Skip. Skráning skipa. Þinglýst eignarheimild.

(Mál nr. 4176/2004)

A ehf. kvartaði yfir úrskurði samgönguráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun Siglingastofnunar Íslands um að hafna beiðni félagsins um skrá skipið X sem eign C ehf. í aðalskipaskrá. Byggði ráðuneytið niðurstöðu sína á því að ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985, um skráningu skipa, bæri að skýra þannig að gerð væri krafa um að þinglýst afsal lægi fyrir til að umskráning skips í aðalskipaskrá gæti farið fram. Beindist athugun umboðsmanns að því hvort þessi afstaða sem slík væri í samræmi við lög.

Umboðsmaður rakti lögskýringargögn að baki umræddu ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga um skráningu skipa og dró þá ályktun að með ákvæðinu og þeirri kröfu sem þar er gerð um þinglýsta eignarheimild hafi verið stefnt að því að gæta fulls samræmis á milli þess hver væri skráður eigandi skips í aðalskipaskrá og þess hver hefði yfir að ráða þinglýstri eignarheimild að lögum. Taldi umboðsmaður að af orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum yrði ráðið að skráning skips af hálfu Siglingastofnunar í aðalskipaskrá skyldi byggð á því að nýr eigandi hefði fengið eignarheimild sinni þinglýst.

Umboðsmaður benti á að samkvæmt 1. mgr. 40. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 skuli stofnun og vernd eignarréttar og eignarhafta á skrásettum skipum af þeirri stærð sem X væri lúta reglum um fasteignir eftir því sem við verður komið. Rakti hann jafnframt viðeigandi ákvæði þinglýsingarlaga og benti á að af dómum Hæstaréttar hefði verið dregin sú ályktun að kaupandi, sem þinglýst hefur kaupsamningi, öðlist þar með hina formlegu eignarheimild í skilningi laganna. Umboðsmaður benti á að við setningu þinglýsingarlaga hefði verið gengið út frá því að yfirfærsla eignarréttar réðist ekki af heiti skjalanna heldur yrði að byggja á efni þeirra. Þannig yrði kaupsamningi þinglýst sem eignarheimild ef hann er einungis bundinn skilyrðum um uppgjör og greiðslu kaupverðs innan tiltekins frest, sbr. 21. gr. laganna. Með vísan til 1. mgr. 40. gr. þinglýsingarlaga taldi umboðsmaður ekki rök standa til þess að niðurstaða um gildi kaupsamnings um skip ætti að vera önnur en sú sem talin væri gilda um fasteignir. Í samræmi við þetta var það niðurstaða umboðsmanns að Siglingastofnun, og eftir atvikum samgönguráðuneytinu, bæri við úrlausn á því hvort umskrá beri skip á grundvelli fyrirliggjandi eignarheimildar að taka mið af því hvort um væri að ræða þinglýsta eignarheimild í skilningi þinglýsingarlaga. Var það og niðurstaða umboðsmanns að sú afstaða samgönguráðuneytisins og Siglingastofnunar að skýra beri ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 á þá leið að afsal verði að hafa verið gefið út áður en umskráning geti átt sér stað hafi ekki verið byggð á réttum lagagrundvelli og að úrskurður samgönguráðuneytisins í málinu hefði því ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi tilmælum til samgönguráðuneytisins um að taka mál A ehf. til endurskoðunar, kæmi fram ósk þess efnis frá fyrirsvarsmönnum félagsins, og að taka við þá endurskoðun mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu. Þá voru það jafnframt tilmæli umboðsmanns að tekið yrði tillit til þeirra sjónarmiða við framkvæmd á skráningu eigendaskipta á skipum í aðalskipaskrá framvegis.







I.

Hinn 5. ágúst 2004 leitaði B, héraðsdómslögmaður, til mín fyrir hönd A ehf. og kvartaði yfir úrskurði samgönguráðuneytisins þar sem staðfest var sú ákvörðun Siglingastofnunar Íslands að hafna umsókn félagsins um að skrá skipið X sem eign C ehf. í aðalskipaskrá íslenskra skipa. Er kvörtunin einkum byggð á því að túlkun samgönguráðuneytisins og Siglingastofnunar á hugtakinu eignarheimild í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985, um skráningu skipa, sé efnislega röng. Nánar tiltekið er því haldið fram að samkvæmt almennum reglum eignarréttar teljist kaupsamningshafi eigandi verðmætis, þ.e. eignayfirfærslan eigi sér stað við kaupsamning. Því sé sú afstaða samgönguráðuneytisins að áskilið sé samkvæmt 12. gr. laga nr. 115/1985 að umskráning eigi sér ekki stað fyrr en afsal hefur verið gefið út ólögmæt.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 30. desember 2004.

II.

