Almannatryggingar. Tryggingastofnun ríkisins. Málshraði.

(Mál nr. 4647/2006)

A kvartaði yfir því að hafa ekki fengið viðbrögð frá Tryggingastofnun ríkisins við andmælum sínum við endurreikningi bóta ársins 2004 en þau höfðu borist stofnuninni í desember 2005. Í svari tryggingastofnunar, dags. 16. febrúar 2006, við fyrirspurnarbréfi umboðsmanns, dags. 10. sama mánaðar, kom fram að stofnuninni hefðu borist liðlega 1000 andmæli vegna endurreiknings bóta ársins 2004 og væri erindi A þeirra á meðal. Vegna manneklu og rekstrarfjárskorts væri hins vegar fyrirséð að allt að 6—8 mánuðir gætu liðið þar til unnt yrði að svara þessum erindum. Umboðsmaður ritaði tryggingastofnun á ný bréf, dags. 20. febrúar 2006, þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um hvort áform væru uppi hjá stofnuninni að senda A og öðrum í sömu stöðu tilkynningar í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kæmi hverjar væru ástæður tafa á afgreiðslu erinda þeirra og hvenær ákvörðunar væri að vænta. Í svarbréfi tryggingastofnunar sem barst umboðsmanni 2. mars kom fram að stofnunin hefði ákveðið að senda A og öðrum lífeyrisþegum, sem sent hefðu inn hliðstæð andmæli við endurreikningi bóta ársins 2004, bréf þessa efnis.

Umboðsmaður ákvað að vekja athygli heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á málinu og þeirri stöðu sem uppi væri hjá Tryggingastofnun ríkisins varðandi afgreiðslutíma erinda.

Ég lauk athugun minni á kvörtun A með bréfi til hans, dags. 13. mars 2006. Þar sagði eftirfarandi:

„I.

Ég vísa til erindis yðar sem barst mér 2. febrúar sl. þar sem þér kvartið yfir að þér hafið ekki fengið viðbrögð við kærubréfi sem þér senduð úrskurðarnefnd almannatrygginga 3. desember sl., en úrskurðarnefndin áframsendi Tryggingastofnun ríkisins 7. sama mánaðar. Kæra yðar varðar útreikning á bótagreiðslum lífeyristrygginga einkum endurreikning og uppgjör bótagreiðslna ársins 2004 sem yður var kynnt með bréfi tryggingastofnunar, dags. 21. nóvember 2005. Í bréfinu var yður gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum yðar við útreikning og forsendur endurreikningsins og skyldu athugasemdir sendar fyrir 12. desember sl. Af bréfinu má ráða að fyrirhugað hafi verið að taka endanlega ákvörðun um uppgjör bóta ársins 2004 að fengnum athugasemdum yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar til mín ritaði ég tryggingastofnun bréf, dags. 10. febrúar 2006, þar sem ég kynnti stofnuninni kvörtun yðar og óskaði eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að mér yrðu veittar upplýsingar um hvað liði svörum við erindi yðar. Mér barst svarbréf tryggingastofnunar 16. febrúar sl. og er það undirritað af forstjóra stofnunarinnar. Kemur þar fram að tryggingastofnun hafi borist liðlega 1000 andmæli við endurreikningi bóta ársins 2004 og að erindi yðar sé meðal þeirra. Vinna við að skoða þessi andmæli sé aðeins á frumstigi og orsakist það bæði af manneklu og rekstrarfjárskorti stofnunarinnar svo og því að aðlaga hafi þurft tölvukerfi til að þessi vinna gæti gengið auðveldar og hraðar fyrir sig. Segir jafnframt að miðað við verkefnastöðu gætu liðið allt að 6—8 mánuðir þar til unnt verði að svara andmælum sem borist hafi. Vegna þessarar stöðu sé ekki fyrirséð hvenær afgreiðslu erindis yðar muni ljúka en stefnt sé að því að taka innsend erindi fyrir í þeirri tímaröð sem þau bárust. Þá segir í bréfi tryggingastofnunar að því miður verði að telja líklegt að einhverra vikna og jafnvel mánaða bið verði á að þér fáið niðurstöðu í máli yðar.

