Skattar og gjöld. Gjald fyrir útskrift úr ökutækjaskrá. Lögmætisreglan.

(Mál nr. 4189/2004)

A ehf. kvartaði yfir gjaldtöku Umferðarstofu fyrir rafrænar uppflettingar í ökutækjaskrá. Beindist kvörtunin að 700 kr. gjaldi sem Umferðarstofa innheimti fyrir hverja útskrift eftir kennitölu. A ehf. hélt því fram að gjaldið væri ekki í neinu samræmi við þann kostnað sem Umferðarstofa hefði af þeirri þjónustu sem fælist í aðgangi að skránni. Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins kom fram að gjaldið hefði að mestu leyti farið í að standa straum af kostnaði við breytingar á tölvukerfi skráningar ökutækja er miðuðu að því að koma til móts við kröfur Persónuverndar vegna aðgangs að rafrænum uppflettingum í ökutækjaskrá út frá kennitölum. Enn fremur hefði fallið til kostnaður vegna eftirlits Umferðarstofu með lögmætri notkun aðgangs að kennitöluuppflettingum í ökutækjaskrá.

Umboðsmaður rakti ákvæði 114. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem fjallar um gjöld sem renna til Umferðarstofu. Benti hann á að samkvæmt f-lið 1. mgr. greinarinnar rynnu til stofunnar „önnur gjöld sem Umferðarstofa innheimtir samkvæmt gjaldskrá sem staðfest er af ráðherra“. Á grundvelli ákvæðisins hefði verið sett gjaldskrá, nr. 681/2002, um þá þjónustu sem stofan veitir og hefði hún verið staðfest af dóms- og kirkjumálaráðherra. Umboðsmaður vakti athygli á að eftir að gjaldskráin var gefin út hafi samgönguráðherra tekið við stjórnarfarslegri ábyrgð á eftirliti með framkvæmd umferðarlaga og yfirstjórn Umferðarstofu af dóms- og kirkjumálaráðherra.

Umboðsmaður tók fram að athugun hans á kvörtun A ehf. hefði í fyrsta lagi beinst að því hvort Umferðarstofa hefði að lögum næga heimild til töku gjalds fyrir rafræna uppflettingu í ökutækjaskrá og þá hvort lagður hefði verið nægur grundvöllur að gjaldinu með traustum reikningslegum forsendum. Í öðru lagi hefði hann talið ástæðu til að fjalla um hvort þau sjónarmið og kostnaðarliðir, sem haldið hefði verið fram að hafi legið til grundvallar gjaldtökunni, ættu sér næga stoð í lögum.

Umboðsmaður fjallaði fyrst um lagagrundvöll gjaldsins. Vék hann að þeim breytingum á 114. gr. umferðarlaga sem gerðar voru með lögum nr. 83/2002 og forsögu þeirra. Með vísan til þessa sem og hlutverks Umferðarstofu taldi umboðsmaður sig ekki geta fullyrt annað en að stofan hefði að lögum heimild til að innheimta gjald fyrir þá þjónustu sem fælist í því að miðla upplýsingum um eigendur bifreiða, m.a. með rafrænni uppflettingu eftir kennitölu í ökutækjaskrá, sem stofunni væri að lögum falið að halda, enda væri mælt fyrir um slíkt gjald í gjaldskrá sem ráðherra staðfesti, sbr. 114. gr. umferðarlaga.

Umboðsmaður tók fram að með hliðsjón af orðalagi f-liðar 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga og athugasemdum lögskýringargagna teldi hann ekki heimilt að byggja ákvörðun um fjárhæð þeirra gjalda sem ákvæðið heimilaði innheimtu á á sjónarmiðum um almenna tekjuöflun. Gjald fyrir miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá eftir kennitölu mætti því ekki vera hærra en sem næmi þeim kostnaði sem almennt hlytist af því að veita þá þjónustu sem gjaldtökuheimild ákvæðisins næði til. Benti umboðsmaður á að þegar stjórnvaldi væri veitt heimild til töku þjónustugjalds gerði hún eðli málsins samkvæmt ráð fyrir því að vandaður og traustur kostnaðarútreikningur færi fram af hálfu stjórnvaldsins áður en fjárhæðir væru ákveðnar í gjaldskrá. Eftir athugun á fyrirliggjandi gögnum og skýringum ráðuneytisins komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að á það hefði skort við ákvörðun umrædds gjalds að gerð hefði verið reikningsleg úttekt á þeim kostnaðarliðum sem heimilt væri að leggja til grundvallar við útreikning þess. Taldi hann því að ákvörðun gjaldsins hefði ekki verið byggð á nægilega traustum reikningslegum grunni. Þá taldi umboðsmaður að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði við staðfestingu gjaldskrár nr. 681/2002 ekki sinnt með viðhlítandi hætti þeirri eftirlitsskyldu er leiddi af staðfestingarhlutverki þess samkvæmt ákvæði f-liðar 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga. Það var ennfremur niðurstaða umboðsmanns að ekki hefði verið sýnt fram á að heimilt hefði verið skv. ákvæðinu að telja stofnkostnað, sem hlaust af þeirri ákvörðun Umferðarstofu að gera rafræna uppflettingu í ökutækjaskrá eftir kennitölu eigenda mögulega, til kostnaðar við að veita þjónustuna í hverju tilviki.

Umboðsmaður rakti að í umsögn Umferðarstofu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í september 2004 kæmi fram að stofan teldi að svigrúm hefði myndast til að endurskoða gjaldtökuna og legði hún til að gjaldið yrði lækkað. Tók umboðsmaður fram að eftir því sem best yrði séð hefðu ekki enn, einu ári síðar, verið gerðar breytingar á gjaldskránni í samræmi við tillögur Umferðarstofu. Taldi umboðsmaður það ámælisvert og ekki í samræmi við þau lagasjónarmið sem búa að baki heimildum til töku þjónustugjalda að draga það svo lengi sem raunin væri í þessu máli að endurskoða fjárhæð umrædds gjalds. Beindi hann þeim tilmælum til samgönguráðuneytisins að það gerði reka að því að viðkomandi ákvæði gjaldskrárinnar yrði tekið til endurskoðunar og að þá yrði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu. Umboðsmaður beindi einnig þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það hagaði framvegis undirbúningi og málsmeðferð við staðfestingu gjaldskráa og annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla, sem ráðuneytinu væri að lögum falið að hafa með höndum, með þeim hætti sem lýst væri í álitinu og að það gætti þá að því að staðfestingin fæli í sér raunhæft og virkt eftirlit með lögmæti stjórnvaldsfyrirmælanna. Umboðsmaður tók fram að eins og atvikum væri háttað teldi hann sig ekki hafa forsendur til að fjalla um hvort og þá hvaða afleiðingar fyrirliggjandi annmarkar á formlegum grundvelli umræddrar gjaldtöku kynnu að hafa að lögum og þar með um hugsanlega endurgreiðslu þess sem kynni að hafa verið oftekið.

I. Kvörtun.

Hinn 26. ágúst 2004 leitaði til mín B, hæstaréttarlögmaður, f.h. A ehf., og kvartaði yfir gjaldtöku Umferðarstofu vegna uppflettingar í ökutækjaskrá. Beinast athugasemdir félagsins að gjaldi því er Umferðarstofa innheimtir fyrir hverja útskrift úr ökutækjaskrá eftir kennitölu samkvæmt gjaldskrá Umferðarstofu nr. 681/2002. Gjaldskráin var staðfest af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 26. september 2002, en í c-lið 7. gr. hennar var mælt fyrir um að fyrir hverja útskrift eftir kennitölu skyldi greiða gjald að fjárhæð 700 kr.

Í kvörtuninni er því haldið fram að gjaldið samkvæmt gjaldskránni hafi ekki verið í „nokkru samræmi við þann kostnað sem Umferðarstofa hefur af þeirri þjónustu, sem felst í aðgangi að skránni“. Er rakið að A ehf. hafi, eins og fjöldi lögfræðistofa auk annarra, aðgang að ökutækjaskrá m.a. í þeim tilgangi að kanna bifreiðaeign áður en fjárnám er reynt hjá skuldurum. Aðgangur að skránni hafi áður verið hjá Skýrr hf. og fyrir hverja athugun hafi verið greiddar 13-14 krónur. Umferðarstofa hafi síðan lokað fyrir aðgang Skýrr hf. að skránni og selt aðgang að henni og tekið 700 krónur fyrir hverja athugun samkvæmt gjaldskrá nr. 681/2002. Til frekari skýringa er tekið fram í kvörtuninni að A ehf. sé með tölvutengingu við ökutækjaskrá þannig að starfsfólk Umferðarstofu þurfi ekki að leggja fram vinnu né aðra fyrirhöfn við uppflettingar félagsins í skránni.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 25. nóvember 2005.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, dags. 31. ágúst 2004, þar sem ég kynnti ráðuneytinu kvörtun A ehf. Rakti ég í bréfi mínu að í 9. gr. gjaldskrár Umferðarstofu nr. 681/2002 kæmi fram að hún væri sett á grundvelli 64. og 114. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum. Um þau ákvæði sagði svo í bréfi mínu:

„Í 64. gr. umferðarlaga er mælt fyrir um að ráðherra setji reglur um skráningu ökutækja og eigenda þeirra, tilkynningu eigendaskipta, skráningarmerki, skráningarskírteini, sem ávallt skuli fylgja ökutækinu, tímabundinn akstur skráningarskyldra ökutækja án skráningar, gjald fyrir viðurkenningu á gerð ökutækja og búnaði þeirra, og gjald fyrir skráningu og skráningarmerki. Í f-lið 114. gr. sömu laga segir enn fremur að til Umferðarstofu renni „önnur gjöld sem Umferðarstofa innheimtir samkvæmt gjaldskrá sem staðfest er af ráðherra“.

