Opinberir starfsmenn. Skipun í embætti umboðsmanns barna. Starfsviðtöl. Rannsóknarreglan. Sjónarmið sem ákvörðun byggist á.

(Mál nr. 4413/2005)

B kvartaði yfir þeirri ákvörðun forsætisráðherra að skipa C í embætti umboðsmanns barna, en B var meðal umsækjenda um starfið. Taldi B að annmarkar hefðu verið á rannsókn málsins og benti því til stuðnings m.a. á að skammur tími hefði liðið frá því að flestar umsóknirnar bárust ráðuneytinu uns skipun C var tilkynnt og að umsækjendur hefðu ekki verið kallaðir til viðtals. Þá taldi B að ekki hefðu verið færð málefnaleg rök fyrir ákvörðun forsætisráðherra og vísaði þar einkum til þess að ráðuneytið hefði ákveðið að fá lögfræðing til starfsins.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi til B, dags. 30. desember 2005. Þar benti hann á að skammur tími frá því að erindi bærist og þar til það væri afgreitt gæti verið til marks um að undirbúningur ákvörðunar hefði ekki verið fullnægjandi en um það yrði þó ekki eingöngu ályktað út frá afgreiðslutímanum og fjölda erinda. Yrði að gæta að því hvaða rannsóknar hefði verið þörf áður en ákvörðun var tekin miðað við þau sjónarmið sem veitingarvaldshafinn hefði valið að byggja ákvörðun sína á. Taldi umboðsmaður sig ekki geta fullyrt að sá skammi tími sem ráðherra hefði tekið sér til að fjalla um fyrirliggjandi umsóknir hefði leitt til þess að undirbúningur ákvörðunar og þar með rannsókn málsins hefði ekki uppfyllt þær lágmarkskröfur sem leiddu af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá tók umboðsmaður fram að það hefði ekki verið talið leiða af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins að stjórnvöldum væri ávallt skylt að gefa hæfum umsækjendum kost á að gera nánari grein fyrir sjálfum sér í starfsviðtölum eða afla á annan hátt frekari upplýsinga um starfshæfni þeirra. Réðist það hvort þörf væri á slíkum viðtölum eða frekari upplýsingum af því hvaða upplýsinga væri talið nauðsynlegt að afla til að málið teldist nægjanlega upplýst með tilliti til þeirra sjónarmiða sem veitingarvaldshafinn hefði ákveðið að byggja á við val sitt á milli umsækjenda. Að þessu leyti væri munur á hvort við val milli umsækjenda væri byggt á sjónarmiðum eins og um menntun og starfsreynslu eða persónulegum eiginleikum og viðhorfum umsækjenda til þess hvernig viðkomandi starf yrði rækt til frambúðar. Taldi umboðsmaður að umfram þessa viðmiðun, sem leiddi af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, yrði ekki talið að á stjórnvöldum hvíldi skylda til að taka starfsviðtöl þannig að frávik frá því teldist annmarki á undirbúningi ákvörðunar um ráðningu í starf.

Umboðsmaður tók fram að í lögum væri ekki mælt skýrt fyrir um á hvaða atriðum forsætisráðherra ætti að byggja þegar hann tæki afstöðu til umsækjenda um embætti umboðsmanns barna. Það væri því í meginatriðum á valdi hans að ákveða á hvaða sjónarmiðum hann byggði að því gefnu að þau gætu talist málefnaleg. Taldi umboðsmaður að forsætisráðherra hefði almennt á grundvelli skipunarvalds síns samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 83/1994, um umboðsmann barna, heimild til að meta eftir aðstæðum hvaða menntun yrði helst talin mæta þörfum starfseminnar hverju sinni og þeim markmiðum sem lægju henni til grundvallar. Fékk umboðsmaður ekki séð, í ljósi þeirra raka sem forsætisráðuneytið hefði fært fyrir þeirri ákvörðun sinni að skipa lögfræðing í embættið, að ólögmæt markmið hefðu legið henni til grundvallar. Þá taldi hann ekki liggja fyrir að með ákvörðun ráðuneytisins hefði verið gengið gegn þeirri meginreglu að óheimilt sé að takmarka óhóflega skyldubundið mat stjórnvalda, enda virtist sem umrædd ákvörðun hefði byggst á mati á aðstæðum og þörfum starfseminnar í umræddu tilviki en ekki á vinnureglu eða fastmótaðri framkvæmd.

