Námslán og námsstyrkir. Kæra berst að liðnum kærufresti. Rannsóknarregla. Valdframsal. Stjórnsýslunefndir.

(Mál nr. 4521/2005)

A kvartaði yfir afgreiðslu málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna á erindi hans en í því fólst kæra á úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna í máli hans. Málskotsnefndin hafði vísað erindi A frá þar sem þriggja mánaða kærufrestur væri liðinn. Taldi A að af hálfu lánasjóðsins hefði sér ekki verið leiðbeint um kærufrest til málskotsnefndarinnar.

Umboðsmaður rakti ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglu hennar um að vísa skuli kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti nema þær ástæður sem tilgreindar eru í 1. mgr. greinarinnar eigi við. Tók hann fram að ákvæði 28. gr. áskilji að stjórnvald á kærustigi leggi á það mat, þegar kæra berst að liðnum kærufresti, hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka hana til efnislegrar meðferðar. Stjórnvaldið verði því að leggja fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni um þau matskenndu atriði sem ákvæðið fjallar um með gagnaöflun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu stjórnvalda. Umboðsmaður benti á að í máli A hefði málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna ekki óskað eftir gögnum frá lánasjóðnum eins og venja væri í kærumálum þar sem kærufrestur hefði verið liðinn. Þannig hefði nefndin ekki getað tekið afstöðu til þess hvort sú aðstaða sem lýst væri í 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga væri fyrir hendi þannig að henni væri rétt að víkja frá þriggja mánaða kærufresti samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Því hefði málsmeðferð nefndarinnar ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og áskilnað um sjálfstætt mat stjórnvalds á kærustigi á því hvort skilyrði séu til að taka kæru til meðferðar að liðnum kærufresti sem fram kemur í 1. mgr. 28. gr. laganna.

Umboðsmaður vék að því að ritara málskotsnefndarinnar hefði verið falið að rita A bréf og tilkynna honum um niðurstöðu nefndarinnar. Rakti umboðsmaður efni 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga um birtingu ákvörðunar og tók fram að skyldan til að tilkynna ákvörðun hvíli á því stjórnvaldi sem hana hefur tekið. Tók hann fram að hvorki í lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, né í öðrum lögum væri kveðið á um heimild málskotsnefndar lánasjóðsins til framsals valds til birtingar stjórnvaldsákvarðana til ritara. Umboðsmaður tók fram að stjórnsýslunefnd kynni að vera heimilt, án sérstakrar lagaheimildar, að fela starfsmanni nefndarinnar að sjá um birtingu ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Taldi umboðsmaður þó að í slíkri tilkynningu þyrftu að koma fram rök nefndarinnar fyrir niðurstöðu sinni og hvaða nefndarmenn hefðu staðið að ákvörðun. Var það niðurstaða umboðsmanns að hvað sem liði heimild málskotsnefndarinnar til að fela ritara að birta A ákvörðunina hefði nefndin ekki séð til þess með fullnægjandi hætti að málsmeðferð ritara uppfyllti þær kröfur um efni slíkrar tilkynningar sem áskilja yrði þegar ritara stjórnsýslunefndar væri falið þetta verkefni.

Umboðsmaður vakti athygli á að komið hefði fram að mál A hefði ekki verið tekið fyrir á formlegum fundi málskotsnefndar. Hefðu nefndarmenn þó rætt kæru A í síma eftir að þeir hefðu kynnt sér gögn málsins og hefði niðurstaðan orðið sú að vísa skyldi málinu frá. Benti umboðsmaður á að málskotsnefndin hefði þannig ekki haldið því fram að ákvörðun hennar um frávísunina hefði verið tekin á fundi í skilningi 33. gr. og 1. mgr. 34. gr. stjórnsýslulaga og að þannig hefði verið gætt þeirra formskilyrða sem samkvæmt þeim skal fullnægt við ákvörðunartöku stjórnsýslunefndar. Án þess að umboðsmaður tæki til þess afstöðu hvað teldist „fundur“ í merkingu VIII. kafla stjórnsýslulaga beindi hann þeim tilmælum til málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna að betur yrði hugað að því í starfi hennar að uppfylla þær kröfur sem leiða af ákvæðum nefnds kafla stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna að hún tæki mál A fyrir að nýju, kæmi beiðni þar um frá honum, og hagaði þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

