Skaðabætur. Skilyrði bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 69/1995. Bótanefnd.

(Mál nr. 4378/2005)

A kvartaði yfir þeirri ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, að hafna kröfu hans um greiðslu bóta úr ríkissjóði vegna líkamsárásar sem hann hafði orðið fyrir. Þótt A hefðu verið dæmdar skaðabætur úr hendi tjónvalds sem námu hærri fjárhæð en nam lágmarki samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995 taldi bótanefnd ekki uppfyllt skilyrði til greiðslu bóta úr ríkissjóði þar sem hluti þeirra bóta sem A höfðu verið dæmdar væri vegna aðstoðar lögmanns við að setja fram bótakröfu í refsimáli og teldist því ekki til höfuðstóls kröfu í skilningi sömu lagagreinar.
Umboðsmaður benti á að samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 69/1995 skyldi, þegar bótakröfu hefði verið ráðið til lykta með dómi, greiða bætur með þeirri fjárhæð sem ákveðin hefði verið í dóminum og að engin þeirra undantekninga sem mælt væri fyrir um í umræddri lagagrein lyti að kostnaði sem brotaþoli hefði haft af aðstoð lögmanns. Skýra yrði tilvísun í 1. mgr. 11. gr. laganna til 7. gr. þeirra svo að þar væri vísað til lágmarks- og hámarksfjárhæða ákvæða síðarnefndu greinarinnar. Þá yrði að skýra orðin „fjárhæð sem ákveðin var í dóminum“ í 1. mgr. 11. gr. svo að átt væri við þá fjárhæð sem greindi í dómsorði, m.a. með hliðsjón af ákvæðum réttarfarslaga. Umboðsmaður taldi ljóst af dómi Hæstaréttar frá 12. maí 2005 í máli nr. 494/2004 að rétturinn liti ekki svo á að II. kafli laga nr. 69/1995 innihéldi tæmandi talningu á því tjóni sem greiðsluskylda ríkissjóðs tæki til og að í dóminum fælist vísbending um að skýra bæri 11. gr. laganna svo að undantekningar frá meginreglu 1. mgr. hennar væru tæmandi taldar í greininni. Þá benti umboðsmaður á að dæmdar bætur til A vegna aðstoðar lögmanns mynduðu samkvæmt dómsorði höfuðstól ásamt öðrum dæmdum bótum til útreiknings vaxta og bæru vexti frá tjónsdegi, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og að bætur þessar væru „hluti af efnisdómi“ í skilningi tilvitnaðs dóms Hæstaréttar.
Umboðsmaður benti á að af yfirliti um dæmdar bætur í opinberum málum, sem tekið var saman við samningu frumvarps þess sem varð að lögum nr. 69/1995, yrði ekki séð að sérstaklega hafi verið greint á milli þess hvort einhver hluti hinna tildæmdu bóta tæki til þess kostnaðar sem brotaþoli hefði haft af aðstoð lögmanns. Þá bentu lögskýringargögn ekki til þess að leggja ætti aðra eða þrengri merkingu í orðin „höfuðstóll kröfu“ en almennt væri gert. Afmarka yrði inntak orðsins „krafa“ með hliðsjón af öðrum ákvæðum laganna, þ.á m. 1. gr. um gildissvið þeirra og 11. gr. þeirra í ljósi þess að fyrir lægi dómur um kröfu A á hendur tjónvaldi. Taldi umboðsmaður að í þessu máli hefði héraðsdómur ráðið því til lykta með dómi sínum hvaða bætur A bæri að fá vegna hinna fjárhagslegu afleiðinga líkamstjóns þess sem hann hafði orðið fyrir og þar með hver höfuðstóll bótakröfu hans í merkingu 1. mgr. 7. gr. laganna væri.
Niðurstaða umboðsmanns var sú að ákvörðun bótanefndar um að hafna kröfu A um greiðslu bóta úr ríkissjóði, á grundvelli þess að skilyrði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995 um fjárhæð höfuðstóls kröfu væru ekki uppfyllt, samræmdist ekki nefndum lögum. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki mál A til endurskoðunar, kæmi fram ósk um það frá honum, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.
Loks tók umboðsmaður fram að í áliti sínu hefði hann afmarkað athugun sína við þá aðstöðu sem uppi væri í þessu máli, þ.e. hvort bótaskylda ríkissjóðs tæki til dæmdra bóta vegna kostnaðar sem brotaþoli hefði haft af aðstoð lögmanns, en hefði enga afstöðu tekið til þess hvort af meginreglu 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna leiddi að bótaskylda ríkissjóðs tæki jafnframt til slíks kostnaðar þegar ekki lægi fyrir dómur um það.