Með hliðsjón af framangreindu óska ég eftir því að ráðuneytið afhendi mér þau gögn sem kunna að hafa legið fyrir við staðfestingu umræddrar gjaldskrár og lýsi viðhorfi sínu til kvörtunarinnar, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Er þess sérstaklega óskað að ráðuneytið lýsi afstöðu sinni til lagagrundvallar gjaldsins. Jafnframt óska ég eftir því að upplýst verði með hvaða hætti ráðuneytið kannaði þær fjárhæðir og þá útreikninga sem lágu til grundvallar ákvörðun fjárhæðar þess gjalds sem kvörtun [A] ehf. beinist að áður en gjaldskráin var staðfest, og þá með tilliti til þeirra almennu reglna sem að stjórnsýslurétti eru taldar gilda um þjónustugjöld.“

Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 6. október 2004, segir meðal annars svo:

„Ráðuneytið leitaði með bréfi, dags. 14. september sl., umsagnar Umferðarstofu vegna erindis yðar og barst umsögn Umferðarstofu, sem dagsett er 24. september 2004, hinn 28. september sl. Vakin er athygli á því að með lögum nr. 132/2003 og breytingu á reglugerð um Stjórnarráð Íslands var yfirstjórn umferðarmála færð frá dómsmálaráðherra til samgönguráðherra. Lögin öðluðust gildi 1. janúar 2004.

Með bréfi þessu fylgir tilvísuð umsögn og skýringar Umferðarstofu. Það er mat ráðuneytisins að umrædd gjaldskrá sé reist á réttum lagagrundvelli, sbr. hér ákvæði 64. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. einnig f-liður 114. gr. sömu laga. Jafnframt er vísað til umsagnar Umferðarstofu um þessi atriði en það skal tekið fram að ráðuneytið var á öllum stigum kunnugt um þær aðgerðir sem Umferðarstofa þurfti að grípa til vegna setningar starfsreglna um miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá, umsýslu og eftirlits. Nægir þar að nefna aðgerðir á borð við vinnu við viðmóts- og útlitshönnun, forritun, vinnu við breytingar á verklagsreglum, gerð og hönnun umsóknareyðublaða, umsjón og villuprófanir með vélbúnaði o.fl., sjá nánar meðfylgjandi sundurliðanir I til III, sem fylgdu umsögn Umferðarstofu til ráðuneytisins. Ráðuneytinu var kunnugt um þá umsýslu sem um ræðir og mat þau sjónarmið eðlileg og málefnaleg er lágu að baki ákvörðun fjárhæðar gjaldsins, og nánar er um getið í tilvísaðri umsögn Umferðarstofu. Á þessum grunni staðfesti ráðuneytið tillögur Umferðarstofu og gaf út gjaldskrá nr. 681/2002, en gjaldskráin er staðfest í ráðuneytinu 26. september 2002. Um könnun fjárhæða og útreikninga vísast til áðurgreindra sundurliðana I til III. Jafnframt er það mat ráðuneytisins að af áðurgreindu megi ljóst vera að fjárhæð þjónustugjaldsins hafi í reynd verið lægri en sem nemur þeim tilkostnaði og útgjaldaliðum sem óhjákvæmilega fylgja umsýslu, viðhaldi og eftirliti ökutækjaskrárinnar sem upplýsingaveitu, þótt nú sé raunar bent á af hálfu Umferðarstofu að skapast hafi forsendur til endurskoðunar á fjárhæð gjaldsins með það í huga að lækka það.“

Með ofangreindu bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fylgdi umsögn Umferðarstofu, dags. 24. september 2004, til ráðuneytisins í tilefni af athugun minni. Í umsögninni eru nánar rakin tildrög þess að gjald fyrir hverja einstaka uppflettingu í ökutækjaskrá var hækkað. Hækkunin hafi að meginstefnu til helgast af því markmiði að mæta auknum rekstrarkostnaði Umferðarstofu vegna meðferðar beiðna um upplýsingar úr ökutækjaskrá eftir kennitölu. Kemur þar einnig fram að sá kostnaður hafi fallið til vegna strangari krafna Persónuverndar til miðlunar upplýsinga úr skránni á grundvelli laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og hafi Umferðarstofu verið settar ákveðnar starfsreglur í því sambandi. Að því er lýtur að útreikningi á þeim kostnaði sem fjárhæð gjaldsins byggðist á segir svo í umsögn Umferðarstofu:

„Þegar umræddar upplýsingar voru á sínum tíma verðlagðar var bæði lagt mat á áætlaðan kostnað (sjá meðfylgjandi sundurliðun I) og einnig horft til verðlagningar sambærilegra vottorða hjá öðrum opinberum aðilum. Niðurstaðan varð sú að innheimta gjald að fjárhæð kr. 700 fyrir hvert útgefið vottorð. Reynslan hefur og sýnt að þetta verð er fjarri því að vera of hátt, enda kostnaður við umsýsluna talsverður.

Á árinu 2003 var orðið ljóst að ásókn í kennitöluupplýsingar á rafrænu formi var mikil, í samræmi við síauknar þarfir samfélagsins til að fá upplýsingar sem þessar með skjótum og öruggum hætti. Í framhaldi af skoðun þessara mála í samráði við Persónuvernd var ákveðið að heimila lögmönnum og skiptastjórum rafrænar uppflettingar í ökutækjaskrá út frá kennitölum eigenda. Til þess að koma á breyttu verklagi þurfti að endurskoða starfsreglur Umferðarstofu um miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá og fá þær samþykktar að nýju af Persónuvernd. Einnig þurfti að breyta umsóknareyðublöðum um rafrænan uppflettiaðgang að kennitöluupplýsingum og tryggja þar yfirlýsingu lögmanna um aðfararhæfa kröfu og yfirlýsingu skiptastjóra um úrskurð héraðsdóms. Breyta þurfti tölvukerfi Umferðarstofu til að gera þetta kleift. Kynning á nýju verklagi, gerð nýrra samninga við lögmenn og skiptastjóra og aðstoð við að koma þeim inn í nýtt verklag tók síðan talsverðan tíma. Í framhaldinu þurfti að setja upp nýjar leiðir til að halda uppi eftirliti með lögmætri notkun á heimild til kennitöluuppflettinga. Slíkt eftirlit hefur verið framkvæmt með því að krefja lögmenn og skiptastjóra um sönnun fyrir heimild að baki einstökum uppflettingum. Þegar breytt verklag var sett á laggirnar var óljóst hvaða áhrif slíkar breytingar hefðu á kostnað Umferðarstofu við þennan verklið. Stofnkostnaður var talsverður og lítið vitað um þá notkun sem búast mátti við. Reynslan hefur sýnt að kostnaður við breytinguna var talsverður (sbr. meðfylgjandi sundurliðun II).

Á þeim tíma sem liðið hefur síðan farið var að veita lögmönnum og skiptastjórum uppflettiaðgang að kennitöluupplýsingum í ökutækjaskrá hefur notkunin aukist jafnt og þétt, enda hafa þeir flestir valið þessa leið. Enda þótt enn sé talsverður kostnaður við umsýslu kennitöluuppflettinga hjá Umferðarstofu og fyrirhugaðar breytingar varðandi kerfið allt saman, telur Umferðarstofa svigrúm hafa myndast til að endurskoða gjaldtökuna. Umferðarstofa hefur því þegar sett inn í drög að endurskoðaðri gjaldskrá Umferðarstofu tillögu að lækkun verðsins. Gjaldskráin er um þessar mundir í endurskoðun hjá Umferðarstofu og verða tillögur að breytingum sendar samgönguráðuneytinu innan skamms. Í tillögunni er lagt til að verð fyrir rafræna uppflettingu eftir kennitölu verði kr. 400, en verð fyrir útgefið vottorð verði áfram kr. 700. Framangreint verð, kr. 400 fyrir hverja rafræna uppflettingu, rökstyður Umferðarstofa með þeirri sérstöku umsýslu er verður alltaf til staðar varðandi kennitöluuppflettingar. Í tölvukerfum Umferðarstofu þarf að halda sérstaklega utan um kennitöluuppflettingar og þar sem slíkar uppflettingar eru aðeins lítið hlutfall þeirra uppflettinga sem framkvæmdar eru í ökutækjaskrá (ca. 1,5%) er hlutfallslegur kostnaður við reksturinn hár. Vegna ríkra persónuverndarsjónarmiða er eftirlit með lögmætri notkun mikilvægt, en Umferðarstofa leggur ríka áherslu á að lögmætri notkun verði fylgt eftir í hvívetna. Sjá nánar meðfylgjandi sundurliðun III.“

Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 6. október 2004, fylgdu einnig ódagsettar sundurliðanir Umferðarstofu sem vísað er til í tilvitnaðri umsögn stofnunarinnar um kostnað við útgáfu vottorða úr ökutækjaskrá eftir kennitölu eigenda, um kostnað við rafrænar uppflettingar í ökutækjaskrá eftir kennitölu eigenda og um endurskoðun kostnaðar við slíkar rafrænar uppflettingar.

Með bréfi, dags. 11. október 2004, gaf ég A ehf. kost á að gera athugasemdir við framangreint bréf ráðuneytisins. Athugasemdir félagsins, dags. 3. nóvember 2004, bárust mér með bréfi 8. nóvember 2004.