Málavextir eru þeir að með kaupsamningi, dags. 7. desember 2001, seldi A ehf. útgerðinni C ehf. skipið X og var kaupsamningi þessum þinglýst 13. desember 2001 hjá sýslumanninum í Y. Í framhaldi af því sendi C ehf. Siglingastofnun beiðni, dags. 14. janúar 2002, um umskráningu skipsins í aðalskipaskrá en þar var A ehf. tilgreindur sem eigandi skipsins. Kemur fram í kvörtuninni að af hálfu A ehf. hafi jafnframt verið send yfirlýsing til Siglingastofnunar 11. janúar 2002 þess efnis að C ehf. væri nú „útgerðaraðili skipsins en afsal hafi ekki verið gefið út“.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að ekki voru gerðar breytingar á eigendaskráningu skipsins í aðalskipaskrá í tilefni af þessari tilkynningu. Hinn 13. ágúst 2002 skuldajafnaði sýslumaðurinn á Z inneign A ehf. vegna virðisaukaskatts við ógreidd skipagjöld X fyrir árið 2002. Þessari skuldajöfnun mótmælti félagið og krafðist endurgreiðslu með bréfi, dags. 20. febrúar 2003, til fjármálaráðuneytisins. Í úrlausn fjármálaráðuneytisins, dags. 11. júlí 2003, er komist að þeirri niðurstöðu „að rétt hafi verið staðið að innheimtu skipagjaldsins og að innheimtumanni hafi verið heimilt að beita skuldajöfnuði í umræddu tilviki“. Þá taldi fjármálaráðuneytið að ákvörðun Siglingastofnunar um álagningu gjaldsins væri ekki kæranleg til ráðuneytisins og því gæti það ekki tekið afstöðu til þess hvort það hefði verið réttilega lagt á.

Í framhaldi af þessu krafist lögmaður A ehf. þess með bréfi til Siglingastofnunar í júlí 2003 að eigandaskráning skipsins í aðalskipaskrá yrði leiðrétt í samræmi við þinglýstan kaupsamning. Var krafa þessi ítrekuð með bréfi, dags. 1. desember 2003. Í svarbréfi Siglingastofnunar, dags. 26. febrúar 2004, var kröfu félagsins hafnað með svofelldum orðum:

„Siglingastofnun hefur það hlutverk samkvæmt 4. gr. laga nr. 115/1985, um skráningu skipa að halda aðalskipaskrá yfir öll skip sem skráð eru samkvæmt lögunum.

Tólfta grein laganna fjallar um eigendaskipti á skipum. Samkvæmt henni skráir Siglingastofnun nýjan eiganda í skipaskrá þegar stofnunin hefur fengið þinglýsta eignarheimild og skráningarbeiðni. Siglingastofnun hefur í fjölda ára notað afsöl og einungis afsöl sem eignarheimild í þessu samhengi, enda er afsal einhliða skrifleg yfirlýsing þess efnis að eignarrétti sé afsalað frá útgefanda skjalsins til annars aðila. Kaupsamningur er hins vegar gerningur þar sem stefnt er að því að yfirfæra eignarrétt frá seljanda til kaupanda gegn greiðslu.

Siglingastofnun getur ekki fallist á erindið og umskráð skipið [X] í skipaskrá fyrr en fullnægjandi eignarheimild berst, þ.e. afsal.“

Þessa niðurstöðu kærði lögmaður A ehf. til samgönguráðuneytisins með bréfi, dags. 3. mars 2004. Með úrskurði samgönguráðuneytisins, dags. 24. maí 2004, var ákvörðun Siglingastofnunar um synjun á umskráningu skipsins staðfest. Í úrskurði ráðuneytisins segir m.a.:

„Álitaefnið sem hér um ræðir er hvað sé viðhlítandi eignarheimild í skilningi 12. gr. laga nr. 115/1985 um skráningu skipa svo umskráning geti orðið á aðalskipaskrá.

Kærandi tiltók í málsástæðum sínum að líta mætti til úrskurðar samgönguráðuneytisins frá 11. október 2000 við lausn á álitaefni því sem hér um ræðir.

Ráðuneytið getur ekki fallist á þá skoðun kæranda. Í þeim úrskurði var viðhlítandi eignarheimild samkvæmt 6. gr. l. 115/1985 fyrir hendi. Ágreiningurinn snerist aftur á móti um það hver væri réttur eigandi að bát sem seldur hafði verið tveimur kaupendum. Niðurstaða málsins var sú að hin almenna regla kauparéttarins um að sá sem keypti fyrr var talinn réttur handhafi eignarheimildar samkvæmt lögum nr. 115/1985. Úrskurðurinn hefur ekki fordæmisgildi í máli þessu, þar sem ágreiningsefnið er allt annað.

