Fatlaðir. Táknmálstúlkun fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta. Lagastoð gjaldskrár. Meinbugir á lögum. Valdframsal. Stjórnarskrá.

(Mál nr. 4182/2004)

A kvartaði yfir úrskurði menntamálaráðherra þar sem staðfest var ákvörðun Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra um að synja beiðni hans um túlkaþjónustu án endurgjalds fyrir húsfund í fjöleignarhúsi þar sem hann á íbúð. Taldi A að hann ætti rétt til þessarar þjónustu án endurgjalds á grundvelli laga nr. 129/1990, um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 129/1990 og tók fram að ætla yrði að ákvæði 6. gr. laganna veitti menntamálaráðherra heimild til að ákveða gjaldtöku fyrir táknmálstúlkaþjónustu með gjaldskrá. Umboðsmaður taldi hins vegar að lögskýringargögn að baki 6. gr. bentu til þess að við setningu laganna hefði einungis verið ætlunin að gjaldtaka á grundvelli greinarinnar tæki til hluta þeirrar þjónustu sem samskiptamiðstöðin veitti og að ekki yrði um gjaldtöku að ræða vegna þjónustu sem veitt væri heyrnarlausum og heyrnarskertum. Þrátt fyrir þetta og með vísan til þess að engin slík takmörkun kæmi fram í texta gjaldtökuheimildar 6. gr. taldi umboðsmaður ekki unnt að fullyrða að ummæli í lögskýringargögnum stæðu því í vegi að menntamálaráðherra gæti ákveðið að gjaldtakan tæki meðal annars til túlkaþjónustu sem veitt væri heyrnarlausum og heyrnarskertum. Taldi hann því ekki forsendur að lögum til þess að gera athugasemdir við úrskurð menntamálaráðuneytisins í máli A. Hins vegar taldi umboðsmaður rétt að vekja athygli Alþingis og menntamálaráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, á því misræmi sem væri að þessu leyti milli afmörkunar á gjaldaheimild í lögskýringargögnum og í texta 6. gr. laga nr. 129/1990.

Umboðsmaður vék einnig að ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar, m.a. vegna sjúkleika eða sambærilegra atvika. Tók hann fram að færi löggjafinn þá leið að setja á laggirnar opinbera stofnun, sem m.a. væri falið að tryggja fötluðum einstaklingum þá sérstöku þjónustu sem þeir þyrftu vegna fötlunar sinnar, yrði almennt að liggja skýrt fyrir í ákvæðum laganna hvort þjónustan skyldi veitt gegn gjaldi eða að kostnaðarlausu. Þá benti umboðsmaður á að löggjafinn kynni jafnframt að þurfa að leggja á það mat hvort sú réttindavernd sem veitt er fötluðum einstaklingum samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar leiði til þess að þeir eigi á grundvelli ákvæðisins, og þá eftir atvikum í samhengi við jafnræðisreglu 65. gr., rétt til þess að njóta í ákveðnum tilvikum slíkrar opinberrar þjónustu án endurgjalds þannig að þeir geti rækt þær lögmæltu skyldur sem á þeim hvíla eins og aðrir borgarar eða gætt lögvarinna réttinda sinna með fullnægjandi hætti. Vék umboðsmaður að breytingum sem menntamálaráðherra hafði gert á reglugerð nr. 1058/2003, um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, og nýrri gjaldskrá fyrir samskiptamiðstöðina sem ráðherra hafði gefið út, hvort tveggja eftir að kvörtun A barst umboðsmanni. Benti umboðsmaður á að með þeim breytingum væri samskiptamiðstöðinni m.a. veitt heimild til að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs á grundvelli sérstakrar fjárveitingar í fjárlögum ár hvert samkvæmt nánari reglum eða viðmiðunum sem stofnunin setti í samráði við Félag heyrnarlausra. Taldi umboðsmaður að ráðherra gæti ekki með þessum hætti framselt það vald sem honum væri fengið í 6. gr. laga nr. 129/1990 til samskiptamiðstöðvarinnar og þar með ekki heldur vald til að ákveða við hvaða skilyrði skyldi veita endurgjaldslausa túlkaþjónusta vegna daglegs lífs. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til menntamálaráðherra að endurskoða gjaldskrá fyrir samskiptamiðstöðina í ljósi þeirra sjónarmiða sem lýst væri í álitinu.