Varð niðurstaða umboðsmanns sú að hann taldi ekki ástæðu til athugasemda við skipun í embætti umboðsmanns barna í tilefni af kvörtun B og lauk hann umfjöllun sinni um kvörtunina með vísan til a-liðar 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Bréf mitt til B, dags. 30. desember 2005, er svohljóðandi:

I.

Ég vísa til kvörtunar yðar sem barst mér 3. maí sl. Lýtur hún að þeirri ákvörðun forsætisráðherra að skipa C í embætti umboðsmanns barna en þér voruð meðal umsækjenda um starfið. Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið að annmarkar hafi verið á meðferð málsins og að forsætisráðuneytið hafi í bréfi, dags. 15. desember 2004, ekki fært fram málefnaleg rök fyrir vali sínu. Enn fremur beinist kvörtun yðar að því að hæfni yðar hafi ekki verið metin en þér teljið að hún taki fram hæfni þess er skipuð var í embættið sé horft til menntunar og starfsreynslu sem snerti inntak starfsins.

Með bréfi, dags. 30. maí sl., óskaði ég eftir því að forsætisráðherra lýsti viðhorfi sínu til kvörtunarinnar og léti mér í té gögn málsins. Óskaði ég sérstaklega eftir því að hann skýrði afstöðu sína til þess atriðis í kvörtuninni er laut að því hvort lögmætt hafi verið að haga ákvörðunartöku í málinu þannig að valið stæði á endanum einungis á milli þeirra umsækjenda sem höfðu embættispróf í lögfræði. Svarbréf forsætisráðuneytisins barst mér 30. júní sl. Með bréfi, dags. sama dag, gaf ég yður kost á að gera athugasemdir við skýringar ráðuneytisins. Þær athugasemdir bárust mér 14. júlí sl.

II.

Í kvörtun yðar gerið þér athugasemd við rannsókn málsins og teljið að umsækjendur hafi ekki setið við sama borð þegar hæfni þeirra til að gegna starfinu var metin. Vísið þér m.a. til þess að skammur tími hafi liðið frá því umsóknarfrestur rann út og þar til ákvörðunin lá fyrir. Þá hafið þér eða aðrir umsækjendur ekki verið kallaðir til viðtals eða leitað upplýsinga um yður hjá meðmælendum. Í kvörtuninni er það enn fremur talið vera til marks um hroðvirknisleg vinnubrögð við afgreiðslu málsins að rangt var farið með starfsheiti yðar í fréttatilkynningu sem ráðuneytið gaf út um umsækjendur.

Eins og áður sagði svaraði forsætisráðuneytið fyrirspurnarbréfi mínu með bréfi, dags. 30. júní sl., og þar sagði meðal annars:

„Í bréfum yðar óskið þér eftir viðhorfi ráðuneytisins til kvartana þessara og að sérstaklega verði skýrð afstaða þess til þess atriðis hvort ólögmætt hafi verið að valið stæði, eins og áður við skipun í sama embætti, aðeins á milli þeirra umsækjenda sem hefðu embættispróf í lögfræði.

Ráðuneytið vill í fyrsta lagi taka fram að það er ekki rétt að valið hafi einungis staðið á milli þeirra umsækjenda sem höfðu embættispróf í lögfræði. Í auglýsingu um embættið var tekið fram að umsækjendur skyldu hafa lokið embættisprófi í lögfræði eða öðru háskólaprófi á sviði hugvísinda. Það var mat ráðuneytisins að æskilegt væri að umboðsmaður barna væri löglærður án þess að gera það þó að fortakslausu skilyrði.

