Opinberir starfsmenn. Sjónarmið sem ákvörðun byggist á. Mat á hæfni umsækjenda. Andmælaregla. Rökstuðningur. Hæfi.

(Mál nr. 4427/2005)

A leitaði til umboðsmanns vegna ráðningar B í stöðu sérfræðings við Landspítala-háskólasjúkrahús en A var meðal umsækjenda um starfið. Taldi A að í fyrsta lagi hefði ákvörðun um ráðninguna ekki verið nægilega vel undirbúin samkvæmt jafnræðisreglu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Í öðru lagi að umrædd ákvörðun hefði ekki byggst á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum, einkum í ljósi þess að hæfasti umsækjandinn hefði verið sniðgenginn. Í þriðja lagi að rökstuðningur fyrir ákvörðuninni hefði ekki fullnægt kröfum stjórnsýsluréttar og í fjórða lagi að C, forstöðumaður, hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins fyrir hönd Landspítala - háskólasjúkrahúss, sbr. 5. og 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Umboðsmaður tók fram að ekki væru forsendur af hans hálfu til að draga í efa að þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar við ráðninguna hefðu sem slík verið málefnaleg með tilliti til eðlis starfsins. Samkvæmt gögnum málsins höfðu verið tekin viðtöl við umsækjendur og samantektir gerðar af hálfu þeirra starfsmanna spítalans sem önnuðust ráðninguna um það sem fram kom í umsóknum og viðtölunum. Jafnframt hafði af hálfu sömu aðila verið gerður samanburður á umsækjendum í formi einkunnagjafar fyrir tiltekin atriði. Umboðsmaður vék sérstaklega að mati á menntun umsækjenda út frá því hvort þeir hefðu lokið doktorsnámi eða væru í þann mund að ljúka því. Taldi umboðsmaður ekki tilefni til athugasemda við þær ályktanir sem sá er réði í starfið hefði dregið af fyrirliggjandi upplýsingum að þessu leyti. Þá taldi umboðsmaður að með tilliti til þeirra sjónarmiða sem lögð voru til grundvallar við ráðninguna yrði ekki séð að byggt hefði verið á ófullnægjandi upplýsingum eða að óréttmætar ályktanir hefðu verið dregnar af gögnum málsins. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til athugasemda á grundvelli rannsóknar- eða rökstuðningsreglu stjórnsýsluréttarins. Það var að lokum niðurstaða umboðsmanns að ekki lægi fyrir af gögnum málsins að C hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins.

Ég lauk athugun minni á þessu máli með bréfi til lögmanns A, dags. 6. mars 2006, eftir að hafa fengið skýringar og gögn málsins frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Í bréfinu segir meðal annars:

„1.

[...] Kvörtun yðar beinist í fyrsta lagi að því að ákvörðunin um umrædda ráðningu [...] hafi ekki verið nægilega vel undirbúin samkvæmt jafnræðis- og rannsóknarreglum stjórnsýsluréttar. Þá er í öðru lagi haldið fram að umrædd ákvörðun hafi ekki byggst á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum, einkum í ljósi þess að hæfasti umsækjandinn hafi verið sniðgenginn. Vegna náinna tengsla þessara sjónarmiða yðar og framsetningar yðar um þessar málsástæður í kvörtun yðar tel ég rétt að fjalla hér heildstætt um þessi atriði.

Í kvörtunarbréfi yðar segir nánar tiltekið í þessu sambandi að hæfni [A] til starfsins hafi að því er virðist ekki verið upplýst til hlítar í samanburði við hæfni þeirrar sem ráðin var og jafnræðis ekki gætt við mat á hæfni með tilliti til menntunar, starfsreynslu, fræðastarfa og margs fleira. Jafnframt megi ljóst vera að sú sem ráðin var í starfið hafi engan veginn verið hæfasti umsækjandinn hvernig sem á málið er litið og með tilliti til auglýstra ráðningarskilyrða. Tekið sé fram í auglýsingunni um starfið að umfangsmikill þáttur í starfinu sé [...] greining og þar standi [A] mun framar þeirri sem ráðin var auk þess sem [A] standi henni „almennt framar“ þegar horft sé til annarra þátta sem fram koma í auglýsingunni. Nægi þar að nefna að [A] lokið doktorsprófi en sú sem ráðin var ekki. [...]