I. Kvörtun.

Hinn 20. ágúst 2004 leitaði Félag heyrnarlausra, fyrir hönd A, til mín og kvartaði yfir úrskurði menntamálaráðherra frá 3. ágúst 2004 þar sem staðfest var ákvörðun Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra frá 7. maí 2004 um að synja beiðni A um túlkaþjónustu án endurgjalds fyrir húsfund 18. maí 2004 í fjöleignarhúsi þar sem hann á íbúð. Er kvörtunin á því byggð að A eigi rétt á þessari þjónustu án endurgjalds á grundvelli laga nr. 129/1990, um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 18. maí 2005.

II. Málavextir.

Málavextir eru þeir að A óskaði eftir því við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra að honum yrði veitt túlkaþjónusta á húsfundi sem hann hugðist sækja þann 18. maí 2004. Í svarbréfi samskiptamiðstöðvarinnar til A segir m.a.:

„Því miður er ekki unnt að verða við beiðni um túlkaþjónustu á húsfundi þann 18. maí þar sem fjármagn til slíkra verkefna er búið. Framlag ríkisstjórnarinnar frá árinu 2003 er á þrotum og engin fjárveiting hefur fengist til verkefna af þessu tagi í ár.

Í 4. gr. reglugerðar um Samskiptamiðstöð nr. 1058/2003 segir:

„Helstu verkefni Samskiptamiðstöðvar við táknmálstúlkaþjónustu eru annars vegar að veita táknmálstúlkaþjónustu gegn gjaldi og hins vegar að veita túlkanemum á háskólastigi verklega þjálfun samkvæmt sérstökum samningum við stofnanir sem annast menntun táknmálstúlka.“

Stofnuninni er þannig óheimilt að veita túlkaþjónustu án þess að greiðsla fáist fyrir.“

Þessa niðurstöðu kærði A til menntamálaráðherra með bréfi, dags. 10. maí 2004. Kemur fram í kærunni að honum sé nauðsynlegt að sækja húsfundi sem boðaðir eru af húsfélaginu en vegna takmarkaðrar kunnáttu í íslensku geti hann ekki tekið þátt í og fylgst með umræðum er varða hagsmuni hans sem íbúðareiganda nema til staðar sé táknmálstúlkur. Í úrskurði menntamálaráðuneytisins, dags. 3. ágúst 2004, segir m.a.:

„Í máli þessu fer kærandi þess á leit að upplýst verði um afstöðu ráðuneytisins til þess hvort rétt hafi verið að málum staðið af hálfu túlkaþjónustu kærða. Við úrlausn á því verður að mati ráðuneytisins að líta til þeirrar óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttar að stjórnsýsluákvörðun verði efnislega að vera bæði ákveðin og skýr, þannig að sá sem ákvörðunin beinist að geti skilið hana og metið réttarstöðu sína.

Fyrir liggur í málinu að kærandi leitaði til kærða og óskaði eftir túlkaþjónustu vegna húsfundar. Kærði svaraði erindinu með bréfi, dags. 7. maí sl., þar sem grein var gerð fyrir skyldum kærða til að veita þjónustu á sviði táknmálstúlkunar. Í svarinu kemur fram að kærði veiti umrædda þjónustu gegn gjaldi skv. 4. gr. reglugerðar um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og því beri honum ekki skylda til að veita kærða umrædda þjónustu án endurgjalds. Í bréfi kærða kom enn fremur fram að þrátt fyrir ákvæði 4. gr. reglugerðarinnar, hafi sérstöku framlagi verið veitt á fjárlögum árið 2003 til að standa undir endurgjaldslausri táknmálstúlkaþjónustu af því tagi er kærandi óskaði eftir en sú fjárveiting væri nú uppurin og því væri kærða óheimilt að veita umbeðna túlkaþjónustu án þess að greiðsla kæmi fyrir.