Viðhorf ráðuneytisins skulu nú skýrð nánar. Þegar skipað var í embætti umboðsmanns barna í fyrsta skipti frá og með 1. janúar 1995 var meðal annars byggt á því sjónarmiði að viðkomandi skyldi vera löglærður. Það sjónarmið fékk stuðning í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1391/1995 þar sem segir að „ráðherra hafi að lögum verið heimilt að byggja ákvörðun í málinu á því sjónarmiði, að sá umsækjandi, sem skipaður skyldi í stöðuna, hefði lögfræðimenntun.“ Má vísa til þess álits varðandi þær kröfur sem gerðar eru að lögum til embættis umboðsmanns barna.

Ráðuneytið taldi því að skilningur þess á lögum nr. 83/1994 hefði hlotið staðfestingu umboðsmanns Alþingis og því mætti enn leggja áherslu á að lögfræðingur réðist til starfans.

Þessu til viðbótar og ekki síður tók ráðuneytið mið af tíu ára reynslu af embættinu. Fráfarandi umboðsmaður barna var löglærð og taldi ráðuneytið að menntun hennar hefði verið stór þáttur […] í því hversu vel hafði tekist til. Taldi ráðuneytið að líklegast væri að einstaklingur með sömu háskólamenntun myndi halda merki embættisins á lofti. Eins og embættið hefur mótast er snar þáttur í starfsemi þess að vinna að réttindamálum barna í lagalegum skilningi meðal annars á grundvelli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í því hefur falist að umboðsmaður barna hefur beitt sér fyrir umbótum á löggjöf og lagaframkvæmd varðandi barnaverndarmál, fjölmiðla að því er snertir ofbeldisefni, skólamál, fjölskyldumál, þ.m.t. þegar fjölskyldur leysast upp vegna skilnaða, hegningarlög varðandi fyrningarfrest vegna kynferðisafbrota og svo mætti lengi telja. Nauðsyn á því að lögfræðikunnátta væri til staðar við embættið var viðurkennd af löggjafanum þegar lög um umboðsmann barna nr. 83/1994 voru sett. Að mati ráðuneytisins hefur reynslan staðfest þetta. Umboðsmaður barna hefur eins og lög gera ráð fyrir skilað skýrslu á hverju ári til forsætisráðherra þar sem fram koma áherslur í starfi embættisins. Þá hefur ráðuneytið að sjálfsögðu fylgst að öðru leyti með starfsemi embættisins og átt samskipti við forstöðumann þess. Við mat á þörfum embættisins í ljósi tíu ára reynslu taldi ráðuneytið æskilegast að sá sem embættinu gegndi væri sjálfur löglærður til þess meðal annars að tryggja samfellu í starfsemi embættisins. Ekki væri varlegt að treysta á að það eitt að lögfræðingur starfaði við embættið dygði til að tryggja samfellu að þessu leyti. Næst þegar kemur að veitingu embættisins mun ráðuneytið að sjálfsögðu meta það upp á nýtt hvaða sjónarmið eigi að ráða ferð.

Af ofangreindu má vera ljóst að heildstætt mat fór fram á þörfum embættisins á þessum tímamótum og ráðuneytið vísar því eindregið á bug að það hafi fyrirfram gefið sér að lögfræðingur skyldi gegna embættinu án þess að taka tillit til þess sem gerst hefði á tíu árum.

Ráðuneytið taldi að það væri í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að það kæmi sem best fram í auglýsingu hverjum kostum umsækjendur þyrftu að vera búnir. Var það talið sanngjarnast gagnvart væntanlegum umsækjendum þannig að þeir sem fyrirfram mátti ætla að ættu ekki mikla möguleika færu ekki að ómaka sig.

