Málsmeðferð stjórnvalda. Svör við erindum. Umboðsmaður aðila máls. Leiðbeiningarskylda. Vandaðir stjórnsýsluhættir.

(Mál nr. 4252/2004)

A kvartaði yfir því að Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði ekki svarað þremur bréfum hans vegna meðlagsgreiðslna með dóttur hans. Í bréfunum gerði A athugasemdir við tilkynningar innheimtustofnunar til hans um skuld hans við stofnunina og við upphæð mánaðarlegs afdráttar af launum hans. Báru bréfin með sér að A hefði ekki skilið efni samkomulags sem lögmaður hans hafði gert fyrir hans hönd við innheimtustofnun um að lækkuð yrði krafa í laun A þannig að mánaðarlegur afdráttur yrði minni. Viðbrögð innheimtustofnunar við fyrsta bréfi A voru þau að hringja til lögmanns A og fara fram á það að hann útskýrði stöðu máls A fyrir honum. Ekki var að sjá að stofnunin hefði brugðist við öðru bréfi A en er hann sendi þriðja bréf sitt hafði hann skipt um lögmann.

Umboðsmaður vék að þeirri óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar að hver sá, sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald, eigi almennt rétt á að fá skriflegt svar nema svars sé ekki vænst. Tók hann fram að við mat á því hvert vera ætti efni þeirra svara sem stjórnvöld veittu kynnu þau að þurfa að horfa til þeirra skyldna sem m.a. leiða af leiðbeiningarreglu 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og eftir atvikum óskráðum reglum um leiðbeiningarskyldu.

Umboðsmaður benti á að í máli A reyndi á það álitaefni hvort og þá hvaða áhrif það hefði á skyldur stjórnvalds í samskiptum við aðila máls að aðilinn hefði notið aðstoðar lögmanns. Tók hann fram að almennt hefði verið gengið út frá því að einstaklingar og lögaðilar ættu rétt á að nýta sér aðstoð lögmanns í samskiptum við stjórnvöld enda hefði löggjafinn ekki fjallað um slík atriði í lagareglum á einstökum sviðum. Á hinn bóginn yrði að hafa í huga að þrátt fyrir aðkomu lögmanns að máli á stjórnsýslustigi beindust lögmæltar skyldur stjórnvalda fyrst og fremst að málsaðilanum enda þótt aðkoma lögmanns gæti, að virtu umfangi og efni þess umboðs sem hann hefði frá skjólstæðingi sínum, haft þar tiltekin réttaráhrif. Umboðsmaður tók jafnframt fram að ekki væri útilokað að stjórnvöld yrðu, í ljósi leiðbeiningarskyldunnar og óskráðra reglna stjórnsýsluréttar, að gera viðhlítandi ráðstafanir ef sýnt þætti af gögnum máls og af samskiptum starfsmanna stjórnvaldsins við aðila máls að lögmaðurinn hefði t.d. ekki upplýst skjólstæðing sinn um breytingu á réttarstöðu hins síðarnefnda sem átt hefði sér stað í samskiptum lögmannsins og stjórnvalds.

Hvað varðaði fyrsta bréf A taldi umboðsmaður í ljósi forsögu málsins að innheimtustofnun hefði verið rétt að álíta að lögmaðurinn kæmi fram fyrir hönd A vegna málsins. Áleit umboðsmaður því að viðbrögð stofnunarinnar við því hefðu ekki verið óeðlileg. Þó taldi hann, með hliðsjón af því að bréfið bar með sér að lögmaðurinn hefði ekki sinnt þeirri upplýsingagjöf gagnvart A sem samkomulag hafði orðið um, að rétt hefði verið að stofnunin upplýsti A um þessi viðbrögð. Slíkt hefði einnig verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þá fjallaði umboðsmaður um seinni bréf A. Var það niðurstaða hans að í ljósi efnis þeirra og með vísan til leiðbeiningarskyldunnar sem á Innheimtustofnun sveitarfélaga hvíldi að lögum og þeirrar óskráðu meginreglu, að stjórnvöldum beri að svara skriflega þeim erindum sem borgararnir beina til þeirra skriflega, hefði stofnuninni borið að gera viðhlítandi ráðstafanir til að upplýsa A um samkomulag það sem lögmaður hans hafði gert við hana og leiðbeina honum um réttarstöðu hans gagnvart stofnuninni. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga að hún sæi til þess að framangreindum erindum A yrði svarað og honum leiðbeint um þau atriði sem þau beindust að. Þá beindi hann þeim tilmælum til stofnunarinnar að í samskiptum hennar við meðlagsgreiðendur yrði framvegis gætt þeirra sjónarmiða sem rakin væru í álitinu.

