Opinberir starfsmenn. Ráðning jafnréttisfulltrúa. Auglýsing á lausu starfi. Sjónarmið sem ákvörðun verður byggð á. Mat á hæfni umsækjenda. Rökstuðningur.

(Mál nr. 4469/2005)

A kvartaði yfir ákvörðun Háskóla Íslands um að ráða B í starf jafnréttisfulltrúa en A var meðal umsækjenda um starfið. Í kvörtuninni var því haldið fram að við ráðninguna hefðu ómálefnaleg sjónarmið ráðið og að jafnræðisregla hefði verið brotin. Þá var gerð athugasemd við rökstuðning háskólans fyrir ákvörðun sinni.

Umboðsmaður rakti lýsingu á starfi og verkefnum jafnréttisfulltrúa sem fram kom í auglýsingu um starfið og þær menntunar- og hæfniskröfur sem þar voru gerðar. Umboðsmaður tók fram að hann teldi að almennt verði að vera eðlilegt samhengi á milli þeirra sjónarmiða og atriða sem fram koma í auglýsingu um opinbert starf og þess matsgrundvallar og málsmeðferðar við samanburð á umsækjendum sem veitingarvaldshafi leggur til grundvallar við ráðningu í starfið. Það var niðurstaða umboðsmanns að eins og atvikum væri háttað teldi hann sig hvorki hafa forsendur til að gera athugasemdir við mat háskólans á því hver var talinn hæfastur til að gegna umræddu starfi né að fullyrða að mat háskólans á umsókn A hefði ekki verið málefnalegt með tilliti til menntunar hennar og þá að því virtu hvernig auglýsingu um starfið var háttað. Umboðsmaður taldi að rétt hefði verið af hálfu Háskóla Íslands að rekja með ítarlegri hætti en gert var í rökstuðningi hvernig B fullnægði þeim menntunarkröfum sem fram komu í auglýsingunni. Upplýsti hann að hann hefði sett fram ábendingu um þetta atriði í bréfi til háskólans. Þrátt fyrir þetta taldi umboðsmaður að þegar á heildina væri litið væri ekki tilefni til að hann aðhefðist frekar vegna þessa þáttar kvörtunar A.

„1.

[...] Kvörtun yðar beinist í fyrsta lagi að því að við ráðninguna hafi ómálefnaleg sjónarmið ráðið og jafnræðisregla stjórnsýslulaga verið brotin. Af gögnum málsins, rökstuðningsbréfi yðar og athugasemdum í síðari bréfum yðar vegna málsins, einkum samantektar í niðurlagi bréfs yðar til mín, dags. 10. janúar sl., ræð ég nánar tiltekið að þér teljið í fyrsta lagi að sá, sem ráðinn var í umrætt starf, hafi ekki haft menntun á sviði jafnréttismála. Þá gerið þér athugasemdir við að sá hinn sami hafi haft reynslu og þekkingu á jafnréttismálum og teljið þér meðal annars að vinna að starfsmannamálum geti vart ein og sér talist til slíkrar reynslu. Loks leggið þér á það áherslu að þrátt fyrir að í auglýsingu hafi verið tekið fram að æskilegt væri að umsækjandi hefði öðlast menntun með kynjafræðilegri áherslu hafi ekki verið litið til þessa við ákvörðun um ráðningu í starfið.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, ræður rektor starfslið sameiginlegrar stjórnsýslu háskólans og setur því erindisbréf eða starfslýsingar, sjá hér einnig 10. gr. reglna um fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000. Samkvæmt stjórnskipulagi Háskóla Íslands, sem birt er á heimasíðu hans, sjá http://www.hi.is/page/ stjórnskipulag, er akademísk stjórnsýsla hluti af sameiginlegri stjórnsýslu háskólans og undir hana falla „jafnréttismál“.