Eins og fram hefur komið hjá ráðuneytinu í svarbréfi til yðar dags. 24. febrúar s.l. vegna kvörtunar [X] var þrátt fyrir ofangreint, þ.e. að æskilegast væri að lögfræðingur yrði áfram í forsvari embættisins, talið rétt að einskorða auglýsinguna ekki við lögfræðinga. Var þá horft til þess að gefa fleirum tækifæri en einungis lögfræðingum, enda vel hugsanlegt að engar umsóknir bærust frá lögfræðingum sem hefðu burði til að gegna starfinu með sóma. Var talið málefnalegast og réttast að víkka hringinn þannig að kallað væri eftir umsóknum frá einstaklingum með próf af öðru sviði hugvísinda. Var þá litið til þeirra háskólagreina sem skyldastar væru lögfræði.

Alls bárust 16 umsóknir um embættið og var farið vandlega yfir þær. Við val á einum einstaklingi úr þeim hópi var byggt á því sjónarmiði eins og áður segir að æskilegt væri að viðkomandi hefði embættispróf í lögfræði en einnig var horft til annarra þátta sem nefndir voru í auglýsingunni þar sem sagði að við mat á umsóknum yrði áhersla lögð á að viðkomandi hefði nægilega reynslu og þekkingu á stjórnkerfinu, atvinnulífinu og þjóðfélaginu almennt til að geta stjórnað, skipulagt og unnið sjálfstætt að úrlausn þeirra verkefna sem embættið hefði með höndum. Eins og fram kemur í rökstuðningi ráðuneytisins til þeirra umsækjenda sem eftir honum óskuðu, dags. 15. desember 2004, „þótti löng og farsæl starfsreynsla [C], þ. á m. af störfum tengdum réttindum barna og aðbúnaði þeirra, skapa henni ákveðna sérstöðu í ljósi þessara sjónarmiða“.

Ráðuneytið telur því í stuttu máli að embættisveitingin hafi verið í fullu samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Lögmæt sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar við val á nýjum umboðsmanni barna, ferlið hafi verið gagnsætt gagnvart almenningi og umsækjendum, þarfir embættisins á þessum tímamótum og þar með velferð íslenskra barna hafi verið hafðar að leiðarljósi og hæfasti einstaklingurinn orðið fyrir valinu.

Bréfi þessu fylgja umsóknir sem bárust um embætti umboðsmanns barna en ekki var aflað annarra gagna við mat á umsækjendum.“

III.

1.

Skipun í embætti telst vera ákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eins og ráða má af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til stjórnsýslulaga. (Alþt. 1992—1993, A-deild, bls. 3283.) Því bar að haga undirbúningi þeirrar ákvörðunar sem hér er deilt um og úrlausn málsins að öðru leyti þannig að kröfur stjórnsýslulaga væru uppfylltar. Um rannsókn mála er fjallað í 10. gr. stjórnsýslulaga en þar segir að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Ekki er í ákvæðinu mælt fyrir um hvernig haga skuli upplýsingaöflun eða að hvaða atriðum athugun stjórnvaldsins eigi að beinast. Ræðst það af lagagrundvellinum hverju sinni og eðli viðkomandi máls hvernig staðið skuli að þessum þáttum við undirbúning að töku ákvörðunar. Í því samhengi sem hér um ræðir þarf að hafa í huga að ekki er mælt skýrt fyrir um það í lögum hvað beri að leggja grundvallar þegar forsætisráðherra tekur afstöðu til þess hver skuli hljóta skipun í embætti umboðsmanns barna. Því verður að ganga út frá því að það sé í meginatriðum á valdi forsætisráðherra að ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum hann byggir ákvörðun sína um skipun í embættið að því gefnu að þau geti talist málefnaleg. Það leiðir hins vegar af 10. gr. stjórnsýslulaga að hann verður að sjá til þess að nægar upplýsingar liggi fyrir um þau atriði sem þýðingu eiga að hafa í ljósi þeirra sjónarmiða sem mat hans tekur mið af.