Með hliðsjón af framansögðu verður talið að hin kærða ákvörðun hafi uppfyllt framangreinda grundvallarreglu stjórnsýsluréttar þannig að kærandi hafi átt að geta skilið hana og metið réttarstöðu sína. Í svari kærða kemur fram sú afstaða að kærandi eigi ekki rétt til þeirrar þjónustu sem kærandi hefur óskað eftir og svar kærða rökstutt með vísan til 4. gr. reglugerðar um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 6. gr. laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Samkvæmt svarinu verður ekki annað ráðið en að kæranda hafi staðið þjónusta kæranda til boða gegn greiðslu gjalds skv. gjaldskrá kærða sem sett hefur verið á grundvelli 6. gr. laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Með hliðsjón af framansögðu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.“

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Ég ritaði menntamálaráðherra bréf, dags. 23. ágúst 2004, þar sem ég rakti m.a. ákvæði 6. gr. laga nr. 129/1990, um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, og athugasemdir með frumvarpi því er varð að þeim lögum sem og ummæli menntamálaráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi. Óskaði ég eftir því, í ljósi lögskýringargagna, að ráðuneytið gerði mér nánar grein fyrir því hvaða sjónarmið hefðu legið þeirri niðurstöðu ráðuneytisins til grundvallar að A hefði ekki átt rétt til túlkaþjónustu án endurgjalds. Jafnframt óskaði ég eftir að mér yrðu afhent afrit af gögnum málsins. Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 15. desember 2004, segir m.a.:

„Meginviðfangsefni úrskurðar ráðuneytisins varðaði það álitamál hvort hin kærða ákvörðun hefði uppfyllt grundvallarreglur stjórnsýsluréttar þannig að kærandi hafi átt að geta skilið hana og lagt mat á réttarstöðu sína skv. henni. Í úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti ekki lögvarinn rétt til tiltekinnar þjónustu frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra án endurgjalds. Í hinni kærðu ákvörðun hafði kæranda verið leiðbeint um að þótt hann ætti ekki lögvarinn rétt til táknmálstúlkaþjónustu án endurgjalds, stæði honum sambærileg þjónusta til boða gegn greiðslu gjalds skv. gjaldskrá sem sett hefur verið um þjónustu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Röng er því sú ályktun sem dregin er af úrskurði ráðuneytisins og fram kemur í bréfi yðar að kærandi hafi ekki átt rétt á túlkaþjónustu án endurgjalds þar sem honum hafi staðið sama þjónusta til boða gegn gjaldi.

Varðandi þau lagarök sem lágu til grundvallar þeirri niðurstöðu framangreinds úrskurðar ráðuneytisins að kærandi hafi ekki átt rétt til túlkaþjónustu án endurgjalds bendir ráðuneytið á eftirfarandi. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er eins og fram kemur í bréfi yðar, ríkisstofnun sem starfar á grundvelli laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990. Lögin fjalla fyrst og fremst um starfrækslu nefndrar ríkisstofnunar en eru ekki heildstæð löggjöf um réttarstöðu heyrnarlausra eins og nánar verður rakið hér á eftir.

Fyrsti kafli laganna ber yfirskriftina markmið og gildissvið. Í 1. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að stuðla að jafnrétti heyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls heyrnarlausra. Í 2. gr. laganna er lýst hlutverki Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, sem tekur m.a. til táknmálstúlkunar sbr. staflið c.

Menntamálaráðherra hefur með heimild í 2. mgr. 2. gr. laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra sett reglugerð um þá þjónustu sem stofnuninni er ætlað að veita, reglugerð nr. 1058/2003, með síðari breytingum. Í 4. gr. reglugerðarinnar, sem fjallar um táknmálstúlkaþjónustu, kemur fram að helstu verkefni Samskiptamiðstöðvar við táknmálstúlkaþjónustu væru annars vegar að veita táknmálstúlkaþjónustu gegn gjaldi og hins vegar að veita túlkanemum á háskólastigi verklega þjálfun samkvæmt sérstökum samningum við stofnanir sem annast menntun táknmálstúlka. Í 5. gr. reglugerðarinnar er síðan fjallað um aðra þjónustu sem stofnuninni er ætlað að veita sem er að veita fræðslu og ráðgjöf til hagsmunahópa, stofnana og annarra er sinna þjónustu við þá sem nota táknmál, og að semja, eða láta semja, og miðla efni á táknmáli fyrir börn er nota táknmál og fjölskyldur þeirra, annað en skyldubundið námsefni fyrir grunnskóla. Þá er stofnuninni heimilt að taka að sér verkefni fyrir eða í samvinnu við aðra aðila á sviði námsefnisgerðar, símenntunar og fleira því tengt.

