Einkavæðing. Ábending til umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 4495/2005)

Í ágústmánuði 2005 barst umboðsmanni Alþingis bréflega ábending frá formönnum þingflokka Frjálslynda flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri - grænna um að ástæða kynni að vera til að umboðsmaður tæki til athugunar að eigin frumkvæði hæfi Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, til að taka þátt í sölumeðferð á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. til svonefnds S-hóps en umrædd sala fór fram á árinu 2002. Með bréfi, dags. 27. september 2005, tilkynnti umboðsmaður Alþingis bréfriturum að með tilliti til hlutverks og valdheimilda umboðsmanns og þeirra sjónarmiða sem fylgt hefði verið við ákvarðanir um hvaða mál umboðsmaður tæki til athugunar að eigin frumkvæði væri það niðurstaða hans að ekki væru eins og á stæði forsendur til þess að hann tæki það tiltekna atriði sem erindi þeirra hljóðaði um til athugunar sem frumkvæðismál.

Ofangreind ábending og fleiri sem umboðsmanni Alþingis bárust um sama leyti urðu honum tilefni til þess að huga nokkuð að álitaefnum sem lúta að reglum um framkvæmd sölu ríkisfyrirtækja og félaga í eigu ríkisins, þ.e. svonefndri einkavæðingu, og þá með tilliti til þess hvort tilefni væri til þess að hann tæki tiltekin atriði þeirra mála til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Ritaði umboðsmaður forsætisráðherra bréf þar sem hann óskaði eftir tilteknum upplýsingum frá ráðuneyti hans og tók fram að hann myndi á grundvelli þeirra taka ákvörðun um hvort tilefni væri til slíkrar athugunar. Í bréfi umboðsmanns kom fram að fyrirspurnir hans og hugsanleg athugun að eigin frumkvæði beindist ekki að einstökum ákvörðunum eða liðnum atvikum heldur að fyrirkomulagi þessara mála hjá stjórnvöldum til frambúðar.

Í svarbréfi forsætisráðuneytisins frá 18. október 2005 var því lýst að ráðuneytið hefði, á grundvelli samþykktar í ríkisstjórn, ákveðið að skipa starfshóp með fulltrúum fjögurra ráðuneyta sem skyldi, að höfðu samráði við framkvæmdanefnd um einkavæðingu, gera tillögur um hvort rétt sé að endurskoða verklagsreglur um útboð og sölu ríkisfyrirtækja frá 1996 í ljósi reynslunnar og eftir atvikum lögfesta þýðingarmestu reglurnar um sölu ríkiseigna sem gildandi reglur taka til. Í bréfi sem umboðsmaður ritaði forsætisráðherra 1. nóvember 2005 tók hann fram að þegar fram kæmu af hálfu stjórnvalda áform um að taka þau atriði sem fyrirspurnir umboðsmanns lytu að til nánari athugunar hefði umboðsmaður Alþingis almennt talið rétt að bíða með frekari afskipti af málinu þar til séð yrði hvernig þessi áform stjórnvalda gengju eftir. Tilkynnti umboðsmaður forsætisráðherra að með hliðsjón af þessu og því sem fram kæmi í svarbréfi ráðuneytisins hefði hann ákveðið að aðhafast ekki frekar að sinni vegna þeirra atriða sem tiltekin voru í fyrirspurnarbréfi hans frá 27. september 2005. Umboðsmaður óskaði jafnframt eftir að honum yrði fyrir lok árs 2005 gerð grein fyrir framvindu og stöðu málsins hjá þeim starfshópi sem ráðuneytið hefði ákveðið að skipa.

Bréf formanna þingflokka Frjálslynda flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna, dags. 22. júlí 2005, sem barst mér 2. ágúst sl., er svohljóðandi:

„Með vísun til 5. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis er hér með óskað eftir því að hann hafi frumkvæði að því að taka til athugunar hæfi Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra til að taka þátt í sölumeðferð á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum til svonefnds S-hóps.

Hjálögð fylgir til nánari skýringa álitsgerð hæstaréttarlögmannanna [X] og [Y] dags. 28. júní 2005. Þar er svarað spurningum sem undirrituð töldu óhjákvæmilegt að leita fræðilegra svara við eftir að ríkisendurskoðandi hafði skilað formanni fjárlaganefndar minnisblaði, dags. 13. júní sl.