Siglingastofnun Íslands er falið samkvæmt 4. gr. laga nr. 115/1985 að halda aðalskipaskrá yfir öll skip sem skráningarskyld eru á Íslandi. Í 12. gr. sömu laga er kveðið á um með hvaða hætti skrá skuli eigendaskipti að skipi: „Þegar nýr eigandi að skráðu skipi eða skipshluta lætur þinglýsa eignarheimild sinni skal hann í viðurvist þinglýsingarstjóra birta beiðni um skráningu á viðeigandi eyðublaði, sbr. 17. gr. Þinglýsingarstjóri skal innan þriggja virkra daga senda Siglingastofnun skráningarbeiðnina ásamt endurriti af hinni þinglesnu eignarheimild.“ Það er óumdeilt í máli þessu að kærandi þinglýsti kaupsamningi um skipið [X] hjá sýslumanninum í [Y] og fyllt var út viðeigandi beiðni til Siglingastofnunar um umskráningu skipsins á aðalskipaskrá. Kærða hafnaði beiðninni um umskráningu skipsins með þeim rökum, að með eignarheimild í 12. gr. l. nr. 115/1985, sé átt við útgefið afsal fyrir skipi en hvorki þinglýstan kaupsamning né aðra eignarheimild.

Allt frá útgáfu tilskipunar þann 25. júní 1869 þegar opinber skipaskráning hófst hér á landi, hefur löggjafinn gefið nákvæm fyrirmæli um það hvernig staðið skuli að umskráningu við eigendaskipti skipa. Í tilskipunum sem fjölluðu um þetta efni og síðar í lögum er ávallt vitnað til viðeigandi eignarheimilda. Þar er hins vegar ekki að finna bein lagafyrirmæli um hvað sé viðhlítandi eignarheimild um, hvenær eigendaskipti skuli talin hafa orðið að skipi svo umskrá megi það á aðalskipaskrá.

Í 40. gr. laga nr. 39/1978 um þinglýsingar, er kveðið á um að stofnun og vernd eignarréttar og eignarhafta á skrásettu skipi, sem er 5 rúmlestir eða stærra, eða hluta slíks skips, skuli lúta reglum um fasteignir, eftir því sem við verður komið. Í 2. kafla laga um fasteignakaup nr. 40/2002 er fjallað um afhendingu o.fl. Í 2. mgr. 11. gr. laganna segir að þegar kaupandi hefur efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi eigi hann rétt á afsali úr hendi seljanda. Í ákvæðinu er þannig gerður greinarmunur á kaupsamningi og afsali að lögum. Í greinargerð með nefndu ákvæði segir: „Afsal hefur víðtæk réttaráhrif í fasteignakaupum og eru reglur um ýmis þeirra í frumvarpinu. Útgáfa og afhending afsals felur í sér efndir á þeirri skyldu seljanda að yfirfæra endanlega, þ.e. óskilyrt, beinan eignarrétt að fasteign til kaupanda, sem hann hefur áður fengið með fyrirvara í kaupsamningi. Kaupandi sem þinglýst hefur kaupsamningi hefur hina formlegu eignarheimild að viðkomandi fasteign í skilningi 1. mgr. 25. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978. Hann getur þó ekki stofnað til víðtækari réttinda yfir fasteign en hann hefur öðlast með kaupsamningi. Eftir að hann hefur fengið afsal úr hendi seljanda fer hann með allar heimildir yfir eigninni sem ekki víkja fyrir betri rétti annarra, t.d. veðhafa. Eignarréttur seljanda fellur þá endanlega niður. Afsalið er að jafnaði einhliða yfirlýsing seljanda um að kaupandi hafi staðið að fullu við skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi og sé því hinn rétti eigandi eignarinnar. Afsalið er því í eðli sínu lokakvittun frá seljanda. Enga nauðsyn ber til að kaupandi undirriti afsal nema hann axli einhverjar skuldbindingar með því, t.d. yfirtaki veðskuldir. Afhending á afsali og sú yfirlýsing sem í því felst hefur einnig þau mikilvægu réttaráhrif að seljandi getur eftir það ekki rift kaupum, nema hann áskilji sér það sérstaklega, sbr. 4. mgr. 51. gr. frumvarpsins.“ Af þessu verður ráðið að mikilvæg réttindi og skyldur lögum samkvæmt eru bundin útgáfu afsals.

