Mannanöfn. Synjun eiginnafns. Erlend tökunöfn.

(Mál nr. 4254/2004)

A kvartaði yfir úrskurði mannanafnanefndar þar sem beiðni hans og eiginkonu hans um að þeim yrði heimilað að skíra dóttur sína eiginnafninu Annalísa var hafnað. Byggði synjunin á því mati mannanafnanefndar að það fari gegn viðurkenndum nafnmyndunarreglum í íslensku að skeyta saman tveimur eiginnöfnum, en nöfnin Anna og Lísa eru þegar á skrá yfir eiginnöfn stúlkna. Taldi nefndin því að nafnið bryti í bága við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn. Þá kom fram í skýringum nefndarinnar að slík nöfn valdi ákveðnum beygingarvandkvæðum þar sem það leiði af slíkri samsetningu að fyrri liður nafnsins beygist.

Umboðsmaður benti á að málefni sem tengjast nafngiftum og rétti manns til að ráða nafni sínu varði mikilvæg persónuleg réttindi hans. Rakti hann í því sambandi ummæli almennra athugasemda við frumvarp það er varð að lögum nr. 45/1996. Vakti hann jafnframt athygli á því að samkvæmt athugasemdunum hefði eitt af markmiðum með setningu laganna verið að auka frelsi í nafngiftum frá því sem verið hafði í tíð eldri laga m.a. með því að heimila aðlöguð erlend nöfn jafnvel þótt þau styddust ekki við hefð í íslensku máli. Þar hefði m.a. verið tekið sem dæmi að nafnið Annabella yrði heimilt samkvæmt breytingunni.

Umboðsmaður vék að því að eiginnafnið Annalísa væri vel þekkt annars staðar á Norðurlöndum og þó að það hefði tíðkast hér á landi í einhverjum mæli væri það ekki nægilega algengt til að teljast hefðað í skilningi vinnulagsreglna mannanafnanefndar sem samþykktar voru á fundi hennar 1. júlí 2004. Af því leiddi að til úrlausnar hjá mannanafnanefnd hefði verið hvort eiginnafnið Annalísa yrði heimilað við skírn sem tökunafn í skilningi mannanafnalaga. Benti umboðsmaður á að mat mannanafnanefndar á því, hvort ný nöfn sem óskað væri eftir að taka upp uppfylltu skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. mannanafnalaga um að brjóta ekki í bága við íslenskt málkerfi, þyrfti að samrýmast markmiðum laganna eins og þau yrðu ráðin af lagatextanum sjálfum og lögskýringargögnum að baki þeim. Minnti umboðsmaður á að meginskilyrði þess að erlent eiginnafn yrði tekið upp í íslensku lyti að því að það gæti tekið íslenska eignarfallsendingu, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996. Taldi umboðsmaður að við skýringu fyrirmæla 2. málsliðar sömu málsgreinar yrði til samræmis að horfa til þeirrar meginreglu sem fólst í rýmkun á heimildum til skráningar erlendra tökunafna og endurspeglast í framangreindu ákvæði 1. málsliðar. Með vísan til athugasemda að baki ákvæði 2. málsliðar benti umboðsmaður á að það kynni að vera rétt hjá mannanafnanefnd að ákvæðið kæmi í einhverjum tilvikum í veg fyrir nöfn sem skeytt væri saman úr rótgrónum íslenskum nöfnum. Þó taldi umboðsmaður að án ótvíræðari skírskotunar í texta laga nr. 45/1996 eða í lögskýringargögnum til þess vilja löggjafans að sama ætti að gilda um erlent tökunafn á borð við Annalísa, sem fullnægir kröfum 1. málsliðar um að taka íslenska eignarfallsendingu, gæti hann ekki fallist á þá niðurstöðu mannanafnanefndar sem kvörtun A beindist að. Ítrekaði hann að við beitingu reglu 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. yrði að gæta þeirra persónulegu réttinda sem lögum nr. 45/1996 væri ætlað að tryggja. Ákvarðanir stjórnvalda sem leiddu til skerðingar á þeim yrðu að byggjast á skýrum lagaheimildum og mættu ekki ganga lengra en nauðsynlegt væri til að ná því lögmæta markmiði sem lagaheimildinni væri ætlað að stefna að. Var það niðurstaða umboðsmanns að ekki hefði verið fullnægjandi lagagrundvöllur til þess, fyrir mannanafnanefnd, að hafna beiðni um eiginnafnið Annalísa. Beindi hann þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki mál A og eiginkonu hans fyrir að nýju, kæmi fram ósk þess efnis frá þeim og að þá yrði leyst úr því í samræmi við þau sjónarmið sem lýst væri í álitinu.