I. Kvörtun.

Hinn 10. nóvember 2004 leitaði til mín A og kvartaði m.a. yfir því að Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði ekki svarað bréfum hans, dags. 17. mars 2004, 15. júlí 2004 og 16. október 2004, vegna meðlagsgreiðslna með dóttur hans.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 20. júní 2005.

II. Málavextir.

Bréf A til Innheimtustofnunar sveitarfélaga sem dagsett er 17. mars 2004 er skrifað í tilefni af tilkynningu stofnunarinnar til hans, dags. 12. sama mánaðar, um skuld hans við stofnunina, sem þá nam 157.009 kr. Í bréfi A segir m.a. svo:

„I’m more than surprised to receive again and again this letter because when I received it before, for the first time in March 2003 and again in June 2003, and again in December 2003, you got each time all the information regarding the situation, as well as the fact that my lawyer [X], hrl., contacted your services many times to deliver you all the information too.“

Í bréfi A eru þessu næst settar fram athugasemdir varðandi málsmeðferð þess máls sem lauk með bráðabirgðaúrskurði sýslumannsins í Reykjavík, dags. 26. október 2001, þar sem A var gert að greiða tvöfalt lágmarksmeðlag samkvæmt 2. mgr. 11. gr. þágildandi barnalaga nr. 20/1992 með dóttur sinni, B, frá 1. júlí 2001 þar til endanleg ákvörðun um forsjá barnsins lægi fyrir. Kemur jafnframt fram að sýslumaðurinn í Reykjavík hafi kveðið upp nýjan úrskurð 5. nóvember 2003, þar sem fyrri meðlagsákvörðun var breytt og skyldi A samkvæmt honum greiða einfalt meðlag með B frá 1. júní 2003. Þá segir svo í bréfi A:

„Moreover, your services continue to deduct from my salary a fanciful amount for the alimony (ISK. 20.000,-), which correspond to nothing, instead of the average of ISK. 15.000,- per month as it is supposed to be, a situation which has been done also without my knowledge.

[...]

You can get more detailed information through [X], hrl. If you need complementary information or if something is not clear, please don’t hesitate to contact him.“

Í bréfinu er þessu næst gefið upp símanúmer lögmannsins X. Af áritun á bréfið má sjá að afrit þess hefur m.a. verið sent lögmanninum.

Bréf A sem dagsett er 15. júlí 2004 er skrifað í tilefni af sams konar bréfi innheimtustofnunar og hið fyrra og er það dagsett 12. júlí 2004. Er A þar tilkynnt um að skuld hans við stofnunina nemi nú kr. 141.109. Efni bréfs A er að mestu leyti samhljóða fyrra bréfinu og segir m.a. svo í niðurlagi þess:

„I remind you as well that your services continue to deduct monthly from my salary the amount, for this so-called alimony the amount of ISK. 20.000,-, which doesn’t correspond to the supposed amount that I should pay, instead of the average of ISK. 15.000,- per month as it is supposed to be.“

Í bréfinu er ekki vísað til lögmanns A um frekari upplýsingar eins og í því fyrra og ekki verður séð að hann hafi sent lögmanninum afrit af þessu bréfi. Þriðja bréf A, dags. 16. október 2004, er skrifað í tilefni af tilkynningu innheimtustofnunar, dags. 13. sama mánaðar. Er efni þess svipað og hinna tveggja. Í þessu bréfi er ekki bent á lögmann A um frekari upplýsingar en hins vegar má ráða að afrit bréfsins hafi verið sent lögmönnunum Y og Z.