Hinn 27. desember 2004 ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf að nýju. Rakti ég þar fyrri bréfaskipti mín og ráðuneytisins, svo og bréfaskipti ráðuneytisins og Umferðarstofu í tilefni af fyrirspurnum mínum til ráðuneytisins. Vék ég sérstaklega í bréfi mínu að ofangreindri umsögn Umferðarstofu sem fylgdi bréfi ráðuneytisins, dags. 6. október 2004. Þá tók ég fram að ég fengi ekki betur séð en að gengið væri út frá því í skýringum ráðuneytisins að Umferðarstofa hefði heimild að lögum til að innheimta gjald vegna aukins kostnaðar við miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá sem leiðir af þeim auknu kröfum sem gerðar eru til meðferðar upplýsinga úr skránni að lögum, sbr. lög nr. 77/2000. Greindi ég frá því að áður en ég tæki afstöðu til þessa atriðis í tilefni af kvörtun A ehf. óskaði ég eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að mér yrðu afhentar þær starfsreglur sem Umferðarstofa starfaði eftir við miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá og vísað væri til í umsögn stofnunarinnar til ráðuneytisins. Þá óskaði ég jafnframt eftir því að dóms- og kirkjumálaráðuneytið lýsti viðhorfi sínu til tiltekinna atriða, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, en um þau sagði svo í bréfi mínu:

1. Í umsögn Umferðarstofu er vísað til þrenns konar sundurliðana á kostnaði í tengslum við miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá. Ekki verður hins vegar séð að umræddar sundurliðanir hafi legið fyrir við staðfestingu ráðuneytisins á gjaldskrá Umferðarstofu nr. 681/2002. Í svarbréfi ráðuneytisins til mín segir einvörðungu að ráðuneytinu hafi verið „kunnugt um þá umsýslu sem um ræðir“ og hafi ráðuneytið „[metið] þau sjónarmið eðlileg og málefnaleg er lágu að baki ákvörðun fjárhæðar gjaldsins“. Fæ ég því ekki séð af svörum ráðuneytisins til mín að fram hafi farið nein reikningsleg úttekt á þeim kostnaðarliðum sem lagðir voru til grundvallar við útreikning gjalds vegna kennitöluuppflettinga áður en gjaldskráin var staðfest. [...] Af þessu tilefni óska ég sérstaklega eftir því að ráðuneytið afhendi mér þau gögn sem það hafði undir höndum við staðfestingu fyrrnefndrar gjaldskrár um fyrirhugaðan kostnað vegna miðlunar upplýsinga úr ökutækjaskrá eftir kennitölu, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997. Hafi engin frekari gögn eða upplýsingar legið fyrir um útreikning gjaldanna óska ég eftir að ráðuneytið lýsi viðhorfi sínu til þess hvernig sú málsmeðferð hafi samrýmst þeim sjónarmiðum sem lýst er í [áliti mínu frá 6. apríl 2001 í máli nr. 2534/1998].

2. Í umsögn Umferðarstofu til ráðuneytisins sem fylgdi svari þess til mín er enn fremur vísað til aukinnar notkunar á uppflettiaðgangi að kennitöluupplýsingum úr ökutækjaskrá og telur Umferðarstofa svigrúm hafa myndast til að endurskoða gjaldtökuna í því sambandi. Af þessu tilefni óska ég sérstaklega eftir upplýsingum um það hvort tekjuafgangur hafi myndast af þessari starfsemi á árunum 2003 og 2004 og, ef svo er, hvernig þeim tekjuafgangi hefur verið varið. Óska ég í því sambandi eftir að ráðuneytið veiti mér upplýsingar um heildartekjur Umferðarstofu af gjaldtöku fyrir miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá eftir kennitölu á árunum 2003 og 2004, þar með taldar upplýsingar um tölu afgreiddra beiðna um upplýsingar úr skránni. Er þess óskað að tekjurnar verði sérgreindar fyrir hvort ár. Þá er þess jafnframt óskað að ráðuneytið veiti mér upplýsingar um hver raunverulegur heildarkostnaður Umferðarstofu af miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá eftir kennitölu hafi verið sömu ár.

3. Í umsögn Umferðarstofu kemur fram að ákveðið hafi verið á árinu 2003 að heimila rafræna uppflettingu úr ökutækjaskrá út frá kennitölum eigenda í samræmi við kröfur þeirra sem óskuðu eftir slíkum upplýsingum. Kemur fram að breyta hafi þurft tölvukerfi Umferðarstofu til að gera þetta kleift en stofnkostnaður við þessa breytingu hafi verið töluverður. Í sundurliðun II sem vitnað er til í umsögn Umferðarstofu er vísað til þess að stofnkostnaður við breytingu hafi verið 2.717.500 kr. Verður ráðið að þar hafi verið um tæplega helming alls rekstrarkostnaðar við rafrænar uppflettingar úr ökutækjaskrá að ræða. Ég óska sérstaklega eftir því að ráðuneytið lýsi afstöðu sinni til þess hvort það telji heimilt að standa straum af stofnkostnaði vegna nýs tölvukerfis á grundvelli heimildar í f-lið 114. gr. laga nr. 50/1987.

Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 9. febrúar 2005, segir meðal annars svo:

„Vegna áðurnefnds bréfs yðar óskaði ráðuneytið eftir umsögn og gögnum frá Umferðarstofu og barst hvoru tveggja með bréfi Umferðarstofu, dags. 17. janúar 2005. Hjálagt sendast starfsreglur umferðarstofu um upplýsingamiðlun úr Ökutækjaskrá, en um er að ræða 5. útgáfu frá 1. nóvember 2004. Ráðuneytið hefur litlu að bæta við fyrri skýringar til yðar. Ljóst er að um er að ræða nýja þjónustu sem m.a. krefst umfangsmikils undirbúnings og tækjabúnaðar af hálfu Umferðarstofu, sem hvoru tveggja hefur án vafa leitt til mun betri þjónustu við uppflettingar í ökutækjaskrá. Jafnframt er ljóst að ráðuneytinu var á þessum tíma kunnugt um þá óvissu sem hin nýja þjónusta hafði í för með sér, enda óljóst með öllu hver fjöldi fyrirspurna myndi verða eða hvort hið nýja fyrirkomulag myndi yfirhöfuð fela í sér hagræðingu. Var af þessum sökum ekki um að ræða formlega reikningslega úttekt eða önnur gögn er vörðuðu kostnaðarliði en umrætt gjald, að fjárhæð kr. 700, hafði þá verið í eldri gjaldskrá, og í því tilfelli átt að standa undir kostnaði sem af hlaust við að veita þjónustu, sem þá var handvirk. Við setningu gjaldskrárinnar lá þó fyrir að gjaldtaka að fjárhæð kr. 700 myndi ekki duga til að mæta þeim kostnaði sem hlaust af því að veita hina nýju þjónustu. Var því ljóst að þeim sem nýttu sér þjónustuna yrði ekki gert að greiða hærra gjald en sem nam kostnaði við að veita þjónustuna. Um þetta og önnur atriði er varða rekstrartekjur, tap, mögulegan tekjuafgang og heildartekjur Umferðarstofu af gjaldtöku fyrir miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá eftir kennitölum á árunum 2003 og 2004, er vísað nánar til meðfylgjandi umsagnar Umferðarstofu, dags. 17. janúar sl. Ráðuneytið telur að lagaheimildir hafi ekki staðið því í vegi að umrætt gjald hafi að hluta til verið látið standa undir því að koma hinni nýju þjónustu á laggirnar með stofnkostnaði á hugbúnaði sem einskorðaðist við kennitölumiðlun upplýsinga, enda liggur fyrir að í þessu fólst afturhvarf frá mun hægvirkari og kostnaðarsamari þjónustu með það fyrir augum að reyna að bæta þjónustu við viðskiptavini án þess að kostnaður þeirra ykist. Um er að ræða kostnað sem er í nánum og efnislegum tengslum við þjónustuna og var hann í raun forsenda þess að unnt væri að veita umrædda þjónustu. Meðfylgjandi eru tilvísaðar starfsreglur umferðarstofu ásamt umsögn, dags. 17. janúar sl.

Ráðuneytið telur rétt að taka fram að það fer ekki lengur með málefni Umferðarstofu þar sem stofnunin heyrir nú undir samgönguráðherra. Tilmælum um úrbætur væri því rétt að beina til samgönguráðuneytisins.

Að síðustu er beðist velvirðingar á þeim drætti sem orðinn er á svörum af hálfu ráðuneytisins.“

Bréfi ráðuneytisins fylgdi enn fremur umsögn Umferðarstofu, dags. 17. janúar 2005, í tilefni af bréfi mínu en í henni segir meðal annars svo:

„2. Sérstakur liður vegna miðlunar á upplýsingum eftir kennitölu var settur í gjaldskrá ráðuneytisins fyrir Umferðarstofu í september 2002 (við stofnun Umferðarstofu). Áður hafði þessi gjaldskrárliður verið í gjaldskrá Skráningarstofunnar hf. um árabil. Tilgangur gjaldsins var að mæta hluta þess kostnaðar sem Umferðarstofa hafði af miðlun upplýsinga eftir kennitölu, sem þá var handvirk á þann hátt að fyrirspurnir bárust í pósti og svör voru send í pósti að undangenginni vinnu við athuganir og bréfaskriftir. Ljóst var á þeim tíma að 700 kr. gjaldtaka dugði ekki til að mæta þeim kostnaði sem af því hlaust að veita þjónustuna. Formleg gögn voru ekki útbúin vegna setningar reglugerðarinnar á árinu 2002. Vinnugögn þau sem stuðst var við byggðu á tímavinnu hjá Skráningarstofunni, en þau gögn eru ekki lengur aðgengileg. Ljóst er að engar forsendur voru til þess að breyta gjaldinu á þeim tíma.

Umferðarstofa tók svo á árinu 2003, í samráði við Persónuvernd, þá ákvörðun að bæta þjónustu við þennan takmarkaða hóp viðskiptavina og bjóða upp á aðgang að rafrænum uppflettingum á upplýsingum eftir kennitölu. Á þeim tíma lá ekkert fyrir um hvort hagræðing af breyttu fyrirkomulagi varðandi þessa þjónustu yrði það mikil að ástæða væri til að endurskoða gjaldið, m.a. vegna þess hve lítil umsetningin var og vegna óvissu varðandi fjölda fyrirspurna. Á hinn bóginn er rétt að taka fram að nú, þegar viðeigandi reynsla er komin á stöðugleika spurnar eftir umræddri þjónustu, hefur komið í ljós að kostnaður Umferðarstofu við miðlun á upplýsingum úr ökutækjaskrá eftir kennitölu hefur lækkað þar sem mun fleiri lögfræðistofur hafa séð ástæðu til að nota sér hina nýju rafrænu þjónustu en nýttu sér fyrra fyrirkomulag upplýsingagjafarinnar. Eins og lýst var í fyrra erindi Umferðarstofu vegna þessa máls telur Umferðarstofa að nú hafi skapast svigrúm til lækkunar gjaldsins og mun Umferðarstofa óska eftir slíkri breytingu í næstu útgáfu gjaldskrár Umferðarstofu.

