Opinberir starfsmenn. Frávikning að fullu. Játning á refsiverðri háttsemi.

(Mál nr. 4601/2005)

A kvartaði yfir ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að víkja honum að fullu úr embætti aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra. Ákvörðun ráðuneytisins byggðist á því mati þess að uppfyllt væru skilyrði 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um að fyrir lægi játning A á refsiverðri háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Umboðsmaður lauk máli þessu með áliti, dags. 31. október 2006. Þar tók hann fram að hann skildi skýringar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins svo að það teldi játningu í merkingu 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 hafa legið fyrir strax eftir fund A með yfirmönnum sínum hjá embætti ríkislögreglustjóra 19. desember 2004, en um það sem fram fór á fundinum rituðu yfirmennirnir minnisblað. Auk þess væri ljóst að ráðuneytið liti svo á að í bréfi sem A ritaði ráðuneytinu 22. desember s.á. hefði falist „ný“ játning sem út af fyrir sig og sjálfstætt hefði uppfyllt skilyrði lagaákvæðisins.

Umboðsmaður taldi að við skýringu ákvæðis 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 bæri að hafa í huga að það fæli ótvírætt í sér undantekningu frá þeirri meginreglu samkvæmt lögunum að við frávikningu embættismanns skyldi fyrst beitt lausn um stundarsakir og mál hans síðan lagt fyrir nefnd sérfróðra manna samkvæmt 27. gr. laganna. Ennfremur yrði að skýra ákvæðið svo að fyrir þyrfti að liggja játning sem fæli í senn í sér að viðkomandi játaði að hafa gert það sem hann væri sakaður um og að sú háttsemi væri honum refsiverð. Umboðsmaður benti á að það væri meginregla okkar réttarríkis að það sé viðfangsefni dómstóla að leggja mat á hvort sekt þess sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi hafi verið sönnuð. Að áliti hans þyrftu stjórnvöld að gæta sérstakrar varúðar við meðferð máls þegar þeim væri í lögum fengin heimild til að byggja ákvarðanir sínar á því að viðkomandi hafi játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi.

Umboðsmaður benti á að hann hefði í áliti sínu í máli nr. 4187/2004 fjallað um hvaða kröfur yrði að gera til þess að yfirlýsing starfsmanns teldist játning í skilningi 2. mgr. 45. gr. laga nr. 70/1996, en það lagaákvæði væri um orðalag samhljóða 3. mgr. 29. gr. laganna. Taldi hann, á grundvelli þess sem fram kom í minnisblaði starfsmanna ríkislögreglustjóra, að ekki hefði nægjanlega verið sýnt fram á að A hefði á fundinum 19. desember 2004 notið þess réttaröryggis sem gera yrði kröfu um ef byggja ætti á því sem þar kom fram um að skilyrði 3. mgr. 29. gr. laganna væru uppfyllt. Þá taldi umboðsmaður að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hefði ekki heldur verið rétt að byggja ályktun sína um að fyrir lægi „játning“ á refsiverðri háttsemi í merkingu lagaákvæðisins á því sem fram kom í bréfi A til ráðuneytisins, dags. 22. desember s.á.

Var niðurstaða umboðsmanns sú að ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að víkja A úr embætti að fullu hefði ekki verið í samræmi við kröfur 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 til þeirrar játningar sem ákvörðun um brottvikningu að fullu, án undanfarandi brottvikningar um stundarsakir, yrði byggð á. Þar sem fyrir lá dómur héraðsdóms, sem ekki var áfrýjað, þar sem A var sakfelldur fyrir brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess að beina þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það tæki mál hans fyrir að nýju. Umboðsmaður beindi hins vegar þeim tilmælum til ráðuneytisins að þeirra sjónarmiða sem hann hefði gert grein fyrir í álitinu yrði framvegis gætt við meðferð mála hjá ráðuneytinu. Taldi umboðsmaður að það yrði að vera verkefni dómstóla að skera úr um hugsanlegan rétt A til skaðabóta vegna ákvörðunar ráðuneytisins.

I. Kvörtun.

Hinn 15. desember 2005 leitaði A til mín vegna ákvörðunar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 28. desember 2004 um að víkja honum að fullu úr embætti aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Laut kvörtun hans meðal annars að því að honum hefði verið gert ókleift að neyta andmælaréttar síns gagnvart ráðuneytinu þar sem máli hans hefði þegar verið vísað til opinberrar meðferðar hjá ríkissaksóknara. Taldi A að 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, stæðu því í vegi að ráðuneytið gæti veitt honum lausn að fullu frá embættinu án þess að fyrir lægi dómur um þær sakir sem á hann voru bornar, enda hefði hann ekki játað á sig refsiverða háttsemi.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 31. október 2006.

II. Málavextir.

Málavextir eru þeir að hinn 19. desember 2004 var A kallaður á fund C, vararíkislögreglustjóra, og D, yfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra. Var honum gerð grein fyrir grunsemdum sem vaknað hefðu um að hann hefði brotið af sér í starfi með ráðstöfun á tveimur bifreiðum í eigu embættisins og var honum boðið að skýra málið. Rituðu D og C minnisblað um þennan fund að honum loknum, sem hljóðar svo í heild sinni:

„Er farið var yfir gögn um sölu bifreiða í eigu Ríkislögreglustjórans á liðnum árum kom í ljós að ein bifreið [X] sem verið hafði á viðfangsefnalista embættisins yfir bifreiðar á árinu 2001 var þar ekki lengur og heldur ekki gögn um sölu hennar. Var því leitað upplýsinga hjá Skráningarstofu og kom þá í ljós samkvæmt sölutilkynningu, að [A], aðstoðaryfirlögregluþjónn við embættið selur eiginkonu sinni [B] bifreiðina hinn 20. júní 2001. Ekki er að finna í gögnum embættisins að fjármunir (endurgjald) hafi komið fyrir bifreiðina.

Allar bifreiðir sem embættið selur fara til sölumeðferðar hjá Ríkiskaupum sem alfarið sér um það ferli og gerir svo embætti ríkislögreglustjóra grein fyrir sölu bifreiðarinnar, annast tilkynningar um eigendaskipti, innheimtir sölulaun og leggur söluandvirði inn á reikning ríkislögreglustjóra sem tekjufærir andvirðið sem sértekjur í bókhaldi embættisins.