Í 13. og 17. gr. laganna um fasteignakaup eru að finna ákvæði sem gefa vísbendingar um með hvaða hætti eigendaskipti verða að fasteign lögum samkvæmt, ef ekki er samið um þau atriði sérstaklega. Í 13. gr. þeirra laga er skýrt kveðið á um, að skipting arðs og kostnaðar við eigendaskipti að fasteign skuli vera við afhendingu og í 17. gr. laganna segir að þegar kaupandi hefur greitt kaupverðið eða hluta þess öðlast hann veðrétt í fasteign til tryggingar kröfu um endurgreiðslu þess sem hann hefur innt af hendi. Í greinargerð með 13. gr. er hnykkt á því að afhending eignar ráði því að rétturinn og skyldan færist til kaupanda. Í greinargerðinni með 17. gr. segir að tilgangurinn með ákvæðinu sé að skrá lagareglu um efni sem nokkur réttaróvissa hafi ríkt um. Tekið er fram að í greininni sé notað orðið „veðréttur“ til að árétta, að um sé að ræða tryggingarréttindi sem leggja má að jöfnu við samningsveð. Miðað er við að tryggingarrétturinn nái til kröfu kaupanda um endurgreiðslu „þess sem hann hefur innt af hendi“. Undir þetta sjónarmið tekur Þorgeir Örlygsson í bók sinni ÞINGLÝSINGAR, útg. í Reykjavík 1993 á bls. 102 - 103 þar sem fjallað er um dóm Hæstaréttar frá 1988 á bls. 1475 en þar segir: „Af dómi þessum verður á hinn bóginn ekki dregin sú ályktun, að kaupandi geti á sama tímabili, þ.e. frá þinglýsingu kaupsamnings og fram að útgáfu afsals, selt eða veðsett umrædda eign án samþykkis seljanda.“, þ.e. kaupandi hefur ekki ótakmarkaða eignarheimild yfir hinni keyptu eign þrátt fyrir að fyrir liggi kaupsamningur sem hefur verið þinglýst.

Af því sem að framan er rakið má sjá, að ekki er að finna bein fyrirmæli í íslenskum rétti um það hvenær nákvæmlega eignarréttindi/eignarheimild að skipi færast frá seljanda til kaupanda.

Verður því að líta til allra sjónarmiða sem til greina koma í þessu sambandi þegar skorið er úr um hvað muni vera gild eignarheimild í skilningi 12. gr. laga 115/1985. Af settum rétti er það fyrst og fremst 40. gr. laga nr. 39/1978 um þinglýsingar sem kveður á um, að um stofnun og vernd eignarréttar skipa 5 rúmlestir og stærri, skuli gilda reglur um fasteignir, eftir því sem við verður komið.

Við rannsókn á viðfangsefninu er rétt að líta til þess hvaða hagsmuna er verið að gæta með opinberri skipaskrá og hver er tilgangur hennar. Í því sambandi er rétt að rifja upp umfjöllun í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 53/1970 sem eru fyrirrennari laga nr. 115/1985. Þar segir að nauðsynlegt sé að halda opinbera skrá yfir skip af tvenns konar aðalástæðum. Þær eru:

I. Til gæslu opinberra hagsmuna. Þar er fyrst og fremst vísað til þess að ákveðið sé með öruggri vissu hvaða skip skuli teljast íslensk og hafi rétt og skyldu til að sigla undir íslenskum fána.

II. Til gæslu einstaklingsréttinda. Er þar átt við nauðsyn þess fyrir viðskiptalífið og til verndar eignarréttarins að enginn vafi leiki á því hver sé eigandi skips.

Skip er farartæki sem siglir um heimsins höf. Mjög mikilvægt er að ekki leiki vafi á um þjóðerni skips. Skip skráð á íslenska skipaskrá bera ekki einungis skyldur og njóta réttinda samkvæmt íslenskum landsrétti heldur bera þau skyldur og njóta réttinda samkvæmt ýmsum alþjóðasamningum um lög, reglur og réttindi á höfunum.

Um gæslu einstaklingsréttinda í viðskiptum á milli manna gilda nokkuð önnur sjónarmið. Telja verður að lög um þinglýsingar verndi rétt kaupanda og seljanda nægilega vel í þeim efnum. Ávallt má þinglýsa samningum og veðréttindum. Þar með eru hinir viðskiptalegu hagsmunir tryggðir. Á það m.a. við óuppgerða skatta sem voru tilefni kæru þessarar. Í íslenskum rétti eru fjöldamörg úrræði fyrir kaupendur og seljendur, fasteigna og lausafjár, til að knýja fram efndir í viðskiptum án afskipta opinberra aðila.

Það er skoðun ráðuneytisins að önnur og fleiri sjónarmið komi til þegar um ákvörðun þjóðernis skips sé að ræða. Má í því sambandi líta til þess að ákveðnar reglur eru um það hvernig erlendir ríkisborgarar öðlast íslenskan ríkisborgararétt. Sömu sjónarmið gilda um þjóðerni skipa. Það er mat ráðuneytisins að um mikla hagsmuni sé að ræða, bæði innanlands og utan, og að ekki megi leika minnsti vafi á því hver sé eigandi og umráðamaður skips sem skráð er á íslenska aðalskipaskrá. Eins og rakið er fyrr í úrskurðinum öðlast kaupandi eignar skilyrðislausan og fortakslausan eigna- og umráðarétt við útgáfu afsals en ekki við undirritun kaupsamnings. Þegar litið er til þess að gerður er greinarmunur á kaupsamningi og afsali, þykir rétt, þegar litið er til þeirra opinberu hagsmuna sem verndaðir eru með opinberri skipaskrá, að staðfesta þá túlkun kærðu að miða skuli við útgáfu afsals fyrir skipi, til að umskráning fari fram.