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég Innheimtustofnun sveitarfélaga bréf, dags. 16. nóvember 2004, þar sem ég óskaði eftir því að stofnunin sendi mér öll gögn sem vörðuðu mál hans og að mér yrðu veittar upplýsingar um hvort ofangreindum erindum hans hefði verið svarað eða hvenær svars við þeim væri að vænta. Svarbréf innheimtustofnunar er dags. 19. nóvember 2004 og kemur þar fram að A hafi verið á skrá stofnunarinnar frá 1. mars 2003 vegna innheimtu meðlagsskuldar. Þá segir að erindum sem hann hafi sent innheimtustofnun bréflega (dags. 5. desember 2003, 17. desember 2003, 31. desember 2003, 17. mars 2004, 15. júlí 2004 og 16. október 2004) hafi verið svarað með þeim hætti að samband hefði verið haft við lögmenn hans sem hann hafi sjálfur vísað á og hvatt til að haft yrði samband við. Í bréfi innheimtustofnunar eru rakin samskipti stofnunarinnar við lögmenn A. Kemur þar m.a. fram að X, hrl., lögmaður A, hafi haft samband við innheimtustofnun í desember 2003. Hafi hann átt viðræður við lögfræðing stofnunarinnar og hafi niðurstaða þeirra orðið sú að gerður var samningur um að lækkuð yrði krafa í laun A úr kr. 31.116 á mánuði í kr. 20.000. Segir að lögmaðurinn hafi ætlað að upplýsa skjólstæðing sinn um samkomulagið. Þá kemur fram að lögfræðingur innheimtustofnunar hafi hringt til X í byrjun janúar 2004 vegna bréfs frá A til stofnunarinnar og hafi lögmaðurinn þá upplýst að hann ætlaði að tala við skjólstæðing sinn en hefði ekki verið búinn að því þar sem A hefði verið erlendis. Þá er upplýst í bréfi innheimtustofnunar að í tilefni bréfs A, dags. 17. mars 2004, hafi stofnunin sent tölvupóst til X þar sem þess var óskað að hann upplýsti skjólstæðing sinn um stöðu mála. Einnig kemur fram að í tilefni bréfs A, dags. 16. október 2004, hafi af hálfu stofnunarinnar verið hringt til Y, hdl., sem þá hafði tekið við hagsmunagæslu fyrir A. Með bréfi innheimtustofnunar fylgdu gögn máls A, þ.á m. afrit af úrskurði sýslumannsins í Reykjavík, dags. 26. október 2001, og afrit af tilkynningu Tryggingastofnunar ríkisins til A, dags. 5. mars 2003, um greiðslu stofnunarinnar á meðlagsgreiðslum til móður B og um greiðsluskyldu hans til Innheimtustofnunar sveitarfélaga af því tilefni. Ennfremur var meðal gagnanna afrit af tveimur bréfum A til innheimtustofnunar, dags. 11. júní 2003 og 16. september 2003. Í báðum bréfunum er vísað til lögmannsins X um frekari upplýsingar og gefið upp símanúmer hans. Þá fylgdi einnig afrit bréfs X, hrl., til innheimtustofnunar, dags. 1. júlí 2003, þar sem fram kemur að hann sé lögmaður A.

Ég ritaði Innheimtustofnun sveitarfélaga á ný bréf, dags. 10. desember 2004. Vísaði ég þar til framangreindra upplýsinga innheimtustofnunar um samskipti stofnunarinnar við lögmenn A og benti á að ekki væri af bréfi stofnunarinnar að sjá að hún hafi brugðist við bréfi A, dags. 15. júlí 2004. Þá sagði m.a. svo í bréfi mínu:

„Ljóst er af ofangreindu að samskipti vegna máls [A] hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga höfðu að mestu leyti verið milli lögmanns hans og stofnunarinnar. Þá liggur fyrir að bréf þau er kvörtun [A] varðar lutu að fyrrgreindum samningi sem lögmaður hans gerði við innheimtustofnun. Af bréfunum má ráða að [A] hafi ekki verið ljóst hvað í samningnum fælist eða hvernig sú upphæð sem innheimtustofnun dró mánaðarlega af launum hans væri til komin. Ég tek fram að í þeim gögnum sem fyrir mig hafa verið lögð kemur ekki fram að þegar innheimtustofnun bárust umrædd bréf [A] hafi legið fyrir staðfesting lögmannsins á því að hann hefði orðið við tilmælum stofnunarinnar um að skýra stöðu málsins fyrir [A].

