Börn. Eftirlit Barnaverndarstofu með starfsháttum barnaverndarnefnda. Viðbrögð barnaverndarnefndar við tilkynningu á grundvelli barnaverndarlaga. Réttur forsjárlauss foreldris til upplýsinga um barn sitt. Svör við erindum. Málshraði.

(Mál nr. 4312/2005)

A kvartaði yfir afgreiðslu Barnaverndarstofu á erindi hans þar sem hann gerði athugasemdir við starfshætti Barnaverndar Reykjavíkur. Beindist erindið m.a. að því að Barnavernd Reykjavíkur hefði ekki brugðist við tilkynningum ýmissa aðila vegna dóttur hans á árunum 2001 og 2002 og hefði ekki svarað beiðnum hans um upplýsingar um málefni dótturinnar.

Umboðsmaður rakti ákvæði 7. og 8. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um Barnaverndarstofu og eftirlitshlutverk hennar gagnvart barnaverndarnefndum. Benti hann á að af orðalagi 3. mgr. 8. gr. mætti ráða að ákvörðun um það hvort Barnaverndarstofa hæfist handa við rannsókn máls sem undir hana væri borið í formi kvörtunar væri háð mati stofunnar á því hvort tilefni væri til aðgerða. Fæli ákvæðið þannig í sér reglu um skyldubundið mat stjórnvaldsins sem fara yrði fram í hverju tilviki og þá á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Umboðsmaður tók fram að í eftirlitshlutverki Barnaverndarstofu gagnvart barnaverndarnefndum fælist m.a. að gæta þess að þær fylgdu stjórnsýslureglum í störfum sínum, t.d. að því er varðaði svör við skriflegum erindum. Af þessu leiddi að beindist kvörtun sem stofunni bærist að því að barnaverndarnefnd hefði ekki svarað skriflegum erindum sem til hennar hefði verið beint eða ekki brugðist við tilkynningum, sérstaklega þegar þær vörðuðu meint brot á veigamiklum hagsmunum barns, yrði að telja það eðlilegan þátt í eftirliti stofunnar að bregðast við með því að kanna nánar réttmæti slíkra athugasemda.

Umboðsmaður benti á að barnaverndarlög kvæðu skýrt á um það hvernig barnaverndarnefndum bæri að bregðast við tilkynningum um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska gæti verið hætta búin m.a. vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra. Umboðsmaður vék að því að upplýst væri í málinu að nokkrir aðilar, þ. á m. G, geðlæknir, hefðu gert barnaverndarnefnd Reykjavíkur viðvart árið 2002 um hættuástand sem dóttir A byggi við. Rakti hann að í kjölfar kvörtunar A til Barnaverndarstofu hefði stofan aflað munnlegra upplýsinga frá Barnavernd Reykjavíkur um afskipti af málum dóttur hans. Gæfu þær upplýsingar vísbendingar um að barnaverndarnefnd hefði ekki brugðist við tilkynningum vegna aðstæðna barnsins á árunum 2001 og 2002. Þá væri ljóst af skýringum Barnaverndarstofu að engar ráðstafanir hefðu verið gerðar af hennar hálfu til að kanna hverju þetta sætti heldur hefði stofan vísað kvörtun A frá á þeim grundvelli að umkvörtunarefnið gæfi ekki sérstakt tilefni til að ætla að barnaverndarnefnd hefði ekki farið að lögum. Umboðsmaður ítrekaði að 3. mgr. 8. gr. barnaverndarlaga veitti Barnaverndarstofu svigrúm til að meta hvort ástæða væri til að afla gagna, upplýsinga og skýringa frá barnaverndarnefnd í tilefni af kvörtun sem henni bærist. Tók hann hins vegar fram að tæki stofan þá ákvörðun að aðhafast í tilefni af kvörtun með gagnaöflun hjá barnaverndarnefnd yrði slíkri eftirlitsaðgerð ekki ráðið til lykta með fullnægjandi hætti nema aflað væri nauðsynlegra gagna og skýringa þannig að stofan gæti lagt viðhlítandi og raunhæft mat á hvort kvörtunin gæfi tilefni til sérstakra viðbragða gagnvart viðkomandi barnaverndarnefnd. Umboðsmaður benti á að af ákvæðum barnaverndarlaga um skyldur og valdheimildir Barnaverndarstofu yrði ráðið að ef skýrar vísbendingar um tiltekna annmarka á málsmeðferð eða ákvörðunum barnaverndarnefnda kæmu fram við athugun sem stofan ákvæði að ráðast í, gæti stofan ekki látið hjá líða að bregðast við slíkum aðstæðum með þeim úrræðum sem henni væru fengin að lögum. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður að Barnaverndarstofu hefði borið að kanna nánar hver viðbrögð barnaverndarnefndar við tilkynningum geðlæknisins G og annarra aðila vegna dóttur A á árunum 2001 og 2002 hefðu verið og ef nefndin hefði ekki brugðist við, hverjar hefðu verið ástæður þess. Var það niðurstaða umboðsmanns að viðbrögð Barnaverndarstofu hefðu að þessu leyti ekki verið í samræmi við þær skyldur sem stofunni væru lagðar á herðar með barnaverndarlögum.

Umboðsmaður rakti ákvæði 2. mgr. 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 um rétt foreldris sem ekki hefur forsjá barns til að fá upplýsingar um barnið frá ýmsum stjórnvöldum, þ. á m. frá barnaverndarnefndum. Benti hann á að erindi A til Barnaverndarstofu hefði m.a. beinst að því að Barnavernd Reykjavíkur hefði ekki svarað skriflegum beiðnum hans um upplýsingar um heilsufar dóttur hans í kjölfar þess að hann taldi sig hafa orðið varan við áverka á henni. Umboðsmaður vék að þeirri óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar að hver sá sem beri upp skriflegt erindi við stjórnvald eigi almennt rétt á að fá skriflegt svar nema svars sé ekki vænst. Benti umboðsmaður jafnframt á að ákvæði 2. mgr. 52. gr. barnalaga fæli í sér skyldu fyrir stjórnvöld til að taka afstöðu til framkominna beiðna um upplýsingar. Tók hann fram að af þeim gögnum sem lögð hefðu verið fyrir hann fengi hann ekki séð að þessari skyldu hefði verið sinnt af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur í því tilviki sem um ræddi. Með hliðsjón af því gæti hann ekki fallist á þá niðurstöðu Barnaverndarstofu um þetta kvörtunaratriði A að Barnavernd Reykjavíkur hefði brugðist við beiðni hans með fullnægjandi hætti. Var það niðurstaða umboðsmanns að afgreiðsla Barnaverndarstofu á þessum þætti kvörtunar A hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Barnaverndarstofu að hún gætti í framtíðinni þeirra sjónarmiða sem fram kæmu í áliti hans við meðferð sambærilegra mála.

I. Kvörtun.

Hinn 17. janúar 2005 leitaði til mín A og kvartaði yfir afgreiðslu Barnaverndarstofu, dags. 27. október 2004, á erindi hans, dags. 2. júlí 2004, sem varðaði starfshætti Barnaverndar Reykjavíkur. Taldi A afgreiðslu Barnaverndarstofu á erindi sínu alls ófullnægjandi og að stofan hefði ekki tekið afstöðu til allra þeirra atriða sem kvörtun hans hefði beinst að.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 30. desember 2005.