3. Tap var á rekstri kennitöluuppflettinga árið 2003, sem nemur u.þ.b. 3,3 mkr. Ekki er endanlega búið að gera upp 2004, en útlit er fyrir að kennitöluuppflettingar verði nálægt því að standa undir sér. Er því ekki um að ræða ráðstöfun á neinum tekjuafgangi. Skv. lið 4 er gert ráð fyrir að tekjur hafi verið 2,5 mkr. (2003) + 6,8 mkr (2004), eða alls 9,3 mkr. Sýnt hefur verið fram á að árlegur kostnaður er 5,8 mkr, eða 11,6 mkr fyrir 2 ár. Því er tap á árinum 2003 og 2004 2,3 mkr.

4. Heildartekjur v/ miðlunar upplýsinga um kennitölueign úr ökutækjaskrá eru:

2003: 10,0 mkr

2004: 13,7 mkr

Ekki er gerður greinarmunur í bókhaldi á því hvort um rafrænar uppflettingar er að ræða eða hvort um er að ræða handvirkar uppflettingar (enda aðeins einn gjaldskrárliður). Áætla má að árið 2003 hafi um 20% af uppflettingum verið rafrænar. Á árinu 2004 er áætlað að hlutfall rafrænna uppflettinga verði um 50%. Við gerum okkur svo vonir um að ná a.m.k. 80% af uppflettingum rafrænum árið 2005.

5. Við teljum Umferðarstofu hafi ekki aðeins verið heimilt, heldur líka nauðsynlegt og eðlilegt að láta þjónustugjaldið standa undir afskriftum af stofnkostnaði tölvukerfisins til að mögulegt væri að koma þjónustunni á, enda eru tölvukerfi yfirleitt afskrifuð á 3 til 5 árum og eru afskriftirnar rekstrarkostnaður. Þess má geta að auðvitað er aðeins um að ræða stofnkostnað á hugbúnaði, sem einskorðast við umrædda kennitölumiðlun en ekki þátttöku t.d. í stofnkostnaði húsnæðis eða öðru sem að þessu verkefni lýtur. Sbr. fyrra erindi Umferðarstofu vegna þessa máls er stofnkostnaður tölvukerfisins afskrifaður á 4 árum.

Ef tekið er tillit til áherslu Ríkisendurskoðunar varðandi hagræðingu í rekstri og bætta þjónustu til borgaranna má glöggt sjá að umræddar aðgerðir eru dæmi um góða stjórnsýslu hjá Umferðarstofu. Ráðist var í tiltölulega kostnaðarsamar aðgerðir til þess að geta boðið upp á rafrænar uppflettingar eftir kennitölu (án þess að nokkur utanaðkomandi trygging væri fyrir því að fjárfestingin myndi standa undir sér). Stofnunin var með aðgerðum sínum að hörfa frá hægvirkri og dýrri handvirkri skýrslugerð og einnig var þjónusta við viðskiptavini aukin verulega án þess að kostnaður þeirra ykist. Þar sem stöðugt fleiri hafa farið yfir í rafrænar uppflettingar í stað handvirka fyrirkomulagsins hefur Umferðarstofa náð niður kostnaði við miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá eftir kennitölum. Þegar ný gjaldskrá verður næst gefin út mun eftirfarandi liggja fyrir:

Áætlað er að kostnaður Umferðarstofu við miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá eftir kennitölum hafi lækkað um nær helming. Þjónusta við viðskiptavini hefur aukist og verið gerð hraðvirkari og geta þeir nú fengið upplýsingarnar án tafar til sín á skjámynd í stað þess að þurfa að senda bréf til Umferðarstofu og bíða nokkra daga eftir svari.“

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2005, gaf ég A ehf. kost á að gera athugasemdir við framangreind svör ráðuneytisins. Athugasemdir félagsins bárust mér með bréfi, dagsettu 22. febrúar 2005.

Með lögum nr. 132/2003, um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987, með síðari breytingum, og 3. tölulið 11. gr. reglugerðar nr. 3/2004, um Stjórnarráð Íslands, færðist stjórnarfarsleg ábyrgð á eftirliti með framkvæmd umferðarlaga og yfirstjórn Umferðarstofu frá dóms- og kirkjumálaráðherra til samgönguráðherra. Tók þessi breyting gildi 1. janúar 2004. Eins og að framan greinir beindi ég óskum mínum um skýringar og gögn vegna efnis og tilurðar gjaldskrár nr. 681/2002 til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem staðfest hafði gjaldskrána 26. september 2002 eða rúmu ári áður en yfirstjórn umferðarmála var færð frá dómsmálaráðherra til samgönguráðherra. Þessum erindum mínum svaraði dóms- og kirkjumálaráðuneytið og undirstrikaði jafnframt að málefni Umferðarstofu heyrðu nú undir samgönguráðuneytið og því væri rétt að beina tilmælum um úrbætur til samgönguráðuneytisins. Þá sendi ráðuneytið mér ljósrit af bréfi, dags. 7. febrúar 2005, til samgönguráðuneytisins þar sem segir að ráðuneytinu séu send til kynningar svör dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín vegna athugana minna er snerti tvö mál á sviði löggæslu- og umferðarmála og tengist þar af leiðandi jafnframt verkefnasviði samgönguráðuneytisins. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að umsögn Umferðarstofu, dags. 24. september 2004, til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem fylgdi bréfi ráðuneytisins til mín, dags. 6. október 2004, hafði af hálfu Umferðarstofu verið sent sem afrit til samgönguráðuneytisins. Í þessu bréfi Umferðarstofu segir m.a.:

„[...] telur Umferðarstofa svigrúm hafa myndast til að endurskoða gjaldtökuna. Umferðarstofa hefur því þegar sett inn í drög að endurskoðaðri gjaldskrá Umferðarstofu tillögu að lækkun verðsins. Gjaldskráin er um þessar mundir í endurskoðun hjá Umferðarstofu og verða tillögur að breytingum sendar samgönguráðuneytinu innan skamms. Í tillögunni er lagt til að verð fyrir rafræna uppflettingu eftir kennitölu verði kr. 400, en verð fyrir útgefið vottorð verði áfram kr. 700.“

Með tilliti til þess að málefni Umferðarstofu heyra nú undir samgönguráðuneytið taldi ég rétt, áður en ég lyki athugun minni á þessu máli, að óska eftir viðhorfi ráðuneytisins til ofangreindrar kvörtunar, og þá að teknu tilliti til þess sem þegar hafði komið fram við athugun mína af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Umferðarstofu. Ég ritaði því samgönguráðherra bréf, dags. 19. október 2005, þar sem ég kynnti honum athugun mína á kvörtun A ehf. Vakti ég jafnframt sérstaka athygli á því að til þess kynni að koma að niðurstaða mín yrði sú að beina tilmælum til samgönguráðuneytisins um úrbætur vegna hugsanlegra annmarka á gjaldskrá Umferðarstofu sem staðfest var á árinu 2002. Ég óskaði líka eftir upplýsingum um hvort breytingar hefðu verið gerðar á gjaldskrá Umferðarstofu í tilefni af þeim tillögum sem Umferðarstofa boðaði í bréfi sínu, dags. 24. september 2004, og þá að því er varðar þá gjaldtöku sem kvörtunin beinist að. Væri reyndin sú að ekki hefðu enn verið gerðar breytingar á umræddri gjaldtöku óskaði ég eftir afstöðu samgönguráðuneytisins til þess hvort það teldi tilefni til þess að hugsanleg breyting til lækkunar eins og Umferðarstofa lagði til yrði látin leiða til endurgreiðslna gagnvart þeim sem greitt hefðu umrætt gjald fyrir uppflettingar í ökutækjaskrá.

Svarbréf samgönguráðuneytisins barst mér 21. nóvember 2005 og þar segir:

„Svar þetta miðar einvörðungu að upplýsingagjöf um stöðu málsins í dag og hver stefna samgönguráðuneytisins er í gjaldskrármálum Umferðarstofu. Ekki verður leitast við að gefa skýringar á tilurð hins umdeilda gjalds, enda hefur ráðuneytið sem ber ábyrgð á því gert það.

Í bréfi yðar er vísað til þess að Umferðarstofa hafi með bréfi, dags. 24. september 2004, boðað breytingar á gjaldskrá sinni. Nefnd drög að breytingu á gjaldskrá bárust samgönguráðuneytinu þann 27. júní 2005. Drögin voru tekin til gagngerrar skoðunar og sett í umsagnarferli hjá þekktum hagsmunaaðilum, auk þess sem þau voru sett á heimasíðu ráðuneytisins með almennu boði um að koma að athugasemdum. Úrvinnsla þessi var á lokastigi þegar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 10/2005 frá 27. október 2005 var birt. Ákvörðunin lýtur að skoðun á erindi Skýrr hf. vegna misnotkunar Umferðarstofu á markaðsráðandi stöðu til að selja viðskiptavinum aðgang að upplýsingum úr ökutækjaskrá. Í ákvörðuninni kemst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að veiting upplýsinga úr ökutækjaskrá sé þjónusta á markaði og lúti samkeppnislögum. Eftirlitið tjáir sig um að almennt sé æskilegast að opinberir aðilar dragi sig úr samkeppnisrekstri og feli slík verkefni einkaaðilum eins og við verði komið. Þá kveður eftirlitið heppilegast að opinber fyrirtæki sem starfa í frjálsri samkeppni við aðra aðila og bjóða fram vöru sína eða þjónustu setji sér sjálf gjaldskrár fyrir vörur sínar eða þjónustu en ekki þurfi að koma til staðfesting ráðherra á gjaldskránni. Þessar ábendingar og aðrar eru nú til skoðunar í ráðuneytinu. Af þessum ástæðum hefur ekki enn verið gefin út ný gjaldskrá fyrir þjónustu Umferðarstofu. Ráðuneytið vill þó taka fram að það telur einsýnt að hið umdeilda 700 kr. gjald sé óeðlilega hátt.

