Útlendingar. EES samningur. Grunnskólar. Þjóðskrá. Lögheimili. Skattlagningarheimild. Frumkvæðisathugun. Fyrirspurnarbréf.

(Mál nr. 4838/2006, 4839/2006, 4840/2006 og 4841/2006)

Ábendingar og frásagnir í fjölmiðlum um vandkvæði á því að útlendingar sem hingað komu til atvinnu, einkum frá ríkjum á hinu Evrópska efnahagssvæði, fengju útgefnar kennitölur og dvalarleyfi sem og vandkvæði við skólagöngu barna þeirra hafa orðið umboðsmanni Alþingis tilefni til að taka til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, reglur og starfshætti nokkurra stjórnvalda í tengslum við þessi mál. Áður hafði umboðsmaður aflað upplýsinga um að ráðstafanir hefðu verið gerðar til að hraða afgreiðslu Þjóðskrár á kennitölum og lausn hefði að þessu sinni fundist á málefnum barna sem ekki gátu hafið skólagöngu á réttum tíma. Athugun umboðsmanns beinist því að almennri framkvæmd þessara mála hjá stjórnvöldum og hvort hún og tilheyrandi lagareglur samrýmist að öllu leyti þeim skuldbindingum sem leiða af EES samningnum.

Umboðsmaður hefur af þessu tilefni beint spurningum til dóms- og kirkjumálaráðherra varðandi nánar tilgreind atriði í framkvæmd Útlendingastofnunar við veitingu dvalarleyfa til EES-borgara og þeirra skilyrða sem stofnunin setur við afgreiðslu slíkra leyfa. Einnig er óskað upplýsinga um starfshætti Þjóðskrár við veitingu kennitölu til EES-borgara, skráningu lögheimilis og skráningu í þjóðskrá. Athugunin beinist einnig að samræmi milli reglna og starfshátta þessara stofnana. Til menntamálaráðherra er beint spurningum varðandi skýringu og framkvæmd grunnskólalaga í ljósi skuldbindinga íslenska ríkisins samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og annarra þjóðréttarsamninga, sem sumir hafa verið leiddir í lög hér á landi. Þá hefur spurningum verið beint til Vinnumálastofnunar varðandi nánar tiltekin atriði við framkvæmd lagaskyldu stofnunarinnar til skráningar erlendra starfsmanna og aðstandenda þeirra. Að lokum hefur þeirri spurningu verið beint til fjármálaráðherra á hvern hátt hafi við undirbúning að þeirri breytingu á lögum um aukatekjur ríkisins er heimilar töku afgreiðslugjalda vegna útgáfu dvalarleyfa verið litið til skuldbindinga íslenska ríkisins samkvæmt ákvæðum EES samningsins.

Fyrirspurnarbréf sem umboðsmaður Alþingis sendi stjórnvöldum, 2. nóvember sl., vegna ofangreindrar athugunar eru svohljóðandi:

Mál nr. 4838/2006

Fr. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra.

Í lok sumars bárust mér ábendingar og fréttir komu af því í fjölmiðlum að vandkvæði væru á því að börn sem hingað hefðu komið með erlendum foreldrum sem byggju hér á landi vegna vinnu sinnar eða væru að leita að atvinnu gætu sótt kennslu í grunnskólum í því sveitarfélagi sem þau voru þá búsett. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég aflaði í framhaldi af því tókst að finna lausn þannig að umrædd börn gætu sótt skóla í vetur en nánari athugun mín á þessum málum hefur hins vegar orðið mér tilefni til að taka til nánari athugunar að eigin frumkvæði, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ákveðin atriði við framkvæmd þeirra reglna sem um þessi mál gilda

Ég tel rétt að gera grein fyrir því að með bréfi, dags. 10. ágúst sl., vakti yfirmaður skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar athygli mína og fleiri aðila, þar á meðal ráðuneytis yðar, á málefnum barna á Íslandi sem skráð eru á svonefnda utangarðsskrá. Vakti yfirmaðurinn athygli á því að á utangarðsskrá væru einstaklingar sem hefðu fengið kennitölu en ekki dvalarleyfi hérlendis og að þessi börn virtust ekki hafa nein réttindi á Íslandi, m.a. á skólagöngu. Í greinargerð er fylgdi bréfinu er bent á að vandamálið liggi fyrst og fremst hjá foreldrum þeirra barna er komi frá EES ríkjum. Þar kemur einnig fram að vandamálið er margþætt. Bent er á að EES launþegar geti dvalið hérlendis ásamt börnum sínum í allt að 6 mánuði við atvinnuleit, en að öðrum kosti 3 mánuði, áður en þeir fái dvalarleyfi. Útgáfa dvalarleyfis geti síðan tafist af margvíslegum orsökum. Lögheimili einstaklinga er síðan ekki skráð fyrr en með útgáfu dvalarleyfis. Í bréfinu er bent á að sveitarfélög telji sig ekki ábyrg fyrir þeim er ekki teljist íbúar þeirra en í 3. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 segi að „[h]ver maður [teljist] íbúi þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili“. Bent er á að ákvæðið samrýmist ekki 1. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 er kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að halda skóla fyrir öll börn á aldrinum 6-16 ára. Sveitarfélögin geti ekki sinnt þessari skyldu sinni þegar þau geti hvorki tekið þessi börn inn í skólakerfið á meðan það vanti pappíra, s.s. dvalarleyfi, né innheimt skólakostnað hjá öðrum á meðan viðkomandi börn séu á utangarðsskrá.