II. Málavextir.

Kvörtun A til Barnaverndarstofu beindist í fyrsta lagi að því að Barnavernd Reykjavíkur hefði ekki brugðist við tilkynningum hans og fleiri aðila vegna dóttur hans á árunum 2001 og 2002. Í öðru lagi kvartaði A yfir starfsháttum Barnaverndar Reykjavíkur vegna eftirlits með umgengni hans við dóttur sína, B, og í þriðja lagi beindist kvörtun hans að því að Barnavernd Reykjavíkur hefði ekki svarað bréfum hans frá október og desember 2003 og janúar 2004 þar sem hann óskaði m.a. eftir upplýsingum um málefni B og í fjórða lagi gerði hann athugasemdir við að fyrrverandi eiginkonu hans og barnsmóður hefði verið afhent afrit af bréfum hans til Barnaverndar Reykjavíkur. Fylgdi kvörtun A til Barnaverndarstofu afrit 38 bréfa hans til Barnaverndar Reykjavíkur sem hann hafði sent á tímabilinu 24. ágúst 2001 til 15. júní 2004. Þá fylgdu einnig afrit af tveimur vottorðum fransks geðlæknis, G, þar sem meðal annars kemur fram að hann hafi gert barnaverndarnefnd Reykjavíkur viðvart 4. apríl 2002 um hættuástand sem B byggi við og afrit af sex bréfum fransks lögmanns A til Barnaverndar Reykjavíkur frá tímabilinu 5. apríl 2002 til 4. júní 2004. Þá lagði A síðar fram frekari gögn, þ.e. bréf Barnaverndar Reykjavíkur til hans, dags. 1. júlí og 14. júlí 2004 og svarbréf sín vegna þeirra.

A leitaði til mín 6. október 2004 en þá hafði honum ekkert svar borist frá Barnaverndarstofu við erindi sínu. Í tilefni af þeirri kvörtun A, sbr. mál nr. 4222/2004, ritaði ég Barnaverndarstofu bréf, dags. 26. október 2004, þar sem ég óskaði upplýsinga um stöðu máls hans. Mér barst svarbréf Barnaverndarstofu 29. sama mánaðar og fylgdi því afrit af bréfi stofunnar til A, dags. 27. október 2004. Í kjölfar þessa lauk ég umfjöllun minni um kvörtun A frá 6. október 2004.

Í bréfi Barnaverndarstofu til A, dags. 27. október 2004, segir m.a. eftirfarandi:

„Í erindi yðar er getið um tilkynningu til Barnaverndar Reykjavíkur vegna gruns um að dóttir yðar hafi verið beitt [...]ofbeldi árið 2003. Barnaverndarstofa hefur fengið þær upplýsingar frá Barnavernd Reykjavíkur að þetta hafi verið einu afskipti sem stofnunin hafi haft af máli dóttur yðar á grundvelli ákvæða barnaverndarlaga. Þá fékk Barnaverndarstofa þær upplýsingar að móðir stúlkunnar færi með forsjá hennar samkvæmt dómi héraðsdóms. Samkvæmt 52. gr. barnalaga nr. [76]/2003 á foreldri sem fer ekki með forsjá barns rétt á upplýsingum um barnið. Litið hefur verið svo á að þetta nái einungis til munnlegra upplýsinga en ekki skriflega og þess verði að gæta að ekki séu veittar upplýsingar um aðra en barnið sjálft. Af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur var yður gerð grein fyrir meðferð máls vegna gruns um kynferðisofbeldi í bréfi til yðar dags. 1. júlí 2004, þrátt fyrir að þér farið ekki með forsjá barnsins. Barnaverndarstofa fellst ekki á að Barnavernd Reykjavíkur hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart yður að þessu leyti og telur ekki ástæðu til að fjalla frekar um þennan þátt málsins. Þá voru í bréfi yðar gerðar athugasemdir við að móðir barnsins hefði undir höndum gögn þessa máls. Í ljósi þess að móðir fer með forsjá barnsins gerir Barnaverndarstofa ekki athugasemdir við það.

Barnaverndarstofa verður að líta svo á að aðalefni kvörtunar yðar sé málsmeðferð og vinnubrögð Barnaverndar Reykjavíkur í tengslum við ágreining foreldranna um umgengni. Barnaverndarstofa telur að það falli ekki innan valdsviðs og ramma stofnunarinnar að fjalla um vinnubrögð barnaverndarnefnda í ágreiningsmálum um umgengni sem rekin eru á grundvelli ákvæða barnalaga nr. 76/2003. Barnaverndarstofa starfar samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt 7. gr. barnaverndarlaga hefur Barnaverndarstofa m.a. með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga og ennfremur hefur stofan eftirlit með störfum barnaverndarnefnda samkvæmt barnaverndarlögum. Ljóst er að umsögn eða eftirlit af hálfu barnaverndarnefndar í umgengnisdeilu er ætíð fengin að beiðni eða samkvæmt úrskurði sýslumanns með vísan í ákvæði barnalaga. Telur Barnaverndarstofa það hlutverk sýslumanns að móta hvaða upplýsinga hann óskar frá barnaverndarnefnd í hverju máli. Þá verði það að vera hlutverk sýslumanns að móta í úrskurði með hvaða hætti hann ætlast til að barnaverndarnefnd sinni eftirliti með umgengni ef sýslumaður kveður á um slíkt í úrskurði og taka á ágreiningsmálum sem kunna að rísa um framkvæmdina í kjölfarið.

Á þessum forsendum mun Barnaverndarstofa ekki fjalla frekar um kvörtun yðar en væntir þess að málið verði tekið upp við sýslumann ef ágreiningur er enn til staðar.“

Eins og fyrr segir taldi A þessa afgreiðslu Barnaverndarstofu ófullnægjandi og að í bréfi hennar hefði ekki verið svarað þeim athugasemdum sem hann hafði gert við starfshætti Barnaverndar Reykjavíkur.

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég Barnaverndarstofu bréf, dags. 17. janúar 2005, þar sem ég tók fram að áður en ég tæki ákvörðun um hvort ástæða væri til þess að ég tæki kvörtun A til frekari athugunar óskaði ég eftir að Barnaverndarstofa sendi mér öll gögn málsins. Ég ítrekaði beiðni mína með bréfi, dags. 3. febrúar 2005. Gögnin bárust mér ásamt bréfi Barnaverndarstofu, dags. 14. febrúar 2005. Í bréfinu segir að Barnaverndarstofa telji sig hafa veitt A fullnægjandi svör við kvörtun hans með svarbréfinu til hans, dags. 27. október 2004. Telji stofan ljóst af kvörtuninni og öðrum gögnum að ágreiningur snúist fyrst og fremst um umgengni foreldris og barns og vinnu starfsmanna Barnaverndarnefndar Reykjavíkur í tengslum við umgengnismál. Hafi Barnaverndarstofa útskýrt í bréfi sínu að stofan komi ekki að þeim málum og hvers vegna. Þá segir að Barnaverndarstofa hafi fengið þetta staðfest með símtali við Barnavernd Reykjavíkur áður en svarbréf var sent til A. Jafnframt hafi fengist þær upplýsingar að forsjármál væri rekið milli aðila, hefði dómur í héraði gengið í janúar 2004 þar sem báðir foreldrar hefðu talist mjög vel hæfir til að fara með forsjána, móður hefði verið dæmd forsjáin en faðir hefði áfrýjað. Barnaverndarstofa bendir á að hún hafi útskýrt í svarbréfi til A hvaða þýðingu það hafi að móðir fari með forsjá og hverja verði að telja réttarstöðu hans í kjölfarið. Þá segir að í ljósi þessa og málavaxta eins og þeim sé lýst í gögnum, m.a. bréfi Barnaverndar Reykjavíkur til A, dags. 1. júlí 2004, hafi Barnaverndarstofa ekki talið neitt benda til þess að Barnavernd Reykjavíkur hefði vanrækt skyldur sínar við A vegna máls dóttur hans.