I. Kvörtun.

Hinn 21. mars 2005 leitaði A til mín vegna þeirrar ákvörðunar bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, í máli nr. 223/2004, að hafna kröfu hans um greiðslu bóta úr ríkissjóði vegna líkamsárásar sem hann hafði orðið fyrir. Í kvörtuninni kemur fram að þótt A hafi verið dæmdar skaðabætur sem nemi hærri fjárhæð en sem nemur lágmarki samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995 hafi bótanefnd ekki talið skilyrði uppfyllt til greiðslu bóta honum til handa úr ríkissjóði sökum þess að hluti tildæmdra bóta hafi verið vegna aðstoðar lögmanns við að setja fram bótakröfu í refsimálinu sem ekki teljist til „höfuðstóls kröfu“ samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 30. desember 2005.

II. Málavextir.

Málavextir eru þeir að 29. nóvember 2004 lagði A fram beiðni um greiðslu bóta úr ríkissjóði hjá bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. nóvember 2004 í máli nr. S-805/2004 hafði ákærði verið sakfelldur fyrir líkamsárás og var honum, samkvæmt dómsorði, gert að greiða brotaþola, A, 108.223 kr. ásamt vöxtum og dráttarvöxtum. Í niðurlagi forsendna dómsins kemur fram sundurliðun á hinni dæmdu fjárhæð, þannig að 50.000 kr. eru skaðabætur samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, 8.223 kr. eru vegna útlagðs kostnaðar og 50.000 kr. eru bætur vegna aðstoðar lögmanns. Hinn 30. desember 2004 hafnaði bótanefnd kröfu A um greiðslu bóta úr ríkissjóði. Eru forsendur og röksemdir bótanefndar fyrir niðurstöðu sinni orðaðar svo í ákvörðun nefndarinnar:

„Skv. 7. gr. laga nr. 69/1995 eru bætur vegna einstaks verknaðar ekki greiddar nema höfuðstóll kröfu sé 100.000 kr. eða hærri. Bótanefnd hefur litið svo á að dæmdar bætur vegna aðstoðar lögmanns teljist ekki hluti af höfuðstól kröfu í þessu tilliti. Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að taka til greina þá kröfu að skaðabætur að fjárhæð 108.223 krónur, sem [A] voru dæmdar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2004, verði greiddar úr ríkissjóði.“

Samkvæmt 16. gr. laga nr. 69/1995 er ákvörðun bótanefndar endanleg niðurstaða máls á stjórnsýslustigi.

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 bréf, dags. 11. apríl 2005, þar sem ég óskaði eftir því, með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að nefndin léti mér í té öll gögn málsins. Jafnframt óskaði ég eftir því, með vísan til 9. gr. sömu laga, að nefndin upplýsti mig um þau sjónarmið og rök sem byggju að baki þeirri túlkun nefndarinnar á umræddri 7. gr. laga nr. 69/1995 að dæmdar bætur vegna aðstoðar lögmanns teljist ekki hluti af kröfu í skilningi greinarinnar þótt slíkar bætur séu hluti af hinni dæmdu bótakröfu á hendur ákærða. Ég vakti athygli nefndarinnar á því að samkvæmt dómsorði bera bætur A vegna aðstoðar lögmanns vexti frá þeim degi er tjónsatburður átti sér stað og mynda því höfuðstól með öðrum kröfum á hendur ákærða til útreiknings vaxta.

Hinn 27. apríl 2005 bárust mér gögn málsins frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem sendi mér þau að beiðni formanns bótanefndar.

Með bréfi til bótanefndar, dags. 13. maí 2005, ítrekaði ég beiðni mína, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um að nefndin upplýsti mig um þau sjónarmið og rök sem byggju að baki niðurstöðu nefndarinnar. Tilmæli mín ítrekaði ég enn á ný með bréfi til nefndarinnar, dags. 6. júní 2005. Svör nefndarinnar bárust mér með bréfi, dags. 7. júní 2005, en þar segir m.a.:

„Með lögum nr. 69/1995 var lögleitt úrræði fyrir þolendur tiltekinna afbrota til að fá greidda úr ríkissjóði fjárhæð er samsvarar skaðabótum fyrir líkamstjón og miska samkvæmt því er nánar er mælt fyrir um í lögunum. Í 1. mgr. 8. gr. er kveðið á um að öðru leyti (leturbreyting nefndarinnar) en greini í lögunum gildi við ákvörðun bóta almennar reglur um skaðabótaábyrgð tjónvalds. Samkvæmt 7. gr. laganna eru ekki greiddar bætur úr ríkissjóði á grundvelli þeirra nema höfuðstóll kröfu sé 100.000 krónur eða lægri [sic!] og mælt er fyrir um hámark bóta er greiddar eru vegna einstakra tegunda tjóns. Samkvæmt þessu á umsækjandi ekki kröfu til þess að fá allt tjón sitt bætt úr ríkissjóði enda tekið fram í 1. mgr. 8. gr. að um rétt til bóta gildi frávik frá almennum reglum.