Það er niðurstaða ráðuneytisins að skilningur kærðu á orðinu eignarheimild í skilningi 12. gr. laga 115/1985, sé réttur.“

III.

Ég ritaði samgönguráðherra bréf, dags. 19. ágúst 2004, og óskaði eftir því að ráðuneytið léti mér í té gögn málsins og jafnframt að það lýsti viðhorfi sínu til kvörtunarinnar. Svarbréf ráðuneytisins barst mér 23. september 2004. Um afstöðu sína til kvörtunarinnar vísar ráðuneytið til „uppkveðins úrskurðar þar sem niðurstaðan er rökstudd“. Með bréfi, dags. 24. september 2004, sendi ég lögmanni A ehf. svarbréf ráðuneytisins til upplýsingar.

IV.

1.

Eins og fram kemur í úrskurði samgönguráðuneytisins frá 24. maí 2004 seldi A ehf. bátinn X til C ehf. með kaupsamningi, dags. 6. desember 2001, og var kaupsamningnum þinglýst 13. desember 2001 hjá sýslumanninum í Y. Hinn 13. janúar 2002 sendi kaupandi Siglingastofnun beiðni um umskráningu á viðeigandi eyðublaði, sbr. 17. gr. laga nr. 115/1985, um skráningu skipa. Í júlí 2003 hafnaði Siglingastofnun umskráningu skipsins í aðalskipaskrá á nafn C ehf. á þeim grundvelli einum að afsal hefði ekki verið gefið út en það væri áskilið samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985. Samgönguráðuneytið staðfesti þá afstöðu Siglingastofnunar í ofangreindum úrskurði. Athugun mín hefur beinst að því hvort þessi afstaða sem slík sé í samræmi við lög. Í þessu áliti tek ég því ekki afstöðu til þess hvernig beiðnir um umskráningu skipsins voru settar fram í upphafi eða framgangs málsins að öðru leyti af hálfu sýslumanns eða Siglingastofnunar.

2.

Um skráningu skipa gilda lög nr. 115/1985. Þegar eigendaskipti verða að þegar skráðu skipi eða skipshluta skal nýr eigandi óska eftir umskráningu skipsins í aðalskipaskrá, sbr. ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985, en þar segir:

„Þegar nýr eigandi að skráðu skipi eða skipshluta lætur þinglýsa eignarheimild sinni skal hann í viðurvist þinglýsingarstjóra birta beiðni um skráningu á viðeigandi eyðublaði, sbr. 17. gr. Þinglýsingarstjóri skal innan þriggja virkra daga senda Siglingastofnun skráningarbeiðnina ásamt endurriti af hinni þinglesnu eignarheimild.“

Ákvæði þetta var upphaflega lögfest með lögum um skráningu skipa nr. 53/1970. Um skráningu eigenda skipa í aðalskipaskrá og um skráningu við eigendaskipti sagði m.a. svo í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna frá 1970:

„Þó að núverandi tengsl milli skipaskráningar og þinglýsingar hverfi úr sögunni, ef frv. þetta verður að lögum, verða þó áfram nokkur sameiginleg atriði, sem bæði ber að skrá á aðalskipaskrá og í þinglýsingabækur. Svo er um eiganda eða eigendur skipa, heimilisfang skips, nafn þess og fleiri auðkenni. Er þá nauðsynlegt, að fullt samræmi haldist um þessi atriði milli skránna. Af þeim sökum hafa verið sett í frv. eftirgreind ákvæði, sem eiga að koma í veg fyrir ósamræmi.

[...]

Ef síðar verða eigendaskipti að skráðu skipi, gilda samkvæmt 12. gr. frv. aðrar reglur en um frumskráningu. Þá verða eigendaskiptin ekki skráð á aðalskipaskrá, fyrr en eignarheimild hins nýja eiganda hefur verið þinglesin. Ef þinglestur væri ekki gerður að skilyrði fyrir umskráningu, en það eitt látið nægja, að aðili kæmi með óþinglesna eignarheimild, mundi um óákveðinn tíma verða ósamræmi milli aðalskipaskrárinnar og þinglýsingabóka um eignarheimild að skipinu, en það gæti valdið misskilningi og ef til vill réttarspjöllum.“ (Alþt. 1969, A-deild, bls. 235-236.)