Ég ritaði Barnaverndarstofu á ný bréf, dags. 28. febrúar 2005. Lýsti ég því hvaða gögn hefðu fylgt framangreindu bréfi Barnaverndarstofu til mín, dags. 14. sama mánaðar. Tók ég fram að af gögnunum yrði ekki dregin önnur ályktun en sú að Barnaverndarstofa hefði ekki kallað eftir gögnum frá Barnavernd Reykjavíkur í tilefni af kvörtun A frá 2. júlí 2004. Vék ég sérstaklega að þeim þætti kvörtunar A sem laut að því að Barnavernd Reykjavíkur hefði ekki brugðist við tilkynningum hans og fleiri aðila á árunum 2001 og 2002 vegna dóttur hans. Í bréfi mínu rakti ég ákvæði eldri barnaverndarlaga nr. 58/1992 um málsmeðferð barnaverndarnefndar vegna tilkynninga og samsvarandi ákvæði barnaverndarlaga nr. 80/2002. Jafnframt vék ég að ákvæðum 3. mgr. 8. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um heimildir Barnaverndarstofu til rannsóknar máls í tilefni af kvörtun til stofunnar. Þá sagði í bréfi mínu svo:

„Í bréfi Barnaverndarstofu til [A], dags. 27. október 2004, segir að stofan hafi fengið þær upplýsingar frá Barnavernd Reykjavíkur að tilkynning [A] í október 2003 vegna áverka sem dóttir hans hafði hlotið hafi verið einu afskiptin sem nefndin hafi haft af máli dóttur hans á grundvelli ákvæða barnaverndarlaga. Með hliðsjón af framangreindu óska ég eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að Barnaverndarstofa veiti mér upplýsingar um það hvort af hálfu stofunnar hafi verið kannað hver viðbrögð Barnaverndar Reykjavíkur hafi verið við framangreindum tilkynningum [A], lögmanna hans, vinnufélaga og franska geðlæknisins um aðstæður [B] á árunum 2001 og 2002. Hafi slík könnun ekki farið fram óska ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, að Barnaverndarstofa lýsi afstöðu sinni til þess hvort tilefni hafi verið til rannsóknar á þessu atriði kvörtunar [A] og þá hvort stofunni hafi, í samræmi við eftirlitshlutverk hennar með barnaverndarnefndum, sbr. 7. og 8. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, verið rétt að afla nauðsynlegra gagna, upplýsinga og skýringa hjá Barnavernd Reykjavíkur hvað þetta atriði varðar.“

Ég ítrekaði fyrirspurn mína með bréfi, dags. 20. apríl 2005. Svarbréf Barnaverndarstofu barst mér 25. sama mánaðar og segir þar m.a. eftirfarandi:

„Í bréfi yðar er vitnað til 3. mgr. 8. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) um hlutverk Barnaverndarstofu. Eins og þar kemur fram þá getur Barnaverndarstofa ákveðið, m.a. á grundvelli kvartana sem henni berast, að afla nauðsynlegra gagna, upplýsinga og skýringa hjá viðkomandi barnaverndarnefnd og einnig er fjallað um möguleg viðbrögð Barnaverndarstofu af þessu tilefni. Við framkvæmd þessa eftirlitshlutverks þá hefur Barnaverndarstofa ætíð stuðst við það orðalag lagaákvæðisins að geta metið hvort og að hvaða leyti innsent erindi gefi tilefni til sérstakra viðbragða stofunnar enda er ljóst að hér er ekki um að ræða formlega afgreiðslu á kærum á stjórnsýsluákvörðunum. Eitt af því sem Barnaverndarstofa þarf oft að meta að þessu leyti er sá tími sem liðinn er frá atviki sem kvörtun tekur til og hvað hafi gerst í máli frá þeim tíma. Annað sem Barnaverndarstofa þarf oft að meta, og snertir þetta mál sérstaklega, eru mörkin milli barnaverndarlaga og barnalaga og hvort líklegt sé að ágreiningur milli foreldra af því tagi sem fjallað er um í barnalögum gefi tilefni til afskipta barnaverndaryfirvalda.

Barnaverndarstofa miðar almennt við að fjalla ekki um vinnubrögð barnaverndarnefnda ef liðið er meira en eitt ár frá því að atvik átti sér stað, nema sérstaklega standi á. Í þessu máli kom fram að erindi hefðu verið send barnaverndaryfirvöldum í Reykjavík árin 2001 og 2002 og sneri kvörtun m.a. að því að engin svör hefðu borist við þeim erindum. Barnaverndarstofa telur þetta umkvörtunarefni ekki gefa sérstakt tilefni til að ætla að barnaverndarnefnd hafi ekki farið að lögum. Barnaverndarstofa telur ljóst, með hliðsjón af 8. mgr. 4. gr. bvl. og samsvarandi ákvæði um trúnað í eldri lögum, að barnaverndarnefndir mega ekki gefa öðrum en forsjáraðilum barns skriflegar upplýsingar um meðferð einstaks máls, hvorki hvort tekin er ákvörðun um að kanna mál í kjölfar tilkynningar, hvaða upplýsinga er aflað í kjölfar könnunar né um niðurstöðu. Ákvæði 4. mgr. 21. gr. bvl. um tilkynningu til foreldra vísi þannig til forsjárforeldra, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna. Meðfylgjandi kvörtun var afrit af bréfi [A] til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur dags. 24. ágúst 2001 en í því bréfi kom m.a. fram að foreldrar höfðu nýlega slitið sambúð sinni. Barnaverndarstofa hafði upplýsingar um að dómstóll hefði falið móður forsjá barnsins til bráðabirgða í júlí 2001, dómstóll hljóti því að hafa talið bæði móður hæfa og barninu betur borgið hjá móður og með tilliti til þessa því engin sérstök rök til að skoða vinnubrögð barnaverndarnefndar frá þessum tíma. Í kvörtun var einnig vísað til þess að geðlæknir hefði tilkynnt árið 2002. Meðfylgjandi voru afrit bréfa læknisins þar sem fram kom að hann hefði annast barnið frá september 2001 fram til mars 2002. Barnaverndarstofu var kunnugt um að mikill ágreiningur var þarna milli foreldra, um grundvöll þess að faðir tók barnið um haust 2001 og fór með það til Frakklands og þá staðreynd að móðir tók barnið aftur í mars 2002 og fór með það til Íslands. Í bréfi lögmanns [A] til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur dags. 5. apríl 2002 kemur fram að læknir þessi hafi reynt að hjálpa telpunni í gegnum erfiðan tíma vegna skilnaðar foreldra („followed the child to help her to go through the difficult time of separation of her parents“), úr upplýsingum frá lækninum sjálfum má sjá lýsingu á erfiðleikum sem oftlega tengjast erfiðum forjárdeilum og í héraðsdómi uppkveðnum í janúar 2004 voru sérstaklega tilteknar hatrammar deilur foreldranna og ásakanir í garð hvors annars. Með hliðsjón af þessu öllu taldi Barnaverndarstofa að veruleg rök hafi verið til að telja að þarna hafi verið fyrst og fremst um forsjárdeilu að ræða og því alls ekki sérstakt tilefni fyrir Barnaverndarstofu til að skoða frekar hugsanleg barnaverndarafskipti eða verklag barnaverndarnefndar að svo löngum tíma liðnum. Stofan getur fallist á að þetta hefði hugsanlega mátt koma skýrar fram í bréfi til [A].