Í þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir mig er greint frá þeim sjónarmiðum sem forsætisráðherra studdist við þegar hann tók afstöðu til framkominna umsókna um embættið. Þessi sjónarmið lúta í meginatriðum að menntun umsækjenda svo og reynslu og þekkingu þeirra á stjórnkerfinu, atvinnulífinu og þjóðfélaginu almennt, eins og vikið var að í auglýsingu um starfið. Ég hef kynnt mér þær umsóknir sem bárust um embætti umboðsmanns barna. Þó að þær hafi verið misjafnlega ítarlegar gáfu þær allar nokkuð glögga mynd af menntun viðkomandi umsækjanda og starfsreynslu auk þess sem þar var almennt vikið ítarlega að viðfangsefnum umsækjandans sem tengdust málefnum barna.

Í kvörtun yðar teljið þér að sá stutti tími sem leið frá lokum umsóknarfrests og þar til tilkynnt var um þá ákvörðun ráðherra hver yrði skipaður í embættið sé til marks um að rannsókn málsins hafi ekki verið fullnægjandi. Þessu til stuðnings vísið þér til þess að ráðuneytinu hafi verið ómögulegt að yfirfara umsóknir á fullnægjandi og sanngjarnan hátt á þessum skamma tíma. Regla 10. gr. stjórnsýslulaga kveður á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Ég tel að þær upplýsingar sem fram komu í umsóknum og fylgigögnum þeirra hafi sem slíkar veitt ráðherra nægjanlegar upplýsingar til að taka ákvörðun um skipun í embætti umboðsmanns barna á grundvelli þeirra sjónarmiða sem hann hafði ákveðið að byggja á. Í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti eiga þeir sem bera fram erindi við stjórnvöld, þ.m.t. senda inn umsókn um auglýst störf, að geta gengið út frá því að meðferð slíkra erinda sé af hálfu stjórnvaldsins lögð í skipulegan og skilvirkan farveg sem miði að því að fullnægjandi grundvöllur sé lagður að úrlausn erindisins og þar með ákvörðun í málinu. Það að skammur tími líði frá því að erindi berst og þar til það er afgreitt getur vitanlega verið til marks um að þessa hafi ekki nægjanlega verið gætt hjá stjórnvaldinu en um það verður þó ekki eingöngu ályktað út frá afgreiðslutímanum og fjölda erinda, eins og umsókna. Gögn stjórnvalds um samræmt mat á umsóknum og annan samanburð milli þeirra eru almennt til vitnis um að þessir vönduðu starfshættir hafi verið viðhafðir. Í þessu máli hafa engin slík gögn verið lögð fyrir mig í tilefni af beiðni minni til ráðuneytisins um að fá gögn málsins send. Hvað sem þessu líður verður einnig í þessu efni að gæta að því hvaða rannsóknar var þörf áður en ákvörðun var tekin miðað við þau sjónarmið sem veitingarvaldshafinn valdi að byggja ákvörðun sína á.

