Lögreglumál. Tilkynningarskylda lögreglu við rannsókn skv. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991.

(Mál nr. 4450/2005)

A kvartaði yfir málsmeðferð sýslumannsins á X við rannsókn á slysi sem hún varð fyrir 6. apríl 2003 og málsmeðferð ríkissaksóknara á erindi hennar. Óskaði hún þess að umboðsmaður tæki til skoðunar hvort málsmeðferð sýslumanns og ríkissaksóknara samræmdist reglum stjórnsýsluréttar og reglum laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi til A, dags. 13. febrúar 2006. Í bréfinu benti umboðsmaður á að rannsókn lögreglu á umræddu slysi hefði farið fram á grundvelli ákvæðis 3. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991, en ákvæðið fæli í sér frávik frá meginsjónarmiðum laganna þar sem það fæli í sér að lögregla hefði sjálfstæða skyldu til að rannsaka mál óháð því hvort grunur léki á að refsivert brot hefði verið framið og þá hvort til greina kæmi að hún aðhefðist frekar á grundvelli þeirra sérstöku heimilda sem henni væru fengnar í lögunum. Ekki yrði séð að reynt hefði á við meðferð máls A að taka yrði afstöðu til þess hvort sækja skyldi mann til sakar, eða þá afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar til að lögmæltum viðurlögum yrði komið við gagnvart tilteknum aðilum í kjölfar þess líkamstjóns sem A hefði orðið fyrir. Taldi umboðsmaður ekki unnt að leggja til grundvallar að rannsókn lögreglu á umræddu slysi á grundvelli 3. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991 hefði miðað að töku stjórnvaldsákvörðunar í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga þannig að stjórnsýslulög nr. 37/1993 hefðu gilt við rannsóknina eða ákvörðun um að verða við beiðni um hana.

Tók umboðsmaður þá til athugunar hvort lögreglu kynni að hafa verið rétt eða skylt á grundvelli annarra lagareglna, á grundvelli óskráðra reglna stjórnsýsluréttar eða sjónarmiða um vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að tilkynna einstaklingum í sömu stöðu og A í umræddu máli um rannsókn sem hafin væri á grundvelli 3. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991. Vísaði umboðsmaður til þeirrar þróunar sem orðið hefði á undanförnum árum á sviði stjórnsýsluréttar og reglna um vernd einkalífs í þá átt að leggja ríkari áherslu á hagsmuni aðila máls af því að fá vitneskju um meðferð máls hans í stjórnsýslunni, þar með talið um athafnir og ákvarðanir stjórnvalda hvort sem þær teldust stjórnvaldsákvarðanir eða ekki, en sjónarmið að baki þessari þróun byggðu á því að á grundvelli slíkrar vitneskju gæti hlutaðeigandi einstaklingur brugðist við ef hann teldi að gengið væri á hagsmuni hans eða að rangar upplýsingar lægju fyrir hjá stjórnvöldum um hann og málefni hans. Benti umboðsmaður á að þessarar þróunar sæi stað í lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þar sem mælt væri fyrir um tilkynningarskyldu ábyrgðaraðila þegar fram færi vinnsla persónuupplýsinga sem aflað væri hjá öðrum en hinum skráða sjálfum, sbr. 21. gr. laganna.

Í bréfinu lýsti umboðsmaður síðan bréfaskiptum sínum við ríkissaksóknara og Persónuvernd vegna þess álitaefnis hvort lögreglu hefði borið að fylgja ákvæðum 21. gr. laga nr. 77/2000 við rannsókn málsins. Segir þar að í svarbréfi Persónuverndar hafi komið fram sú afstaða að með umræddri rannsókn lögreglu hefði farið fram vinnsla persónuupplýsinga sem félli undir efnislegt gildissvið laga nr. 77/2000 og að í ljósi þess að ekki virtist um opinbert mál að ræða heldur mál sem eingöngu myndi hafa einkaréttarlegar lögfylgjur teldi Persónuvernd skilyrði undanþáguákvæðis 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 ekki uppfyllt, en af því leiddi að tilkynningarskylda samkvæmt 21. gr. laganna yrði virk gagnvart einstaklingi í sömu stöðu og A nema uppfyllt væri eitthvert af undanþáguákvæðum 4. mgr. greinarinnar.

Þar sem ljóst var af kvörtuninni að A væri kunnugt um umrædda rannsókn lögreglu taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess að beina tilmælum til lögreglu um að uppfylla tilkynningarskyldu sína samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 77/2000. Umboðsmaður gerði hins vegar ríkissaksóknara grein fyrir afstöðu Persónuverndar til gildissviðs laga nr. 77/2000 þegar um væri að ræða rannsóknir lögreglu samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991. Í ljósi þeirrar afstöðu taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla um hvaða þýðingu óskráðar reglur stjórnsýsluréttar eða sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti kynnu að hafa um hvort lögreglu væri rétt eða skylt að tilkynna einstaklingum í sömu stöðu og A í umræddu máli um slíkar rannsóknir lögreglu.

Í ljósi þess að í bréfi til umboðsmanns gerði ríkissaksóknari athugasemd við rannsókn lögreglu að því leyti að einungis hefðu verið teknar skýrslur af vitnum sem nefnd voru í upphaflegri rannsóknarbeiðni og benti á að A gæti leitað til sýslumanns og beiðst frekari rannsóknar málsins, leit umboðsmaður svo á að A hefði fengið leiðréttingu mála sinna að því er varðaði þann þátt kvörtunar hennar sem laut að því að rannsókn lögreglu hefði ekki samræmst ákvæðum laga nr. 19/1991.