Húsnæðismál. Staðfesting byggingarfulltrúa á eignaskiptayfirlýsingu.

(Mál nr. 4627/2006)

Umboðsmaður hafði til athugunar kvartanir frá eigendum fjöleignarhúss í Reykjavík í tilefni af deilum er risu við gerð eignaskiptayfirlýsingar um eignina. Af hálfu eigendanna voru meðal annars uppi mismunandi viðhorf til þýðingar þess að byggingarfulltrúinn í Reykjavík hefði staðfest yfirlýsinguna án þess að hún hefði verið árituð um samþykki eigenda fjöleignarhússins í samræmi við 2. mgr. 16. gr. laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús. Beindist önnur kvörtunin að því að sýslumaður hefði neitað að þinglýsa eignaskiptayfirlýsingunni þrátt fyrir að byggingarfulltrúi hefði samþykkt hana. Í hinni kvörtuninni voru gerðar athugasemdir við að byggingarfulltrúinn í Reykjavík hefði samþykkt yfirlýsinguna án þess að samþykki eigenda lægi fyrir og þar með hefði hann samþykkt að í yfirlýsingunni kæmi fram rétt lýsing á stærð og skiptingu eignarinnar en um það væri ágreiningur milli eigenda fjöleignarhússins.

Í ljósi þess að það leiddi af lögum að án samþykkis eigenda eða að undangenginni þeirri meðferð sem lög nr. 26/1994, um fjöleignarhús, kvæðu á um yrði skiptayfirlýsingu ekki þinglýst taldi umboðsmaður Alþingis ekki tilefni til þess að hann fjallaði sérstaklega um atvik í málum þeirra einstaklinga er leituðu til hans með kvörtun. Sú framkvæmd byggingarfulltrúans í Reykjavík sem lýst var í kvörtununum gaf umboðsmanni hins vegar tilefni til að huga að því hvort rétt væri að hann tæki til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hvort lög stæðu til þess að byggingarfulltrúi samþykkti eignaskiptayfirlýsingu vegna fjöleignarhúss án þess að fyrir lægi samþykki eigenda á efni hennar. Í tilefni af framangreindu ritaði umboðsmaður Alþingis byggingarfulltrúanum í Reykjavík bréf þar sem hann óskaði eftir upplýsingum frá honum og afstöðu til álitaefnisins. Í svarbréfi byggingarfulltrúans staðfesti hann að hann hefði áritað yfirlýsinguna og sagði að það væri almennt svo að hann gengi ekki eftir því að samþykki eigenda eignar á eignaskiptayfirlýsingu lægi fyrir þegar hann samþykkti hana.

Að fengnu svari byggingarfulltrúans ritaði umboðsmaður félagsmálaráðuneytinu bréf þar sem hann rakti ákvæði laga nr. 26/1994. Benti umboðsmaður meðal annars á að samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laganna skyldi eignaskiptayfirlýsing undirrituð af öllum eigendum eða eftir atvikum stjórn húsfélags. Ennfremur vísaði hann til 4. mgr. 17. gr. laganna þar sem sagði meðal annars að yfirlýsinguna, ásamt teikningum og öðrum gögnum, skyldi afhenda byggingarfulltrúa til staðfestingar og væri honum skylt að senda Fasteignamati ríkisins afrit af henni. Þessu næst gerði umboðsmaður grein fyrir ákvæðum í 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 910/2000, um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning

hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum, en í síðarnefnda ákvæðinu segði að í áritun byggingarfulltrúa fælist staðfesting á viðtöku eignaskiptayfirlýsingar og að hún hefði verið yfirfarin og væri í samræmi við reglugerðina og lög um fjöleignarhús og fyrirliggjandi gögn hjá embætti hans. Í bréfi sínu til ráðuneytisins óskaði umboðsmaður eftir því að það lýsti afstöðu sinni til þess hvort það teldi byggingarfulltrúa heimilt að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu án þess að hún hefði hlotið samþykki eigenda viðkomandi eignar í samræmi við ákvæði fjöleignarhúsalaga. Teldi ráðuneytið svo vera óskaði umboðsmaður eftir þeim sjónarmiðum sem byggju að baki þeirri afstöðu, meðal annars um það hvernig slík staðfesting samrýmdist orðalagi í 27. gr. reglugerðar nr. 910/2000. Jafnframt óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um það hvort aðkoma byggingarfulltrúa að þessu leyti hefði verið samræmd af hálfu félagsmálaráðuneytisins hjá byggingarfulltrúum um landið.