Ríkissaksóknara var gert viðvart um þessar grunsemdir föstudaginn 17. desember 2004 og var þá ákveðið að kanna málið frekar áður en málinu yrði formlega vísað til ríkissaksóknara.

Í dag sunnudaginn 19. desember 2004 kl. 16.50 kom [A] samkvæmt boðun til viðtals við [D], vararíkislögreglustjóra og [C], yfirlögregluþjón. [D] gerði honum grein fyrir tilefni fundarins og kynnti honum hvað eftirgrennslan embættisins varðandi sölu hans á bifreiðinni [X] hefði leitt í ljós. Var honum boðið að skýra málið. [A] var sýnilega brugðið og tók hann sér langan frest til umhugsunar. Eftir drjúgan tíma sagði hann það rétt vera að hann hefði undirritað sölutilkynninguna þar sem hann selur bifreiðina eiginkonu sinni. Hann sagði hana ekki vita hvernig í pottinn hefði verið búið. Hann sagði það rétt vera að ekkert endurgjald hefði komið fyrir bifreiðina en hann hefði velt því fyrir sér síðar hvernig hann gæti gert hreint fyrir sínum dyrum með því að koma endurgjaldi til Ríkislögreglustjórans. Að hans sögn strandaði það á því að hann taldi að skrifstofustjóri embættisins myndi aldrei hafa tekið það í mál. Það mál hefði því ekki komist í höfn. Hann sagðist í dag hafa tök á því að greiða andvirði bifreiðarinnar en hann mat verðmæti hennar 2001 verandi ca. kr. [...].- og gat þess að vélin hefði verið ónýt. [A] kvaðst ekki hafa misfarið með sölur annarra bifreiða á vegum embættisins. Honum voru gefin fyrirmæli um að skila bifreiðinni [X] til embættisins.

Þá var [A] kynnt það, að komið hefði í ljós að hann hefði án vitundar yfirstjórnar embættisins í marsmánuði 2004 tekið bifreiðina [Y] úr sölumeðferð hjá Ríkiskaupum og haft hana til eigin nota í u.þ.b. níu mánuði og ekið henni um 9000 km. [A] gekkst við þessu en tjáði sig ekki um þetta atriði að öðru leyti. Bifreiðinni skilaði hann að fyrirmælum [C] hinn 11. desember sl.

[A] var greint frá því að þar sem hann hefði nú gengist við refsiverðri háttsemi yrði málinu vísað til lögboðinnar meðferðar. Honum var gert ljóst að hann skyldi ekki koma til vinnu að morgni. Honum var greint frá því að hann hefði frest til hádegis mánudaginn 20. þ.m. til að segja starfi sínu lausu eða eiga von á bréfi þar sem honum væri vikið frá störfum. Hann sagðist myndu hugleiða það. Hann afhenti lögregluskilríki sín, tvo masterlykla og farsíma. Hann óskaði eftir að fá að taka persónulega muni úr skrifborði sínu og var fallist á að það yrði gert í viðurvist yfirlögregluþjóns.

Viðtali þessu lauk kl. 17.25.

Er [A] hafði fjarlægt persónulega muni úr skrifborði sínu óskaði hann eftir viðtali við [D]. Tilefni þess var að leita eftir því hvort efni væru til mildunar af einhverju tagi. Undirritaður sagði að ákvörðun hefði verið tekin um meðferð máls, en sagðist myndu flytja ríkislögreglustjóra þessa beiðni hans.

Bifreiðinni [X] skilaði [A] til embættisins um kvöldið.“

Minnisblað þetta var sent dóms- og kirkjumálaráðuneytinu daginn eftir fundinn, eða hinn 20. desember 2004, í framhaldi af samtali ríkislögreglustjóra við skrifstofustjóra ráðuneytisins þar sem hinum síðarnefnda var greint frá ætlaðri refsiverðri háttsemi A. Jafnframt var ríkissaksóknara send formleg kæra vegna málsins sama dag. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið ritaði A bréf samdægurs þar sem honum var kynnt að ráðuneytið hefði til skoðunar hvort víkja ætti honum úr starfi, „eftir atvikum samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 26. gr. eða 3. mgr. 29. gr. laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna nr. 70/1996“. Var honum veittur frestur til kl. 16:00 hinn 22. desember 2004 til andmæla.

A svaraði bréfi ráðuneytisins með bréfi, dags. 22. desember s.á. Þar kom fram að hann hefði gefið skýringar í viðtali við yfirmenn sína 19. desember 2004 og að málinu hefði verið vísað til ríkissaksóknara 20. s.m. Kvaðst A ekki geta nýtt sér andmælarétt sinn lögum samkvæmt að svo stöddu þar sem mál hans væri til rannsóknar hjá ríkissaksóknara. Sagði síðan í bréfi hans:

„Ég vil leyfa mér að ítreka að aldrei stóð til að halda bifreiðinni [X] án þess að endurgjald kæmi fyrir hana. Ég harma mjög mistök mín sem enginn annar tók þátt í eða hafði vitneskju um. Bið ég um mildilega málsmeðferð eftir 34 ára þjónustu hjá ráðuneytinu.“

Með bréfi, dags. 28. desember 2004, tilkynnti dóms- og kirkjumálaráðuneytið A að honum væri vikið að fullu úr embætti aðstoðaryfirlögregluþjóns. Í niðurlagi bréfsins sagði:

„Samkvæmt skýrslu um samtal yðar við [D] vararíkislögreglustjóra og [C] yfirlögregluþjón liggur fyrir játning yðar á refsiverðri háttsemi sem hefur í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Fram kemur í framangreindu bréfi yðar að aldrei hafi staðið til að halda bifreiðinni án þess að endurgjald kæmi fyrir. Umrædd athugasemd yðar breytir með engum hætti því sem fyrir liggur í máli þessu. Með hliðsjón af framangreindu og fyrirliggjandi játningar yðar á refsiverðri háttsemi er yður hér með vikið að fullu úr embætti aðstoðaryfirlögregluþjóns, skv. 3. mgr. 29. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, frá og með deginum í dag að telja.“

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2005, fór lögmaður A fram á það við dóms- og kirkjumálaráðuneytið að það endurskoðaði ákvörðun sína um lausn A með vísan til þess að A kannaðist hvorki við að hafa játað refsiverða háttsemi í samtali við vararíkislögreglustjóra og yfirlögregluþjón við embætti ríkislögreglustjóra sem átti sér stað 19. desember 2004 né í bréfi sínu til ráðuneytisins, dags. 22. desember s.á. Með bréfi, dags. 1. apríl 2005, hafnaði ráðuneytið beiðni lögmannsins um endurskoðun ákvörðunarinnar. Tók ráðuneytið fram að staðið hefði verið að ákvörðun þess með lögmætum hætti og að „sú breytta afstaða“ A sem fram kæmi í bréfi lögmannsins kallaði ekki á endurskoðun ákvörðunar ráðuneytisins.

