Skattar og gjöld. Fermingargjald. Lögmætisreglan.

(Mál nr. 4213/2004)

A kvartaði yfir því að honum sem foreldri fermingarbarns væri gert að greiða presti þjóðkirkjunnar sérstakt gjald fyrir ferminguna. Taldi A að ekki væri lagaheimild til innheimtu gjaldsins þar sem hann hefði með sköttum sínum og gjöldum til ríkisins þegar greitt fyrir þjónustu þjóðkirkjunnar enda kostnaður við rekstur hennar, þ.m.t. laun presta hans, að mestu greiddur úr ríkissjóði.

Umboðsmaður fjallaði um gjaldskrá nr. 668/2003 um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar en samkvæmt 2. tölulið 2. gr. hennar nemur greiðsla fyrir fermingu 9.300 kr. Tók umboðsmaður fram að gjaldskráin væri sett af dóms- og kirkjumálaráðherra á grundvelli 3. gr. laga nr. 36/1931 um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra. Benti umboðsmaður á að líta yrði til þess lagaramma er Alþingi hefði sett um heimildir einstakra presta og kirkna til gjaldtöku fyrir kirkjulega þjónustu og jafnframt hvaða þjónustu af því tagi meðlimir þjóðkirkjunnar ættu kröfu til án endurgjalds.

Umboðsmaður tók fram að samkvæmt lögum nr. 78/1997, um stjórn, stöðu og starfshætti þjóðkirkjunnar, greiddi íslenska ríkið árlegt framlag til þjóðkirkjunnar sem skyldi, ásamt öðrum lögbundnum og ólögbundnum tekjustofnum kirkjunnar, nægja til reksturs hennar. Samkvæmt lögunum stæði ríkið ennfremur skil á launum presta. Kjaranefnd ákvæði laun presta og úrskurðaði jafnframt um hvaða aukastörf tilheyrðu aðalstarfi þeirra og hver bæri að launa sérstaklega. Þó að nefndin hefði ekki úrskurðað sérstaklega um hvort ferming tilheyrði aðalstarfi presta þá hefði hún í störfum sínum ávallt byggt á því að svo væri. Umboðsmaður tók fram að samkvæmt 4. mgr. 49. gr. laga nr. 78/1997 ættu sóknarmenn rétt á kirkjulegri þjónustu. Af forsögu þess ákvæðis yrði ráðið að ferming teldist til kirkjulegrar þjónustu. Umboðsmaður benti á að þrátt fyrir lagabreytingar á síðustu áratugum hefði Alþingi ekki haggað við ákvæði 3. gr. laga nr. 36/1931 er mælti fyrir um að fyrir aukaverk bæri prestum þóknun eftir gjaldskrá er ráðuneytið setti til 10 ára í senn. Taldi umboðsmaður í ljósi þessa fullnægjandi lagaheimild fyrir töku presta þjóðkirkjunnar á sérstöku gjaldi fyrir fermingu í samræmi við ákvæði gjaldskrár er ráðherra setti á grundvelli 3. gr. laganna.

Umboðsmaður benti á að 3. gr. laga nr. 36/1931 fæli í sér lögbundið frávik frá meginsjónarmiðum laga nr. 78/1997 um að ríkið stæði undir rekstrarkostnaði þjóðkirkjunnar og launagreiðslum til presta hennar. Tók umboðsmaður í fyrsta lagi fram að af þessu fyrirkomulagi leiddi að sérstök sjónarmið kæmu til álita við afmörkun þóknunar fyrir „aukaverk“ presta. Kæmi hér til að ráðuneytið væri í þeirri aðstöðu að þurfa að ákveða prestum „þóknun“ fyrir aukaverk sem þeir kynnu að sinna að hluta til á sama tíma og störfum sem hefðbundnar og fastar launagreiðslur presta kæmu fyrir. Yrði því ekki fullyrt að við afmörkun fjárhæða er gjaldskráin byggði á væri rétt að miða að öllu leyti við þær ströngu kröfur er gerðar væru til forsendna þjónustugjalda, þ.m.t. kostnaðar. Í öðru lagi tók umboðsmaður fram að þegar ráðuneytið hefði ákveðið hverjar forsendur það legði til grundvallar ákvörðun sinni, að því gefnu að þær væru lögmætar og málefnalegar, yrði það að ákveða hina endanlegu fjárhæð þóknunar fyrir hvert „aukaverk“ með tilliti til þeirra almennu reglna sem að stjórnsýslurétti væru taldar gilda um þjónustugjöld.

Umboðsmaður vísaði því næst til skýringa dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á útreikningi 9.300 króna fermingargjaldsins. Hefði ráðuneytið tekið fram að gjaldskráin nr. 668/2003 væri að stofni til byggð á gjaldskrá ársins 1993. Hefði eldri gjaldskráin einungis verið uppreiknuð í samræmi við verðlagsþróun. Gjöld samkvæmt gjaldskránni 1993 hefðu hins vegar verið byggð á einingakerfi þar sem reiknað hefði verið út hvaða vinna lægi að baki hverju aukaverki og fjöldi eininga miðaður við það. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins væru gögnin með útreikningum hins vegar ekki lengur tiltæk. Umboðsmaður tók fram af þessu tilefni að ekki væru forsendur til þess að meta hvort fermingargjaldið samkvæmt gjaldskrá nr. 668/2003 hefði verið ákveðið réttilega. Í ljósi þessa var það niðurstaða umboðsmanns að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði ekki gætt þessi nægilega að ákvörðun um fermingargjald í gjaldskrá 668/2003 hefði verið undirbúin á viðhlítandi hátt á grundvelli mats á þeim atriðum sem heimilt væri að taka tillit til varðandi þau „aukaverk“ sem ákvæði 3. gr. laga nr. 36/1931 tækju til.

Í máli A kom einnig fram að í tilviki barns A hafði prestur krafið greiðslu á kr. 10.000 en samkvæmt gjaldskrá nr. 668/2003, um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar, nemur greiðsla fyrir fermingu kr. 9.300. Í skýringum biskupsstofu kom fram að umræddur 700 kr. mismunur væri vegna „fræðsluefnis“ er forráðamenn fermingarbarna í viðkomandi sókn hefðu verið krafðir um. Umboðsmaður benti á að það væri í verkahring dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að hafa með því eftirlit hvort gjaldtaka presta fyrir aukaverk væri í samræmi við lög. Þar sem álagning 700 króna aukagjaldsins vegna fræðsluefnisins hefði ekki verið borin undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið myndi hann ekki tjá sig um þann hluta kvörtunarinnar að svo stöddu.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðherra að hann tæki gjaldskrá nr. 668/2003 til endurskoðunar í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hefðu verið í álitinu.

Jafnframt beindi umboðsmaður þeim tilmælum til Alþingis og dóms– og kirkjumálaráðherra að taka til endurskoðunar ákvæði laga nr. 36/1931 með það í huga að taka afstöðu til þess hvort rétt væri að laun presta annars vegar og þóknanir þeirra fyrir „aukaverk“ hins vegar væru ákveðin af tveimur mismunandi stjórnvöldum. Jafnframt að afmarkað yrði nánar í lögum hvað teldust „aukaverk“ presta þjóðkirkjunnar þannig að löggjafinn tæki beina afstöðu til þess hvaða þjónustu presta þjóðkirkjunnar hann teldi rétt að þeir greiddu er þjónustunnar nytu.

I. Kvörtun.

Hinn 21. september 2004 leitaði til mín A og kvartaði yfir því að honum væri sem foreldri fermingarbarns gert að greiða presti þjóðkirkjunnar sérstakt gjald fyrir ferminguna. Telur A að lagaheimild standi ekki til þessarar gjaldtöku þar sem hann hafi með sköttum sínum og gjöldum til ríkisins þegar greitt fyrir þjónustu þjóðkirkjunnar enda sé kostnaður við rekstur þjóðkirkjunnar greiddur að mestu úr ríkissjóði, þar með talin laun presta. Þá kom síðar fram að í tilviki barns hans hafði prestur krafið um greiðslu á kr. 10.000 í fermingargjald en samkvæmt gjaldskrá nr. 668/2003, um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar, nemur greiðsla fyrir fermingu 9.300 kr.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 9. desember 2005.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, dags. 6. október 2004. Þar rakti ég ákvæði gjaldskrár nr. 668/2003, um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar sem dómsmálaráðherra setti á grundvelli heimildar í 3. gr. laga nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra. Jafnframt vék ég í bréfi mínu að forsögu ákvæða um sérstaka þóknun presta fyrir ákveðin verk sem þeir ynnu í embættisnafni. Í bréfi mínu tók ég fram að áður en ég tæki frekari ákvörðun um athugun mína á kvörtun A óskaði ég eftir því að ráðuneytið afhenti mér þau gögn sem kynnu að hafa legið fyrir við staðfestingu umræddrar gjaldskrár og lýsti viðhorfi sínu til kvörtunarinnar, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Var þess sérstaklega óskað að ráðuneytið lýsti afstöðu sinni til lagagrundvallar gjaldsins. Jafnframt óskaði ég eftir því að upplýst yrði með hvaða hætti ráðuneytið hefði kannað þær fjárhæðir og þá útreikninga sem lágu til grundvallar ákvörðun fjárhæðar gjalds fyrir fermingu áður en gjaldskráin var staðfest, og þá með tilliti til þeirra almennu reglna sem að stjórnsýslurétti eru taldar gilda um þjónustugjöld.

Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 22. nóvember 2004, sagði meðal annars:

„Óhjákvæmilegt þykir að rekja í nokkru máli hvernig launamál presta hafa verið síðastliðna öld. Þegar ný lög voru sett um föst laun presta árið 1907, en þeir höfðu fram til þess tíma ekki fengið greidd laun úr ríkissjóði, var í 4. gr. þeirra vísað til gildandi laga um borgun til presta fyrir aukaverk og þau látin halda sér. Er þar um að ræða tilskipun frá 1847, með ákveðnum taxta fyrir einstök verk, sem var 6 álnir fyrir hjónavígslu, 3 álnir fyrir barnsskírn, 12 álnir fyrir fermingu og 6 álnir fyrir líksöng, og væri ræða haldin að beiðni þeirra sem hlut eiga að máli, þá skal goldið sæmilega og eftir efnum beiðenda.

Í meginatriðum giltu þessar reglur til 1931, þegar lög nr. 36/1931 voru sett. Tvær ástæður eru dregnar fram fyrir því að ný lög voru sett um embættiskostnað og aukaverk presta. Annars vegar var sú verðlagsskrá að miða við meðalalin orðin úrelt og mikið misræmi á álnaverði eftir landshlutum. Tilgangurinn var því sá að koma á samræmi á greiðslu þessara verka hvar sem var á landinu. Hins vegar átti með endurskoðun á 10 ára fresti að tryggja samræmi gjaldskrár við verðlag á hverjum tíma. Fyrsta gjaldskráin eftir lagabreytinguna var sett 19. febrúar 1932, og var greiðsla fyrir aukaverkin ákveðin þannig að fyrir skírn voru 5.00 krónur, fyrir fermingu með undirbúningi 18.00 krónur, fyrir hjónavígslu 12.00 krónur og fyrir greftrun framliðinna 8.00 krónur.

Hafa gjaldskrár um greiðslu aukaverka presta síðan verið endurnýjaðar í samræmi við lögin, þær þrjár síðustu árin 1969, 1985 og 1993.

Til samanburðar má geta þess að greiðsla fyrir aukaverk presta eru nú samkvæmt gjaldskrá nr. 668/2003 sem hér greinir, að fyrir skírn er 3.500 krónur; þó ókeypis ef skírt er við guðsþjónustu, fyrir fermingu 9.300 krónur, fyrir hjónavígslu 6.500 og fyrir jarðarför (greftrun + kistulagning) kr. 17.900.

Um þessi efni er nánar fjallað á bls. 51-60 í meðfylgjandi álitsgerð um starfskjör presta þjóðkirkjunnar, október 1986, af nefnd sem skipuð hafði verið af kirkjumálaráðherra.

Frekar en að senda yður margvísleg vinnugögn varðandi hækkun á síðustu gjaldskrá þykir nægilegt að senda yður meðfylgjandi minnisblað dóms- og kirkjumálaráðherra til kynningar í ríkisstjórninni hinn 8. september 2003 um endurskoðun á gjaldskrá um aukaverk presta nr. 80/1993. Þar er rakið að á sl. 10 ára tímabil hafa gjaldskráin aðeins verið hækkuð einu sinni um 15%, en sú hækkun hafi verið í takt við hækkun á aukatekjulögum.

Í minnisblaðinu er jafnframt rakið hvernig ýmsar vísitölur hafi hækkað á þessu árabili.

Ráðuneytið hefur leitað umsagnar biskups Íslands vegna erindis yðar. Í svari hans, sem er unnið í samráði við Prestafélag Íslands, er tekið fram að greiðsla fyrir aukaverk, þar með talin fermingarfræðsla er ekki og hefur aldrei verið innifalin í launum presta sem greidd eru úr ríkissjóði. Sóknargjöld eru þessum greiðslum vegna aukaverka óviðkomandi, þar eð fjárhagur sókna og presta er aðskilinn. Lögin frá 1907 og 1931 gera ráð fyrir að prestum sé greitt sérstaklega fyrir fermingarfræðslu og önnur aukaverk. Upphæð greiðslu vegna fermingar í núgildandi gjaldskrá byggir á einingakerfi gjaldskrárinnar 1993 en þar var vandlega reiknað út hvaða vinna lægi að baki hverju aukaverki og fjöldi eininga miðaðar við það. Í námskrá fermingarstarfanna, sem samþykkt var á Prestastefnu árið 1999, er innihaldi fræðslunnar gerð skil. Í meðfylgjandi námsskrá er því lýst á bls. 44 að ráðgert sé að fræðslan sé 30 stundir, kirkjusókn 3-10 guðsþjónustur, þátttaka í safnaðarstarfi 8-12 stundir og 4-8 stundir á sameiginlegum fundum prests með fermingarbörnum og foreldrum þeirra.

Ráðuneytið telur lagagrundvöllinn fyrir gjaldinu ótvíræðan. Greiðsla fyrir fermingu hefur hvorki hækkað meira en önnur aukaverk, fremur lækkað, í samanburði við gjaldskrár þær sem raktar hafa verið hér að ofan. Þá hefur gjaldskráin ekki haldist í hendur við almennar verðlagshækkanir, og þess má geta að rakið er í áliti starfskjaranefndar á bls. 55 í áðurnefndri álitsgerð, að árið 1969 hafi stjórn Prestafélagsins tekið þá ákvörðun að hækka hana umfram það sem gjaldskrá ráðuneytisins frá 1969, heimilaði. Það er álit dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að við ákvörðun á hækkun fjárhæða og útreikninga í því sambandi, hafi verið tekið fullt tillit til almennra reglna sem talið er að gildi um þjónustugjöld að stjórnsýslurétti.

Í öðrum norrænum löndum tíðkast ekki greiðslur fyrir aukaverk presta með sama hætti og hér á landi. Af hálfu ríkisvaldsins hefur vilji staðið til þess um langt skeið að afnema greiðslur fyrir aukaverk, og ríkisvaldið og stjórn Prestafélags Íslands hafa um nokkurt árabil verið að kanna hvort og þá hvernig væri unnt að fella niður greiðslur fyrir aukaverk, og fá þau metin við ákvörðun á launum presta hjá kjaranefnd, eins og greint er frá í áðurnefndu minnisblaði kirkjumálaráðherra til ríkisstjórnarinnar frá 8. september 2003. Hefur kjaranefnd fylgst náið með og tekið þátt í umræðum um þessi mál í meira en undanfarinn áratug.

Á Kirkjuþingi haustið 2003 var samþykkt tillaga um að leita leiða til að breyta fyrirkomulagi á greiðslu vegna skírnar og fermingarfræðslu, http:www.kirkjan.is/kirkjuthing/ ?gerdir/2003/mal16. Kirkjuráð fól biskupi Íslands málið og hefur nú verið myndaður fjögurra manna starfshópur til að fara yfir málið. Átti starfshópurinn fund í gær, 11. nóvember, með formanni kjaranefndar, en þar var málið rifjað upp og reifað. Miðað við fjölda væntanlegra fermingarbarna hjá þjóðkirkjunni er verið að ræða um að heildargreiðslur vegna þeirra nemi um 40-42 millj. kr. næsta vor til presta og annarra fræðara, sem sumir prestar fá til að taka að sér hluta fræðslunnar í stærstu prestaköllunum. Þá er ljóst að ríkissjóður er ekki reiðubúinn að taka á sig að fullu þær greiðslur, sem foreldrar fermingarbarna hafa hingað til greitt. Með sama hætti eru prestar heldur ekki sáttir við að kjör þeirra rýrni að neinu verulegu marki, verði sú leið farin að færa aukatekjurnar inn í fastar launagreiðslur sem kjaranefnd ákveður. Af ummælum formanns kjaranefndar á nefndum fundi má ráða að nefndin sé til viðræðu um breytingar í þá veru sem lýst hefur verið. Er því einmitt um þessar mundir verið að skoða hvaða valkostir komi til greina og hvernig unnt yrði að útfæra þá.“

Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf að nýju, dags. 10. desember 2004. Vék ég að því atriði í svarbréfi ráðuneytisins þar sem segði að upphæð gjalds vegna fermingar í núgildandi gjaldskrá byggðist á einingakerfi gjaldskrár sem sett hefði verið 1993 en þar hefði verið „vandlega reiknað út hvaða vinna lægi að baki hverju aukaverki og fjöldi eininga miðaður við það“. Þá tók ég fram að af minnisblaði dóms- og kirkjumálaráðherra til ríkisstjórnarinnar, dags. 8. september 2003, sem fylgt hefði bréfi ráðuneytisins til mín, yrði ekki annað séð en að hækkun sú er gerð var á greiðslum fyrir aukaverk presta með gjaldskrá nr. 668/2003 hefði tekið mið af þróun vísitölu frá því að síðasta reglugerð um aukaverk presta var sett árið 1993. Af þessu tilefni óskaði ég eftir því að ráðuneytið afhenti mér þau gögn sem lágu til grundvallar upphaflegri ákvörðun um fjárhæð gjalds fyrir fermingu í reglugerð um aukaverk presta árið 1993. Þá vakti ég athygli á því að af bréfi ráðuneytisins til mín yrði enn fremur ráðið að mér hefðu ekki enn verið send öll þau gögn sem fyrir lægju og vörðuðu þá hækkun sem ákveðin var á greiðslum til presta með gjaldskrá nr. 668/2003. Í bréfi ráðuneytisins segði að „frekar en að senda [mér] margvísleg vinnugögn varðandi hækkun á síðustu gjaldskrá [hefði þótt] nægilegt“ að senda mér minnisblað dóms- og kirkjumálaráðherra. Ítrekaði ég af þeirri ástæðu ósk mína um þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðun um hækkun gjaldanna og óskaði ég jafnframt sérstaklega eftir því að ráðuneytið upplýsti mig um hvort önnur sjónarmið en verðlagsþróun hefðu legið að baki henni.