Í 2. mgr. 15. gr. laganna er mælt fyrir um heimild til handa bótanefnd að ákveða í sérstökum tilvikum, svo sem vegna efnahags umsækjanda, að hann skuli að hluta eða öllu leyti fá greiddan kostnað er hann hefur þurft að bera í tilefni málsins. Að því er tekur til kostnaðar er því lagt í vald bótanefndar að meta í hverju tilviki hvort umsækjandi uppfylli skilyrði til að kostnaður vegna meðferðar málsins hjá nefndinni sé að einhverju eða öllu leyti greiddur úr ríkissjóði.

Bótanefnd hefur litið svo á að með tilliti til framangreinds sé kostnaður er hlýst af því að staðreyna tjónið ekki hluti þeirra skaðabóta sem lögmælt er að skuli greiða umsækjanda úr ríkissjóði á grundvelli laganna heldur sértækt úrræði sem heimilt er að beita í þágu umsækjanda að undangengnu mati nefndarinnar.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að dómstólar fara ýmist þá leið að ákvarða brotaþola bætur vegna lögmannskostnaðar við að halda uppi kröfu eða að dæma ákærða beint til að borga réttargæslumanni þóknun vegna lögmannsstarfanna. Í þeim tilvikum þegar dómstólar dæma réttargæslumanni sérstaka þóknun hefur bótanefnd litið svo á að þá þóknun eigi ekki að greiða úr ríkissjóði gegnum bótanefnd. Þessi mismunandi vinnubrögð dómstóla hefur bótanefnd enn frekar talið styðja þá túlkun á lögunum að lögmannskostnaður, sem sérstaklega er dæmdur sem hluti bóta, eigi ekki að teljast til höfuðstóls skv. 7. gr. laganna.“

Með bréfi, dags. 8. júní 2005, kynnti ég A bréf bótanefndar og gaf honum kost á að senda mér þær athugasemdir sem hann teldi ástæðu til að gera í tilefni af því. Mér barst bréf með athugasemdum A 21. júní 2005.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1.

Kvörtun sú sem hér er til umfjöllunar beinist að þeirri ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 að hafna kröfu brotaþola um greiðslu bóta úr ríkissjóði með þeim rökum að dæmdar bætur vegna þóknunar lögmanns teljist ekki til höfuðstóls kröfu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. nefndra laga.

Með setningu laga nr. 69/1995 hefur löggjafinn mælt fyrir um að ríkissjóður skuli bera ábyrgð á greiðslu skaðabóta til þolenda afbrota innan þeirra marka sem lögin setja. Brotaþolum er því veittur lögvarinn réttur til greiðslu bóta úr ríkissjóði að skilyrðum laganna uppfylltum. Er þetta ljóst af því orðalagi 1. gr. laganna að „ríkissjóður greiði bætur“, auk þess sem það kemur skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 69/1995 að það sé meginregla frumvarpsins að tjónþoli eigi lögvarða kröfu til greiðslu bóta úr ríkissjóði innan þeirra marka sem lögin setja. (Alþt. 1994—1995, A-deild, bls. 3320 og 3321.)

Gildissvið laga nr. 69/1995 er markað í 1. gr. þeirra. Samkvæmt henni greiðir ríkissjóður bætur vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum í samræmi við ákvæði laganna, enda hafi brotið verið framið innan íslenska ríkisins. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 69/1995 kemur fram að markmið frumvarpsins sé að „styrkja stöðu brotaþola með þeim hætti að ríkissjóður greiði bætur fyrir líkamstjón og miska vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum, svo og fyrir tjón á munum sem leiðir af slíku broti, enda sé viðkomandi vistaður á stofnun ríkisins vegna afbrots eða gegn vilja sínum“. (Alþt. 1994—1995, A-deild, bls. 3320.)