I. Kvörtun.

Hinn 7. september 2005 leitaði A til mín og kvartaði yfir afgreiðslu málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 3. maí 2005, á erindi hans, dags. 25. apríl sama ár, en í því fólst kæra á úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna í máli hans. Málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna vísaði erindi A frá nefndinni þar sem þriggja mánaða kærufrestur á úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna væri liðinn. Í samtali A við starfsmann minn kom m.a. fram að A teldi að af hálfu lánasjóðsins hafi sér ekki verið leiðbeint um kærufrest til málskotsnefndarinnar.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 24. mars 2006.

II. Málsatvik.

Málsatvik eru þau að Lánasjóður íslenskra námsmanna áætlaði A laun fyrir árið 2003 þrátt fyrir að hann hefði verið tekjulaus það ár. Óskaði A eftir því við lánasjóðinn að við útreikning tekjutengdrar afborgunar hans yrði miðað við innsent skattframtal þar sem fram kom að hann hefði engar tekjur haft árið 2003. Var ósk A um að miðað yrði við íslenskt skattframtal hans hafnað 19. október 2004 þar sem gengið var út frá að hann hefði dvalið í Bandaríkjunum og var óskað eftir upplýsingum um tekjur eða tekjuleysi hans þar. A upplýsti hins vegar að hann væri búsettur í Reykjavík og ætti þar lögheimili en eiginkona sín væri hins vegar í doktorsnámi í Bandaríkjunum. Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna úrskurðaði í máli A 13. desember 2004.

Með bréfi, dags. 25. apríl 2005, óskaði A eftir því að málskotsnefnd LÍN tæki mál hans fyrir. Var kæru hans vísað frá með bréfi, dags. 3. maí 2005, en þar sagði:

„Lánasjóður íslenskra námsmanna úrskurðaði í máli þínu þann 13. desember 2004. Kærufrestur á úrskurði LÍN til Málskotsnefndar LÍN eru þrír mánuðir sem nú eru liðnir. Því er kæru þinni hér með vísað frá og gögn þín endursend.“

Undir bréfið skrifaði ritari nefndarinnar fyrir hönd málskotsnefndar LÍN.

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna bréf, dags. 15. september 2005, þar sem ég óskaði eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að nefndin léti mér í té öll gögn málsins og bárust þau mér með bréfi, dags. 11. október 2005. Gögn þau er fylgdu bréfinu voru afrit af erindi A, dags. 25. apríl 2005, annars vegar, og afrit af frávísunarbréfi málskotsnefndarinnar, dags. 3. maí 2005, hins vegar. Í framhaldinu sendi ég málskotsnefndinni annað bréf, dags. 18. október 2005, þar sem ég óskaði eftir því að málskotsnefndin léti mér í té ljósrit af fundargerð nefndarinnar þar sem fjallað var um afgreiðslu hennar á erindi A. Ennfremur óskaði ég eftir því að mér yrðu send afrit af þeim gögnum sem legið hefðu til grundvallar afgreiðslu nefndarinnar á umræddri kæru A. Svar barst mér með bréfi, dags. 24. október 2005, undirrituðu af ritara nefndarinnar þar sem segir meðal annars:

„Þar sem kærufrestur var liðinn þegar kæra [A] barst málskotsnefndinni var hún endursend án þess að mál hans yrði tekið fyrir hjá nefndinni. Þar af leiðandi er engin fundargerð til vegna málsins. Ekki var óskað eftir gögnum frá LÍN eins og venja er í kærumálum, þar sem eins og áður hefur komið fram, kærufrestur var liðinn.“