Eins og ráðið verður af þessari lýsingu er það afstaða fyrirsvarsmanna skólamála í þessu sveitarfélagi að umrædd vandkvæði við að taka börn sem enn eru á svonefndri utangarðsskrá inn í grunnskólana og veita þeim kennslu séu afleiðing þeirra ákvæða gildandi grunnskólalaga og sveitarstjórnarlaga sem lýst var hér að framan. Ég óska því eftir að ráðuneyti yðar skýri viðhorf sitt til framangreindra atriða og hvort það sé rétt sem þar er lýst að umrædd ákvæði laga komi í veg fyrir að sveitarfélögin geti tekið þessi börn inn í grunnskólana. Ef sú er raunin óska ég eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um hvort fyrirhugaðar séu einhverjar breytingar á lögum eða reglum að þessu leyti. Ég hef þá jafnframt í huga að skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt alþjóðasamningum, sem a.m.k. að hluta til hafa verið leiddir í lög hér á landi, kunna að takmarka svigrúm íslenskra stjórnvalda þegar kemur að því hvernig umrædd ákvæði grunnskólalaga eru skýrð og framkvæmd. Með tilliti til þess tel ég rétt að rekja eftirfarandi.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla er sveitarfélögum skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6-16 ára eftir því sem nánar segir í lögunum. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laganna skal skólanefnd sjá um að öll skólaskyld börn í skólahverfinu njóti lögboðinnar fræðslu. Menntamálaráðuneytið hefur skýrt síðarnefnda ákvæðið þannig að skyldur sveitarfélagsins snúi að þeim nemendum sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu (sbr. Úrskurðir og álitamál vegna laga um grunnskóla nr. 66/1995, 2. útgáfa með viðbótum. Menntamálaráðuneytið, ágúst 1998, bls. 46). Fram til 1. ágúst 1996, er grunnskólar fluttust til sveitarfélaga, var litið svo á að 12. gr. ætti við um börn sem búsett væru í sveitarfélaginu hvort sem þau ættu lögheimili þar eða ekki (sama rit, bls. 48). Nýlega voru samþykktar á Alþingi breytingar á grunnskólalögum, sbr. lög nr. 98/2006, er gera ráð fyrir því að skyldur sveitarfélaga til að halda skóla fyrir 6-16 ára börn takmarkist við þau börn er eigi lögheimili í sveitarfélaginu. Taka breytingarnar gildi 1. janúar 2007.

Samkvæmt orðanna hljóðan mælir 12. gr. grunnskólalaga, eins og þau hljóða nú, ekki fortakslaust fyrir um að börn þurfi kennitölu eða skráð lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi til þess að mega hefja þar skólagöngu. Eins og rakið er hér að framan var í bréfi skóla- og fjölskylduskrifstofunnar vísað til þess að vandamálið lægi fyrst og fremst hjá foreldrum barna er kæmu frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Í upplýsingum frá Þjóðskrá hefur jafnframt komið fram að einungis foreldrar sem sjálfir hafa kennitölu og dvalarleyfi geti sótt um kennitölu fyrir börn sín og jafnframt að forsenda kennitölu er að viðkomandi hafi fengið dvalarleyfi hér á landi. Samkvæmt þessu virðist því að krafan um kennitölu sem forsendu fyrir skólavist geti leitt til þess að fyrrgreind börn geti þurft að bíða vikum eða mánuðum saman eftir skólavist.