Í lögum eða reglum um Háskóla Íslands er ekki að finna skráðar reglur um þau sjónarmið sem horfa verður til þegar ráðið er í starf jafnréttisfulltrúa við háskólann. Með tilliti til þessa tek ég fram að hér á landi hafa ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið eigi að leggja til grundvallar við skipun, setningu eða ráðningu í opinber störf. Hefur því almennt verið gengið út frá því að það stjórnvald sem veitir starfið skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin eigi að byggja ef ekki er mælt sérstaklega fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Leiði þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar ekki til sömu niðurstöðu verður enn fremur að líta svo á að það sé almennt komið undir mati viðkomandi stjórnvalds á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli lögð. Í þessu felst þó ekki að stjórnvöld hafi að öllu leyti frjálsar hendur um það hver skuli skipaður, settur eða ráðinn í opinbert starf hverju sinni. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verður niðurstaðan að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim persónulegu eiginleikum sem talið er að skipti máli við rækslu starfans. Þá hefur verið litið svo á að við skipun, setningu eða ráðningu í opinbert starf beri að velja þann umsækjanda sem talinn er hæfastur til að gegna viðkomandi starfi með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem byggt er á.

Í auglýsingunni um 75% starf jafnréttisfulltrúa við Háskóla Íslands kemur fram að jafnréttisfulltrúi starfi í akademískri stjórnsýslu og hafi í umboði rektors og í samstarfi við jafnréttisnefnd umsjón með „framkvæmd jafnréttismála“ í háskólanum. Þá er fjallað um hlutverk og verkefni jafnréttisnefndar en starf hennar hafi það að markmiði að stuðla að jafnrétti og sporna gegn mismunun innan háskólasamfélagsins hvort sem er á grundvelli kynferðis, fötlunar, kynhneigðar, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, trúarbragða og stöðu að öðru leyti. Um verkefni jafnréttisfulltrúa segir nánar tiltekið svo í auglýsingunni:

„Jafnréttisfulltrúi situr fundi jafnréttisnefndar og framkvæmir stefnu hennar, auk þess að vinna að stefnumótun, áætlunum, fræðslu og rannsóknum á sviði jafnréttismála. Jafnréttisfulltrúi ber ábyrgð á framkvæmd jafnréttisáætlunar í samstarfi við framkvæmdastjóra akademískrar stjórnsýslu og jafnréttisnefnd. Jafnréttisfulltrúi stýrir fræðslustarfi um jafnréttismál og hefur umsjón með jafnréttisstarfi Háskóla Íslands og áætlanagerð auk þess sem hann starfar sem sérstakur ráðgjafi um jafnréttismál innan skólans.

Um „menntunar- og hæfniskröfur“ er í auglýsingunni tilgreint að áskilið er að umsækjendur um starfið hafi lokið háskólamenntun. Þá sé „menntun á sviði jafnréttismála nauðsynleg“, „menntun með kynjafræðilegri áherslu æskileg“ og „reynsla og þekking á jafnréttismálum [sé] nauðsynleg“. Þá eru jafnframt tilgreindir eftirfarandi þættir: „færni í ritun máls og framsögu“, „sjálfstæði í starfi“, „samstarfs- og skipulagshæfileikar“ og „lipurð í mannlegum samskiptum“.

Í rökstuðningsbréfi Háskóla Íslands til yðar, dags. 9. júní 2005, kemur fram að við ákvörðun um veitingu starfsins hafi verið byggt á þeim sjónarmiðum sem fram komu í auglýsingunni og „eðli málsins samkvæmt vógu þar þyngst þau atriði sem auglýsingin greindi að væru skilyrði fyrir ráðningu“. Einkum og sér í lagi hafi verið litið til reynslu af jafnréttismálum og þeirrar áherslu sem lögð hafi verið í háskólanum á „heildstæða samþættingu starfsmanna- og jafnréttismála í víðum skilningi“. Í þessu sambandi er vísað til ákvæða jafnréttislaga nr. 96/2000 og feli slík samþætting í sér að í framkvæmd hljóti jafnréttisstarf í opinberum stofnunum að byggjast á því að til staðar sé sem víðtækust þekking um málefni þeirra sem starfið tekur til, einkum starfsmanna og minnihlutahópa. Í bréfinu er síðan rakið að sá umsækjandi sem ráðinn var í starfið, [B], hafi langa og víðtæka reynslu af framkvæmd jafnréttismála í gegnum áralöng störf að málefnum starfsmanna Háskóla Íslands, meðal annars ráðningar í störf og launaákvarðanir. Þá hafi hún unnið með fyrstu jafnréttisnefnd háskólans sem hafi lagt grunninn að jafnréttisstarfi innan skólans. Þegar þessir kostir hafi verið metnir út frá þessum sjónarmiðum og áherslum háskólans hafi það verið niðurstaðan að [...] væri hæfasti umsækjandinn um starfið.

