Opinberir starfsmenn. Skerðing á föstum launum skipaðs kennara.

(Mál nr. 259/1990)

Máli lokið með áliti, dags. 22. mars 1991.

A, sem gegndi stöðu skipaðs kennara í fullu starfi við menntaskólann X, kvartaði yfir þeirri ákvörðun menntamálaráðuneytisins að minnka "starfshlutfall" að 1/3 hluta, án hennar samþykkis. Við það hefðu föst laun hennar lækkað sem því svaraði. Tilefni ákvörðunar ráðuneytisins var samdráttur í kennslugrein þeirri, sem A hafði sinnt. Hafði A m.a. af því tilefni tekið að sér störf á skrifstofu skólans til þess að fullnægja kennsluskyldu sinni. Umboðsmaður lagði til grundvallar, að A hefði hlotið skipun í stöðu sína og færi því um réttindi hennar og skyldur sem ríkisstarfsmanns eftir lögum nr. 38/1954. Taldi umboðsmaður, að samkvæmt þeim lögum gæti fækkun verkefna í tiltekinni starfsgrein með engu móti heimilað yfirboðurum þeirrar starfsgreinar að skerða einhliða föst laun skipaðs ríkisstarfsmanns. Þá taldi umboðsmaður, að það fengi ekki samrýmst ákvæðum laga nr. 38/1954, að beita sjónarmiðum almennra reglna vinnuréttar um réttmæti skerðingar launagreiðslna til launþega, þegar ekki væri lengur þörf fyrir vinnu hans eða hann af einhverjum ástæðum skilaði ekki vinnu á móti launagreiðslum. Þar sem gögn málsins bæru ekki með sér, að A hefði samþykkt skertar launagreiðslur til sín vegna samdráttar í kennslugrein hennar, varð niðurstaða umboðsmanns sú, að skólayfirvöldum og launaskrifstofu ríkisins hefði verið óheimilt að skerða einhliða launagreiðslur til A. Fram kom að ágreiningur var með A annars vegar og skólayfirvöldum X hins vegar um það, hvort A hefði neitað að taka að sér aðra kennslu til þess að fullnægja kennsluskyldu sinni. Umboðsmaður vék að ákvæðum 33. gr. laga nr. 38/1954, er skylda ríkisstarfsmenn til að hlíta breytingum í starfi sínu og verkahring, og hvort fyrir A hefði verið lagt að sæta breytingum á verkahring sínum í samræmi við þessi ákvæði. Umboðsmaður taldi, að réttur yfirboðara ríkisstarfsmanns til að vísa starfsmanni til annarra starfa en þeirra, sem hann upphaflega væri ráðinn til að gegna, sbr. niðurlagsákvæði 33. gr. laga nr. 38/1954, sætti eðli málsins samkvæmt þeirri takmörkun, að starfsmanni væri vísað til starfs, sem honum væri í öllum atvikum samboðið, meðal annars með hliðsjón af menntun. Taldi umboðsmaður, að stjórnendum X hefði einungis verið heimilt að vísa A til að kenna þær greinar við skólann, sem hún hafði þekkingu til. Ekki yrði ráðið af gögnum málsins, að A hefði neitað slíku. Þá taldi umboðsmaður, að skipuðum menntaskólakennara yrði ekki vísað til venjulegra skrifstofustarfa, án samþykkis hans og hefði A því ekki þurft að sæta því að sinna verkefnum á skrifstofu skólans til þess að fullnægja kennsluskyldu sinni, nema hún samþykkti slíkt sjálf. Niðurstaða umboðsmanns varð sú, að A ætti rétt til fullra fastra launa sem menntaskólakennari og annarra hlunninda, sem því starfi fylgdu meðan hún gegndi starfinu, sbr. 4. gr. laga nr. 38/1954. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum sínum til menntamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins, að launagreiðslum til A yrði framvegis hagað í samræmi við þessa niðurstöðu og að launagreiðslur fyrir liðinn tíma yrðu leiðréttar.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 16. mars 1990 lagði A fram kvörtun vegna breytingar á kennarastöðu sinni við menntaskólann X. Greindi A í kvörtun sinni frá því, að við heimkomu hennar frá Frakklandi í septemberbyrjun 1989 eftir nokkurra vikna dvöl þar í landi hefði legið fyrir bréf frá menntamálaráðuneytinu, dags. 24. júlí 1989, þess efnis að fullt stöðugildi starfs hennar hefði verið minnkað í tölugildið 66,67 frá og með 1. ágúst 1989. Kvaðst A hafa fengið laun í samræmi við þetta, þ.e.a.s. 1/3 tekinn af fastakaupi mánaðarlega. Þessi launaskerðing hefði síðan verið greidd 21. desember 1989, en nokkru áður hefði henni verið tjáð símleiðis, að næsta skólaár yrði stöðugildið 66,67, en full laun fengi hún þann tíma, sem eftir lifði af yfirstandandi skólaári, þ.e. til 1. september 1990. Kvaðst A ekki hafa samþykkt þessa ráðstöfun. A hafði kennt við X síðan haustið 1968. Var hún sett fyrsta árið til þess að gegna frönskukennslu, en skipuð ári síðan sem kennari við skólann í fulla stöðu án sérstakra ákvæða um kennslugreinar. Það kom fram í bréfi A til menntamálaráðuneytisins, dags. 30. október 1989, að hún mótmælti sem röngum staðhæfingum skólameistara A um, að hún hefði færst undan tilteknum kennsluverkefnum.