Barnaverndarstofa vonar að ofangreint sé fullnægjandi rökstuðningur fyrir því hvers vegna stofan aflaði ekki upplýsinga um vinnslu tilkynningar frá árunum 2001 og 2002, að fallist verði á að stofunni hafi ekki borið skylda til þess með hliðsjón af orðalagi 3. mgr. 8. gr. bvl. og að ekki hafi verið sérstakt tilefni til þess í ljósi allra fyrirliggjandi gagna málsins.“

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1.

Athugun mín á kvörtun A hefur beinst að því hvort afgreiðsla Barnaverndarstofu, dags. 27. október 2004, á erindi hans til stofunnar, dags. 2. júlí sama ár, hafi samrýmst þeim skyldum sem felast í eftirlitshlutverki Barnaverndarstofu með starfsemi barnaverndarnefnda samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Nánar tiltekið hef ég ákveðið að afmarka athugun mína annars vegar við þann þátt er varðar tilkynningar á grundvelli barnaverndarlaga til Barnaverndar Reykjavíkur vegna dóttur A á árunum 2001 og 2002 og hins vegar það að Barnavernd Reykjavíkur hafi ekki brugðist við óskum A um upplýsingar um dóttur sína. Enn fremur hefur athugun mín beinst að afgreiðslutíma Barnaverndarstofu í málinu.

2.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er Barnaverndarstofa sjálfstæð stofnun sem heyrir undir yfirstjórn félagsmálaráðherra. Annast stofan stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Í 3. mgr. sömu greinar er kveðið á um að Barnaverndarstofa skuli hafa með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir í landinu. Enn fremur hefur Barnaverndarstofa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda samkvæmt barnaverndarlögum. Í 9. mgr. greinarinnar segir að félagsmálaráðherra skuli kveða nánar á um starfsemi Barnaverndarstofu í reglugerð. Um starfsemi stofunnar gildir nú reglugerð nr. 264/1995, um barnaverndarstofu.

Eins og áður er fram komið beindist kvörtun A til Barnaverndarstofu m.a. að viðbrögðum Barnaverndar Reykjavíkur við tilkynningum um dóttur hans á árunum 2001 og 2002. Voru sumar tilkynningarnar sendar Barnavernd Reykjavíkur í tíð eldri barnaverndarlaga nr. 58/1992.

Í barnaverndarlögum nr. 58/1992, sbr. 35. gr. laga nr. 160/1998, var í 18. gr. fjallað um könnun máls. Sagði þar m.a. í 1. mgr. að fengi barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska gæti verið hætta búin sökum vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra væri nefndinni skylt að kanna málið án tafar. Ný barnaverndarlög, nr. 80/2002, leystu eldri lög af hólmi 1. júní 2002. Segir í 100. gr. þeirra að hafi málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd hafist í tíð eldri laga gildi ákvæði laga nr. 80/2002 um meðferð máls eftir gildistöku þeirra. Gildi það þótt atvik þau sem mál sé sprottið af hafi gerst að einhverju eða öllu leyti í tíð eldri laga. Í 21. gr. laganna er fjallað um málsmeðferð vegna tilkynninga og er í lögunum gerð sú breyting frá eldri lögum að barnaverndarnefnd er gert skylt að taka afstöðu til tilkynningar án tafar, og eigi síðar en innan sjö daga frá því henni barst tilkynning eða upplýsingar, hvort ástæða sé til að hefja könnun á málinu. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar er ákvörðun barnaverndarnefndar um að hefja könnun máls eða láta mál niður falla ekki kæranleg til æðra stjórnvalds. Í 39. gr. laganna segir að barnaverndarnefndum beri á kerfisbundinn hátt að skrá mál sem koma til meðferðar hjá þeim og að varðveita skuli öll gögn með tryggilegum hætti.

Eins og áður segir er fjallað um hlutverk Barnaverndarstofu í 7. gr. núgildandi barnaverndarlaga. Í athugasemdum við greinina með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 80/2002 kemur fram að ákvæði frumvarpsins um hlutverk Barnaverndarstofu séu í öllum meginatriðum sambærileg við það sem sé að finna í þágildandi barnaverndarlögum þótt ýmsar breytingar sé að finna á efni þeirra og framsetningu. (Alþt. 2001—2002, A-deild, bls. 1815.) Um tengsl Barnaverndarstofu við barnaverndarnefndir segir í athugasemdunum m.a. eftirfarandi:

„Að því er varðar tengsl Barnaverndarstofu við barnaverndarnefndir má segja að þau felist í tvennu. Í fyrsta lagi er um að ræða leiðbeiningar, fræðslu og ráðgjöf af hálfu Barnaverndarstofu og í öðru lagi eftirlit stofunnar með því að barnaverndarnefndir starfi lögum samkvæmt. Eftirlit Barnaverndarstofu getur ýmist verið að frumkvæði stofunnar eða komið til vegna kvartana um að barnaverndarnefnd sinni ekki hlutverki sínu, sbr. nánar ákvæði 8. gr. frumvarpsins. Frumkvæði Barnaverndarstofu felst m.a. í því að kalla eftir reglubundnum skýrslum frá nefndum um starfsemi þeirra eða upplýsingum um einstök atriði eða einstök mál. Kvartanir sem stofunni berast eru afgreiddar með formlegum hætti, með því að kalla eftir upplýsingum frá viðkomandi nefnd og koma á framfæri ábendingum eða tilmælum um að gera ráðstafanir til þess að meðferð mála verði í samræmi við ákvæði laga. [...] Eftirliti Barnaverndarstofu er á hinn bóginn fyrst og fremst ætlað að samhæfa barnaverndarstarf á landinu og fylgjast með því að barnaverndarnefndir ræki skyldur sínar lögum samkvæmt. Markmiðið sé í raun það sama, að stuðla að samræmingu í starfi barnaverndarnefnda á öllu landinu sem um leið uppfylli fyrirmæli barnaverndarlaga. Til viðbótar þessu skal áréttað að ekki er gert ráð fyrir að einstökum ákvörðunum eða úrskurðum nefndanna verði skotið til Barnaverndarstofu. Í þessu felst að Barnaverndarstofa fjallar ekki um kærur á stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda heldur einungis um almennar kvartanir sem lúta að vinnslu máls og kvartanir sem lúta að starfsháttum nefndanna almennt og starfsvenjum þeirra. Af þessu leiðir einnig að ekki er hætta á að Barnaverndarstofa þurfi að úrskurða á kærustigi í málum sem hún kann með einhverjum hætti að hafa komið að á fyrri stigum í formi leiðbeininga, ráðgjafar eða tilmæla.“ (Alþt. 2001—2002, A-deild, bls. 1815.)