Samkvæmt auglýsingunni um starf jafnréttisfulltrúa var áskilið að umsækjandi hefði háskólamenntun og jafnframt að menntun á „sviði jafnréttismála“ væri „nauðsynleg“. Ég tel að þegar lagt er á það mat hvað telst til „jafnréttismála“ við ráðningu í það starf sem hér um ræðir verði einkum að horfa til þess hvernig hlutverk og verkefni jafnréttisfulltrúans voru skilgreind af hálfu háskólans og til þeirra viðhorfa til jafnréttismála sem leiða af stjórnarskrá og lögum. Í þessu sambandi verður í fyrsta lagi að horfa til þeirrar lýsingar sem fram kemur í starfsauglýsingunni um að jafnréttisfulltrúi sitji fundi jafnréttisnefndar háskólans og framkvæmi stefnu hennar, auk þess að vinna að stefnumótun, áætlunum, fræðslu og rannsóknum á sviði jafnréttismála. Þá beri hann ábyrgð á framkvæmd jafnréttisáætlunar í samstarfi við framkvæmdastjóra akademískrar stjórnsýslu og jafnréttisnefnd. Í auglýsingunni er einnig rakið að starf jafnréttisnefndar hafi það að markmiði að stuðla að jafnrétti og sporna gegn mismunum innan háskólasamfélagsins hvort sem er á grundvelli kynferðis, fötlunar, kynhneigðar, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, trúarbragða og stöðu að öðru leyti. Með þetta í huga minni ég á að [B] lauk á árinu 2004 MA-námi við félagsvísindadeild þar sem áhersla var lögð á stöðu minnihlutahópa og einstaklinga af erlendum uppruna. Ég tel af þessum sökum að ekki verði af minni hálfu dregið í efa að [B] hafi haft nægilega menntun „á sviði jafnréttismála“ eins og skilja verður það hugtak í því samhengi sem starf jafnréttisfulltrúa innan stofnunar á borð við Háskóla Íslands er hluti af, sbr. einnig sjónarmið þau sem fram koma í svarbréfi háskólans til mín, dags. 15. desember 2005. Í þessu sambandi bendi ég á að af fundargerð jafnréttisnefndar, dags. 10. maí 2005, þar sem fjallað var um ráðningu jafnréttisfulltrúa verður ekki annað ráðið en að það hafi verið álit nefndarinnar að þeir þrír umsækjendur sem óskað var eftir að nefndin tæki til umfjöllunar hafi allir fullnægt menntunarkröfum þeim sem fram komu í auglýsingunni. Þá hef ég hér horft til erindisbréfs jafnréttisnefndar, sem samþykkt var í háskólaráði 26. júní 2002, jafnréttisáætlunar Háskóla Íslands, stefnu hans í málefnum fatlaðra og ekki síst stefnu skólans gegn mismunum hvers konar sem endurspeglast í þeim markmiðum með störfum jafnréttisnefndar sem lýst er í auglýsingunni um starf jafnréttisfulltrúa. Loks tek ég fram að þegar litið er til inntaks og gildissviðs jafnræðisreglna í íslenskum rétti, sjá 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrárinnar, er engan veginn tilefni til þess af minni hálfu að gera athugasemdir við það að skipulagning og framkvæmd „jafnréttismála“ innan Háskóla Íslands taki almennt mið af fjölmörgum þáttum sem lúta meðal annars að vernd minnihlutahópa, stöðu fatlaðra o.s.frv. og þannig sé lagt til grundvallar að málefni sem varða jafna stöðu kvenna og karla séu aðeins einn mikilvægur þáttur í þeim efnum.