"II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með bréfi, dags. 18. apríl 1990, fór ég þess á leit við menntamálaráðuneytið, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið léti mér í té þau gögn og upplýsingar, sem málið snertu. Svar menntamálaráðuneytisins er dagsett 14. maí 1990 og hljóðar svo:

"Upphaf þessa máls var að skólameistari [X] greindi menntamálaráðuneytinu frá því að frönskukennsla hefði svo mjög dregist saman við skólann að ekki væri lengur fullt starf fyrir tvo frönskukennara við skólann, sjá hjálagt yfirlit skólameistara dags. 16. mars 1989, [...]. Þar sem [A] hafði neitað að kenna aðrar greinar en frönsku, sbr. bréf skólameistara dags. 8. mars 1989, fór skólameistari fram á það við ráðuneytið að stöðuhlutfalli [A] yrði breytt úr 100% í 66,67%. [...].

Áður hafði [A] fengið að vinna á skrifstofu skólans til að fylla starfsskyldu sína í skólanum. Á þessari vinnu taldi skólameistari ekki þörf lengur og fór því fram á skerðingu á stöðunni sem að framan greinir. Á þetta féllst ráðuneytið, sbr. bréf ráðuneytisins dags. 24. júlí 1989 [...].

Ráðuneytið taldi hér vera um að ræða samkomulag milli skólameistara og [A], sem [A] mótmælir síðar, sbr. bréf hennar dags. 22.9.1989 [...].

Þegar þessi staða var komin upp í málinu var það rætt ítarlega innan ráðuneytisins við fjármálaráðuneyti og Hinu íslenska kennarafélagi kynnt málið. Snerist málið nú um það hvort ráðuneytið hefði heimild til að skerða stöðu skipaðs kennara á þeim forsendum sem að framan greinir eða hvort bæri að leggja formlega niður stöðu þegar kennsluþörf í grein væri ekki lengur fyrir hendi. Varð niðurstaðan sú að stöðuskerðing væri heimil. Málið var einnig rætt við [A] og taldi ráðuneyti sig hafa náð fullu samþykki hennar um það að kennsluskerðing tæki gildi fyrst 1. september 1990, en til þess tíma héldi hún fullum launum þótt hún skilaði ekki fullri kennslu, sjá bréf ráðuneytisins dags. 6.12.90 [...]. Ekki var þetta staðfest skriflega þar sem fulltrúi ráðuneytisins í málinu taldi að orð myndu standa. Nú virðist komið á daginn að svo muni ekki vera og harmar ráðuneytið það."

Með bréfi, dags. 21. maí 1990, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við bréf ráðuneytisins. Í svarbréfi A, dags. 23. maí 1990, staðhæfði hún, að skólameistari hefði aldrei beðið sig um að taka að sér kennslu í einhverri grein. Kvaðst A ekki hafa neitað frönskukennslu hvorki í öldungadeild né síðustu áfanga í grein þessari. A gat þess, að ekki væri sanngjarnt að tala um neitun að kenna aðrar greinar en frönsku. Skólameistari hefði ætlast til, að hún kenndi ensku, en til þess verks hefði hún ekki treyst sér. Hún hefði hins vegar verið tilbúin til íslenskukennslu, en það verkefni ekki verið tiltækt. A tók fram, að hún hefði látið sér lynda að taka að sér hluta skrifstofustarfs í von um betri tíma. Þá gerði A grein fyrir eftirrekstri sínum gagnvart menntamálaráðuneyti um greiðslu kaupskerðingarinnar og skilaboðum frá fulltrúa ráðuneytisins, er skólameistari og fulltrúi stéttarfélags hennar hefðu borið henni varðandi greiðslu fullra launa út skólaárið gegn því, að hún samþykkti skerðingu stöðuhlutfalls í 2/3 frá og með næsta skólaári. Hefði komið fram í skilaboðum þessum, að staðan yrði lögð niður í janúar 1990, féllist A ekki á fyrrnefnda tilhögun.