I. Kvörtun.

Hinn 12. nóvember 2004 leitaði A til mín og kvartaði yfir úrskurði mannanafnanefndar, dags. 22. september 2004, þar sem beiðni hans og B, um að þeim yrði heimilað að skíra dóttur sína eiginnafninu Annalísa, var hafnað.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 2. maí 2005.

II. Málavextir.

Málavextir eru þeir að A og B sendu mannanafnanefnd erindi 25. ágúst 2004 þar sem þau lýstu því að þau óskuðu eftir því að skíra dóttur sína nafninu Annalísa. Kom fram í erindi þeirra að við val á nafninu hefðu þau stuðst við bókina Nöfn Íslendinga en þar sé nafnið Annalísa talið upp sem eiginnafn tveggja íslenskra kvenna árið 1989. Þá bentu þau á að dóttir þeirra hlyti ættarnafnið ... sem sé danskt, en nafnið Annalísa sé mjög algengt í Danmörku sem og á hinum Norðurlöndunum þó vissulega sé það fátítt á Íslandi. Sendu þau A og B mannanafnanefnd frekari rökstuðning með beiðni sinni 21. september 2004. Segir þar að þeim hafi fyrst orðið ljóst að nafnið sem þau ráðgerðu að gefa dóttur sinni, Annalísa, væri ekki samþykkt af mannanafnanefnd þegar þau leituðu til prests varðandi skírnarathöfnina. Hafi þau kynnt sér málið frekar og verið tjáð að rökstuðningur mannanafnanefndar fyrir synjuninni væri sá að báðir liðir nafnsins fallbeygðust og það samræmdist ekki íslenskri málvenju að mati nefndarinnar. Í greinargerð A og B segir jafnframt að þau hafi verið ósátt við þessar útskýringar og m.a. borið nafnið undir íslenskufræðing. Hafi hann ekki talið neitt athugavert við beygingu nafnsins og ekki séð að hún bryti í bága við íslenska málvenju og málhefð.

Mannanafnanefnd kvað upp úrskurð í málinu 22. september 2004 þar sem segir m.a. eftirfarandi:

„Mannanafnanefnd hefur í úrskurði sínum, nr. 45/1998 hafnað beiðni um eiginnafnið Annalísa. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn má eiginnafn ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi. Að mati mannanafnanefndar er það talið fara gegn viðurkenndum nafnmyndunarreglum í íslensku málkerfi að skeyta saman tveimur eiginnöfnum, en eiginnöfnin Anna og Lísa eru þegar á skrá yfir eiginnöfn stúlkna. Þá telst nafnið Annalísa er ekki hefðað í íslensku máli, sbr. til hliðsjónar vinnulagsreglur mannanafnanefndar frá 1. júlí 2004, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu teljast ekki hafa komið fram neinar nýjar upplýsingar varðandi nafnið Annalísa sem gefa nefndinni tilefni til að endurupptaka fyrri úrskurð sinn. Er beiðni um endurupptöku því hafnað.“

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég mannanafnanefnd bréf, dags. 23. nóvember 2004, þar sem ég kynnti nefndinni kvörtunina og óskaði eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að nefndin léti mér í té öll gögn málsins auk afrits af vinnulagsreglum sem vísað væri til í úrskurði hennar. Bárust mér umbeðin gögn ásamt bréfi mannanafnanefndar 7. desember 2004.

