Skattar og gjöld. Innheimta útvarpsgjalds. Stjórnvaldsákvörðun. Afturköllun.

(Mál nr. 4680/2006)

A kvartaði yfir innheimtu Ríkisútvarpsins á afnotagjaldi útvarps fyrir tiltekið tímabil en A taldi kröfuna ekki réttmæta þar sem hún hefði fengið undanþágu frá greiðslu gjaldsins á þeim grundvelli að hún notaði viðtæki sitt einungis til að sýna dóttur sinni myndbönd. A, sem er pólskur ríkisborgari, tók jafnframt fram að hún skildi ekki íslensku og gæti því ekki notið útsendinga íslenska útvarpsins. Af hálfu Ríkisútvarpsins var talið að gerð hefðu verið mistök í máli A með því að henni hefði verið boðið að undirrita undanþágubeiðni sem ekki tæki til einstaklinga heldur væri eingöngu ætlað fyrirtækjum. Taldi Ríkisútvarpið að aðstæður A hefðu á engan hátt fallið undir lögmætar undanþáguheimildir afnotagjalda og hefði hún því verið sett aftur á notendaskrá stofnunarinnar.

Umboðsmaður rakti þau ákvæði laga nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, sem kveða á um skyldu til greiðslu afnotagjalds og undanþágur frá þeirri skyldu. Benti hann á að útvarpsgjald væri lögum samkvæmt lagt á eigendur viðtækja og væru ákvarðanir um það birtar þeim með innheimtuseðlum enda yrði að ganga út frá því að þeim væri að lögum kunnugt um þessa gjaldskyldu og þar með að ekki þyrfti fyrir eða við upphaf gjaldtökunnar að koma til frekari tilkynninga af hálfu Ríkisútvarpsins í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins. Sérstakar ákvarðanir Ríkisútvarpsins um álagningu útvarpsgjalds og um undanþágu frá greiðslu slíkra gjalda væru hins vegar stjórnvaldsákvarðanir í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og yrði almennt að ganga út frá því að fylgja yrði málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaganna við undirbúning og töku slíkra ákvarðana. Benti umboðsmaður jafnframt á að ákvörðun Ríkisútvarpsins um að afturkalla ákvörðun um veitingu heimildar til undanþágu frá greiðslu útvarpsgjalds væri einnig stjórnvaldsákvörðun.

Umboðsmaður taldi að miðað við fyrirliggjandi gögn og skýringar Ríkisútvarpsins vegna kvörtunar A yrði að ganga út frá því að í apríl 2004 hefði af hálfu stofnunarinnar verið tekin sú ákvörðun að veita A undanþágu frá greiðslu útvarpsgjalds. Síðla sama árs hefði stofnunin hafið innheimtu útvarpsgjalds hjá A á ný með því að setja hana aftur inn á notendaskrá og senda henni gíróseðil. Að öðru leyti hefði henni ekki verið tilkynnt um þessa ákvörðun. Benti umboðsmaður á að þessi ákvörðun Ríkisútvarpsins hafi falið í sér að fyrri ákvörðun um undanþágu frá gjaldskyldunni væri afturkölluð. Hefði því stofnuninni samkvæmt 14. gr. stjórnsýslulaga borið að tilkynna A um meðferð málsins og veita henni tækifæri til að koma að andmælum af þessu tilefni, sbr. 13. gr. laganna. Þessa hefði ekki verið gætt af hálfu Ríkisútvarpsins. Umboðsmaður taldi að í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti hefði Ríkisútvarpinu verið rétt að senda A sérstaka tilkynningu um þá ákvörðun að hefja að nýju innheimtuaðgerðir og skýra ástæður þess. Ekki hefði verið nægjanlegt að senda hefðbundna innheimtuseðla.

Með tilliti til atvika í máli A og gildandi reglna um undanþágur frá greiðslu útvarpsgjalds taldi umboðsmaður ekki tilefni til að beina þeim tilmælum til Ríkisútvarpsins að það tæki mál A til endurskoðunar. Hann beindi hins vegar þeim tilmælum til stofnunarinnar að framvegis yrði við innheimtu afnotagjalda og undirbúning ákvarðana þar um tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram kæmu í álitinu og að afturköllun slíkra ákvarðana yrði hagað í samræmi við reglur stjórnsýslulaga. Tók hann fram að hann hefði þá einnig í huga tilkynningar ef mistök yrðu af hálfu starfsfólks af því tagi sem um væri fjallað í álitinu.