Í auglýsingunni um starf jafnréttisfulltrúa er tilgreint að „menntun með kynjafræðilegri áherslu“ sé „æskileg“. Eins og rakið er í kafla I óskaði ég sérstaklega eftir því að Háskóli Íslands lýsti viðhorfi sínu til þess hvaða þýðingu atriði um menntun með kynjafræðilegri áherslu hefði haft við samanburð á umsækjendum sem höfðu sambærilega menntun á sviði jafnréttismála og töldust að því leyti jafn hæfir þegar annar hafði að auki menntun með kynjafræðilegri áherslu. Í svarbréfi háskólans til mín, dags. 15. desember 2005, kemur fram að í ljósi auglýsingarinnar hefði menntun með kynjafræðilegri áherslu talist kostur, þegar búið væri að meta menntun umsækjanda á sviði jafnréttismála auk reynslu hans og þekkingar á þeim málum, á sama hátt og aðrir þeir þættir sem þar eru tilgreindir. Þá segir að háskólinn hafi talið að sú menntun og þeir kostir sem taldir eru æskilegir en ekki nauðsynlegir í auglýsingum um laus störf séu þættir sem koma eingöngu til mats að öðrum skilyrðum uppfylltum og að þeir vegi allir jafnþungt við það mat. Æskileg menntun með kynjafræðilegri áherslu hefði því haft sama vægi við mat á hæfni umsækjenda og aðrir þættir á borð við færni í ritun máls, sjálfstæði í starfi og lipurð í mannlegum samskiptum sem fram koma í auglýsingu. Loks er þess getið að þar sem starf jafnréttisfulltrúa Háskóla Íslands er á sviði jafnréttismála í víðum skilningi, eins og hafi komið fram í auglýsingunni, hafi ekki verið talið að menntun með kynjafræðilegri áherslu gerði umsækjanda „sjálfkrafa hæfari“ til að gegna starfinu en til dæmis menntun með áherslu á minnihlutahópa almennt.

Ég tek fram að þegar stjórnvald setur fram í auglýsingu lýsingu á þeim sjónarmiðum sem miðað verður við þegar ráðið er í opinbert starf hefur það í fyrsta lagi í för með sér að afmarka nokkuð þann hóp umsækjenda sem stjórnvaldið sjálft sækist eftir að teknu tilliti til eðlis þess starfs sem um ræðir. Þá hefur slík lýsing það í för með sér að skapa tilteknar væntingar hjá þeim sem ákveða að leggja inn umsókn um hvernig mati á einstökum umsóknum og samanburði á milli umsækjenda verður háttað. Ég tel því að almennt verði að vera eðlilegt samhengi á milli þeirra sjónarmiða og atriða sem fram koma í auglýsingu um opinbert starf og þess matsgrundvallar og málsmeðferðar við samanburð á umsækjendum sem veitingarvaldshafi leggur til grundvallar við ráðningu í starfið, sbr. til hliðsjónar dómur Hæstaréttar frá 10. október 2002, mál nr. 121/2002.

Í auglýsingu þeirri sem mál þetta varðar er tekið fram að „æskilegt“ sé að umsækjandi hafi menntun með kynjafræðilegri áherslu. Við framsetningu auglýsingar af þessu tagi skiptir verulegu máli hvaða orðalag er valið þegar lýst er einstökum atriðum og sjónarmiðum sem veitingarvaldshafi hyggst horfa til við ráðninguna. Ljóst er að ekki var af hálfu háskólans talin ástæða til að gera menntun með kynjafræðilegri áherslu að skilyrði fyrir ráðningu í starfið enda dreg ég í efa að slík þrenging á menntunarkröfum í starf jafnréttisfulltrúa við Háskóla Íslands hefði verið réttlætanleg þegar horft er til hins víðtæka hlutverks hans sem ég hef gert að umtalsefni hér að framan. Þá tek ég fram að ég tel ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu háskólans að ljá menntun með kynjafræðilegri áherslu sama vægi og þau sjónarmið sem lúta að öðrum þáttum en menntun, sem rakin eru í auglýsingunni, enda fullnægi umsækjandi að öðru leyti því skilyrði að vera með háskólamenntun á sviði jafnréttismála og reynslu og þekkingu á jafnréttismálum. Hafi umsækjandi á borð við yður menntun með kynjafræðilegri áherslu tel ég þó að hann hafi í ljósi nefndrar auglýsingarinnar mátt ætla að vægi þeirrar menntunar yrði talin honum sérstaklega til tekna í samanburði við aðra umsækjendur sem ekki höfðu slíka menntun. Ég ítreka hins vegar að ekki er loku fyrir það skotið að umsækjandi sem fullnægir menntunarkröfum í auglýsingunni og hefur auk þess að mati Háskóla Íslands mikla reynslu og þekkingu á jafnréttismálum teljist í ljósi þess, og að teknu tilliti til annarra þátta um persónulega eiginleika og hæfni sem fram koma í auglýsingunni, hæfari til að gegna starfi jafnréttisfulltrúa heldur en umsækjandi sem hefur menntun með kynjafræðilegri áherslu en stendur lakar að vígi hvað varðar reynslu og aðra þætti. Hér verður sem fyrr segir að horfa til þess að þegar ekki nýtur við lagaákvæða eða stjórnvaldsfyrirmæla þar sem er að finna tilgreiningu á þeim sjónarmiðum sem leggja skal til grundvallar við ráðningu í opinbert starf hefur veitingarvaldshafi svigrúm við innbyrðis mat á vægi sjónarmiða og er ljóst að val á umsækjanda í opinbert starf á að vera lokaniðurstaða ígrundaðs og heildstæðs mats á umsækjendum að teknu tilliti til þeirra málefnalegu sjónarmiða sem lögð hafa verið til grundvallar. Þá minni ég á þau sjónarmið sem að framan eru rakin um að meta verður það vægi sem ljá verður sjónarmiði um menntun með kynjafræðilegri áherslu í þessu máli með það í huga að um starf er að ræða þar sem slík menntun og þær áherslur sem beinast að jafnri stöðu kynjanna innan háskólans eru aðeins einn mikilvægur þáttur í því jafnréttisstarfi sem þar fer fram. Þegar litið er til þróunar íslensks samfélags á undanförnum árum, ekki síst innan háskólasamfélagsins, tel ég ekki ástæðu til að draga það í efa að einstaklingur sem gegnir starfi jafnréttisfulltrúa á hverjum tíma þurfi ekki síður að hafa menntun og reynslu sem geri honum kleift að stuðla að því að saman fari aukin fjölmenning innan háskólans og virðing fyrir jafnri stöðu starfsmanna og nemenda.