Varðandi hugsanlegan lögvarinn rétt heyrnarlausra og heyrnarskertra til endurgjaldslausrar táknmálstúlkaþjónustu og fyrirheit þess efnis í ljósi þess hluta framsöguræðu menntamálaráðherra á Alþingi, vegna frumvarps til laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, sem varð að lögum nr. 129/1990 og vitnað er til í bréfi yðar, skal bent á að lagatextinn sjálfur kveður á um að setja skuli stofnuninni gjaldskrá. Að mati ráðuneytisins þyrfti að kveða skýrt á um það í lögunum sjálfum ef ætlunin hefði verið að takmarka gjaldtökuheimildir stofnunarinnar við aðra aðila en heyrnarlausa og heyrnarskerta. Þá bera lögskýringargögn ekki með sér að fram hafi farið kostnaðarmat á áhrifum þess að veita heyrnarlausum og heyrnarskertum endurgjaldslausa táknmálstúlkaþjónustu á öllum sviðum daglegs lífs. Eins og fram kemur síðar í þessu bréfi metur fjármálaráðuneytið slíkan kostnað verulegan.

Í fjárlögum fyrir árið 2004, sbr. lög nr. 152/2003, kemur fram að stofnuninni er ætlað að fjármagna 39,1 m. rekstrarkostnað með sértekjum að fjárhæð kr. 14,4 m.kr. og ríkisframlagi að fjárhæð 24,7 m.kr. En stærstur hluti áætlaðra sértekna er tilkominn vegna útseldrar táknmálstúlkaþjónustu. Þrátt fyrir þennan fjárhagsramma hefur Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra á undanförnum árum leitast við að veita táknmálstúlkaþjónustu án endurgjalds á grundvelli sérstakra framlaga ríkisstjórnar og félagsmálaráðuneytisins.“

Með bréfi, dags. 17. desember 2004, gaf ég Félagi heyrnarlausra, fyrir hönd A, kost á því að gera athugasemdir við bréf ráðuneytisins. Athugasemdir bárust mér með bréfi, dags. 3. janúar 2005.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1.

Í máli þessu er eingöngu fjallað um heimild Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra til að taka gjald fyrir táknmálstúlkun sem veitt er einstaklingi að hans ósk vegna þátttöku í húsfélagsfundi.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 129/1990, um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, er markmið laganna „að stuðla að jafnrétti heyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls heyrnarlausra“. Í 2. gr. laganna er fjallað um hlutverk Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og samstarf við aðrar stofnanir og einkaaðila sem sinna þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta en þar segir:

„Hlutverk Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra er að annast:

a. rannsóknir á íslensku táknmáli,

b. kennslu táknmáls,

c. táknmálstúlkun,

d. aðra þjónustu.

Um skipan þjónustunnar skal kveðið á í reglugerð.

Stofnunin skal hafa samstarf við svæðisstjórnir um málefni fatlaðra, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Heyrnleysingjaskólann, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Námsgagnastofnun og aðra opinbera aðila varðandi málefni er snerta starfsemi þeirra. Sama gildir um samstarf við félög áhugamanna.“

Í 3. gr. laganna er tilgreint með hvaða hætti menntamálaráðherra skuli skipa samskiptamiðstöðinni stjórn og í 4. og 5. gr. er fjallað um forstöðumann samskiptamiðstöðvarinnar sem ráðherra skipar.

Af framangreindum ákvæðum laga nr. 129/1990 er ljóst að megintilgangur þeirra er að leggja lagalegan grunn að rekstri og stjórn Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og tryggja þar með að til staðar sé opinber stofnun sem hafi það lögbundna hlutverk að annast rannsóknir og kennslu á táknmáli, táknmálstúlkun og aðra þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta. Er það markmið laganna að starfsemi stofnunarinnar samkvæmt lögunum stuðli „að jafnrétti heyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls heyrnarlausra“, sbr. 1. gr. laganna. Ber stjórn stofnunarinnar og forstöðumanni hennar að reka stofnunina með þessi markmið að leiðarljósi.