Hinn 2. júní 2005 var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli ákæruvaldsins gegn A, þar sem hann var dæmdur til að sæta skilorðsbundinni fangelsisvist fyrir fjárdrátt og misnotkun aðstöðu í opinberu starfi. Eins og áður sagði leitaði A til mín í desember 2005 þar sem hann taldi að ranglega hefði verið staðið að starfslokum hans hjá embætti ríkislögreglustjóra.

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, dags. 23. janúar 2006, þar sem ég óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið lýsti viðhorfi sínu til kvörtunarinnar og léti mér í té gögn málsins. Í bréfi mínu vakti ég athygli ráðuneytisins á því að ég hefði í áliti mínu frá 15. apríl 2005 í máli nr. 4187/2004 fjallað um hvaða kröfur verði að gera til þess að yfirlýsing starfsmanns teljist játning í skilningi 2. mgr. 45. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en það lagaákvæði væri um orðalag samhljóða 3. mgr. 29. gr. laganna. Ég óskaði þess sérstaklega að ráðuneytið skýrði nánar hvaða sjónarmið hefðu búið að baki því viðhorfi þess að játning A hefði legið fyrir þegar ákvörðun var tekin um að víkja honum úr embætti að fullu. Í því sambandi óskaði ég meðal annars skýringa á því hvaða vægi annars vegar „ómótmæltar“ staðhæfingar um játningu A í minnisblaði tveggja yfirmanna hans og hins vegar síðari málsgrein bréfs A til ráðuneytisins, dags. 22. desember 2004, hefðu haft í því mati ráðuneytisins að játning hans lægi fyrir.

Mér barst svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með bréfi, dags. 7. mars 2006, ásamt umbeðnum gögnum. Í bréfinu segir m.a.:

„Að mati ráðuneytisins var staðið að meðferð máls þessa og þeirri ákvörðun að vísa [A] að fullu úr embætti í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og stjórnsýslulög. Eins og fram kemur í gögnum málsins hófst það með því að ráðuneytinu var með bréfi ríkislögreglustjóra dags. 20. des. 2004 gerð grein fyrir því að ein bifreið, sem verið hafði á viðfangsefnalista ríkislögreglustjóra á árinu 2001, væri ekki á þeim lista, en engin gögn lágu fyrir um sölu hennar. Upplýsinga var því leitað hjá ökutækjaskrá og kom þá í ljós að kvartandi í máli þessu hafði samkvæmt sölutilkynningu selt eiginkonu sinni umrædda bifreið. Ekkert kom fram í gögnum embættisins að endurgjald hefði komið fyrir umrædda bifreið. Kvartandi var sunnudaginn 19. desember 2004 boðaður til viðtals við [D] vararíkislögreglustjóra og [C] yfirlögregluþjón þar sem honum var gerð grein fyrir framangreindu. Í minnisblaði dags. 19. desember 2004 kemur fram að kvartandi hafi í því viðtali viðurkennt að hafa undirritað framangreinda sölutilkynningu og staðfesti hann jafnframt að ekkert endurgjald hefði komið fyrir bifreiðina. Jafnframt gekkst kvartandi við því að hafa haft aðra bifreið í eigu embættis ríkislögreglustjóra til einkanota án heimildar um níu mánaða skeið árið 2004. Í minnisblaðinu kemur fram að kvartanda hafi verið gerð grein fyrir því að þar sem hann hefði gengist við refsiverðri háttsemi yrði málinu vísað til lögboðinnar meðferðar. Fram kemur í minnisblaðinu að hann hafi skilað umræddri bifreið til embættisins sama kvöld.

Með bréfi dags. 20. desember 2004 var kvartanda gerð grein fyrir því að ráðuneytið væri með mál hans til meðferðar með vísan til framangreinds bréfs ríkislögreglustjóra dags. sama dag. Var honum tilkynnt að ráðuneytið væri með til skoðunar hvort víkja ætti honum úr starfi, eftir atvikum samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 26. gr. eða 3. mgr. 29. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Var honum gefinn kostur á að tjá sig um málið áður en ákvörðun yrði tekin. Var frestur í því skyni veittur til 22. desember 2004. Með bréfi kvartanda dags. 22. desember 2004 til ráðuneytisins var tekið fram að í ljósi þess að mál hans væri til rannsóknar hjá ríkissaksóknara gæti hann ekki nýtt sér andmælarétt sinn lögum samkvæmt að svo stöddu. Engu að síður var tekið fram í bréfinu að aldrei hefði staðið til að halda umræddri bifreið án þess að endurgjald kæmi fyrir hana. „Ég harma mjög mistök mín sem enginn annar tók þátt í eða hafði vitneskju um“ segir síðan í framangreindu bréfi.

Ráðuneytið tók þá ákvörðun 28. desember 2004 að vísa [A] að fullu úr embætti með vísun til 3. mgr. 29. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Byggðist sú ákvörðun á fyrirliggjandi gögnum og því mati ráðuneytisins að ótvírætt lægi fyrir játning kvartanda um refsiverða háttsemi, í skilningi 3. mgr. 29. gr. laganna.

Með bréfi lögmanns kvartanda, dags. 22. febrúar 2005, var óskað eftir því að ráðuneytið endurskoðaði framangreinda ákvörðun. Því var hafnað með rökstuddu bréfi, dags. 1. apríl 2005.