Um eftirlitshlutverk Barnaverndarstofu gagnvart barnaverndarnefndum er nánar fjallað í 8. gr. barnaverndarlaga. Segir þar í 1. mgr. að barnaverndarnefndir skuli fyrir 1. maí ár hvert senda Barnaverndarstofu skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Samkvæmt 2. mgr. getur Barnaverndarstofa auk þess krafið barnaverndarnefndir um allar þær upplýsingar og skýrslur sem hún telur nauðsynlegar, bæði gögn í einstökum málum og skýrslur sem barnaverndarnefndir þurfa að vinna sérstaklega. Þá segir í 3. mgr. 8. gr.:

„Barnaverndarstofa getur, á grundvelli kvartana eða annarra upplýsinga sem henni berast um meðferð einstakra mála og ef hún telur ástæðu til, aflað nauðsynlegra gagna, upplýsinga og skýringa hjá viðkomandi barnaverndarnefnd.“

Í 4. mgr. greinarinnar er svo mælt fyrir um þau viðbrögð sem Barnaverndarstofa getur gripið til í tilefni af vanrækslu barnaverndarnefnda. Segir þar m.a. að telji Barnaverndarstofa, eftir að hafa aflað upplýsinga og skýringa skv. 2. og 3. mgr. greinarinnar, að barnaverndarnefnd fari ekki að lögum við rækslu starfa sinna skuli hún eftir því sem tilefni er til leiðbeina barnaverndarnefnd um málsmeðferð og beina til hennar ábendingum um það sem betur má fara.

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að barnaverndarlögum segir m.a. eftirfarandi um 3. mgr. 8. gr. laganna:

„Meðferð á kvörtunum yfir störfum barnaverndarnefnda sem berast frá aðilum barnaverndarmáls eða öðrum sem eiga samskipti við nefndirnar eða jafnvel hinum almenna borgara er að mati nefndarinnar eðlilegur hluti af rækslu hins almenna eftirlits með starfi nefndanna. Slíkar kvartanir geta síðan verið tilefni til þess að Barnaverndarstofa setji fram leiðbeiningar eða tilmæli um það sem betur má fara í starfsemi viðkomandi nefndar. Þetta stuðlar þannig að samræmingu barnaverndarstarfs og væntanlega árangursríkara barnaverndarstarfi þegar á heildina er litið. Við rækslu þessa hlutverks síns ber Barnaverndarstofu að gæta þess að afskipti stofunnar verki ekki truflandi á vinnslu einstakra mála.“ (Alþt. 2001—2002, A-deild, bls. 1817.)

Af 3. mgr. 8. gr. laga nr. 80/2002 má ráða að ákvörðun um það hvort hafist skuli handa við rannsókn máls sem undir Barnaverndarstofu er borið í formi kvörtunar sé háð mati stofunnar á því hvort tilefni sé til aðgerða. Verður þetta ráðið af orðalaginu „og ef hún telur ástæðu til“. Það er því ljóst að ekki hvílir á Barnaverndarstofu fortakslaus lagaskylda að taka til skoðunar öll þau mál sem fyrir hana eru lögð í formi kvörtunar. Ekki verður af lagatextanum ráðið hvaða sjónarmið skuli lögð til grundvallar mati stofunnar á því hvort tilefni sé til að hefja athugun máls. Þá er ekki að finna vísbendingar um þetta í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 80/2002.

Í svarbréfi Barnaverndarstofu til mín, dags. 20. apríl 2005, kemur fram að stofan telji sér heimilt að meta „hvort og að hvaða leyti innsent erindi gefi tilefni til sérstakra viðbragða stofunnar“. Eru í bréfinu nefnd sjónarmið sem stofan hefur til hliðsjónar við þetta mat. Segir þar að litið sé til þess tíma sem liðinn sé frá atviki sem kvörtun tekur til og hvað hafi gerst í máli frá þeim tíma og að ennfremur sé höfð hliðsjón af mörkum barnaverndarlaga og barnalaga og þá hvort líklegt sé að ágreiningur milli foreldra af því tagi sem fjallað er um í barnalögum gefi tilefni til afskipta barnaverndaryfirvalda.

Í ljósi þess hvernig hlutverk Barnaverndarstofu er afmarkað í lögum nr. 80/2002 verður að játa Barnaverndarstofu nokkurt svigrúm til mats á því hvort ástæða sé til að hefja athugun máls sem kvörtun beinist að. Ákvæði 3. mgr. 8. gr. felur þannig í sér reglu um skyldubundið mat stjórnvaldsins og leiðir til þess að mat á því hvort ástæða sé til fyrir Barnaverndarstofu að aðhafast vegna kvörtunar sem henni berst yfir starfsháttum barnaverndarnefndar verður að fara fram í hverju tilviki og þá á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Ég tek fram, vegna þeirrar almennu reglu sem Barnaverndarstofa hefur sett sér að fjalla ekki um vinnubrögð barnaverndarnefnda ef liðið er meira en eitt ár frá því að atvik átti sér stað, að slíkri reglu verður ekki fundin stoð í lögum nr. 80/2002 og verður því ekki beitt þannig að það leiði til afnáms hins skyldubundna mats. Ég legg í þessu sambandi áherslu á að ég tel þetta ekki útiloka að við mat sitt líti Barnaverndarstofa til þess hversu langur tími sé liðinn frá því atviki sem kvörtun beinist að og hvað gerst hafi í málinu frá þeim tíma.

3.

Eins og eftirlitshlutverk Barnaverndarstofu með starfi barnaverndarnefnda og starfsliðs þeirra er markað í lögum fellur það innan þess að gæta að því að þessir aðilar fylgi meðal annars stjórnsýslureglum í störfum sínum. Varðar þetta t.d. svör við skriflegum erindum, skráningu mála og varðveislu málsgagna. Beinist kvörtun sem Barnaverndarstofu berst að því að barnaverndarnefnd hafi ekki svarað skriflegum erindum sem til hennar var beint eða ekki brugðist við tilkynningum, sérstaklega þegar þær varða meint brot á veigamiklum hagsmunum barns, verður að telja það eðlilegan þátt í eftirlitshlutverki stofunnar að bregðast við með því að kanna nánar réttmæti slíkra athugasemda. Hér verður líka að undirstrika að barnaverndaryfirvöldum er falið það hlutverk að gæta að beinum hagsmunum barna óháð hugsanlegum deilum foreldra. Að sama skapi verður að hafa í huga að hugsanlegar takmarkanir á upplýsingagjöf og efni svara barnaverndaryfirvalda til annarra en forsjárforeldra barns eiga sem slíkar ekki að hafa áhrif á mat á því hvort tilefni er fyrir Barnaverndarstofu til að beita eftirlitsheimildum sínum í þessu sambandi eða á það að stofan gangi sjálf úr skugga um hvort réttilega hafi verið á málum haldið. Slíkar takmarkanir geta hins vegar haft þýðingu þegar kemur að efni þeirra svara sem Barnaverndarstofa og barnaverndaryfirvöld veita þeim sem til þeirra hefur leitað.

Meðal gagna máls þess sem hér er fjallað um er vottorð frá G, frönskum geðlækni, þar sem staðfest er að hann hafi gert barnaverndarnefnd Reykjavíkur viðvart 4. apríl 2002 um hættuástand sem dóttir A, B, byggi við. Þá er jafnframt að finna vottorð læknisins, dags. 28. mars 2003, um telpuna B, þar sem lýst er athugun hans á ástandi hennar frá september 2001 til mars 2002. Kemur þar m.a. fram að læknirinn telji nauðsyn á að B fái sálfræðilega meðferð. Þá er því lýst í vottorðinu að læknirinn hafi varað barnaverndaryfirvöld í Reykjavík við því að telpan væri í hættu „eftir að henni var rænt 26. mars 2002“ en hann hafi ekki fengið nein viðbrögð við þessari ábendingu. Einnig er meðal gagna málsins að finna bréf fransks lögmanns A, H, dags. 5. apríl 2002, sem stílað er til barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Er þar lýst áhyggjum af velferð B og farið fram á að barnaverndaryfirvöld kanni aðstæður hennar. Eins og áður er fram komið kemur fram í kvörtun A að tilkynningar vegna B hafi einnig verið sendar barnaverndaryfirvöldum á árinu 2001.