Hinn 29. júní 1990 ritaði ég menntamálaráðherra bréf og óskaði nánari skýringa menntamálaráðuneytisins á því, með hvaða lagaheimildum ráðuneytið teldi sig geta skert stöðuhlutfall skipaðs ríkisstarfsmanns með þeim hætti, sem gert var í tilviki A. Svar menntamálaráðuneytisins er dagsett 26. nóvember 1990 og hljóðar svo:

"Vísað er til bréfs yðar dags. 29. júní 1990 er varðar mál [A].

Varðandi ósk yðar á nánari skýringum frá ráðuneytinu á því með hvaða lagaheimildum ráðuneytið telji sig geta skert stöðuhlutfall skipaðs ríkisstarfsmanns, tekur ráðuneytið fram eftirfarandi:

1. Með vísun til almenns vinnuréttar eru laun greidd fyrir vinnuframlag launþega. Þegar eigi er þörf lengur fyrir vinnu launþega eða hann af einhverjum ástæðum skilar ekki vinnu á móti launagreiðslum er réttmætt að þær skerðist eða falli niður.

2. Þegar mál [A] kom til athugunar í ráðuneytinu svo sem greint er frá í bréfi ráðuneytisins til yðar dags. 14. maí s.l. taldi ráðuneytið það betri kost fyrir [A] að tryggja henni 66,67 hundraðshluta af fullu starfi heldur en að leggja formlega niður þessa stöðu og segja henni upp starfi.

3. Ráðuneytið hafði fulla ástæðu til að ætla að hið munnlega samkomulag stæði sem gert var við [A] um að hún héldi fullum launum í eitt ár eftir að eigi var lengur þörf fyrir hana í frönskukennslu í fullu starfi og hún hafði neitað að taka að sér aðra kennslu sbr. bréf skólameistara dags. 8. mars 1989 eða hún taldi sig ekki færa um að taka hana. Þessi laun fékk [A] greidd þótt hún skilaði aðeins 66,67% af fullu starfi við skólann.

Af framangreindum ástæðum taldi ráðuneytið gjörð þessa réttmæta."

III. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns, dags. 22. mars 1991, var svohljóðandi:

"Tilefni kvörtunar A er lýst í köflum I og II hér að framan. Eins og þar kemur fram, kvartar hún yfir því, að "stöðuhlutfalli" hennar sem skipaðs ríkisstarfsmanns hafi án samkomulags við hana sjálfa verið "...breytt úr 100% í 66,67%..." svo vitnað sé til orðalags í bréfi menntamálaráðuneytisins til mín, dags. 14. maí 1990. Aðdraganda þess, að menntamálaráðuneytið greip til þess "að breyta stöðuhlutfalli" A er og áður lýst.

Menntamálaráðuneytið hefur ekki mótmælt því, sem fram kemur í kvörtun A til mín, dags. 16. mars 1990, að hún hafi árið 1969 verið skipuð af forseta Íslands til að vera kennari í fullri stöðu við X. Er eigi annað fram komið en að hún hafi tekið full laun menntaskólakennara allan sinn starfstíma, allt þar til menntamálaráðuneytið lét endanlega koma til framkvæmda þá ákvörðun sína að greiða henni skert laun.

A er samkvæmt framansögðu skipaður ríkisstarfsmaður. Um réttindi hennar og skyldur sem ríkisstarfsmanns gilda því ákvæði laga nr. 38/1954 með síðari breytingum, sbr. 1. gr. þeirra laga. Þau lög leggja margvíslegar skyldur á herðar ríkisstarfsmönnum, en veita þeim jafnframt ýmiss konar réttindi. Meðal mikilvægustu réttinda skipaðra ríkisstarfsmanna er annars vegar rétturinn til þess að gegna starfi sínu, þar til eitthvert þeirra atriða, sem nefnd eru í 4. gr. laga nr. 38/1954, kemur til, og hins vegar rétturinn til fastra launa og hlunninda, er starfi fylgja, sbr. 18. og 24. gr. þeirra laga. Því hefur ekki verið haldið fram af hálfu menntamálaráðuneytisins, að nein þau atriði, sem greinir í 4. gr. laga nr. 38/1954, eigi við í tilviki A.