Samkvæmt 8. mgr. 30. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, er það verkefni forstjóra Landspítala-háskólasjúkrahúss að ráða starfslið sjúkrahússins, þó með þeim undantekningum sem nánar greinir í lögunum en þær skipta hér ekki máli. Því er ekki haldið fram í kvörtun yðar á skorti að umrædd ákvörðun [...] hafi verið tekin af valdbærum aðila innan sjúkrahússins og hefur athugun mín því ekki beinst að því atriði. Það sem hér skiptir hins vegar máli er að í lögum um heilbrigðisþjónustu eða öðrum lögum er ekki að finna skráðar reglur um þau sjónarmið sem horfa verður til þegar ráðið er í starf [sérfræðings á því sviði sem hér á í hlut]. Óumdeilt er að sú sem ráðin var í umrætt starf hefur hlotið tilskilin leyfi [...].

Með tilliti til ofangreinds og þessa þáttar kvörtunar yðar tek ég fram að hér á landi hafa ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið eigi að leggja til grundvallar við skipun, setningu eða ráðningu í opinber störf. Hefur því almennt verið gengið út frá því að það stjórnvald sem veitir starfið skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin eigi að byggjast ef ekki er mælt sérstaklega fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Leiði þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar ekki til sömu niðurstöðu verður enn fremur að líta svo á að það sé almennt komið undir mati viðkomandi stjórnvalds á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli lögð. Í þessu felst þó ekki að stjórnvöld hafi að öllu leyti frjálsar hendur um það hver skuli skipaður, settur eða ráðinn í opinbert starf hverju sinni. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verður niðurstaðan að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim persónulegu eiginleikum sem talið er að skipti máli við rækslu starfans. Þá hefur verið litið svo á að við skipun, setningu eða ráðningu í opinbert starf beri að velja þann umsækjanda sem talinn er hæfastur til að gegna viðkomandi starfi með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem byggt er á.

[...]

Þrjár umsóknir bárust um ofangreint starf. Í framhaldi af móttöku umsókna voru allir umsækjendurnir, í samræmi við það sem fram kom í auglýsingu, teknir í viðtöl sem fram fóru á skrifstofu [C, forstöðumanns], og framkvæmdu hann og [D] þau. Í gögnum málsins liggja fyrir ítarlegar samantektir, dags. [...] 2005, óundirritaðar, um umsækjendurna þrjá þar sem skráð er það sem fram kom í viðtölunum að mati þeirra sem önnuðust þau. Þá er að finna „samantekt“ um hvern umsækjanda fyrir sig, um menntun hans, leyfisbréf, fyrri störf, félagsstörf, áhugamál, birtar greinar og styrki. Þá er því lýst að þeir sem viðtölin tóku hafi að þeim loknum gefið umsækjendum einkunnir „á fimm breytum á kvarðanum 0-10“; þ.e. fyrir (1) viðtal, (2) samskipti, (3) menntun, (4) starfsreynslu, og (5) rannsóknir. Þá hafi einkunnir fyrir [þessa þætti] verið lagðar saman og heildareinkunn mest getað orðið 50. Samkvæmt því sem fram kemur á samantektarblöðum fyrir [B] og [A] þá hlaut hin fyrrnefnda heildareinkunnina 39 stig en hin síðarnefnda 34 stig. Af gögnum málsins og skýringum Landspítala-háskólasjúkrahúss er ekki annað komið fram en að við ákvörðun um að ráða [B] í umrætt starf hafi verið byggt á þeim sjónarmiðum og þeim niðurstöðum um mat á umsækjendum sem dregið er saman á ofangreindum samantektarblöðum.

Ég tek hér í upphafi fram að ekki eru forsendur af minni hálfu til að draga það í efa að þau sjónarmið sem gögn málsins bera með sér að hafi verið lögð til grundvallar ráðningu í umrætt starf hafi sem slík verið málefnaleg með tilliti til eðlis starfans. Þá voru þessi sjónarmið í málefnalegum og beinum tengslum við þá lýsingu sem fram kom í auglýsingu um starfið. Í kvörtun yðar er hins vegar vikið sérstaklega að tveimur þáttum sem þér teljið að ekki hafi verið metnir með forsvaranlegum hætti af hálfu veitingarvaldshafa. Nefnið þér í fyrsta lagi að í auglýsingu um starfið komi fram að umfangsmikill þáttur í starfinu sé „[...]fræðileg greining“ og þar standi [A] mun framar þeirri sem ráðin var. Þá hafi [A] mun meiri menntun auk þess sem þér takið raunar fram að [A] standi þeirri sem ráðin var framar á öllum þeim sviðum sem áhersla var lögð á að meta við meðferð málsins.