Í II. kafla laganna (2.—5. gr.) sem ber yfirskriftina „bótaskyld tjón“ er fjallað um bótaflokka sem greiðsluskylda ríkisins nær til, þ.e. bætur vegna líkamstjóns, miska og tjóns á munum. Í þessum ákvæðum er ekki sérstaklega vikið að bótum vegna kostnaðar sem brotaþoli hefur haft af aðstoð lögmanns. Ég vek þó athygli á því að með orðalaginu „í samræmi við ákvæði laga þessara“ í 1. gr. laganna er vísað til laganna í heild en ekki einungis til II. kafla laganna. Bendir þetta til þess að í II. kafla laganna sé ekki talið með tæmandi hætti það tjón sem fallið geti undir bótaskyldu ríkissjóðs. Hefur Hæstiréttur enda staðfest að tjón það sem umrædd bótaskylda ríkissjóðs taki til sé ekki tæmandi talið í II. kafla laganna, en að því mun ég víkja nánar síðar í þessu áliti mínu er ég fjalla um dóm Hæstaréttar í máli nr. 494/2004.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna skulu bætur vegna einstaks verknaðar ekki greiddar nema höfuðstóll kröfu sé 100.000 kr. eða hærri og er auk þess mælt fyrir um hámarksfjárhæðir sem ríkissjóður greiði vegna einstakra bótaflokka, að vöxtum meðtöldum, í a-d liðum 2. mgr. sömu greinar, þ.e. vegna tjóns á munum, líkamstjóns, miska og missis framfæranda. Í athugasemdum við 7. gr. frumvarpsins segir að lagt sé til að ekki verði greiddar bætur þegar „tjón vegna einstaks verknaðar“ nemi lægri fjárhæð en 10.000 kr. (Alþt. 1994—1995, A-deild, bls. 3324.) Með 18. gr. laga nr. 144/1995, sem breyttu lögum nr. 69/1995, var fjárhæð þessari breytt í 100.000 kr. en ekki komu fram nánari skýringar á hvað teljist til höfuðstóls kröfu í lögskýringargögnum að baki þeim lögum.

Að öðru leyti en greinir í lögunum gilda almennar reglur um skaðabótaábyrgð tjónvalds við ákvörðun bóta, þar á meðal um lækkun eða niðurfellingu bóta vegna eigin sakar eða áhættu tjónþola, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins segir að „lagt [sé] til að almennar reglur um skaðabótaábyrgð tjónvalds gildi við ákvörðun bóta sé ekki annað tekið sérstaklega fram“. (Alþt. 1994—1995, A-deild, bls. 3324.) Frekari skýringar á þessu atriði er að finna í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins, en þar segir að „um mat á fjárhæð bóta og eigin sök tjónþola [gildi] almennar reglur skaðabótaréttar“. (Alþt. 1994—1995, A-deild, bls. 3321.)

Í 1. mgr. 11. gr. laganna segir að hafi bótakröfu verið ráðið til lykta með dómi skuli greiða bætur með þeirri fjárhæð sem ákveðin var í dóminum, sbr. þó ákvæði 7. gr., 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. Einnig eru gerðar undantekningar samkvæmt 2.—3. mgr. greinarinnar sem ekki er þörf á að rekja hér. Í athugasemdum við 11. gr. frumvarpsins segir að „með vísun til þess að bótanefnd skuli almennt í störfum sínum fara eftir almennum skaðabótareglum, þar með talið um ákvörðun bótafjárhæðar, um lækkun bóta eða niðurfellingu þeirra vegna eigin sakar eða áhættu, er dómur bindandi fyrir nefndina þar sem hann hefur metið þessi atriði“. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu segir ennfremur að þegar dómur hafi gengið um bótakröfuna sé almennt miðað við að bætur verði greiddar í samræmi við niðurstöður hans. Þá segir í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins að dómur um bætur frá tjónvaldi verði almennt bindandi fyrir bótanefnd og að samkvæmt frumvarpinu gildi sú meginregla að samræmi sé á milli kröfu tjónþola á hendur brotamanni og kröfu gagnvart ríkissjóði. (Alþt. 1994—1995, A-deild, bls. 3325 og 3321.)

2.

Eins og rakið er hér að ofan er sú meginregla sem lögfest er í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 69/1995, að þegar bótakröfu hefur verið ráðið til lykta með dómi skuli greiða bætur með þeirri fjárhæð sem ákveðin var í dóminum, ekki fortakslaus. Í niðurlagi málsgreinarinnar er mælt fyrir um frávik frá henni samkvæmt þremur ákvæðum laganna, þ.e. 7. gr., 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr., auk þess sem í 2. og 3. mgr. greinarinnar er að finna frekari undantekningar. Engin þessara undantekninga lýtur að kostnaði sem brotaþoli hefur haft af aðstoð lögmanns við að gera kröfu um skaðabætur úr hendi tjónvalds.