I. Kvörtun.

Hinn 17. mars 2006 leitaði A til mín og bar fram kvörtun á hendur Ríkisútvarpinu (RÚV) vegna innheimtu afnotagjalds útvarps. A hafði þá nokkrum dögum áður borist kröfubréf afnotadeildar þar sem hún var krafin um greiðslu afnotagjalds að því er virðist frá 1. október 2005 til og með 31. mars 2006, samtals að fjárhæð 50.769 kr. Telur A að hún verði ekki með réttu krafin um greiðslu afnotagjaldsins þar sem hún hafi í apríl 2004 fengið undanþágu frá greiðslu gjaldsins á þeim grundvelli að hún notaði aðeins sjónvarpstæki sem hún átti til að sýna dóttur sinni myndbönd. A tekur jafnframt fram að hún skilji ekki íslensku og geti þar af leiðandi ekki notið útsendinga íslenska sjónvarpsins.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 27. desember 2006.

II. Málavextir.

A lýsir því að hún hafi á árinu 2003 flutt í íbúð að X í Reykjavík. Í október það sama ár kveðst hún hafa fengið gefins sjónvarpstæki að sögn til þess að nota með myndbandstæki lítillar dóttur sinnar. Starfsmaður Ríkisútvarpsins heimsótti A 15. desember 2003 í tækjaleit og undirritaði A skýrslu hans 19. desember það ár. Þar kemur fram að hún viðurkennir tækjaeign. Einnig eru í skýrsluna skráðar athugasemdir starfsmanns sem síðan hafa verið yfirstrikaðar að hluta til og án vitundar A að hennar sögn. Það sem er læsilegt er athugasemdin „[A] á tækið“. A ber að við þetta tilefni hafi starfsmaður Ríkisútvarpsins sagt henni að ekki yrði innheimt hjá henni afnotagjald. Í apríl 2004 fékk A innheimtuseðil og fór þá til afnotadeildar Ríkisútvarpsins og skrifaði undir eftirfarandi yfirlýsingu, dags. 28. apríl 2004, á eyðublað frá stofnuninni:

„Undirritaður f.h. [A] óskar eftir undanþágu frá greiðslu afnotagjalds Ríkisútvarpsins vegna viðtækisins [...].

Undirritaður lýsir því jafnframt yfir að viðlögðum drengskap að ofangreint tæki er einvörðungu notað til kynningar- og fræðslustarfsemi, eða annarrar starfsemi á vegum fyrirtækisins en ekki til þess að taka á móti útsendingum Ríkisútvarpsins.“

Að sögn A fékk hún eftir þetta enn og aftur innheimtuseðla og kveðst hún í eitt skipti hafa farið til afnotadeildar Ríkisútvarpsins og í annað sinn hringt og þá verið sagt að ekki yrðu innheimt hjá henni afnotagjöld. Hún ber að yfirmaður á staðnum hafi tekið ákvörðun um niðurfellingu gjalds. Að sögn hennar voru ekki af hálfu Ríkisútvarpsins gerðar frekari tilraunir til innheimtu afnotagjalda eða innheimtuaðgerða og kveðst hún á tímabilinu einungis hafa haft þau afnot af tækinu er hún hafði í upphafi tilgreint, þ.e. til myndbandsafspilunar. Það hafi síðan ekki verið fyrr en með áðurgreindu kröfubréfi, dags. 14. mars 2006, að Ríkisútvarpið gerði reka að innheimtu afnotagjalda.