Í bréfi Barnaverndarstofu til A, dags. 27. október 2004, er ekkert vikið að því atriði kvörtunar A sem beinist að því að Barnavernd Reykjavíkur hafi ekki brugðist við tilkynningum vegna dóttur hans á árunum 2001 og 2002. Hins vegar er vísað til þess að í erindi hans sé getið um tilkynningu til Barnaverndar Reykjavíkur vegna gruns um að dóttir hans hafi verið beitt nánar tilgreindu ofbeldi árið 2003. Segir í bréfinu að Barnaverndarstofa hafi fengið þær upplýsingar frá Barnavernd Reykjavíkur að þetta hafi verið einu afskiptin sem barnaverndin hafi haft af máli dóttur hans á grundvelli ákvæða barnaverndarlaga. Af þessum ummælum virðist mega ráða að ekki hafi verið brugðist við ofannefndum tilkynningum geðlæknisins G og lögmannsins H af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur. Ekki verður ráðið af bréfi Barnaverndarstofu að stofan hafi leitað skýringa á þessu.

Í bréfi Barnaverndarstofu til mín, dags. 14. febrúar 2005, kemur fram að stofan telji sig hafa veitt A fullnægjandi svör við kvörtun með svarbréfinu frá 27. október 2004 og telur Barnaverndarstofa ekkert benda til að Barnavernd Reykjavíkur hefði vanrækt skyldur sínar við A vegna máls dóttur hans. Í bréfi Barnaverndarstofu til mín, dags. 20. apríl 2005, eru settar fram frekari skýringar stofunnar á því að hún hafi ekki talið ástæðu til að kanna frekar þau atriði sem kvörtun A beindist að. Er þar vísað til þess að í kvörtun A komi fram að barnaverndaryfirvöldum hafi verið send erindi um barnið B á árunum 2001 og 2002 en síðan segir:

„Barnaverndarstofa telur þetta umkvörtunarefni ekki gefa sérstakt tilefni til að ætla að barnaverndarnefnd hafi ekki farið að lögum. Barnaverndarstofa telur ljóst, með hliðsjón af 8. mgr. 4. gr. bvl. og samsvarandi ákvæði um trúnað í eldri lögum, að barnaverndarnefndir mega ekki gefa öðrum en forsjáraðilum barns skriflegar upplýsingar um meðferð einstaks máls, hvorki hvort tekin er ákvörðun um að kanna mál í kjölfar tilkynningar, hvaða upplýsinga er aflað í kjölfar könnunar né um niðurstöðu. Ákvæði 4. mgr. 21. gr. bvl. um tilkynningu til foreldra vísi þannig til forsjárforeldra, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna.“

Af þessum ummælum verður ekki annað ráðið en að Barnaverndarstofa geri ráð fyrir að barnaverndarnefnd hafi brugðist við áðurnefndum tilkynningum í samræmi við lög þrátt fyrir að hafa í bréfi sínu til A, dags. 27. október 2004, staðhæft, á grundvelli upplýsinga frá Barnavernd Reykjavíkur, að stofnunin hafi engin afskipti haft af málum barnsins B á grundvelli barnaverndarlaga fyrr en árið 2003. Þá kemur fram að Barnaverndarstofa hafi byggt mat sitt á því hvort ástæða væri til að bregðast við kvörtun A á „upplýsing[um] um að dómstóll hefði falið móður forsjá barnsins til bráðabirgða í júlí 2001, dómstóll hljóti því að hafa talið bæði móður hæfa og barninu betur borgið hjá móður og með tilliti til þessa því engin sérstök rök til að skoða vinnubrögð barnaverndarnefndar frá þessum tíma“. Þá kemur fram að Barnaverndarstofu hafi verið „kunnugt um að mikill ágreiningur var þarna milli foreldra“ og að vottorð læknisins lýsi „erfiðleikum sem oftlega tengjast erfiðum forsjárdeilum“. Dregur Barnaverndarstofa þá ályktun af þessu öllu að „veruleg rök hafi verið til að telja að þarna hafi verið fyrst og fremst um forsjárdeilu að ræða og því alls ekki sérstakt tilefni fyrir Barnaverndarstofu til að skoða frekar hugsanleg barnaverndarafskipti eða verklag barnaverndarnefndar að svo löngum tíma liðnum“.

Eins og vikið er að hér að framan kveða barnaverndarlög nr. 80/2002, sbr. áður lög nr. 58/1992, skýrt á um það hvernig barnaverndarnefndum ber að bregðast við tilkynningum um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra, áreitni eða ofbeldis af hendi annarra eða eigin hegðunar þess. Skiptir í því sambandi engu máli hvort vanlíðan barns tengist forsjárdeilum foreldra þess eða stafar af öðrum orsökum. Í því tilviki sem hér um ræðir bárust barnaverndarnefnd Reykjavíkur tilkynningar m.a. frá frönskum geðlækni sem annast hafði barnið B í kjölfar þess að það hafði verið numið á brott frá móður sinni og heimili á Íslandi og lýsti læknirinn áhyggjum sínum af líðan barnsins í kjölfar þess að móðir þess nam það aftur á brott frá föður sínum í Frakklandi þar sem það hafði dvalið um hálfs árs skeið. Í kjölfar kvörtunar A til Barnaverndarstofu í júlí 2004 aflaði stofan munnlegra upplýsinga frá Barnavernd Reykjavíkur um afskipti af málum barnsins B. Gefa þessar upplýsingar, sem Barnaverndarstofa gerði grein fyrir í bréfi sínu til A, dags. 27. október 2004, vísbendingar um að barnaverndarnefnd hafi ekki brugðist við tilkynningum læknisins G eða annarra á árinu 2001 og 2002 vegna aðstæðna barnsins. Af skýringum Barnaverndarstofu til mín er ljóst að stofan gerði engar ráðstafanir til að kanna hverju þetta sætti heldur vísaði kvörtun A frá á þeim grundvelli að umkvörtunarefnið gæfi ekki „sérstakt tilefni til að ætla að barnaverndarnefnd [hefði] ekki farið að lögum“ eins og sagði í bréfi stofunnar til mín, dags. 20. apríl 2005.