Í svarbréfi ráðuneytisins dags. 6. janúar 2005 sagði m.a.:

„Að því er varðar hækkun árið 1993 þá finnast ekki útreikningar í skjalasafni ráðuneytisins er varpa ljósi á hvaða forsendur hafi verið lagðar til grundvallar þeirri hækkun sem þá var gerð. Að sögn þess starfsmanns er fór með kirkjuleg málefni af þessu tagi á þeim tíma, minnist hann þess aðeins að hækkuninni hafi verið ætlað að fylgja eðlilegri verðlagsþróun og að einingakerfið sem upp var tekið fyrir einstök aukaverk hafi átt að tryggja sjálfkrafa hækkun í takt við hækkun sem yrði gerð á aukatekjum ríkissjóðs, og fallið var frá því að tengja einingaverðið við laun presta, eins og gert hafði verið í gjaldskrá nr. 149 frá 1986.

Þau gögn sem fyrir liggja um þessa hækkun og sendast hjálögð, eru:

1) Ódagsett Excel-skjal þar sem sýnt er í tveimur dálkum gjald fyrir aukaverk, annars vegar núgildandi gjald og hins vegar nýtt gjald.

2) Bréf til Hagstofu Íslands, dags. 10. febrúar 1993, þar sem ofangreint skjal, sem kallað er drög að gjaldskrá, er sent og óskað álits á því hvaða áhrif sú hækkun hefði á framfærsluvísitölu.

3) Svarbréf Hagstofu Íslands, dags. 10. febrúar 1993, þar sem því er lýst hvað áætlað sé að slík hækkun hefði á vísitölu framfærslukostnaðar til hækkunar.

4) Ljósrit af frumriti gjaldskrárinnar, dags. 24. febrúar 1993.

5) Ljósrit af samriti bréfs til Stjórnartíðinda, þar sem óskað var birtingar á gjaldskránni, sem síðan var útgefin sem nr. 80 hinn 24. febrúar 1993.

II.

Sú breyting varð á lögum um aukatekjur ríkissjóðs að almenn 15% hækkun var ákveðin með lögum nr. 143/1997 er tók gildi frá og með 1. janúar 1998. Í tilefni af bréfi formanns Prestafélags Íslands var honum ritað bréf hinn 23. febrúar 1998, þar sem tekið er fram að litið sé svo á að forsendur skorti til að breyta grundvelli gjaldskrárinnar frá 1993 og að því sé erindi félagsins um breytingu á gjaldskránni hafnað.

Þau gögn sem fylgja um þessa málaleitan, eru:

1) Bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til [...], formanns Prestafélags Íslands, dags. 23. febrúar 1998.

III.

Er leið að þeim tíma að eðlilegt væri að hefja undirbúning að endurútgáfu gjaldskrár nr. 80/1993 síðla árs 2002 var þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, [...], með böggum hildar um hvort rétt væri að hækka gjaldskrána eða bíða átekta. Tekið var saman vinnuskjal, ódags., þar sem stillt er upp samanburðartölum miðað við hækkun á vísitölu neysluverðs, hækkun á vísitölu byggingarkostnaðar og hækkun á vísitölu launa. Einnig var leitað umsagnar Hagstofu Íslands um áhrif hækkunar prestverka á vísitölu og með tölvupósti, dags. 14. febrúar 2003, greinir Hagstofan frá því að hluti prestverka í vísitölunni sé lágur og áhrifin á vísitölu neysluverðs óveruleg. Að lokum var sá kostur valinn að framlengja gildistíma gjaldskrárinnar frá og með 1. mars 2003 til og með 31. desember 2003.

Þau gögn sem fylgja um þessa ákvörðun og sendast hjálögð, eru:

1) Ódagsett vinnuskjal ráðuneytisins um hugsanlega hækkun embættisverkanna, þar sem ýmsar vísitölur eru bornar saman.

2) Tölvupóstur frá Hagstofu Íslands, þar sem lýst er áhrifum af hækkun gjalds fyrir prestsverk.

3) Auglýsing nr. 136/2003 um framlengingu gjaldskrárinnar frá 1. mars til 31. desember 2003.

IV.

Nokkru eftir að nýr dóms- og kirkjumálaráðherra, [...], tók til starfa í maílok 2003 fór Prestafélag Íslands þess á leit að taka upp þráðinn að nýju varðandi hækkun á gjaldskránni. Síðsumars áttu sér stað viðræður milli ráðuneytisins og Prestafélagsins um hugsanlega hækkun. Þeim viðræðum, lyktaði síðan með því að ný gjaldskrá nr. 668/2003 var gefin út, en þar var gjald fyrir fermingu hækkað úr kr. 7.360 í kr. 9.300 sem er 26,35% hækkun. Þá var síðar gefin út breyting á gjaldskránni með auglýsingu nr. 989/2003 er laut einungis að ferða- og aksturskostnaði. Í þeirri auglýsingu er m.a. áréttað að eigi sé heimilt að innheimta aksturskostnað vegna fermingarstarfa.

Það skal hér með upplýst að ekki lágu að baki ákvörðuninni önnur sjónarmið en verðlagsþróun.

Þau gögn sem fylgja varðandi þennan þátt, eru:

1) Gjaldskrá nr. 668/2003 um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar.

2) Auglýsing nr. 989/2003 um breytingu á gjaldskrá nr. 668/2003.

3) Útprentun af heimasíðu Hagstofu Íslands um vísitölu neysluverðs, annars vegar í janúar 1998 og hins vegar í september 2003.“

Með bréfi sem barst mér 15. febrúar 2005 gerði A frekari athugasemdir við töku fermingargjaldsins. Fylgdi bréfinu bréf frá sóknarpresti Fella- og Hólakirkju sem stílað var til „foreldra/forráðamanna fermingarbarna vorið 2005“. Í umræddu bréfi voru þeir sem enn áttu eftir að greiða fermingargjaldið sem tiltekið var að væri kr. 10.000 minntir á að greiða það fyrir febrúarlok.

Af þessu tilefni ritaði ég biskupi Íslands bréf, dags. 8. mars 2005. Með vísan til ákvæða laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, um starfssvið biskups Íslands óskaði ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, að biskup lýsti viðhorfi sínu til þess hvort og þá að hvaða leyti umrædd gjaldtaka áðurnefnds sóknarprests samræmdist fyrirmælum 2. tölul. 2. gr. gjaldskrár nr. 668/2003. Teldi biskup að gjaldtaka í því tilviki sem kvörtunin beindist að væri ekki í samræmi við heimildir hlutaðeigandi prests óskaði ég eftir upplýsingum um hvort hann myndi hafa afskipti af því að gjaldtakan yrði leiðrétt.

Svar biskupsstofu barst mér með bréfi dags. 30. mars 2005. Kom þar fram að biskupsstofa hefði haft samband við sóknarprest Fellaprestakalls sem undirritaði framangreint bréf til fermingarbarna. Aðspurður um þann mun sem væri á uppgefinni fjárhæð í bréfinu og fjárhæð samkvæmt gjaldskrá dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hefði sóknarpresturinn upplýst að „þarna væri um að ræða gjald vegna fræðsluefnis og yrði reikningur framvegis sundurliðaður svo þetta kæmi skýrt fram“. Með bréfi, dags. 12. apríl 2005, sendi ég A bréf biskupsstofu til upplýsingar.

Hinn 4. júlí 2005 ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðherra enn á ný. Þar vísaði ég til þeirra laga sem innheimta fermingargjaldsins byggðist á og benti á að lög nr. 36/1931 hefðu leyst af hólmi lög nr. 46/1907, um laun sóknarpresta, en í 3. gr. þeirra laga sagði að auk embættislauna bæri hverjum presti borgun fyrir aukaverk eftir „gildandi lögum“ og skyldi hann sjálfur innheimta hana. Rakti ég að hvorki í lögum nr. 36/1931 né lögskýringargögnum að baki þeim væri tekin afstaða til þess hvaða verk það væru sem féllu undir „aukaverk“ í skilningi laganna. Þar væri heldur ekki vikið að þeim sjónarmiðum sem byggja skyldi á við ákvörðun á upphæð umræddra greiðsla. Þá vék ég að því að í núgildandi lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd, væri hins vegar mælt fyrir um sérstaka tilhögun við ákvörðun launa fyrir aukastörf sem ekki tilheyra aðalstarfi presta. Þannig segði í 11. gr. laganna að kjaranefnd skuli ákvarða föst laun fyrir dagvinnu og kveða á um önnur starfskjör. Í sama ákvæði segði að nefndin úrskurði hvaða „aukastörf tilheyri aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega“. Væri þar enn fremur kveðið á um að nefndin geti við ákvarðanir sínar tekið tillit til sérstakrar hæfni er nýtist í starfi og sérstaks álags sem starfinu fylgir. Í bréfi mínu vék ég einnig að ákvæði 4. mgr. 49. gr. laga nr. 78/1997, um stjórn, stöðu og starfshætti þjóðkirkjunnar, þar sem mælt er fyrir um að sóknarmenn eigi rétt á „kirkjulegri þjónustu“ í sókn sinni og rakti forsögu þess ákvæðis. Með hliðsjón af umfjöllun minni óskaði ég í bréfi mínu eftir því að ráðuneytið gerði mér grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lögð hefðu verið til grundvallar því að tiltekin þjónusta presta félli undir „aukaverk“ í skilningi laga nr. 36/1931 við setningu gjaldskrár ráðuneytisins um slík verk og um þýðingu 11. gr. laga nr. 120/1992 í því efni. Ennfremur óskaði ég þess, með hliðsjón af lögbundnu hlutverki kjaranefndar og úrskurðarvaldi nefndarinnar, að ráðuneytið upplýsti mig um hvort það hefði fyrir setningu gjaldskrár nr. 668/2003 leitað eftir afstöðu kjaranefndar til þess hvaða verk skyldu teljast „aukaverk“. Hefði slíkrar afstöðu nefndarinnar ekki verið leitað af hálfu ráðuneytisins óskaði ég þess að ráðuneytið gerði mér grein fyrir viðhorfum sínum til þess hvort og þá að hvaða leyti slík málsmeðferð samræmdist þeim sjónarmiðum er leidd yrðu af lögum nr. 120/1992.