Í svarbréfi sínu til umboðsmanns fjallaði félagsmálaráðuneytið almennt um tilgang og skyldu til þess að gera eignaskiptayfirlýsingar og rakti laga- og reglugerðarákvæði þar að lútandi. Að því er varðaði hlutverk byggingarfulltrúa kom meðal annars fram að ráðuneytið teldi að færa mætti fyrir því rök að ákveðið hagræði fælist í því að leita samþykkis byggingarfulltrúa áður en aflað væri undirskrifta eigenda. Hins vegar vægju þyngra þau rök að eignaskiptayfirlýsing bæri með sér vilja eigenda fjöleignarhúss og réttaröryggis vegna hvíldi á byggingarfulltrúa sú rannsóknarskylda að kanna hvort undirritun væri í samræmi við innihald og efni yfirlýsingar. Sagði í bréfinu að til að forðast ákveðna réttaróvissu væri óvarlegt að byggingarfulltrúi gæfi samþykki sitt á eignaskiptayfirlýsingu þar sem tilskilinn fjöldi eigenda hefði augljóslega ekki undirritað hana. Með samþykki sínu á óundirritaða eignaskiptayfirlýsingu hefði byggingarfulltrúi staðfest skjal sem samkvæmt fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994 og reglugerð nr. 910/2000 uppfyllti ekki skilyrði eignaskiptayfirlýsingar. Taldi ráðuneytið að beina yrði tilmælum til byggingarfulltrúa um að þeir staðreyndu hvort eignaskiptayfirlýsing uppfyllti formskilyrði fjöleignarhúsalaga áður en skipting innan fjöleignarhúss væri færð í opinberar skrár.

Í tilefni af svari félagsmálaráðuneytisins sendi umboðsmaður ráðuneytinu annað bréf þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um hvað gert hefði verið af hálfu ráðuneytisins til að koma umræddum „tilmælum“ til byggingarfulltrúa. Með bréfi, dags. 6. janúar 2006, skýrði félagsmálaráðuneytið umboðsmanni Alþingis frá því að það hefði sent bréf, dags. sama dag, til allra sveitarfélaga þar sem vakin hefði verið athygli á erindi umboðsmanns ásamt því að kynna afstöðu ráðuneytisins til málsins. Í bréfi ráðuneytisins til sveitarfélaganna var einnig að finna framangreind tilmæli til byggingarfulltrúa um hvernig standa skyldi að staðfestingum á eignaskiptayfirlýsingum.

Ég lauk athugun minni með bréfi til félagsmálaráðuneytisins, dags. 16. janúar 2006, sem hljóðar svo:

„Ég vísa til fyrri bréfaskipta minna við ráðuneytið um staðfestingu byggingarfulltrúa á eignaskiptayfirlýsingu fjölbýlishúss og þá hvort hún þurfti áður að hafa hlotið samþykki eigenda viðkomandi eignar í samræmi við ákvæði fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 og reglugerðar nr. 910/2000, um eignaskiptayfirlýsingar.

Með tilliti til svara félagsmálaráðuneytisins í bréfum til mín, dags. 14. nóvember sl. og 6. janúar sl., tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna þessa máls með vísan til 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að í ljósi þeirra erinda sem mér hafa borist og fyrirspurna vegna framkvæmdar á umræddu samþykki byggingarfulltrúa hef ég ákveðið að birta efni þeirra bréfa sem gengið hafa á milli mín og ráðuneytisins vegna þessa máls og eru þau birt á heimasíðu embættisins undir málanúmerinu 4627/2006.“

Bréf félagsmálaráðuneytisins til byggingarfulltrúa sveitarfélaga, dags. 6. janúar 2006, er svohljóðandi:

„Með bréfi, dagsettu 17. október 2005, barst félagsmálaráðuneytinu erindi umboðsmanns Alþingis. Í bréfi sínu óskaði umboðsmaður eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort það teldi að byggingarfulltrúa væri heimilt að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu fjöleignarhúss án þess að hún hefði hlotið samþykki eigenda viðkomandi eignar í samræmi við ákvæði fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 og reglugerðar nr. 910/2000 um eignaskiptayfirlýsingar.