Ég ritaði mannanafnanefnd á ný bréf, dags. 10. desember 2004. Vísaði ég til texta úrskurðar nefndarinnar sem tekinn er upp hér að ofan og benti á að engan frekari rökstuðning fyrir niðurstöðu nefndarinnar væri að finna í úrskurðinum. Mætti því af honum ráða að nöfn sem samsett séu úr tveimur eiginnöfnum séu almennt óheimil samkvæmt lögum nr. 45/1996. Þá rakti ég ákvæði 1. mgr. 5. gr. laganna og athugasemdir við það í frumvarpi því er varð að lögum nr. 45/1996. Benti ég á að í athugasemdunum væri tekið fram að sú breyting sem fólst í fyrsta málslið 1. mgr. 5. gr. laganna hefði í för með sér mikla rýmkun því að fjöldi tökunafna sem ekki hafi unnið sér hefð í íslensku máli geti tekið íslenska eignarfallsendingu. Þá vék ég að því að í athugasemdunum væru nefnd dæmi um nöfn sem áður hefði verið hafnað af mannanafnanefnd en sem með samþykkt frumvarpsins yrðu öll heimil og væri nafnið Annabella eitt þeirra. Þá sagði svo í bréfi mínu:

„Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og þess að ekki verður annað séð en að nöfnin Annabella og Annalísa séu sambærileg að því leyti að vera samsett úr tveimur eiginnöfnum, [...], óska ég, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eftir afstöðu mannanafnanefndar til þess hvernig niðurstaða hennar í máli [A] samrýmist þeim sjónarmiðum sem fram koma í lögskýringargögnum að baki lögum nr. 45/1996 og hér hafa verið rakin.

Með hliðsjón af rökstuðningi nefndarinnar í úrskurði hennar, dags. 22. september 2004, óska ég jafnframt eftir því að nefndin skýri afstöðu sína til þess hvort nöfn sem samsett eru úr tveimur eiginnöfnum samrýmist almennt ekki íslensku málkerfi, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996.“

Svarbréf mannanafnanefndar er dagsett 3. febrúar 2005 og segir þar m.a. eftirfarandi:

„Frá því að ný lög um mannanöfn tóku gildi árið 1996 hefur mannanafnanefnd litið svo á, að nöfn sem sett eru saman að tveimur sjálfstæðum nöfnum, falli ekki að íslensku málkerfi. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að slík nöfn valda ákveðnum beygingarvandkvæðum auk þess sem samsetning þegar samþykktra eiginnafna fer almennt gegn nafnritunarkerfi íslensks máls. Hefur nefndin því ítrekað hafnað samsetningu eiginnafna, sem þegar eru á mannanafnaskrá. Sem dæmi má nefna Arnarsteinn, Heiðaringi, Guðrúnbjörg, Arnapála, Annarósa og Annalísa.

Að því er varðar beygingarreglur í íslensku máli er bent á að óeðlilegt er að beygja fyrri lið nafna, en almennt er talið að það leiði af slíkri samsetningu (ef.), þ.e. Arnarssteins, Heiðarsinga, Guðrúnarbjargar, Örnupálu, Önnurósu og Önnulísu, og féllu þau þá saman við tvínefnin Arnar Steinn, Heiðar Ingi, Guðrún Björg, Arna Pála, Anna Rósa og Anna Lísa. Óbeygður fyrri liður leiðir til þess að framangreind nöfn ættu að beygja með þessum hætti (ef.): Arnarsteins, Heiðaringa, Guðrúnbjargar, Arnapálu, Annarósu og Annalísu.

Mannanafnanefnd hefur fjallað um nokkur nöfn af þessu tagi svo sem að framan er getið; Arnarsteinn, Heiðaringi, Annalísa, Annamaría, Annarósa, Arnapála, Kristínpála og Þórunnbjörg, og hefur þeim öllum verið hafnað.

Nafnið Annabella var samþykkt af mannanafnanefnd árið 1999 (sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 109/1999). Í þeim úrskurði nefndarinnar er ekki að finna sérstakan rökstuðning fyrir því samþykki. Þó má leiða líkur að því að þar sem eiginnafnið Bella var þá ekki á mannanafnaskrá hafi ekki verið litið svo á að um samsett nafn væri að ræða.