Af tilvitnuðum lögskýringargögnum verður dregin sú ályktun um tilgang núgildandi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 að með ákvæðinu hafi verið stefnt að því að gæta fulls samræmis á milli þess hver er skráður eigandi skips í aðalskipaskrá og þess hver hefur yfir að ráða þinglýstri eignarheimild að lögum. Er sérstaklega áréttað að „ósamræmi milli aðalskipaskrárinnar og þinglýsingabóka um eignarheimild að skipinu [...] gæti valdið misskilningi og ef til vill réttarspjöllum“. Af orðalagi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 og framangreindum lögskýringargögnum verður ráðið að skráning skips af hálfu Siglingastofnunar í aðalskipaskrá skal byggð því að nýr eigandi hafi fengið eignarheimild sinni þinglýst.

Í þinglýsingarlögum nr. 39/1978 er ekki að finna sérstök efnisákvæði sem sérstaklega lúta að þinglýsingu skrásettra skipa sem eru 5 rúmlestir og stærri eins og X en samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laganna skal stofnun og vernd eignarréttar og eignarhafta á skrásettum skipum af þessu tagi, eða hluta slíks skips, lúta reglunum um fasteignir eftir því sem við verður komið. Hefur þessari reglu lengi verið fylgt í íslenskum lögum, sbr. t.d. 5. gr. laga nr. 56/1914 og 4. gr. laga nr. 30/1928. Ég skil úrskurð samgönguráðuneytisins svo að því sé í sjálfu sér ekki andmælt að úrlausn um það hvað sé „þinglýst eignarheimild“ í merkingu 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 ráðist af reglum um fasteignir eftir því sem við á, sbr. ofangreinda 1. mgr. 40. gr. laga nr. 39/1978. Það sé hins vegar afstaða ráðuneytisins að meta beri það sjálfstætt hvort eignarheimild sem framvísað er ásamt skráningarbeiðni sé nægjanleg til að breyting á eignarhaldi skips sé skráð í aðalskipaskrá og í því efni verði að gera kröfu um að afsali hafi verið þinglýst.

Um það hver hafi þinglýsta eignarheimild að fasteign segir í upphafsmálsl. 1. mgr. 25. gr. þinglýsingarlaga að „þinglýsta eignarheimild [hafi] sá, er þinglýsingarbók nefnir eiganda á hverjum tíma“. Ákvæði 21. gr. laganna er svohljóðandi:

„Afsali verður ekki þinglýst sem eignarheimild, ef það er háð öðrum skilyrðum um yfirfærslu eignarréttar en uppgjöri og greiðslu kaupverðs innan tiltekins frests.“

Í athugasemdum við þessa grein í frumvarpi því er varð að lögum nr. 39/1978 segir m.a. svo:

„Samkv. þessu ákvæði verður afsali ekki þinglýst sem eignarheimild, nema það sé óskilyrt. Þó er afsal gild eignarheimild, ef það er bundið því skilyrði einu, að kaupverð verði greitt innan tiltekins frests. Ef fleiri skilyrði eru í afsali, svo sem um væntanlegt samþykki yfirvalda um eigendaskipti eða samþykki þriðja manns, svo sem forkaupsréttarhafa, eða skilyrði lúta t.d. að því, að afsalsgjafi njóti aðhlynningar hjá afsalshafa, þá er afsalið ekki fullgild eignarheimild. Er mjög mikilvægt að skapa hreinar línur í þessum efnum. Að sjálfsögðu er ákvæði 21. gr. ekki því til fyrirstöðu, að afsal, sem svo er farið sem hér er gert ráð fyrir, sé þinglýsingartækt, t.d. svo að því verði þinglýst sem kvöð á eign.“ (Alþt. 1977—1978, A-deild, bls. 1396.)

Það er rétt að hafa hér í huga að allt fram yfir setningu þinglýsingarlaganna árið 1978 var það ekki tíðkað í sama mæli og síðar varð að þinglýsa kaupsamningum um fasteignir og skip. Þannig sagði í Formálabók eftir Björn Þ. Guðmundsson, sem kom út í Reykjavík 1975, bls. 91: „Venja er að þinglýsa einungis afsalsbréfum að fasteignum.“ Á næstu síðu var hins vegar bent á að til fullkomins öryggis með tilliti til tryggingar á rétti kaupanda gagnvart grandlausum viðsemjendum skuldheimtumönnum hins fyrri eiganda, seljanda, svo og til þess að veita hinum nýja eiganda formlega heimild að fasteigninni ætti að þinglýsa kaupsamningnum sjálfum. Á þessum tíma var jafnframt á því byggt að þótt kaupsamningur væri þinglesinn veitti hann kaupanda ekki eignarrétt að hinu selda; seljandi væri eigandi þar til hann hefði gefið út afsalsbréf, sjá Þorgeir Örlygsson, Þinglýsingar, Reykjavík 1993, bls. 102.