Í kröfubréfinu eru tilgreind vanskil vegna tímabilsins 1. október 2005 til 31. mars 2006 með vöxtum og álagi en af fjárhæðum má ljóst vera að krafan, samtals kr. 50.769,-, er fyrir lengra tímabil. Fór A á skrifstofu afnotadeildar Ríkisútvarpsins 16. mars 2006 og var þá tjáð af starfsmanni þar að hún yrði að greiða afnotagjöldin. Við það tilefni fékk hún afrit af yfirlýsingu þeirri er hún undirritaði í desember 2003 og taldi að strikaðar hefðu verið út athugasemdir starfsmanns. Í kjölfar þessa lagði hún fram kvörtun þá er hér er til umfjöllunar. A kom enn að máli við starfsmann minn 20. mars 2006 og kvaðst hafa farið á skrifstofu Ríkisútvarpsins með það fyrir augum að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að hún ætti ekki lengur umrætt tæki, enda hefði hún gefið það frá sér. Bar hún að starfsmaður stofnunarinnar hefði tjáð sér að hún fengi ekki að leggja fram slíka yfirlýsingu. Í framhaldinu sendi A yfirlýsingu til Ríkisútvarpsins, dags. 20. mars 2006, með símbréfi og ábyrgðarsendingu þar sem hún lýsti því yfir að hún „[ætti] ekki sjónvarpstæki eða útvarpstæki og ekkert slíkt tæki [væri] staðsett á heimili [hennar] [X]“.

A kom aftur að máli við starfsmann minn 4. apríl 2006 og upplýsti að hún hefði greitt útvarpsgjaldið. Hún afhenti afrit af greiðslukvittun vegna afnotagjalds frá 1. desember 2004 til þess dags er hún lýsti því yfir að hún hefði tækjalaust heimili. Hafði hún greitt höfuðstól kröfunnar en stofnunin hafði fellt niður dráttarvexti, álag og hluta afnotagjalds, þ.e. frá 1. janúar til 30. nóvember 2004.

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég útvarpsstjóra bréf, dags. 31. mars 2006, þar sem ég óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að Ríkisútvarpið sendi mér gögn málsins og lýsti viðhorfum sínum til kvörtunar A. Ég óskaði jafnframt sérstaklega eftir að Ríkisútvarpið gerði grein fyrir því hvort það teldi A falla undir heimildir reglugerðar nr. 357/1986, um Ríkisútvarpið, til undanþágu frá afnotagjöldum eða, hafi öðrum undanþáguheimildum verið beitt í máli hennar, gerði grein fyrir því hverjar þær undanþágur væru. Hefði Ríkisútvarpið talið að tilvik A félli undir lögmæltar undanþáguheimildir afnotagjalda, óskaði ég eftir skýringum á því hvort og þá hvernig henni hefði verið tilkynnt um að hún uppfyllti ekki lengur skilyrði þess að njóta undanþágu frá afnotagjaldi.

Mér barst svar úrvarpsstjóra með bréfi, dags. 11. apríl 2006, ásamt afritum af gögnum málsins. Segir eftirfarandi í bréfinu:

„Í athugasemdum forstöðumanns [afnotadeildar] hefur komið fram að hann telji að mistök hafi átt sér stað við afgreiðslu málsins. Mistökin fólust í því að er [A] kom þann 28.04.2004 til afnotadeildar var henni boðið að fylla út undanþágueyðublað sem aðeins er ætlað fyrirtækjum en ekki einstaklingum eins og eyðublaðið ber með sér.

Einnig voru það mistök af hálfu forstöðumanns að hann skyldi samþykkja að krafan væri óréttmæt og því bæri að fella hana niður. Sú ákvörðun hans helgaðist af því að hann mat kröfuna tapaða þar sem umrædd [A] neitaði að greiða og kvaðst fara brott af landinu eftir 2 mánuði og því ljóst að því fylgdi einungis aukinn kostnaður að reyna frekari innheimtutilraunir miðað við að [A] greindi rétt og satt frá.

[A] fellur á engan hátt undir lögmæltar undanþáguheimildir afnotagjalda.

Henni mátti vera það ljóst þegar hún fékk gíróseðil sem sendur var henni þegar í ljós kom að hún hafði ekki farið til [Y-lands] eins og hún sagðist ætla að gera og það mun henni hafa verið gert ljóst hafi hún leitað skýringa á kröfunni. Frá þeim tíma og þar til hún kom í deildina 11.07.2005 höfðu henni borist fjórir seðlar. Eins og fram kemur í minnisblaði starfsmanns frá 11.07.2005 var henni þá tilkynnt að tækið væri gjaldskylt.