Í 6. gr. laganna er lögfest svohljóðandi gjaldtökuheimild:

„Samskiptamiðstöð gerir fjárhags- og framkvæmdaáætlun til allt að fimm ára. Stjórn stofnunarinnar staðfestir áætlanir og fylgist með framkvæmd þeirra. Menntamálaráðherra getur, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, sett gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem samskiptamiðstöðin veitir.“

Felur ákvæðið í sér heimild til handa ráðherra til að mæla fyrir um töku þjónustugjalds en slíkar þjónustugjaldaheimildir fela í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að lögbundin opinber þjónusta skuli vera endurgjaldslaus. Eru slíkar gjaldaheimildir túlkaðar þröngt í þeim skilningi að einungis er heimilt að taka gjald fyrir þá opinberu þjónustu sem gjaldaheimildin nær skýrlega til. Við skýringu á framangreindri gjaldtökuheimild laga nr. 129/1990 og afmörkun á því til hvaða þjónustuþátta í starfsemi samskiptamiðstöðvarinnar hún tekur ber að líta til þess hvernig hlutverk og starfsemi stöðvarinnar er skilgreind í öðrum ákvæðum laganna, sbr. einkum framangreindri 1. mgr. 2. gr. laganna. Hvað táknmálstúlkaþjónustu varðar verður að ætla, á grundvelli samanburðarskýringar við umrætt ákvæði 1. mgr. 2. gr., að gjaldtökuheimild 6. gr. veiti menntamálaráðherra heimild til að ákveða gjaldtöku fyrir slíka þjónustu skv. gjaldskrá. Í athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi til laganna er hins vegar að finna svohljóðandi athugasemd:

„Eðlilegt þykir að taka megi gjald fyrir þjónustu veitta öðrum aðilum en heyrnarlausum og heyrnarskertum.“ (Alþt. 1990—1991, A-deild, bls. 1230.)

Þá kom eftirfarandi m.a. fram í framsöguræðu menntamálaráðherra er hann mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi:

„Í frv. er gert ráð fyrir því að samskiptamiðstöðin geri fjárhags- og framkvæmdaáætlun til allt að fimm ára í senn og að stjórn miðstöðvarinnar staðfesti áætlanir og fylgist með framkvæmd þeirra. Gert er ráð fyrir því að menntmrh. geti, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, sett gjaldskrá fyrir einhvern hluta af þeirri þjónustu sem stofnunin veitir. Það yrði vafalaust mjög lítill hluti af starfsemi stofnunarinnar sem þyrfti á slíkri skrá að halda. Væntanlega yrði helst um það að ræða ef stofnanir eins og t.d. Alþingi óskuðu eftir því að njóta þjónustu stofnunarinnar við að túlka umræður á Alþingi fyrir heyrnarlausa eða heyrnarskerta með táknmáli, þá væri eðlilegt að ætlast til þess að þessi stofnun, Alþingi, greiddi fyrir það.“ (Alþt. 1990—1991, B-deild, dálkur 651.)

Framangreind lögskýringargögn benda samkvæmt orðalagi sínu til þess að við setningu laga nr. 129/1990 hafi ætlunin verið sú að gjaldtaka á grundvelli 6. gr. laganna tæki aðeins til hluta þeirrar þjónustu sem samskiptamiðstöðin veitir og að ekki yrði um gjaldtöku að ræða vegna þjónustu sem veitt yrði heyrnarlausum og heyrnarskertum. Engin slík takmörkun kemur hins vegar fram í texta gjaldtökuheimildar 6. gr. heldur segir þar það eitt að menntamálaráðherra geti, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, sett gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem samskiptamiðstöð veitir. Ég tel því ekki unnt að fullyrða að framangreind ummæli í lögskýringargögnum standi því í vegi að menntamálaráðherra geti ákveðið að gjaldtaka fyrir þjónustu samskiptamiðstöðvarinnar taki meðal annars til túlkaþjónustu sem veitt er heyrnarlausum og heyrnarskertum. Ég tel því ekki forsendur að lögum til þess að ég geri athugasemdir við þann úrskurð menntamálaráðuneytisins sem kvörtunin beinist að.

Með tilliti til þess sem fram kemur í lögskýringargögnum um afmörkun gjaldtökuheimildarinnar og lýst var hér að framan tel ég hins vegar rétt, í samræmi við 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að vekja athygli Alþingis og menntamálaráðherra á þessu misræmi lögskýringargagna og lagatextans og þá með það í huga að tekin verði afstaða til þess hvort tilefni sé til að bregðast við þessu misræmi með nánari afmörkun á heimild ráðherra til að mæla fyrir um gjald fyrir þjónustu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.

2.

Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, skal öllum, sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar, m.a. vegna sjúkleika eða sambærilegra atvika. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum falla þeir einstaklingar undir þetta ákvæði sem eiga við andlega eða líkamlega fötlun að stríða á borð við heyrnarleysi eða heyrnarskerðingu og þarfnast sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum, sbr. einnig 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Velji löggjafinn að fara þá leið að veita fötluðum nauðsynlega aðstoð með því að setja á laggirnar opinbera stofnun, sem meðal annars er falið að veita slíkum einstaklingum þá sérstöku þjónustu sem þeir þurfa vegna fötlunar sinnar, tel ég að almennt verði að liggja skýrt fyrir í ákvæðum laganna hvort sú þjónusta skuli veitt gegn gjaldi eða að kostnaðarlausu. Hef ég þá einnig í huga þá meginreglu stjórnsýsluréttar að opinber þjónusta skuli veitt borgurunum án endurgjalds nema lagaheimild til gjaldtöku sé til staðar. Við setningu löggjafar af þessu tagi kann löggjafinn jafnframt að þurfa að leggja á það mat hvort sú réttindavernd sem veitt er fötluðum einstaklingum samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar leiði til þess að þeir eigi á grundvelli ákvæðisins, og þá eftir atvikum í samhengi við jafnræðisreglu 65. gr., sbr. til hliðsjónar Hrd. 2000, bls. 4480, rétt til þess að njóta í ákveðnum tilvikum slíkrar opinberrar þjónustu án endurgjalds þannig að þeir geti rækt þær lögmæltu skyldur sem á þeim hvíla eins og aðrir borgarar eða gætt lögvarinna réttinda sinna með fullnægjandi hætti.

Eftir að kvörtun þessa máls barst mér hefur menntamálaráðherra með reglugerð nr. 884/2004 frá 22. október 2004 breytt ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 1058/2003, um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Eftir breytinguna segir að helstu verkefni samskiptamiðstöðvarinnar séu annars vegar að veita táknmálstúlkaþjónustu gegn gjaldi eða endurgjaldslaust samkvæmt nánari ákvæðum í gjaldskrá og hins vegar að veita túlkanemum á háskólastigi verklega þjálfun samkvæmt sérstökum samningum við stofnanir sem annast menntun táknmálstúlka. Þennan sama dag gaf menntamálaráðherra út nýja gjaldskrá fyrir Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 882/2004 og segir þar í 2. gr.:

„Fyrir ráðgjöf og túlkun skal innheimta kr. 4.550 á klst. Samskiptamiðstöð er heimilt að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs og greiða ferðakostnað táknmálstúlks utan Reykjavíkursvæðisins vegna þess, á grundvelli sérstakrar fjárveitingar á fjárlögum ár hvert og skv. nánari reglum eða viðmiðunum sem stofnunin setur í samráði við Félag heyrnarlausra. Við setningu þeirra skal gæta jafnræðis milli notenda þjónustunnar með tilliti til þeirrar fjárveitingar sem veitt er árlega á fjárlögum til táknmálstúlkunar í daglegu lífi.“

Hér að framan hefur efni gjaldtökuheimildar 6. gr. laga nr. 129/1990 verið lýst. Þar er menntamálaráðherra fengið vald til að setja gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem samskiptamiðstöðin veitir og þar með að gefa út stjórnvaldsfyrirmæli. Þetta vald getur ráðherra ekki framselt til samskiptamiðstöðvarinnar og þar með ekki vald til að ákveða við hvaða skilyrði skuli veitt endurgjaldslaus túlkaþjónusta vegna daglegs lífs. Ég minni og á þau sjónarmið sem sett voru fram hér að framan um þýðingu 76. gr. stjórnarskrárinnar í þessu efni og nauðsyn þess að við ákvörðun um gjaldskrá fyrir túlkaþjónustu sem samskiptamiðstöðin veitir heyrnarlausum og heyrnarskertum og ráðstöfun á því fé sem veitt er til stofnunarinnar á fjárlögum til að mæta kostnaði við endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs sé sérstaklega hugað að þeim tilvikum þar sem aðkoma táknmálstúlks er forsenda þess að heyrnarlaus eða heyrnarskertur einstaklingur geti rækt lögmæltar skyldur eða gætt lögvarinna réttinda og kostnaði við slíka túlkun er ekki mætt með öðrum hætti af opinberu fé. Í þessu sambandi geta sjónarmið um jafnræði einnig komið til skoðunar, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og óskráð jafnræðisregla stjórnsýsluréttar. Tilefni þeirrar kvörtunar sem fjallað er um í áliti þessu var beiðni um aðstoð táknmálstúlks vegna setu á húsfundi í fjöleignarhúsi. Af stöðu húsfélaga í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum nr. 26/1994 og lögmæltri skyldu húseigenda til aðildar að þeim leiðir að þar er einmitt um að ræða dæmi um tilvik sem sérstök ástæða er til að huga að með tilliti til framangreindra sjónarmiða.