Í auglýsingunni um starfið segir að „[umfangsmikill] þáttur í starfinu [sé] [...]fræðileg greining og því krafist sérmenntunar eða langrar starfsreynslu á því sviði“. Af ofangreindum samantektum á umsækjendum, sem unnar voru við meðferð málsins, kemur glögglega fram að það hafi verið mat þeirra sem unnu þessi gögn að [A] stæði [B] talsvert framar hvað varðaði starfsreynslu og þá með tilliti til þeirra starfsþátta sem um var að ræða en [A] fær 9 í einkunn fyrir þennan þátt af 10 mögulegum en [B] 6 stig. Hvað sem líður ágreiningi um afmörkun á starfshlutfalli og lengd starfsreynslu [A] fæ ég því ekki séð að tilefni sé til athugasemda við mat á umsækjendum að þessu leyti.

[...]

Að því er varðar menntun [A] og [B] er ekki gerður greinarmunur á milli þeirra í umræddum samantektum en þær fá báðar 9 stig hvað þann þátt varðar. Um menntun [B] virðist í fyrsta lagi hafa verið horft til þess að hún hafi auk diplomaprófs í [...]fræði [...], sem lá til grundvallar sérfræðingsleyfi hennar í [...], stundað doktorsnám í [...]fræði frá [...]-háskóla í [...] um fimm ára skeið og að hún reiknaði með því að ljúka því í janúar 2005 og voru þau áform staðfest með fyrirliggjandi vottorði frá skólanum. Athugasemdir af hálfu [A] um að hún hafi um menntun staðið framar [B] eru einkum byggðar á því að [A] hafi þegar ráðið var í stöðuna þegar lokið doktorsnámi [...] en [B] ekki. Ég ræð það af því hvernig menntun allra þriggja umsækjenda um stöðuna var metin til jafn margra stiga að það eitt að [A] hafði þegar lokið doktorsnámi sínu en hinir tveir umsækjendurnir voru sagðir í þann mund að ljúka því var ekki látið hafa afgerandi áhrif. Um þetta atriði tel ég að líta verði til þess að í umræddu tilviki var sá sem ræður í starfið að leggja mat á menntun umsækjenda með tilliti til þess hvernig hún nýttist þeim í viðkomandi starfi. Í því efni þarf ekki að vera einsýnt að það að hin formlega prófgráða liggi fyrir ráði úrslitum ef sá sem leggur mat á umsækjendur telur sig geta á grundvelli fyrirliggjandi gagna ráðið að viðkomandi hafi þegar öðlast þá menntun og þjálfun sem doktorsnámi er ætlað að veita. Aðstaðan kann að þessu leyti að vera önnur en þegar tilteknar prófgráður eru beinlínis gerðar að skilyrði fyrir t.d. stöðuveitingu eða mati til framgangs eða launa. Með þetta í huga tek ég fram að ég hef ekki forsendur til að fullyrða það, í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga, að slíkur munur hafi verið á [A] og [B] hvað varðar menntun með tilliti til eðlis starfsins að þessi þáttur einn og sér leiði til þeirrar ályktunar að á skorti að heildstætt mat veitingarvaldshafa hafi verið forsvaranlegt með tilliti til þess svigrúms sem játa verður þeim sem falið er að ráða í opinbert starf.