Í ljósi þeirra atvika málsins sem lýst er hér að ofan óska ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að Innheimtustofnun sveitarfélaga skýri afstöðu sína til þess hvort stofnuninni hafi borið að svara þeim bréfum [A] sem kvörtun hans varðar og þá sérstaklega þegar ljóst mátti vera af efni bréfa hans að hann hafði ekki fengið útskýringar á því sem um var spurt hjá lögmanninum. [...]“

Mér barst svarbréf Innheimtustofnunar sveitarfélaga 17. desember 2004. Segir þar eftirfarandi:

„Að athuguðu máli verður að telja að Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi svarað erindum [A] með fullnægjandi og eðlilegum hætti enda var þeim lögmönnum sem hann benti á svarað og einnig haft frumkvæði að því að hafa samband við þá í a.m.k. þrjú skipti til þess að tryggja það að þeir upplýstu [A] um stöðuna. Með hvaða hætti [A] tekur við upplýsingum frá lögmönnum sínum og/eða með hvaða hætti þeir upplýsa hann um stöðu málsins getur Innheimtustofnun sveitarfélaga ekki borið ábyrgð á. Byggir þetta á sömu sjónarmiðum og fram koma í codex ethicus, sbr. hér að neðan.

Í CODEX ETHICUS fyrir LÖGMANNAFÉLAG ÍSLANDS segir í 26. gr. „Lögmaður má ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.

Ef aðili, sem falið hefur mál sitt lögmanni, snýr sér sjálfur til lögmanns gagnaðila um það mál, skal lögmaður gagnaðila vísa aðila frá sér, nema brýnar ástæður bjóði annað. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni um það tilkynnt.“

Í bréfi þínu dags. 10. desember 2004 kemur fram að ekki hafi verið brugðist við bréfi [A] dags. 15. júlí 2004. Fram hefur komið að lögmanni [A] hafði þá þegar verið svarað og það ítrekað með tölvupósti. Þegar [A] sendi síðan bréf dags. 16. október 2004 var í kjölfarið haft samband við lögmann hans, en [A] hafði þá skipt um lögmann/lögmannsstofu. Þetta var gert þann 19. október 2004, þ.e. nánast strax og bréfið barst, sbr. tölvubókun sem þér hefur þegar verið send, sbr. bréf Innheimtustofnunar sveitarfélaga til Umboðsmanns Alþingis dags. 19. nóvember 2004, þar sem segir m.a. „Þann 19. október 2004 hringdi [lögfræðingur innheimtustofnunar] í [Y], hdl. sem gerði samkomulag um að áfram yrði dregið af [A] kr. 20.000,- á mánuði. Einnig varð niðurstaðan sú að [Y] hefði samband við IS ef á þyrfti að halda.“

Kjarni málsins er sá að [A] hefur lögmann/lögmenn sem fara með mál hans og hann sjálfur hefur vísað á í bréfum sínum. Innheimtustofnun sveitarfélaga telur sér hvorki rétt né skylt í ljósi þessa að svara einnig [A] beint og sniðganga með því lögmann/lögmenn hans.“

Rétt er að geta þess að í kjölfar þessa bárust mér afrit af allmörgum bréfum A til Innheimtustofnunar sveitarfélaga vegna málsins. Þá hafa mér verið send afrit af svarbréfum innheimtustofnunar til lögmanns A, Y, hdl., sem og tilkynningu til hans sjálfs, í einu tilviki, um slíkt bréf.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1.

Það er óskráð meginregla stjórnsýsluréttar, sem m.a. er orðuð í athugasemdum greinargerðar við 20. gr. í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 að hver sá, sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald eigi almennt rétt á að fá skriflegt svar nema svars sé ekki vænst. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3300.) Við mat á því hvert eigi að vera efni þeirra svara sem stjórnvöld veita þegar þeim berst erindi frá aðila máls kann stjórnvaldið að þurfa að horfa til þeirra skyldna sem leiða af leiðbeiningarreglu 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga og eftir atvikum óskráðum reglum um leiðbeiningarskyldu. Þá hvílir almenn leiðbeiningarskylda á opinberum starfsmönnum á grundvelli 2. mgr. 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, þar sem segir að starfsmanni sé skylt að veita þeim sem til hans leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar, þar á meðal að benda þeim á það, ef svo ber undir, hvert þeir skuli leita með erindi sín.