Í bréfi yðar er jafnframt óskað afstöðu ráðuneytisins til þess hvort það telji tilefni til þess að hugsanleg breyting til lækkunar eins og Umferðarstofa lagði til í bréfi sínu 24. september 2004 verði látin leiða til endurgreiðslu gagnvart þeim sem greitt hafa umrætt gjald fyrir uppflettingar í ökutækjaskrá. Ráðuneytið tjáir sig ekki um þetta að öðru leyti en því að það bendir á það almenna sjónarmið að þjónustugjöld sem innheimt eru samkvæmt lögmætum réttarheimildum, s.s. gjaldskrá staðfestri af ráðherra með stoð í lögum, verða almennt ekki endurgreidd.“

III. Álit umboðsmanns Alþingis.

1.

Umferðarstofu var komið á fót með lögum nr. 83/2002, um breytingu á umferðarlögum nr. 50 30. mars 1987. Með lögunum var starfsemi Skráningarstofunnar hf. og Umferðarráðs sameinuð og verkefni þeirra, auk tiltekinna verkefna dómsmálaráðuneytisins, færð til Umferðarstofu, sbr. Alþt. 2001―2002, A-deild, bls. 4518―4519.

Samkvæmt fyrri málsl. 111. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 annast Umferðarstofa stjórnsýslu á sviði umferðarmála, sbr. 112. gr. Í síðarnefnda ákvæðinu er hlutverk stofnunarinnar nánar afmarkað í liðum a. til og með k. í 1. mgr. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 112. gr. skal Umferðarstofa annast skráningu ökutækja og aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað, sjá einnig reglugerð nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, með síðari breytingum. Þá ber Umferðarstofu samkvæmt j-lið 1. mgr. 112. gr. að annast rekstur á tölvu- og upplýsingakerfum en um ökutækjaskrá eru nánari ákvæði í II. kafla reglugerðar nr. 751/2003.

Ákvæði 114. gr. umferðarlaga fjallar um þau gjöld sem renna til Umferðarstofu en 1. mgr. er svohljóðandi:

Til Umferðarstofu renna þessi gjöld:

a. gjöld fyrir skráningu ökutækja, sbr. 64. gr.,

b. gjöld fyrir skráningarmerki, sbr. 64. gr.,

c. gjöld fyrir viðurkenningu á gerð, sbr. 64. gr.,

d. gjöld fyrir einkamerki, sbr. 64. gr. a,

e. umferðaröryggisgjald, sbr. 2. mgr.,

f. önnur gjöld sem Umferðarstofa innheimtir samkvæmt gjaldskrá sem staðfest er af ráðherra.

Á grundvelli tilvitnaðs f-liðar 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga var sett gjaldskrá um þá þjónustu sem Umferðarstofa veitir nr. 681/2002 með síðari breytingum. Gjaldskráin var staðfest af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 26. september 2002. Eins og áður er fram komið tók samgönguráðherra, eftir að gjaldskráin var gefin út, við stjórnarfarslegri ábyrgð á eftirliti með framkvæmd umferðarlaga og yfirstjórn Umferðarstofu af dóms- og kirkjumálaráðherra, sbr. 1. gr. laga nr. 132/2003, um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987, með síðari breytingum, og 3. tölul. 11. gr. reglugerðar nr. 3/2004, um Stjórnarráð Íslands.

Um upplýsingamiðlun Umferðarstofu úr ökutækjaskrá hafa verið settar sérstakar starfsreglur. Í 1. gr. þeirra er lýst þeim aðferðum sem Umferðarstofa notar til að miðla upplýsingum úr ökutækjaskrá. Í 2. mgr. 1. gr. segir síðan að heimilt sé að veita upplýsingar umfram það sem greinir í 1. mgr. ef lagaheimild standi til þess og skuli þá vísa sérstaklega í heimildarlög.

Um miðlun upplýsinga um einstaka aðila er fjallað í 3. gr. starfsreglnanna og er þar rakið að Umferðarstofu sé almennt óheimilt að miðla upplýsingum um eignastöðu einstakra aðila í ökutækjaskrá. Áskrifendum að skránni skuli vera ókleift að fletta upp einstökum aðilum eftir nöfnum þeirra eða kennitölum og fá upplýsingar um ökutækjaeign þeirra. Frá þessu eru gerðar fjórar undantekningar í sömu grein. Í fyrsta lagi getur hinn skráði fengið aðgang að öllum upplýsingum um hann sjálfan og ökutækjaeign hans sem skráð er í ökutækjaskrá. Í öðru lagi er heimilt að veita upplýsingar eftir kennitölu einstakra aðila ef til þess stendur lagaheimild og í samræmi við þetta eru opinberum aðilum veittar upplýsingar með uppflettingum eftir kennitölu. Í þriðja lagi er heimilt að veita lögmanni í innheimtustarfsemi upplýsingar um eignastöðu einstakra aðila og loks skiptastjórum við skipti í þrotabúi eða dánarbúi þess sem upplýsinga er óskað um. Loks segir í 3. gr. að Umferðarstofu sé heimilt að framkvæma eftirlit með lögmætri notkun á kennitöluuppflettiaðgangi. Í 4. gr. starfsreglnanna er síðan að finna ítarlega tilgreiningu á þeim upplýsingum sem færðar eru í ökutækjaskrá og í 5. gr. lýsingu á þeim samtengingum ökutækjaskrár við aðrar skrár sem Umferðarstofa stendur að. Er þar um að ræða þjóðskrá, tekjubókhald ríkisins, tollakerfi, tölvukerfi Tryggingastofnunar ríkisins, þinglýsingakerfi sýslumanna, álestraskrá, skrár tryggingafélaga, NorType sem er sameiginleg skrá skráningaryfirvalda á Norðurlöndum, og loks slysaskrá vegna skráningar slysa.

Kvörtun A ehf. beinist að gjaldi því sem Umferðarstofa innheimtir samkvæmt c-lið 7. gr. gjaldskrár Umferðarstofu fyrir hverja rafræna uppflettingu lögmanns í innheimtustarfi eða skiptastjóra í ökutækjaskrá eftir kennitölu, sbr. 3. gr. ofangreindra starfsreglna. Eftir að kvörtun A ehf. barst mér hefur gjaldskrá Umferðarstofu nr. 681/2002 verið breytt, sbr. auglýsing nr. 1055/2004 sem tók gildi 7. desember 2004. Gjald fyrir rafræna uppflettingu eftir kennitölu í ökutækjaskrá er þó óbreytt samkvæmt gildandi gjaldskrá, eða 700 krónur. Með vísan til framangreinds hefur athugun mín í fyrsta lagi beinst að því hvort Umferðarstofa hafi að lögum næga heimild til töku gjalds fyrir rafræna uppflettingu í ökutækjaskrá og þá hvort lagður hafi verið nægur grundvöllur að nefndu gjaldi með traustum reikningslegum forsendum. Í því sambandi hef ég sérstaklega horft til þess hvort dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi við staðfestingu gjaldskrár nr. 681/2002 rækt það eftirlitshlutverk hvað varðar mat á efnislegum forsendum umrædds gjalds sem leiðir af staðfestingarhlutverki þess og grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um tekjuöflun hins opinbera með þjónustugjöldum. Í öðru lagi hef ég, í ljósi skýringa ráðuneytisins og Umferðarstofu, talið ástæðu til að fjalla um hvort þau sjónarmið og kostnaðarliðir, sem haldið er fram að hafi legið til grundvallar gjaldtökunni, eigi sér næga stoð í lögum.

2.

Það er meginregla stjórnsýsluréttar að stjórnsýslan sé lögbundin og að almenningur þurfi að jafnaði ekki að greiða sérstakt gjald fyrir lögmælta þjónustu eða úrlausn stjórnvalda nema lög heimili það sérstaklega. Verði talið að stjórnvald geti ekki krafist sérstaks gjalds fyrir veitta þjónustu vegna skorts á lagaheimild verður almennt að ganga út frá því að standa verði undir þeim kostnaði sem hlýst af því að veita slíka þjónustu með almennu rekstrarfé stjórnvaldsins.

Samkvæmt skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín byggist sú gjaldtaka Umferðarstofu sem mælt er fyrir um í gjaldskrá nr. 681/2002 á heimildum í f-lið 1. mgr. 114. gr. og 64. gr. umferðarlaga. Kemur þar fram að gjaldið hafi að mestu leyti farið í að standa straum af kostnaði við breytingar á tölvukerfi skráningar ökutækja til að unnt hefði verið að koma til móts við kröfur Persónuverndar vegna rafrænna uppflettinga í ökutækjaskrá út frá kennitölum. Þá hafi einnig fallið til kostnaður vegna eftirlits Umferðarstofu með lögmætri notkun aðgangs að kennitöluuppflettingum í ökutækjaskrá.

Ákvæði 64. gr. umferðarlaga mælir meðal annars fyrir um heimild ráðherra til að setja reglur um gjald fyrir skráningu og skráningarmerki. Ég tel ljóst af orðalagi ákvæðisins og samhengi þess, m.a. við 114. gr. umferðarlaga, sem nánar verður rakin síðar, að ákvæði 64. gr. veiti ekki sjálfstæða heimild til töku þjónustugjalda fyrir miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá enda gjaldtökuheimildin þar bundin við skráningu ökutækja og skráningarmerki.