Eins og áður er rakið veitir 3. mgr. 8. gr. barnaverndarlaga Barnaverndarstofu svigrúm til að meta hvort ástæða er til að afla nauðsynlegra gagna, upplýsinga og skýringa hjá viðkomandi barnaverndarnefnd berist stofunni kvartanir eða aðrar upplýsingar um meðferð einstakra mála. Barnaverndarstofa getur því án frekari aðgerða ákveðið að kvörtun um meðferð einstaks máls gefi ekki tilefni til athugunar af hennar hálfu hjá þeirri barnaverndarnefnd sem kvörtunin beinist að. Af orðalagi 3. mgr. 8. gr. barnaverndarlaga, lögskýringargögnum að baki ákvæðinu og ákvæðum laganna um eftirlitshlutverk Barnaverndarstofu, verður hins vegar dregin sú ályktun að taki stofan þá ákvörðun að aðhafast í tilefni af kvörtun um meðferð einstaks máls með gagnaöflun hjá barnaverndarnefnd verði slíkri eftirlitsaðgerð ekki ráðið til lykta af hálfu Barnaverndarstofu með fullnægjandi hætti að virtri rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar nema aflað sé „nauðsynlegra“ gagna og skýringa þannig að stofan geti lagt viðhlítandi og raunhæft mat á hvort kvörtunin gefi tilefni til sérstakra viðbragða gagnvart viðkomandi barnaverndarnefnd. Þá tel ég að af ákvæðum barnaverndarlaga um skyldur og valdheimildir Barnaverndarstofu verði ráðið að liggi nægjanlega skýrar vísbendingar fyrir um tiltekna annmarka á málsmeðferð eða ákvörðunum barnaverndarnefnda, í framhaldi af athugun sem Barnaverndarstofa hefur ákveðið að ráðast í á grundvelli 3. mgr. 8. gr. laganna, geti stofan ekki látið hjá líða að bregðast við slíkum aðstæðum með þeim úrræðum sem Barnaverndarstofu eru fengnar að lögum. Að öðrum kosti fæ ég vart séð að það eftirlitskerfi með starfsemi barnaverndarnefnda í landinu sem mælt er fyrir um í barnaverndarlögum myndi þjóna tilgangi sínum. Í ljósi þess sem rakið er að framan tel ég að Barnaverndarstofu hafi borið að kanna nánar, og þá eftir atvikum með því að óska eftir frekari skýringum Barnaverndar Reykjavíkur, með hvaða hætti barnaverndarnefnd brást við tilkynningum geðlæknisins G og annarra aðila vegna dóttur A á árunum 2001 og 2002 og ef það var ekki gert hverjar hafi verið ástæður þess. Er það niðurstaða mín að viðbrögð Barnaverndarstofu hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við þær skyldur sem stofunni eru lagðar á herðar með barnaverndarlögum.

4.

Í 2. mgr. 52. gr. barnalaga nr. 76/2003, sem tóku gildi 1. nóvember 2003, er kveðið á um rétt foreldris sem ekki hefur forsjá barns til að fá upplýsingar um barnið frá leikskólum, skólum, sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Tekið er fram að réttur samkvæmt málsgreininni feli ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris. Í þriðju málsgrein greinarinnar segir að stofnunum og stjórnvöldum, sem nefnd eru í 2. mgr., sé þó heimilt að synja um upplýsingar ef hagsmunir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna-eða einkahagsmunum, þar á meðal ef telja verður að upplýsingagjöf sé skaðleg fyrir barn. Samkvæmt 4. mgr. má skjóta synjun um upplýsingar um barn skv. 3. mgr. til sýslumanns innan tveggja mánaða frá því að foreldri var tilkynnt um ákvörðunina.

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að barnalögum nr. 76/2003 segir um 52. gr. að greinin sé efnislega óbreytt frá 40. gr. A eldri barnalaga nr. 20/1992. Sú grein var tekin upp í barnalög með 3. gr. laga nr. 23/1995. Í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 23/1995 segir m.a. um 3. gr.:

„Þar eru hafðir í huga hagsmunir þess foreldris sem ekki hefur forsjá barns af því að eiga þess kost að fá upplýsingar um hagi barnsins, ýmist frá forsjárforeldri, sbr. 1. mgr., eða ýmsum stjórnvöldum, stofnunum og sérfræðingum sem fjalla um málefni barns, sbr. 2. mgr. Því foreldri sem ekki nýtur forsjár er vissulega oft annt um barnið og á það réttmætt tilkall til að fylgjast með barni, heilsuhögum þess, þroskaferli, skólagöngu, uppeldi, félagslegri stöðu og þátttöku þess í félagsstarfi o.s.frv. Lögfesting á slíkum aðgangi foreldris að upplýsingum um hagi barns ætti m.a. að bæta hlut forsjárlausa foreldrisins sem verður þó að hafa aðgát er það neytir þessa réttar síns og sýna nærgætni. [...] Ef 3. gr. frumvarpsins verður lögtekin er þar með mótuð sú almenna regla sem er þó ekki undantekningarlaus að foreldrið, sem ekki nýtur forsjár, eigi yfirleitt aðgang að persónuupplýsingum varðandi barnið til jafns við forsjárforeldrið.“ (Alþt. 1994—1995, A-deild, bls. 2865.)

Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að þar sem kveðið sé á um upplýsingar í 3. gr. frumvarpsins sé átt við munnlegar upplýsingar en ekki bréfleg gögn eða ljósrit af þeim. (Alþt. 1994—1995, A-deild, bls. 2868.) Ég tek það hins vegar fram að þessarar takmörkunar sér ekki stað í texta 52. gr. barnalaga heldur er í 3. mgr. greinarinnar orðuð sérstök regla um hagsmunaaðilar við úrlausn beiðni foreldris sem ekki hefur forsjá barns um að fá upplýsingar um barn sitt.

Af 52. gr. barnalaga leiðir að beri forsjárlaust foreldri upp við stjórnvald ósk um upplýsingar um barn sitt ber stjórnvaldinu að taka afstöðu til þess hvort unnt sé að verða við beiðninni, þar með hvort ástæða sé til að synja um upplýsingarnar á grundvelli heimildarinnar í 3. mgr. 52. gr. Hafi stjórnvaldið sem beiðni foreldrisins er beint til ekki undir höndum þær upplýsingar sem óskað er eftir ber því í samræmi við almenna leiðbeiningarskyldu stjórnvalda að leiðbeina foreldrinu þar um, eða eftir atvikum að framsenda erindi þess á réttan stað, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 71. gr. barnalaga.

Það er óskráð meginregla stjórnsýsluréttar, sem m.a. er orðuð í athugasemdum við 20. gr. í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum að hver sá, sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald eigi almennt rétt á að fá skriflegt svar nema svars sé ekki vænst. (Alþt. 1992—1993, A-deild, bls. 3300.) Við mat á því hvert eigi að vera efni þeirra svara sem stjórnvöld veita þegar þeim berst erindi frá aðila máls kann stjórnvaldið að þurfa að horfa til þeirra skyldna sem leiða af leiðbeiningarreglu 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga og eftir atvikum óskráðum reglum um leiðbeiningarskyldu.

Í erindi sínu til Barnaverndarstofu, dags. 2. júlí 2004, kvartaði A m.a. yfir því að Barnavernd Reykjavíkur hefði ekki svarað bréfum hans, dags. 18., 23. og 29. október 2003 þar sem hann fór fram á það að sér yrðu veittar heilsufarsupplýsingar um dóttur sína í kjölfar þess að hann hafði orðið var við áverka á henni. Í svarbréfi Barnaverndarstofu til A, dags. 27. október 2004, er vísað til réttar forsjárlauss foreldris til upplýsinga um barn sitt samkvæmt 52. gr. barnalaga og tekið fram að af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur hafi A verið gerð grein fyrir meðferð máls vegna gruns um ofbeldi í bréfi, dags. 1. júlí 2004, þrátt fyrir að hann færi ekki með forsjá barnsins. Segir svo að Barnaverndarstofa fallist ekki á að Barnavernd Reykjavíkur hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart honum að þessu leyti og telur ekki ástæðu til að fjalla frekar um þennan þátt málsins. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að bréf Barnaverndar Reykjavíkur til A, dags. 1. júlí 2004, sem Barnaverndarstofa vísar til, fjallar ekki um beiðni A um heilsufarsupplýsingar um dóttur sína. Bréfið er svar við bréfum A, dags. 22. og 26. febrúar 2004, þar sem hann óskar skýringa á því hvers vegna fyrrum eiginkonu hans var látið í té afrit af tilteknu bréfi hans til Barnaverndar Reykjavíkur.