Inntak leiðbeiningarskyldu stjórnvalda er ekki afmarkað nákvæmlega en hún felur í sér að veita ber einstaklingi þær leiðbeiningar sem nauðsynlegar eru til þess að hann geti gætt hagsmuna sinna á sem bestan hátt. Við mat á því hvað nauðsynlegt er í þessu efni kann stjórnvaldið m.a. að þurfa að taka mið af persónulegum aðstæðum viðkomandi einstaklings, til dæmis þegar um er að ræða útlending sem ekki skilur íslensku og hefur takmarkaða þekkingu á íslensku samfélagi. Í leiðbeiningarskyldunni felst m.a. að ef stjórnvaldi má vera ljóst að aðili hefur misskilið réttarreglur eða ákvarðanir sem teknar hafa verið í máli hans og hafa áhrif á réttarstöðu hans gagnvart viðkomandi stjórnvaldi, eða hefur að öðru leyti bersýnilega þörf fyrir leiðbeiningar, ber stjórnvaldi að veita honum viðeigandi leiðbeiningar. Í tilvikum þar sem einstaklingur nýtur aðstoðar sérfróðs aðila, s.s. lögmanns, við hagsmunagæslu sína og stjórnvaldinu er um það kunnugt kann þó að vera að leiðbeiningarskyldan sé ekki jafnrík og ella. (Sjá hér til hliðsjónar, Hans Gammeltoft-Hansen o.fl.: Forvaltningsret, Kaupmannahöfn 2002, bls. 382.)

2.

Í máli þessu reynir á það álitaefni hvort og þá hvaða áhrif það hefur á skyldur stjórnvalds í samskiptum við aðila máls að aðilinn hefur notið aðstoðar lögmanns. Um það efni tek ég fram að almennt hefur verið gengið út frá því að einstaklingar og lögaðilar eigi rétt á að njóta aðstoðar lögmanns í samskiptum við stjórnvöld enda hafi löggjafinn ekki fjallað um slík atriði í lagareglum á einstökum sviðum. Á hinn bóginn verður að hafa í huga að þrátt fyrir aðkomu lögmanns að máli á stjórnsýslustigi beinast lögmæltar skyldur stjórnvalda fyrst og fremst að málsaðilanum enda þótt aðkoma lögmanns geti, að virtu umfangi og efni þess umboðs sem hann hefur frá skjólstæðingi sínum, haft þar tiltekin réttaráhrif. Þá er ekki útilokað að stjórnvöld verði eftir atvikum í ljósi leiðbeiningarskyldunnar og óskráðra reglna stjórnsýsluréttar að gera viðhlítandi ráðstafanir ef sýnt þykir af gögnum máls og af samskiptum starfsmanna stjórnvaldsins við aðila máls að lögmaðurinn hefur t.d. ekki upplýst skjólstæðing sinn um breytingu á réttarstöðu hins síðarnefnda sem átt hefur sér stað í samskiptum lögmannsins og stjórnvalds.

Í fyrsta af bréfunum þremur er A sendi innheimtustofnun og mál þetta er sprottið af vísaði hann til lögmanns síns, X, hrl., um frekari upplýsingar og skýringar af sinni hálfu. Hafði hann einnig gert það í fyrri bréfum sínum til stofnunarinnar, sbr. bréf hans, dags. 11. júní, 16. september, 5. desember og 17. desember 2003, og hafði hann sent afrit af öllum þessum bréfum til lögmannsins. Hafði lögmaðurinn X einnig tilkynnt innheimtustofnun um að hann væri umboðsmaður A í bréfi, dags. 1. júlí 2003. Eins og fram er komið hafði X, hrl., f.h. A, í desember 2003 gert samkomulag við innheimtustofnun um lækkun mánaðarlegra greiðslna A og hafði lögmaðurinn þá sagst myndu upplýsa skjólstæðing sinn um samkomulagið. Þetta var áréttað í samtali lögfræðings innheimtustofnunar og lögmannsins í janúar 2004.