Ákvæði f-liðar 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga var lögfest með 10. gr. laga nr. 83/2002. Samkvæmt orðalagi sínu mælir ákvæðið fyrir um að til Umferðarstofu renni „önnur gjöld sem Umferðarstofa innheimtir samkvæmt gjaldskrá sem staðfest er af ráðherra“. Hvorki er í umferðarlögum nr. 50/1987 né í athugasemdum við 10. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 83/2002 að finna nánari afmörkun á þeim kostnaðarliðum sem felldir verða undir „önnur gjöld“ í þessu sambandi. Segir þar einungis að lagt sé til „að gjöld, sem nú [renni] til Skráningarstofunnar hf. og Umferðarráðs renni til [Umferðarstofu]“, sbr. Alþt. 2001―2002, A-deild, bls. 4522.

Eins og nánar er rakið í lögskýringargögnum og skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og í umsögn Umferðarstofu tók Umferðarstofa meðal annars við þeim verkefnum sem Skráningarstofan hf. hafði með höndum áður en lög nr. 83/2002 voru sett en stofan hafði meðal annars miðlað upplýsingum um eigendur ökutækja úr ökutækjaskrá. Við túlkun á heimild f-liðar 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga til töku þjónustugjalda af hálfu Umferðarstofu tel ég að horfa verði til þessarar forsögu að baki lögfestingu 10. gr. laga nr. 83/2002 og þeirrar stjórnsýslulegu skipulagsbreytingar sem stofnun Umferðarstofu hafði í för með sér. Sú fyrirætlan löggjafans að veita Umferðarstofu heimild til að innheimta gjöld fyrir þá þjónustu sem Skráningarstofan hf. hafði áður innt af hendi verður enda ráðin af tilvitnuðum athugasemdum úr lögskýringargögnum að baki f-lið 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 83/2002. Þá hef ég einnig horft til þess að samkvæmt a-lið 1. mgr. 112. gr. umferðarlaga skal Umferðarstofa annast skráningu ökutækja og aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað og samkvæmt j-lið sömu málsgreinar annast rekstur á tölvu- og upplýsingakerfum. Ég tel mig því ekki geta fullyrt annað en að Umferðarstofa hafi að lögum heimild til að innheimta gjald fyrir þá þjónustu sem felst í því að miðla upplýsingum um eigendur bifreiða, m.a. með rafrænni uppflettingu eftir kennitölu í ökutækjaskrá sem stofnuninni er að lögum, sbr. einnig II. kafli reglugerðar nr. 751/2003, falið að halda enda sé mælt fyrir um slíkt gjald í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir, sbr. 114. gr. umferðarlaga.

Við staðfestingu gjaldskrár nr. 681/2002 var það í verkahring dómsmálaráðherra að hafa eftirlit með því að hún væri byggð á nægjanlega traustum reikningslegum forsendum og efni hennar að öðru leyti reist á málefnalegum sjónarmiðum. Þetta hlutverk er nú í höndum samgönguráðherra eftir þá breytingu sem gerð var á umferðarlögum nr. 50/1987 með lögum nr. 132/2003. Á það hefur verið bent í álitum umboðsmanns Alþingis að líta verði almennt svo á að ákvæði sem mæla fyrir um samþykki eða staðfestingu ráðherra á ákvörðunum, reglum eða áætlunum annars aðila, feli að jafnaði í sér skyldu fyrir ráðuneyti til endurskoðunar eða eftirlits með lögmæti hlutaðeigandi gernings, sjá hér álit umboðsmanns frá 17. nóvember 1994 í máli nr. 818/1993 (SUA 1994:104) og 13. mars 1995 í máli nr. 1041/1994 (SUA 1995:407). Bar dómsmálaráðherra við staðfestingu gjaldskrár Umferðarstofu 26. september 2002 þannig að gæta að því að efni gjaldskrárinnar hefði næga lagastoð og væri í samræmi við lög og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar.

Ákvæði f-liðar 1. mgr. 114. gr. umferðarlega felur í sér heimild fyrir Umferðarstofu til að innheimta „önnur gjöld“ samkvæmt gjaldskrá sem stofan setur en ráðherra staðfestir. Ákvæðið felur hins vegar ekki í sér skattlagningarheimild samkvæmt 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 enda er ekki í því kveðið á um skattskyldu, skattstofn, gjaldstig né fjárhæð skatts eins og stjórnskipulegar kröfur til skattlagningarheimilda segja til um. Af þeim sökum, og með hliðsjón af orðalagi ákvæðisins og athugasemdum lögskýringargagna, tel ég að ekki verði talið heimilt að byggja ákvörðun um fjárhæð þeirra gjalda, sem ákvæðið heimilar innheimtu á, á sjónarmiðum um almenna tekjuöflun, eins og ég mun víkja nánar að í kafla III.3 hér síðar. Gjald fyrir miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá eftir kennitölu samkvæmt c-lið 7. gr. gjaldskrár nr. 681/2002 má því ekki vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldtökuheimild f-liðar 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga nær til. Ég minni enn fremur á að það leiðir af eðli þjónustugjalda að fjárhæð þeirra á að endurspegla eftir fremsta megni raunverulegan kostnað stjórnvaldsins við að inna umrædda þjónustu af hendi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 5. nóvember 1998 í máli nr. 50/1998. Hef ég í álitum mínum gengið út frá því að þegar stjórnvaldi er veitt heimild til töku þjónustugjalds geri hún eðli málsins samkvæmt ráð fyrir því að vandaður og traustur kostnaðarútreikningur fari fram af hálfu stjórnvaldsins áður en fjárhæðir eru ákveðnar í gjaldskrá, sbr. álit mitt frá 6. apríl 2001 í máli nr. 2534/1998.

Í bréfi mínu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 31. ágúst 2004, óskaði ég eftir því að ráðuneytið upplýsti mig um með hvaða hætti það kannaði fjárhæðir og þá útreikninga sem lágu til grundvallar ákvörðun þess gjalds sem kvörtunin beindist að áður en það staðfesti gjaldskrá nr. 681/2002, og þá með tilliti til þeirra almennu reglna sem giltu um þjónustugjöld, sbr. umfjöllun mín hér að framan. Í skýringum ráðuneytisins til mín, dags. 9. febrúar 2005, kemur fram að ekki hafi verið um að „ræða formlega reikningslega úttekt“ þegar ráðuneytið hafi staðfest gjaldskrá nr. 681/2002. Þá hafi ekki við staðfestingu gjaldskrárinnar legið fyrir önnur gögn er vörðuðu kostnaðarliði, en að umrætt gjald hafi þá verið í eldri gjaldskrá og í því tilfelli átt að standa undir kostnaði við að veita þjónustu sem þá hafi verið handvirk. Með tilliti til umsagnar Umferðarstofu er fylgdi skýringum ráðuneytisins geri ég ráð fyrir að þar sé átt við gjaldskrá Skráningarstofunnar hf. en verkefni hennar voru færð til Umferðarstofu með lögum nr. 83/2002, eins og fyrr greinir. Í umsögn Umferðarstofu, dags. 17. janúar 2005, kemur enn fremur fram að formleg gögn hafi ekki verið útbúin vegna setningar gjaldskrárinnar á árinu 2002. Segir þar að „vinnugögn þau sem stuðst var við [hafi byggt] á tímavinnu hjá Skráningarstofunni, en þau gögn [séu] ekki lengur aðgengileg“. Af umsögn Umferðarstofu verður ráðið að hún telji þrátt fyrir framangreint ljóst að sú 700 kr. gjaldtaka sem ákveðin var fyrir þjónustuna á árinu 2002 hafi ekki dugað til að mæta þeim kostnaði sem hlaust af því að veita þjónustuna og því hafi engar forsendur verið til að breyta fjárhæð gjaldsins á þeim tíma.

Að virtum fyrirliggjandi gögnum og skýringum ráðuneytisins og Umferðarstofu verður ekki annað ráðið en að skort hafi á að gjald fyrir útskrift eftir kennitölu samkvæmt ákvæði c-liðar 7. gr. gjaldskrár Umferðarstofu nr. 681/2002 hafi verið ákveðið að undangenginni reikningslegri úttekt á þeim kostnaðarliðum sem heimilt er að leggja til grundvallar við útreikning gjaldsins. Ég tek fram að burtséð frá lögmæti þeirra sjónarmiða og kostnaðarliða sem vísað er til í sundurliðunum Umferðarstofu um kostnað við útgáfu vottorða úr ökutækjaskrá eftir kennitölu eigenda og um kostnað við rafrænar uppflettingar, en um þau atriði fjalla ég sérstaklega í kafla III.3 hér síðar, er ljóst að þessar sundurliðanir lágu ekki fyrir við staðfestingu gjaldskrárinnar. Að mínu áliti verður því ekki hjá því komist að draga þá ályktun að misbrestur hafi verið á því að gjöldin væru ákveðin á nægilega traustum reikningslegum grunni. Þar sem útreikningar á heimilum kostnaðarliðum gjaldsins samkvæmt f-lið 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga lágu ekki fyrir við setningu gjaldskrárinnar verður af minni hálfu ekki fullyrt um hvort gjöld samkvæmt c-lið 7. gr. gjaldskrár nr. 681/2002 hafi verið of há við setningu gjaldskrárinnar né þá hversu mikið kann að hafa verið oftekið. Í samræmi við framangreint er það hins vegar niðurstaða mín að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi ekki með viðhlítandi hætti sinnt þeirri eftirlitsskyldu sem leiddi af staðfestingarhlutverki þess samkvæmt ákvæði f-liðar 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga þegar það staðfesti gjaldskrána. Ég tek það fram að það breytir ekki þessari niðurstöðu minni þótt fyrir liggi að dómsmálaráðuneytinu hafi verið „kunnugt“ um þær aðgerðir sem Umferðarstofa þurfti að grípa til vegna setningar starfsreglna um miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá, s.s vinnu við viðmóts- og útlitshönnun, forritun, vinnu við breytingar á verklagsreglum, gerð og hönnun umsóknareyðublaða, umsjón og villuprófanir með vélbúnaði o.fl., og að ráðuneytið hafi metið þau sjónarmið málefnaleg og eðlileg. Lagaáskilnaður um að gjaldskrár vegna þjónustu lægra settra stjórnvalda skuli hljóta staðfestingu ráðherra myndi vart þjóna tilgangi sínum ef í staðfestingarhlutverkinu fælist ekki raunhæft og virkt eftirlit með því að tölulegar og reikningslegar forsendur þeirra fjárhæða þjónustugjalda, sem mælt er fyrir um í slíkum gjaldskrám, séu traustar. Í því tilliti nægir ekki almenn vitneskja ráðuneytis um þær ráðstafanir sem lægra sett stofnun þarf að ráðast í til að veita opinbera þjónustu. Nauðsynlegt er að almennt fari fram fullnægjandi úttekt á reikningslegum forsendum gjaldtöku af hálfu þeirrar stofnunar sem veitir þjónustuna og ráðuneytis þegar það leggur mat á hvort staðfesta beri gjaldskrá. Skortur á viðhlítandi undirbúningi opinberrar gjaldtöku á grundvelli þjónustugjalda kemur í veg fyrir að borgararnir geti metið hvort krafist sé réttra fjárhæða í ljósi þess almenna kostnaðar sem hlýst af því að veita þjónustuna. Ég tek einnig fram að hvað sem líður almennum ályktunum um að það gjald sem Skráningarstofan hf. hafði áður innheimt fyrir miðlun upplýsinga eftir kennitölu úr ökutækjaskrá hafi ekki staðið undir kostnaði við að veita þjónustuna, bar Umferðarstofu, og síðar ráðuneytinu við staðfestinguna, að undirbúa umrædda gjaldtöku vegna miðlunar upplýsinga úr ökutækjaskrá eftir gildistöku laga nr. 83/2002 með þeim hætti sem samrýmdist grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um töku þjónustugjalda af hálfu hins opinbera.