[A] greindi ekki rétt frá þegar hún heimsótti deildina 28.04.2004 og kvaðst yfirgefa landið fyrir fullt og fast eftir tvo mánuði. Ef hún hefði ekki gert það hefði málið verið meðhöndlað á allt annan hátt og henni gert að greiða afnotagjald frá 01.01.2004 til 23.03.2006 þann dag sem hún tilkynnir að hún eigi ekki tæki. Deildarstjóri tók þá tilkynningu gilda en benti henni á að hún yrði eftir sem áður líkt og aðrir tækislausir heimsótt í tækjaleit.

Deildarstjóri ákvað að skuldin skyldi ekki uppreiknuð fyrir allt tímabilið heldur einvörðungu fyrir þann tíma sem hún hafði fengið sendar kröfur til þess tíma er hún tilkynnti tækislaust heimili þann 20. mars 2006 og að auki skyldi fella dráttarvexti og álag niður og henni einungis gert að greiða höfuðstól kröfunnar.“

Í minnisblaði forstöðumanns afnotadeildar Ríkisútvarpsins sem fylgdi með svari stofnunarinnar kemur fram að það hafi verið við samkeyrslu á skrám stofnunarinnar og skrám Hagstofunnar sem í ljós hafi komið að A hafi ekki farið til Y-lands eins og hún hafði tjáð starfsfólki deildarinnar er hún kom þangað í apríl 2004. Hafi hún þar af leiðandi verið sett aftur á skrá frá 1. desember 2004.

Í skýrslu á fylgiskjali 2 með svari Ríkisútvarpsins eru eftirfarandi athugasemdir um samskipti A við stofnunina skráðar af starfsmanni hennar:

„28.04.04 Kom og fyllti út undanþágubeiðni, hún skilur ekki íslensku og notar sjónvarpstækið til að sýna dóttur sinni barnamyndir á [móðurmáli]. Fer aftur til [Y-lands] eftir 2 mánuði. [...] samþykkti niðurfellingu.“

„11.07.05 Kom og ræddi við [...]. Sagðist ekki eiga að greiða þar sem hún notar tækið eingöngu fyrir videó. Henni sagt að þetta væri gjaldskylt. Sagðist vera með 5 tæki heima.“

„Hún kom í afnotadeild 17. mars 2006. [...] Fengu ljósrit af tækjaleitarskýrslu. Hún byrjaði aftur á því sama að hún horfi ekki á rúv heldur noti þetta eingöngu við videó.“

Á reikningsyfirlitum í fylgiskjali 5 með svari Ríkisútvarpsins kemur fram að stofnunin krafði A um uppsafnað afnotagjald frá 1. janúar 2004 til 31. mars 2006, ásamt álagi og dráttarvöxtum. Eins og áður er komið fram ákvað Ríkisútvarpið við uppgjör kröfunnar í apríl 2006 að innheimta vegna tímabilsins 1. desember 2004 til 20. mars 2006, þ.e. þess tíma er A tilkynnti tækjalaust heimili, en fella niður afnotagjald vegna tímabilsins 1. janúar til 30. nóvember 2004 auk dráttarvaxta og álags.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, skal eigandi viðtækis sem nýta má til móttöku á útvarpssendingum Ríkisútvarpsins greiða afnotagjald, útvarpsgjald, af hverju tæki. Þó skal aðeins greiða eitt útvarpsgjald fyrir einkaafnot fjölskyldu á heimili. Í 1. mgr. 13. gr. kemur fram að breyti eigandi tækis afnotum sínum skuli hann tilkynna það Ríkisútvarpinu þegar í stað. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. bera eigendur viðtækja ábyrgð á greiðslu útvarpsgjalda sem á falla áður en tilkynning samkvæmt framansögðu berst Ríkisútvarpinu.