Við athugun á réttindum EES launþega og fjölskyldna þeirra til dvalar hér á landi og aðgangs að menntastofnunum ber fyrst að líta til laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og gerða sem vísað er til í viðaukum hans og komið hefur verið til framkvæmda með viðeigandi lagasetningu hér á landi. Kemur einkum til skoðunar 28. gr. EES samningsins er felur í sér að launþegar eiga rétt til frjálsrar farar á hinu evrópska efnahagssvæði. Ennfremur hefur reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1612/68 um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins, verið innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Er í 12. gr. reglugerðarinnar m.a. kveðið á um að börn ríkisborgara EES-ríkis, sem er eða hefur verið ráðinn til vinnu á yfirráðasvæði annars EES-ríkis, skuli eiga rétt á almennri skólagöngu í því ríki með sömu skilyrðum og ríkisborgarar þess ríkis, að því tilskyldu að börnin búi þar. Jafnframt hefur 4. gr. tilskipunar ráðsins nr. 68/360/EBE um afnám takmarkana á flutningi og búsetu innan bandalagsins gagnvart launþegum aðildarríkjanna og fjölskyldum þeirra, verið komið til framkvæmda með 36. og 37. gr. útlendingalaga nr. 96/2002. Fyrrgreind ákvæði tilskipunarinnar og útlendingalaga mæla fyrir um útgáfu dvalarleyfis til handa EES launþegum og aðstandendum þeirra. Við skýringu á ákvæðum útlendingalaga um útgáfu dvalarleyfis ber, sbr. 6. gr. EES samningsins að hafa hliðsjón af dómum dómstóls Evrópubandalaganna um skýringu á ákvæðum tilskipunarinnar varðandi útgáfu dvalarleyfis. Hefur dómstóllinn í fjölmörgum dómum ítrekað að launþegar og aðstandendur þeirra eigi, með vísan til grunnreglna Rómarsáttmála um frjálsa för launþega eða þeim gerðum sem koma þeim reglum til framkvæmda, sjálfstæðan rétt til dvalar óháð útgáfu dvalarleyfis, hvers útgáfa er einungis til staðfestingar á slíkum rétti. (Sjá hér m.a. mál 48/75 Royer, ECR [1976] bls. 497 og sameinuðu málin 389/87 og 390/87 Echternach og Moritz [1989] ECR bls. 723, 25. mgr). Jafnframt hefur dómstóllinn mælt sérstaklega fyrir um að skortur á útgáfu dvalarleyfis skv. tilskipun 68/360/EBE megi ekki hindra barn launþega í að njóta þeirra réttinda sem það á samkvæmt ákvæðum bandalagsréttar, m.a. rétt til skólagöngu samkvæmt 12. gr. áðurtilvitnaðrar reglugerðar 1612/68. (Sjá hér dóm í sameinuðu málunum 389/87 og 390/87 Echternach og Moritz sem vitnað er til hér að ofan, 24-26. mgr.).

Í ljósi framanritaðs mun athugun mín meðal annars beinast að því hvort sú framkvæmd skólayfirvalda, að binda heimild barna EES-launþega til skólavistar hér á landi við útgáfu kennitölu og dvalarleyfis, geti farið í bága við ákvæði EES-samningsins, sbr. lög 2/1993, sem og ákvæði útlendingalaga og laga nr. 47/1993 eins og þau verða skýrð í ljósi þeirra EES-reglna sem þeim er ætlað að koma til framkvæmda og dómafordæma sem lýst er hér að ofan. Með vísan til þessa óska ég eftir skýringum ráðuneytis yðar á því hvernig það telur að túlka beri fyrrgreind ákvæði grunnskólalaga þegar litið er til skuldbindinga er leiða af þeim ákvæðum EES samningsins sem lýst er hér að framan. Jafnframt óska ég eftir upplýsingum um með hvaða hætti hafi verið tekið tillit til þeirra skuldbindinga sem kunna að leiða af EES samningnum að þessu leyti við undirbúning og samningu frumvarps til laga nr. 98/2006.

Hvað varðar sérstaklega þau börn erlendra launþega sem ekki falla undir ofangreind ákvæði EES réttar má ljóst vera að stjórnvöld hafa meira svigrúm til skýringa á skyldum sínum samkvæmt ákvæðum grunnskólalaga. Þó er rétt að minna á að í 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að öllum skuli í lögum tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Að auki nýtur rétturinn til náms verndar 2. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, er mælir fyrir um að engum manni skuli synjað um rétt til menntunar, sem og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en í 28. gr. hans er m.a. mælt fyrir um að aðildarríkin skuldbindi sig til að koma á skyldu til grunnmenntunar er allir geti notið ókeypis og til að gera ráðstafanir til að stuðla að reglulegri skólavist og til draga úr því að nemendur hverfi frá námi. Það er slíkum réttindum sammerkt að þau gilda almennt um alla einstaklinga sem eru á yfirráðasvæði ríkis. Þær aðstæður sköpuðust nú í haust að sökum tafa á veitingu dvalarleyfa hjá útlendingastofnun og skráningar lögheimilis hjá Þjóðskrá voru brögð að því að börn er biðu slíkrar skráningar fengju eigi inni í grunnskólum landsins þrátt fyrir að þau í reynd hefðu búsetu hér á landi. Þrátt fyrir að vera staðsett á íslensku yfirráðasvæði kann því staðan að vera sú að umrædd börn njóta ekki grunnmenntunar meðan þau bíða dvalarleyfis og úthlutunar kennitölu. Í þessu sambandi bendi ég einnig á að breytingum á ákvæðum grunnskólalaga, sbr. lög nr. 98/2006, er fela í sér að skyldur sveitarfélaga takmarkast við börn er hafa skráð lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi, er ætlað að taka gildi 1. janúar 2007. Með vísan til framanritaðs fer ég að lokum þess á leit við yður að þér upplýsið mig um hvort nokkrar ráðstafanir hafi verið gerðar til að stuðla að skólagöngu erlendra barna er dveljast hér á landi að staðaldri meðan þau bíða útgáfu dvalarleyfis og skráningar lögheimilis.

