Almannatryggingar. Ákvæði í umsóknareyðublaði um lífeyrisgreiðslur.

(Mál nr. 4741/2006)

A kvartaði yfir því að á umsóknareyðublaði Tryggingastofnunar ríkisins um lífeyrisgreiðslur væri það sett sem skilyrði fyrir greiðslunum að umsækjandi um þær heimilaði stofnuninni að millifæra ofgreidda fjárhæð af bankareikningi sínum ef bætur væru fyrir mistök sannanlega ofgreiddar. Var umrætt skilyrði að finna í 2. mgr. yfirlýsingar í niðurlagi umsóknareyðublaðsins í reit sem nefndur var „staðfesting umsóknar“.

Í tilefni af erindi A ritaði umboðsmaður Tryggingastofnun ríkisins bréf, dags. 20. júní 2006, þar sem hann rakti efni 47. og 50. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, þar sem meðal annars væri fjallað um heimild tryggingastofnunar til að draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kynni síðar að öðlast rétt til og um endurkröfurétt stofnunarinnar á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum. Óskaði umboðsmaður eftir því að stofnunin upplýsti á hvaða lagagrundvelli skilyrði það sem fram kæmi í 2. mgr. umræddrar yfirlýsingar um að umsækjandi heimilaði tryggingastofnun að millifæra ofgreidda fjárhæð af bankareikningi sínum, væri byggt.

Í svarbréfi tryggingastofnunar, dags. 14. júlí 2006, sagði að lagaheimild fyrir umræddu ákvæði á umsóknareyðublaði fyrir lífeyrisgreiðslur væri ekki fyrir hendi en textinn hefði hins vegar verið á slíkum eyðublöðum um árabil. Kom fram í svarbréfinu að heimildinni til þess að millifæra fjárhæðir af reikningi bótaþega á grundvelli ákvæðisins hefði nær eingöngu verið beitt þegar lagfæra þyrfti greiðslur sem greiddar væru af misgáningi eða fyrir mistök. Slík mistök gætu bæði verið mannleg og átt rót sína í tölvuvinnslum. Einnig væri nokkuð um það að óskað væri bakfærslna þegar tilkynningar bærust um andlát greiðsluþega og bætur viðkomandi mánaðar hefðu verið afgreiddar. Í bréfinu var vikið að hagræðinu sem þetta fyrirkomulag hefði í för með sér og áréttað að ef um venjulegar ofgreiðslukröfur væri að ræða væri innheimtureglum 50. gr. almannatryggingalaga beitt. Að lokum var það tekið fram í bréfi stofnunarinnar að hún liti ekki svo á að umsækjendum væri skylt að undirrita umrædda yfirlýsingu í þeim skilningi að væri það ekki gert leiddi það til synjunar umsóknarinnar.

Í tilefni af því sem fram kom í svarbréfi Tryggingastofnunar ríkisins ritaði umboðsmaður stofnuninni annað bréf, dags. 12. september 2006, þar sem hann óskaði eftir afstöðu stofnunarinnar til þess hvort ástæða kynni að vera til þess að gera breytingar á umræddu umsóknareyðublaði. Í bréfi umboðsmanns sagði meðal annars:

„Hef ég í þessu sambandi í fyrsta lagi í huga að ég fæ ekki séð að með nokkrum hætti sé það gefið til kynna á umræddu eyðublaði að hinn staðlaði texti sé valkvæður eða að umsækjandi geti með einhverjum hætti vikið sér undan því að veita stofnuninni umrædda heimild án þess að fyrirgera um leið rétti sínum til bóta. Í öðru lagi bendi ég á að þótt vissulega kunni að vera verulegt hagræði í því fólgið fyrir Tryggingastofnun ríkisins að geta endurheimt ofgreitt fé án mikils umstangs í þeim tilvikum sem nefnd eru í svarbréfi stofnunarinnar til mín, þá verður ekki séð að orðalag hins staðlaða texta sé takmarkað við slík tilvik. Þvert á móti segir einfaldlega að séu bætur „sannanlega ofgreiddar og ofgreiðslan stafar af mistökum“ heimili umsækjandi stofnuninni að millifæra hina ofgreiddu fjárhæð af bankareikningi sínum. Ég fæ ekki séð að orðið „mistök“ útiloki eitt og sér önnur tilvik en þau þegar bótaþegi er látinn eða starfsmaður t.d. slær af misgáningi ranga upphæð inn í tölvukerfi stofnunarinnar. Í þriðja lagi vísa ég til þess sem sagði í athugasemdum [A], um þær leiðbeiningar sem hún hafi fengið frá starfsfólki tryggingastofnunar, og kann að gefa vísbendingu um að starfsfólk stofnunarinnar telji umsækjendum ekki heimilt að strika hinn staðlaða texta út. Ég tek það þó fram í þessu sambandi að ég hef ekki tekið afstöðu til málsatvika í tilfelli [A] að þessu leyti sé uppi ágreiningur um það hvernig leiðbeiningar hún fékk frá starfsfólki stofnunarinnar.“

Í svarbréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. september 2006, kom fram að með hliðsjón af athugasemdum umboðsmanns Alþingis hefði verið ákveðið að gera breytingar á umræddu eyðublaði og yrði texti sá er kvörtun A beindist að fjarlægður. Umboðsmanni barst svo sýnishorn af hinu breytta eyðublaði með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. október 2006. Í tilefni af því tilkynnti umboðsmaður A með bréfi, dags. 23. október 2006, að athugun hans á máli hennar væri lokið.

A hafði síðan samband við umboðsmann að nýju 6. nóvember 2006 og greindi frá því að við komu í afgreiðslu tryggingastofnunar í Reykjavík þann dag hefðu gömlu eyðublöðin enn verið í notkun óbreytt. Í tilefni af fyrirspurn umboðsmanns upplýsti stofnunin að tafir hefðu orðið á útgáfu nýrra eyðublaða en þau væru nú komin í notkun.

Í framhaldi af þessu lauk umboðsmaður afskiptum sínum af málinu.