Að mati ráðuneytisins er enginn vafi á því að kvartandi í máli þessu játaði refsiverða háttsemi í skilningi 3. mgr. 29. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þann 19. desember 2004. Skýrt er tekið fram í greinargerð með ákvæði þessu að nægilegt teljist, til að unnt sé að beita ákvæðinu, að embættismaður hafi játað háttsemi sem í ákvæðinu greinir, en opinbert mál þarf ekki að hafa verið höfðað á hendur honum eða dómur gengið til að ákvæðið eigi við. Rétt er að taka fram að í máli þessu átti í hlut háttsettur embættismaður innan lögreglunnar, með áratuga reynslu af lögreglustörfum. Játning hans var staðfest af yfirmönnum hans, annars vegar vararíkislögreglustjóra sem er löglærður og yfirlögregluþjóni. Eins og rakið er í minnisblaði framangreindra aðila frá 19. desember 2004 var kvartanda gerð grein fyrir því í því viðtali sem hann var boðaður til sama dag, að þar sem hann hefði nú gengist við refsiverðri háttsemi yrði málinu vísað til lögboðinnar meðferðar. Það var og gert með bréfum ríkislögreglustjóra daginn eftir til ríkissaksóknara og ráðuneytisins.

Samkvæmt ábendingum yðar hefur ráðuneytið sérstaklega farið yfir mál nr. 4187/2004. Í áliti yðar segir m.a. að til að starfsmaður verði talinn hafa „játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi“ þurfi yfirlýsing hans um háttsemi sína að fela í sér viðurkenningu hans á því að hann hafi gert það sem hann er sakaður um og að sú háttsemi sé refsiverð. Í áliti yðar segir síðan: „Þegar þetta er haft í huga og þegar enn fremur er gætt að réttaráhrifum þeirrar játningar, sem þarf að liggja fyrir til að ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga nr. 70/1996 verði beitt, tel ég að slík játning verði a.m.k. að hafa verið gefin við aðstæður þar sem starfsmaðurinn má gera sér grein fyrir að hann sé grunaður um háttsemi sem sé refsiverð.“

Í máli því sem hér er til umræðu er skýrt, að kvartandi játaði brot sitt með viðurkenningu á því, áður en dóms- og kirkjumálaráðuneytið tók ákvörðun sína 28. desember 2004. Hér er um refsivert brot að ræða. Kvartandi gerði sér fyllilega grein fyrir því, að hann væri grunaður [um] refsiverða háttsemi, ef ekki hefði hann ekki verið starfi sínu vaxinn sem aðstoðaryfirlögregluþjónn. Jafnframt er ljóst að ekki fór á milli mála, samkvæmt framangreindu minnisblaði, að kvartanda var gerð grein fyrir því að þar sem hann hefði játað refsiverðan verknað yrði málinu vísað til lögboðinnar meðferðar. Í meðferð málsins af hálfu ráðuneytisins í kjölfarið var honum gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum. Í bréfi hans til ráðuneytisins dags. 22. desember 2004 játaði hann á ný háttsemi sem að mati ráðuneytisins er refsiverð og þar með voru skilyrði 3. mgr. 29. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins fyrir tafarlausri brottvikningu uppfyllt.

Hvað varðar óskir yðar um skýringar á annars vegar vægi „ómótmæltrar“ staðhæfingar um játningu og hins vegar hvaða þýðingu síðari málsgrein bréfs kvartanda til ráðuneytisins frá 22. desember 2004 hafi haft á það mat ráðuneytisins að játning hans lægi fyrir, þá er það skýrt hér að framan. Ráðuneytið gaf kvartanda með bréfi sínu dags. 20. desember 2004 kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í framangreindu bréfi hans, í síðari málsgrein þess, játar hann á ný umrædda háttsemi sem eins og áður sagði er refsiverð að mati ráðuneytisins. Rétt er að taka það fram að sá skilningur ráðuneytisins var staðfestur með dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. júní 2005, þar sem kvartandi var sakfelldur fyrir þau brot sem urðu tilefni framangreindrar brottvikningar úr starfi. Þeim dómi var ekki áfrýjað.“

Með bréfi, dags. 8. mars 2006, kynnti ég A bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og gaf honum kost á að senda mér þær athugasemdir sem hann teldi ástæðu til að gera í tilefni af því. Mér barst bréf með athugasemdum hans 30. mars 2006.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1.

Kvörtun A lýtur að því að ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að víkja honum að fullu úr embætti aðstoðaryfirlögregluþjóns hafi ekki samræmst lögum þar sem ekki hafi legið fyrir játning hans í skilningi 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Fram kemur í kvörtuninni að A telji það engu máli skipta þótt hann hafi, hinn 2. júní 2005, „gegn andmælum [hans]“ hlotið dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir þær sakir sem á hann voru bornar, sem ekki var áfrýjað til Hæstaréttar.

Athugun mín í tilefni af kvörtun A hefur, í samræmi við framangreint, beinst að því hvort ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að víkja honum úr embætti að fullu á grundvelli 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 hafi samræmst lögum. Niðurstaða um það veltur, annars vegar, á því álitaefni hvaða kröfur verði að gera til þess að það skilyrði fyrir brottvikningu embættismanns að fullu samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996, að hann hafi játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla má að hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, teljist uppfyllt og, hins vegar, á því hvort þær ályktanir sem ráðuneytið dró af gögnum málsins hafi samræmst þessum kröfum.

2.

Í kvörtun A kemur fram að hann hafi gegnt starfi lögreglumanns í 34 ár og hafi gegnt embætti aðstoðaryfirlögregluþjóns er honum var vikið úr starfi. Ekki kemur annað fram í gögnum málsins en að það hafi verið aðalstarf hans. Er því óhætt að ganga út frá því að lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hafi gilt um starf hans og ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um lausn frá því, sbr. 1. gr. laganna.

Lögreglumenn teljast til embættismanna í skilningi laga nr. 70/1996, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 22. gr. þeirra. Sérstök ákvæði um embættismenn í II. hluta tilvitnaðra laga, þ. á m. VI. kafli laganna (26.–37. gr.), um lausn frá embætti, gilda því um lögreglumenn.

Í 26.–28. gr. laga nr. 70/1996 er fjallað um heimild stjórnvalda til að veita embættismanni lausn frá embætti sínu um stundarsakir. Samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 26. gr. laganna má veita embættismanni lausn frá embætti um stundarsakir ef hann er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Af 4. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 leiðir að ekki er skylt að veita embættismanni undanfarandi áminningu við slíkar aðstæður. Hafi embættismanni verið veitt lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi skal mál hans þá þegar rannsakað af nefnd sérfróðra manna svo að upplýst verði hvort rétt sé að veita honum lausn að fullu eða láta hann taka aftur við embætti sínu, sbr. 27. gr. laganna.