Kveðið er á um undanþágu frá greiðslu útvarpsgjaldsins í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 122/2000 og skal veita afslátt þeim sem aðeins geta nýtt sér svart/hvíta móttöku sjónvarpsefnis og þeim sem einungis geta nýtt sér hljóðvarpssendingar en einnig er heimilt að veita fyrirtækjum og stofnunum afslátt vegna fjölda tækja á sama stað. Skal setja nánari ákvæði um afslátt og skilgreiningu á heimili í reglugerð. Í 2. mgr. 14. gr. er ennfremur kveðið á um að afmá skuli viðtæki af skrá ef sönnur, sem innheimtustjóri metur gildar, eru á það færðar að tækið sé orðið ónýtt eða verði af öðrum ástæðum ekki lengur notað til móttöku útsendingar Ríkisútvarpsins. Ég tek það fram að ekki verður séð að ákvæði séu í reglugerð um Ríkisútvarpið nr. 357/1986, með síðari breytingum, um undanþágu frá greiðslu útvarpsgjalds í samræmi við þá yfirlýsingu sem A undirritaði hjá Ríkisútvarpinu 28. apríl 2004.

Útvarpsgjald er í samræmi við framangreint lögum samkvæmt lagt á eigendur viðtækja og er í því efni almennt byggt á tilkynningum um kaup nýrra tækja eða um eigendaskipti. Slíkar ákvarðanir eru þá birtar eigendum viðtækjanna með innheimtuseðlum enda verður að ganga út frá því að þeim sé að lögum kunnugt um þessa gjaldskyldu og þar með að ekki þurfi fyrir eða við upphaf gjaldtökunnar að koma til frekari tilkynninga af hálfu Ríkisútvarpsins í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins. Sérstakar ákvarðanir Ríkisútvarpsins um álagningu útvarpsgjalds og um undanþágu frá greiðslu slíkra gjalda eru hins vegar stjórnvaldsákvarðanir í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Komi til þess að teknar séu sérstakar ákvarðanir um álagningu útvarpsgjalds í einstökum tilvikum eða um undanþágu, svo sem vegna ágreinings um gjaldskyldu eða um efni fyrirliggjandi tilkynninga, verður almennt að ganga út frá því að fylgja verði málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaganna við undirbúning og töku slíkra ákvarðana. Hafi þannig verið tekin ákvörðun um undanþágu frá greiðslu útvarpsgjalds og sú ákvörðun verið tilkynnt aðila máls getur Ríkisútvarpið ekki ákveðið að endurvekja skyldu til greiðslu gjaldsins nema skilyrði afturköllunar séu fyrir hendi, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga. Ákvörðun Ríkisútvarpsins um að afturkalla ákvörðun um veitingu heimildar til undanþágu frá greiðslu útvarpsgjalds er einnig stjórnvaldsákvörðun og verður því að fylgja málsmeðferðarreglum laganna við meðferð slíks máls.

Ég tel að miðað við fyrirliggjandi gögn og skýringar Ríkisútvarpsins verði að ganga út frá því að hinn 28. apríl 2004 hafi af hálfu forstöðumanns afnotadeildar verið tekin sú ákvörðun að veita A undanþágu frá greiðslu útvarpsgjalds. Fram kemur í því sem skráð var af starfsmanni Ríkisútvarpsins við komu A til afnotadeildarinnar 28. apríl 2004 að hún hafi fyllt út undanþágubeiðni. Hún hafi ekki skilið íslensku og sagst nota sjónvarpstæki sitt til að sýna dóttur sinni barnamyndir á [móðurmáli]. Síðan er bókað að hún fari aftur til Y-lands eftir 2 mánuði. Þá er skráð að forstöðumaðurinn hafi samþykkt niðurfellinguna.

Ljóst er af gögnum málsins að Ríkisútvarpið tók í framhaldinu þá ákvörðun síðla árs 2004 að hefja að nýju að innheimta útvarpsgjaldið hjá A með því að setja hana að nýju inn á notendaskrá frá 1. desember 2004 og senda henni gíróseðil. Að öðru leyti var henni ekki tilkynnt um þessa ákvörðun.