Svar ráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 25. júlí 2005. Í bréfinu rekur ráðuneytið hvernig gjaldtöku presta fyrir aukaverk hafi verið skipað með lögum. Gerir ráðuneytið grein fyrir því að með lögum nr. 46/1907 hafi þeirri tilhögun verið komið á að greiða laun presta úr ríkissjóði. Þá hafi jafnframt verið settur sérstakur taxti á svonefnd aukaverk presta, þ.m.t. fermingu, sem tilgreind voru í tilskipun frá 27. janúar 1847. Í gjaldskrá settri skv. lögum nr. 31/1936 hafi síðan verið tekið fram í 1. gr. að „aukaverk presta eru hin sömu, er tíðkast hafa samkvæmt fyrirmælum laga og venjum kirkjunnar“. Í 2. gr. gjaldskrárinnar hafi eftirtalin verk talist aukaverk: skírn, ferming, hjónavígsla, greftrun framliðinna (líksöngur), endurskoðun kirkjureiknings og útgáfa vottorða í embættisnafni. Ráðuneytið tiltekur að í gjaldskrá 668/2003 sé að finna sömu tilgreiningu á aukaverkum og í fyrrgreindum reglum, utan endurskoðunar kirkjureikninga sem ekki sé lengur í verkahring presta og skírnar við guðsþjónustu sem ekki sé lengur greitt sérstaklega fyrir. Ráðuneytið lýsir því sem fram hafi komið hjá kjaranefnd um afstöðu nefndarinnar til greiðslna fyrir „aukaverk“. Í því efni rekur ráðuneytið tvo úrskurði nefndarinnar frá 29. nóvember 1993 og 12. júlí 2002 er bendi til þess að kjaranefnd hafi frá upphafi verið ljóst að prestar nytu greiðslna fyrir aukaverk og hver þau verk séu. Þá greinir ráðuneytið ítarlega, m.a með hjálögðum gögnum, frá tillögum Prestafélags Íslands bæði gagnvart ráðuneytinu og í kjaraviðræðum við kjaranefnd um að rétt kynni að vera að fella niður greiðslur fyrir aukaverk og færa þær með einum eða öðrum hætti inn í fastar launagreiðslur frá ríkinu. Ráðuneytið upplýsir jafnframt að haustið 2004 hafi biskup Íslands á grundvelli þingsályktunar kirkjuþings tilnefnt fjóra menn í svonefnda „aukaverkanefnd“ og hafi nefndin umræddar tillögur til meðferðar.

Hinn 4. júlí 2005 ritaði ég einnig bréf til kjaranefndar. Fór ég þess á leit við nefndina að hún veitti mér upplýsingar um að hvaða leyti hún hefði tekið afstöðu til aukaverka presta og þeirra greiðslna sem prestar hljóta á þeim grundvelli, við ákvörðun um laun og starfskjör presta samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 120/1992. Óskaði ég sérstaklega eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, að nefndin lýsti viðhorfi sínu til þess hvort og þá að hvaða leyti hún teldi fermingu og þá þjónustu sem í henni fælist tilheyra aðalstarfi presta, sbr. 2. málslið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 120/1992.

Í bréfi sínu, dags. 30. ágúst 2005, svarar kjaranefnd því til að hún hafi fjallað sérstaklega um embættis- eða aukaverk presta í úrskurði sínum frá 23. júní 1997. Nefndin vitnar orðrétt til eftirfarandi umfjöllunar í úrskurðinum en þar segir:

„Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 120/1992 um að kjaranefnd ákvarði launakjör presta þjóðkirkjunnar, er ljóst að lögunum frá 1931 hefur ekki verið breytt og að þau eru í fullu gildi. [...] Samkvæmt þessu er ljóst að það heyrir ekki undir kjaranefnd, að óbreyttum lögum, að ákvarða prestum þóknun í formi launa fyrir aukaverk. Flestir prestar njóta þannig einhverra, launa fyrir störf sín sem ekki eru ákvörðuð af kjaranefnd og til þess hefur nefndin tekið tillit í úrskurði sínum.“

Vitnar nefndin einnig til umfjöllunar síðar í sama úrskurði en þar segir:

„Kjaranefnd hefur [...] jafnframt litið til þess að í framlögðum gögnum Prestafélags Íslands kemur fram að tekjur presta af aukaverkum eru metin á kr. 11.608,- á mánuði fyrir hver þúsund sóknarbörn, en um þessar greiðslur getur kjaranefnd ekki fjallað svo sem fram kemur í kafla II.“

Í bréfi sínu tók kjaranefnd fram að hún hefði ekki úrskurðað um það sérstaklega hvort ferming eða svokölluð aukaverk presta tilheyrðu aðalstarfi þeirra eða ekki. Í úrskurðum sínum hefði nefndin þó gengið út frá því að svo væri og vísaði til laga nr. 36/1931 og gjaldskrár sem sett væri á grundvelli þeirra varðandi greiðslur fyrir aukaverk, sbr. úrskurð nefndarinnar nr 9/2005. Nefndin vísaði þessu til staðfestingar til bréfs er hún ritaði dómsmálaráðuneytinu, dags. 25. ágúst 2003, að beiðni fulltrúa presta. Í bréfinu tekur nefndin fram að hún hafi við ákvörðun launa presta meðal annars tekið tillit til þess að þeir hafi tekjur af svokölluðum aukaverkum og að nefndin telji að breytingar á gjaldskrá, til dæmis ef einstakir gjaldskrárliðir verði felldir niður, gefi tilefni til endurskoðunar á launum presta.

III. Álit umboðsmanns Alþingis.

1.

Um gjald það er kvörtun þessa máls beinist að er kveðið á í gjaldskrá nr. 668/2003, um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar, frá 9. september 2003. Samkvæmt 2. tölul. 2. gr. gjaldskrárinnar nemur greiðsla fyrir fermingu 9.300 kr. Er gjaldskráin sett af dómsmálaráðherra á grundvelli 3. gr. laga nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, en þar segir að fyrir aukaverk beri prestum þóknun eftir gjaldskrá sem ráðuneytið setji til 10 ára í senn. Lög nr. 36/1931 leystu af hólmi lög nr. 46/1907, um laun sóknarpresta, en í 3. gr. þeirra laga sagði að auk embættislauna bæri hverjum presti borgun fyrir aukaverk eftir „gildandi lögum“ og skyldi hann sjálfur innheimta hana.

Í kvörtun þessa máls eru bornar brigður á að prestum þjóðkirkjunnar sé heimilt að innheimta sérstakt gjald vegna fermingar og á það bent að ríkið ráðstafi hluta af skatttekjum sínum til þjóðkirkjunnar og þar með séu skattgreiðendur búnir að greiða fyrir þá þjónustu sem þeir fá frá þjóðkirkjunni. Þó að íslenska þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag eins og segir í 1. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, er þjóðkirkjunni að lögum búin sérstaða sem kann að hafa áhrif á það hvaða heimildir einstakir prestar og kirkjur hafa til gjaldtöku fyrir kirkjulega þjónustu og hvaða þjónustu af því tagi meðlimir þjóðkirkjunnar eigi kröfu til án endurgjalds. Hér verður því að líta til þess lagaramma sem Alþingi hefur sett þar um.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 78/1997 greiðir íslenska ríkið þjóðkirkjunni árlegt framlag sem skal, eins og segir í ákvæðinu, miðast við að það nægi til reksturs hennar ásamt öðrum tekjustofnum hennar, lögbundnum sem ólögbundnum. Þá segir í 2. mgr. 3. gr. laganna að launagreiðslum til starfandi presta þjóðkirkjunnar og annarra starfsmanna hennar skuli hagað samkvæmt því sem greini í 60. gr. laganna. Þar er mælt fyrir um að ríkið standi skil á launum biskups Íslands, vígslubiskupa, 138 starfandi presta og prófasta þjóðkirkjunnar og 18 starfsmanna biskupsstofu. Þar er einnig tekið fram að um greiðslu launa til umræddra starfsmanna þjóðkirkjunnar fari eftir lögum um Kjaradóm og kjaranefnd nr. 120/1992, með áorðnum breytingum, eða lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, með áorðnum breytingum, eftir því sem við geti átt. Launagreiðslur annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar eru ríkinu óviðkomandi. Í 61. gr. segir að þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar, sem þiggja laun úr ríkissjóði, sbr. 60. gr., njóti réttinda og beri skyldur sem opinberir starfsmenn eftir því sem nánar sé mælt fyrir um í lögum nr. 70/1996, svo og öðrum lögum er kveða á um réttarstöðu opinberra starfsmanna, sbr. þó 12. og 13. gr. laganna. Kjaranefnd skal samkvæmt 11. gr. laga nr. 120/1992 ákveða föst laun fyrir dagvinnu og önnur starfskjör þeirra sem undir nefndina heyra. Þá skal nefndin úrskurða um hvaða aukastörf tilheyra aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega. Eins og ráða má af skýringum við þetta ákvæði þegar það var tekið inn í lögin með 56. gr. laga nr. 70/1996, er þar byggt á því að kjaranefnd ákveði alfarið laun þeirra sem undir hana falla, þ.m.t. presta, fyrir aðalstarf þeirra.