Í 7. gr. laganna er annars vegar mælt svo fyrir að bætur verði ekki greiddar úr ríkissjóði nema höfuðstóll kröfu nemi tiltekinni lágmarksfjárhæð og hins vegar er mælt fyrir um hámarksfjárhæðir sem ríkissjóður greiðir vegna einstakra bótaflokka. Ég tel að skýra verði tilvísun til 7. gr. í niðurlagi 1. mgr. 11. gr. laganna svo að þar sé verið að vísa til umræddra lágmarks- og hámarksfjárhæða. Styðja lögskýringargögn þessa niðurstöðu enda segir ekki annað um þessa tilvísun í athugasemdum við 11. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 69/1995 en að sú takmörkun sé gerð á framangreindri meginreglu að „ekki verði greiddar hærri bætur en skv. 7. gr.“. (Alþt. 1994—1995, A-deild, bls. 3325.)

Í svarbréfi bótanefndar til mín, dags. 7. júní 2005, er ekki byggt á því að einhver undantekninga frá 11. gr. laganna eigi við í tilviki A og er raunar hvergi vísað til 11. gr. í svörum bótanefndar, en þar segir m.a. orðrétt:

„Í 1. mgr. 8. gr. er kveðið á um að öðru leyti (leturbreyting nefndarinnar) en greini í lögunum gildi við ákvörðun bóta almennar reglur um skaðabótaábyrgð tjónvalds. Samkvæmt 7. gr. laganna eru ekki greiddar bætur úr ríkissjóði á grundvelli þeirra nema höfuðstóll kröfu sé 100.000 krónur eða lægri [sic!] og mælt er fyrir um hámark bóta er greiddar eru vegna einstakra tegunda tjóns. Samkvæmt þessu á umsækjandi ekki kröfu til þess að fá allt tjón sitt bætt úr ríkissjóði enda tekið fram í 1. mgr. 8. gr. að um rétt til bóta gildi frávik frá almennum reglum.“

Ég skil ofangreindan rökstuðning bótanefndar svo að í ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995, nánar tiltekið í túlkun nefndarinnar á orðunum „höfuðstóll kröfu“, felist frávik frá þeirri meginreglu 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna að almennar reglur um skaðabótaábyrgð tjónvalds gildi við ákvörðun bóta úr ríkissjóði. Hvað sem þeirri meginreglu líður þá er ljóst að í tilviki A liggur fyrir dómur um þær bætur sem tjónvaldi ber að greiða honum. Er því ekki unnt að líta fram hjá ákvæði 11. gr. laganna við úrlausn málsins, en eins og hér að ofan er rakið er ekki að sjá að nein undantekninga 1.—3. mgr. greinarinnar eigi við. Ég tek fram að í áliti þessu mun ég afmarka athugun mína við þá aðstöðu sem uppi er í þessu máli, þ.e. hvort bótaskylda ríkissjóðs taki til dæmdra bóta vegna kostnaðar sem brotaþoli hefur haft af aðstoð lögmanns, en tek ekki afstöðu til þess hvort af meginreglu 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna leiði að bótaskylda ríkissjóðs taki jafnframt til slíks kostnaðar þegar ekki liggur fyrir dómur um það.

Ljóst er að bótanefnd lagði ekki fjárhæð samkvæmt dómsorði dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-805/2004 til grundvallar úrlausn sinni um hvort A ætti rétt til bóta úr ríkissjóði. Skýring orðanna „fjárhæð sem ákveðin var í dóminum“ í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 69/1995 með hliðsjón af almennum málvenjum bendir þó til þess að átt sé við þá fjárhæð sem greinir í dómsorði, enda kemur orðið fjárhæð fyrir í eintölu í 1. mgr. 11. gr. laganna.

Einstök lagaákvæði ber ekki aðeins að skýra til samræmis við önnur ákvæði sama lagabálks heldur einnig með hliðsjón af öðrum lögum sem varða kunna sama réttaratriði. Samkvæmt 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, ber að draga niðurstöðu máls saman í dómsorði. Skýring með hliðsjón af þessum almennu ákvæðum réttarfarslaga rennir enn frekari stoðum undir þá niðurstöðu að með tilvitnuðum orðum 1. mgr. 11. gr. laga nr. 69/1995 sé átt við fjárhæð samkvæmt dómsorði.