Í 29. gr. laganna ræðir um það í hvaða tilvikum víkja skuli embættismanni úr embætti að fullu, en ákvæðið er svohljóðandi:

„Embættismanni skal víkja úr embætti að fullu ef hann hefur verið sviptur með fullnaðardómi rétti til að gegna því embætti. Nú hefur starfsmaður verið sviptur þeim rétti með dómi í héraði, og skal þá í þeim dómi kveða á um hvort það ákvæði hans skuli þegar koma til framkvæmdar eða fresta því þar til ráðið verður hvort honum skuli skjóta til æðra dóms eða þar til úrlausn æðra dóms er fengin.

Embættismanni skal víkja úr embætti að fullu ef meiri hluti nefndar skv. 27. gr. kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að víkja honum frá störfum um stundarsakir nema þær ávirðingar, sem honum voru gefnar að sök, hafi ekki reynst vera fyrir hendi.

Embættismanni skal og víkja úr embætti að fullu, án fyrirvara, ef hann hefur játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla má að hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga.“

Í athugasemdum með 29. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 70/1996 segir svo um þetta ákvæði:

„Ákvæði 1. mgr. eru þau sömu og 12. gr. laga nr. 38/1954 og þarfnast ekki skýringa.

2. mgr. er í samræmi við þá framkvæmd sem hefur tíðkast þegar mál hafa verið rannsökuð af kunnáttumönnum skv. III. kafla laga nr. 38/1954.

3. mgr. er nýmæli sem skyldar veitingarvaldshafa til að víkja embættismanni frá embætti að fullu ef hann hefur játað þá háttsemi sem í ákvæðinu greinir. Nægilegt telst að embættismaður hafi játað háttsemina, en opinbert mál þarf ekki að hafa verið höfðað á hendur honum eða dómur gengið til að ákvæði þetta eigi við.“ (Alþt. 1995—1996, A-deild, bls. 3153.)

Ekki er frekari leiðbeiningar að finna í athugasemdum með frumvarpinu um þær lágmarkskröfur sem gera verður til játningar embættismanns samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laganna.

3.

Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín kemur fram að ákvörðun um að víkja A að fullu úr embætti hafi byggst á „fyrirliggjandi gögnum og því mati ráðuneytisins að ótvírætt lægi fyrir játning [hans] um refsiverða háttsemi, í skilningi 3. mgr. 29. gr. [laga nr. 70/1996]“. Að mati ráðuneytisins sé enginn vafi á því að A hafi játað refsiverða háttsemi í skilningi lagaákvæðisins hinn 19. desember 2004. Ég skil skýringar ráðuneytisins svo að það telji játningu í merkingu 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 hafa legið fyrir strax eftir fund A með yfirmönnum sínum hjá embætti ríkislögreglustjóra sem fram fór þann dag, en um það sem fram fór á fundinum rituðu yfirmennirnir minnisblað, sem birt er í heild sinni í kafla II hér að framan.

Jafnframt segir í skýringum ráðuneytisins að A hafi í bréfi sínu til ráðuneytisins, dags. 22. desember 2004, „á ný“ játað háttsemi sem að mati ráðuneytisins sé refsiverð og þar með hafi skilyrði 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 fyrir tafarlausri brottvikningu verið uppfyllt. Skil ég skýringar ráðuneytisins svo að það líti svo á að í þessu bréfi A hafi falist „ný“ játning sem út af fyrir sig og sjálfstætt hafi uppfyllt skilyrði ákvæðisins.

Loks bendir ráðuneytið á að sá skilningur þess að A hefði játað þau brot sem honum voru gefin að sök hafi verið „staðfestur“ með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. júní 2005, þar sem A var sakfelldur fyrir þau brot sem urðu tilefni brottvikningar hans úr starfi.

Ákvörðun stjórnvalds um að víkja embættismanni að fullu úr starfi verður því aðeins að réttu lagi tekin, að hún uppfylli þau efnislegu skilyrði sem tilgreind eru í 29. gr. laganna. Séu ákvæði greinarinnar skýrð samkvæmt orðanna hljóðan verður frávikningu að fullu, án undanfarandi lausnar um stundarsakir, því aðeins beitt að annað tveggja liggi fyrir, að embættismaður hafi með fullnaðardómi verið sviptur rétti til að gegna embætti sínu, sbr. 1. mgr. greinarinnar, eða að hann hafi játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla má að hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Eru því þröng skilyrði sett fyrir því að komið geti til þess að embættismanni verði að fullu vikið úr starfi án undanfarandi lausnar um stundarsakir. Við skýringu á ákvæði 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 tel ég því að hafa beri í huga að ákvæðið felur ótvírætt í sér undantekningu frá þeirri meginreglu samkvæmt lögum nr. 70/1996 að við frávikningu embættismanns skuli fyrst beitt lausn um stundarsakir og mál hans síðan lagt fyrir nefnd sérfróðra manna samkvæmt 27. gr. sömu laga sem meti hvort rétt sé að honum verði veitt lausn að fullu, sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 13. október 1998 í máli nr. 2127/1997.

Vegna tilvísunar ráðuneytisins til þess að í athugasemdum við 29. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 70/1996 segi að nægilegt teljist að embættismaður hafi játað háttsemi, en opinbert mál þurfi ekki að hafa verið höfðað á hendur honum eða dómur gengið til að ákvæðið eigi við, tel ég rétt að benda á að orðalag ákvæðisins sjálfs hljóðar um að viðkomandi hafi játað að hafa gerst sekur um „refsiverða háttsemi“ og það leiðir til þess að skylt verður að víkja embættismanni úr embætti að fullu, án fyrirvara. Ég tel því að skýra verði þetta ákvæði svo að fyrir þurfi að liggja játning sem felur í senn í sér að viðkomandi játi að hafa gert það sem hann er sakaður um og að sú háttsemi sé honum refsiverð. Hér þarf líka að hafa í huga þá meginreglu 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 að hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Það er jafnframt meginregla okkar réttarríkis að það er viðfangsefni dómstóla að leggja mat á hvort sú er raunin. Að mínu áliti þurfa stjórnvöld að gæta sérstakrar varúðar við meðferð máls þegar þeim er í lögum fengin heimild til að byggja ákvarðanir sínar á því að viðkomandi hafi játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi. Ákvörðun stjórnvalds um að víkja embættismanni úr starfi á grundvelli 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 byggir á því að stjórnvaldið leggur til grundvallar að viðkomandi einstaklingur hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi án þess að hann hafi átt þess kost að fá leyst úr málinu fyrir dómstól, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Í fyrirspurnarbréfi mínu til ráðuneytisins vakti ég athygli þess á að ég hefði í áliti mínu frá 15. apríl 2005 í máli nr. 4187/2004 fjallað um hvaða kröfur verði að gera til þess að yfirlýsing starfsmanns teljist játning í skilningi 2. mgr. 45. gr. laga nr. 70/1996, en það lagaákvæði er um orðalag samhljóða 3. mgr. 29. gr. laganna. Í skýringum sínum til mín vísar ráðuneytið til eftirfarandi kafla úr þessu áliti mínu:

„Orðalag 2. mgr. 45. gr. laganna gefur að mínu áliti til kynna að til að starfsmaður verði talinn hafa „játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi“ þurfi yfirlýsing hans um háttsemi sína að fela í sér viðurkenningu hans á því að hann hafi gert það sem hann er sakaður um og að sú háttsemi sé refsiverð. Þegar þetta er haft í huga og þegar enn fremur er gætt að réttaráhrifum þeirrar játningar, sem þarf að liggja fyrir til að ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga nr. 70/1996 verði beitt, tel ég að slík játning verði a.m.k. að hafa verið gefin við aðstæður þar sem starfsmaðurinn má gera sér grein fyrir að hann sé grunaður um háttsemi sem sé refsiverð.“

Í þessu sambandi bendir ráðuneytið á að A hafi gert sér „fyllilega grein fyrir því, að hann væri grunaður [um] refsiverða háttsemi, ef ekki hefði hann ekki verið starfi sínu vaxinn sem aðstoðaryfirlögregluþjónn“. Jafnframt bendir ráðuneytið á að samkvæmt minnisblaði embættis ríkislögreglustjóra hafi A verið „gerð grein fyrir því að þar sem hann hefði játað refsiverðan verknað yrði málinu vísað til lögboðinnar meðferðar“. Virðist ráðuneytið þannig líta svo á að yfirlýsingar A á fundi hans með yfirmönnum sínum 19. desember 2004 hafi verið gefnar við aðstæður þar sem hann hafi mátt gera sér grein fyrir að hann væri grunaður um refsiverða háttsemi og að það hafi verið fullnægjandi til að skilyrði 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 teldust uppfyllt.

Ráðuneytið víkur ekki frekar að því sem fram kemur í áliti mínu í máli nr. 4187/2004. Í beinu framhaldi af þeirri málsgrein þessa álits míns sem rakin er hér að ofan kemur málsgrein þar sem segir m.a.:

„Almennt er að lögum gert ráð fyrir að yfirlýsingar, sem lagðar verða til grundvallar því að viðkomandi hafi játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi, séu gefnar fyrir lögreglu eða dómi þar sem fylgt er ákveðnum réttarfars- og málsmeðferðarreglum, þ.m.t. um upplýsingagjöf til viðkomandi um sakarefnið, rétt hans til að neita að tjá sig og leita sér aðstoðar talsmanns eða réttargæslumanns. Að því marki sem hugsanlega kann að koma til greina að fallast megi á að yfirlýsing starfsmanns, sem gefin er fyrir öðrum starfsmönnum stjórnvalds, feli í sér að hann teljist hafa játað á sig refsiverða háttsemi í merkingu 2. mgr. 45. gr. laga nr. 70/1996, tel ég að það geti aðeins komið til álita ef skýrt liggur fyrir að hann megi gera sér grein fyrir eðli og þýðingu yfirlýsingarinnar og að fullt tillit sé tekið til réttaröryggis hans í málinu.“

Í áliti því sem hér er vitnað til benti ég m.a. á að sá aðili sem átti í hlut „naut ekki réttarstöðu sakbornings“ á fundi með yfirmönnum sínum þar sem hún viðurkenndi tiltekna háttsemi, henni virtist ekki hafa verið bent á að hún væri grunuð um brot gegn almennum hegningarlögum og ekki virtist henni hafa verið „leiðbeint um það hvaða þýðingu talið var að yfirlýsing hennar hefði að lögum“. Var niðurstaða mín í þessu máli sú að ég taldi ekki liggja fyrir að viðurkenning þess aðila sem þar átti í hlut hefði falið í sér játningu um að hún hefði gerst sek um refsiverða háttsemi, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 70/1996.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar háttar svo til að vinnuveitandi A var embætti ríkislögreglustjóra. Því hefur ekki verið borið við af hálfu ráðuneytisins að viðtal það sem yfirmenn A áttu við hann 19. desember 2004 hafi verið liður í rannsókn opinbers máls og að álit mitt í máli nr. 4187/2004 hafi ekki þýðingu í þessu máli sökum þess. Liggur enda ekkert fyrir um að ríkissaksóknari, sem samkvæmt 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fer með vald til að rannsaka meint refsiverð brot lögreglumanna, hafi óskað formlega aðstoðar ríkislögreglustjóra við rannsókn máls A. Raunar verður af minnisblaði starfsmanna ríkislögreglustjóra ráðið að á þeim tíma er viðtalið fór fram hafi ekki enn legið fyrir ákvörðun ríkissaksóknara um að hefja formlega rannsókn á máli hans. Geng ég því í áliti þessu út frá því að viðtalið hafi ekki verið liður í rannsókn opinbers máls, enda hefði þá beinlínis hvílt lagaskylda á embætti ríkislögreglustjóra til að fylgja réttarfarsreglum laga um meðferð opinberra mála.

Í minnisblaði sem ritað var um fundinn, sem rakið er í heild sinni í kafla II hér að framan, segir m.a. að A hafi verið gerð grein fyrir „tilefni fundarins“, honum kynnt „hvað eftirgrennslan embættisins varðandi sölu hans á bifreiðinni [X] hefði leitt í ljós“ og honum boðið að „skýra málið“. Eru síðan rakin viðbrögð og frásögn A. Því næst segir í minnisblaðinu að A hafi verið kynnt að „komið hefði í ljós að hann hefði án vitundar yfirstjórnar embættisins í marsmánuði 2004 tekið bifreiðina [Y] úr sölumeðferð hjá Ríkiskaupum og haft hana til eigin nota í u.þ.b. níu mánuði og ekið henni um 9000 km“. Um viðbrögð A segir að hann hafi gengist við þessu en ekki tjáð sig um þetta atriði að öðru leyti. Segir síðan í minnisblaðinu að A hafi verið „greint frá því að þar sem hann hefði nú gengist við refsiverðri háttsemi yrði málinu vísað til lögboðinnar meðferðar“. Þá hafi honum verið greint frá því að hann hefði frest til hádegis daginn eftir til að „segja starfi sínu lausu eða eiga von á bréfi þar sem honum væri vikið frá störfum“. Loks er greint frá því í minnisblaðinu að eftir viðtalið hafi A komið að máli við D og leitað eftir því „hvort efni væru til mildunar af einhverju tagi“. Minnisblaðið er undirritað af D, vararíkislögreglustjóra, og C, yfirlögregluþjóni.