Ég óska þess að svör berist mér eigi síðar en 28. nóvember nk.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Mál nr. 4839/2006.

Hr. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra.

Í lok sumars bárust mér ábendingar og fréttir komu af því í fjölmiðlum að verulegar tafir væru á því að erlendir ríkisborgarar sem hingað kæmu vegna atvinnu fengju útgefnar kennitölur og dvalarleyfi. Af þessu leiddi síðan að vandkvæði væru á því að börn sem hingað hefðu komið með þessum erlendu foreldrum gætu sótt kennslu í grunnskólum í því sveitarfélagi sem þau voru þá búsett. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég aflaði í framhaldi af því voru m.a. af hálfu Þjóðskrár gerðar ráðstafanir til að hraða afgreiðslu á útgáfu kennitölu og fundin var lausn á því að umrædd börn gætu sótt skóla í vetur. Nánari athugun mín á þessum málum hefur hins vegar orðið mér tilefni til að taka til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tiltekin atriði í málsmeðferð Útlendingastofnunar við veitingu dvalarleyfa til fyrrgreindra EES borgara og málsmeðferð Þjóðskrár við skráningu lögheimilis og úthlutun kennitölu til útlendinga er koma hingað til lands til starfa sem launþegar á hérlendum vinnumarkaði. Þar sem athugun mín beinist m.a. að samræmi milli reglna og starfshátta þessara stofnana hef ég ákveðið að beina fyrirspurn minni vegna þessa máls til ráðuneytisins.

Ég tel rétt að gera grein fyrir því að með bréfi, dags. 10. ágúst sl., vakti yfirmaður skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar athygli mína og fleiri aðila, þar á meðal ráðuneytis yðar, á málefnum barna á Íslandi sem skráð eru á utangarðsskrá. Vakti yfirmaðurinn athygli á því að á utangarðsskrá væru einstaklingar sem hefðu fengið kennitölu en ekki dvalarleyfi hérlendis og að þessi börn virtust ekki hafa nein réttindi á Íslandi, m.a. á skólagöngu. Í greinargerð er fylgdi bréfi hennar er bent á að vandamálið liggi fyrst og fremst hjá foreldrum þeirra barna er komi frá EES ríkjum. Við athugun mína á ofangreindum ábendingum hef ég m.a. staðnæmst við túlkun og beitingu Útlendingastofnunar á ákvæðum útlendingalaga nr. 96/2002 við veitingu á dvalarleyfum til EES borgara. Einkum hafa upplýsingar er gefnar eru á heimasíðu Útlendingastofnunar orðið mér tilefni til athugunar á framkvæmd hennar við útgáfu dvalarleyfa til EES launþega og fjölskyldna þeirra.

a. Dvalarleyfi til EES-launþega.

Með ákvæðum VI. kafla útlendingalaga eru settar sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Í 1. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að „EES launþegi á rétt á útgáfu dvalarleyfis samkvæmt umsókn þess efnis ef hann framvísar þeim ferðaskilríkjum sem hann komst inn í landið með og gögnum er sýna“ að hann sé „launþegi“ í skilningi laga um frjálsan atvinnu– og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. lög nr. 47/1993. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. setur dómsmálaráðherra nánari reglur um framkvæmd þessa. Ákvæði 70. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 endurspegla framangreind skilyrði varðandi útgáfu dvalarleyfis auk þess sem tekið er fram að til sönnunar þurfi launþeginn að leggja fram staðfestingu frá vinnuveitanda um ráðningu eða atvinnuvottorð um starf, sbr. 1. mgr. 71. gr. reglugerðarinnar. Einnig er í lokamálslið 70. gr. tiltekið að heimilt sé að synja dvalarleyfis ef þær aðstæður eru fyrir hendi sem geti veitt tilefni til að meina útlendingum komu til landsins, dvöl eða vinnu samkvæmt öðrum lagaákvæðum.