Í nýlegum dómi Hæstaréttar frá 12. maí 2005 í máli nr. 494/2004 var fjallað um það hvort bótaskylda ríkissjóðs á grundvelli laga nr. 69/1995 tæki til tildæmdra dráttarvaxta. Niðurstaða dómsins, sem einkum byggðist á lögskýringu á 11. gr. laganna, varð sú að brotaþoli ætti rétt til að fá tildæmda dráttarvexti á bótakröfu hans á hendur tjónvaldi greidda úr ríkissjóði á grundvelli laganna. Segir m.a. í niðurstöðu dómsins:

„Samkvæmt lögum nr. 69/1995 greiðir ríkissjóður þolendum afbrota bætur vegna tjóns er af afbroti leiðir að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem síðar varð að lögum nr. 69/1995, segir að dómur um bætur frá tjónvaldi verði almennt bindandi fyrir bótanefnd og að samkvæmt frumvarpinu gildi sú meginregla að samræmi sé milli kröfu tjónþola á hendur brotamanni og kröfu gagnvart ríkissjóði. Þá segir í athugasemdunum að þegar dómur hafi gengið um bótakröfuna sé almennt miðað við að bætur verði greiddar í samræmi við niðurstöðu hans. Þessi meginregla er þannig orðuð í 1. mgr 11. gr. laganna að þegar bótakröfu hefur verið ráðið til lykta með dómi, skuli greiða bætur með þeirri fjárhæð sem ákveðin var í dómi. Í lok málsgreinarinnar er þó um frávik frá þessu vísað til ákvæða 7. gr., 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 10 gr. laganna. Lýtur engin þeirra undantekninga sem þar er vísað til að tildæmdum dráttarvöxtum, en af 2. mgr. 7. gr. sést að gert er ráð fyrir því að greiðsluskylda ríkissjóðs taki meðal annars til vaxta.

Þegar litið er til orðalags 1. mgr. 11. gr. laga nr. 69/1995, framangreindra lögskýringargagna og þess að ákvörðun dóms um vexti af tildæmdum höfuðstól, þar með taldir dráttarvextir, er hluti af efnisdómi verður að telja að áfrýjanda sé skylt að greiða stefndu dráttarvexti af margnefndum höfuðstól skaðabótanna í samræmi við dóm Hæstaréttar 27. febrúar 2003 í máli nr. 536/2002.“

Af dómi Hæstaréttar er ljóst að rétturinn lítur ekki svo á að II. kafli laga nr. 69/1995 innihaldi tæmandi talningu á því tjóni sem greiðsluskylda ríkissjóðs taki til. Sú niðurstaða virðist í fullu samræmi við meginreglur þær sem settar eru fram í 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 11. gr. laganna. Þá tel ég að í tilvísun réttarins til þess að engin þeirra undantekninga sem vísað er til í niðurlagi 1. mgr. 11. gr. laganna lúti að tildæmdum dráttarvöxtum felist vísbending um að skýra beri ákvæði 11. gr. svo að undantekningar frá meginreglu 1. mgr. greinarinnar séu tæmandi taldar í ákvæðinu.

Í dómsorði dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-805/2004 mynda dæmdar bætur til A vegna aðstoðar lögmanns höfuðstól ásamt öðrum dæmdum bótum til útreiknings vaxta og bera vexti frá tjónsdegi, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Fæ ég ekki betur séð en að bætur þessar séu „hluti af efnisdómi“ í skilningi tilvitnaðs dóms Hæstaréttar í máli nr. 494/2004.

Í fylgiskjali II með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 69/1995 er að finna yfirlit um dæmdar bætur í opinberum málum sem dæmd voru í Héraðsdómi Reykjavíkur árin 1993 og 1994. (Alþt. 1994—1995, A-deild, bls. 3330—3333.) Segir í almennum athugasemdum með frumvarpinu að þessar dæmdu bætur „mundu falla undir ákvæði frumvarpsins“. (Alþt. 1994—1995, A-deild, bls. 3321.) Í yfirlitinu er m.a. gerð grein fyrir fjárhæðum krafna fyrir dómi og fjárhæðum dæmdra bóta. Fjárhæðir þessar eru gefnar upp án sundurliðunar með tilliti til þess hvort hluti kröfu sé vegna kostnaðar af aðstoð lögmanns. Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal dæma brotaþola bætur vegna kostnaðar sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni í málinu, svo sem vegna lögmannsaðstoðar, ef krafa er gerð um það. Ekki verður séð að í framangreindu yfirliti, sem tekið var saman við samningu frumvarps þess sem varð að lögum nr. 69/1995, hafi sérstaklega verið greint á milli þess hvort einhver hluti hinna tildæmdu bóta tæki til þess kostnaðar sem brotaþoli hefði haft af aðstoð lögmanns.