Lögmennirnir telja í álitsgerð sinni að umboðsmaður Alþingis sé sá aðili, sem réttur er að lögum til að fjalla um hæfi ráðherrans í málinu en í álitsgerðinni segir: „Fallast má á það með Ríkisendurskoðun að það sé ekki hlutverk hennar að leysa úr hæfi eða vanhæfi stjórnvaldshafa. Lög standa almennt til þess að aðrir aðilar annist slík úrlausnarefni, einkum umboðsmaður Alþingis“. Vitnað er til skilgreiningar á hlutverki umboðsmanns í 2. gr. laga nr. 85/1997 en þar segir:

Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum þessum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.

Þá segir: „Úrlausn um hæfi stjórnsýsluhafa við sölu Búnaðarbankans fellur ótvírætt að hlutverki umboðsmanns eins og það er skilgreint í lögum“.

Undirrituðum er ljóst að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis skal bera kvörtun fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Umboðsmaður hefur þó heimild í 5. gr. til að ákveða að taka mál til meðferðar án tillits til þessara tímamarka. Eins og vitnað er til hér að framan og tekið er fram í minnisblaði ríkisendurskoðanda dags. 13. júní sl. eru spurningar um hæfi eða vanhæfi stjórnvaldshafa „lögfræðilegt álitaefni, sem löggjafinn hefur alls ekki ætlað Ríkisendurskoðun að leysa úr“. Því má segja að umfjöllun af hálfu þeirrar stofnunar Alþingis sem hefur eftirlit með framkvæmd fjárlaga og fjárhagsmálefnum ríkisins kalli beinlínis á umfjöllun þess aðila sem hefur í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkisins.

Telja undirrituð þetta lögfræðilega álitaefni þannig vaxið og samhengi þess slíkt að afar mikilvægt sé að umboðsmaður taki það til skoðunar. Jafnframt teljum við úrlausn þess skipta miklu til framtíðar um það hvernig æðstu handhafar framkvæmdarvalds skuli standa að stjórnvaldsákvörðunum. Því er þess eindregið óskað að umboðsmaður taki málið til meðferðar og gefi út álit sitt svo fljótt sem við verður komið.“

Í bréfi mínu til formanna þingflokka Frjálslynda flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna, dags. 27. september 2005, segir svo:

„Ég vísa til erindis yðar sem barst mér 2. ágúst sl. Þar er þess farið á leit að ég hafi frumkvæði að því á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að taka til athugunar hæfi Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, til að taka þátt í sölumeðferð á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum til svonefnds S-hóps en umrædd sala fór fram á árinu 2002. Með erindi yðar fylgdi til nánari skýringa álitsgerð tveggja hæstaréttarlögmanna sem tekin var saman að beiðni þingflokka Frjálslynda flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs. Þá fylgdi einnig minnisblað Ríkisendurskoðunar, dags. 13. júní 2005, um ofangreint málefni.

Um hlutverk og valdheimildir umboðsmanns Alþingis er fjallað í lögum nr. 85/1997. Af ákvæðum 2., 4. og 5. gr. laganna verður ráðið að umboðsmanni er einkum fengið það hlutverk að leysa úr kvörtunum sem honum berast frá borgurum sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af hálfu stjórnvalda í einstökum málum. Umboðsmaður getur við slíkar aðstæður lagt mat á alla þætti málsmeðferðar, m.a. um hvort þeir sem hafa tekið þátt í undirbúningi, meðferð eða ákvörðunartöku um málefni borgaranna hafi fullnægt skráðum og óskráðum reglum um hæfi starfsmanna stjórnsýslunnar. Með 5. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni að auki fengin víðtæk heimild til að taka mál til meðferðar að eigin frumkvæði. Almennt hefur sá skilningur verið lagður í þetta ákvæði í störfum umboðsmanns að frumkvæðisheimildinni verði ekki beinlínis beitt á grundvelli einstaklingsbundinnar kvörtunar enda þótt atriði sem þar kemur fram geti verið þess eðlis að umboðsmaður telji eftir atvikum ástæðu til að taka það, eða atriði því tengd, til athugunar að eigin frumkvæði. Umboðsmaður Alþingis hefur hins vegar að lögum óheft mat um hvort hann telur tilefni til þess að beita heimild 5. gr. laga nr. 85/1997 í tilteknu tilviki og getur aðdragandi máls og aðkoma annarra opinberra aðila á fyrri stigum haft þar áhrif. Ég minni á að samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmaður Alþingis í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi. Þá eru ekki í lagareglum um störf umboðsmanns Alþingis hliðstæðar heimildir og í lögum um Ríkisendurskoðun fyrir forsætisnefnd Alþingis til að beina að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna beiðnum um skýrslur til umboðsmanns Alþingis.