Samkvæmt 37. gr. útlendingalaga á „aðstandandi útlendings sem hefur eða öðlast dvalarleyfi skv. 1. mgr. 36. gr. rétt á dvalarleyfi samkvæmt umsókn þess efnis að uppfylltum skilyrðum í reglum sem dómsmálaráðherra setur“. Með 72. gr. útlendingareglugerðar eru sett skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis til aðstandenda EES- eða EFTA útlendings. Hvað varðar aðstandendur útlendings sem hefur eða öðlast dvalarleyfi skv. 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga, þ.e. EES-launþega, „skal, eftir umsókn þess efnis, veitt dvalarleyfi ef hann framvísar því ferðaskilríki sem hann komst inn í landið með, nema fyrir hendi séu aðstæður sem geta veitt tilefni til að synja umsækjandanum um komu til landsins, dvöl eða vinnu samkvæmt öðrum lagaákvæðum“. Jafnframt skal aðstandandinn leggja fram vottorð frá viðkomandi stjórnvaldi í heimaríki eða því ríki þar sem hann bjó síðast til staðfestingar fjölskyldutengslum. Ennfremur er skv. 2. mgr. tilgreint að útlendingurinn hafi yfir að ráða húsnæði. Er hér vísað til skilyrðis um húsnæði sem tilgreint er í 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem veitt var lagagildi með lögum nr. 47/1993. Ljóst að útlendingalögum er m.a. ætlað að koma til framkvæmda hér á landi ákvæðum tilskipunar 68/360/EBE, um afnám takmarkana á flutningum og búsetu innan bandalagsins gagnvart launþegum aðildarríkjanna og fjölskyldum þeirra (sbr. 3. tl. viðauka V við EES samninginn) og virðist sem íslensk stjórnvöld hafi sent tilkynningu þar að lútandi til Eftirlitsstofnunar EFTA, sbr. upplýsingar í gagnabanka um innleiðingu EES gerða á heimasíðu stofnunarinnar. Þó er ekki að finna tilvitnun til tilskipunarinnar í athugasemdum neðan við titil laganna og ekki er heldur vísað til tilskipunarinnar í athugasemdum við frumvarp það er varð að útlendingalögum að öðru leyti en að vísað er til efnis athugasemda í við frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 133/1993 er fólu í sér breytingar á áðurgildandi lögum um eftirlit með útlendingum, en í þeim athugasemdum er að finna tilvísun til tilskipunarinnar. Í þessu sambandi er rétt að benda á að samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið ber að skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Þá kveður 6. gr. EES samningsins, sbr. lög 2/1993, á um að dómar dómstóls Evrópubandalaganna er kveðnir voru upp fyrir undirritunardag samningsins, hafi fordæmisgildi við túlkun á efnislega samhljóða ákvæðum EES samningsins. Verður því að telja að skýra beri ákvæði útlendingalaga um útgáfu dvalarleyfis til samræmis við þau ákvæði tilskipunar 68/360/EBE sem þeim er ætlað að leiða í lög hér á landi og jafnframt að líta til viðeigandi dóma dómstóls Evrópubandalaganna varðandi þá tilskipun við skýringu laganna.

Í 4. gr. ofangreindrar tilskipunar 68/360/EBE er kveðið á um skyldu „aðildarríkja“ til að veita launþegum dvalarleyfi enda framvísi þeir gildu kennivottorði eða vegabréfi og staðfestingu frá vinnuveitanda um ráðningu eða atvinnuvottorði. Jafnframt er „aðildarríkjum“ skylt að veita aðstandendum launþega dvalarleyfi gegn framvísun þeirra á gildu kennivottorði eða vegabréfi ásamt skilríkjum frá lögbærum yfirvöldum í upprunaríki eða ríki sem þeir koma frá um tengsl við viðkomandi launþega og, varðandi tiltekna aðstandendur, sönnun þess að þeir séu á framfæri launþegans eða búi undir sama þaki. Í dómum dómstóls Evrópubandalaganna hefur verið litið svo á að fyrrgreind skilyrði 4. gr. tilskipunar 68/360/EBE fyrir útgáfu dvalarvottorða til launþega og aðstandenda þeirra séu tæmandi talin og að aðildarríkjum bandalagsins sé óheimilt að setja frekari skilyrði fyrir útgáfu dvalarvottorða (sjá hér m.a. dóm í máli C-363/89 Danielle Roux gegn Belgíu, ECR [1991] I-bls. 273, 9-14. mgr.). Jafnframt hefur í dómum dómstólsins verið margítrekað (m.a. í máli 48/75 Royer, ECR [1976] bls. 497) að réttur launþega til dvalar í öðru aðildarríki sé í raun óháður útgáfu dvalarleyfis samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar, þar sem slíkur réttur byggist á grunnreglu 39. gr. (áður 48. gr) Rómarsáttmála um frjálsa för launþega. Af þessu leiðir einnig, eins og ítrekað er í 5. gr. tilskipunar 68/360/EBE, að frágangur formsatriða við útgáfu dvalarleyfis má ekki standa í vegi fyrir að umsækjandi um leyfi geti hafið störf tafarlaust samkvæmt gerðum samningi, auk þess sem dráttur á útgáfu leyfisins má ekki heldur hindra að börn launþega sem eiga rétt á að dvelja hjá honum geti stundað skóla, sbr. dóm dómstóls Evrópubandalaganna í sameinuðu málunum 389/87 og 390/87 Echternach og Moritz, [1989] ECR bls. 723, 24-26. mgr. Samkvæmt framansögðu er því aðildarríkjum bandalagsins óheimilt að binda útgáfu dvalarleyfa til launþega skilyrðum umfram það sem greinir í tilskipun 68/360 eða gera útgáfu slíkra leyfa að skilyrði fyrir því að launþegar eða fjölskyldur þeirra geti notið þeirra réttinda sem þeim eru veitt með ákvæðum Rómarsáttmála og afleiddri löggjöf. Eins og ég hef áður lýst leiðir af EES samningnum að skýra verði þau ákvæði íslenskra laga, sem ætlað er að koma til framkvæmda hér á landi ákvæðum EES réttar sem rót eiga að rekja til fyrrgreindra ákvæða bandalagsréttar, til samræmis við þessa sömu dóma.