Tilefni erindis umboðsmanns Alþingis var að embætti hans höfðu borist kvartanir frá eigendum fjöleignarhúss í tilefni deilna sem risið höfðu við gerð eignaskiptayfirlýsingar um eignina. Af hálfu eigendanna voru meðal annars uppi mismunandi viðhorf varðandi þýðingu þess að byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags staðfesti eignaskiptayfirlýsingu án þess að yfirlýsingin hefði verið árituð um samþykki eigenda fjöleignarhússins í samræmi við 2. mgr. 16. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994.

Tók umboðsmaður Alþingis fram að framangreind framkvæmd byggingarfulltrúa hefði gefið sér tilefni til að huga að því hvort rétt væri að hann tæki til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga um umboðsmann Alþingis, nr. 85/1997, hvort lög standi til þess að byggingarfulltrúi samþykki eignaskiptayfirlýsingu vegna fjöleignarhúss án þess að fyrir liggi samþykki eigenda á efni hennar. Auk þess að leita upplýsinga hjá byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags taldi umboðsmaður Alþingis rétt að beina til ráðuneytisins erindi um afstöðu þess vegna málsins.

Í svari ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis, dagsettu 14. nóvember sl., kemur fram það álit að samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga og reglugerðar nr. 910/2000 sé ljóst að hlutverk byggingarfulltrúa er að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu eftir að hún hefur verið afgreidd á formlegan hátt meðal eigenda fjöleignarhúss. Efni eignaskiptayfirlýsingar skal vera í samræmi við ákvæði 1. mgr. 17. gr. fjöleignarhúsalaga þegar byggingarfulltrúum berst slík yfirlýsing, ella getur ekki verið um að ræða lögboðinn gerning í samræmi við ákvæði 17. gr. fjöleignarhúsalaga og reglugerðar nr. 910/2000. Að mati ráðuneytisins skal samþykki byggingarfulltrúa ekki veitt nema yfirlýsing hafi verið undirrituð í samræmi við 2. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 18. gr. fjöleignahúsalaga. Telur ráðuneytið óvarlegt að byggingarfulltrúar

sveitarfélaga veiti samþykki sitt á eignaskiptayfirlýsingu þar sem tilskilinn fjöldi eigenda hefur augljóslega ekki undirritað slíka yfirlýsingu. Með samþykki sínu á óundirritaðri eignaskiptayfirlýsingu staðfesti byggingarfulltrúi skjal sem samkvæmt fjöleignarhúsalögum og reglugerð nr. 910/2000 uppfyllir ekki skilyrði eignaskiptayfirlýsingar.

Í ljósi þess sem að framan greinir beinir ráðuneytið þeim tilmælum til byggingarfulltrúa að þeir staðreyni hvort eignaskiptayfirlýsing uppfylli formskilyrði fjöleignarhúsalaga áður en skipting innan fjöleignarhúss er færð í opinberar skrár.

Hins vegar bendir ráðuneytið á að byggingarfulltrúum ber að veita fasteignareigendum leiðbeiningar varðandi þau atriði sem leitað er eftir og kalla eftir nánari skýringum um atriði sem áfátt er hverju sinni, sbr. 30.-32. gr. reglugerðar nr. 910/2000. Að mati ráðuneytisins kann einnig að felast ákveðið hagræði í samræmingu á verklagi þeirra sem leyfi hafa til að gera eignaskiptayfirlýsingar þannig að uppsetning og innihald eignaskiptayfirlýsinga verði unnið eftir stöðluðum lista. Yrði slíkt fyrirkomulag til hægðarauka fyrir hagsmunaaðila, bæði við uppsetningu og yfirferð eignaskiptayfirlýsinga.

[...].“