Ekki er að sjá að A hafi verið gefið færi á að lesa yfir og undirrita minnisblað það sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið byggði ákvörðun sína á. Skortir því sönnun um það hvort og þá hvernig réttaröryggis hans hafi verið gætt í umræddu viðtali, auk þess sem A gafst þannig ekki færi á að gera athugasemdir við efnisatriði eða orðalag þess sem haft var eftir honum. Í minnisblaðinu er ekki getið um að A hafi verið gerð grein fyrir því að hann væri grunaður um refsivert brot, áður en hann var spurður út í ráðstöfun bifreiðanna, heldur virðist honum fyrst hafa verið gerð grein fyrir því, eftir að hann hafði tjáð, sig að embættið liti svo á að „hann hefði nú gengist við refsiverðri háttsemi“. Var honum, samkvæmt því sem fram kemur í minnisblaðinu, þá jafnframt gerð grein fyrir því að málinu yrði „vísað til lögboðinnar meðferðar“ án þess að séð verði að honum hafi verið gerð grein fyrir í hverju slík meðferð myndi felast, að öðru leyti en því að honum var „greint frá því að hann hefði frest til hádegis mánudaginn 20. [desember 2004] til að segja starfi sínu lausu eða eiga von á bréfi þar sem honum væri vikið frá störfum“. Er þannig ekki að sjá að honum hafi, hvorki áður né eftir að hann hafði tjáð sig, verið gerð grein fyrir ákvæðum 26. og 29. gr. laga nr. 70/1996 og því að játning hans á refsiverðri háttsemi kynni að leiða til þess að honum yrði þegar vikið úr embætti að fullu á þeim grundvelli, án undanfarandi brottvikningar um stundarsakir. Ég tel, á grundvelli þess sem fram kemur í minnisblaði starfsmanna ríkislögreglustjóra, að ekki hafi nægjanlega verið sýnt fram á að A hafi á fundinum 19. desember 2004 notið þess réttaröryggis sem gera verður kröfu um ef byggja átti á því að skilyrði 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 um að fyrir lægi játning um refsiverða háttsemi væri uppfyllt.

Vegna þeirrar athugasemdar sem fram kemur í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín að „í máli þessu átti í hlut háttsettur embættismaður innan lögreglunnar, með áratuga reynslu af lögreglustörfum“ og að játning hans hafi verið „staðfest af yfirmönnum hans, annars vegar vararíkislögreglustjóra sem er löglærður og yfirlögregluþjóni“ tel ég rétt að taka fram að réttarfarslög gera ekki ráð fyrir því að veita beri mönnum sem þekkingu hafa á refsivörslukerfinu, t.d. lögreglumönnum eða lögfræðingum, lakari réttarvernd en öðrum þegar teknar eru skýrslur af þeim vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi. Fæ ég ekki séð að rök standi til þess að gerður sé greinarmunur á mönnum að þessu leyti þegar stjórnvald kannar hvort skilyrði séu til að víkja embættismanni að fullu úr embætti á grundvelli játningar á refsiverðum verknaði samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996. Þá tel ég þá staðreynd, að meint „játning“ A hafi verið staðfest af háttsettum yfirmönnum innan lögreglunnar, frekar hafa þau áhrif að þeim hafi mátt vera ljóst hvernig rétt væri að standa að viðtalinu þannig að réttaröryggi A væri tryggt.

Samkvæmt framangreindu tel ég að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hafi ekki verið rétt að byggja ályktun sína um að fyrir lægi „játning“ á refsiverðri háttsemi í merkingu 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 á minnisblaði starfsmanna ríkislögreglustjóra.

Vegna þess sem fram kemur í minnisblaðinu um að A hafi verið boðið að „segja starfi sínu lausu eða eiga von á bréfi þar sem honum væri vikið frá störfum“ tek ég fram að eins og kvörtun þessa máls hljóðar er ekki tilefni til að ég fjalli sérstaklega um það hvort embætti ríkislögreglustjóra hafi verið rétt að leggja að A með þessum hætti að segja starfi sínu lausu. Ég minni einungis á að ég tel það heyra til sérstakra undantekninga að stjórnvaldi sé að eigin frumkvæði rétt að halda að starfsmanni þeim kosti að segja sjálfur upp störfum og að slíkt geti aðeins komið til greina þegar næsta ótvíræð lagaskilyrði eru til að veita starfsmanni lausn að fullu. Helgast þetta af því að með því er vikið frá hinum sérstöku reglum er gilda um lausn úr stöðu sem lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, taka til, sbr. hér VI. kafla laganna, sem er til þess fallið að rýra þau réttindi sem ríkisstarfsmönnum eru fengin með lögum, sjá t.d. fyrrnefnt álit mitt frá 15. apríl 2005 í máli nr. 4187/2004.

4.

Vík ég þá að því hvort ráðuneytinu hafi verið rétt að líta á það sem fram kom í bréfi A, dags. 22. desember 2004, sem játningu í merkingu 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996, en óumdeilt er í málinu að bréfið stafar frá A sjálfum. Í bréfinu kemur fram að A hafi gefið skýringar í viðtali við yfirmenn sína 19. desember 2004 og að málinu hafi verið vísað til ríkissaksóknara 20. s.m. Kveðst A ekki geta nýtt sér andmælarétt sinn lögum samkvæmt að svo stöddu þar sem mál hans sé til rannsóknar hjá ríkissaksóknara. Segir síðan í bréfi hans:

„Ég vil leyfa mér að ítreka að aldrei stóð til að halda bifreiðinni [X] án þess að endurgjald kæmi fyrir hana. Ég harma mjög mistök mín sem enginn annar tók þátt í eða hafði vitneskju um. Bið ég um mildilega málsmeðferð eftir 34 ára þjónustu hjá ráðuneytinu.“

Við mat á því hvort um játningu sé að ræða í merkingu ákvæðis 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 tel ég að ráðuneytinu hafi í fyrsta lagi borið að líta til þess að A kvaðst ekki geta nýtt sér andmælarétt sinn að svo stöddu í ljósi þess að mál hans væri til rannsóknar hjá ríkissaksóknara. Með þessu var ráðuneytinu skýrlega gefið til kynna að bréfið innihéldi ekki allt það sem hann kynni að hafa um málið að segja. Jafnframt tel ég að efni bréfsins verði ekki skilið svo að A afsalaði sér andmælarétti sínum.