Í 4. mgr. 49. gr. laga nr. 78/1997, um stjórn, stöðu og starfshætti þjóðkirkjunnar, er mælt fyrir um að sóknarmenn eigi rétt á „kirkjulegri þjónustu“ í sókn sinni. Ákvæði þetta var upphaflega að finna í 8. gr. laga nr. 25/1985, um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl., en í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að þeim lögum sagði:

„Í fyrstu málsgr. er því lýst almennt, að sóknarmenn eigi rétt á kirkjulegri þjónustu í sókn sinni og á þátttöku í safnaðarstarfi þar. Er það síðan sundurgreint, í hverju þjónustan sé fólgin, án þess þó að þar sé um tæmandi talningu að ræða. Þá er einnig mælt fyrir um, hvernig farið sé þjónustu utan sóknar, þegar svo hagar til að maður getur ekki fært sér í nyt þjónustu í sókn sinni vegna fjarvista.

Rétt er að benda á, að í framkvæmd hér á landi ríkir mikið frjálsræði um það, til hvaða prests menn leiti um kirkjulega þjónustu, svo sem skírn, fermingu, hjónavígslu og greftrun. Allt að einu skiptir máli, að við njóti almennra lagaákvæða um þetta efni.“ (Alþt. 1984—1985, A-deild, bls. 728.)

Ráða má af þessum athugasemdum að löggjafinn hafi við setningu ákvæðis 8. gr. laga nr. 25/1985, sbr. nú 4. mgr. 49. gr. laga nr. 78/1997, lagt til grundvallar að ferming væri einn þeirra þátta sem teldist til kirkjulegrar þjónustu í skilningi ákvæðisins og sóknarmenn ættu að lögum rétt til.

Þrátt fyrir framangreindar lagabreytingar, sem gerðar hafa verið á síðustu áratugum, hefur Alþingi ekki haggað við því ákvæði 3. gr. laga nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, að „[f]yrir aukaverk [beri] prestum þóknun eftir gjaldskrá, er ráðuneytið setur til 10 ára í senn“. Í svarbréfi kjaranefndar til mín, dags. 30. ágúst 2005, kemur fram að nefndin hafi gengið út frá því að ferming og önnur svokölluð aukaverk presta tilheyri aðalstarfi þeirra og til viðbótar þeim launum sem kjaranefnd ákvarðar prestum fái þeir greiðslur fyrir umrædd aukaverk samkvæmt þeirri gjaldskrá sem sett er á grundvelli laga nr. 36/1931. Sama viðhorf kemur fram í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 25. júlí 2005, en gerð er grein fyrir báðum þessum bréfum í kafla II hér að framan. Ég tel að eins og lögum er nú háttað og í ljósi framkvæmdar kjaranefndar verði að telja að fullnægjandi lagaheimild standi til þess að prestar þjóðkirkjunnar taki sérstakt gjald fyrir fermingu í samræmi við ákvæði þeirrar gjaldskrár sem ráðherra hefur sett í samræmi við 3. gr. laga nr. 36/1931.

2.

Gjaldtaka samkvæmt 3. gr. laga nr. 36/1931 er sérstaks eðlis að því leyti að gert er ráð fyrir að þeir sem njóti ákveðinnar þjónustu presta þjóðkirkjunnar greiði sjálfir sérstakt gjald til viðkomandi prests fyrir hana. Ákvæði 3. gr. laga nr. 36/1931 felur þannig í sér lögbundið frávik frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í 3. gr. laga nr. 78/1997 um að ríkið standi undir rekstrarkostnaði þjóðkirkjunnar og launagreiðslum til presta hennar. Af þessu fyrirkomulagi leiðir að sérstök sjónarmið koma til álita við afmörkun þóknunar fyrir „aukaverk“ presta. Af frumvarpi því er varð að lögum nr. 36/1931 verður ráðið að megintilgangur 3. gr. laganna hafi verið að koma á samræmi í greiðslum fyrir aukaverk presta, sbr. Alþt. 1930, A-deild, bls. 1162. Þar var þó ekki tekin nein afstaða til þess hvaða sjónarmið skyldu ráða ákvörðun fjárhæðar þessara greiðslna. Eins og lögum er nú háttað um ákvörðun og greiðslu launa til presta rísa ýmis álitamál um hvernig beita beri ákvæði 3. gr. laga nr. 36/1931 og þá einkum með tilliti til þess að verk þau sem þar er verið að greiða viðkomandi presti fyrir byggja nær alfarið á vinnuframlagi við undirbúning og framkvæmd hlutaðeigandi athafnar, þ.e. vinnu sem að skilningi kjaranefndar tilheyrir aðalstarfi prestsins.

Í fyrirspurnarbréfi mínu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 6. október 2004, óskaði ég eftir því að ráðuneytið upplýsti með hvaða hætti það hefði kannað þær fjárhæðir og þá útreikninga sem lágu til grundvallar ákvörðun fjárhæðar gjalds fyrir fermingu áður en gjaldskráin var staðfest, og þá með tilliti til þeirra almennu reglna sem að stjórnsýslurétti eru taldar gilda um þjónustugjöld. Var sú beiðni ítrekuð með bréfi mínu, dags. 10. desember 2004.

Í bréfi ráðuneytisins til mín, dags. 22. nóvember 2004, segir að fjárhæð gjalds vegna fermingar samkvæmt núgildandi gjaldskrá nr. 668/2003 byggi á einingakerfi gjaldskrár frá 1993 þar sem „vandlega [hafi verið] reiknað út hvaða vinna lægi að baki hverju aukaverki og fjöldi eininga miðaður við það“. Í skýringum ráðuneytisins til mín, dags. 6. janúar 2005, kemur hins vegar fram að því er varði „hækkun árið 1993 þá [finnist] ekki útreikningar í skjalasafni ráðuneytisins er [varpi] ljósi á hvaða forsendur hafi verið lagðar til grundvallar þeirri hækkun sem þá var gerð“. Kemur þar jafnframt fram að samkvæmt munnlegum upplýsingum starfsmanns þess sem farið hafi með kirkjuleg málefni í ráðuneytinu á þeim tíma hafi „hækkuninni [...] verið ætlað að fylgja eðlilegri verðlagsþróun og að einingakerfið sem upp var tekið fyrir einstök aukaverk hafi átt að tryggja sjálfkrafa hækkun í takt við hækkun sem yrði gerð á aukatekjum ríkissjóðs, og fallið [hafi verið] frá því að tengja einingaverðið við laun presta eins og gert hafði verið í gjaldskrá nr. 149 frá 1986“. Þá er upplýst í bréfi ráðuneytisins að ekki hafi legið önnur sjónarmið að baki hækkun gjalds fyrir fermingu með gjaldskrá nr. 668/2003 en verðlagsþróun.

Í gjaldskrá nr. 80/1993 sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið setti 24. febrúar 1993 sagði í 2. mgr. 2. gr. að greiðslur fyrir aukaverk skyldi miða við ákveðinn fjölda eininga og skyldi hver eining jafngilda 1/10 hluta gjalds fyrir borgaralega hjónavígslu á hverjum tíma samkvæmt gildandi lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Greiðsla fyrir fermingu með undirbúningi átti samkvæmt gjaldskránni að nema 16 einingum. Með skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín hafa ekki verið lögð fram gögn er sýna hvaða vinna, kostnaður eða annað lá að baki þessum 16 einingum og þar með því gjaldi sem greiða átti samkvæmt gjaldskránni frá 1993 vegna fermingar. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu byggir fjárhæð fermingargjalds samkvæmt núgildandi gjaldskrá nr. 668/2003 á grunni þeirra fjárhæða sem ákveðnar voru við setningu gjaldskrárinnar 1993.

Með 3. gr. laga nr. 36/1931 er ráðherra fengið það hlutverk að ákveða með setningu „gjaldskrár“ þau gjöld sem þeir þurfa að standa skil á sem njóta þeirrar þjónustu presta sem talin verður til aukaverka í merkingu ákvæðisins. Af hinu sérstaka eðli þessarar lagaheimildar leiðir að ekki verður fullyrt, eins og nánar verður rakið hér síðar, að við afmörkun á þeim fjárhæðum sem gjaldskráin byggir á sé rétt að miða að öllu leyti við þær kröfur sem gerðar eru til undirbúnings töku þjónustugjalda. Hvað sem því líður tel ég að þegar löggjafinn gerir með þessum hætti ráð fyrir að gjaldtaka fari fram á grundvelli gjaldskrár sem ráðherra setur, en gjaldskrá er ein tegund almennra stjórnvaldsfyrirmæla, verði að leggja til grundvallar að á ráðherra hvíli sú skylda samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar að undirbúa setningu gjaldskrár með viðhlítandi hætti þannig að tryggt sé að lagðar séu til grundvallar málefnalegar og lögmætar forsendur sem eru í beinu og eðlilegu samhengi við efni og tilgang þeirrar lagaheimildar sem gjaldskráin byggist á, þar með talið um vinnuframlag og hugsanlega annan kostnað. Með því móti geti ráðherra m.a. með fullnægjandi hætti gert á hverjum tíma grein fyrir þeim forsendum sem einstakir liðir gjaldskráa eru studdir við. Að þessu virtu varð af hálfu dómsmálaráðuneytisins að liggja fyrir við setningu gjaldskrár nr. 80/1993 á hvaða forsendum einstakir gjaldaliðir hennar voru byggðir, þar með talið um vinnuframlag og annan þann kostnað sem féll að mati ráðuneytisins undir 3. gr. laga nr. 36/1931. Þetta átti raunar bæði við gagnvart þeim sem þurfa að greiða umrædd gjöld og þeim prestum sem eru þannig að fá lögbundna þóknun fyrir „aukaverk“.