Eins og kunnugt er hefur það málefni sem erindi yðar beinist að verið til umfjöllunar í fjárlaganefnd Alþingis og þá í samræmi við þær heimildir til eftirlits með störfum framkvæmdarvaldsins sem nefndinni eru fengnar í stjórnarskrá og lögum. Á vettvangi nefndarinnar hefur Ríkisendurskoðun komið að málinu sem önnur tveggja lögbundinna eftirlitsstofnana Alþingis, sbr. lög nr. 86/1997, en hin er embætti umboðsmanns Alþingis. Í þessu sambandi hefur Ríkisendurskoðun þar að auki fjallað efnislega um það lögfræðilega álitaefni sem erindi yðar beinist að í minnisblaði sínu frá 13. júní sl. Ég bendi á að samkvæmt a-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns almennt ekki til Alþingis og stofnana þess og það fellur því utan eftirlitshlutverks umboðsmanns að fjalla um stjórnsýslu þeirra og úrlausnir einstakra mála.

Af ofangreindri forsögu þessa málefnis er ljóst að það hefur til þessa verið til umfjöllunar á vettvangi Alþingis og hlotið efnislega úrlausn af hálfu annarrar tveggja lögbundinna eftirlitsstofnana þess. Þá er erindi yðar sett fram af hálfu yðar sem þingflokksformanna þeirra stjórnmálaflokka sem að hluta eiga fulltrúa í fjárlaganefnd og komið hafa að málefni þessu á þeim vettvangi.

Ég hef í störfum mínum sem umboðsmaður Alþingis talið rétt að nýta heimild 5. gr. laga nr. 85/1997 og þar með starfskrafta mína og fjármuni til reksturs embættisins einkum til að taka upp að eigin frumkvæði mál sem hafa verulega almenna þýðingu og horfa til umbóta í stjórnsýslunni til framtíðar. Þetta hef ég valið að gera frekar en að taka til athugunar einstakar ákvarðanir eða afmörkuð mál sem ekki verður séð að stjórnvöld geti að lögum gert breytingar á eða fært til samræmis við þau tilmæli sem athugun mín kann að gefa tilefni til. Ég hef þá einnig haft í huga að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 skal bera kvörtun til umboðsmanns fram innan árs frá því stjórnsýslugerningur sá sem um ræðir var til lykta leiddur og er þessi regla til marks um það að umboðsmanni er almennt ekki ætlað að fjalla um mál sem stjórnvöld hafa leitt til lykta fyrir allnokkrum tíma.

Þegar mér hafa borist ábendingar af hliðstæðum toga og erindi yðar hljóðar um hef ég tekið þær til athugunar með tilliti til framangreindra sjónarmiða um hlutverk og valdheimildir umboðsmanns. Niðurstaða mín varðandi erindi yðar er að ekki séu eins og á stendur forsendur til þess að ég beiti þeirri heimild sem fram kemur í 5. gr. laga nr. 85/1997 til að taka til athugunar það tiltekna atriði sem erindi yðar beinist að. Er umfjöllun minni um það því lokið. Ég tek það hins vegar fram að ábending yðar og fleiri ábendingar sem mér hafa borist urðu mér tilefni til að huga nokkuð að álitaefnum sem lúta að reglum um framkvæmd á sölu ríkisfyrirtækja og félaga í eigu ríkisins, þ.e. svonefnda einkavæðingu, og þá með tilliti til þess hvort ástæða væri til þess að ég tæki tiltekin atriði þessara mála til athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Áður en ég tek frekari ákvarðanir um hvort tilefni sé til slíkrar athugunar að eigin frumkvæði hef ég ákveðið að rita forsætisráðherra bréf það sem hér fylgir í ljósriti og óska eftir tilteknum upplýsingum frá ráðuneyti hans. Ég tek það fram að þær ákvarðanir sem ég kann að taka að fengnu svari forsætisráðherra lúta ekki beint að þeim atvikum sem um er fjallað í erindi yðar og ég mun því ekki kynna yður sérstaklega svör þau sem mér kunna að berast við fyrirspurnum mínum eða hvaða ákvarðanir ég mun taka.“