Þá fæ ég ekki séð að matið með tilliti til annarra málefnalegra sjónarmiða sem lögð voru til grundvallar við ráðningu í starfið hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum eða að óréttmætar ályktanir hafi verið dregnar af gögnum málsins um þætti á borð við reynslu nefndra umsækjenda af meðferðarsamstarfi við aðrar fagstéttir, reynslu af sjálfstæðum rannsóknarstörfum og leikni í samskiptum og samstarfi við aðrar fagstéttir. Ég legg á það áherslu að í þessu máli liggur fyrir að tekin voru viðtöl við umsækjendur og fyrirliggjandi eru skráðar upplýsingar um þau og samræmt mat þeirra sem þau framkvæmdu, bæði á umsóknum og viðtölunum, og samræmi þar á milli. Þótt ekki liggi fyrir hverjar þurftu að vera forsendur til þess að umsækjendur fengju ákveðin stig tel ég mig geta greint það af hinum fyrirliggjandi samantektum að þar kemur fram ákveðinn munur milli umsækjenda og atriði hjá einstökum umsækjendum sem aftur hafa áhrif við einkunnagjöfina. Það verður hins vegar að hafa í huga það sem áður sagði að ráðning í opinbert starf byggist á mati þess sem ræður í starfið á því hver úr hópi umsækjenda telst hæfastur til að gegna starfinu með tilliti til þeirra sjónarmiða sem hann ákveður að byggja á við ráðninguna þegar þau sjónarmið eru ekki lögákveðin. Einkunnagjöf af því tagi sem viðhöfð var í þessu máli er í eðli sínu aðferð til að lýsa samanburði milli umsækjenda á þessum grundvelli. Það er ljóst að í þessu tilviki var við mat á hæfni umsækjenda horft til ákveðinna atriða og t.d. er ljóst að virkni þeirra í rannsóknum hafði þýðingu rétt eins og auglýsingin bar með sér. Loks tek ég fram að bæði [A] og [B] sendu inn ítarlegar umsóknir studdar fjölda fylgigagna um menntun þeirra, starfsreynslu og rannsóknir. Þá fengu þær báðar tækifæri á að koma að frekari upplýsingum og sjónarmiðum í umræddum viðtölum. Með þetta í huga og að virtum gögnum málsins tel ég að nægar upplýsingar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hafi legið fyrir um framangreinda þætti hjá þeim báðum til að hægt væri að taka ákvörðun í málinu. Ég tel mig því ekki geta fullyrt á grundvelli þeirra upplýsinga og gagna sem lögð hafa verið fyrir mig að á hafi skort að málið hafi verið undirbúið með þeim hætti að samrýmdist jafnræðisreglu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.

Í bréfi yðar til mín, dags. [...], takið þér fram að það sé gagnrýnisvert að [A] hafi ekki verið gefinn kostur á að koma að andmælum og leiðréttingum við nefnda samantekt, dags. [...], sem rituð var í tilefni af viðtölum við hana, þar sem umsókn hennar var eins og fyrr greinir lýst eins og umsóknum annarra umsækjenda. Af þessu tilefni tek ég fram að samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga þarf stjórnvald almennt ekki að gefa aðila máls, s.s. umsækjanda um opinbert starf, sérstakan kost á að koma að frekari sjónarmiðum sínum en fram koma eðli máls samkvæmt í umsókn og fylgigögnum nema aflað sé nýrra upplýsinga sem eru umsækjanda í óhag. Í umræddum samantektarblöðum var eins og fyrr greinir lýst þeim spurningum og svörum sem fram komu í viðtölum við umsækjendur auk þess sem þar var að finna samantekt um menntun, starfsreynslu, fyrri störf o.s.frv. hjá hverjum umsækjenda eins og upplýsingar um þessi atriði birtust í umsóknargögnum. Í tilviki [A] er á einum stað í samantekt um hana vísað til þess að tiltekið atriði hafi vakið athygli þegar haft var samband við fyrrverandi yfirmenn hennar. Ekki kemur fram hvar þessir fyrrverandi yfirmenn störfuðu með [A] en hér ber að taka fram að lengst af starfaði [A] innan þeirra spítala sem síðar urðu Landspítali–háskólasjúkrahús. Það er því ljóst að innan stofnunarinnar var til staðar reynsla yfirmanna af samstarfi og stjórnun [A] í starfi. Það eitt að slíkar upplýsingar sem eru til staðar innan stofnunar séu dregnar saman og gerðar tiltækar við ákvörðun um ráðningu þarf ekki sjálfkrafa að leiða til þess að andmælaréttur viðkomandi umsækjanda verði virkur heldur þarf að leggja mat á það hvort um er að ræða atriði sem gera andmælaréttinn virkan, sbr. þau skilyrði sem fram koma í 13. gr. stjórnsýslulaga. Það er ljóst af samantekt um viðtalið við [A] að þar var meðal annars rætt um fyrri störf hennar og samskipti við fyrrverandi yfirmenn á spítalanum. Þótt [A] telji að þau ummæli séu ekki að öllu leyti rétt eftir henni höfð fæ ég ekki séð að það eitt að vísað sé til umræddra atriða sem komið hafi fram þegar rætt var við fyrrverandi yfirmenn hennar feli í sér að fram hafi verið komnar nýjar upplýsingar í merkingu 13. gr. stjórnsýslulaga umfram það sem áður hafði verið rætt í viðtali við hana.