Þótt gjaldtaka sú sem leiðir af 3. gr. laga nr. 36/1931 hafi um margt samstöðu með greiðslu þjónustugjalda fyrir opinbera þjónustu gagnvart þeim sem þurfa að greiða umræddar þóknanir til presta þjóðkirkjunnar fyrir „aukaverk“ verður hér að mínu áliti að gæta annars vegar að þeirri sérstöðu sem þjóðkirkjan hefur sem sjálfstætt trúfélag og hins vegar að því hvaða reglum, skráðum og óskráðum, dóms- og kirkjumálaráðuneytinu ber að fara eftir þegar fjárhæðir umræddra þóknana eru ákveðnar. Með tilliti til þeirrar aðkomu ríkisins að rekstri þjóðkirkjunnar sem felst í framlagi þess til hennar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 78/1997, og ákvæða laga um greiðslu og ákvörðun launa presta þjóðkirkjunnar, fæ ég ekki annað séð en að rétt sé og eðlilegt, eins og dóms- og kirkjumálaráðuneytið byggir á, að það taki tillit til þeirra reglna sem gilda að stjórnsýslurétti um ákvörðun fjárhæða þjónustugjalda þegar ákvarðanir eru teknar um þóknanir samkvæmt 3. gr. laga nr. 36/1931. Hér verður þó að hafa í huga það sem áður sagði að ráðuneytið er að lögum í þeirri aðstöðu að þurfa að ákveða prestum þóknun fyrir „aukaverk“ sem þeir kunna að sinna að hluta til á sama tíma og störfum sem hefðbundnar og fastar laungreiðslur til presta koma fyrir. Afmörkun á þeim kostnaði sem lagður er til grundvallar við ákvörðun þóknunar fyrir „aukaverk“ presta þjóðkirkjunnar verður því ekki alfarið byggð á sömu viðmiðunum og taldar eru gilda samkvæmt stjórnsýslurétti um töku þjónustugjalda. Það verður þannig ekki fullyrt að ráðuneytinu sé skylt að fylgja að öllu leyti þeim ströngu kröfum sem gerðar eru samkvæmt reglum stjórnsýsluréttarins um forsendur þjónustugjalda, þar með um afmörkun kostnaðar. Það verður hins vegar ekki annað séð en að þegar ráðuneytið hefur ákveðið þær viðmiðanir sem það leggur til grundvallar ákvörðun sinni, og þá að uppfylltum kröfum um að þær séu lögmætar og málefnalegar, verði að ákveða hina endanlegu fjárhæð þóknunar fyrir hvert „aukaverk“ með tilliti til þeirra almennu reglna sem að stjórnsýslurétti eru taldar gilda um þjónustugjöld.

Í samræmi við framangreint þarf annars vegar að liggja fyrir hvaða viðmiðanir ráðuneytið leggur hverju sinni til grundvallar ákvörðunum um þóknanir samkvæmt 3. gr. laga nr. 36/1931 og hins vegar hvernig fjárhæð þóknana fyrir einstök verk er reiknuð út. Hér að framan var lýst svörum ráðuneytisins um hvernig staðið hefði verið að ákvörðun þóknana fyrir „aukaverk“ samkvæmt gjaldskránni frá 1993. Búið hafi verið til einingakerfi þar sem „vandlega [hafi verið] reiknað út hvaða vinna lægi að baki hverju aukaverki og fjöldi eininga miðaður við það“. Engin gögn eru hins vegar tiltæk nú hjá ráðuneytinu um þessa útreikninga. Af minnisblaði dóms- og kirkjumálaráðherra til ríkisstjórnarinnar frá 8. september 2003 um endurskoðun gjaldskrár nr. 80/1993, um aukaverk presta, og skýringum ráðuneytisins til mín verður ráðið að hækkun greiðslna fyrir aukaverk presta árið 2003 hafi grundvallast á sjónarmiðum um að fylgja þeim breytingum sem orðið hefðu á verðlagsþróun frá því að gjaldskráin frá 1993 tók gildi. Hvorki er í gögnum málsins né skýringum ráðuneytisins að finna nein gögn eða upplýsingar um að önnur atriði hafi ráðið ákvörðun þeirra fjárhæða sem fram koma í gjaldskránni.

Eins og mál þetta liggur fyrir mér get ég ekkert fullyrt um það hvort það einingakerfi og sá grundvöllur gjaldskrár nr. 83/1993 sem ráðuneytið segist hafa byggt á hafi uppfyllt þær kröfur sem lýst var hér að framan. Ég get þar af leiðandi ekki heldur fullyrt um slíkt að því er varðar efni gjaldskrár nr. 668/2003 að því marki sem hún er byggð á grundvelli gjaldskrárinnar frá 1993. Eigi að taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig hafi verið heimilt að taka tillit til verðlagsþróunar við breytingar á fjárhæðum þóknana fyrir „aukaverk“ presta frá 1993 til 2003 er nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar um hvernig einstakar fjárhæðir gjaldskrárinnar frá 1993 voru samansettar, meðal annars með tilliti til vinnuframlags, launaviðmiðunar og annars kostnaðar. Ég tel því ekki grundvöll til þess að ég leggi mat á hvort sú fjárhæð sem tilgreind er sem gjald fyrir fermingu í gjaldskrá nr. 668/2003 hafi verið ákveðin réttilega. Ég get af framangreindum ástæðum ekkert fullyrt um hvort gjöld samkvæmt 2. tölul. 2. gr. gjaldskrár nr. 668/2003 séu of há né, ef svo er, hversu mikið hafi þá verið oftekið.

Í samræmi við framangreint er það niðurstaða mín að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi ekki gætt þess nægilega að ákvörðun um fermingargjald í gjaldskrá nr. 668/2003 hafi verið undirbúin á viðhlítandi hátt á grundvelli mats á þeim atriðum sem heimilt var að taka tillit til varðandi þau „aukaverk“ sem ákvæði 3. gr. laga nr. 36/1931 taka til.

3.

Eins og rakið er í kafla II hér að framan hefur komið í ljós við athugun mína að fjárhæð „fermingargjalds“ sem foreldrar og forráðamenn fermingarbarna í Fellaprestakalli voru krafðir um vorið 2005 var hærri en nemur fjárhæð fermingargjalds samkvæmt 2. tölul. 2. gr. gjaldskrár nr. 668/2003. Í skýringum biskupsstofu til mín kemur fram að umræddur 700 króna mismunur hafi verið gjald vegna „fræðsluefnis“.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 78/1997 hefur dóms- og kirkjumálaráðuneytið umsjón með því að þjóðkirkjan og stofnanir hennar fari að lögum, auk þess sem það er í verkahring ráðuneytisins, sbr. lög nr. 36/1931, að setja gjaldskrá um þóknun fyrir aukaverk presta. Þá fer dóms- og kirkjumálaráðherra með kirkjumál, sbr. 22. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 3/2004, um Stjórnarráð Íslands. Í ljósi framangreinds tel ég að ganga verði út frá því að það sé í verkahring dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem stjórnvalds að hafa með því eftirlit hvort gjaldtaka presta fyrir aukaverk sé í samræmi við lög og eftir atvikum óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu, ef skjóta má því til æðra stjórnvalds. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fyrst fá tækifæri til þess að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. (Alþt. 1986—1987, A-deild, bls. 2561.) Með vísan til þeirra sjónarmiða sem leidd verða af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að dóms- og kirkjumálaráðuneytið taki afstöðu til álitaefna sem lúta að töku einstakra presta á gjöldum vegna „aukaverka“ umfram þá þóknun sem mælt er fyrir um í gjaldskrá ráðuneytisins. Mun ég því ekki fjalla frekar um þetta atriði málsins að svo stöddu.

4.

Í áliti þessu er fjallað um gjaldskrá sem dóms- og kirkjumálaráðuneytinu ber að setja til 10 ára í senn um þóknun til presta þjóðkirkjunnar fyrir „aukaverk“ samkvæmt lögum nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra. Eins og rakið er hér að framan hafa á síðustu árum í senn orðið breytingar á fyrirkomulagi hinna almennu ákvarðana um laun presta og ákvæðum laga um greiðslu ríkisins á framlögum til reksturskostnaðar þjóðkirkjunnar og launum til presta hennar. Þá er nú í lögum fjallað um afmörkun á þeirri kirkjulegu þjónustu sem sóknarmenn eiga kröfu á. Í lögum nr. 36/1931 er hins vegar ekki afmarkað hvaða þjónusta presta falli undir „aukaverk“ sem prestum ber þóknun fyrir. Samkvæmt gildandi lögum er það verkefni kjaranefndar, sbr. lög nr. 120/1992, að ákveða prestum þjóðkirkjunnar laun fyrir aðalstarf þeirra og þótt kjaranefnd hafi ekki úrskurðað sérstaklega um það hvort ferming eða svokölluð aukaverk presta tilheyrðu aðalstarfi þeirra eða ekki hefur nefndin þó gengið út frá því að svo sé. Er jafnframt ljóst að sú vinna sem prestar inna af hendi við framkvæmd hinna svonefndu „aukaverka“ er að einhverjum hluta til unnin samhliða aðalstarfi svo sem það hugtak hefur verið afmarkað í ákvörðunum kjaranefndar. Eins og fram er komið kemur það í hlut þeirra sem njóta þjónustu presta þjóðkirkjunnar í formi „aukaverka“ að greiða þær þóknanir sem ákveðnar eru á grundvelli laga nr. 36/1931 en jafnframt greiðir ríkissjóður ákveðið framlag til reksturs þjóðkirkjunnar og laun ákveðins fjölda presta hennar. Með hliðsjón af þessu tel ég rétt að löggjafinn taki afstöðu til þess hvort rétt sé að ákvarðanir um laun presta annars vegar og þóknanir þeirra fyrir „aukaverk“ hins vegar séu teknar af tveimur mismunandi stjórnvöldum. Þá tel ég rétt að löggjafinn ákveði hvað teljist til „aukaverka“ presta þjóðkirkjunnar í þessu sambandi með það fyrir augum að afmarka nánar hvaða þjónustu presta þjóðkirkjunnar Alþingi telur rétt að sá greiði sérstaklega fyrir sem þjónustunnar nýtur. Ég hef því ákveðið að kynna Alþingi og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þetta álit mitt, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

IV. Niðurstaða.

Ég hef í þessu áliti komist að þeirri niðurstöðu að fullnægjandi lagaheimild standi til þess að prestar þjóðkirkjunnar taki gjald fyrir fermingu sem „aukaverk“ í samræmi við 3. gr. laga nr. 36/1931. Ég hef hins vegar ekki talið mér fært að fullyrða að fjárhæð gjalds fyrir fermingu samkvæmt 2. tölul. 2. gr. gjaldskrár nr. 668/2003 sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið setti hafi verið réttilega ákveðin. Kemur það til af því að fullnægjandi gögn um þær forsendur sem lágu til grundvallar ákvörðun um þá fjárhæð liggja ekki fyrir. Ég beini því þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans taki gjaldskrá nr. 668/2003, um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar, til endurskoðunar í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu.