Eins og áður segir er forsjárlausum foreldrum í 2. mgr. 52. gr. barnalaga tryggður aðgangur að upplýsingum frá stjórnvöldum um börn sín. Réttur forsjárlauss foreldris samkvæmt ákvæðinu felur jafnframt í sér skyldu fyrir stjórnvaldið til að taka afstöðu til framkominnar beiðni. Af þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir mig fæ ég ekki séð að þessari skyldu hafi verið sinnt af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur. Með hliðsjón af því get ég ekki fallist á þá niðurstöðu Barnaverndarstofu sem fram kom í bréfi stofunnar til A, dags. 27. október 2004, að Barnavernd Reykjavíkur hafi brugðist við beiðni hans um upplýsingar um heilsufar dóttur sinnar með fullnægjandi hætti. Ég bendi þar jafnframt á að í 4. mgr. 52. gr. barnalaga er kveðið á um að synjun stofnana eða stjórnvalda um upplýsingar megi skjóta til sýslumanns. Til að slíkum málskotsrétti verði beitt þarf vitanlega að liggja fyrir formleg afgreiðsla viðkomandi stofnunar eða stjórnvalds. Það fellur innan eftirlitshlutverks Barnaverndarstofu að gæta þess að barnaverndarnefndir afgreiði beiðnir um upplýsingar samkvæmt 52. gr. barnalaga með formlegum hætti og leiðbeini jafnframt um kæruheimildina.

5.

Á stjórnvöldum hvílir skylda, í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um málshraða, til að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa. Hefur jafnan verið litið svo á að málshraðareglan hefði sérstaka þýðingu í málum sem varða hagsmuni barna og er reglan m.a. áréttuð í 9. gr. reglugerðar nr. 264/1995, um Barnaverndarstofu.

Kvörtun A til Barnaverndarstofu er dagsett 2. júlí 2004. Eins og fram kemur í kafla II hér að framan leitaði A til mín 6. október sama ár en þá hafði honum enn ekki borist svar frá Barnaverndarstofu. Í tilefni af þeirri kvörtun A ritaði ég Barnaverndarstofu bréf, dags. 26. október 2004, þar sem ég óskaði upplýsinga um stöðu máls hans. Mér barst svar Barnaverndarstofu 29. sama mánaðar og fylgdi því afrit af bréfi stofunnar til A, dags. 27. október 2004. Afgreiðsla Barnaverndarstofu á erindi A tók þannig þrjá og hálfan mánuð. Eins og fram hefur komið fór engin skrifleg gagnaöflun fram af hálfu Barnaverndarstofu í málinu, ekki var óskað eftir gögnum frá Barnavernd Reykjavíkur né leitað eftir skýringum stjórnvaldsins. Í fyrrnefndu bréfi Barnaverndarstofu til A eru þær skýringar gefnar á töfum á afgreiðslu erindis hans að þær megi rekja til mikilla anna starfsmannsins sem undir bréfið ritar. Ég hef veitt því athygli í fleiri málum sem ég hef haft til athugunar og varða meðferð mála hjá Barnaverndarstofu að afgreiðslutími stofunnar er í mörgum tilvikum nokkuð langur. Ég mun því huga nánar að því hvort ástæða sé til að ég taki þetta atriði almennt til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

V. Niðurstaða.

Samkvæmt því sem rakið er hér að framan er það niðurstaða mín að Barnaverndarstofu hafi borið að kanna nánar, og þá eftir atvikum með því að óska eftir frekari skýringum barnaverndarnefndar Reykjavíkur, hver viðbrögð nefndarinnar við tilkynningum geðlæknisins G og annarra aðila vegna dóttur A á árunum 2001 og 2002 hafi verið og hafi nefndin ekki brugðist við hverjar ástæður þess hafi þá verið. Er það niðurstaða mín að viðbrögð Barnaverndarstofu hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við þær skyldur sem stofunni eru lagðar á herðar með barnaverndarlögum. Þá er það niðurstaða mín að afgreiðsla Barnaverndarstofu á þeim þætti kvörtunar A sem laut að því að Barnavernd Reykjavíkur hefði ekki brugðist við beiðni hans um upplýsingar um heilsufar dóttur sinnar hafi ekki verið í samræmi við lög. Eins og mál þetta er vaxið tel ég ekki tilefni til að beina tilmælum til Barnaverndarstofu um að taka mál A til umfjöllunar að nýju. Ég beini hins vegar þeim tilmælum til stofunnar að hún gæti í framtíðinni þeirra sjónarmiða sem fram koma í álitinu við meðferð sambærilegra mála.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Ég ritaði Barnaverndarstofu bréf, dags. 13. febrúar 2006, þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um hvort álit mitt hefði orðið stofunni tilefni til að grípa til einhverra tiltekinna ráðstafana og þá í hverju þær hafi falist. Í svarbréfi Barnaverndarstofu, dags. 28. sama mánaðar, segir að viðbrögð stofunnar hafi fyrst og fremst verið þau að fara vel yfir öll atriði álitsins, sérstaklega þær athugasemdir sem gerðar hafi verið, til að unnt væri að taka fullt tillit til þeirra sjónarmiða sem þar komi fram við meðferð sambærilegra mála. Þá segir meðal annars eftirfarandi í bréfi Barnaverndarstofu:

„Barnaverndarstofa fagnar staðfestingu yðar á því að stofan hafi nokkurt svigrúm til mats á því hvort ástæða sé til að hefja athugun máls sem kvörtun beinist að. Barnaverndarstofa mun gæta þess að þau sjónarmið sem höfð verða til hliðsjónar leiði ekki til afnáms skyldubundins mats. Eins og fram kom í bréfi stofunnar til yðar dags. 25. apríl 2005 þá hefur viðmið um eitt ár frá atviki sem kvartað er yfir ekki verið einhlítt og Barnaverndarstofa mun gæta þess sérstaklega að fara yfir hvert mál fyrir sig að þessu leyti. Þegar tekin er ákvörðun um að aðhafast mun Barnaverndarstofa sem fyrr afla þeirra gagna og skýringa hjá viðkomandi barnaverndarnefnd sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að leggja viðhlítandi og raunhæft mat á kvörtunarefni, svo og að bregðast við þegar taldir eru liggja fyrir annmarkar á málsmeðferð barnaverndarnefndar. Eins og fram kom í bréfum í máli [A] þá harmar Barnaverndarstofa þann drátt sem varð á vinnslu málsins en þrátt fyrir að ekki væri aflað annarra gagna en frá dómstól þá fylgdi kvörtun talsvert magn gagna sem fara þarf vel yfir í máli af þessu tagi. Réttara hefði verið af hálfu Barnaverndarstofu að gera kvartanda sérstaklega skriflega grein fyrir meðferð málsins hjá stofunni og mun stofan leitast við að gera slíkt í sambærilegum málum svo og að gæta þess sérstaklega að vinnsla mála taki ekki of langan tíma. Barnaverndarstofa vinnur að því um þessar mundir að endurskoða gildandi handbók stofnunarinnar um skjalastjórnun, skráningu og vinnslu mála og mun hafa þessi atriði í huga við þá endurskoðun.“