Sveitarfélög. Reglur um veiðar á afréttarsvæðum. Stjórnsýslueftirlit.

(Mál nr. 4639/2006)

Umboðsmaður hafði til athugunar kvörtun frá A er laut að tveimur álitum félagsmálaráðuneytisins þar sem ráðuneytið lýsti því yfir að það gerði ekki athugasemdir við ákvarðanir bæjarstjórna Húnaþings vestra og Vesturbyggðar um sölu á rjúpnaveiðileyfum og fyrirkomulag veiða haustið 2005. Hafði A leitað til ráðuneytisins þar sem hann taldi að með reglunum væri brotið gegn lögvörðum réttindum sínum og jafnræðisreglum. Í tilviki Húnaþings vestra gerði A jafnframt sérstakar athugasemdir við valdheimildir sveitarfélagsins til afskipta af veiðum í afréttarlöndum en í auglýsingu sveitarfélagsins sagði að hún tæki til fyrirkomulags „rjúpnaveiða á tilteknum jörðum og afréttum í eigu Húnaþings vestra“. Í áliti félagsmálaráðuneytisins er laut að Húnaþingi vestra sagði að í auglýsingu sveitarstjóra hefði komið fram að veiðimenn með lögheimili í Húnaþingi vestra skyldu greiða kr. 3000 fyrir veiðileyfið en aðrir kr. 5000. Í álitinu sagði ennfremur að um væri að ræða veiðar á jörðum í eigu Húnaþings vestra og „afréttarlöndum innan staðarmarka sveitarfélagsins“ og vísað til 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, um skyldu sveitarfélaga til að vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna.

Í tilefni af kvörtun A ritaði umboðsmaður félagsmálaráðuneytinu bréf þar sem hann gerði grein fyrir efni kvörtunarinnar. Jafnframt rakti hann ákvæði 8. og 11. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Óskaði umboðsmaður eftir því að ráðuneytið sendi honum gögn málsins og veitti honum nánari skýringar á þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitum ráðuneytisins. Óskaði umboðsmaður nánar tiltekið eftir upplýsingum um hvort að í álitum ráðuneytisins fælist sú afstaða að sveitarfélögum væri heimilt á grundvelli 7. gr. sveitarstjórnarlaga að takmarka veiðar, með banni eða gjaldtöku, á landsvæðum er teldust ekki til eignarlanda þess, umfram það sem gert væri með lögum nr. 64/1994. Með tilliti til þess að athugasemdir A beindust að auglýsingu sveitarfélagsins sem hefði tekið meðal annars til ákveðinna afréttarsvæða og A taldi utan eignarlanda sveitarfélagsins óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig ráðuneytið hefði gengið úr skugga um á hvaða grundvelli sveitarfélagið teldi umrætt land vera í eigu sveitarfélagsins. Vísaði umboðsmaður í þessu sambandi til eftirlitshlutverks ráðuneytisins, sbr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í svari félagsmálaráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að það væri skýr afstaða þess að sveitarstjórn Húnaþings vestra réði fyrirkomulagi rjúpnaveiða á sínu eignarlandi. Hins vegar hefði í áliti þess verið gerður sá almenni fyrirvari að það ætti ekki úrskurðarvald um hvort öll landsvæði sem auglýsing sveitarfélagsins tækju til væru eignarlönd. Sagði svo að það skyldi hins vegar viðurkennt að skilja hefði mátt orðalag í álitinu svo að reglur Húnaþings vestra tækju til alls afréttarlands innan staðarmarka sveitarfélagsins en sú væri ekki raunin heldur væri eingöngu tekið gjald fyrir veiðar á landi í eigu þess. Í svarinu kom einnig fram að ákveðin óvissa kynni að vera um eignarhald á einstökum svæðum er auglýsingin tæki til og ráðuneytið teldi sig ekki bært að taka afstöðu til álitaefna þar að lútandi.

Umboðsmaður kynnti A efni svarbréfs ráðuneytisins og ákvað síðan að ljúka athugun sinni á málinu með því að rita félagsmálaráðherra bréf, dags. 29. júní 2006, þar sem hann áréttaði mikilvægi þess að úrlausnir ráðuneytisins séu skýrar og glöggar og ekki til þess fallnar að valda vafa um réttarstöðu aðila máls.

Í bréfi mínu til félagsmálaráðherra sagði m.a. eftirfarandi:

„[...] Framangreind álit ráðuneytisins lutu að reglum er sveitarstjórnir Húnaþings vestra og Vesturbyggðar settu um rjúpnaveiði innan staðarmarka sveitarfélaganna. Taldi [A] að með reglunum, er kváðu á um innheimtu mishárra gjalda eftir því hvort veiðimaður átti lögheimili í sveitarfélaginu eða ekki, bryti gegn lögvörðum réttindum sínum og væru brot á jafnræðisreglum. Jafnframt taldi hann að í tilviki Húnaþings vestra væri sveitarstjórn að taka sér vald sem hún hefði ekki til að setja reglur og mæla fyrir um gjaldtöku vegna veiða á afréttarlöndum sem sveitarfélagið hefði ekki full eignarráð yfir.