Í skýringum Ríkisútvarpsins til mín kemur fram að það hafi verið mistök af hálfu stofnunarinnar að láta A útfylla áðurnefnt undanþágueyðublað sem eingöngu sé ætlað fyrirtækjum eins og eyðublaðið beri með sér en ekki einstaklingum. Aðstæður hennar hafi á engan hátt fallið undir lögmætar undanþáguheimildir afnotagjalda. Það er afstaða Ríkisútvarpsins að A hafi mátt vera það ljóst þegar hún fékk gíróseðilinn sendan eftir að í ljós kom að hún hafði ekki farið til Y-lands að tæki hennar væri gjaldskylt. Í skýringum Ríkisútvarpsins kemur fram að frá þessum tíma, þ.e. desember 2004 og þar til A kom í afnotadeildina 11. júlí 2005, eigi henni að hafa borist fjórir gíróseðlar. Við þá komu hafi henni jafnframt verið gerð grein fyrir því að henni bæri að greiða útvarpsgjald af því sjónvarpstæki sem hún hefði á heimili sínu.

Sú ákvörðun starfsfólks afnotadeildar Ríkisútvarpsins að setja A á ný á skrá yfir greiðendur útvarpsgjalds í desember 2004 og hefja að nýju innheimtu gjaldsins hjá henni fól í sér að fyrri ákvörðun um undanþágu frá gjaldskyldunni var afturkölluð. Um heimild stjórnvalds til slíkrar afturköllunar eru ákvæði í 25. gr. stjórnsýslulaga en slík ákvörðun er eins og áður sagði stjórnvaldsákvörðun. Málsmeðferð við afturköllun þarf því að vera í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins. Bar því samkvæmt 14. gr. stjórnsýslulaga að tilkynna A um upphaf málsins og að fyrirhugað væri að taka ákvörðun um hvort skilyrði væru til að afturkalla fyrri ákvörðun um veitingu undanþágu. Þá bar að veita henni tækifæri til að koma að andmælum af þessu tilefni, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Ég tek það fram að ég fæ ekki séð að þær ástæður sem Ríkisútvarpið tilgreinir, um hvað A hafi mátt vera ljóst þegar henni fóru að berast gíróseðlar að nýju og hún fór ekki úr landi eins og hún hafði áformað, hafi leyst Ríkisútvarpið undan því að gera henni viðvart með ofangreindum hætti um það viðhorf stofnunarinnar að þarna hefðu orðið mistök og aðstæður væru breyttar. Ég nefni þar til samanburðar að þótt litið hefði verið svo á af hálfu Ríkisútvarpsins að um væri að ræða bersýnilega villu í merkingu 23. gr. stjórnsýslulaga sem stofnuninni hefði verið heimilt að leiðrétta hefði stofnuninni engu að síður borið að tilkynna A um slíka leiðréttingu án tafar eins og segir í greininni.

Eins og málið liggur fyrir tel ég mig ekki geta fullyrt hvað starfsmönnum Ríkisútvarpsins og A fór á milli í kjölfar ákvörðunar stofnunarinnar um að taka hana aftur á skrá í desember 2004 og krefja hana um greiðslu útvarpsgjalds. Hvað sem líður þeim kröfum um tilkynningarskyldu stofnunarinnar sem leiddu af áðurnefndum reglum stjórnsýslulaga verður ekki séð að Ríkisútvarpið hafi gert reka að því að tilkynna A sérstaklega um þá ákvörðun sína að hefja að nýju innheimtuaðgerðir. Aðeins voru sendir innheimtuseðlar. Miðað við hvernig staðið var að málum hjá Ríkisútvarpinu með því að láta A fylla út sérstakt eyðublað um undanþáguna, og að tekin var ákvörðun um undanþágu frá innheimtu útvarpsgjaldsins, var ekki nægjanlegt að senda henni hefðbundna innheimtuseðla. Í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti hefði verið rétt að senda henni sérstaka tilkynningu þar sem skýrt væri frá því í hverju mistökin voru fólgin og hvernig Ríkisútvarpið liti nú á réttarstöðu hennar og skyldu til greiðslu útvarpsgjalds og að nafn hennar hafi af þessum sökum verið skráð á lista yfir gjaldendur. Við þetta þurfti einnig að taka eðlilegt tillit til þess að fyrir hendi var vitneskja hjá Ríkisútvarpinu um að A skildi ekki íslensku og því nauðsynlegt að leitast við að setja skýringarnar fram með þeim hætti að hún gæti skilið þær. Í því sambandi var eðlilegt að hafa hliðsjón af samskiptaformi stofnunarinnar og A fram að því.