Ég tel mig ekki geta ráðið annað af gögnum málsins en að við val Háskóla Íslands á [B] í umrætt starf hafi reynsla hennar af störfum á sviði starfsmannamála innan háskólans, meðal annars um ráðningar í störf og launaákvarðanir, störf hennar að málefnum minnihlutahópa og loks starf hennar með fyrstu jafnréttisnefndinni haft verulegt vægi. Þegar horft er til umsóknar hennar tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að draga það í efa að mikil reynsla hennar og þekking á starfsmannamálefnum innan Háskóla Íslands hafi getað nýst henni í starfi jafnréttisfulltrúa með þeim hætti sem lagt hefur verið til grundvallar af hálfu Háskóla Íslands. [...] Með þetta í huga tel ég mig eins og atvikum er háttað hvorki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við mat háskólans á því hver var talinn hæfastur til að gegna umræddu starfi né að fullyrða að mat háskólans á umsókn yðar hafi ekki sem slíkt verið málefnalegt að teknu tilliti til menntunar yðar og þá að því virtu hvernig auglýsingu um starfið var háttað. Þar sem kvörtun yðar beinist ekki sem slík að mati háskólans á umsækjendum með tilliti til annarra þátta sem fram koma í auglýsingunni hefur athugun mín ekki beinst að þeim heldur hef ég afmarkað hana við þau atriði sem fram koma í kvörtun yðar og ég hef rakið hér að framan.

2.

Kvörtun yðar beinist í öðru lagi að því að rökstuðningur Háskóla Íslands fyrir ákvörðuninni um ráðningu í starf jafnréttisfulltrúa hafi borist of seint og að rökstuðningurinn hafi ekki fullnægt þeim kröfum sem stjórnsýslulög gera til efnis rökstuðnings.

Ég tek hér í fyrsta lagi fram að Háskóli Íslands hefur í bréfi sínu til mín, dags. 22. september 2005, viðurkennt að ekki hafi verið gætt leiðbeiningarreglu 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga um heimild aðila máls til að fá ákvörðun rökstudda þegar yður var tilkynnt um ofangreinda ákvörðun með bréfi háskólans, dags. 18. maí 2005. Í bréfi háskólans er rakið að eftirleiðis verði tryggt að ávallt verði gætt umræddrar leiðbeiningarskyldu. Í ljósi þessa hef ég ákveðið að aðhafast ekki frekar í þessu máli vegna þessa atriðis en mun fylgjast með því hvort fyrirætlanir Háskóla Íslands að þessu leyti gangi eftir.