Bréf mitt til Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, dags. 27. september 2005, er svohljóðandi:

„Ábendingar sem mér hafa borist á nýliðnu sumri og lúta að framkvæmd á sölu ríkisfyrirtækja og félaga í eigu ríkisins, þ.e. svonefndri einkavæðingu, og þá sérstaklega beitingu reglna um sérstakt hæfi þeirra sem koma að undirbúningi og töku slíkra ákvarðana af hálfu stjórnvalda, hafa orðið mér tilefni til að huga nokkuð að þessum málum og þá með tilliti til þess hvort ástæða væri til að ég tæki tiltekin atriði til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég hef því ákveðið að óska eftir upplýsingum, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um þau atriði sem að neðan greinir áður en ég tek frekari ákvarðanir um hvort tilefni sé til þess að ég fjalli um þessi atriði á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Ég tek það fram að þessar fyrirspurnir mínar og hugsanleg frumkvæðisathugun mín beinist ekki að einstökum ákvörðunum eða liðnum atvikum heldur að fyrirkomulagi þessara mála hjá stjórnvöldum til frambúðar.

Það er ósk mín að ráðuneyti yðar, hr. forsætisráðherra, láti mér í té upplýsingar um eftirfarandi:

a) Samkvæmt upplýsingum sem birtar eru á heimasíðu forsætisráðuneytisins samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum 9. febrúar 1996 verklagsreglur um framkvæmd einkavæðingar. Þar kemur fram að yfirstjórn einkavæðingar sé í höndum ríkisstjórnarinnar og fjögurra manna ráðherranefndar á hennar vegum. Þá er þar kveðið á um að framkvæmdanefnd um einkavæðingu starfi á vegum ráðherranefndarinnar og annist undirbúning og samræmingu verkefna á sviði einkavæðingar. Almenn lög eða stjórnvaldsfyrirmæli, sett með heimild í lögum, um undirbúning og töku ákvarðana um framkvæmd einkavæðingar, og þar með hverjir skuli koma að þeim ákvörðunum og um valdheimildir þeirra umfram þann ráðherra sem fer með viðkomandi eign ríkisins og ráðuneyti hans, hafa ekki verið sett. Ríkisendurskoðun sem auk umboðsmanns Alþingis er að lögum ætlað það hlutverk að hafa eftirlit með stjórnsýslunni hefur í umfjöllun sinni um framkvæmd einkavæðingar meðal annars fjallað um síðastnefnda atriðið og í minnisblaði Ríkisendurskoðunar til formanns fjárlaganefndar, dags. 13. júní sl., segir meðal annars:

„Með vísan til þess sem að framan er rakið er lögformleg staða bæði ráðherranefndar og Framkvæmdanefndar um einkavæðingu óljós að mati Ríkisendurskoðunar þegar grannt er skoðað. Hefur stofnunin áður gert þetta að umfjöllunarefni og hvatt til þess að verklagsreglurnar verði endurskoðaðar og jafnvel lögfestar, sbr. t.d. skýrsla stofnunarinnar um sölu á fjórðungshlut ríkisins í Landsbankanum frá í okt. 2002.“

Af þessu tilefni beini ég þeirri fyrirspurn til ráðuneytisins hvort af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi verið tekin afstaða til ofangreindra ábendinga Ríkisendurskoðunar og þá hvort áform séu uppi um að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga sem hafi að geyma almennar reglur um undirbúning og töku ákvarðana við framkvæmd þeirra verkefna sem felld verða undir svonefnda einkavæðingu.