Svar þetta varð mér tilefni til að rita nefndinni bréf á nýjan leik, dags. 26. október 2005. Í bréfinu rakti ég efni kvörtunar A og benti m.a. á að A teldi að af hálfu lánasjóðsins hefði sér ekki verið leiðbeint um kærufrest til málskotsnefndar. Tók ég fram að gögn um afgreiðslu sjóðsins á máli hans hefðu ekki fylgt kvörtun hans til mín. Hins vegar hefði A lagt fram afrit af tölvubréfi sínu til starfsmanns lánasjóðsins, dags. 21. febrúar 2005, þar sem hann óskar eftir staðfestingu á því „að [starfsmaðurinn] hafi meðtekið beiðni [hans] um að mál [hans] verði tekið fyrir á næsta fundi málskotsnefndar LÍN“. Í tölvubréfi sínu óski A jafnframt eftir upplýsingum um hvenær sá fundur verði haldinn og hvernig hann geti komið gögnum sem málið varði í réttar hendur. Í svari starfsmannsins, dags. 22. sama mánaðar, segi að hann hafi ekkert fengið frá A utan fyrrnefnt tölvubréf en vilji A kæra til málskotsnefndar skuli hann senda bréf á póstfang hennar sem gefið er upp í tölvubréfinu. Þá segi að starfsmaðurinn hafi enga hugmynd um fundartíma nefndarinnar.

Í fyrirspurnarbréfi mínu til málskotsnefndar rakti ég jafnframt bréfaskipti mín við málskotsnefndina. Þá fjallaði ég um ákvæði 5. gr. a laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sbr. 3. gr. laga nr. 67/1997, þar sem kveðið er á um skipun og hlutverk málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Í bréfi mínu vék ég ennfremur að ákvæði 1. mgr. 27. gr. og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem fjallað er um kærufrest til æðra stjórnvalds og um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Þessu næst sagði í bréfi mínu eftirfarandi:

„Erindi [A] til málskotsnefndar er dagsett 25. apríl 2005. Er þar farið fram á að nefndin „[taki] fyrir tekjuáætlun LÍN á [A] fyrir árið 2003 og skuld við sjóðinn tengda þeirri áætlun að upphæð [...] kr.“. Í erindinu er ekki með skýrum hætti getið um afgreiðslu stjórnar sjóðsins á máli hans né hvenær úrskurður hennar var kveðinn upp. Með bréfi málskotsnefndar til [A], dags. 3. maí 2005, var honum tilkynnt um frávísun kærunnar og kemur þar fram að Lánasjóður íslenskra námsmanna hafi úrskurðað í máli hans 13. desember 2004. Eins og áður er getið er bréfið undirritað af ritara nefndarinnar. Samkvæmt skýringum nefndarinnar til mín, dags. 24. október sl., kom erindi [A] ekki til afgreiðslu hennar og má af þessu ráða að ritari nefndarinnar hafi tekið ákvörðun um frávísun kærunnar án aðkomu nefndarinnar sjálfrar. Ég tel í þessu sambandi rétt að benda á að um hliðstæð álitaefni er fjallað í áliti mínu frá 3. apríl 2001 í máli nr. 2813/1999.

Með hliðsjón af framangreindu óska ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að málskotsnefndin lýsi afstöðu sinni til þess hvort henni sé heimilt að lögum að framselja til ritara ákvörðunarvald um hvort erindi komi til afgreiðslu nefndarinnar. Telji nefndin að slíkt valdframsal sé heimilt óska ég eftir að hún skýri á hvaða lagagrundvelli sú afstaða byggist. Sé það hins vegar afstaða málskotsnefndar að ritari nefndarinnar hafi ekki verið bær til að taka ákvörðun um frávísun kæru [A] og kjósi nefndin af þeim sökum að fara þá leið að taka erindi hans til afgreiðslu tel ég fullnægjandi að nefndin sendi mér tilkynningu þar um.“

Svar barst mér frá málskotsnefndinni, með bréfi, dags. 21. nóvember 2005, en þar sagði meðal annars:

„Eins og fram kom í bréfi málskotsnefndar dags. 24. október sl. var mál [A] ekki tekið fyrir á formlegum fundi málskotsnefndar og því var ekki hægt að afhenda ljósrit fundargerðar eins og þér höfðuð óskað í bréfi dags. 18. október sl. Allt að einu ræddu nefndarmenn kæru [A] í síma eftir að þeir höfðu kynnt sér gögn málsins og var það niðurstaða nefndarinnar að vísa skyldi málinu frá nefndinni þar sem þriggja mánaða kærufrestur var liðinn. Að svo búnu var ritara málskotsnefndar falið að rita kæranda bréf það sem dagsett er 3. maí sl. Er því ljóst að ekki var um það að ræða að málskotsnefnd framseldi ákvörðunarvald sitt í hendur ritara nefndarinnar heldur fól honum bréfritun þegar nefndin hafði tekið ákvörðun í málinu og augljóst var að kæran var ekki meðferðarhæf vegna ákvæða stjórnsýslulaga um kærufrest.