Í áður tilvitnuðum athugasemdum með 7. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 69/1995 eru orðin „tjón vegna einstaks verknaðar“ notuð um höfuðstól kröfu án nokkurra takmarkana á því tjóni sem þar geti fallið undir. Benda lögskýringargögn því ekki til þess að leggja eigi aðra eða þrengri merkingu í orðin „höfuðstóll kröfu“ en almennt er gert. Með orðinu „krafa“ virðist annað hvort átt við þá kröfu sem brotaþoli eigi á hendur tjónvaldi eða þá kröfu sem brotaþoli eigi á hendur ríkissjóði samkvæmt lögum nr. 69/1995. Ljóst er að fyrri merkingin getur ekki hafa legið til grundvallar niðurstöðu bótanefndar í máli A, enda er höfuðstóll kröfu A á hendur tjónvaldi samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-805/2004 hærri en 100.000 kr. Sé síðari merkingin lögð í orðið „krafa“ verður að afmarka nánar efnislegt inntak þess, m.a. með hliðsjón af öðrum ákvæðum laganna, þ.á m. 1. gr. um gildissvið þeirra og 11. gr. laganna í ljósi þess að fyrir liggur dómur um kröfu A á hendur tjónvaldi, en eins og ég hef rakið hér að framan hefur athugun mín á lögum nr. 69/1995 og lögskýringargögnum með þeim ekki leitt í ljós að víkja megi frá meginreglu 1. mgr. 11. gr. hvað varðar kostnað sem brotaþoli hefur haft af lögmannsaðstoð og sem er hluti dæmdra bóta. Ég tel því að í þessu máli hafi héraðsdómur ráðið því til lykta með dómi sínum hvaða bætur A bæru vegna hinna fjárhagslegu afleiðingar líkamstjóns þess sem hann hafði orðið fyrir og þar með að höfuðstóll bótakröfu hans í merkingu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995 væri kr. 108.223.

Samkvæmt framanrituðu fæ ég ekki séð að í 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 69/1995 sé að finna stoð fyrir þeirri lagatúlkun sem bótanefnd lagði til grundvallar við ákvörðun í máli A, að dæmdar bætur vegna aðstoðar lögmanns teljist ekki til höfuðstóls kröfu í skilningi 1. mgr. 7. gr. laganna.

3.

Máli sínu til frekari stuðnings vísar bótanefnd til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 69/1995, þar sem segir að „í sérstökum tilvikum, svo sem vegna efnahags umsækjanda, [sé] nefndinni heimilt að ákveða að umsækjandi skuli að hluta til eða að öllu leyti fá greiddan kostnað sem hann hefur þurft að bera í tilefni málsins“. Eins og áður var rakið segir í bréfi bótanefndar til mín að nefndin leggi þann skilning í ákvæði þetta að „lagt [sé] í vald bótanefndar að meta í hverju tilviki hvort umsækjandi uppfylli skilyrði til að kostnaður vegna meðferðar málsins hjá nefndinni sé að einhverju eða öllu leyti greiddur úr ríkissjóði“. Þrátt fyrir að af tilvitnuðum orðum megi ráða að bótanefnd telji ákvæði þetta einskorðast við kostnað vegna meðferðar máls hjá nefndinni segir í bréfi hennar að „með tilliti til framangreinds“ líti nefndin svo á að kostnaður sem hlýst af því að staðreyna tjón sé ekki hluti þeirra skaðabóta sem lögmælt sé að greiða beri úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 69/1995 heldur „sértækt úrræði sem heimilt [sé] að beita í þágu umsækjanda að undangengnu mati nefndarinnar“.

Ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 69/1995 ber að skýra til samræmis við 1. mgr. sömu greinar, en þar segir að kostnaður vegna meðferðar máls hjá bótanefnd greiðist úr ríkissjóði. Í athugasemdum við 1. mgr. 15. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 69/1995 segir að „hér [sé] átt við kostnað sem [leiði] af ákvörðunum bótanefndar vegna rannsóknar eða meðferðar máls“. Um 2. mgr. 15. gr. segir í athugasemdunum að „miðað [sé] við að almennt þurfi tjónþoli ekki aðstoð lögmanns vegna umsóknar um bætur eða málsmeðferðar hjá nefndinni“. (Alþt. 1994—1995, A-deild, bls. 3327.) Samkvæmt framanrituðu tel ég ljóst að með orðunum „kostnað sem hann hefur þurft að bera í tilefni málsins“ í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 69/1995 sé einungis átt við kostnað sem brotaþoli hefur haft af umsókn um bætur úr ríkissjóði en ekki þann kostnað sem tjónþoli hefur haft af því að staðreyna tjón sitt og setja fram bótakröfu á hendur tjónvaldi á fyrri stigum.

Til enn frekari stuðnings niðurstöðu sinni vísar bótanefnd ennfremur til „mismunandi vinnu[bragða] dómstóla“ að því er varðar greiðslur til lögmanns brotaþola, eftir því hvort lögmaðurinn hafi fengið stöðu réttargæslumanns brotaþola eða ekki. Segir í bréfi bótanefndar að „þegar dómstólar [dæmi] réttargæslumanni sérstaka þóknun [hafi] bótanefnd litið svo á að þá þóknun eigi ekki að greiða úr ríkissjóði gegnum bótanefnd“.