Ég tel jafnframt tilefni til að beina þeim tilmælum til Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997 að ákvæði laga nr. 36/1931 verði tekin til endurskoðunar með það í huga að tekin verði afstaða til þess hvort rétt sé að ákvarðanir um laun presta annars vegar og þóknanir þeirra fyrir „aukaverk“ hins vegar séu teknar af tveimur mismunandi stjórnvöldum. Jafnframt að nánar verði afmarkað í lögum hvað teljist „aukaverk“ presta þjóðkirkjunnar í þessu sambandi og að löggjafinn taki þar með beina afstöðu til þess hvaða þjónustu presta þjóðkirkjunnar Alþingi telur rétt að sá greiði sérstaklega fyrir sem þjónustunnar nýtur.

V. Viðbrögð stjórnvalda.

Í bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 2. febrúar 2006, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið hefði gripið til einhverra tiltekinna ráðstafana í tilefni af áliti mínu og þá í hverju þær hafi falist. Mér barst svarbréf dóms- og kirkjumálaráðherra 10. sama mánaðar. Þar segir að í ljósi þess að tilmæli þau sem ég beindi til ráðherra í áliti mínu varði beint hagsmuni þjóðkirkjunnar og hag presta hafi ráðherra ákveðið að óska eftir formlegri umsögn kirkjuþings og kirkjuráðs áður en hann taki afstöðu til þeirra.

Hinn 29. maí 2006 barst mér á ný bréf frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu vegna málsins. Fylgdi því afrit bréfs kirkjuráðs til ráðuneytisins, dags. 16. sama mánaðar. Í bréfinu kemur m.a. fram að ráðið muni á komandi hausti óska umsagnar kirkjuþings um tilmæli þau er ég setti fram í áliti mínu og muni ráðið veita dóms- og kirkjumálaráðuneytinu umsögn sína að loknu þinginu.

VI.

Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, dags. 8. júní 2007. Þar vísaði ég til þess að í bréfi ráðuneytisins til mín, dags. 10. febrúar 2006, hefði komið fram að ákveðið hefði verið að óska eftir formlegri umsögn kirkjuþings og kirkjuráðs áður en tekin yrði afstaða til þeirra tilmæla sem ég setti fram í áliti mínu. Með bréfi, dags. 29. maí s.á., hefði mér verið sent afrit af bréfi kirkjuráðs til ráðuneytisins, dags. 16. s.m., þar sem fram kom m.a. að ráðið myndi á komandi hausti óska umsagnar kirkjuþings um tilmæli mín og myndi ráðið veita dóms- og kirkjumálaráðuneytinu umsögn sína að loknu þinginu. Í bréfi mínu óskaði ég eftir upplýsingum um hvort dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði nú gripið til einhverra tiltekinna ráðstafana í tilefni af áliti mínu og þá í hverju þær ráðstafanir hafi falist. Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 3. júlí s.á., kemur fram að ráðuneytið hafi enn sem komið er ekki gripið til neinna ráðstafana í framhaldi af áliti mínu og sé þess nú beðið að kirkjuráð leiti umsagnar kirkjuþings um tilmæli mín en ráðið muni síðan láta ráðuneytinu í té umsögn sína að loknu þinginu, sem verði haldið dagana 20. – 26. október 2007.

VII.

Um framvindu þessa máls hefur áður verið fjallað í ársskýrslu minni fyrir árið 2006, bls. 215. Mér barst bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 29. október 2007, þar sem fram kemur að á kirkjuþingi hafi verið einróma samþykkt tillaga til þingsályktunar um niðurfellingu gjaldtöku fyrir fermingarfræðslu og skírn. Í tillögunni felist að samþykkt sé að lagt verði til við kirkjumálaráðherra að gjaldskrá um aukaverk presta, samkvæmt lögum nr. 36/1931 verði breytt á þann veg að gjaldtaka fyrir fermingarfræðslu og skírn verði felld niður frá og með 1. janúar 2009 og að jafnframt verði tryggt að kjör presta skerðist ekki við þessar breytingar. Fram kemur í bréfinu að ráðuneytið muni upplýsa mig um næstu skref í málinu þegar þau verði stigin.

VIII.

Um framvindu þessa máls hefur áður verið fjallað í ársskýrslum mínum fyrir árin 2006, bls. 215, og 2007, bls. 229. Í álitinu beindi ég þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans tæki gjaldskrá nr. 668/2003, um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar, til endurskoðunar í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Með vísan til sama lagaákvæðis taldi ég tilefni til að benda Alþingi og dóms- og kirkjumálaráðherra á að æskilegt væri að ákvæði laga nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, yrðu tekin til endurskoðunar með það í huga að tekin yrði afstaða til þess hvort rétt væri að ákvarðanir um laun presta annars vegar og þóknanir þeirra fyrir „aukaverk“ hins vegar væru teknar af tveimur ólíkum stjórnvöldum. Jafnframt að nánar yrði afmarkað í lögum hvað teldust „aukaverk“ presta þjóðkirkjunnar í þessu sambandi og að löggjafinn tæki þar með beina afstöðu til þess hvaða þjónustu presta þjóðkirkjunnar Alþingi teldi rétt að sá greiddi sérstaklega fyrir sem þjónustunnar nyti. Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 29. október 2007, kom fram að á kirkjuþingi hefði verið einróma samþykkt tillaga til þingsályktunar um niðurfellingu gjaldtöku fyrir fermingarfræðslu og skírn. Í bréfinu kom jafnframt fram að ráðuneytið myndi upplýsa umboðsmann um næstu skref í málinu þegar þau yrðu stigin. Með bréfi, dags. 17. apríl 2012, var þess óskað að innanríkisráðuneytið veitti mér upplýsingar um hvort álitið hefði orðið tilefni til frekari viðbragða eða ráðstafana. Í svarbréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 20. júní 2012, kemur fram að ekki hafi verið ráðist í endurskoðun á gjaldskránni. Hins vegar hefði borist erindi frá Prestafélagi Íslands þar sem óskað væri eftir viðræðum við ráðuneytið um hækkun á og/eða breytingum á gjaldskránni sem gildir til 30. september 2013. Í ljósi erindisins og með hliðsjón af gildistíma gjaldskrárinnar muni ráðuneytið fljótlega hefja vinnu við undirbúning að breyttri gjaldskrá og endurskoðun á lögum nr. 36/1931 og við þá vinnu verði höfð hliðsjón af ábendingum mínum. Í umrædda heildarendurskoðun yrðu ábendingar mínar engu að síðar sérstaklega skoðaðar.

IX.

Um framvindu þessa máls hefur áður verið fjallað í ársskýrslum mínum fyrir árin 2006, bls. 215, 2007, bls. 229 og 2011, bls. 126-127. Í álitinu beindi ég þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans tæki gjaldskrá nr. 668/2003, um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar, til endurskoðunar í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Með vísan til sama lagaákvæðis taldi ég tilefni til að tilkynna Alþingi og dóms- og kirkjumálaráðherra um æskilegt væri að ákvæði laga nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, yrðu tekin til endurskoðunar með það í huga að tekin yrði afstaða til þess hvort rétt væri að ákvarðanir um laun presta annars vegar og þóknanir þeirra fyrir „aukaverk“ hins vegar væru teknar af tveimur mismunandi stjórnvöldum. Jafnframt að nánar yrði afmarkað í lögum hvað teldust „aukaverk“ presta þjóðkirkjunnar í þessu sambandi og að löggjafinn tæki þar með beina afstöðu til þess hvaða þjónustu presta þjóðkirkjunnar Alþingi teldi rétt að sá greiddi sérstaklega fyrir sem þjónustunnar nyti. Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 29. október 2007, kom fram að á kirkjuþingi hefði verið einróma samþykkt tillaga til þingsályktunar um niðurfellingu gjaldtöku fyrir fermingarfræðslu og skírn. Í bréfinu kom jafnframt fram að ráðuneytið myndi upplýsa umboðsmann um næsti skref í málinu þegar þau yrðu stigin. Í bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 20. júní 2012, kemur fram að ekki hefði verið ráðist í endurskoðun á gjaldskránni. Hins vegar hefði borist erindi frá Prestafélagi Íslands þar sem óskað væri eftir viðræðum við ráðuneytið um hækkun á og/eða breytingum á gjaldskránni sem gilti til 30. september 2013. Í ljósi erindisins og með hliðsjón af gildistíma gjaldskrárinnar myndi ráðuneytið fljótlega hefja vinnu við undirbúning að breyttri gjaldskrá og endurskoðun á lögum nr. 36/1931 og við þá vinnu yrði höfð hliðsjón af ábendingum mínum. Með bréfi, dags. 1. febrúar 2013, var þess óskað að innanríkisráðuneytið veitti mér upplýsingar um hvort álitið hefði orðið tilefni til frekari viðbragða eða ráðstafana. Í svarbréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 2. apríl 2013, kemur fram að vinna við endurskoðun gjaldskrárinnar sé hafin en ekki lokið.