3.

Ég minni á að í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og í umsögnum Umferðarstofu hefur að meginstefnu verið byggt á því að fjárhæð gjaldsins samkvæmt c-lið 7. gr. gjaldskrár nr. 681/2002 hafi verið ákveðin með hliðsjón af kostnaði við breytingar á tölvukerfi skráningar ökutækja til að unnt væri að koma til móts við kröfur Persónuverndar vegna rafrænna uppflettinga í ökutækjaskrá út frá kennitölum. Þá hafi einnig fallið til árlegur rekstrarkostnaður vegna eftirlits Umferðarstofu með lögmætri notkun aðgangs að kennitöluuppflettingum í ökutækjaskrá.

Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín, dags. 6. október 2004, fylgdu þrjár sundurliðanir Umferðarstofu um kostnað við útgáfu vottorða úr ökutækjaskrá eftir kennitölu eigenda (sundurliðun I), um kostnað við rafrænar uppflettingar í ökutækjaskrá eftir kennitölu eigenda (sundurliðun II) og um endurskoðun kostnaðar við slíkar rafrænar uppflettingar (sundurliðun III). Eins og kvörtun máls þessa er úr garði gerð og að virtum ofangreindum sjónarmiðum hefur athugun mín alfarið beinst að gjaldi sem tekið er samkvæmt gjaldskrá Umferðarstofu nr. 681/2002 fyrir rafræna uppflettingu í ökutækjaskrá eftir kennitölu eigenda. Hef ég því tekið til athugunar hvort þau sjónarmið og kostnaðarliðir sem lýst er hér að framan og nánar eru rakin í sundurliðunum II og III eigi sér næga stoð í ákvæði f-liðar 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sem er sú gjaldtökuheimild sem telja verður að liggi til grundvallar þessum gjaldskrárlið, sbr. umfjöllun mín í kafla III.2 hér að framan.

Í sundurliðun II er kostnaði við rafræna uppflettingu lýst sem annars vegar „stofnkostnaði“ en undir hann fellur vinna vegna viðmótshönnunar og útlitshönnunar, forritun, vinna vegna breytinga á verklagsreglum, gerð og hönnun umsóknareyðublaða, vélbúnaður og verkefnastjórnun, umsjón og villuprófanir, samtals að fjárhæð 2.717.500 krónur sem afskrifuð er á fjórum árum. Hins vegar er um að ræða „árlegan rekstrarkostnað“ en hann felst í kostnaði vegna vinnu við eftirlit, vinnu við meðferð og umsýslu umsókna, reikningagerðar og sendingarkostnaðar, viðhalds og vinnu tölvumanna og kostnaðarþátttöku í gagnavörslu, vöktun og eftirliti, notendaþjónustu, geymslu afrita, stjórnun, bakvaktarkostnaði, skjölun, samþættingu kerfa, öryggismálum, rekjanleika, viðhaldi vélbúnaðar, viðhaldi kerfisbúnaðar, gæðakerfis o.fl., samtals að fjárhæð 5.769.375 með árlegum hluta af stofnkostnaði.

Í sundurliðun III er lýst niðurstöðum endurskoðunar á kostnaði við rafræna uppflettingu í ökutækjaskrá eftir kennitölu eigenda og er þar byggt á sömu meginkostnaðarliðum, þ.e. annars vegar stofnkostnaði og hins vegar árlegum rekstrarkostnaði, en ég tel ekki í sjálfu sér ástæðu til að rekja þær fjárhæðir sem þar koma fram. Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín, dags. 6. október 2004, er um rökstuðning fyrir því mati ráðuneytisins að gjaldskráin sé reist á réttum lagagrundvelli og málefnalegum sjónarmiðum vísað til ofangreindra sundurliðana II og III og umsagnar Umferðarstofu, dags. 24. september 2004, sem rituð var í tilefni af athugun minni en þar er fjallað nánar um efni þessara sundurliðana.

Með þetta í huga ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, dags. 27. desember 2004, þar sem ég vísaði til þess að í umsögn Umferðarstofu kæmi fram að ákveðið hefði verið á árinu 2003 að heimila rafræna uppflettingu í ökutækjaskrá út frá kennitölum eigenda í samræmi við kröfur þeirra sem óskuðu eftir slíkum upplýsingum. Kæmi þar einnig fram að breyta hafi þurft tölvukerfi Umferðarstofu til að gera þetta kleift en stofnkostnaður við þessa breytingu hafi verið töluverður og um fjárhæðir í þessum efnum væri vísað til sundurliðunar II sem ég gerði grein fyrir hér að framan. Yrði ráðið að þar hafi verið um tæplega helming alls rekstrarkostnaðar við rafrænar uppflettingar í ökutækjaskrá að ræða. Óskaði ég sérstaklega eftir því að ráðuneytið lýsti afstöðu sinni til þess hvort það teldi heimilt að standa straum af stofnkostnaði vegna nýs tölvukerfis á grundvelli heimildar í f-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 50/1987. Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 9. febrúar 2005, til mín af þessu tilefni segir aðeins um lagastoð þessa kostnaðarliðar að ráðuneytið hafi talið að „lagaheimildir hafi ekki staðið því í vegi að umrætt gjald hafi að hluta til verið látið standa undir því að koma hinni nýju þjónustu á laggirnar með stofnkostnaði á hugbúnaði sem einskorðaðist við kennitölumiðlun upplýsinga, enda [liggi] fyrir að í þessu [hafi falist] afturhvarf frá mun hægvirkari og kostnaðarsamari þjónustu með það fyrir augum að reyna að bæta þjónustu við viðskiptavini án þess að kostnaður þeirra ykist. Um [væri] að ræða kostnað sem [sé] í nánum og efnislegum tengslum við þjónustuna og [væri] hann í raun forsenda þess að unnt væri að veita umrædda þjónustu“.

Ég minni á að í f-lið 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga er mælt fyrir um að til Umferðarstofu renni „önnur gjöld sem Umferðarstofa innheimtir samkvæmt gjaldskrá sem staðfest er af ráðherra“. Hvorki er í umferðarlögum nr. 50/1987 né í athugasemdum við 10. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 83/2002 að finna nánari afmörkun á þeim kostnaðarliðum sem felldir verða undir „önnur gjöld“ í þessu sambandi. Ég ítreka að með þessu lagaákvæði er veitt einföld heimild til að taka gjald fyrir þjónustu sem Umferðarstofa veitir enda sé mælt fyrir um gjaldið í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Af lagatextanum eða athugasemdum í lögskýringargögnum verður því ekki dregin önnur ályktun en að opinber gjaldtaka á grundvelli lagaheimildarinnar og gjaldskrár sem sett er verði aðeins reist á þeim almennu reglum stjórnsýsluréttar um töku þjónustugjalda sem viðurkenndar hafa verið í réttarframkvæmd, sbr. umfjöllun mín hér að framan, og þá einnig um afmörkun kostnaðarliða af því tilefni. Í ljósi þessa geta fjárhæðir þeirra gjalda sem krafist er á grundvelli f-liðar 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga ekki verið hærri en sem nemur þeim almenna kostnaði sem hlýst af því að veita þá opinberu þjónustu sem látin er í té gegn greiðslu gjaldsins. Án skýrari lagaheimildar tel ég þannig að almennt verði opinberu stjórnvaldi ekki játuð heimild til að fella stofnkostnaðarliði sem hljótast af ákvörðun þess um að gera tilteknar almennar skipulags- og kerfisbreytingar undir þann kostnað sem almennt hlýst af því að veita hina sérgreindu þjónustu í hverju tilviki. Breytir það í sjálfu sér engu um þessa afstöðu að kerfisbreyting kunni sem slík að hafa það að markmiði að veita borgurunum betri og skilvirkari þjónustu enda verður það að vera verkefni löggjafans í ljósi grundvallarreglna stjórnsýsluréttar um tekjuöflun hins opinbera að taka þá skýra ákvörðun um kostnaðarþátttöku borgaranna í formi þjónustugjalda. Að öðrum kosti verður að fjármagna slíkar almennar kerfisbreytingar með þeim fjármunum sem opinber stofnun hefur til ráðstöfunar samkvæmt fjárlögum eða öðrum sértekjum.