Ég tel, að skýra beri ákvæði laga nr. 38/1954 á þann veg, að meðan skipaður ríkisstarfsmaður á rétt til að gegna stöðu sinni, sbr. ákvæði 4. gr. þeirra laga, eigi starfsmaðurinn rétt til þess að taka full föst laun fyrir starfa sinn og hljóta önnur þau hlunnindi, er starfi fylgja, nema hann óski eftir eða samþykki aðra tilhögun sjálfur. Er það álit mitt að fækkun verkefna í tiltekinni starfsgrein geti með engu móti heimilað yfirboðurum þeirrar starfsgreinar að skerða einhliða föst laun skipaðs ríkisstarfsmanns, sbr. til hliðsjónar ákvæði 18. gr. laga nr. 38/1954.

Í 1. tölul. bréfs menntamálaráðuneytisins til mín, sem dagsett er 26. nóvember 1990 og rakið er í II. kafla hér að framan, er vísað til almennra reglna vinnuréttar um það, að laun séu greidd fyrir vinnuframlag, og þegar eigi sé lengur þörf fyrir vinnu launþega eða hann af einhverjum ástæðum skilar ekki vinnu á móti launagreiðslum, sé réttmætt að þær skerðist. Þessi sjónarmið fá samkvæmt því, sem að framan hefur verið rakið, engan veginn samrýmst ákvæðum laga nr. 38/1954. Það er því niðurstaða mín um þennan þátt í kvörtun A, að þar sem gögn málsins bera það ekki með sér að hún hafi samþykkt skertar launagreiðslur til sín vegna samdráttar í frönskukennslu við X, hafi skólayfirvöldum og launaskrifstofu ríkisins verið óheimilt að skerða einhliða launagreiðslur henni til handa með þeim hætti, sem gert var.

Af gögnum þeim, sem fyrir mig hafa verið lögð, er ljóst, að ágreiningur er með A annars vegar og skólayfirvöldum við X og menntamálaráðuneytinu hins vegar um það, hvort A hafi neitað að taka að sér aðra kennslu en frönskukennslu til þess að fullnægja kennsluskyldu sinni. Virðist menntamálaráðuneytið telja, sbr. bréf þess til mín, dags. 26. nóvember 1990, að slík neitun af hennar hálfu geti réttlætt skertar launagreiðslur til hennar. Hins vegar er óumdeilt, að A mun um nokkra hríð hafa gegnt starfi á skrifstofu skólans í þeim tilgangi að fullnægja kennsluskyldu sinni.

A er sem ríkisstarfsmanni skylt samkvæmt 33. gr. laga nr. 38/1954 að hlíta breytingum lögum samkvæmt á starfi sínu og verkahring, enda hafi breytingin ekki áhrif til skerðingar á launakjörum hennar eða réttindum. Sama er um breytingar, er yfirmaður ákveður, en þeirri ákvörðun má skjóta til ráðherra. Liggur þá næst fyrir að leysa úr því, svo sem atvikum máls þessa er háttað samkvæmt gögnum þess, hvort fyrir A hafi verið lagt að sæta breytingum á verkahring sínum í samræmi við ákvæði 33. gr. laga nr. 38/1954.

Ég tel að réttur yfirboðara ríkisstarfsmanns til þess að vísa starfsmanni til annarra starfa en þeirra, sem hann upphaflega er ráðinn til að gegna, sbr. niðurlagsákvæði 33. gr. laga nr. 38/1954, sæti eðli málsins samkvæmt þeirri takmörkun, að starfsmanni sé vísað til starfs, sem honum er eftir öllum atvikum samboðið, meðal annars með hliðsjón af menntun. Þannig tel ég, að stjórnendum X hafi því aðeins verið heimilt að vísa A til að kenna þær aðrar greinar við skólann, sem hún hafði þekkingu til að kenna. Af gögnum máls þess verður ekki séð, að A hafi neitað slíku. Þá tel ég, að skipuðum menntaskólakennara verði ekki vísað til venjulegra skrifstofustarfa, nema starfsmaður samþykki slíkt sjálfur, og er það því álit mitt, að A hafi ekki þurft að sæta því að sinna verkefnum á skrifstofu skólans til þess að fullnægja kennsluskyldu sinni, nema hún samþykkti slíkt sjálf.

Með hliðsjón af framansögðu er það niðurstaða mín í tilefni kvörtunar A, að menntamálaráðuneyti og launaskrifstofu ríkisins hafi verið óheimilt að skerða launagreiðslur til A af því tilefni og með þeim hætti sem gert var. Tel ég hana eiga rétt til fullra fastra launa sem menntaskólakennari og annarra hlunninda, sem því starfi fylgja, meðan hún á rétt til að gegna því starfi, sbr. 4. gr. laga nr. 38/1954.

Eru það því tilmæli mín til menntamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins að launagreiðslum til A verði framvegis hagað í samræmi við það, sem að framan greinir, og að launagreiðslur fyrir liðinn tíma verði leiðréttar."