b) Eins og gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er afmarkað taka þau ekki til þeirra ákvarðana stjórnvalda sem teljast einkaréttar eðlis. Í athugasemdum við frumvarp til laganna segir að þar megi nefna kaup á vörum og þjónustu, þar með talda samninga við verktaka. Hins vegar er tekið fram í 3. mgr. 1. gr. laganna að II. kafli þeirra um sérstakt hæfi gildi einnig um gerð samninga einkaréttar eðlis sem gerðir eru af stjórnsýslu ríkisins. Álitaefni tengd því hvaða ákvarðanir teljist einkaréttar eðlis í þessu sambandi og þá m.a. í hvaða mæli reglur stjórnsýsluréttarins, skráðar og óskráðar, eigi við um undirbúning og ákvarðanir stjórnvalda sem lúta að kaupum og sölu fasteigna og annarra eigna, vara og þjónustu hafa á síðustu árum í nokkrum tilvikum komið til umfjöllunar hjá dómstólum og umboðsmanni Alþingis. Má þar sem dæmi nefna dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 407/1999 og álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 4095/2004, 3712/2003 og 3163/2001.

Hér þarf einnig sérstaklega að hafa í huga að við undirbúning hinnar endanlegu sölu kunna að vera teknar ákvarðanir sem samkvæmt eðli sínu lúta reglum stjórnsýsluréttarins, og þá reglum stjórnsýslulaga, svo sem um val á milli þeirra sem skulu koma til greina við frekari sölumeðferð viðkomandi eigna ríkisins, sjá t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3712/2003. Jafnframt vek ég athygli á umfjöllun Páls Hreinssonar í ritinu Hæfisreglur stjórnsýslulaga, Reykjavík 2005, bls. 193 og áfram, um það hvaða réttarreglur stjórnsýsluréttarins virðist almennt vera taldar gilda um alla samninga sem stjórnvöld gera.

Verklagsreglur um framkvæmd einkavæðingar voru eins og áður sagði samþykktar af ríkisstjórn í febrúar 1996. Það með hvaða hætti dómstólar og eftirlitsaðilar með störfum stjórnsýslunnar telja að reglur stjórnsýsluréttarins eigi við um meðferð mála sem falla undir verklagsreglurnar kann því að hafa skýrst eftir að reglurnar voru settar. Þá er til þess að líta að eftir að þær voru samþykktar hafa verið tekin í lög ýmis ákvæði um starfshætti stjórnsýslunnar sem ástæða kann að vera til að huga betur að með tilliti til þess hvort og þá með hvaða hætti þau taki til undirbúnings og ákvarðana á sviði svonefndrar einkavæðingar ríkisins. Ég nefni hér upplýsingalög nr. 50/1996 sem tóku gildi 1. janúar 1997, lög um fjárreiður ríkisins nr. 88/1997 sem tóku gildi 6. júní 1997 og lög um opinber innkaup nr. 94/2001 sem tóku gildi 15. júní 2001.

Með tilliti til framangreinds óska ég eftir upplýsingum um hvort af hálfu ríkisstjórnarinnar séu uppi áform um að endurskoða efni þeirra reglna sem gilda um framkvæmd einkavæðingar, þ.e. um útboð og sölu ríkisfyrirtækja, þannig að staða einstakra aðila, þ.m.t. nefnda, sem koma að umræddum ákvörðunum verði gerð skýrari og einnig það hvernig reglur stjórnsýsluréttarins eigi við um störf þeirra. Ég hef þá í huga að umrædd atriði verði þannig betur ljós bæði þeim sem sinna þessum verkefnum af hálfu ríkisins og almenningi.

c) Ákvæði II. kafla stjórnsýslulaganna um sérstakt hæfi gilda eins og áður sagði um gerð samninga einkaréttar eðlis af hálfu ríkisins. Sá sem er vanhæfur til meðferðar máls má samkvæmt 4. gr. laganna ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess. Í 5. gr. laganna segir að starfsmaður eða nefndarmaður, þ.e. sá sem kemur að málinu af hálfu stjórnvalda, sem veit um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans skuli án tafar vekja athygli yfirmanns stofnunar eða formanns stjórnsýslunefndar á þeim. Sérstakar reglur eru í lögunum um töku ákvörðunar um hvort starfsmaður eða nefndarmaður skuli víkja vegna vanhæfis.