Ég tek það líka fram að enda þótt í skjali af þessu tagi kunni að finnast hugleiðingar starfsmanns um umsækanda og mat hans á því hvernig hann fullnægir efniskröfum viðkomandi starfs verður að jafnaði ekki litið svo á að um sé að ræða nýjar upplýsingar í merkingu 13. gr. stjórnsýslulaga sem leiði til þess að stjórnvaldi sé skylt að bera slíkt skjal undir umsækjanda um opinbert starf. Þá minni ég á að umsækjandi um opinbert starf, eins og aðrir aðilar máls, eiga almennt ekki rétt til aðgangs að vinnuskjölum sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota, sbr. fyrri málsl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga, án þess að hér sé tekin endanleg afstaða til þess, í ljósi þess hvernig kvörtun yðar er úr garði gerð, hvort fyrirliggjandi samantektir um umsækjendur, dags. [...], falli undir það hugtak.

2.

Kvörtun yðar beinist í þriðja lagi að því að rökstuðningur sá er Landspítali-háskólasjúkrahús veitti [A] í tilefni af framangreindri ákvörðun hafi ekki fullnægt kröfum stjórnsýsluréttar. Um þetta er nánar vísað til þess í kvörtunarbréfi yðar að [A] hafi með bréfi, dags. [...], óskað sérstaklega eftir því að í rökstuðningi sjúkrahússins kæmi fram „að hvaða leyti sú sem starfið hlaut stæði framar [henni] með ítarlegum samanburði á hæfni aðila, bæði almennt og sértækt“. Í rökstuðningi Landspítala-háskólasjúkrahúss, dags. [...], séu hins vegar aðeins raktir kostir [B], sem ráðin var, án þess að hæfni hennar sé borin saman við hæfni [A] og öðrum fyrirspurnum svarað.

Ég skil þennan þátt kvörtunar yðar svo að haldið sé fram að rökstuðningur sá um ráðninguna sem fram kemur í bréfi [forstöðumanns] og sviðsstjóra [...], dags. [...], hafi ekki fullnægt kröfum um efni rökstuðnings sem fram koma í 22. gr. stjórnsýslulaga. Þar segir í 1. mgr. að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á og að því marki sem ákvörðun byggist á mati skuli þar greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Í 2. mgr. ákvæðisins er til viðbótar tekið fram að þar sem ástæða er til skuli í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Við mat á hvort gætt hafi verið að kröfum um efni rökstuðnings þarf að hafa fyrst og fremst í huga að rökstuðningur stjórnvalds fyrir ákvörðun á að meginstefnu til að vera stuttur en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á, sjá hér athugasemdir greinargerðar með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum (Alþt. 1992—1993, A-deild, bls. 3303.) Þá hef ég tekið fram í álitum mínum, sbr. álit mitt frá 6. júlí 2004 í máli nr. 3955/2003, að þegar ráðið er í opinbert starf er það jafnan gert að undangengnum samanburði á upplýsingum um umsækjendur út frá tilteknum forsendum. Til að umsækjandi geti skilið hvers vegna annar var valinn til að gegna starfinu verður almennt að ætla að í rökstuðningi þurfi að lýsa þeim meginforsendum sem þýðingu höfðu við samanburðinn svo og þeim upplýsingum sem gera má ráð fyrir að viðkomandi sé ekki kunnugt um og skiptu verulegu máli við samanburðinn. Hins vegar verður ekki á grundvelli 22. gr. stjórnsýslulaga krafist frekari rökstuðnings af hálfu stjórnvaldsins sem ræður í starf en að það geri viðhlítandi grein fyrir þeim ástæðum sem réðu því að starfið var veitt þeim sem það hlaut.

Í bréfi Landspítala-háskólasjúkrahúss, dags. [..], til yðar fyrir hönd [A] er í fyrsta lagi fjallað um efni auglýsingar þeirrar um starfið er birtist á Starfatorgi í [...]. Þá er vikið að menntun, starfsreynslu og rannsóknum [B] og fæ ég ekki annað séð en að leitast sé við að bera þessi atriði hjá henni að nokkru leyti saman við þessi atriði hjá [A]. Eins og fyrr er rakið var Landspítala-háskólasjúkrahúsi ekki skylt að lögum að haga rökstuðningi sínum með þeim hætti og er því þarna ritaður rökstuðningur sem er umfram lagakröfur. Þá eru í framhaldinu dregnar saman með glöggum hætti upplýsingar um menntun, störf, félags- og trúnaðarstörf [B] og um greinar sem hún hefur birt og um styrki sem hún hefur hlotið til rannsókna.

