Opinberir starfsmenn. Röðun í launaflokka. Ráðningarsamningur. Staðfesting fjármálaráðuneytis á ráðningarsamningi.

(Mál nr. 262/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 3. október 1991.

I.

A bar fram kvörtun vegna samskipta sinna við yfirboðara sína hjá ríkisstofnuninni X og launaskrifstofu ríkisins. Tilefni kvörtunar hans var tvíþætt: Annars vegar vegna breytinga, sem gerðar voru á störfum hans hjá X í maí 1989, og hins vegar vegna seinagangs, sem hann taldi, að orðið hefði á leiðréttingu umsaminna launakjara hans.

Með bréfi, dags. 3. ágúst 1990, lauk ég afskiptum mínum af öðrum þáttum kvörtunarinnar en þeim, sem beindust að seinagangi við leiðréttingu umsaminna launakjara, en af gögnum málsins var ljóst, að A hafði ekki verið raðað í launaflokk samkvæmt þeim ráðningarsamningi, sem gerður var við hann 2. janúar 1987.

II.

Í kvörtun A sagði, að frá því í janúar 1987 hefði hann margsinnis óskað leiðréttingar á umsömdum launakjörum sínum, en án árangurs. Samkomulag hefði verið um launagreiðslur fyrir starf umdæmisstjóra, þegar nýr ráðningarsamningur hefði verið gerður 2. janúar 1987, sbr. bréf, dags. 19. janúar 1987 og 12. febrúar 1987. A hefði óskað ítrekað eftir leiðréttingum, bæði munnlega og skriflega, sbr. bréf dags. 29. júní 1989.

Hinn 2. ágúst 1990 ritaði ég forstjóra X bréf, þar sem ég greindi forstjóranum frá því, að A hefði leitað til mín og kvartað yfir því, að ekki hefði verið staðið við umsamin launakjör. Mæltist ég til þess, að forstjórinn léti mér í té tiltæk gögn og upplýsingar, sem vörðuðu umrædda kvörtun.

Með bréfi launaskrifstofu ríkisins til mín, dags. 18. september 1990, kom fram, að með bréfi, dags. 13. september 1990, hefði X framsent erindi mitt til launaskrifstofunnar varðandi kvörtun A. Þá sagði orðrétt í bréfi launaskrifstofunnar:

"[A] hóf störf hjá [X] 7. janúar 1986 og raðaðist fyrst sem verkefnastjóri með MS-próf í 142. lfl. Frá 1. júní 1986 var hann ráðinn með nýjum ráðningarsamningi í nýstofnaða stöðu deildarstjóra umdæmadeildar og var þá raðað sem deildarverkfræðingi 2 í 144. lfl. Í janúar 1987 var enn gerður nýr ráðningarsamningur við [A] og er þar tilgreint starfsheitið "tækniforstjóri" og lfl. 151, en röðun tækniforstjóra var á þessum tíma skv. 150. lfl. Hjá launaskrifstofu var ekki fallist á, að þetta starfsheiti ætti við starf [A] og var ráðningarsamningurinn áritaður af þáverandi yfirmanni launaskrifstofu svohljóðandi: "Raðist sem yfirverkfræðingur 2 frá 1. janúar 1987" og voru laun [A] afgreidd skv. því í 148. lfl. Skömmu síðar var ákveðið, að hin breytta röðun skyldi gilda frá 1. júní 1986. Skilgreiningar starfsheita í kjarasamningi við Kjarafélag verkfræðinga fylgja hér með í ljósriti.

Í bréfi forstjóra [X] 19. janúar 1987 til deildarstjóra eignadeildar fjármálaráðuneytisins, en það mun hafa fylgt ráðningarsamningnum við [A] frá janúar 1987, gætir þess misskilnings, að það sé á valdi forstjórans að skipa störfum við stofnun sína í tiltekin starfsheiti og launaflokka, en þar segir: "... hefur undirritaður gert við hann nýjan ráðningarsamning, sem væntanlega tekur af öll tvímæli um, hvar raða beri honum í launaflokk...". Slíkar ákvarðanir eru teknar hjá Launaskrifstofu ríkisins f.h. fjármálaráðherra, enda taka ráðningarsamningar við ríkisstarfsmenn ekki gildi, fyrr en þeir hafa verið staðfestir af starfsmönnum launaskrifstofunnar, sbr. áletrun á eyðublaði.