Það [vekur] furðu nefndarinnar að þau gögn sem yður hafa verið send um málið hafi gefið yður tilefni til að ætla að nefndin telji sér heimilt að framselja ákvörðunarvald sitt til starfsmanns nefndarinnar. Þess ber að geta að umræddur starfsmaður sér um meginþorra bréfaskipta fyrir nefndina í hennar umboði að fengnum fyrirmælum frá nefndinni.“

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1.

Athugun mín á máli A hefur beinst að því hvernig staðið var að ákvörðunartöku í máli því er hann lagði fyrir málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna með bréfi, dags. 25. apríl 2005.

Málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna er fjölskipað stjórnvald en samkvæmt 1. mgr. 5. gr. a laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sbr. 3. gr. laga nr. 67/1997, skipar menntamálaráðherra málskotsnefnd þriggja manna og jafnmargra til vara. Skulu nefndarmenn vera lögfræðingar og skal formaður nefndarinnar og varamaður hans jafnframt fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar, sbr. og 1. og 2. gr. reglugerðar um starfsreglur málskotsnefndar nr. 79/1998, er það hlutverk nefndarinnar að skera úr um hvort úrskurðir stjórnar Lánasjóðsins séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Getur nefndin staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir stjórnar sjóðsins. Úrskurðir nefndarinnar skulu vera rökstuddir og verður þeim ekki skotið til annarra stjórnvalda. Afl atkvæða ræður niðurstöðu nefndarinnar. Í 4. mgr. 5. gr. a laga nr. 21/1992 og 7. gr. áðurnefndrar reglugerðar er kveðið á um að um málsmeðferð fari að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.

2.

Erindi A til málskotsnefndar er dagsett 25. apríl 2005. Er þar farið fram á að nefndin „[taki] fyrir tekjuáætlun LÍN á [A] fyrir árið 2003 og skuld við sjóðinn tengda þeirri áætlun að upphæð [...] kr.“. Í erindinu er ekki með skýrum hætti getið um afgreiðslu stjórnar sjóðsins á máli A né hvenær úrskurður hennar var kveðinn upp og afrit hans fylgdi ekki erindi A til málskotsnefndar. Með bréfi málskotsnefndar, dags. 3. maí 2005, var A tilkynnt um frávísun kærunnar og kemur þar fram að Lánasjóður íslenskra námsmanna hafi úrskurðað í máli hans 13. desember 2004.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga er kærufrestur til æðra stjórnvalds þrír mánuðir frá því aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Í 28. gr. laganna segir að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir meðal annars:

„Æðra stjórnvaldi ber, að eigin frumkvæði, að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests. Réttaráhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti eru þau að henni skal vísað frá.

Í 1. mgr. eru greindar tvær undantekningar frá þessari reglu. Í fyrsta lagi er undantekning gerð þegar afsakanlegt er að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. Sem dæmi um slík tilvik má nefna það að lægra stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi má taka mál til meðferðar, enda þótt kæra hafi borist að liðnum kærufresti, mæli veigamiklar ástæður með því, sbr. 2. tölul.

Við mat á því hvort framangreind skilyrði eru fyrir hendi þarf að líta til þess hvort aðilar að málinu eru fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo væri rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Ef aðili er aðeins einn yrði mál frekar tekið til meðferðar.“ (Alþt. 1992—1993, A-deild, bls. 3308.)