Með framangreint í huga, og að teknu tilliti til ofangreindra lagasjónarmiða um kröfur til efnis rökstuðnings samkvæmt 22. gr. stjórnsýslulaga, tel ég ekki forsendur til að gera athugasemdir við bréf Landspítala-háskólasjúkrahúss, dags. [...], til yðar.

3.

Í kvörtun yðar er í fjórða lagi haldið fram að vanhæfur starfsmaður Landspítala-háskólasjúkrahúss hafi komið að meðferð málsins, sbr. 5. og 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Þetta atriði er nánar rökstutt í kvörtunarbréfi yðar og í bréfi yðar til stjórnar Landspítala-háskólasjúkrahúss, dags. [...]. Haldið er fram að [C], [forstöðumaður], hafi verið vanhæfur til að koma að ráðningarmálinu þar sem að hann hafi um árabil starfað og rekið [Z]stofuna ehf., í Reykjavík með þeim umsækjanda sem ráðinn var í starfið, sbr. yfirlit úr hlutafélagaskrá og ljósrit úr símaskrá. Þá er því haldið fram að [C] hafi áður sýnt í verki ómálefnalega afstöðu gagnvart [A] og er þar vísað til fyrri kvörtunar [A] til umboðsmanns Alþingis frá árinu 1995 og bréfaskipti hennar [...] við forstjóra Landspítala-háskólasjúkrahúss, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, [C] og sviðstjóra lækninga á [...]sviði spítalans, fjölda yfirmanna spítalans og formanns heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis. Í bréfi [A], dags. [...], til forstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss er því meðal annars haldið fram að [C] hafi viðhaft ummæli um samstarfsörðugleika [A] við yfirlækni [...]deildar sem [A] telur ekki eiga við rök að styðjast. Þá beinast bréfaskiptin meðal annars að orðalagi í auglýsingu um stöðu [sérfræðings] við [...]svið spítalans sem birtist í Morgunblaðinu [...] 2002 en við hana gerði [A] verulegar athugasemdir, einkum varðandi lýsingu á menntunarkröfum. Svarar [C] bréfi hennar vegna þessa, dags. [...] 2002, með bréfi, dags. [...] s.á.

Samkvæmt ákvæði fyrsta málsliðar 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, sbr. upphafsmálslið sömu málsgreinar, telst starfsmaður vanhæfur til meðferðar máls ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta, venslamenn hans skv. 2. tölul. eða sjálfseignarstofnun eða fyrirtæki í einkaeigu sem hann er í fyrirsvari fyrir. Í gögnum málsins er að finna ársreikning [Z] stofunnar ehf., [...], Reykjavík, dags. [...] 2005, þar sem fram kemur að eignarhlutur [C] í félaginu hafi þá verið 25%. Hvorki þar né í afriti af hlutafélagaskrá þeirri sem þér senduð með kvörtun yðar kemur fram að [B] eigi þar nokkurn eignarhlut eða hafi verið þátttakandi í stjórn félagsins. Ég fæ ekki séð að þótt sú, sem ráðin var í umrætt starf, hafi í tengslum við eigin rekstur leigt starfsaðstöðu hjá umræddu einkahlutafélagi geri sú aðstaða ein og sér það að verkum að [C] hafi verið vanhæfur til meðferðar ráðningarmálsins á grundvelli 5. eða 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga en í síðarnefnda ákvæðinu er gert ráð fyrir að starfsmaður sé vanhæfur ef að öðru leyti séu fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Þá tek ég fram að af gögnum málsins verður ekki ráðið að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem veiti nægar vísbendingar um að óvild af því tagi sem kann að vera grundvöllur ályktunar um vanhæfi starfsmanns í merkingu 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga hafi verið til staðar af hendi [C] gagnvart [A]. Ég tel mig því ekki geta fullyrt að aðkoma [C] að því nefndarstarfi sem var til umfjöllunar í tengslum við kvörtun [A] til umboðsmanns Alþingis á árinu 1995 eða bréfaskipti þeirra í millum á árinu 2002 séu þess eðlis að framangreind ákvæði 3. gr. stjórnsýslulaga hafi girt fyrir þátttöku [C] í meðferð þess máls sem kvörtun yðar beinist að.

Með hliðsjón af framangreindu og þeim sjónarmiðum sem ég hef rakið hér að framan er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.“