Fram hefur komið að í apríl 2006 gekk A frá uppgjöri við Ríkisútvarpið á kröfum þess eftir að hún hafði tilkynnt stofnuninni að hún væri ekki lengur eigandi að sjónvarpstæki. Við þetta uppgjör voru allar kröfur eldri en frá 1. desember 2004 felldar niður auk dráttarvaxta og álags. Miðað við gildandi reglur á þeim tíma sem hér skiptir máli verður ekki séð að heimild hafi verið til undanþágu frá greiðslu útvarpsgjalds á þeim grundvelli sem sú yfirlýsing sem A undirritaði samkvæmt leiðbeiningum starfsfólks Ríkisútvarpsins fól í sér. Ég tek það hins vegar fram að ég hef ekki tekið það til athugunar í þessu máli hvort sú framkvæmd sem lýst er af hálfu Ríkisútvarpsins um undanþágur í þessa veru til fyrirtækja og stofnana hafi í einhverjum mæli verið látin ná til einstaklinga og hvaða þýðingu það kunni að hafa haft almennt. Eins og atvikum var háttað í máli A og með tilliti til gildandi reglna tel ég að ganga verði út frá því að í máli þessu hafi verið gerð mistök af hálfu Ríkisútvarpsins, eins og það fellst sjálft á í skýringum sínum til mín, og að minnsta kosti að hluta hafi verið tekið tillit til þeirra við endanlegt uppgjör á kröfum Ríkisútvarpsins á hendur A. Ég tel því ekki tilefni til þess að beina sérstökum tilmælum til Ríkisútvarpsins um endurupptöku á máli A en það eru hins vegar tilmæli mín til stofnunarinnar að framvegis verði við innheimtu afnotagjalda og undirbúning ákvarðana þar um tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti þessu og að afturköllun slíkra ákvarðana verði hagað í samræmi við reglur stjórnsýslulaga.

V. Niðurstaða.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að undirbúningur og málsmeðferð Ríkisútvarpsins við töku þeirrar ákvörðunar að afturkalla fyrri ákvörðun um undanþágu frá greiðslu útvarpsgjalds í máli A hafi ekki verið í samræmi við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er það niðurstaða mín að Ríkisútvarpið hafi ekki gætt vandaðra stjórnsýsluhátta með því að láta við það sitja að senda A hefðbundna gíróseðla í stað þess að tilkynna henni sérstaklega um þá ákvörðun að hefja að nýju innheimtuaðgerðir í framhaldi af því að hún var í desember 2004 sett að nýju á notendaskrá og skýra ástæður þess.

Með tilliti til atvika í máli A og gildandi reglna um undanþágur frá greiðslu útvarpsgjalds tel ég ekki tilefni til þess að beina þeim tilmælum til Ríkisútvarpsins að það taki mál A til endurskoðunar. Það eru hins vegar tilmæli mín til Ríkisútvarpsins að framvegis verði við innheimtu afnotagjalda og undirbúningi ákvarðana þar um tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti þessu og afturköllun slíkra ákvarðana verði hagað í samræmi við reglur stjórnsýslulaga. Hef ég þá einnig í huga tilkynningar ef mistök verða af hálfu starfsfólks af því tagi sem um er fjallað í þessu máli.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Í bréfi til Ríkisútvarpsins, dags. 20. febrúar 2007, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort af hálfu þess hefði verið gripið til einhverra tiltekinna ráðstafana í tilefni af framangreindu áliti mínu og þá í hverju þær ráðstafanir hafi falist. Í svarbréfi Ríkisútvarpsins, dags. 16. mars s.á., segir að afnotadeild Ríkisútvarpsins muni framvegis gæta þess að láta þá eigendur viðtækja sem eru á notandaskrá, en hafa notið undanþágu frá greiðsluskyldu, vita með tilkynningu í bréfi að deildin hafi í hyggju vegna breyttra aðstæðna að skrá viðkomandi sem greiðanda afnotagjalds og óska eftir athugasemdum séu þær einhverjar.