Það er og hefur verið eindregin afstaða núverandi mannanafnanefndar að heimila ekki slíka samsetningu tveggja eða fleiri eiginnafna, sem þegar eru á mannanafnaskrá. Væri slík samsetning heimil, væru í reynd erfitt að setja því takmörk hvaða nöfnum væri hægt að skeyta saman, s.s. Andritryggvi, Margrétguðrún o.s.frv. Telur nefndin því að það fari gegn viðurkenndum nafnmyndunarreglum í íslensku málkerfi að skeyta saman tveimur nöfnum á þennan hátt.

Í bréfi yðar er óskað eftir afstöðu mannanafnanefndar til þeirrar fullyrðingar sem fram kemur í greinargerð með frumvarpi til núgildandi mannanafnalaga nr. 45/1996, að samþykkt frumvarpsins fæli í sér þá breytingu, að tiltekin stúlknanöfn, sem áður hafði verið hafnað, þ.m.t. Annabella, yrðu heimil.

Rétt er af þessu tilefni að ítreka þau sjónarmið sem að framan eru rakin varðandi samsetningu nafna.

Þá er rétt að vekja athygli á því, að í framangreindri greinargerð með frumvarpi til mannanafnalaga var verið að fjalla um nöfn sem teldust taka eignarfallsendingu í samræmi við 5. gr. frumvarpsins, og yrðu heimil af þeim ástæðum heimil. Að mati nefndarinnar verður ekki talið að í þessu hafi falist almenn afstaða löggjafans til samsettra nafna.“

Með bréfi mínu, dags. 3. febrúar 2005, sendi ég A svarbréf mannanafnanefndar og gaf honum kost á að koma að athugasemdum sínum vegna þess. Mér barst bréf A 18. sama mánaðar og fylgdi því greinargerð hans um íslensk mannanöfn sem samsett eru úr tveimur eiginnöfnum. Í greinargerðinni tilgreinir A 89 íslensk nöfn sem hann telur falla í þennan flokk nafna.

IV.

1. Álit umboðsmanns Alþingis.

Málefni sem tengjast nafngiftum og rétti manns til að ráða nafni sínu varða mikilvæg persónuleg réttindi hans. Í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 45/1996, um mannanöfn, segir m.a. eftirfarandi:

„Nafn manns er einn mikilvægasti þáttur sjálfsímyndar hans og varðar fyrst og fremst einkahagi hans en síður almannahag. Réttur foreldra til að ráða nafni barns síns hlýtur og að vera ríkur en réttur löggjafans til afskipta af nafngjöfum að sama skapi takmarkaður. Sumir nafnsiðir eru þó þess eðlis að þeir snerta ekki síður veigamikla hagsmuni samfélagsins en einkahagi manna og er réttur löggjafans til afskipta af þeim þá meiri en ella. Eins og hér kemur fram síðar lítur nefndin svo á að þetta eigi einkum við um íslenska kenninafnasiðinn.“ (Alþt. 1995—1996, A-deild, bls. 669.)

Í athugasemdunum kemur fram að markmið nefndar þeirrar sem frumvarpið samdi hafi m.a. verið „að auka frelsi í nafngiftum frá því sem nú er, einkum með því að heimila aðlöguð erlend nöfn, jafnvel þótt þau styðjist ekki við hefð í íslensku máli, og með því að heimila millinöfn“. (Alþt. 1995—1996, A-deild, bls. 669.) Greint er frá því að töluverð gagnrýni hafi komið fram á eiginnafnaákvæði þágildandi laga, nr. 37/1991, og er ástæða þess talin vera að ákvæði 2. gr. laganna um eiginnöfn hafi verið of ströng. Þá kemur fram að nefndarmenn telji brýnt að unnið sé að varðveislu íslenska mannanafnaforðans og íslenskra nafnasiða en álíti hins vegar að yfirleitt sé farsælla að vinna að því markmiði með fræðslu og áróðri en með lögboði.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 er að finna meginreglur laganna um eiginnöfn. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.“

Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 45/1996 kemur fram að fyrsti málsliður 1. mgr. greinarinnar feli í sér þá breytingu frá þágildandi lögum að ekki sé lengur tilskilið að eiginnafn skuli að jafnaði vera íslenskt. Feli þessi breyting í sér mikla rýmkun því að fjöldi tökunafna, sem ekki hafi unnið sér hefð í íslensku máli geti tekið íslenska eignarfallsendingu. Þá segir að ákvæðinu um eignarfallsendingu sé ætlað að tryggja að ný tökunöfn lagist að reglum íslensks máls að nokkru marki að minnsta kosti og stefni íslenska beygingakerfinu ekki í voða. Í athugasemdunum er því næst rakið að á tímabilinu frá 1. nóvember 1991 til 1. september 1994 hafi mannanafnanefnd hafnað samtals 237 beiðnum um eiginnöfn og nafnritanir og eru þær flokkaðar í þrjá flokka, millinöfn, ritmyndir og önnur nöfn. Tekið er fram að sú breyting sem lögð sé til, að nægjanlegt sé að nafn geti tekið íslenska eignarfallsendingu (eða hafi unnið sér hefð), varði ekki millinöfn og ritmyndir. Hins vegar hafi þessi breyting mikil áhrif á meðferð beiðna um nöfn í þriðja flokknum, önnur nöfn. Er á það bent að einungis 9 af 87 stúlknanöfnum í flokknum geti ekki tekið íslenska eignarfallsendingu svo sæmilega fari. Í athugasemdunum eru því næst nefnd dæmi af hinum 78 stúlknanöfnunum í þessum flokki „sem nú [verði] öll heimil“ en meðal þeirra eru nöfnin Annabella og Bella. (Alþt. 1995—1996, A-deild, bls. 671.) Í athugasemdunum segir ennfremur:

„Hið aukna frjálsræði, sem ákvæði 1. málsl. um íslenska eignarfallsendingu hefur í för með sér, heimilar auðsæilega mörg nöfn sem ýmsir telja óæskileg. Eins og áður segir er þetta óhjákvæmileg afleiðing þess að heimila aðlöguð tökunöfn sem ekki hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það sýnist og vafasamt að stjórnvöld setji strangar reglur í þessum efnum.“

Af framangreindu verður ráðið að af hálfu löggjafans hafi verið gert ráð fyrir að úrlausn um það álitaefni hvort tiltekið erlent nafn yrði heimilað sem íslenskt eiginnafn yrði fyrst og fremst byggð á því hvort nafnið gæti tekið íslenska eignarfallsendingu.

Í bókinni Nöfn Íslendinga eftir Guðrúnu Kvaran og Sigurð Jónsson (Reykjavík 1991) segir um nafnið Annalísa:

„Fátítt nafn hérlendis en vel þekkt á Norðurlöndum. Tvær konur báru það 1989. Það er sett saman af → Anna og → Lísa.“ (Nöfn Íslendinga, bls. 107.)

Eins og þarna greinir er nafnið Annalísa vel þekkt á Norðurlöndum utan Íslands og þó að það hafi tíðkast hér á landi í einhverjum mæli er það ekki nægilega algengt til að teljast hefðað í skilningi vinnulagsreglna mannanafnanefndar sem samþykktar voru á fundi hennar 1. júlí 2004. Til úrlausnar hjá mannanafnanefnd var því hvort eiginnafnið Annalísa yrði heimilað við skírn nú sem tökunafn í skilningi mannanafnalaga og þá í samræmi við þær kröfur sem lög nr. 45/1996 setja og þau lögskýringarsjónarmið sem á var byggt við setningu laganna.

2.