Á þeim tíma, sem hér um ræðir, þ.e. fyrri hluta árs 1987, voru aðeins 7 tækniforstjórar starfandi hjá ríkinu: hjá Vegagerð ríkisins (3), Orkustofnun (2), Ríkisspítölum (1) og Húsnæðisstofnun ríkisins (1). Auk þess röðuðust forstöðumenn tæknisviðs Pósts og síma og Rarik í sérgreind starfsheiti einum lfl. ofar. Í samkomulagi um röðun verkfræðinga, sem gert var 16. nóvember 1987, var ekki gerð athugasemd af hálfu stéttarfélagsins varðandi röðun [A] sem yfirverkfræðings.

"Hinn 21. september 1990 ritaði ég A bréf, þar sem ég gaf honum kost á að gera athugasemdir við bréf launaskrifstofunnar. Athugasemdir A bárust mér með bréfi, dags. 10. desember 1990.

III.

Í bréfi mínu til A, dags. 3. október 1991, sagði m.a. svo:

"Í ráðningarsamningi þeim, er forstjóri [X] gerði við yður 2. janúar 1987, var tilgreint í reiti þeim, sem fylltur er út af forstöðumanni stofnunar, að starfsheiti yðar væri "tækniforstjóri" og launaflokkur 151. Í hinu staðlaða formi samningsins sagði, að um launagreiðslur, launaflokk og starfsaldur til launa færi eftir hinum almennu kjarasamningum starfsmanna ríkisins. Þá segir, að samningurinn öðlist ekki gildi, fyrr en hann hafi hlotið staðfestingu fjármálaráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 97/1974. Í áritun á samninginn, sem rituð var 3. mars 1987 af launadeild fjármálaráðuneytisins, kemur fram, að ekki var fallist á þá tillögu forstjóra [X] að ráða yður til starfa undir heitinu "tækniforstjóri" í launaflokk 151. Segir í árituninni, að þér ráðist sem yfirverkfræðingur 2 frá 1. janúar 1987.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 97/1974 um eftirlit með ráðningu opinberra starfsmanna og húsnæðismálum ríkisins, skal, þegar starfsmaður, sem lög nr. 46/1973 taka til, er ráðinn til starfa, gera það með skriflegum gerningi. Skal þar tekið fram, hvort um setningu, skipun eða ráðningu er að ræða. Í V. kafla í bréfi mínu til yðar, sem dagsett er 3. ágúst 1990, er lýst efni ráðningarsamninga yðar að þessu leyti.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 97/1974 lætur fjármálaráðuneytið gera eyðublöð fyrir ráðningarbréf, sem öllum stofnunum ríkisins er skylt að nota við ráðningu starfsmanna, sem ráðnir eru í hálft starf eða meira gegn föstum mánaðarlaunum og eigi eru skipaðir. Í 2. mgr. 9. gr. sömu laga segir, að starfsmaður eigi rétt á að fá í hendur afrit af ráðningarbréfi sínu, staðfestu af viðkomandi ráðuneyti og fjármálaráðuneytinu.

Af áritun launadeildar fjármálaráðuneytisins á ráðningarsamning yðar frá 2. janúar 1987 er ljóst, að launadeild fjármálaráðuneytisins féllst ekki á þá tillögu forstjóra [X] að ráða yður til starfa sem "tækniforstjóra" [X] með þeim launakjörum, er því starfsheiti skyldu fylgja, en skilja verður ákvæði laga nr. 97/1974 á þann veg, að samþykki fjármálaráðuneytisins hefði þurft til að koma, svo það mætti verða. Þá hafa ekki verið lögð fyrir mig gögn, er sýna, að yður hafi með öðrum hætti borið réttur til launakjara "tækniforstjóra", svo sem það starf sýnist skilgreint í kjarasamningum ríkisins við verkfræðinga í opinberri þjónustu. Samkvæmt þessu tel ég, að ekki hafi verið sýnt fram á, að þér hafið átt rétt til leiðréttingar launakjara, sem átt hafi rót sína að rekja til þess, að yður hafi ranglega verið raðað í launaflokka."

Í bréfi mínu til A tilkynnti ég honum að með hliðsjón af framansögðu væri afskiptum mínum af kvörtun hans lokið.