Í lögum nr. 21/1992 er ekki að finna sjálfstæð fyrirmæli um kærufrest til málskotsnefndarinnar. Um hann gildir því meginregla 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga um þriggja mánaða kærufrest. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga er meginreglan að vísa skuli kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti nema þær ástæður sem tilgreindar eru í 1. og 2. tölul. 1. mgr. greinarinnar eigi við. Sú þessara réttlætingarástæðna sem hér skiptir máli kemur fram í 1. tölul. ákvæðisins þar sem segir að taka megi kæru til meðferðar að liðnum kærufresti ef afsakanlegt verður talið að hún hafi ekki borist fyrr. Ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga áskilur að stjórnvald á kærustigi leggi á það mat þegar kæra berst að liðnum kærufresti hvort atvik séu samt sem áður með þeim hætti að rétt sé að taka kæruna til efnislegrar meðferðar. Stjórnvaldið verður því að leggja fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni um þau matskenndu atriði sem 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga fjallar um með gagnaöflun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu stjórnvalda. Í rannsóknarreglunni felst að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

Eins og fram kemur í tilvitnuðum athugasemdum greinargerðar að baki 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga getur undir undantekningarákvæði 1. tölul. fallið sú aðstaða þegar lægra sett stjórnvald hefur vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild. Vitneskja um þetta verður því byggð á gögnum frá lægra stjórnvaldinu og þá einkum þeim gögnum sem fela í sér birtingu ákvörðunar fyrir aðila máls. Að þessu virtu bar málskotsnefndinni, þegar kæra A barst henni, að afla gagna um það, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, hvort honum hefðu af hálfu stjórnar lánasjóðsins verið veittar kæruleiðbeiningar, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

Í kvörtun A til mín kemur fram að hann telji að sér hafi ekki verið leiðbeint um kæruheimild til málskotsnefndar í úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ég tek hér ekki afstöðu til þessarar fullyrðingar A enda hef ég ekki undir höndum þau gögn sem nauðsynleg eru til að leggja mat á þetta atriði. Ég bendi hins vegar á að í bréfi málskotsnefndarinnar til mín, dags. 24. október 2005, kemur fram að ekki hefði verið óskað eftir gögnum frá lánasjóðnum eins og venja væri í kærumálum þar sem kærufrestur var liðinn. Ekki kemur þó fram hvernig nefndin aflaði upplýsinga um það hvenær úrskurður stjórnar lánasjóðsins var kveðinn upp en eins og áður segir kom ekkert fram um það í erindi A til málskotsnefndar. Þar sem málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna óskaði ekki eftir gögnum frá stjórn lánasjóðsins áður en ákvörðun um frávísun var tekin gat nefndin ekki tekið afstöðu til þess hvort sú aðstaða sem lýst er í 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga væri fyrir hendi þannig að henni væri rétt að víkja frá þriggja mánaða kærufresti samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Málsmeðferð nefndarinnar var því ekki í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og áskilnað um sjálfstætt mat stjórnvalds á kærustigi um hvort skilyrði séu til að taka kæru til meðferðar að liðnum kærufresti sem fram kemur í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

3.

Eins og áður segir var ritara málskotsnefndar falið að rita A bréf og tilkynna honum um niðurstöðu nefndarinnar. Í 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga segir að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skuli hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að skyldan til að tilkynna ákvörðun hvíli á því stjórnvaldi sem hana hefur tekið (Alþt. 1992—1993, A-deild, bls. 3300).

Hvorki er í lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992 né í öðrum lögum kveðið á um heimild málskotsnefndar til framsals valds til birtingar stjórnvaldsákvarðana til ritara. Ég hef áður í álitum lýst því viðhorfi mínu að takmarkanir séu á því að unnt sé að fela ritara nefndar að tilkynna aðila máls um afgreiðslu á máli sem borið hefur verið undir nefndina. Vísa ég um þetta efni til hliðsjónar til álita minna í málum nr. 2813/1999 frá 3. apríl 2001, nr. 3427/2002 frá 17. október 2002 og nr. 3588/2002 frá 31. mars 2003.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 79/1998 segir að málskotsnefnd hafi heimild til, að fengnu samþykki menntamálaráðherra, að ráða nefndinni starfslið eða að fela sjálfstætt starfandi aðila að sjá um skrifstofuhald fyrir nefndina. Ekki er þar nánar kveðið á um ritara málskotsnefndar eða starf hans að þessu leyti.