Af skýringum ráðherra verður ráðið að við nánara mat á umsækjendum hafi sú áhersla sem lögð var á það sjónarmið að æskilegt væri að lögfræðingur yrði skipaður haft þau áhrif að við athugun umsókna hafi umsóknir frá þeim sem höfðu lögfræðimenntun haft forgang. Alls sóttu fimm lögfræðingar um embættið. Þegar litið er til umsókna þessara einstaklinga og þess munar sem var á þeim, þ.m.t. hvað starfsreynslu varðar og þá sérstaklega reynslu af málefnum barna, tel ég mig ekki geta fullyrt að sá skammi tími sem ráðherra tók sér til að fjalla um fyrirliggjandi umsóknir hafi leitt til þess að undirbúningur ákvörðunar og þar með rannsókn málsins hafi ekki uppfyllt þær lágmarkskröfur sem leiða af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Í kvörtun yðar er vísað til þess að þér hafið ekki verið kallaður í viðtal vegna umsóknar yðar og að þér vitið að svo var um fleiri sem höfðu allar forsendur til að koma til greina í starfið. Þá hafi ekki verið leitað upplýsinga um yður hjá meðmælendum. Ég tek það fram að það hefur ekki verið talið leiða af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins að stjórnvöldum sé ávallt skylt að gefa hæfum umsækjendum kost á að gera nánari grein fyrir sjálfum sér í starfsviðtölum eða afla á annan hátt frekari upplýsinga um starfshæfni þeirra. Hvort þörf er á slíkum viðtölum eða frekari upplýsingum, t.d. umsögnum meðmælenda, til að uppfylla kröfur rannsóknarreglunnar ræðst af því hvaða upplýsinga er talið nauðsynlegt að afla til að málið sé nægjanlega upplýst með tilliti til þeirra sjónarmiða sem veitingarvaldshafinn hefur ákveðið að byggja á við val sitt á milli umsækjenda. Að þessu leyti er því munur á hvort við val milli umsækjenda er byggt á sjónarmiðum eins og um menntun og starfsreynslu eða persónulegum eiginleikum og viðhorfum umsækjenda til þess hvernig viðkomandi starf verði rækt til frambúðar.

Ég fæ ekki séð að í því tilviki sem hér er fjallað um verði það að umsækjendur, sumir eða allir hafi ekki verið kallaðir í viðtöl, talið hafa farið í bága við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Hitt er annað mál að það tíðkast í vaxandi mæli að tekin séu viðtöl við umsækjendur um störf bæði hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði. Er talið að slík viðtöl séu vel til þess fallin að leggja grunn að mati á líklegri frammistöðu umsækjenda í starfi og upplýsa um ýmsa persónulega eiginleika umsækjenda. Ég tel þó að umfram þá viðmiðun sem leidd verður af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og lýst var hér að framan verði ekki talið að á stjórnvöldum hvíli skylda til að taka slík viðtöl þannig að frávik frá því teljist annmarki á undirbúningi ákvörðunar um ráðningu í starf.

Ef tekið er mið af þeim atriðum sem ráðuneytið hefur vísað til um þau sjónarmið er ákvörðunin byggðist á og með hliðsjón af þeim gögnum sem lágu fyrir þegar afstaða var tekin til framkominna umsókna tel ég ekki tilefni til að ætla að undirbúningur málsins hafi ekki samræmst rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.

2.

Í kvörtun yðar teljið þér enn fremur talið að ekki hafi verið færð málefnaleg rök fyrir ákvörðun forsætisráðherra eins og áður hefur verið vikið að. Í því sambandi vísið þér einkum til þess sem fram kemur í bréfi ráðuneytisins frá 15. desember 2004 að ákveðið hafi verið að ráða lögfræðing í starfið. Með tilliti til eðlis starfsins hafi verið full rök til að líta til umsækjenda með annan bakgrunn og reynslu að þessu sinni. Þá takið þér fram að þér teljið að ómaklega hafi verið gengið fram hjá umsókn yðar um starfið þar sem þér séuð þeirri sem ráðin var fremri að menntun og starfsreynslu sem varðar inntak starfsins.

Í áður tilvitnuðu bréfi ráðuneytisins frá 15. desember 2004 segir meðal annars:

„Ákvörðun um skipun [C] var tekin á grundvelli 1. mgr. 2. gr. laga nr. 83/1994, um umboðsmann barna, að teknu tilliti til almennra starfsgengisskilyrða skv. 2. mgr. 2. gr. [sömu laga] og 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og byggð á mati ráðuneytisins á umsóknum m.t.t. þeirra sjónarmiða, sem skilgreind voru í auglýsingu um embættið og vísað er til hér að framan. Þegar ákveðið hafði verið að ráða í starfið lögfræðing þótti löng og farsæl starfsreynsla [C], þ.á m. af störfum tengdum réttindum barna og aðbúnaði þeirra, skapa henni ákveðna sérstöðu í ljósi þessara sjónarmiða.“