Samkvæmt gögnum málsins óskuðuð þér eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Háskóla Íslands með bréfi, dags. 23. maí 2005. Með tölvupósti lögfræðings starfsmannasviðs háskólans til yðar, dags. 7. júní 2005, var yður tilkynnt um það að það tefðist „um nokkra daga“ að veita yður umbeðinn rökstuðning. Yrði frá því gengið daginn eftir, á miðvikudegi, þannig að þér ættuð að fá bréf vegna þessa fyrir næstu helgi eða í síðasta lagi á mánudeginum. Ljóst er að fyrirætlanir Háskóla Íslands samkvæmt tölvupóstinum gengu eftir en rökstuðningur Háskóla Íslands barst yður með bréfi dagsettu 9. júní 2005.

Í 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga segir að beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun skuli bera fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt ákvörðunin og skal stjórnvald svara henni innan 14 daga frá því að hún barst. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir svo um þetta ákvæði:

„Veita skal rökstuðning fyrir ákvörðun svo fljótt sem unnt er. Þykir rétt að lögfesta þá reglu að svara skuli beiðni um rökstuðning innan 14 daga. Er þetta mikilvægt svo að ekki sé farið að fyrnast yfir þau sjónarmið sem raunverulega voru ráðandi við úrlausn máls hjá þeim starfsmanni er réð málinu til lykta.

Dragist að veita umbeðinn rökstuðning fram yfir hinn lögákveðna frest af óviðráðanlegum orsökum ber að skýra aðila máls frá því og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr.“ (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3302.)

Í niðurlagi 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga er miðað við að stjórnvald hafi fjórtán daga til að veita rökstuðning eftir að beiðni þess efnis „berst“ stjórnvaldinu. Af gögnum málsins liggur fyrir að beiðni yðar um rökstuðning, dags. 23. maí 2005, barst háskólanum 25. s.m. samkvæmt móttökustimpli. Rökstuðningurinn var síðan sendur yður með bréfi, dags. 9. júní 2005. Þegar metið er hvort rökstuðningurinn hafi verið veittur innan fjórtán daga frestsins samkvæmt 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga verður að horfa til þess að samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sömu laga telst sá dagur, sem lögbundinn frestur er talinn frá, ekki með í frestinum. Með þetta í huga var rökstuðningurinn sendur yður þrettán dögum eftir að beiðni yðar barst Háskóla Íslands í merkingu 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga. Ekki er því tilefni til athugasemda af minni hálfu vegna þessa atriðis kvörtunar yðar. Rétt er að taka fram að samkvæmt tölvupóstinum frá 7. júní sl. virðast atvik hafa verið þau að ekki hafi legið þá fyrir hvort háskólanum tækist að veita yður rökstuðninginn innan fjórtán daga frestsins. Var því yður send umrædd tilkynning um að tafir kynnu að verða á því að yður yrði sendur rökstuðningurinn og upplýst um hvenær ákvörðunar væri að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, sjá athugasemdir úr frumvarpi til laganna, sem að framan er vitnað til.

Í kvörtun yðar er í öðru lagi haldið fram að rökstuðningur sá sem Háskóli Íslands veitti yður hafi ekki fullnægt kröfum stjórnsýslulaga til efnis rökstuðnings.

Í 22. gr. stjórnsýslulaga segir í 1. mgr. að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á og að því marki sem ákvörðun byggist á mati skuli þar greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Í 2. mgr. ákvæðisins er til viðbótar tekið fram að þar sem ástæða er til skuli í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Við mat á hvort gætt hafi verið að kröfum um efni rökstuðnings þarf að hafa fyrst og fremst í huga að rökstuðningur stjórnvalds fyrir ákvörðun á að meginstefnu til að vera stuttur en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á, sjá hér athugasemdir greinargerðar með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum (Alþt. 1992—1993, A-deild, bls. 3303.) Þá hef ég tekið fram í álitum mínum, sbr. álit mitt frá 6. júlí 2004 í máli nr. 3955/2003, að þegar ráðið er í opinbert starf er það jafnan gert að undangengnum samanburði á upplýsingum um umsækjendur út frá tilteknum forsendum. Til að umsækjandi geti skilið hvers vegna annar var valinn til að gegna starfinu verður almennt að ætla að í rökstuðningi þurfi að lýsa þeim meginforsendum sem þýðingu höfðu við samanburðinn svo og þeim upplýsingum sem gera má ráð fyrir að viðkomandi sé ekki kunnugt um og skiptu verulegu máli við samanburðinn. Hins vegar verður ekki á grundvelli 22. gr. stjórnsýslulaga krafist frekari rökstuðnings af hálfu stjórnvaldsins sem ræður í starf en að það geri viðhlítandi grein fyrir þeim ástæðum sem réðu því að starfið var veitt þeim sem það hlaut.