Með þetta í huga tel ég að ekki hafi verið sýnt fram á að heimilt hafi verið samkvæmt f-lið 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga að telja stofnkostnað, sem hlaust af þeirri ákvörðun Umferðarstofu að gera rafræna uppflettingu í ökutækjaskrá eftir kennitölu eigenda mögulega, til kostnaðar við að veita lögmönnum í innheimtustarfsemi eða skiptastjórum hina sérgreindu þjónustu í hverju tilviki. Eins og atvikum er háttað, og í ljósi niðurstöðu minnar hér að framan um skort á viðhlítandi undirbúningi að setningu gjaldskrár nr. 681/2002, tel ég hins vegar ekki tilefni til þess að fjalla hér sérstaklega um þá kostnaðarliði sem taldir eru til árlegs rekstrarkostnaðar við rafræna uppflettingu í ökutækjaskrá eftir kennitölu eigenda samkvæmt sundurliðunum Umferðarstofu.

IV. Niðurstaða.

Með vísan til framangreinds er það í fyrsta lagi niðurstaða mín að Umferðarstofa hafi samkvæmt f-lið 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 heimild til að innheimta gjald fyrir þá þjónustu sem felst í því að miðla upplýsingum um eigendur bifreiða, m.a. með rafrænni uppflettingu eftir kennitölu, úr ökutækjaskrá. Það er hins vegar álit mitt að misbrestur hafi verið á því að ákvörðun gjalda þeirra sem mælt er fyrir um í ákvæði c-liðar 7. gr. gjaldskrár Umferðarstofu nr. 681/2002 hafi verið byggð á nægilega traustum reikningslegum grunni. Þá tel ég að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi ekki með viðhlítandi hætti sinnt þeirri eftirlitsskyldu sem leiddi af staðfestingarhlutverki þess samkvæmt ákvæði f-liðar 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga þegar það staðfesti gjaldskrána. Í öðru lagi er það niðurstaða mín að ekki hafi verið sýnt fram á að heimilt hafi verið samkvæmt f-lið 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga að telja stofnkostnað, sem hlaust af þeirri ákvörðun Umferðarstofu að gera rafræna uppflettingu í ökutækjaskrá eftir kennitölu eigenda mögulega, til kostnaðar við að veita lögmönnum í innheimtustarfsemi eða skiptastjórum hina sérgreindu þjónustu í hverju tilviki. Eins og atvikum er háttað, og í ljósi niðurstöðu minnar hér að framan um skort á viðhlítandi undirbúningi að setningu gjaldskrár nr. 681/2002, tel ég ekki tilefni til þess að fjalla hér sérstaklega um þá einstöku kostnaðarliði sem taldir eru til árlegs rekstrarkostnaðar við rafræna uppflettingu í ökutækjaskrá eftir kennitölu eigenda samkvæmt fyrirliggjandi sundurliðunum Umferðarstofu.

Í umsögn Umferðarstofu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 24. september 2004, kemur fram að enda þótt enn sé „talsverður kostnaður við umsýslu kennitöluuppflettinga hjá Umferðarstofu og fyrirhugaðar breytingar varðandi kerfið allt saman“ telji stofnunin að „svigrúm [hafi] myndast til að endurskoða gjaldtökuna. Umferðarstofa [hafi] því þegar sett inn í drög að endurskoðaðri gjaldskrá Umferðarstofu tillögu um lækkun gjaldsins. Gjaldskráin [sé] um þessar mundir í endurskoðun hjá Umferðarstofu og [verði] tillögur að breytingum sendar samgönguráðuneytinu innan skamms“. Þá segir að í tillögunni sé lagt til að verð fyrir rafræna uppflettingu eftir kennitölu verði 400 krónur en verð fyrir útgefið vottorð verði áfram 700 krónur. Ég tek fram að eftir því sem best verður séð hafa ekki enn, einu ári síðar, verið gerðar þær breytingar á gjaldskránni sem boðaðar voru af hálfu Umferðarstofu í umsögn hennar og því sé gjaldið enn 700 krónur fyrir rafræna uppflettingu úr ökutækjaskrá eftir kennitölu, sem fellur undir „útskrift eftir kennitölu“, sbr. c-lið 7. gr. gjaldskrárinnar.

Eins og fram er komið hefur samgönguráðherra nú tekið við stjórnarfarslegri ábyrgð á eftirliti með framkvæmd umferðarlaga og yfirstjórn Umferðarstofu af dóms- og kirkjumálaráðherra, sbr. 1. gr. laga nr. 132/2003, um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987, með síðari breytingum, og 3. tölul. 11. gr. reglugerðar nr. 3/2004, um Stjórnarráð Íslands. Í umsögn Umferðarstofu, dags. 24. september 2004, til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins kemur fram að afrit af henni sé sent samgönguráðuneytinu. Þrátt fyrir þetta er því lýst í bréfi samgönguráðuneytisins sem mér barst 21. nóvember 2005 að drög að þeirri breytingu á gjaldskrá Umferðarstofu sem lýst hafi verið í umsögn stofunnar frá 24. september 2004 hafi borist ráðuneytinu 27. júní 2005. Hvað sem þessu líður tel ég ámælisvert og ekki í samræmi við þau lagasjónarmið sem búa að baki heimildum til töku þjónustugjalda að draga það svo lengi sem raunin er í þessu máli að endurskoða fjárhæð umrædds gjalds samkvæmt gjaldskránni þegar viðurkennt er að „svigrúm [hafi] myndast til að endurskoða gjaldtökuna“. Ég bendi jafnframt á að samgönguráðuneytið tekur fram í bréfi því sem mér barst 21. nóvember sl. að það telji einsýnt að hið umdeilda 700 kr. gjald sé óeðlilega hátt. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 27. október 2005 sem vísað er til í þessu síðastnefnda bréfi samgönguráðuneytisins réttlætir að mínu áliti ekki þann drátt sem þá þegar var orðinn á endurskoðun umræddrar gjaldtöku af hálfu hlutaðeigandi stjórnvalda. Ég tel því rétt að beina þeim tilmælum til samgönguráðuneytisins að það geri reka að því að c-liður 7. gr. gjaldskrár Umferðarstofu nr. 681/2002 verði tekinn til endurskoðunar og að þá verði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í þessu áliti.

Það er sem fyrr segir niðurstaða mín að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi ekki með viðhlítandi hætti sinnt þeirri eftirlitsskyldu sem leiddi af staðfestingarhlutverki þess samkvæmt ákvæði f-liðar 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga þegar það staðfesti gjaldskrána á árinu 2002. Ég tel því tilefni til þess að beina þeim almennu tilmælum til ráðuneytisins að það hagi framvegis undirbúningi og málsmeðferð við staðfestingu gjaldskráa og annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla, sem ráðuneytið er að lögum falið að hafa með höndum, með þeim hætti sem lýst er í þessu áliti og að það gæti þá að því að staðfestingin feli í sér raunhæft og virkt eftirlit með lögmæti stjórnvaldsfyrirmælanna.

Ég tek loks fram að eins og rakið er í kafla III.2 tel ég mig ekki geta fullyrt annað en að Umferðarstofa hafi að lögum heimild til að innheimta gjald fyrir þá þjónustu sem álit þetta fjallar um á grundvelli f-liðar 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga. Hvað sem því líður er það sem fyrr segir niðurstaða mín að þess hafi ekki verið gætt að leggja viðhlítandi grundvöll að gjaldtöku á grundvelli gjaldskrár Umferðarstofu fyrir rafræna uppflettingu í ökutækjaskrá eftir kennitölu og að þar hafi að sumu leyti verið byggt á sjónarmiðum sem ekki samrýmist meginreglum um þjónustugjöld að virtum lagagrundvelli gjaldtökunnar í f-lið 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga. Þá liggur fyrir sú afstaða samgönguráðuneytisins að hið umdeilda gjald sé óeðlilega hátt. Eins og atvikum er háttað tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að fjalla um hvort og þá hvaða afleiðingar fyrirliggjandi annmarkar á formlegum grundvelli umræddrar gjaldtöku kunni að hafa að lögum og þar með um hugsanlega endurgreiðslu þess sem kann að hafa verið oftekið.

V. Viðbrögð stjórnvalda.

Ég ritaði samgönguráðuneytinu bréf, dags. 2. febrúar 2006, þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um það hvort ráðuneytið hefði gert einhverjar tilteknar ráðstafanir í tilefni af áliti mínu og þá í hverju þær ráðstafanir hafi falist. Í svarbréfi samgönguráðuneytisins, dags. 10. mars 2006, kemur fram að gjaldskrá Umferðarstofu hafi verið breytt með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 76/2006, sem birst hefði 3. febrúar 2006. Gjald fyrir uppflettingu í ökutækjaskrá hefði verið lækkað úr 700 kr. í 400 kr. Um frekari upplýsingar um verklag við undirbúning að þessari breytingu var í bréfinu vísað til minnisblaðs ráðuneytisins sem fylgdi með bréfi þess til mín.

Ég ritaði jafnframt dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, dags. sama dag, þar sem ég fór fram á upplýsingar um hvort álit mitt hefði orðið ráðuneytinu tilefni til að grípa til einhverra tiltekinna ráðstafana og þá í hverju þær fælust. Mér barst svarbréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 19. maí 2006. Þar upplýsir ráðuneytið að þau almennu tilmæli sem sett hefðu verið fram í áliti mínu hefðu verið tekin til umfjöllunar í ráðuneytinu. Myndi ráðuneytið hér eftir leitast við að haga undirbúningi og ákvarðanatöku um gjaldskrár og eftirlitsskyldu vegna staðfestingarhlutverks síns, út frá þeim meginsjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.