Af þessum ummælum og skýringum ráðherra til mín virðist, eins og áður sagði, mega draga þá ályktun að við nánara mat á umsækjendum hafi veitingarvaldshafi valið að leggja áherslu á það sjónarmið að æskilegt væri að lögfræðingur yrði skipaður til starfans. Síðan hafi sá umsækjandi úr hópi lögfræðinga, sem þótti standa skör framar öðrum, verið valinn til að gegna embættinu. Ég tek fram að þegar horft er til orðalags og framsetningar auglýsingar um embættið máttu þeir sem sóttu um gera sér grein fyrir því að veitingarvaldshafi hefði metið það svo á grundvelli valdheimilda sinna samkvæmt 2. gr. laga nr. 83/1994 að lögfræðimenntun væri ákjósanleg þegar skipað væri nú í umrætt starf.

Í kvörtuninni vísið þér til þess að lög mæli ekki fyrir um að umsækjandi með lögfræðimenntun skuli tekinn fram yfir aðra. Auk þess hafi lögfræðingur starfað við embættið um nokkurra ára skeið.

Í fyrirspurnarbréfi mínu til forsætisráðherra óskaði ég sérstaklega eftir því að ráðuneyti hans tæki afstöðu til þessa atriðis í kvörtuninni og vísaði í því sambandi almennt til þeirrar meginreglu að stjórnvöldum sé óheimilt að afnema eða takmarka mat sitt við stjórnarframkvæmd ef löggjafinn hefur gert ráð fyrir að heildstætt mat skuli fara fram á atvikum áður en ákvörðun er tekin. Í svarbréfi forsætisráðuneytisins frá 30. júní sl. kemur fram að það líti ekki svo á að valið hafi einungis staðið á milli þeirra umsækjenda sem höfðu embættispróf í lögfræði. Það hafi hins vegar verið mat ráðuneytisins að æskilegt væri að umboðsmaður barna væri löglærður án þess að það væri gert að fortakslausu skilyrði. Auk þess er í bréfinu vísað til fyrrnefnds álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1391/1995 um lögmæti skipunar í sama embætti og talið að með því hefði sá skilningur ráðuneytisins fengið staðfestingu að heimilt væri að leggja til grundvallar að sá sem gegndi embættinu skyldi vera lögfræðingur. Þá segir í bréfi ráðuneytisins að reynslan af því að hafa lögfræðing í embættinu hafi verið góð og talið líklegt að lögfræðingur myndi halda áfram á sömu braut og embættið hafi verið rekið á. Eðli viðfangsefna embættisins hafi einkum lotið að umbótum á löggjöf og lagaframkvæmd sem snerta málefni barna og það hafi verið mat ráðuneytisins að æskilegast væri að sá sem gegndi embættinu væri sjálfur löglærður, meðal annars til að tryggja samfellu í starfsemi embættisins. Muni ráðuneytið meta það að nýju, næst þegar kemur að því að veita embættið, hvort rétt sé að byggja áfram á ofangreindu sjónarmiði eða hvort ástæða sé til breytinga.

Eins og áður hefur verið vikið að er í lögum ekki mælt skýrt fyrir um á hvaða atriðum forsætisráðherra á að byggja þegar hann tekur afstöðu til umsækjenda um embætti umboðsmanns barna. Það er því í meginatriðum á valdi hans að ákveða á hvaða sjónarmiðum hann byggir að því gefnu að þau geti talist málefnaleg. Af 2. mgr. 2. gr. laga nr. 83/1994, um umboðsmann barna, verður þó ráðið að einungis þeir sem hafa lokið háskólaprófi komi til álita í starfið. Segir þar enn fremur að ef umboðsmaður barna hefur ekki lokið embættisprófi í lögfræði þá skuli lögfræðingur starfa við embættið. Umboðsmaður Alþingis fjallaði um þýðingu þessa ákvæðis í áliti í máli nr. 1391/1995, sem áður hefur verið vikið að. Þar komst hann að þeirri niðurstöðu að við úrlausn á því hver skyldi skipaður í embættið hafi verið heimilt að leggja til grundvallar að viðkomandi hefði lögfræðimenntun þó að ekki yrði fullyrt að skýr lagavilji hafi staðið til þess að lögfræðingur yrði fortakslaust skipaður í embættið.