X.

Um framvindu þessa máls hefur áður verið fjallað í ársskýrslum mínum fyrir árin 2006, bls. 215, 2007, bls. 229, 2011, bls. 126-127 og 2012, bls. 113-114. Í álitinu beindi ég þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans tæki gjaldskrá nr. 668/2003, um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar, til endurskoðunar í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Með vísan til sama lagaákvæðis taldi ég tilefni til að tilkynna Alþingi og dóms- og kirkjumálaráðherra um æskilegt væri að ákvæði laga nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, yrðu tekin til endurskoðunar með það í huga að tekin yrði afstaða til þess hvort rétt væri að ákvarðanir um laun presta annars vegar og þóknanir þeirra fyrir „aukaverk“ hins vegar væru teknar af tveimur mismunandi stjórnvöldum. Jafnframt að nánar yrði afmarkað í lögum hvað teldust „aukaverk“ presta þjóðkirkjunnar í þessu sambandi og að löggjafinn tæki þar með beina afstöðu til þess hvaða þjónustu presta þjóðkirkjunnar Alþingi teldi rétt að sá greiddi sérstaklega fyrir sem þjónustunnar nyti. Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 29. október 2007, kom fram að á kirkjuþingi hefði verið einróma samþykkt tillaga til þingsályktunar um niðurfellingu gjaldtöku fyrir fermingarfræðslu og skírn. Í bréfinu kom jafnframt fram að ráðuneytið myndi upplýsa umboðsmann um næsti skref í málinu þegar þau yrðu stigin. Í bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 20. júní 2012, kemur fram að ekki hefði verið ráðist í endurskoðun á gjaldskránni. Hins vegar hefði borist erindi frá Prestafélagi Íslands þar sem óskað væri eftir viðræðum við ráðuneytið um hækkun á og/eða breytingum á gjaldskránni sem gilti til 30. september 2013. Í ljósi erindisins og með hliðsjón af gildistíma gjaldskrárinnar myndi ráðuneytið fljótlega hefja vinnu við undirbúning að breyttri gjaldskrá og endurskoðun á lögum nr. 36/1931 og við þá vinnu yrði höfð hliðsjón af ábendingum mínum. Í bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 2. apríl 2013, kom fram að vinna við endurskoðun gjaldskrárinnar sé hafin en ekki lokið. Í bréfi ráðuneytisins, dags. 2. júlí 2014, kemur fram að beðið sé eftir umsögnum um gjaldskrána og ráðgert sé að breytingar verði gerðar í lok sumars. Þá hafi verið litið til álitsins í yfirstandandi viðræðum við prestafélagið um lög nr. 36/1931 og gildandi lagaumhverfi þessu tengdu. Í haust standi til að vinnan verði útfærð frekar og þá m.a. metið hvort rétt sé að leggja fram frumvarp til breytinga á lögunum á grundvelli þessarar vinnu.

XI.

Um framvindu þessa máls hefur áður verið fjallað í ársskýrslum mínum fyrir árin 2006, bls. 215, 2007, bls. 229, 2011, bls. 126-127, 2012, bls. 113-114 og 2013, bls. 133-134. Í álitinu beindi ég þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans tæki gjaldskrá nr. 668/2003, um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar, til endurskoðunar í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Með vísan til sama lagaákvæðis taldi ég tilefni til að tilkynna Alþingi og dóms- og kirkjumálaráðherra um æskilegt væri að ákvæði laga nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, yrðu tekin til endurskoðunar með það í huga að tekin yrði afstaða til þess hvort rétt væri að ákvarðanir um laun presta annars vegar og þóknanir þeirra fyrir „aukaverk“ hins vegar væru teknar af tveimur mismunandi stjórnvöldum. Jafnframt að nánar yrði afmarkað í lögum hvað teldust „aukaverk“ presta þjóðkirkjunnar í þessu sambandi og að löggjafinn tæki þar með beina afstöðu til þess hvaða þjónustu presta þjóðkirkjunnar Alþingi teldi rétt að sá greiddi sérstaklega fyrir sem þjónustunnar nyti. Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 29. október 2007, kom fram að á kirkjuþingi hefði verið einróma samþykkt tillaga til þingsályktunar um niðurfellingu gjaldtöku fyrir fermingarfræðslu og skírn. Í bréfinu kom jafnframt fram að ráðuneytið myndi upplýsa umboðsmann um næstu skref í málinu þegar þau yrðu stigin. Í bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 20. júní 2012, kemur fram að ekki hefði verið ráðist í endurskoðun á gjaldskránni. Hins vegar hefði borist erindi frá Prestafélagi Íslands þar sem óskað væri eftir viðræðum við ráðuneytið um hækkun á og/eða breytingum á gjaldskránni sem gilti til 30. september 2013. Í ljósi erindisins og með hliðsjón af gildistíma gjaldskrárinnar myndi ráðuneytið fljótlega hefja vinnu við undirbúning að breyttri gjaldskrá og endurskoðun á lögum nr. 36/1931 og við þá vinnu yrði höfð hliðsjón af ábendingum mínum. Í bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 2. apríl 2013, kom fram að vinna við endurskoðun gjaldskrárinnar væri hafin en ekki lokið. Í bréfi ráðuneytisins, dags. 2. júlí 2014, kom fram að beðið væri eftir umsögnum um gjaldskrána og ráðgert væri að breytingar yrðu gerðar í lok sumars. Þá hefði verið litið til álitsins í yfirstandandi viðræðum við prestafélagið um lög nr. 36/1931 og gildandi lagaumhverfi þessu tengdu. Til stæði að vinnan yrði útfærð frekar haustið 2014 og þá m.a. metið hvort rétt væri að leggja fram frumvarp til breytinga á lögunum á grundvelli þessarar vinnu.

Með bréfi, dags. 11. maí 2015, var á ný óskað eftir upplýsingum um framvindu málsins. Í bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 28. maí 2015, kemur fram að til skoðunar sé að gera tilteknar breytingar á ákvæðum laga nr. 36/1931. Í því sambandi var vísað til 3. gr. laganna, þar sem fram kemur að fyrir aukaverk beri prestum þóknun eftir gjaldskrá sem ráðuneytið setur, sbr. nú gjaldskrá nr. 729/2014. Áætlað sé að fyrir liggi haustið 2015 hvort ráðherra muni leggja fram frumvarp til breytinga á framangreindum lögum.

XII

Um framvindu þessa máls hefur áður verið fjallað í ársskýrslum mínum fyrir árin 2006, bls. 215, 2007, bls. 229, 2011, bls. 126-127, 2012, bls. 113-114, 2013, bls. 133-134, 2014, bls. 111-112 og 2015, bls. 86-87.

Í álitinu beindi ég þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans tæki gjaldskrá nr. 668/2003, um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar, til endurskoðunar í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Með vísan til sama lagaákvæðis taldi ég tilefni til að tilkynna Alþingi og dóms- og kirkjumálaráðherra um að æskilegt væri að ákvæði laga nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, yrðu tekin til endurskoðunar með það í huga að tekin yrði afstaða til þess hvort rétt væri að ákvarðanir um laun presta annars vegar og þóknanir þeirra fyrir „aukaverk“ hins vegar væru teknar af tveimur mismunandi stjórnvöldum. Jafnframt að nánar yrði afmarkað í lögum hvað teldust „aukaverk“ presta þjóðkirkjunnar í þessu sambandi og að löggjafinn tæki þar með beina afstöðu til þess hvaða þjónustu presta þjóðkirkjunnar Alþingi teldi rétt að sá greiddi sérstaklega fyrir sem þjónustunnar nyti.

Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 29. október 2007, kom fram að á kirkjuþingi hefði verið einróma samþykkt tillaga til þingsályktunar um niðurfellingu gjaldtöku fyrir fermingarfræðslu og skírn. Í bréfinu kom jafnframt fram að ráðuneytið myndi upplýsa umboðsmann um næstu skref í málinu þegar þau yrðu stigin. Í bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 20. júní 2012, kom fram að ekki hefði verið ráðist í endurskoðun á gjaldskránni. Hins vegar hefði borist erindi frá Prestafélagi Íslands þar sem óskað væri eftir viðræðum við ráðuneytið um hækkun á og/eða breytingum á gjaldskránni sem gilti til 30. september 2013. Í ljósi erindisins og með hliðsjón af gildistíma gjaldskrárinnar myndi ráðuneytið fljótlega hefja vinnu við undirbúning að breyttri gjaldskrá og endurskoðun á lögum nr. 36/1931 og við þá vinnu yrði höfð hliðsjón af ábendingum mínum. Í bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 2. apríl 2013, kom fram að vinna við endurskoðun gjaldskrárinnar væri hafin en ekki lokið. Í bréfi ráðuneytisins, dags. 2. júlí 2014, kom fram að beðið væri eftir umsögnum um gjaldskrána og ráðgert væri að breytingar yrðu gerðar í lok sumars. Þá hefði verið litið til álitsins í viðræðum við prestafélagið um lög nr. 36/1931 og gildandi lagaumhverfi þessu tengdu. Til stæði að vinnan yrði útfærð frekar og þá m.a. metið hvort rétt væri að leggja fram frumvarp til breytinga á lögunum á grundvelli þessarar vinnu. Í bréfi ráðuneytisins, dags. 30. mars 2016, var vísað til sambærilegra atriða og í fyrri bréfum og tekið fram að ekki hafi enn verið tekin ákvörðun um hvenær ráðist verði í endurskoðun á tilteknum ákvæðum laga nr. 36/1931.

Sambærilegt svar barst með bréfi ráðuneytisins, dags. 14. mars 2017.