Af fyrirliggjandi gögnum um framkvæmd þeirrar einkavæðingar sem þegar hefur farið fram er ljóst að fjölmargir einstaklingar kunna að koma að undirbúningi og töku ákvarðana um sölu þessara eigna, svo sem starfsmenn ráðuneyta og viðkomandi fyrirtækja, ráðgjafar og sérfræðingar, starfsmenn og nefndarmenn í framkvæmdanefnd um einkavæðingu og ráðherrar.

Ég óska því eftir upplýsingum um hvort fylgt hafi verið einhverjum ákveðnum reglum eða verklagi við upplýsingagjöf af hálfu þeirra sem komið hafa að undirbúningi og töku ákvarðana á sviði hinnar svonefndu einkavæðingar um hugsanlegar vanhæfisástæður. Hafi ekki verið fylgt ákveðnu verklagi við slíka upplýsingagjöf og það hvernig tekin hefur verið afstaða til slíkra upplýsinga óska ég eftir upplýsingum um viðhorf forsætisráðuneytisins til þess að slíku verklagi verði komið á og jafnframt hvort ástæða sé til að það verði undirstrikað í settum reglum um framkvæmd þessara mála að ákvæði II. kafla stjórnsýslulaganna gildi í þessu efni um sérstakt hæfi. Ég óska jafnframt eftir viðhorfi ráðuneytisins til þess hvort það gæti verið til glöggvunar fyrir þá sem koma að umræddum verkefnum fyrir hönd ríkisins ef í reglunum kæmu fram einhverjar lágmarksviðmiðanir og að hverju slík upplýsingagjöf eigi að beinast.

d) Í skipunarbréfi framkvæmdanefndar um einkavæðingu frá 14. febrúar 1996 sagði meðal annars að það væri hlutverk einkavæðingarnefndar að annast samræmingu og umsjón einkavæðingar ríkisfyrirtækja þ.m.t. sölu eignarhluta ríkisins í félögum. Ég óska því eftir upplýsingum um hvort teknar hafi verið ákvarðanir um að bjóða til sölu á næstunni eignarhluta ríkisins í einhverjum félögum eða rekstrareiningar sem starfræktar eru á vegum ríkisins og þá jafnframt hvort gerð hafi verið úttekt á því af hálfu ríkisstjórnar eða framkvæmdanefndar um einkavæðingu hvaða eignarhluti ríkisins í félögum geti komið til greina að fara með á sama hátt og gert hefur verið við umrædda einkavæðingu. Ég tek það fram að þessi fyrirspurn mín er sett fram til að leggja mat á nauðsyn þess að nú fari fram endurskoðun þeirra reglna sem fylgt hefur verið eða að nýjar reglur verði settar og þá hugsanlega með lögum.

Það er ósk mín að svör við framangreindum fyrirspurnum verði send mér eigi síðar en 28. október nk.

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum fyrir skömmu um eina þeirra ábendinga sem ég gat um í upphafi þessa bréfs tel ég rétt að kynna yður að ég hef í dag sent hlutaðeigendum bréf það sem hér fylgir í ljósriti.“

Bréf forsætisráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis, dags. 18. október 2005, er svohljóðandi:

„Vísað er til bréfs yðar dags. 27. f m. Þar óskið þér eftir upplýsingum frá forsætisráðuneytinu sem varða fyrirkomulag sölu ríkisfyrirtækja og félaga í eigu ríkisins til frambúðar. Fylgja svör ráðuneytisins hér á eftir:

a) Tæp tíu ár eru nú liðin síðan núgildandi verklagsreglur um útboð og sölu ríkisfyrirtækja voru settar. Að undanförnu hefur á vegum forsætisráðuneytisins farið fram skoðun á því hvort ástæða sé til þess að endurskoða verklagsreglurnar í ljósi reynslunnar. Segja má að nú skapist til þess ráðrúm þegar farsællega er lokið umfangsmikilli einkavæðingu Landssíma Íslands hf. og ekki hafa verið teknar ákvarðanir um frekari sölu ríkiseigna. Hið almenna lagaumhverfi stjórnsýslunnar hefur einnig breyst mikið á undanförnum árum, sbr. setningu upplýsingalaga nr. 50/1996, sem og lagaleg umgjörð um fárreiður ríkisins og opinber innkaup, sbr. lög um fjárreiður ríkisins nr. 88/1997 og lög um opinber innkaup nr. 94/2001.