Eins og fram er komið byggðist synjun mannanafnanefndar á nafninu Annalísa á því að nafnið færi í bága við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þar sem það fari gegn viðurkenndum nafnmyndunarreglum í íslensku málkerfi að skeyta saman tveimur eiginnöfnum. Í athugasemdum við 5. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 45/1996 segir að ákvæði 2. málsl. 1. mgr., um að eiginnafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi, svari til 2. málsl. 2. gr. gildandi laga og sé efnislega óbreytt. Tekið er fram að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem unnið hafi sér hefð í íslensku máli. Þá segir eftirfarandi um ákvæði 2. málsliðar:

„Þessu ákvæði er því einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Afbakanir eins og Guðmund og Þorstein (í nefnifalli) eru því óheimilar. Enn fremur kemur ákvæðið í veg fyrir nýmyndanir sem brjóta í bág við íslenskar orðmyndunarreglur, t.d. þríliðuð nöfn eins og Guðmundrún, Guðmundpáll og Ragnhildmundur. Ákvæðið hindrar einnig að teknir séu inn í íslenskt mál nafnstofnar af erlendum uppruna sem eru ósamrýmanlegir íslenskum hljóðskipunarreglum, sbr. fyrrnefnd dæmi um Tsjækovski og Jean. Hins vegar hindrar ákvæðið ekki notkun neinna nafna eða nafnmynda sem þegar hafa unnið sér hefð í íslensku, t.d. endingarlausra nafna eins og Erling og Svanberg.“ (Alþt. 1995—1996, A-deild, bls. 673.)

Af framangreindum ummælum er ljóst að ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. var einkum ætlað að vernda rótgrónar nafnmyndir og koma í veg fyrir nýmyndanir nafna sem fari í bága við viðteknar nafnmyndunarvenjur. Eru sérstaklega tilgreind dæmi um þríliðuð nöfn, s.s. nöfn sem samsett eru úr einum forlið og tveimur viðliðum, sbr. Guðmundrún. Hvað varðar erlend tökunöfn er í þessu sambandi einungis vikið að nafnstofnum sem eru ósamrýmanlegir íslenskum hljóðskipunarreglum og myndu af þeim sökum vera óheimilir samkvæmt lögunum.

Almennar reglur um íslenskt málkerfi hafa ekki verið lögfestar og þegar sleppir reglum sem settar hafa verið um stafsetningu og greinarmerkjasetningu byggir íslenskt málkerfi á ólögfestum reglum sem grundvallaðar eru á hefðum. Um tiltekna þætti íslensks máls hefur löggjafinn þó talið ástæðu til að lögfesta reglur, svo sem um mannanöfn. Ef fyrir liggur nægjanlega skýr afstaða löggjafans til einstakra atriða sem varða meðferð íslensks máls kann slíkt að leiða til þess að sú afstaða gangi framar öðrum sjónarmiðum jafnvel þótt þau séu rökstudd með vísan til „viðurkenndra reglna í íslensku málkerfi“. Þegar kemur að mannanöfnum er mannanafnanefnd ætlað það hlutverk að leggja mat á hvort þau nýju nöfn sem óskað er eftir að taka upp uppfylli það skilyrði mannanafnalaga að brjóta ekki í bága við íslenskt málkerfi. En eins og áður sagði þarf niðurstaða um það hvað telst vera í samræmi við íslenskt málkerfi í þessu sambandi að samrýmast markmiðum laganna eins og þau verða ráðin af lagatextanum sjálfum og lögskýringargögnum að baki þeim.

3.