Á heimasíðu Útlendingastofnunar er að finna upplýsingar um hvaða gögn „EES launþegi“ og „aðstandendur“ slíks launþega þurfi að leggja fram vegna umsóknar um „EES dvalarleyfi“. Þarf EES launþegi að leggja fram eftirfarandi gögn:

1) Umsókn um dvalarleyfi

2) Passamynd

3) Ljósrit úr vegabréfi/ferðaskilríki

4) Kennitölu

5) Staðfestingu frá atvinnurekanda

Aðstandandi EES launþegans þarf að leggja fram eftirfarandi gögn:

1) Umsókn um dvalarleyfi

2) Passamynd

3) Ljósrit úr vegabréfi

4) Staðfestingu á sjúkratryggingu/E-vottorði

5) Kennitölu

6) Staðfestingu á fjölskyldutengslum

Í ljósi þessa óska ég þess að ráðuneytið upplýsi mig um á hvaða lagastoð Útlendingastofnun byggi fyrrgreindar kröfur um kennitölu og sönnun fyrir sjúkratryggingu sem skilyrði fyrir umsókn um eða útgáfu dvalarleyfis. Ennfremur óska ég afstöðu ráðuneytisins til þess hvort það telji að slík skilyrði fyrir umsókn um eða útgáfu leyfis fái samrýmst ákvæðum EES samningsins, sbr. lög 2/1993, sem og ákvæðum útlendingalaga og laga nr. 47/1993, eins og skýra verður þau í ljósi þeirra EES reglna sem þeim er ætlað að koma til framkvæmda og dómafordæma þeirra er ég hef vitnað til hér að framan. Ég tek það fram að athugun mín beinist ekki að þeim ákvæðum laga eða stjórnvaldsfyrirmæla er kveða á um að þeim er komi hingað til lands til dvalar sé gert að sækja um kennitölu eða leggja fram vottorð vegna sjúkratrygginga hjá þar til bæru yfirvaldi heldur einungis að því að Útlendingastofnun hafi gert framlagningu slíkra gagna að sérstöku skilyrði við framlagningu umsóknar eða veitingu dvalarleyfis.

b. Skráning á lögheimili og úthlutun kennitölu hjá Þjóðskrá.

Eins og lýst er í ábendingu þeirri er vísað er til í upphafi bréfs þessa, getur liðið þó nokkur tími frá því umsókn um dvalarleyfi er lögð fram hjá Útlendingastofnun þar til viðkomandi einstaklingur hefur fengið skráð lögheimili og kennitölu hjá Þjóðskrá. Af heimasíðu Þjóðskrár má ráða að dvalarleyfi er forsenda skráningar í þjóðskrá og að við skráningu í þjóðskrána fái menn jafnframt úthlutað kennitölu. Þessar upplýsingar stangast á við það sem fram kemur á heimasíðu Útlendingastofnunar og lýst er hér að framan en þar er gert að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis að umsækjendur hafi kennitölu. Eins og nánar er rakið hér að framan eiga EES-launþegar, sbr. 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga, rétt á útgáfu dvalarleyfis, að uppfylltum nánar greindum skilyrðum. Af upplýsingum skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar má jafnframt ráða að dráttur á útgáfu dvalarleyfis og eftirfarandi skráning lögheimilis og úthlutun kennitölu hafi staðið í vegi fyrir því að börn EES-launþega geti hafið skólagöngu. Af þessu tilefni óska ég þess að ráðuneytið upplýsi mig um hvort og þá á hvern hátt Þjóðskrá haldi skrá yfir þá sem sótt hafa um kennitölu, bæði börn og fullorðna, en bíða útgáfu dvalarleyfis. Í þessu sambandi óska ég skýringa þess hverju sæti að foreldrar sem sækja um kennitölu fyrir börn sín þurfi sjálfir að hafa útgefið dvalarleyfi og vera skráðir í Þjóðskrá og hvort í engum tilvikum sé heimilt að skrá samtímis foreldra og börn. Einnig óska ég upplýsinga um hvernig og í hvaða tilgangi svonefnd utangarðsskrá er haldin og hvernig eftirfarandi tengist innbyrðis: veiting dvalarleyfis, úthlutun kennitölu, skráning lögheimilis og skráning í þjóðskrá. Æskilegt er að fram komi hvað af þessu er forsenda annars.