Ég ritaði forstjóra tryggingastofnunar á ný bréf, dags. 20. febrúar sl. Þar rakti ég bréfaskipti mín við stofnunina og vék því næst að ákvæði 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því ákvæði felst að þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast beri að skýra aðila máls frá því. Skuli þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Í bréfi mínu tók ég fram að ljóst virtist vera að tryggingastofnun hefði ekki upplýst yður eða aðra þá sem sent hefðu inn hliðstæð andmæli um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu erinda þeirra og hvenær þeir megi vænta svars. Með tilliti til þessa óskaði ég eftir upplýsingum um hvort áform væru uppi um að senda yður og öðrum í sömu stöðu tilkynningar í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Yrðu slíkar tilkynningar sendar eða hefði það verið gert óskaði ég eftir afriti af tilkynningu til yðar og sýnishorni vegna annarra tilkynninga.

Mér barst svar tryggingastofnunar 2. mars sl. Segir þar að með hliðsjón af 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga hafi Tryggingastofnun ríkisins ákveðið að senda yður og öðrum lífeyrisþegum, sem sent hafi inn hliðstæð andmæli við endurreikningi bóta ársins 2004, bréf þar sem fram komi að fyrirsjáanlegar séu tafir á afgreiðslu erinda þeirra og hvenær svars megi vænta. Fylgdi bréfi tryggingastofnunar afrit af bréfi til yðar, dags. 1. mars sl., þessa efnis. Í bréfinu til yðar er jafnframt tekið fram að innheimtu á kröfu sem myndaðist við endurreikning bóta ársins 2004 sé frestað á meðan andmæli yðar séu óafgreidd. Þá er vakin athygli á að samkvæmt 4. mgr. 9. gr. sé heimilt að kæra til æðra stjórnvalds ef afgreiðsla máls dregst óhæfilega. Skuli þá beina kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

II.

Kvörtun yðar til mín beindist að því að þér hefðuð ekki fengið viðbrögð við erindi yðar sem úrskurðarnefnd almannatrygginga framsendi tryggingastofnun 7. desember sl. Laut það að útreikningi á bótagreiðslum lífeyristrygginga einkum endurreikningi bóta ársins 2004. Í svörum tryggingastofnunar við fyrirspurnarbréfum mínum hefur komið fram að mál yðar er nú til meðferðar hjá stofnuninni og hafa yður verið veittar upplýsingar um stöðu þess og hvenær afgreiðslu þess sé að vænta. Með hliðsjón af þessu tel ég ekki grundvöll fyrir frekari afskiptum mínum af máli yðar að svo stöddu. Ég tek þó fram að kvörtun yðar og þær upplýsingar sem fram hafa komið í bréfum tryggingastofnunar vegna hennar hafa gefið mér tilefni til að rita heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu bréf það sem hér fylgir í ljósriti.

Í bréfi mínu til yðar, dags. 22. nóvember 2005, í tilefni af fyrri kvörtun yðar til mín, greindi ég yður frá því að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem hefur á hendi stjórnsýslu kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Af því leiðir að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir tiltekin ákvörðun eða athöfn stjórnvalds í máli þess sem kvörtun ber fram. Samkvæmt lögum nr. 85/1997 er það jafnframt skilyrði fyrir því að umboðsmaður geti tekið kvörtun til meðferðar að málinu hafi verið skotið til æðra stjórnvalds, sé um kæruleið að ræða, og að æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í því. Eins og fram er komið er mál yðar nú til meðferðar hjá Tryggingastofnun ríkisins. Að fenginni niðurstöðu stofnunarinnar eigið þér þess kost að skjóta málinu til úrskurðarnefndar almannatrygginga séuð þér ekki sáttir við niðurstöðu tryggingastofnunar. Ef þér kjósið að fara þá leið er yður þá jafnframt heimilt að leita til mín að nýju þegar úrskurðarnefndin hefur fellt úrskurð sinn í málinu.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-liður 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.“

Bréf mitt til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, dags. 13. mars 2006, var svohljóðandi:

„I.