Af skýringum innheimtustofnunar til mín er ljóst að brugðist var við hinu fyrsta af framangreindum bréfum A, dags. 17. mars 2004, með því að senda X, hrl., tölvubréf þar sem ítrekuð var ósk um að hann upplýsti skjólstæðing sinn um stöðu mála. Með hliðsjón af þeirri forsögu málsins sem rakin er hér að ofan og samskiptum X, hrl., við innheimtustofnun vegna máls A tel ég að stofnuninni hafi verið rétt að álíta að lögmaðurinn kæmi fram fyrir hönd A vegna reksturs málsins. Ég álít því að viðbrögð innheimtustofnunar við bréfi A, dags. 17. mars 2004, hafi ekki verið óeðlileg. Ég tel þó, með hliðsjón af því að bréfið bar með sér að lögmaðurinn hefði ekki sinnt þeirri upplýsingagjöf gagnvart A sem samkomulag hafði orðið um og með vísan til þeirrar leiðbeiningarskyldu sem á innheimtustofnun hvíldi að lögum, að rétt hefði verið að stofnunin upplýsti A um þessi viðbrögð stofnunarinnar. Slíkt hefði einnig verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Hér verður líka að hafa í huga að í stjórnsýslurétti hefur verið byggt á því að leiki vafi á um það hversu víðtækt umboð aðili máls hefur veitt öðrum, þ.m.t. lögmanni sem umboðsmanni, til að koma fram fyrir sína hönd gagnvart stjórnvaldi, beri stjórnvaldinu að leita skýringa á því hjá aðila málsins, sbr. Páll Hreinsson: Aðstoðarmenn og umboðsmenn aðila stjórnsýslumáls, Afmælisrit, Þór Vilhjálmsson sjötugur, Reykjavík 2000, bls. 433.

Eins og fram er komið sendi A innheimtustofnun annað bréf, dags. 15. júlí 2004, þar sem hann gerði sömu athugasemdir við tilkynningu stofnunarinnar um skuldastöðu hans og mánaðarlegan afdrátt af launum og í því fyrra. Í bréfinu er ekki vísað til lögmanns A og ljóst að A sendi honum ekki afrit bréfsins, eins og hann hafði þó haft fyrir reglu með fyrri bréf sín til stofnunarinnar. Af lestri bréfsins mátti starfsmönnum innheimtustofnunar vera ljóst að A hafði enn ekki skilið efni samkomulags þess sem lögmaðurinn hafði gert fyrir hans hönd við stofnunina í desember 2003 og hvernig skuld hans við stofnunina var til komin. Þrátt fyrir þetta var bréfinu ekki svarað og virðast engar ráðstafanir hafa verið gerðar af hálfu innheimtustofnunar til að kanna hvort lögmaðurinn X hefði í raun sinnt þeirri upplýsingagjöf gagnvart A sem innheimtustofnun taldi hann hafa tekið að sér. Þriðja bréf A sem kvörtun hans beinist að er dagsett 16. október 2004 og er það skrifað í tilefni af tilkynningu innheimtustofnunar til hans, dags. 13. sama mánaðar. Í bréfinu vísaði A ekki til lögmanns síns, hvorki um upplýsingar né að svörum skyldi beint til hans. Þó mátti af bréfinu ráða að afrit þess hafði verið sent lögmönnunum Y, hdl., og Z, hrl. Bréfi A var ekki svarað heldur fólust viðbrögð innheimtustofnunar í því að hringja til Y, hdl.