Ég óska þess að svar berist mér eigi síðar en 28. nóvember nk.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Mál nr. 4840/2006.

Hr. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra.

Í lok sumars bárust mér ábendingar og fréttir komu af því í fjölmiðlum að verulegar tafir væru á því að erlendir ríkisborgarar sem hingað kæmu vegna atvinnu fengju útgefnar kennitölur og dvalarleyfi. Af þessu leiddi síðan að vandkvæði væru á því að börn sem hingað hefðu komið með þessum erlendu foreldrum gætu sótt kennslu í grunnskólum í því sveitarfélagi sem þau voru þá búsett. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég aflaði í framhaldi af því voru m.a. af hálfu Þjóðskrár gerðar ráðstafanir til að hraða afgreiðslu á útgáfu kennitölu og fundin var lausn á því að umrædd börn gætu sótt skóla í vetur. Nánari athugun mín á þessum málum hefur hins vegar orðið mér tilefni til að taka til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tiltekin atriði er lúta að málefnum þessara erlendu ríkisborgara sem koma hingað til lands til starfa sem launþegar á hérlendum vinnumarkaði og fjölskyldna þeirra.

Við athugun mína á ofangreindum ábendingum hef ég m.a. staðnæmst við löggjöf og framkvæmd löggjafar er lýtur að veitingu dvalarleyfa til EES borgara. Hef ég veitt því athygli að með nýlegri breytingu á 14. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, sbr. lög nr. 56/2006 er tóku gildi 13. júní 2006, er kveðið á um innheimtu gjalds fyrir afgreiðslu umsókna um EES dvalarleyfi. Er þannig kveðið á um að fyrir afgreiðslu umsóknar um EES dvalarleyfi fyrir 18 ára og eldri skuli innheimta 4.000 kr. fyrir fyrsta leyfi en 2.000 kr. fyrir slíkt leyfi til yngri en 18 ára. Fyrir endurnýjun dvalarleyfa skal síðan innheimta 2.000 kr. vegna 18 ára og eldri en 1.000 kr. fyrir yngri en 18 ára. Í þessu sambandi vek ég athygli á að samkvæmt 9. gr. tilskipunar 68/360/EBE, sem vísað er til í 3. tl. í viðauka V við EES samninginn, er kveðið á um að dvalarleyfi skuli gefin út og endurnýjuð ríkisborgurum aðildarríkjanna að kostnaðarlausu eða gegn greiðslu sem ekki má vera hærri en þeir skattar og gjöld sem ríkisborgarar viðkomandi ríkis þurfa að greiða fyrir kennivottorð, þ.e. nafnskírteini, ef slíkt fyrirkomulag er við lýði í viðkomandi ríki.

Áður en ég tek frekari afstöðu um athugun mína á fyrrgreindri gjaldtöku óska ég með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eftir upplýsingum frá ráðuneyti yðar um hvernig staðið var að undirbúningi frumvarps að umræddri lagabreytingu. Ég óska þannig eftir upplýsingum um afstaða var tekin til þess með tilliti til umræddra EES reglna hvernig gjaldtaka sú er þar er mælt fyrir um samrýmist fyrrgreindri 9. gr. tilskipunarinnar og þar með hvernig fjárhæðir gjaldanna hafi verið miðaðar við einhverja sambærilega gjaldtöku vegna útgáfu kennivottorða eða nafnskírteina eða annað sem fallið getur undir ákvæði tilskipunarinnar, og þá hvaða.

Ég óska þess að svar berist mér eigi síðar en 20. nóvember nk.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Mál nr. 4841/2006.

Vinnumálastofnun.

Í lok sumars bárust mér ábendingar og fréttir komu af því í fjölmiðlum að verulegar tafir væru á því að erlendir ríkisborgarar sem hingað kæmu vegna atvinnu fengju útgefnar kennitölur og dvalarleyfi. Af þessu leiddi síðan að vandkvæði væru á því að börn sem hingað hefðu komið með þessum erlendu foreldrum gætu sótt kennslu í grunnskólum í því sveitarfélagi sem þau voru þá búsett. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég aflaði í framhaldi af því voru m.a. af hálfu Þjóðskrár gerðar ráðstafanir til að hraða afgreiðslu á útgáfu kennitölu og fundin var lausn á því að umrædd börn gætu sótt skóla í vetur. Nánari athugun mín á þessum málum hefur hins vegar orðið mér tilefni til að taka til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tiltekin atriði er lúta að málefnum þessara erlendu ríkisborgara sem koma hingað til lands til starfa sem launþegar á hérlendum vinnumarkaði og fjölskyldna þeirra.