Eins og rakið er í tilvitnuðum álitum mínum verður í tilviki eins og þessu að líta til þess að í hlut á úrskurðarnefnd sem skipuð er einstaklingum og áskilið er að þeir uppfylli tilteknar almennar hæfiskröfur. Sama gildir um varamenn. Það gæti því skipt máli fyrir þá sem óska eftir áliti málskotsnefndar og þá sem hagsmuna eiga að gæta vegna niðurstöðu mála að glöggt komi fram í úrskurðum nefndarinnar hvaða nefndarmenn standi að þeim. Geta þá aðilar slíks máls meðal annars tekið afstöðu til hugsanlegra álitamála um sérstakt hæfi nefndarmanna til að fjalla um einstakt mál. Til að þessu skilyrði sé fullnægt þurfa upplýsingar um það meðal annars hverjir stóðu að afgreiðslu nefndarinnar í tilteknu máli að koma fram í tilkynningu nefndarinnar um afgreiðslu þess. Ég tek fram að stjórnsýslunefnd sem falið er að úrskurða í kærumáli kann að vera heimilt án sérstakrar lagaheimildar að fela starfsmanni nefndarinnar, svo sem ritara, að sjá um birtingu ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, m.a. um frávísun, sem nefndin hefur tekið. Ég tel þó að í slíkri tilkynningu þurfi annars vegar að koma fram rök nefndarinnar fyrir niðurstöðu sinni, sbr. 4. tölul. 31. gr., sbr. 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá þurfi með vísan til framangreindra sjónarmiða að koma skýrt fram hvaða nefndarmenn stóðu að umræddri ákvörðun. Hvað þetta atriði varðar ætti t.d. að nægja að senda aðila máls tilkynningu sem inniheldur endurrit fundargerðar nefndarinnar um viðkomandi mál þar sem umrædd atriði koma fram eða endurrit sjálfstæðs úrskurðar nefndarinnar í málinu.

Í bréfi málskotsnefndar til A, dags. 3. maí 2005, kemur ekki fram hvaða nefndarmenn málskotsnefndar stóðu að úrskurði í máli hans. Eins og fyrr er frá greint kemur þar heldur ekki fram hvort nefndin hafi tekið afstöðu til þess hvort undantekningarákvæði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ættu við í máli A. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða mín að hvað sem líður heimild málskotsnefndarinnar til að fela ritara að birta A ákvörðun þá er mál þetta er sprottið af hafi nefndin ekki séð til þess með fullnægjandi hætti að málsmeðferð ritara af því tilefni uppfyllti þær kröfur um efni slíkrar tilkynningar til aðila máls sem áskilja verður þegar ritara stjórnsýslunefndar er falið þetta verkefni.

4.

Í VIII. kafla stjórnsýslulaga er að finna ákvæði um málsmeðferð fyrir stjórnsýslunefndum. Er þar í 33. gr. fjallað um fundarboðun og í 1. mgr. 34. gr. segir að stjórnsýslunefnd sé ályktunarhæf þegar meiri hluti nefndarmanna situr fund.

Í bréfi málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna til mín, dags. 21. nóvember 2005, kemur fram að mál A hafi ekki verið tekið fyrir á formlegum fundi nefndarinnar. Því hafi ekki verið hægt að senda mér ljósrit fundargerðar eins og ég hafði óskað eftir í bréfi mínu, dags. 18. október 2005. Málskotsnefnd tekur þó fram í bréfi sínu að nefndarmenn hafi allt að einu rætt kæru A í síma eftir að þeir höfðu kynnt sér gögn málsins og hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að vísa skyldi málinu frá þar sem þriggja mánaða kærufrestur hefði verið liðinn. Málskotsnefnd lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur þannig ekki haldið því fram að ákvörðun hennar um frávísun erindis A hafi verið tekin á fundi í skilningi 33. gr. og 1. mgr. 34. gr. stjórnsýslulaga og að þannig hafi verið gætt þeirra formskilyrða sem samkvæmt framangreindum ákvæðum stjórnsýslulaga skal fullnægt við ákvarðanatöku stjórnsýslunefndar. Af þessu tilefni tek ég aðeins fram að fjölskipuðu stjórnvaldi á borð við málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sem falið er samkvæmt lögum nr. 21/1992 að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, er skylt að haga málsmeðferð sinni af því tilefni þannig að samrýmist formreglum 33. og 34. gr. stjórnsýslulaga, en ákvörðun um frávísun kæru er stjórnvaldsákvörðun í merkingu laganna. Þessi fyrirmæli stjórnsýslulaga um hvernig haga eigi töku ákvarðana í stjórnsýslunefndum hafa það að markmiði að tryggja að fyrir liggi afstaða nefndarmanna eftir að þeir hafa átt kost á að kynna sér fyrirliggjandi gögn málsins og skiptast á skoðunum við aðra nefndarmenn um einstök mál. Þá miða þessar reglur að því að tryggja sönnun um hverjir úr hópi nefndarmanna tóku þátt í afgreiðslu málsins og hver niðurstaða hennar varð, þannig að ljóst sé að fullnægt sé skilyrðum 1. og 2. mgr. 34. gr. stjórnsýslulaga um ályktunarhæfi og afl atkvæða. Án þess að hér sé tekin afstaða til þess hvað telst „fundur“ í merkingu VIII. kafla laganna eru það tilmæli mín til málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna að betur verði hugað að því í starfi hennar að uppfylla þær kröfur sem leiða af ákvæðum nefnds kafla stjórnsýslulaga.

