Málsmeðferð stjórnvalda. Stjórnsýslunefndir. Málshraði. Tilkynningar um tafir. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. 4193/2004)

Fjölmargar sjálfstæðar stjórnsýslu- og úrskurðarnefndir hafa verið stofnaðar á síðustu árum. Þarna er um að ræða nefndir sem ekki eru hluti af hinni eiginlegu stjórnsýslu ráðuneytanna og þeirra stofnana sem undir þau heyra heldur er kveðið á um sjálfstæði þeirra í lögum og þannig verða ákvarðanir þeirra ekki bornar undir ráðherra með stjórnsýslukæru. Í áliti umboðsmanns er greint frá því að við meðferð kvartana sem borist hafa umboðsmanni hafi komið í ljós að þrátt fyrir að í ýmsum tilvikum sé það bundið í lög hversu langan tíma þessar nefndir hafi til að afgreiða mál eða kveða upp úrskurði hafi afgreiðslutími sumra þeirra verið verulega langur. Í nokkrum tilvikum hafi þessi mál orðið tilefni sérstakra athugana af hálfu umboðsmanns og þá hafi gjarnan komið fram áform af hálfu nefndanna um að úr þessu yrði bætt. Það hafi þó ekki alltaf gengið eftir. Þetta hafi orðið umboðsmanni tilefni til þess að gera að eigin frumkvæði almenna athugun á afgreiðslutíma 48 stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í álitinu kemur fram að af nefndunum 48 hafi 24 lögmæltan afgreiðslutíma, átta hafi sett sér reglur um afgreiðslutíma eða ákvæði eru um hann í reglugerð en 16 nefndir starfi án þess að mælt sé fyrir um afgreiðslutíma þeirra í skriflegum reglum eða sérlögum. Til grundvallar niðurstöðum athugunar umboðsmanns liggja upplýsingar frá nefndunum um störf þeirra á tveimur sex mánaða tímabilum, frá 1. nóvember 2003 til 30. apríl 2004 og frá 1. janúar 2005 til 30. júní 2005. Upplýsingar fengust frá öllum nefndunum um fyrra tímabilið en frá 45 nefndum um það síðara. Í álitinu greinir frá því að nefndir með lögmæltan afgreiðslufrest afgreiddu 47,5% mála innan frestsins en 52,5% utan frests. Nefndir með reglur afgreiddu 60% mála innan frests en 40% utan frests. Mikill meirihluti, 75% mála, á báðum könnunartímabilum kom til kasta nefnda með lögmæltan frest, nefndir með reglur fjölluðu um 9% mála en nefndir án reglna um 16%. Kemur fram að samanburður á málafjölda og afgreiðslutíma milli könnunartímabila bendi til þess að málum fari fjölgandi og að afgreiðslutími sé að lengjast. Þannig hafi liðlega 10% mála á fyrra tímabili verið lengur en eitt ár í vinnslu en á síðara tímabilinu hafi hlutfallið verið 17,6%.

Greint er frá því að meirihluta nefndanna berast tiltölulega fá mál, 26 nefndir af 48 afgreiddu tíu mál eða færri samtals á báðum könnunartímabilunum. Ekkert mál barst níu nefndum en eitt mál fengu sex nefndir.

Umboðsmaður bendir á að mikill misbrestur sé á því að nefndir fylgi fyrirmælum stjórnsýslulaga um að tilkynna málsaðilum þegar tafir verða á vinnslu mála. Aðeins hafi verið tilkynnt um tafir í tíunda hluta þeirra mála sem ástæða hefði verið til og fylgni við regluna hafi verið lakari á seinna könnunartímabilinu en á því fyrra.

Umboðsmaður beinir í álitinu þeim tilmælum til stjórnsýslu- og úrskurðarnefndanna að gæta að því hvort þeir annmarkar sem þar er lýst séu enn til staðar og gera nauðsynlegar úrbætur ef svo er.

...