Ég tel rétt vegna athugunar minnar á þessu máli að vekja athygli menntamálaráðherra á framangreindum athugasemdum um efni gjaldskrár nr. 882/2004 og beina þeim tilmælum til ráðherra að gjaldskráin verði tekin til endurskoðunar í ljósi þeirra sjónarmiða sem ég hef hér lýst.

V. Niðurstaða.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða mín að misræmi milli afmörkunar á gjaldaheimild í lögskýringargögnum og í texta 6. gr. laga nr. 129/1990, um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, geti ekki takmarkað heimild menntamálaráðherra til að mæla fyrir um gjald vegna táknmálstúlkunar sem samskiptamiðstöðin veitir heyrnarlausum og heyrnarskertum. Hins vegar tel ég rétt að vekja athygli Alþingis og menntamálaráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, á þessu misræmi.

Jafnframt er það niðurstaða mín að menntamálaráðherra hafi ekki verið heimilt að framselja í gjaldskrá til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra vald til að ákveða hvenær veita skuli endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs. Eru það tilmæli mín til menntamálaráðherra að gjaldskrá fyrir samskiptamiðstöðina verði endurskoðuð í ljósi þeirra sjónarmiða sem lýst er í álitinu.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Með bréfi til menntamálaráðuneytisins, dags. 27. janúar 2006, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið hefði gert einhverjar tilteknar ráðstafanir í tilefni af áliti mínu og þá í hverju þær fælust. Mér barst svar menntamálaráðuneytisins í bréfi, dags. 21. mars 2006. Er þar lýst sjónarmiðum ráðuneytisins vegna þeirrar niðurstöðu minnar að menntamálaráðherra hafi ekki verið heimilt að framselja í gjaldskrá til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra vald til að ákveða hvenær veita skuli endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs. Jafnframt er komið á framfæri því sjónarmiði ráðuneytisins að sanngjarnt hefði verið að ráðuneytinu hefði verið gefinn kostur á því að gera grein fyrir á hvaða grundvelli ákvæði 2. gr. gjaldskrárinnar var sett áður en endanlegt álit lá fyrir. Í bréfi menntamálaráðuneytisins segir enn fremur eftirfarandi:

„Í ráðuneytinu er nú til meðferðar tillaga stjórnar SHH um nýja gjaldskrá þar sem farið er fram á hækkun á einstökum gjaldaliðum og upptöku nýrra gjaldheimilda. Á grundvelli tillögunnar er gjaldskráin nú til endurskoðunar í heild sinni, þ.m.t. það ákvæði hennar sem athugasemdir voru gerðar við í áliti umboðsmanns. Vonast er til að ráðuneytið muni ljúka athugun sinni á tillögum stjórnar SHH fljótlega og mun ráðuneytið gera umboðsmanni grein fyrir niðurstöðunni í sérstöku bréfi.

Í framangreindu áliti umboðsmanns er jafnframt bent á nauðsyn þess, að við ákvörðun um gjaldskrá fyrir túlkaþjónustu sem SHH veitir og ráðstöfun á því fé sem veitt er til stofnunarinnar á fjárlögum til að mæta kostnaði við endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs, verði sérstaklega hugað að þeim tilvikum þar sem aðkoma táknmálstúlks sé forsenda þess að heyrnarlaus eða heyrnarskertur einstaklingur geti rækt lögmæltar skyldur eða gætt lögvarinna réttinda og kostnaði við slíka túlkun, sem ekki væri mætt með öðrum hætti af opinberu fé. Ráðuneytið tekur undir þessar ábendingar í álitinu og tekur fram að af þess hálfu hefur verið lögð rík áhersla á það að fjárveitingar fyrir endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs, komi notendum þjónustunnar til góða í þeim tilvikum þar sem kostnaður vegna hennar fæst ekki greiddur af opinberu fé eða frá þriðja aðila. Jafnframt hefur ráðuneytið lagt áherslu á að þessir fjármunir séu ekki nýttir í þeim tilvikum þar sem greiðsluskylda hvílir með skýrum hætti á öðrum en notanda þjónustunnar.“