Eins og fram er komið er nafnið Annalísa algengt nafn á Norðurlöndum þó það sé sjaldgæft hér á landi. Beiðni sú til mannanafnanefndar sem mál þetta er sprottið af beindist að því að heimilað yrði að taka þessa rótgrónu erlendu nafnmynd upp sem íslenskt eiginnafn. Rök mannanafnanefndar fyrir því að hafna beiðninni eru tvíþætt. Beinast þau annars vegar að beygingu nafnsins og hins vegar að því að það sé samsett úr tveimur eiginnöfnum sem bæði séu samþykkt hér á landi. Segir í úrskurði nefndarinnar að hún telji það fara gegn viðurkenndum nafnmyndunarreglum í íslensku málkerfi að skeyta saman tveimur eiginnöfnum, en eiginnöfnin Anna og Lísa séu þegar á skrá yfir eiginnöfn stúlkna. Í bréfi nefndarinnar til mín, dags. 3. febrúar 2005, sem tekið er upp í kafla III hér að framan, er afstaða hennar skýrð frekar. Segir þar m.a. að nöfn sem sett séu saman úr tveimur sjálfstæðum nöfnum valdi ákveðnum beygingarvandkvæðum og er bent á að óeðlilegt sé að beygja fyrri lið nafna en almennt sé talið að það leiði af slíkri samsetningu. Nefnd eru dæmi um samsett nöfn af þessu tagi, s.s. Arnarsteinn, Heiðaringi, Guðrúnbjörg, Arnapála, Annarósa og Annalísa. Er bent á að mannanafnanefnd hafi fjallað um nokkur nöfn af þessu tagi og hafnað þeim öllum. Af bréfi mannanafnanefndar má ráða að nefndin líti á það sem almenna reglu að nöfn sem sett séu saman úr tveimur sjálfstæðum nöfnum falli ekki að íslensku málkerfi og beri því að hafna á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996. Tekur nefndin fram í bréfinu að „væri slík samsetning heimil, væru í reynd erfitt að setja því takmörk hvaða nöfnum væri hægt að skeyta saman, s.s. Andritryggvi, Margrétguðrún o.s.frv.“.

Eins og áður segir laut erindi þeirra A og B að því að heimilað yrði að taka upp erlenda nafnmynd sem íslenskt eiginnafn. Það fól því ekki í sér beiðni um viðurkenningu á nýrri nafnmynd sem mynduð væri úr tveimur íslenskum eiginnöfnum. Vegna framangreindra ummæla í bréfi mannanafnanefndar og þeirra nafna sem nefndin tiltekur í dæmaskyni, minni ég á að í athugasemdum við ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. í fyrrnefndu frumvarpi er tekið fram að ákvæðinu sé m.a. sérstaklega beint að nýmyndunum nafna. Verður því ekki betur séð en að ákvæðið feli í sér reglu um að nýmyndanir nafna af þeim toga sem nefndin nefnir dæmi um, svo sem Guðrúnbjörg og Margrétguðrún, yrðu ekki taldar samrýmast íslensku málkerfi. Af þeirri ástæðu get ég ekki fallist á það viðhorf mannanafnanefndar að ef heimilað yrði að taka upp erlent eiginnafn, sem jafnframt á sér hliðstæðu í tveimur sjálfstæðum eiginnöfnum, myndi það leiða til þess að „í reynd [yrði] erfitt að setja því takmörk hvaða nöfnum væri hægt að skeyta saman“.

Af ummælum í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 45/1996 verður ráðið að við samningu frumvarpsins hafi áhersla verið lögð á að tryggja rétt foreldra til að ráða nafni barns síns en um leið að standa vörð um mikilvægustu nafnasiði samfélagsins, svo sem íslenska kenninafnasiðinn. Tekið er fram að mannanöfn varði þó fyrst og fremst einkahagi manna en síður almannahag. (Alþt. 1995—1996, A-deild, bls. 669.) Ljóst er að eitt af meginmarkmiðum með þeim breytingum á löggjöf um mannanöfn sem fólst í lögum nr. 45/1996 var að auka frelsi í nafngiftum einkum með því að heimila aðlöguð erlend nöfn. Samkvæmt þessu eru rýmkuð til muna skilyrði fyrir því að erlend eiginnöfn verði tekin upp í íslensku og felst meginskilyrðið í því að þau geti tekið íslenska eignarfallsendingu. Eins og áður er fram komið er ákvæðinu um eignarfallsendingu ætlað „að tryggja að ný tökunöfn lagist að reglum íslensks máls að nokkru marki að minnsta kosti og stefni íslenska beygingakerfinu ekki í voða“. (Alþt. 1995—1996, A-deild, bls. 671.) Ég minni hér á að í athugasemdunum með framangreindu frumvarpi er sérstaklega tekið fram að erlenda tökunafnið Annabella, sem hafnað hafði verið af mannanafnanefnd í tíð eldri laga, yrði að frumvarpinu samþykktu heimilt nafn í íslensku. Ekki verður annað séð en að nöfnin Annabella og Annalísa séu sambærileg að því leyti að vera erlend tökunöfn þótt þau hafi tíðkast í einhverjum mæli hér á landi, eiga sér hliðstæðu í tveimur sjálfstæðum eiginnöfnum og að fyrri liður þeirra beygist. Bæði taka nöfnin jafnframt íslenska eignarfallsendingu.