Nýverið barst mér kvörtun frá einstaklingi yfir því að hann hefði ekki fengið viðbrögð frá Tryggingastofnun ríkisins við andmælum sínum við endurreikningi bóta ársins 2004. Í tilefni af kvörtun þessari beindi ég fyrirspurn til tryggingastofnunar, dags. 10. febrúar sl., um stöðu máls þessa einstaklings og óskaði eftir upplýsingum um hvenær svara við erindi hans væri að vænta. Mér barst svarbréf tryggingastofnunar 16. febrúar sl. og er það undirritað af forstjóra stofnunarinnar. Kemur þar fram að tryggingastofnun hafi borist liðlega 1000 andmæli við endurreikningi bóta ársins 2004 og að erindi þess einstaklings sem til mín leitaði sé meðal þeirra. Segir jafnframt að vinna við að skoða þessi andmæli sé aðeins á frumstigi og orsakist það bæði af manneklu og rekstrarfjárskorti stofnunarinnar svo og því að aðlaga hafi þurft tölvukerfi til að þessi vinna gæti gengið auðveldar og hraðar fyrir sig. Tekið er fram að miðað við verkefnastöðu gætu liðið allt að 6—8 mánuðir þar til unnt verði að svara andmælum sem borist hafi. Þá segir eftirfarandi í bréfi tryggingastofnunar:

„Tryggingastofnun hefur ítrekað gert viðkomandi ráðuneyti grein fyrir stöðu mála, óskað leyfis til að ráð fleira fólk til að vinna málin, án árangurs. Ekki hefur andmælendum verið gerð grein fyrir þessu enn vegna vonar um að úrbætur fáist. Það er dapurt að starfa við þessar aðstæður, en vissulega verra fyrir okkar skjólstæðinga.“

Í bréfinu gerð grein fyrir því að vegna þessarar stöðu sé ekki fyrirséð hvenær afgreiðslu erindis þess einstaklings sem fyrirspurn mín varðaði muni ljúka en stefnt sé að því að taka innsend erindi fyrir í þeirri tímaröð sem þau bárust. Segir jafnframt að því miður verði að telja líklegt að einhverra vikna og jafnvel mánaða bið verði á að niðurstaða fáist í máli hans.

II.

Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Í reglunni felst að aldrei megi vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Í athugasemdum við þessa grein í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að reglan um málshraða er byggð á óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar sem hafi víðtækara gildissvið en umrætt lagaákvæði (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3292). Með hliðsjón af þessari meginreglu er talið að stjórnvöldum sé almennt skylt hvort sem um er að ræða ákvarðanir sem stjórnsýslulögin gilda um, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna eða framkvæmd stjórnsýslunnar almennt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er.

Samkvæmt B-lið 7. gr. reglugerðar nr. 3/2004, um Stjórnarráð Íslands, fer heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið með mál er varða almannatryggingar og félagslega aðstoð. Tryggingastofnun ríkisins lýtur þar af leiðandi yfirstjórn ráðuneytis yðar. Í bréfi forstjóra tryggingastofnunar sem vísað er til hér að framan kemur fram að hann hafi ítrekað gert ráðuneyti yðar grein fyrir þeirri stöðu sem upp er komin hjá stofnuninni. Hafi stofnunin óskað leyfis til að ráða fleira fólk til að vinna málin en ráðuneytið hafi ekki orðið við þeim óskum. Af þessum sökum sé verkefnastaða stofnunarinnar nú sú að tekið geti 6—8 mánuði að afgreiða erindi sem henni berast. Í þessu sambandi tel ég rétt að minna á að sá málaflokkur sem Tryggingastofnun ríkisins fer með varðar mikilverða hagsmuni þeirra einstaklinga sem í hlut eiga og standa skjólstæðingar stofnunarinnar margir hverjir höllum fæti í samfélaginu. Þessir einstaklingar eiga því mikið undir því að erindum þeirra sé sinnt innan eðlilegra tímamarka.

Ég tel ástæðu til að vekja athygli yðar, fr. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, á þessari stöðu mála hjá undirstofnun ráðuneytis yðar, Tryggingastofnun ríkisins.“