. enn fremur 20. gr. sömu laga.

Af skýringum nefndarinnar til mín verður ráðið að rekja megi dráttinn til þess að úrskurðurinn hafi verið lagður inn í annað mál í skjalaskáp. Mistökin uppgötvuðust ekki strax. Þegar þau komu í ljós fannst síðan úrskurðurinn ekki fyrr en í júlímánuði.

Ekki er ástæða til að draga skýringar nefndarinnar í efa. Fram kemur í bréfi hennar að gerðar hafi verið ráðstafanir sem miði að því að koma í veg fyrir mistök af þessu tagi. Með hliðsjón af því tel ég ekki ástæðu til að beina sérstökum tilmælum til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirra.

2.

Eins og rakið hefur verið óskaði ég eftir því með bréfi, dags. 17. maí 2004, að úrskurðarnefndin léti mér í té upplýsingar um hvað liði endurupptöku á máli A. Afrit af bréfi til A, dags. 22. júlí 2004, þar sem honum var tilkynnt um úrskurð nefndarinnar, barst skrifstofu minni 23. sama mánaðar. Má ætla að drátt á svari til mín megi rekja til þess að úrskurðurinn hafi ekki fundist fyrr en í júlí.

Í bréfi mínu til nefndarinnar frá 29. júlí 2004 óskaði ég eftir skýringum á afmörkuðum atriðum er snertu meðferð nefndarinnar á máli A og drátt á svörum hennar til mín. Eins og fram hefur komið barst svarbréf nefndarinnar til mín ekki fyrr en 17. desember 2004 eða rúmum fjórum og hálfum mánuði eftir að ég sendi nefndinni fyrirspurnarbréfið.

Í þessu sambandi tel ég óhjákvæmilegt að árétta að umboðsmanni Alþingis er í lögum tryggður réttur til að krefja stjórnvöld um þær upplýsingar og skýringar sem hann þarfnast vegna starfs síns, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Eigi athugun umboðsmanns Alþingis á málum að hafa eðlilegan framgang er nauðsynlegt að stjórnvöld láti umbeðnar upplýsingar í té sem fyrst eða skýri að öðrum kosti tafir á upplýsingagjöf. Fæ ég ekki séð að svar við fyrirspurn minni í þessu máli hafi átt að leiða til tafa á afgreiðslu úrskurða hjá nefndinni eins og lýst er í skýringarbréfi nefndarinnar enda unnt að svara bréfinu með því einu að lýsa því hvað olli töfunum og senda mér afrit af gögnum málsins. Því tel ég að í þessu máli hafi dregist úr hófi að úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta svaraði fyrirspurnum mínum. Ég vil því árétta þau tilmæli mín, sem ég setti fram í áliti mínu frá 24. október 2002 í máli nr. 3479/2002, að erindum umboðsmanns Alþingis til úrskurðarnefndarinnar sé svarað innan hæfilegs tíma.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að málsmeðferð úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, eftir að úrskurður nefndarinnar í máli A lá fyrir, hafi ekki uppfyllt kröfur 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. enn fremur 20. gr. sömu laga. Þar sem um mistök var að ræða og með hliðsjón af því að nefndin hefur þegar gripið til ráðstafana sem miða að því að koma í veg fyrir slík mistök tel ég ekki ástæðu til að beina sérstökum tilmælum til nefndarinnar vegna þessa atriðis.

Það er enn fremur niðurstaða mín að dregist hafi úr hófi að úrskurðarnefndin svaraði fyrirspurnum mínum í tilefni af kvörtun A. Af því tilefni árétta ég tilmæli mín um að erindum umboðsmanns Alþingis til úrskurðarnefndarinnar verði framvegis svarað innan hæfilegs tíma.