Á gildi og inntak réttinda samkvæmt þinglýstum kaupsamningi um fasteign hefur reynt í nokkrum dómum Hæstaréttar á árunum eftir 1988, sbr. einkum Hrd. 1988, bls. 1475, Hrd. 1992, bls 1425 og Hrd. frá 16. maí 2001 í máli nr. 149/2001. Af þessum dómum hefur verið dregin sú ályktun að kaupandi, sem þinglýst hefur kaupsamningi, öðlist þar með hina formlegu eignarheimild að fasteigninni í skilningi 1. mgr. 25. gr. þinglýsingarlaga, sjá Þorgeir Örlygsson: Þinglýsing kaupsamnings í fasteignakaupum, Tímarit lögfræðinga, 1. hefti 1989, bls. 23, og Viðar Már Matthíasson: Fasteignakaup, Reykjavík 1997, bls. 65. Rétt er hér einnig að benda á að af áður tilvitnaðri 21. gr. þinglýsingarlaga og lögskýringargögnum verður ráðið að við setningu laganna hafi verið gengið út frá því að umrædd yfirfærsla eignarréttar réðist ekki bara af heiti skjalanna heldur yrði að byggja á efni þeirra. Af þessu leiðir að kaupsamningur, sem einungis er bundinn skilyrðum um „uppgjör og greiðslu kaupverðs innan tiltekins frest“ verður þinglýst sem eignarheimild í skilningi 1. mgr. 25. gr. þinglýsingarlaga. Ég minni á að samkvæmt 40. gr. þinglýsingarlaga skal stofnun og vernd eignarréttar og eignarhafta á skrásettu skipi, sem er 5 rúmlestir eða stærra, lúta reglunum um fasteignir, eftir því sem við þá. Ég fæ því ekki séð að rök standi til þess að niðurstaða um gildi kaupsamnings um skip eigi samkvæmt þinglýsingarreglum að vera önnur en sú sem nú er talin gilda um kaupsamninga um fasteignir.

Samkvæmt úrskurði samgönguráðuneytisins er það afstaða þess að hvað sem líði niðurstöðu um hvort hugtakið „þinglýst eignarheimild“ í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 hafi sömu merkingu og hugtakið hefur samkvæmt þinglýsingarlögum nr. 39/1978 eigi Siglingastofnun sjálfstætt mat um hvort tiltekin eignarskilríki séu fullnægjandi til þess að breyting verði gerð á skráningu eiganda skips í aðalskipaskrá. Í þessu sambandi er í úrskurði samgönguráðuneytisins teflt fram ýmsum rökum til stuðnings þeirri lögskýringu að afsal sé áskilið áður en heimilt sé að umskrá skip í aðalskipaskrá við eigendaskipti.

Í úrskurði ráðuneytisins er hins vegar ekki vikið að þeim sjónarmiðum sem fram komu í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 53/1970 og teknar voru upp hér að framan um nauðsyn samræmis milli skráningar eiganda í aðalskipaskrá og þinglýsingabókum. Ég tel líka rétt að rifja upp að í athugasemdunum var einnig á það bent að við síðari eigendaskipti að skráðu skipi yrðu eigendaskiptin ekki skráð í aðalskipaskrá „fyrr en eignarheimild hins nýja eiganda [hefði] verið þinglesin”.

Að framan er rakið orðalag 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 og þau sjónarmið um samræmi á milli aðalskipaskrár og þinglýsingabóka sem liggja efnisreglum þess til grundvallar. Að því virtu er það niðurstaða mín að skýra verði umrætt ákvæði þannig að úrlausn þess hvort nýr eigandi hafi fullnægjandi eignarheimild, þannig að skilyrði skráningar í skipaskrá séu til staðar, ráðist af því hvort um sé að ræða eignarheimild í skilningi þinglýsingarlaga nr. 39/1978 sem hafi verið þinglýst samkvæmt þeim lögum. Af þessu tilefni tek ég fram að þegar löggjafinn hefur mælt fyrir um að fleiri en eitt stjórnvald skuli gegna hlutverki við töku ákvarðana í stjórnsýslu leiðir það af aðgreiningarreglum stjórnsýsluréttar að hvert þeirra getur aðeins fjallað um það réttaratriði sem því er sérstaklega falið með lögum. Samkvæmt 1. gr. þinglýsingarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1989, eru sýslumenn þinglýsingarstjórar hver í sínu umdæmi og má bera úrlausnir þeirra um þinglýsingu samkvæmt lögunum undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra, sbr. upphafsmálsl. 1. mgr. 3. gr. Samkvæmt þinglýsingarlögum er þannig tilteknu stjórnvaldi, sýslumanni í viðkomandi umdæmi, falið að leggja mat á hvort eignarskilríki séu tæk til þinglýsingar og hvort þau fullnægi t.d. kröfum IV. kafla laganna um þinglýsingu skjala er varðar fasteignir. Ég minni á að samkvæmt 1. mgr. 12. gr. skal þinglýsingarstjóri innan þriggja virkra daga senda Siglingastofnun skráningarbeiðnina ásamt endurriti af hinni þinglesnu eignarheimild. Þessi aðstaða að lögum kann hins vegar að leiða til þess að telji Siglingastofnun þá þinglesnu eignarheimild sem send er með beiðninni ekki bera nægjanlega með sér að hún feli í sér yfirfærslu eignarréttar að viðkomandi skipi sé stofnuninni rétt að óska eftir vottorði frá þinglýsingarstjóra þar um.