Í öðru lagi tel ég, eins og fram kom í kafla IV.3 hér að framan í umfjöllun minni um álit mitt í máli nr. 4187/2004, að til þess að yfirlýsing um háttsemi geti talist játning þurfi hún ekki aðeins að fela í sér viðurkenningu viðkomandi á að hafa gert það sem hann er sakaður um, heldur jafnframt að háttsemin hafi verið refsiverð, þ. á m. að hún hafi verið honum saknæm. Í því sambandi bendi ég á að almennt er það skilyrði þess að um refsivert brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 verði talið að ræða að viðkomandi hafi framið brotið af ásetningi. Ekki verður annað ráðið af þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir mig en að A hafi verið grunaður um brot gegn þeim lögum, svo sem sjá má af því að hann var ákærður og dæmdur í héraðsdómi fyrir slík brot einvörðungu. Í ljósi þess að í bréfinu ítrekaði A „að aldrei [hafi staðið] til að halda bifreiðinni [X] án þess að endurgjald kæmi fyrir hana“ tel ég að ráðuneytinu hafi ekki verið rétt að líta svo á að A hafi játað að háttsemi hans hafi verið honum saknæm.

Samkvæmt framangreindu tel ég að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hafi ekki heldur verið rétt að byggja ályktun sína um að fyrir lægi „játning“ á refsiverðri háttsemi í merkingu 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 á því sem fram kom í bréfi A til ráðuneytisins, dags. 22. desember 2004.

5.

Með vísan til alls framanritaðs, og í ljósi þess að það úrræði sem kveðið er á um í 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að embættismanni sé fyrst vikið frá um stundarsakir, tel ég að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins í tilviki A. Er það því niðurstaða mín að ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 28. desember 2004 um að víkja A úr embætti að fullu á grundvelli 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 hafi ekki verið í fullu samræmi við þær kröfur sem lagaákvæðið gerir til þeirrar játningar sem ákvörðun um brottvikningu að fullu, án undanfarandi brottvikningar um stundarsakir, byggir á.

Í tilefni þess sem fram kemur í skýringum ráðuneytisins til mín um að sá skilningur ráðuneytisins að játning A lægi fyrir hafi verið „staðfestur“ með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. júní 2005, þar sem A var sakfelldur fyrir þau brot sem urðu tilefni brottvikningar hans úr starfi, vil ég árétta að gera verður greinarmun á játningu og sakfellingu með dómi án játningar. Af dómi héraðsdóms verður ekki ráðið að A hafi játað þau brot sem honum voru gefin að sök að fullu. Bendi ég í því sambandi á að fyrir dómi fór fram aðalmeðferð með fullri sönnunarfærslu, þ. á m. vitnaleiðslum, um þau atriði sem honum voru gefin að sök, auk þess sem af forsendum dómsins verður ráðið að A hafi hvorki játað að fullu þá háttsemi sem honum var gefin að sök, né að hún hefði verið honum saknæm. Þá bendi ég á að dómur héraðsdóms hafði ekki verið kveðinn upp er ákvörðun ráðuneytisins um brottvikningu A að fullu úr embætti var tekin. Fæ ég ekki séð hvernig dómurinn geti réttlætt eftir á það mat ráðuneytisins, sem fram fór við ákvörðun þess, að játning A lægi fyrir. Ennfremur bendi ég á að með dómi héraðsdóms var ekki tekin afstaða til þess hvort A skyldi sviptur rétti til að gegna embætti sínu, enda ekki gerð krafa um það af hálfu ákæruvaldsins, og getur dómurinn því ekki eftir á „réttlætt“ ákvörðun ráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 29. gr laga nr. 70/1996. Dómur héraðsdóms hefur hins vegar þau áhrif á athugun mína á máli A að ég tel ekki tilefni til þess að beina tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að taka mál hans fyrir að nýju, heldur verði það að vera verkefni dómstóla að skera úr um hugsanlegan bótarétt hans vegna þess hvernig staðið var að starfslokum hans hjá embætti ríkislögreglustjóra af hálfu ráðuneytisins.

V. Niðurstaða.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 28. desember 2004 um að víkja A úr embætti að fullu á grundvelli 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 hafi ekki verið í samræmi við þær kröfur sem lagaákvæðið gerir til þeirrar játningar sem ákvörðun um brottvikningu að fullu, án undanfarandi brottvikningar um stundarsakir, verður byggð á.

Þar sem fyrir liggur nú dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. júní 2005, sem ekki var áfrýjað, þar sem A var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 247. gr., 138. gr. og 139. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, tel ég ekki tilefni til þess að beina þeim tilmælum til ráðuneytisins að það taki mál hans fyrir að nýju. Beini ég hins vegar þeim tilmælum til ráðuneytisins að þeirra sjónarmiða sem ég hef gert grein fyrir í áliti þessu verði framvegis gætt við meðferð mála hjá ráðuneytinu. Að því er varðar hugsanlegan rétt til skaðabóta vegna ákvörðunar ráðuneytisins um brottvikningu hans að fullu tel ég að það verði að vera verkefni dómstóla að skera úr um það.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, dags. 5. febrúar 2007, þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um hvort framangreint álit mitt hefði orðið ráðuneytinu tilefni til að grípa til einhverra sérstakra ráðstafana og þá í hverju þær ráðstafanir hafi falist. Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 2. mars s.á., segir að síðan álit mitt kom fram hafi ekki reynt á sambærilegt mál og það sem til umfjöllunar var í álitinu, en ráðuneytið muni hafa sjónarmið mín til hliðsjónar við afgreiðslu sambærilegra mála í framtíðinni.