Í ljósi efnis ofangreindra bréfa A, dags. 15. júlí 2004 og 16. október 2004, og með vísan til leiðbeiningarskyldunnar sem á Innheimtustofnun sveitarfélaga hvíldi að lögum og þeirrar óskráðu meginreglu, að stjórnvöldum beri að svara skriflega þeim erindum sem borgararnir beina til þeirra skriflega, tel ég að stofnuninni hafi borið að gera viðhlítandi ráðstafanir til að upplýsa A um fyrrgreint samkomulag frá desember 2003 og leiðbeina honum um réttarstöðu hans gagnvart stofnuninni. Fæ ég ekki séð að fyrri aðkoma lögmannsins og hlutverk hans í málarekstri A fram að því hafi getað leyst stofnunina alfarið undan þeirri skyldu að svara erindinu, enda var það sent beint til stofnunarinnar og bar m.a. með sér að Ahefði misskilið efni framangreinds samkomulags. Ég get því ekki fallist á þá afstöðu Innheimtustofnunar sveitarfélaga að með vísan til þess að A hafði notið aðstoðar lögmanns í samskiptum sínum við stofnunina hafi stofnuninni „hvorki [verið] rétt né skylt [...] að svara einnig [A] beint og sniðganga með því lögmann/lögmenn hans“, eins og segir í bréfi stofnunarinnar til mín, dags. 16. desember 2004. Vegna tilvísunar innheimtustofnunar í bréfi sínu til ákvæða í siðareglum lögmanna tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn, skal Lögmannafélag Íslands setja siðareglur fyrir lögmenn. Reglur þessar fjalla um skyldur lögmanna, m.a. gagnvart skjólstæðingum sínum, og samskipti þeirra við dómstóla sem og sín í milli. Ákvæði það sem innheimtustofnun vísar til í bréfi sínu til mín er að finna í IV. kafla reglnanna sem fjallar um samskipti lögmanna innbyrðis. Að mínu áliti verða þau ákvæði ekki yfirfærð á samskipti starfsmanns stjórnsýslunnar við lögmann aðila máls, jafnvel þótt starfsmaðurinn sé löglærður, á þann hátt að þær gangi án lagaheimildar framar lögbundnum skyldum stjórnvaldsins.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það niðurstaða mín að viðbrögð Innheimtustofnunar sveitarfélaga við bréfum A, dags. 15. júlí 2004 og 16. október 2004, hafi ekki fullnægt þeim lagaskyldum sem á henni hvíla varðandi svör við erindum sem henni berast og leiðbeiningarskyldu við meðlagsgreiðendur.

V. Niðurstaða.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að viðbrögð Innheimtustofnunar sveitarfélaga við bréfum A, dags. 17. mars, 15. júlí og 16. október 2004, hafi ekki fullnægt þeim lagaskyldum sem á stofnuninni hvíla varðandi svör við erindum sem henni berast og leiðbeiningarskyldu við meðlagsgreiðendur. Beini ég þeim tilmælum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga að hún sjái til þess að framangreindum erindum A verði svarað og honum leiðbeint um þau atriði sem þau beinast að. Þá beini ég þeim tilmælum til stofnunarinnar að í samskiptum hennar við meðlagsgreiðendur verði framvegis gætt þeirra sjónarmiða sem rakin eru í áliti þessu.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Í kjölfar álits míns bárust mér afrit bréfa Innheimtustofnunar sveitarfélaga til A, dags. 29. júní og 9. ágúst 2005, þar sem erindum þeim er urðu tilefni kvörtunar hans til mín var svarað og staða hans gagnvart stofnuninni skýrð. Ég ritaði innheimtustofnun bréf, dags. 6. febrúar 2006, þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um hvort þau almennu tilmæli sem ég beindi til stofnunarinnar í áliti mínu hefðu orðið henni tilefni til að grípa til einhverra tiltekinna ráðstafana og þá í hverju þær hafi falist. Í svarbréfi innheimtustofnunar, dags. 12. febrúar 2006, segir að stofnunin hafi tekið tilmælin til greina og muni framvegis gæta þess sérstaklega að bréfum frá einstaklingum sem virðast hafa misskilið eitthvað varðandi innheimtuna og starfsemi stofnunarinnar að öðru leyti verði svarað með sama hætti, þ.e. bréflega, auk hugsanlega annarra svara, t.d. með viðtölum á skrifstofu eða símleiðis. Þá segir að sérstaklega verði athugað að bréfum meðlagsskuldara sem hafa lögmann í sinni þjónustu verði svarað beint svari viðkomandi lögmaður ekki starfsmönnum innheimtustofnunar eða ef svar bendir til þess að meðlagsskuldari hafi ekki verið upplýstur um stöðu mála. Að lokum tekur stofnunin fram að þess verði gætt hér eftir sem hingað til að svara öllum erindum fljótt og vel.