Hefur ráðuneytið því, á grundvelli samþykktar í ríkisstjórn, ákveðið að skipa starfshóp með fulltrúum forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis sem geri að höfðu samráði við framkvæmdanefnd um einkavæðingu tillögur um hvort rétt sé að endurskoða verklagsreglurnar frá 1996 í ljósi reynslunnar og eftir atvikum lögfesta þýðingarmestu reglurnar um sölu ríkiseigna sem gildandi reglur taka til. Kemur í því efni til greina að skipa meginreglum á þessu sviði í sjálfstæðan kafla í lög um opinber innkaup nr. 94/2001.

b) Forsætisráðuneytið telur að við fyrrnefnda endurskoðun verklagsreglnanna sé rétt að meta einnig hvort gera beri stöðu þeirra aðila sem koma að sölu ríkiseigna, þ.m.t. nefnda, embættismanna, ráðgjafa, sérfræðinga og umsýsluaðila, skýrari og hvort taka þurfi betur fram með hvaða hætti reglur stjórnsýsluréttarins eigi við um störf þeirra.

c) Við upplýsingagjöf af hálfu þeirra sem komið hafa að undirbúningi og töku ákvarðana á grundvelli fyrrnefndra verklagsreglna hefur verið fylgt meginreglum stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga. Komið hefur fyrir að einstakir aðilar sem ætlað var að koma að söluferlinu hafi ekki tekið þátt í einstökum sölumálum af þeim sökum. Hæfi aðila með vísan til stjórnsýslulaga og reglna stjórnsýsluréttarins hefur því komið til umfjöllunar innan framkvæmdanefndar um einkavæðingu af ýmsum tilefnum. Af hálfu nefndarinnar hefur þess verið gætt, svo sem kostur hefur verið á, að allir sem að málum koma væru hæfir til þátttöku í meðferð mála samkvæmt grunnreglum stjórnsýsluréttar. Í störfum framkvæmdanefndar um einkavæðingu hefur verið gengið út frá því að almennar reglur stjórnsýsluréttarins gildi eins og þær birtast í II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/ 1993.

Forsætisráðuneytið telur að við fyrrnefnda endurskoðun verklagsreglnanna sé rétt að meta einnig hvort ástæða sé til að útfæra nánar á þessu sviði hinar almennu reglur stjórnsýsluréttarins.

d) Eins og fyrr segir, hafa engar ákvarðanir verið teknar um frekari sölu ríkiseigna á grundvelli verklagsreglnanna. Hins vegar fer nú fram af hálfu framkvæmdanefndar um einkavæðingu samantekt á eignarhlutum ríkisins í einstökum fyrirtækjum, félögum, sjóðum og stofnunum. Ef til vill þykir skynsamlegt út frá samkeppnissjónarmiðum og hagsmunum almennings og ríkisins að kanna betur hvort losa megi þar til frambúðar um eignarhald ríkisins að hluta til eða að fullu. Ljóst er að þegar til lengri tíma er litið verður að teljast sennilegt að sala ríkisfyrirtækja og félaga í samkeppnisrekstri haldi áfram sem og sala á eignarhlutum ríkisins í einstökum félögum. Slíkt er hins vegar háð vilja Alþingis og ríkisstjórna á hverjum tíma.“

Bréf mitt til forsætisráðherra, 1. nóvember 2005, er svohljóðandi:

„Ég vísa til bréfs sem ég ritaði yður, hr. forsætisráðherra, dags. 27. september sl., þar sem óskaði eftir upplýsingum ráðuneytis yðar um ákveðin atriði við framkvæmd á sölu ríkisfyrirtækja og félaga í eigu ríkisins, þ.e. svonefndri einkavæðingu, og þá sérstaklega beitingu reglna um sérstakt hæfi þeirra sem koma að undirbúningi og töku slíkra ákvarðana af hálfu stjórnvalda. Lutu fyrirspurnir mínar einkum að því hvort uppi væru áform af hálfu ríkisstjórnarinnar um að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga sem hafi að geyma almennar reglur um undirbúning og töku ákvarðana við framkvæmd þeirra verkefna sem felld verða undir svonefnda einkavæðingu og um hugsanlega endurskoðun á verklagsreglum um framkvæmd einkavæðingar sem samþykktar voru í ríkisstjórn í febrúar 1996. Þá vakti ég máls á álitaefnum á sviði stjórnsýsluréttar sem tengjast þessu málefni og spurðist fyrir um hvort teknar hefðu verið ákvarðanir um að bjóða til sölu á næstunni eignarhluta ríkisins í einhverjum félögum eða rekstrareiningar sem starfræktar eru á vegum ríkisins.

Svarbréf ráðuneytis yðar barst mér 18. október sl. Ég hef nú farið yfir þau svör sem þar koma fram með tilliti til fyrirspurna minna. Í bréfinu er því lýst að ríkisstjórnin hafi ákveðið að skipa starfshóp með fulltrúum fjögurra ráðuneyta sem geri, að höfðu samráði við framkvæmdanefnd um einkavæðingu, tillögur um hvort rétt sé að endurskoða verklagsreglurnar frá 1996 í ljósi reynslunnar og eftir atvikum lögfesta þýðingarmestu reglurnar um sölu ríkiseigna sem gildandi reglur taka til. Tekið er fram að í því efni komi til greina að skipa meginreglum á þessu sviði í sjálfstæðan kafla í lög um opinber innkaup nr. 94/2001. Ég ræð það af svari ráðuneytisins að ætlunin sé að huga nánar að þeim málum sem fyrirspurn mín beindist að og þar með álitaefnum sem tengjast samspili meðferðar mála og ákvarðana við sölu ríkiseigna og þeirrar lagaþróunar sem orðið hefur á síðustu árum á sviði stjórnsýsluréttar. Jafnframt kemur fram í svarbréfinu að eins og er hafi engar ákvarðanir verið teknar um frekari sölu ríkiseigna á grundvelli verklagsreglnanna en af hálfu framkvæmdanefndar um einkavæðingu fari nú fram samantekt á eignarhlutum ríkisins í einstökum fyrirtækjum, félögum, sjóðum og stofnunum.

Í bréfi mínu tók ég fram að fyrirspurnir mínar væru bornar fram til undirbúnings þess að ég tæki ákvörðun um hvort tilefni væri til umfjöllunar af minni hálfu á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, um hin tilgreindu atriði. Í þeim tilvikum þegar fram hafa komið af hálfu stjórnvalda, við slíkan undirbúning, áform þeirra um að taka þau atriði sem fyrirspurnir umboðsmanns hafa beinst að til nánari athugunar og þá þannig að ráðið verður að ætlunin sé að taka afstöðu til þess hvort þörf sé á endurskoðun umræddra reglna eða starfshátta hefur umboðsmaður Alþingis almennt talið rétt að bíða með frekari afskipti af málinu þar til séð verður hvernig þessi áform stjórnvalda ganga eftir. Er þetta byggt á því að af lögum um umboðsmann Alþingis verði ráðið að honum sé að jafnaði ekki ætlað að hafa afskipti af málum sem enn eru til meðferðar hjá stjórnvöldum og þau hafa ekki ráðið endanlega til lykta. Í þessum tilvikum hefur umboðsmaður þá fylgst með því að áform stjórnvalda gangi eftir og tekið viðkomandi mál upp að nýju ef honum þykir á skorta í því efni. Í samræmi við þessa starfsvenju hef ég ákveðið að aðhafast ekki frekar að sinni vegna þeirra atriða sem tiltekin voru í fyrirspurnarbréfi mínu frá 27. september sl. en ég óska eftir að mér verði fyrir lok þessa árs gerð grein fyrir framvindu og stöðu málsins hjá þeim starfshópi sem ráðuneytið hefur ákveðið að skipa og lýst var hér að framan.“