Í áliti ráðuneytisins er sneri að Húnaþingi vestra var grein gerð fyrir málavöxtum og þar var álitaefninu lýst svo:

„Þær veiðar sem hér um ræðir eru á tilteknum jörðum í eigu Húnaþings vestra og afréttarlöndum innan staðarmarka sveitarfélagsins. Er veiðileyfi mishátt eftir því hvort veiðimenn eigi lögheimili í sveitarfélaginu eða utan þess, þ.e. 3.000 kr. fyrir veiðimenn með lögheimili í Húnaþingi vestra en 5.000 kr. fyrir aðra veiðimenn.“

Í niðurstöðu álitsins sagði um þær athugasemdir sem [A] hafði gert vegna afréttarlandanna:

„Ekki er unnt að fallast á það með málshefjanda að 8. gr. laga nr. 64/1994 þar sem kveðið er á um rétt allra ríkisborgara með lögheimili í landinu til dýraveiða í almenningum, og öðru landi sem enginn geti sannað eignarrétt sinn til, standi í vegi fyrir því að sveitarstjórn geti tekið með málefnalegum hætti, ákvörðun um hvernig veiði skuli háttað á landi í eigu sveitarfélagsins. Rétt er þó að taka fram að ráðuneytið á ekki úrskurðarvald um hvort öll landsvæði sem auglýsing Húnaþings vestra tekur til falli undir umrætt lagaákvæði.“

Var það síðan niðurstaða ráðuneytisins að ekki væri tilefni til að gera athugasemdir við ákvarðanir þær er sveitarfélagið hafði tekið.

Eins og bréf mitt til ráðuneytisins, dags. 16. febrúar 2006, ber með sér varð erindi [A] til mín mér ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um þá úrlausn ráðuneytisins að umræddur mismunur á gjaldtöku vegna nýtingar á veiðirétti í eignarlöndum sveitarfélagsins stangaðist ekki á við jafnræðisreglur. Hins vegar taldi ég rétt vegna áðurgreinds orðalags í áliti ráðuneytisins um að þær veiðar sem þar um ræddi væru á „afréttarlöndum innan staðarmarka sveitarfélagsins“ að leita nánari skýringa félagsmálaráðuneytisins á því hvort í tilvitnuðum ummælum fælist sú afstaða ráðuneytisins að sveitarfélögum væri heimilt að takmarka veiðar, með banni eða gjaldtöku, á landsvæðum er teldust ekki til eignarlanda þeirra, umfram það sem gert væri með lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Vísaði ég í því sambandi til þess að í erindi [A] hefði komið fram að hann teldi að reglur sveitarfélagsins næðu til afréttarsvæða er væru innan staðarmarka sveitarfélagsins en teldust ekki til eignarlanda þess.

Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 14. mars sl., er vitnað í fyrrgreint álit þess og sagt að þar komi skýrt fram sú afstaða að sveitarstjórn Húnaþings vestra ráði fyrirkomulagi rjúpnaveiða á sínu eignarlandi. Hins vegar sé gerður sá almenni fyrirvari af hálfu ráðuneytisins að það eigi ekki úrskurðarvald um hvort öll landsvæði sem auglýsing Húnaþings vestra taki til séu eignarland. Svo segir í svarbréfi ráðuneytisins:

„Það skal hins vegar viðurkennt að skilja má orðalag framar í álitinu svo að reglur Húnaþings vestra taki til alls afréttarlands innan staðarmarka sveitarfélagsins en eins og fram kemur í bréfi umboðsmanns er sú ekki raunin heldur er eingöngu tekið gjald fyrir veiðar á landi í eigu sveitarfélagsins.“

Í svarbréfi ráðuneytisins til mín kemur einnig fram að ákveðin óvissa kunni að vera um eignarhald á einstökum svæðum er auglýsing sveitarfélagsins tók til og að ráðuneytið telji sig ekki bært að taka afstöðu til álitaefna þar að lútandi.

Eins og sjá má á bréfi mínu til [A] hef ég ákveðið í ljósi skýringa ráðuneytisins og þar sem mér hafa ekki borist neinar athugasemdir frá honum, þrátt fyrir frest þar um, að ljúka athugun minni á þessu máli, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tel hins vegar rétt í ljósi framangreinds að árétta mikilvægi þess að úrlausnir ráðuneytisins séu skýrar og glöggar og ekki til þess fallnar að valda vafa um réttarstöðu aðila máls, í þessu tilfelli um heimildir sveitarstjórnar til þess að setja reglur um rjúpnaveiðar á afréttarlöndum innan marka sveitarfélagsins í Húnaþingi vestra og um afstöðu ráðuneytisins til eignarhalds yfir þeim. Ég bendi á að sú úrlausn ráðuneytisins sem hér er fjallað um er í formi álits samkvæmt 102. gr. sveitarstjórnarlaga en það ákvæði mælir fyrir um eftirlit ráðuneytisins með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum samkvæmt lögum þessum og öðrum löglegum fyrirmælum. Tilefni álitsins voru m.a. athugasemdir frá einstaklingi um að sveitarstjórn hefði farið út fyrir valdheimildir sínar þegar hún mælti fyrir um reglur og gjaldtöku vegna fuglaveiða á ákveðnum afréttarlöndum sem þessi einstaklingur taldi að væru utan eignarlanda sveitarfélagsins. Hér var því mikilvægt að ráðuneytið kannaði réttmæti þessara athugasemda og það lægi skýrt fyrir í áliti ráðuneytisins hvort talið væri að sveitarstjórn væri heimilt að láta reglurnar taka til þessara landsvæða. Ef réttmætur vafi var um eignarhald sveitarfélagsins á þessum landsvæðum var rétt að það kæmi fram í álitinu og jafnframt skýrt hver væri þá afstaða ráðuneytisins til þess hvort valdheimildir sveitarfélagsins stæðu til þess að láta reglurnar taka til slíkra svæða. Það er ábending mín til ráðuneytisins að betur verði hugað að þessu atriði framvegis komi sambærileg mál til kasta þess.“