Meðal þess sem fram kom í fréttum fjölmiðla í ágúst og september var að fjöldi erlendra starfsmanna væri hér óskráður. Til dæmis var haft eftir forstjóra Vinnumálastofnunar í Fréttablaðinu 28. ágúst s.l. að hægt væri að „leiða líkur að því að þeir skipti hundruðum erlendu starfsmennirnir sem hafi verið óskráðir hér á landi í sumar“. Einnig kemur fram í inngangi forstjóra að Ársskýrslu Vinnumálastofnunar 2005 að því sé talsvert áfátt að útlendingar séu löglega skráðir á íslenskum vinnumarkaði og hafi ráðið sig til vinnu með lögformlegum hætti. Meðal þess sem ég hef staðnæmst við eru reglur og starfshættir nokkurra stjórnvalda í tengslum við komu einstaklinga frá EES-löndunum hingað til lands, skráningu þeirra og fleira. Þar sem Vinnumálastofnun eru falin veruleg verkefni í sambandi við skráningu útlendinga sem ráðnir eru til starfa í landinu og útlendinga sem hingað koma í atvinnuleit er þetta fyrirspurnarbréf sent.

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 47/1993, sbr. lög nr. 19/2004, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, eins og því var breytt með lögum nr. 21/2006 sem tóku gildi 1. maí 2006 er atvinnurekendum sem ráða til starfa ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands skylt að tilkynna um það til Vinnumálastofnunar. Hið sama gildir um aðstandendur þessara ríkisborgara. Í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. lög nr. 19/2004, eins og því var breytt með lögum nr. 21/2006, kemur fram að tilkynningunni skuli fylgja ráðningarsamningur sem tryggi að laun og önnur starfskjör ríkisborgara frá nefndum átta ríkjum, séu samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum. Tilkynningin skal berast Vinnumálastofnun innan tíu virkra daga frá ráðningu. Vinnumálastofnun skal halda skrá yfir þá útlendinga sem koma frá framangreindum ríkjum til starfa hér. Láti atvinnurekandi hjá líða að senda Vinnumálastofnun tilkynningu getur stofnunin ákveðið að beita hann dagsektum þar til tilkynning berst. Í athugasemdum við frumvarp það er fól í sér ofangreindar lagabreytingar kemur fram að gert sé ráð fyrir því að atvinnurekendur þurfi ekki jafnframt að tilkynna um starfsmenn sína til Útlendingastofnunar heldur áframsendi Vinnumálastofnun upplýsingarnar eftir því sem við getur átt, eins og það er orðað. Þetta breyti því þó ekki að ríkisborgarar framangreindra ríkja þurfi að sækja um EES-dvalarleyfi samkvæmt lögum nr. 96/2002, um útlendinga. Í athugasemdunum segir að tilgangur tilkynningaskyldu atvinnurekenda sé að gefa stjórnvöldum færi á að fylgjast með framvindu mála svo unnt sé að hafa yfirsýn yfir hverjir komi hingað til lands, m.a. til að gæta þess að þeir njóti þeirra réttinda er gilda á innlendum vinnumarkaði. Jafnframt sé mikilvægt að meta áhrif stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins á vinnumarkaðinn og tryggja að unnt sé að bregðast í tíma við aðstæðum sem kunni að leiða til alvarlegrar röskunar. Í athugasemdunum kemur fram að gert sé ráð fyrir að stjórn Vinnumálastofnunar semji verklagsreglur um skráningu stofnunarinnar.

Í ljósi framanritaðs óska ég eftir, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að Vinnumálastofnun upplýsi hvernig lagaskyldu um skráningu erlendra starfsmanna og aðstandenda þeirra er framfylgt, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 47/1993 og lögum nr. 19/2004, eins og þeim var breytt með lögum nr. 21/2006. Einnig óska ég eftir upplýsingum um hvaða aðilar hafa aðgang að skrám stofnunarinnar skv. tilvitnuðu lagaákvæði og hvernig þeim aðgangi er háttað. Í þriðja lagi óskast upplýst hvort stjórn Vinnumálastofnunar hefur samið verklagsreglur um skráningu stofnunarinnar, eins og gert er ráð fyrir í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 21/2006, og ef svo er hver eru ákvæði þeirra. Að lokum óska ég upplýsinga um hvort komið hafi til beitingar viðurlagaákvæðis laga nr. 97/2002 eins og þeim var breytt með lögum nr. 21/2006.

Ég óska þess að svar berist mér eigi síðar en 20. nóvember nk.