Á það má fallast að forsendur séu nú að ýmsu leyti aðrar en þegar fyrst var skipað í embætti umboðsmanns barna. Eftir sem áður hafa ekki verið gerðar breytingar á þeirri lagareglu sem umboðsmaður Alþingis byggði afstöðu sína á í umræddu áliti. Því þykir ekki ástæða til að álíta að breyttar aðstæður leiði út af fyrir sig til þess að löggjafinn hefði nú þurft að mæla skýrt fyrir um að umboðsmaður barna skyldi vera lögfræðingur ef forsætisráðuneytið hugðist leggja jafn ríka áherslu á þetta atriði og raun ber vitni.

Með lögum um umboðsmann barna hefur löggjafinn kveðið skýrt á um þær menntunarkröfur sem rétt þykir að gera til þess einstaklings sem gegnir umræddu embætti. Má leiða líkum að því að sú afmörkun sem þar er gerð hafi tekið mið af því að ýmiss konar háskólamenntun geti komið að góðum notum við rækslu starfans. Eftir sem áður tel ég að forsætisráðherra hafi almennt á grundvelli skipunarvalds síns samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 83/1994, heimild til að meta eftir aðstæðum hvaða menntun verði helst talin mæta þörfum starfseminnar hverju sinni og þeim markmiðum sem liggja henni til grundvallar. Ef tekið er mið af þeim rökum sem forsætisráðuneytið hefur fært fyrir þeirri ákvörðun að skipa lögfræðing í embættið fæ ég ekki séð að ólögmæt markmið liggi henni til grundvallar. Þá tel ég ekki liggja fyrir að með þessu hafi verið gengið gegn þeirri meginreglu að óheimilt sé að takmarka óhóflega mat stjórnvalda í þeim tilvikum þegar löggjafinn hefur falið þeim að meta málsatvik heildstætt áður en ákvörðun er tekin. Vísa ég í því sambandi til þess að svo virðist sem umrædd ákvörðun hafi byggst á mati á aðstæðum og þörfum starfseminnar í umræddu tilviki en ekki á vinnureglu eða fastmótaðri framkvæmd. Er í bréfi forsætisráðuneytisins sérstaklega tekið fram að ráðuneytið muni meta það upp á nýtt hvaða sjónarmið eigi að ráða ferð þegar næst verður skipað í embættið.

Samkvæmt framanrituðu tel ég að ákvörðun þess efnis að lögfræðingur skyldi skipaður í embættið hafi verið innan þeirra heimilda sem forsætisráðherra hefur samkvæmt 2. gr. laga nr. 83/1994. Ekki er efni til að leggja mat á hvort heppilegt hafi verið að byggja á umræddu sjónarmiði við úrlausn málsins. Þar sem gera verður ráð fyrir að með þessu hafi valið að lokum fyrst og fremst staðið á milli lögfræðinga meðal umsækjenda þykir heldur ekki ástæða til að fjalla nánar um þau atriði í kvörtun yðar er lúta að efni ákvörðunarinnar og reifuð voru nánar í bréfi yðar til mín, dags. 14. júlí sl.

IV.

Með hliðsjón af framanrituðu er það niðurstaða mín að ekki sé ástæða til athugasemda við skipun í embætti umboðsmanns barna í tilefni af kvörtun yðar. Lýk ég því umfjöllun minni um kvörtunina með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.