Með vísan til þess sem að framan greinir tel ég að við skýringu fyrirmæla 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um að nafn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi verði til samræmis að horfa til þeirrar meginreglu sem fólst í rýmkun á heimildum til skráningar erlendra tökunafna og endurspeglast í ákvæði 1. málsl. sömu málsgreinar. Þá verður ekki önnur ályktun dregin af athugasemdum greinargerðar að baki ofangreindum 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. en að það ákvæði hamli fyrst og fremst gegn því að „rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra“ og gegn „[nýmyndunum] sem brjóta í bág við íslenskar orðmyndunarreglur“. Það kann því að vera rétt hjá mannanafnanefnd að óheimilt sé í einhverjum tilvikum að skeyta saman rótgrónum íslenskum nöfnum með þeim hætti sem lýst er í greinargerðinni. Ég tel hins vegar í ljósi framangreinds að án ótvíræðari skírskotunar í texta laga nr. 45/1996 eða í lögskýringargögnum til þess vilja löggjafans að sama gildi um erlent tökunafn á borð við Annalísa, sem fullnægir kröfum 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. um að taka íslenska eignarfallsendingu, verði ekki fallist á þá niðurstöðu mannanafnanefndar sem kvörtun máls þessa beinist að. Breytir það ekki þessari niðurstöðu að nafnið Annalísa eigi sér hliðstæðu í tveimur sjálfstæðum nöfnum sem viðurkennd hafa verið hér á landi og tekin á mannanafnaskrá.

Ég tek fram að ég hef hér ekki tekið afstöðu til þeirra almennu sjónarmiða sem mannanafnanefnd setur fram í bréfi sínu til mín, dags. 3. febrúar 2005, og varða beygingarvandkvæði nafna sem samsett eru úr tveimur eiginnöfnum. Ég tek þó fram að ég fæ ekki séð að sérstakur vafi leiki um beygingu nafnsins Annalísa sem gæti verið grundvöllur þess að álykta að nafnið falli ekki að íslensku beygingakerfi. Í þessu sambandi ítreka ég að við beitingu reglu 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. verður að gæta þeirra persónulegu réttinda sem lögunum er ætlað að tryggja. Ákvarðanir stjórnvalda sem leiða til skerðingar á þeim verða að byggjast á skýrum lagaheimildum og mega ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til að ná því lögmæta markmiði sem lagaheimildinni er ætlað að stefna að. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið tel ég að ekki hafi verið fullnægjandi lagagrundvöllur til þess, fyrir mannanafnanefnd, að hafna á fundi sínum 22. september 2004 beiðni um eiginnafnið Annalísa.

V. Niðurstaða.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að úrskurður mannanafnanefndar frá 22. september 2004 þar sem hafnað var beiðni A og B um nafnið Annalísa hafi ekki verið í samræmi við lög. Beini ég þeim tilmælum til mannanafnanefndar að taka mál A og B fyrir að nýju, komi fram ósk þess efnis frá þeim, og að þá verði leyst úr því í samræmi við þau sjónarmið sem lýst er í áliti þessu.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Ég ritaði mannanafnanefnd bréf, dags. 13. febrúar 2006, þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um hvort A og B hefðu leitað til nefndarinnar á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða hvort málið væri enn til meðferðar. Í svarbréfi mannanafnanefndar, dags. 8. mars 2006, segir að nefndin hafi tekið beiðni A og B til meðferðar og kveðið upp úrskurð í málinu 16. maí 2005. Í úrskurðarorðum segir eftirfarandi:

„Fallist er á beiðni um eiginnafnið Annalísa (ef. Annalísu) og skal nafnið fært á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsmynd þess.“