Í rökstuðningi Háskóla Íslands til yðar, dags. 9. júní 2005, er í fyrsta lagi vísað til þeirra meginsjónarmiða sem ráðandi voru við mat háskólans á umsækjendum í starf jafnréttisfulltrúa. Þá er greint frá því hvaða sjónarmið vógu þar þyngst. Lýst er kostum þess, sem ráðinn var í umrætt starf, sem höfðu mesta þýðingu við valið einkum um langa og víðtæka reynslu [...] af framkvæmd jafnréttismála í gegnum áralöng störf að málefnum starfsmanna Háskóla Íslands, meðal annars við ráðningar í störf og launaákvarðanir. Þá hafi hún lagt af mörkum mikla vinnu við að tryggja réttarstöðu minnihlutahópa innan skólans og auk þess unnið með fyrstu jafnréttisnefnd skólans sem hafi lagt grunninn að jafnréttisstarfi innan skólans. Enda þótt rétt hefði verið af hálfu Háskóla Íslands að rekja með ítarlegri hætti hvernig [...] fullnægði menntunarkröfum þeim sem fram komu í auglýsingunni, en ábendingu um það atriði hef ég sett fram í meðfylgjandi bréfi til háskólans, tel ég að þegar á heildina er litið sé ekki tilefni til þess að ég aðhafist frekar vegna þessa þáttar kvörtunar yðar.

Með hliðsjón af framangreindu og þeim sjónarmiðum sem ég hef rakið hér að framan er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.“

Bréf mitt til rektors Háskóla Íslands, dags. 7. mars 2005, hljóðar svo:

„Yður tilkynnist með bréfi þessu að ég hef með bréfi, dags. í dag, til [A], ákveðið að ljúka máli hennar.

Vegna málsins hef ég þó ákveðið að setja fram eftirfarandi ábendingar sem ég vænti þess að tekið verði framvegis mið af í störfum Háskóla Íslands.

Ég get tekið undir þá athugasemd [A] að Háskóli Íslands hafi í rökstuðningsbréfi sínu til hennar, dags. 9. júní 2005, ekki nægilega lýst því hvernig [B] fullnægði menntunarskilyrðum þeim sem fram komu í auglýsingunni um starf jafnréttisfulltrúa. Þá tel ég að háskólinn hafi ekki heldur leitast við að lýsa sjónarmiðum sínum og viðhorfum um þetta atriði með nægjanlega skýrum og glöggum hætti við meðferð málsins hjá umboðsmanni Alþingis. Þá vek ég sérstaka athygli á því að í bréfi háskólans til mín, dags. 15. desember 2005, kom fram að við mat á umsóknum hefðu þrír umsækjendur verið taldir hæfastir til að gegna starfinu. Í bréfinu eða öðrum gögnum sem skólinn hefur afhent mér kemur ekki fram hverjir þessir þrír úr hópi umsækjenda voru og ég taldi því rétt að afla upplýsinga þar um með símtali við lögfræðing starfsmannasviðs skólans. Ég tek fram að mikilvægt er að stjórnvöld hugi vandlega að því að lýsa viðhorfum sínum í tilefni af fyrirspurnarbréfum frá umboðsmanni, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og veiti honum nauðsynlegar upplýsingar um atvik máls þannig að hann geti lagt viðhlítandi mat á hvort gætt hafi verið réttra lagasjónarmiða og reglna við úrlausn mála. Loks minni ég á að í bréfi háskólans til mín, dags. 22. september 2005, er viðurkennt að ekki hafi verið gætt í tilkynningarbréfi til [A], dags. 18. maí 2005, að veita henni þær leiðbeiningar um heimild hennar til að fá ákvörðunina rökstudda sem fram koma í 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Er tekið fram í skýringarbréfinu frá 22. september sl. að þess verði gætt eftirleiðis að haga málum með þeim hætti að samrýmist greindu ákvæði stjórnsýslulaga. Ég vænti þess að fyrirætlanir Háskóla Íslands um það atriði gangi eftir.“