Samkvæmt 3. mgr. 44. gr. i. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, greiðist þóknun réttargæslumanns úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar skv. 164. gr. sömu laga. Réttur til að fá tilnefndan eða skipaðan réttargæslumann er bundinn við tiltekna brotaflokka og háður skilyrðum um alvarleika tjóns og þörf brotaþola á sérstakri aðstoð réttargæslumanns, sbr. 44. gr. b. sömu laga. Í öðrum tilvikum leggur brotaþoli sjálfur út fyrir þóknun lögmanns leiti hann á annað borð aðstoðar lögmanns við að setja fram bótakröfu á hendur tjónvaldi. Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. sömu laga skal, eins og áður er rakið, dæma brotaþola bætur vegna slíks kostnaðar ef krafa er gerð um það.

Þóknun réttargæslumanns greiðist því úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 19/1991 og verður aldrei hluti af tjóni brotaþola. Þóknun lögmanns sem ekki hefur stöðu réttargæslumanns fæst hins vegar bætt sem hluti af tjóni brotaþola á grundvelli 4. mgr. 172. gr. sömu laga. Þau „mismunandi vinnubrögð dómstóla“ sem bótanefnd vísar til styðjast því við lög. Er vandséð hvernig sú staðreynd að sumir brotaþolar njóti hagræðis af ákvæðum laga nr. 19/1991 um réttargæslumenn geti stutt þá niðurstöðu bótanefndar að tjón þeirra brotaþola sem sjálfir hafa lagt út fyrir lögmannskostnaði fáist ekki greitt úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 69/1995.

Að virtu öllu framanrituðu fellst ég ekki á þá túlkun bótanefndar á lögum nr. 69/1995 að bætur sem brotaþola hafa verið dæmdar vegna aðstoðar lögmanns við að setja fram bótakröfu á hendur tjónvaldi teljist ekki til höfuðstóls kröfu í skilningi 1. mgr. 7. gr. laganna. Tel ég að leggja beri til grundvallar að hafi bætur verið dæmdar fyrir slíkt tjón falli það almennt undir greiðsluskyldu ríkissjóðs á grundvelli meginreglu 1. mgr. 11. gr. laganna nema annað leiði af öðrum ákvæðum greinarinnar, en svo háttar a.m.k. ekki til í tilviki A eins og atvik í máli hans liggja fyrir í máli þessu.

V. Niðurstaða.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að sú ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 að hafna kröfu A um greiðslu bóta úr ríkissjóði, á grundvelli þess að skilyrði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995 um fjárhæð höfuðstóls kröfu séu ekki uppfyllt, samrýmist ekki nefndum lögum. Beini ég því þeim tilmælum til bótanefndar að hún taki mál A til endurskoðunar, komi fram ósk um það frá honum, og leysi þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í áliti þessu. Jafnframt beini ég þeim tilmælum til bótanefndar að hún hafi framvegis hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti mínu við meðferð mála sinna.

Ég tek fram að í áliti þessu hef ég afmarkað athugun mína við þá aðstöðu sem uppi er í þessu máli, þ.e. hvort bótaskylda ríkissjóðs taki til dæmdra bóta vegna kostnaðar sem brotaþoli hefur haft af aðstoð lögmanns, en hef enga afstöðu tekið til þess hvort af meginreglu 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna leiði að bótaskylda ríkissjóðs taki jafnframt til slíks kostnaðar þegar ekki liggur fyrir dómur um það.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Í bréfi til bótanefndar skv. lögum nr. 69/1995, dags. 13. febrúar 2006, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort A hefði leitað til nefndarinnar á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða hvort málið væri enn til meðferðar. Þá óskaði ég eftir upplýsingum um hvort bótanefnd hefði að öðru leyti gripið til einhverra tiltekinna ráðstafana í tilefni af áliti mínu. Í svari bótanefndar, dags. 16. mars 2006, kemur fram að A hefði leitað til nefndarinnar á ný og hefði hún tekið málið upp að nýju. Væri þess að vænta að erindi hans yrði afgreitt í lok mánaðarins.

Hinn 30. maí 2006 barst mér ákvörðun bótanefndar í máli A. Segir þar meðal annars að við athugun fallist bótanefnd á að dæmdar bætur vegna lögmannskostnaðar séu hluti höfuðstóls í skilningi 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995. Hafi nefndin því endurupptekið fyrri ákvörðun sína í máli A. Fellst nefndin á að greiða A úr ríkissjóði skaðabætur með þeirri fjárhæð sem ákveðin var í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2004 ásamt vöxtum og dráttarvöxtum.