5.

Í niðurlagi bréfs málskotsnefndarinnar til mín, dags. 21. nóvember 2005, kemur fram að það „[veki] furðu nefndarinnar að þau gögn sem [mér höfðu] verið send um málið hafi gefið [mér] tilefni til að ætla að nefndin [hafi talið] sér heimilt að framselja ákvörðunarvald sitt til starfsmanns nefndarinnar“.

Af þessu tilefni tel ég rétt að vekja athygli á því að í þeirri tilkynningu sem ritari sendi A kom ekkert fram um það að málskotsnefndin hefði fjallað um málið. Þá segir í bréfi ritara nefndarinnar til mín, dags. 24. október 2005, að þegar kæra A barst málskotsnefndinni hafi hún verið endursend „án þess að mál hans yrði tekið fyrir hjá nefndinni“. Þessar vísbendingar úr gögnum málsins gáfu því á þessu tímamarki ekki annað til kynna en að á skorti að málskotsnefndin hefði komið að ákvörðun um að vísa kæru A frá. Fyrirspurnarbréf mitt til málskotsnefndarinnar, dags. 26. október 2005, var því eðli máls samkvæmt ritað með það að leiðarljósi að fá skýringar á þessu atriði hjá nefndinni.

V. Niðurstaða.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að málsmeðferð málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna í máli A hafi ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og áskilnað um sjálfstætt mat stjórnvalds á kærustigi um hvort skilyrði séu til að taka kæru til meðferðar að liðnum kærufresti, sbr. 1. mgr. 28. gr. sömu laga. Þá er það niðurstaða mín að hvað sem líður heimild málskotsnefndarinnar til að fela ritara hennar að birta A ákvörðun þá er mál þetta er sprottið af hafi nefndin ekki séð til þess með fullnægjandi hætti að málsmeðferð ritara af því tilefni uppfyllti þær kröfur um efni slíkrar tilkynningar sem áskilja verður þegar ritara stjórnsýslunefndar er falið þetta verkefni.

Ég beini þeim tilmælum til málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna að hún taki mál A fyrir að nýju, komi beiðni þar um frá honum, og hagi þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu. Það eru jafnframt tilmæli mín til nefndarinnar að betur verði hugað að því í starfi hennar að uppfylla þær kröfur sem leiða af ákvæðum VIII. kafla stjórnsýslulaga.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Ég ritaði málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna bréf, dags. 2. febrúar 2007, þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um hvort A hefði leitað til málskotsnefndarinnar á ný vegna málsins og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða hvort málið væri enn til meðferðar. Þá óskaði ég eftir upplýsingum um hvort framangreint álit mitt hefði orðið málskotsnefndinni tilefni til að grípa til einhverra tiltekinna ráðstafana og þá í hverju þær ráðstafanir hafi falist. Í svarbréfi málskotsnefndarinnar, dags. 13. apríl s.á., kemur fram að A hafi leitað til nefndarinnar á ný og að með úrskurði uppkveðnum 6. febrúar sl. hafi niðurstaða stjórnar LÍN í máli hans verið staðfest. Þá hafi nefndin ákveðið að mál sem berist að liðnum kærufresti verði framvegis tekin fyrir á formlegum fundum nefndarinnar og þá tekin afstaða til þess hvort afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar. Verði síðan jafnan kveðinn upp formlegur úrskurður um niðurstöðuna.