Auk þess sem áður greinir um nauðsyn samræmis á skráningu eigenda milli aðalskipaskrár og þinglýsingabóka verður hér einnig að líta til þeirra hagsmuna sem eru fólgnir í því að skip sé hvað eignaraðild varðar réttilega skráð í aðalskipaskrá, sbr. lög nr. 115/1985. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laganna er nýjum eiganda t.d. óheimilt að láta lögskrá skipshöfn á skipið í sínu nafni fyrr en skráningarbeiðni, sbr. 1. mgr. sömu greinar, hefur borist Siglingastofnun, skipið verið skráð í aðalskipaskrá og nauðsynleg skjöl gefin út því til handa enda skulu þau sýnd lögskráningarmanni. Þá ber að geta þess að samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 ber fyrri eigandi ábyrgð á skoðunargjöldum vegna skipsins, þegar eigendaskipti verða, uns umskráning hefur farið fram. Þá segir í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, að eigandi skips skuli greiða árlega í ríkissjóð sérstakt gjald, skipagjald, af hverju skipi sem skráð er á aðalskipaskrá. Þá má ljóst vera að skráning rétts eiganda skips á hverjum tíma skiptir máli t.d. við framkvæmd á reglum 1. mgr. 1. gr. laga nr. 115/1985, um skráningu skipa. Hins vegar er ekki ljóst hvaða þýðingu skráningu í aðalskipaskrá er t.d. ætlað að hafa við framkvæmd ákvæða 11. gr. a. í lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 þar sem fjallað er um hámarksaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, en í 15. gr. laganna, eins og þeim var breytt með lögum nr. 85/2002, er kveðið á um sérstakar tilkynningar til Fiskistofu við eigendaskipti á fiskiskipi. Ég nefni þetta hér með tilliti til þess að eðlilegt er að stjórnvöld hugi að því að eðlilegt samræmi sé milli skráninga á eigendum skipa í opinberum skrám.

Eins og áður sagði eru í úrskurði samgönguráðuneytisins færð fram ákveðin sjónarmið til stuðnings þeirri niðurstöðu sem ráðuneytið komst að um að byggja bæri breytingu á skráningu eiganda í aðalskipaskrá á þinglýstu afsali. Ég fæ ekki séð að þau sjónarmið sem þar eru sett fram, meðal annars um ákvörðun þjóðernis skips og að líta megi til þess hvernig erlendir ríkisborgarar öðlast íslenskan ríkisborgararétt, geti haft það vægi sem á er byggt í úrskurðinum miðað við efni lagareglna um breytingar á skráningu eiganda skips í aðalskipaskrá.

Með vísan til þessa og að virtu orðalagi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 og lögskýringargögnum er það niðurstaða mín að Siglingastofnun, og eftir atvikum samgönguráðuneytið, beri við úrlausn þess hvort umskrá beri skip á grundvelli fyrirliggjandi eignarheimildar að taka mið af því hvort um sé að ræða þinglýsta eignarheimild í skilningi þinglýsingarlaga. Það er því niðurstaða mín að sú afstaða samgönguráðuneytisins og Siglingastofnunar að skýra beri ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 á þá leið að afsal verði að hafa verið gefið út áður en umskráning geti átt sér stað sé ekki byggð á réttum lagagrundvelli. Úrskurður ráðuneytisins í þessu máli var því ekki í samræmi við lög.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að úrskurður samgönguráðuneytisins frá 24. maí 2004 í tilefni af stjórnsýslukæru A ehf. hafi ekki verið í samræmi við lög. Beini ég tilmælum til samgönguráðuneytisins um að taka mál félagsins til endurskoðunar, komi fram ósk þess efnis frá fyrirsvarsmönnum þess, og taki við þá endurskoðun mið af þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið í áliti þessu. Þá eru það jafnframt tilmæli mín að taka verði tillit til þeirra sjónarmiða sem ég hef rakið í áliti þessu við framkvæmd á skráningu eigendaskipta á skipum í aðalskipaskrá framvegis.